Ávarp

Ávarp forseta Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon

Forseti Íslands.
Forseti Hæstaréttar.
Góðir hátíðargestir.

Fyrir hálfu öðru ári eða svo minntust landsmenn 100 ára afmælis fullveldis og sjálfstæðis Íslands. Sambandslögin, sem samkomulag varð um 18. júlí 1918 og Alþingi samþykkti 9. september það ár, fólu í sér viðurkenningu á fullum yfirráðum Íslendinga yfir hinum þrem greinum ríkisvaldsins, en þó þannig að skv. 10. gr. sambandslaganna flyttist hið æðsta dómsvald ekki til Íslands fyrr en Íslendingar ákvæðu það sjálfir. Fram að því skyldi einn Íslendingur skipa sæti í Hæstarétti Dana, þegar sæti losnaði næst í dóminum, og er sá stóll þar enn þótt auður sé. Sú skoðun var almenn á danska þinginu, þegar sambandslögin voru afgreidd þar, að Hæstiréttur Danmerkur yrði áfram um nokkurt skeið æðsta dómsvald fyrir Ísland.

Í hugum flestra alþingismanna og annarra forustumanna Íslendinga var þó algerlega skýrt að raunverulegt fullveldi ríkisins fæli í sér að stofnaður yrði íslenskur hæstiréttur og æðsta dómsvaldið þar með á ný flutt inn í landið. Fljótlega eftir gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918 var þegar að þeim vilja hafist handa um að semja frumvarp um Hæstarétt. Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi 1. júlí 1919.

Merkasta heimildin um málið og hug Íslendinga til þess er framsöguræða Jóns Magnússonar forsætisráðherra fyrir hæstaréttar-frumvarpinu.

Þar segir Jón m.a.:

„Jeg hefi oft furðað mig á að kröfurnar um að við tækjum [æðsta dómsvaldið] í vorar hendur skyldu ekki hafa verið háværari og það því fremur sem danska ríkisvaldið hefir gefið undir fótinn með að ekki væri vonlaust um að þetta vald væri gefið eftir, sbr. stöðulögin. Jeg geri ráð fyrir að ástæðurnar til þess að við höfum svona lengi sætt oss við núverandi ástand hafi í fyrsta lagi verið þær að hæstirjetturinn danski hefir verið mjög góður dómstóll, í öðru lagi hefir kostnaðurinn við að flytja hæstarjett inn í landið vaxið mönnum í augum, og í þriðja lagi hafa menn borið kvíðboga fyrir því, að innlendur hæstirjettur yrði ekki vel tryggur eða óhlutdrægur vegna fámennis okkar.
Nú hefðum vjer vitanlega getað beðið tvö ár enn eftir þessari breytingu, og ef til vill lengur, en það er harla óviðkunnanlegt fyrir fullvalda ríki að hafa ekki dómsvald í sínum eign málum.“

Það er skiljanlegt að hik hafi verið á mönnum 1918 að stofna til Hæstaréttar, einmitt þá þegar fjárhagur ríkisins var afar þröngur við lok styrjaldarinnar miklu. Og fleiri efasemdaraddir mátti heyra, svo sem að örðugt yrði að finna hæfa menn til dómarastarfa og að skortur yrði á lögmönnum til að flytja mál fyrir réttinum. Reynslan leiddi í ljós að áhyggjur af mannvali reyndust óþarfar.

Við endanlega afgreiðslu hæstaréttar-frumvarpsins 18. ágúst 1919 náðist góð samstaða og málið var samþykkt samhljóða með nokkrum minniháttar breytingum. Konungur staðfesti lögin 18. október sama ár.

Með lögunum um Hæstarétt Íslands var stigið stórt skref til að framfylgja þeirri grundvallar-samþykkt sem gerð var 1918 um fullveldi Íslands. Allir þrír þættir ríkisvaldsins voru nú óvéfengjanlega á hendi landsmanna.

Frumvarpið um Hæstarétt er eitt hið fyrsta sem Alþingi samþykkti í árdaga hins unga fullvalda ríkis, og rúmum mánuði síðar samþykkti Alþingi stjórnarskrá fyrir konungsríkið Ísland.

Frá því að Hæstiréttur Íslands tók til starfa hafa dómar réttarins verið gefnir út, svo sem sjálfsagt er í réttarríki. Sögufélag gaf út dóma Landsyfirréttar fyrir það tímabil sem hann starfaði, 1801-1919.

Lengi hafa verið uppi fyrirætlanir um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins sem starfaði á Alþingi frá 1563-1800. Það var þó ekki fyrr en árið 2011 sem fyrsta bindi af dómum réttarins kom út og stóð Alþingi fyrir þeirri útgáfu í samstarfi við Sögufélag og Þjóðskjalasafn Íslands.
Þegar rætt var á Alþingi hvernig þingið skyldi minnast aldarafmælis Hæstaréttar varð niðurstaðan því sú að vel færi á að Alþingi sæi til þess að lokið yrði útgáfu á dómum Yfirréttarins, enda eru þeir jafnframt hluti af sögu þingsins og minna okkur á að Alþingi fór með dómsvald, allt frá upphafi 930 og fram til 1800, þótt með ýmsum hætti væri skipað.

Útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins er mikið verkefni sem fyrirhugað er að vinna á næstu 10 árum. Samþykkti Alþingi ályktun 18. nóv. sl. um að leggja því til 10 m. kr. á ári næstu 10 árin. Útgáfan verður bæði í prentuðu og rafrænu formi.

Þegar lokið verður útgáfu dóma Yfirréttarins höfum við fyllri mynd af réttarsögu Íslands en nú er fyrir hendi. Um leið verður útgáfan mikilvæg heimild um sögu lands og þjóðar, enda eru dómar að mörgu leyti spegilmynd þjóðlífsins og þjóðarhags og veita innsýn í viðhorf landsmanna og ástand landsmála á hverjum tíma.

Um leið og ég færi nú, fyrir hönd Alþingis, Hæstarétti bestu árnaðaróskir á aldarafmæli réttarins vil ég biðja forseta Hæstaréttar að taka hér við ályktun Alþingis sem tákn um góðan hug Alþingis til Hæstaréttar Íslands.


Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.