Ávarp

Ávarp dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

Forseti Íslands, hæstaréttardómarar, virðulegu gestir.

Þegar við fögnum 100 ára afmæli Hæstaréttar Íslands hefur sú meginbreyting orðið á stöðu hans að dómstigin eru aftur orðin þrjú í íslensku réttarkerfi líkt og þau voru fyrir stofnun hans.

Nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tók til starfa fyrir tveimur árum. Með stofnun hans og strangari kröfum um áfrýjun hefur Hæstarétti verið skapað svigrúm til að gegna hlutverki sem æðsti dómstóll þjóðarinnar. Í því felst að hann tekur til meðferðar mál þar sem mikilvæg og vandasöm lögfræðileg viðfangsefni eru til úrlausnar.

Með stofnun Landsréttar hefur einnig verið brugðist við veikleika í íslensku dómskerfi er sneri að endurskoðun dóma á áfrýjunarstigi vegna meginreglunnar um beina og milliliðalausa sönnunarfærslu.

Stofnun Landsréttar er mikið fagnaðarefni. Dómskerfið hefur styrkst í heild sinni og þá ekki síst staða æðsta dómstólsins, Hæstaréttar Íslands. Efling dómsvaldsins er lykilatriði fyrir réttaröryggi borgaranna.

Það voru ekki síst athugasemdir frá Mannréttindadómstól Evrópu sem leiddu til stofnunar Landsréttar. Hugmyndin um millidómstig hafði ítrekað komið til umræðu á undangengnum árum og áratugum og frumvörp verið lögð fram á Alþingi um stofnun svonefndrar „Lögréttu“ en þær hugmyndir og tillögur runnu jafnan út í sandinn.

Af öðrum dæmum um jákvæð áhrif Mannréttindadómstólsins á íslenskan rétt má nefna fullan aðskilnað framkvæmdavalds og dómsvalds í héraði fyrir 30 árum. Sá aðskilnaður hafði einnig verið lengi til umræðu þar til loksins varð af honum vegna áhrifa frá dómnum. Þá má frá seinni árum benda á áhrif á þróun laga er tryggir tjáningarfrelsi blaðamanna.

Áhrif dómsins hafa þannig verið margvísleg.

Fyrir efri deild Mannréttindadómstólsins er nú til meðferðar mál er varðar skipun dómara við Landsrétt. Mörgum þykir sem meirihluti neðri deildar dómsins hafi hafnað niðurstöðu Hæstaréttar Íslands án fullnægjandi rökstuðnings og að dómurinn hefði átt að eftirláta Hæstarétti að dæma um lögmætið á grundvelli túlkunar sinnar á íslenskum lögum. Minnihluti neðri deildar dómsins orðaði sína afstöðu þannig að meirihlutinn hafi skotið langt yfir markið. Mistök hafi verið gerð en þau réttlæti ekki að Landsréttur sé skotinn niður fyrir vikið.

Dómar eru mannanna verk.

Ástæða er til að skoða alla dóma með gagnrýnu hugarfari. Málefnaleg og efnislega gagnrýni er forsenda framfara á þessu sviði sem öðrum.

Þótt margt hafi þróast til betri vegar í störfum og starfsumhverfi Hæstaréttar á liðnum árum og áratugum verður ekki hjá því komist að nefna hve seint og illa hefur reynst að tryggja jafnræði kynjanna meðal dómara réttarins. Kona var fyrst skipuð dómari við Hæstarétt árið 1986 en það var Guðrún Erlendsdóttir. Á 100 ára afmælinu eru aðeins 2 dómarar af 7 konur. Á árum áður voru karlar vissulega mun fleiri en konur í hópi lögfræðinga. Sú staða hefur gjörbreyst. Konur eru nú mjög áberandi á meðal lögmanna, dómara og kennara í lagadeildum háskólanna. Vonandi kemur til þess fyrr en síðar að staðan verði jafnari hvað varðar dómaraskipun við æðsta dómstól þjóðarinnar.

Ágætu gestir.

Í tilefni 100 ára afmælisins hefur ríkisstjórnin ákveðið að gefa Hæstarétti Íslands peningagjöf til stuðnings ritunar sögu réttarins. Í minn hlut kemur að afhenda einnig táknræna gjöf í tilefni afmælisins. Hér er um að ræða ljósmynd eftir Daníel Magnússon sem sýnir gamla og nýja tímann í sögu Hæstaréttar. Í bakgrunni er dómhúsið við Lindargötu sem tekið var í notkun árið 1949 og fól í sér mikinn aðstöðumun frá því húsnæði sem rétturinn var í frá stofnun hans árið 1920 á annarri hæð Hegningarhússins við Skólavörðustíg. Til vinstri á myndinni sést í núverandi húsnæði Hæstaréttar sem rétturinn flutti í árið 1996 og er í alla staði hið glæsilegasta.

Myndin minnir okkur einnig á að hlutverk Hæstaréttar hefur breyst frá því sem áður var. Hann er ekki lengur áfrýjunardómstóll heldur gegnir hann nú öðru fremur hlutverki sem æðsti dómstóll þjóðarinnar. Leikur ljóssins í myndinni, samspil birtunnar og skuggans minnir okkur á að flest mál eiga sér að minnsta kosti tvær hliðar og mikilvægt að virða grunnregluna um að hlýða beri á sókn og vörn áður en dómur er upp kveðinn.

Á hægri hönd sést í Þjóðleikhúsið og það minnir okkur á að ekki spillir fyrir að hafa örlitla leikræna tilburði í málflutningi. Ef vel er að gáð sést í hornið á gamla húsnæði dómsmálaráðuneytisins í Arnarhvoli og það minnir okkur á að það eru vissulega tengsl á milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins, en þau eru öðru fremur formleg og söguleg.

Ágætu gestir.

Enginn þarf að efast um sjálfstæði Hæstaréttar Íslands sem æðsta dómstóls þjóðarinnar eða um endanlegt vald hans til að túlka íslensk lög. Hann er sem fyrr táknmynd fullveldis þjóðarinnar en það er ekki síður mikils um vert að hann verði til langrar framtíðar táknmynd réttaröryggis, frelsis og friðhelgi borgaranna.

Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.