Hæstiréttur Íslands 

Hæstiréttur Íslands var stofnaður með lögum nr. 22/1919 og tók til starfa 16. febrúar 1920. Hann fer með æðsta dómsvald hér á landi, en dómstigin eru þrjú. Rétturinn var fyrst til húsa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en frá 1949 í dómhúsinu við Lindargötu. Dómsmálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að hinu nýja dómhúsi Hæstaréttar við Arnarhól 15. júlí 1994, lagði hornsteininn að byggingunni á 75 ára afmæli dómsins 16. febrúar 1995 og afhenti hana réttinum til afnota 5. september 1996.

Arkitektar hússins eru Margrét Harðardóttir og Steve Christer, Studio Granda, Reykjavík. Teikning þeirra hlaut 1. verðlaun í samkeppni um nýbyggingu fyrir Hæstarétt, sem efnt var til á árinu 1993, en dómnefnd bárust alls 40 tillögur

Frá 1. janúar 1999 hefur Hæstiréttur haft heimasíðu á alnetinu. Þar eru birtar margvíslegar upplýsingar um Hæstarétt og verkefni hans.

Dómar Hæstaréttar eru birtir á heimasíðunni, þegar þeir hafa verið kveðnir upp. Með hæstaréttardómunum eru jafnframt birtir þeir Landsréttar- og héraðsdómar, sem til endurskoðunar hafa verið. Dómarnir eru birtir án endurgjalds og í þeim tilgangi fyrst og fremst, að þeir geti verið aðgengilegir lögmönnum og almenningi, eins og nauðsyn ber til í lýðræðisríki.

Á heimasíðunni er birt skrá yfir þau mál, sem flutt verða fyrir Hæstarétti, og tekur skráin að jafnaði til nokkurra vikna í senn. Þar er einnig skrá yfir þau mál, sem áfrýjað hefur verið en ekki hafa hlotið afgreiðslu.

Tölulegar upplýsingar um málafjölda og afgreiðslu mála er að finna á heimasíðunni auk upplýsinga um núverandi og fyrrverandi hæstaréttardómara, starfsfólk Hæstaréttar og dómhús réttarins.

Þá gefur þar að líta ágrip um sögu dómaskipunar á Íslandi o.fl.

 

 

1. FORSAGA

 Þegar Hæstiréttur var stofnaður árið 1920, var honum búið aðsetur til bráðabirgða í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Þar var hann til húsa í tæpa þrjá áratugi við mjög bág skilyrði. Dómhúsið við Lindargötu var reist á árunum 1946-1948, og var flutt þar inn í byrjun árs 1949. Enda þótt sú bygging hafi útlitslega kosti var hún frá upphafi gölluð, bæði tæknilega og skipulagslega séð, auk þess sem afar óviðeigandi er, að um húsnæðisleg tengsl sé að ræða milli Hæstaréttar og Stjórnarráðs Íslands. 

Hinn 22. apríl 1986 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að kanna hvort Safnahúsið gæti hentað Hæstarétti sem dómhús, er starfsemi Landsbókasafns og Þjóðskjalasafns flyttist úr húsinu. Tillögu þessari var tekið fegins hendi af dómurum Hæstaréttar, enda löngu tímabært að huga að nýju húsnæði.

2. STAÐARVAL

Þann 9. október 1991 skipaði dómsmálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, nefnd til þess að gera tillögur um framtíðarlausn á húsnæðismálum Hæstaréttar Íslands. Var nefndinni sérstaklega ætlað að huga að því, hvort Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík, í heild eða að hluta, gæti hentað sem dómhús fyrir Hæstarétt, þegar núverandi notkun þess lyki. Einnig skyldi þó taka aðra kosti til athugunar, m.a. byggingu nýs húss, er rúmað gæti starfsemi Hæstaréttar.

Í nefndinni áttu sæti Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Garðar Halldórsson húsameistari, Guðrún Erlendsdóttir forseti Hæstaréttar, Knútur Hallsson ráðuneytisstjóri og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri.

Í nefndarálitinu kom fram sú skoðun að afar óviðeigandi væri að um húsnæðisleg tengsl væri að ræða milli Hæstaréttar og Stjórnarráðs Íslands. Óháð dómsvald væri skilyrði heilbrigðs þjóðlífs og bæri að undirstrika sjálfstæði Hæstaréttar sem æðsta dómstigs landsins í sjálfstæðri byggingu. Bent var á að plássleysi dómhússins við Lindargötu háði starfsemi réttarins verulega. Kom m.a. eftirfarandi fram í nefndarálitinu:

Staður 1
: Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að því fylgdu ýmsir kostir flytti Hæstiréttur starfsemi sína í Safnahúsið, jafnvel þó að slíkt þyrfti að gerast í áföngum, eftir því sem húsnæði losnaði. Mælti meirihluti nefndarinnar með þeirri tillögu sem besta kostinum. Næðist hins vegar ekki samstaða um þessa lausn eða þá að framkvæmd hennar yrði ekki talin tímabær, mælti nefndin með því til vara að byggð yrði nýbygging yfir starfsemi Hæstaréttar.
Helstu kostir við Safnahúsið töldu nefndarmenn góða staðsetningu og að húsið hæfði starfsemi Hæstaréttar í virðuleika sínum. Safnahúsið væri ívið of stórt fyrir núverandi starfsemi Hæstaréttar. Yrði starfseminni komið fyrir á þremur aðalhæðum hússins, en óráðstafað rými yrði í kjallara og á þakhæð. Var áætlað að Hæstiréttur notaði um 1900 m² (nettó) og mætti koma starfseminni fyrir án teljandi breytinga á húsnæðinu.

Staður 2:

Í nefndarálitinu kom fram að ef byggð yrði nýbygging fyrir Hæstarétt mætti ætla að hún yrði um 1800 m² (brúttó), og var áætlað að slík bygging kostaði um 360 milljónir króna. Nefndar voru nokkrar byggingarlóðir undir slíkt hús, sbr. hér á eftir. Var lóð í Kringlumiðbæ sett efst á listann og mælti meiri hluti nefndarinnar með þessum kosti í annað sætið og til vara að frágengnum fyrsta kosti, en minnihluti nefndarinnar mælti með þessum kosti í fyrsta sæti. Stuttu síðar kom fram að búið var að ráðstafa þessari lóð til annarra.

Staður 3:
Í þriðja lagi fjallaði nefndin um þann möguleika að Hæstiréttur flytti í sín gömlu heimkynni, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Yrði Hegningarhúsið gert upp og við það byggð nýbygging í bakgarði. Til þess að ná þessu fram yrði að festa kaup á tveimur lóðum; væri önnur í einkaeign en hin í eigu Reykjavíkurborgar. Hegningarhúsið er samtals 550 m² , og yrði viðbyggingin því að vera um 800 m² .
Var það mat nefndarinnar að þessi framkvæmd gæti vafist fyrir mönnum, bæði hvað varðaði eignarhald lóða og viðkvæmni m.t.t. viðbyggingar við Hegningarhúsið. Taldi meirihluti nefndarinnar tillöguna að vísu athyglisverða, en mælti ekki með henni í niðurstöðunni.

Staður 4:
Í fjórða lagi fjallaði nefndin um þann möguleika að starfsemi Hæstaréttar yrði enn um sinn á sama stað auk um 500 m² stækkunar, sem fengist með viðbyggingu til austurs, frá núverandi húsi Hæstaréttar, sem yrði gert upp og samræmt húsnæðinu í nýbyggingunni. Hjá embætti Húsameistara ríkisins voru gerðir uppdrættir til þess að kanna hvernig koma mætti þessari viðbyggingu við. Áætlað var að beinn kostnaður yrði um 100 milljónir króna.
Fram kom að hugmyndin hefði mætt andstöðu hjá dómurum Hæstaréttar, sem teldu mikilvægt að húsnæðisleg tengsl yrðu rofin við Stjórnarráð Íslands. Hefði nefndin fallist á þau sjónarmið og hafnaði því þessum kosti.

Árið 1992 ákvað ríkisstjórnin að Hæstiréttur skyldi ekki flytja í Safnahúsið heldur yrði byggt yfir starfsemi hans.
Aðrar lóðir, sem fjallað var um eru m.a. þessar:

Staður 5:
Aðalstræti 4 við hlið Morgunblaðshússins. Morgunblaðshúsið þótti varpa skugga á nýbygginguna, sem ekki yrði nægilega sjálfstæð við hlið svo stórrar byggingar.

Staður 6:
Í götustæði Ingólfsstrætis. Hugmyndin kom seint fram, og höfnuðu skipulagsyfirvöld í Reykjavík þessum stað, þar sem ekki mætti loka Ingólfsstræti af umferðartæknilegum ástæðum. Bygging á þessum stað samræmdist auk þess ekki aðalskipulagi Reykjavíkur.

Staður 7:
Við sunnanverða Sölvhólsgötu, þar sem nú eru ný bílastæði stjórnarráðsins. Ráðgert er að lóðin verði í framtíðinni til afnota fyrir Stjórnarráð Íslands. Byggingartengsl við stjórnarráðið eru, eins og áður kemur fram, óæskileg, jafnfram því sem umhverfið þótti óhrjálegt.

Staður 8:
Við Skúlagötu, við hlið Sjávarútvegshússins. Stærð nýbyggingar fyrir Hæstarétt Íslands var talin of lítil fyrir lóðina. Byggingin yrði of lágreist og í miklu ósamræmi við götumyndina, auk þess sem starfsemi dómhúss yrði fremur afskekkt á þessum stað. Óheppilegt þótti að inngangur dómhússins yrði gegnt skolpdælustöð.

Staður 9:
Í landi Höfða við Borgartún, nokkru austan við Höfða. Lóðin var ekki talin uppfylla skilyrði um nálægð við miðbæinn. Þá var talið ólíklegt að lóðin fengist.

Staður 10:
Lóð á Laugarnestanga. Ekki var rætt um nákvæma staðsetningu, en allt svæðið er friðað og lóðin uppfyllti ekki skilyrði um nálægð við miðbæinn.

Staður 11:
Lóðin Aðalstræti 16, gegnt „Víkurgarði”, gamla Víkurkirkju-garðinum, við Aðalstræti. Borgaryfirvöld höfnuðu þessum möguleika, þar sem gert er ráð fyrir varðveislu lóðarinnar.

Staður 12:
 Við Lækjargötu, fyrir norðan Miðbæjarskóla, þar sem nú er lítill lystigarður með turnbyggingu. Framkvæmd á þessari líð hefði reynst mjög erfið vegna eignarhalds, og kaupa hefði þurft lóðir við Laufásveg, til þess að koma húsi Hæstaréttar fyrir á þessum stað.

Staður 13:
Við Reykjavíkurhöfn, þar sem áður var athafnasvæði Hafskipa. Lóðin er á umráðasvæði Reykjavíkurhafnar, og er þar enn mikil starfsemi. Skipulagsyfirvöld hafa lóðina í huga fyrir byggingu, sem drægi að sér meiri fólksfjölda en dómhús Hæstaréttar og glæddi höfnina lífi.
Haustið 1992 var Ingimundur Sveinsson arkitekt fenginn til að gera athugun á lóðum, sem voru álitlegar fyrir nýbyggingu Hæstaréttar Íslands. Eftirtaldar lóðir voru skoðaðar:

Staður 14:
Á horni Tjarnargötu, Vonarstrætis og Suðurgötu. Tillaga var gerð að byggingu á þessum stað, en lóðin þótti erfið vegna tengingar við hús Happdrættis Háskóla Íslands og fyrirhugað dómhús borið ofurliði af hæð þeirrar byggingar.

Staður 15:
Thorvaldsensstræti 2 í húsalengju vestan við Austurvöll, við hlið Póst- og símahúss. Nauðsynlegt hefði verið að rífa hornið, þar sem gamla Sjálfstæðishúsið var. Kosturinn þótti auk þess ekki fýsilegur vegna tengingar við aðrar byggingar.

Staður 16:  
Lóðin við Pósthússtræti 9 í húsalengju austan við Austurvöll. Um er að ræða bilið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks, þar sem Almennar Tryggingar voru áður til húsa. Fjarlægja hefði þurft húsið, auk þess sem sömu rök gilda og áður um óæskilega tengingu við aðrar byggingar.

Staður 17:
Horn Lækjargötu og Austurstrætis. Hér hefði einnig þurft að rífa þau hús sem fyrir eru og fékk hugmyndin ekki hljómgrunn sem góður valkostur.

3. LÓÐIN LINDARGATA 2 VALIN

Lóðin Lindargata 2 (staður 18) kom seint til umræðu og er hugmyndin um hana komin frá hæstaréttardómurum sjálfum. Lóðin þótti hafa ótvíræða kosti og samræmast vel þeim sjónarmiðum að nýbygging Hæstaréttar Íslands sé best staðsett í miðbæ Reykjavíkur, þó svo að staðsetningin væri á margan hátt viðkvæm.

Í sérstakri greinargerð Ingimundar Sveinssonar um lóðina segir m.a.:
„Við fyrstu sýn kann að virðast erfitt að koma fyrir byggingu undir Hæstarétt á þessum stað. Eftir að hafa skoðað málið frá ýmsum hliðum er álit mitt að bygging á þessum stað sé ekki aðeins möguleg heldur geti hún jafnframt stuðlað að endurbótum og fullnaðarfrágangi á svæðinu, sem þannig yrði betur samboðið þeim mikilvægu byggingum sem að því liggja”.
Ennfremur segir í greinargerðinni: „Ekki má ganga nærri Safnahúsinu, sem að margra dómi er glæsilegasta bygging landsins. Gæta verður þess að nýbygging styrki fremur en skaði Safnahúsið, sem þegar líður nokkuð fyrir nábýli við Þjóðleikhúsið”.

Þetta var sú lóð, sem ákveðið var að leggja til grundvallar fyrir samkeppni um nýbyggingu Hæstaréttar Íslands.

4. SAMKEPPNI MEÐAL ARKITEKTA

Fyrst þurfti að kanna nánar framtíðarþarfir réttarins fyrir húsnæði. Starfsmenn Húsameistara ríkisins framkvæmdu þessa könnun, ásamt þeim fulltrúum Hæstaréttar er sátu í byggingarnefnd. Einnig var haft samráð við annað starfsfólk réttarins. Var þessi könnun unnin mjög nákvæmlega og miðuð við að starfsfólki réttarins fjölgaði í framtíðinni og umsvif réttarins ykjust. Gerður var fjöldi uppdrátta og líkön sett upp. Að því loknu ákvað ríkisstjórnin að byggingin yrði reist á þessum stað.

Í maí 1993 var efnt til samkeppni um nýbyggingu Hæstaréttar í samráði við Arkitektafélag Íslands. Leitað skyldi að hugmynd sem fæli í sér sjálfstæða og hagkvæma byggingu sem félli vel að skilgreindri þörf æðsta dómstóls þjóðarinnar. Sérstaklega var tekið fram að byggingin ætti að vera virðuleg en látlaus og hún mætti ekki á nokkurn hátt skyggja á þær byggingar sem eru í næsta nágrenni.

Dómnefnd var síðan skipuð. Tilnefnd af dómsmálaráðherra voru: Dagný Leifsdóttir deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Hrafn Bragason hæstaréttardómari og Steindór Guðmundsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. Þeir sem tilnefndir voru af Arkitektafélagi Íslands voru: Garðar Halldórsson húsameistari ríkisins og Tryggvi Tryggvason arkitekt FAÍ. Ritari dómnefndar var Guðjón Magnússon arkitekt FAÍ og trúnaðarmaður var Ólafur Jensson forstöðumaður. Ráðgjafar nefndarinnar voru Stefán Hermannsson borgarverkfræðingur, Þorvaldur S. Þorvaldsson forstöðumaður borgarskipulags og Garðar Gíslason hæstaréttardómari.

Dómnefndinni bárust alls 40 tillögur. Hún lauk störfum 4. ágúst 1993 og veitti tillögu nr. 10 fyrstu verðlaun. Höfundar hennar reyndust vera arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer. Dómsmálaráðherra ákvað með bréfi 19. ágúst s.á. að nýbygging Hæstaréttar verði í samræmi við þessa niðurstöðu.

5. LÝSING HÚSSINS

Arkitektar hússins lýstu húsinu með tillögu sinni og segir þar m.a.:
„Nýbygging Hæstaréttar er breiðust og hæst í vesturenda, við Ingólfsstræti, svo hlutföll gaflveggjar nái jafnvægi við Arnarhvál og Safnahúsið, en einnig til að draga fyrir norðanáttina og mynda skjólgóða grasflöt á suðausturhluta lóðarinnar. Aðalinngangur almennings í Hæstarétt er á suðvesturhorni hússins, upp nokkur þrep eða skáhalla frá Ingólfsstræti. Þrepin eru andspænis göngustíg, sem liggur yfir Arnarhól miðjan, handan götunnar. Miðja hólsins er mörkuð áfram af trjálínu sunnan við húsið, sem gengur í austur að Þjóðleikhúsinu.
Vesturgafli Hæstaréttar er snúið um 2 gráður í austur og norðvesturhornið dregið í boga svo inngangur í Arnarhvál sjáist vítt að. Húsin standa næst hvort öðru á horni Ingólfsstrætis, en fjarlægjast er austar dregur Lindargötu. Þannig myndast gott rými við væntanlegan aðalinngang Arnarhváls um núverandi dyr Hæstaréttar. Austurhluti Hæstaréttar er lægri við þetta nýja inngangstorg, svo þar nýtur góðrar birtu og torgið tengist betur grasflötinni sunnan við húsið... Inngangur dómara er á miðri norðurhlið hússins, skáhallt á móti nýjum inngangi í stjórnarráðið.

Innra skipulag er mótað af ákvæðum forsagnar um aðskilnað almennings og dómara... Frá aðalinngangi liggja gönguhallar eftir húsinu endilöngu, sá fyrri upp hálfa hæð í aðaldómsal og sá síðari áfram upp í minni dómsal, þingsal og móttökuherbergi forseta Hæstaréttar við enda hallans. Skáhallarnir eru í háu opnu rými, sem tengist aðalinngangi og kaffistofu. Þaðan sjást allir hlutar hússins, sem að almenningi eða gestur réttarins snúa...
Aðstaða lögmanna og viðtalsherbergi eru í lágbyggingu austan við aðaldómsal, með beinum inngangi lögmanna í norðurausturhorni salarins. Aðstaða dómara er í bogadregnu norðvesturhorni annarrar hæðar og veitir beina inngöngu í báða dómsali og þingsal...
Aðaldómsalur nýtur dagsbirtu um norðurglugga auk þess sem sandblásinn glerflötur er við inngönguhurð í suðurvegg. Minni dómsalurinn er lýstur um sambærilegan glerflöt við inngönguhurðir í suðurvegg, en auk þess er dagsbirtu beint niður í salinn yfir málflutningssvæðið, um keilulaga op, frá þakglugga. Aðaldómsalur er breiður og þar er lofthæð mikil, en sá minni er hlutfallslega lægri og lengri...

Efsta hæð hússins er almennt vinnusvæði dómara. Skrifstofur dómara eru beggja vegna gangs, sem liggur frá stigahúsi, þrengist og opnar útsýni austur Lindargötu. Skrifstofurnar eru látlausar með bókahillum á glugga- og hurðarvegg. Skrifstofur ritara eru næst inngangsdyrum á hæðina en í norðvesturhorni eru fundarherbergi með góðri lofthæð og útsýni yfir höfnina. Bókasafn er í suðvesturhorni hæðarinnar og úr lesstofuhorni er útsýni yfir Kvosina. Næst bókasafni við suðurvegg eru skrifstofur bókavarðar og fjögurra aðstoðarmanna dómara...

 Við efnisval er tekið mið af dökkgráum lit Þjóðleikhússins, brúnleitum skeljasandslit Arnarhváls og andstæðunni í beinhvítum lit Safnahússins. Þetta eru allt hlutlausir litir, sem að mati tillöguhöfunda mynda sérstaklega góðan bakgrunn við sægrænt koparyfirborðið. Bent er á Alþingishúsið og þak dómkirkjunnar, sem dæmi um áferð og litblæ ofangreindar efna...
Nýbygging Hæstaréttarf er einföld og skrautlaus, enda annað vart við hæfi í húsi þar sem jafn alvarleg örlög eru ráðin. Skáhallarýmið bak við endilangan sveigðan suðurvegginn er þungamiðja hússins og eins konar framhald grasflatarinnar sunnan glerveggjarins. Grasflötin hækkar í norðaustur þannig að innkeyrsla í bílageymslu er falin að baki hennar undir suðausturhorni hússins”.

Byggingarnefnd skipuðu Dagný Leifsdóttir deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, formaður, Garðar Halldórsson húsameistari ríkisins, Steindór Guðmundsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, Þorleifur Pálsson sýslumaður í Kópavogi, Þórhallur Arason skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, Hrafn Bragason þáverandi forseti Hæstaréttar og Garðar Gíslason hæstaréttardómari.

Byggingarframkvæmdir hófust með því að Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna 15. júlí 1994 og lauk 31. júlí 1996.
 
Garðar Gíslason hæstaréttardómari tók saman.

 

 

Afgreiðsla Hæstaréttar er í rúmgóðu anddyri dómhússins. Skrifstofustjóri Hæstaréttar stýrir daglegum rekstri dómstólsins eftir nánari ákvörðun forseta réttarins og í umboði hans. 

Staða hans var stofnuð með lögum nr. 15/1998, núna 50/2016, um dómstóla, en áður hafði hæstaréttarritari með höndum framkvæmdastjórn réttarins.Fyrsti hæstaréttarritarinn var dr Björn Þórðarson, síðar lögmaður í Reykjavík og forsætisráðherra.

Úr anddyri er gengið upp halla að dómsölum hússins. Sumum þykir gangurinn minna á, að forðum var gengið um Almannagjá til dóma á Alþingi á Þingvöllum.

 

 
 
 

Gangurinn

Séð upp hallann frá stærri dómsalnum að minni dómsalnum, þingsal og skrifstofu forseta Hæstaréttar.

Á hægri hönd hanga málverk af fyrstu dómendum Hæstaréttar, þeim Kristjáni Jónssyni dómstjóra, Halldóri Daníelssyni, Eggerti Briem, Lárusi H. Bjarnasyni og Páli Einarssyni.

Þeir þrír fyrsttöldu höfðu verið dómendur Landsyfirréttarins, sem starfaði alla 19. öldina en var lagður niður við stofnun Hæstaréttar Íslands 1920.

Landsyfirrétturinn var síðara dómstig hér á landi, en dómum hans mátti skjóta til Hæstaréttar Danmerkur í Kaupmannahöfn.


Fjær sést málverk af dr. Einari Arnórssyni hæstaréttardómara 1932-1945. Hann var tvívegis ráðherra, í fyrra skiptið ráðherra Íslands 1915-1917, eins og Kristján Jónsson dómstjóri hafði verið á árunum 1911-1912, og í síðara skiptið dóms- og menntamálaráðherra í utanþingsstjórn dr. Björns Þórðarsonar 1942-1944.

Dr. Einar hafði einnig verið alþingismaður, ritstjóri Morgunblaðsins, skattstjóri í Reykjavík og prófessor, er hann tók sæti í Hæstarétti.
 
Í þessu herbergi er aðstaða lögmanna, en til hliðar við það eru tvær litlar skrifstofur, er lögmenn geta nýtt til að ræða við skjólstæðinga sína. Áður en munnlegur málflutningur hefst fara lögmenn í skikkjur sínar, sem hér eru geymdar í sérstökum skápum, en þær eru svartar með bláum boðungum. Þá geta lögmenn notið hér næðis, þegar hlé verður á málflutningi.

Á veggnum hangir málverk af Lárusi Jóhannessyni hæstaréttardómara 1960-1964, en hann hafði áður stundað málflutning í nærfellt fjóra áratugi og meðal annars verið formaður Lögmannafélags Íslands í 13 ár.
 
 
 
Hæstaréttardómarar kjósa sér forseta til fimm ára í senn og varaforseta til sama tíma. Forseti Hæstaréttar fer með yfirstjórn réttarins, stýrir dómþingum og skiptir verkum milli dómara og annarra starfsmanna og fer með agavald yfir þeim. Hann ber ábyrgð á rekstri Hæstaréttar og fjárreiðum og kemur fram af hálfu dómstólsins út á við. Samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar er forseti Hæstaréttar einn þriggja handhafa forsetavalds í fjarveru forseta Íslands, en hinir eru forsætisráðherra og forseti Alþingis.

Skrifstofa forseta Hæstaréttar er einkum notuð til að taka á móti gestum og halda fundi, en eins og aðrir hæstaréttardómarar hefur forsetinn vinnuherbergi á þriðju hæð dómhússins.

Í skrifstofu forseta eru ýmsir góðir gripir, sem réttinum hafa verið gefnir.

 

Þennan lykil að dómhúsinu afhenti dómsmálaráðherra forseta Hæstaréttar á vígsludegi hússins 5. september 1996.
 
 

Hér í þingsalnum koma allir dómarar Hæstaréttar saman til fundar, þegar þeir ræða og taka ákvarðanir um annað en niðurstöður í dómsmálum. Fundarborð og stólar eru frá stofnun Hæstaréttar 1920.

Einnig eru í þingsalnum þrír stólar úr Landsyfirréttinum og stóll, sem lögfræðingar gáfu Ólafi Lárussyni prófessor á sextugsafmæli hans 1945, en Ólafur sat sem varadómari í Hæstarétti samtals í rúm fimm ár. Stóllinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands.


Í setustofunni koma hæstaréttardómarar saman á hverjum morgni, áður en munnlegur málflutningur hefst, og fara þá í dómarakápur, dökkbláar að lit með hvítum boðungum.

Þegar Hæstiréttur tók til starfa á árinu 1920 var tekin upp sú venja, að dómarar og lögmenn klæddust sérstökum skikkjum við málflutninginn, og mun það hafa verið gert að áeggjan fyrstu hæstaréttarlögmannanna, þeirra Eggerts Claessen og Sveins Björnssonar, síðar forseta Íslands.

Hér hanga málverk af fimm látnum hæstaréttardómurum, þeim Gizuri Bergsteinssyni, dr. Þórði Eyjólfssyni, Jóni Ásbjörnssyni, Jónatan Hallvarðssyni og Einari Arnalds. Þeir fjórir fyrsttöldu sátu saman í Hæstarétti á árunum 1945-1960 ásamt Árna Tryggvasyni og flestir þeirra gegndu embætti töluvert lengur.

Gizur Bergsteinsson hefur lengst allra verið hæstaréttardómari, í 36 ár og fimm mánuði, en hann var jafnframt yngsti maður til að hljóta skipun til setu í Hæstarétti, rúmlega 33 ára gamall. Næstlengst hefur dr. Þórður Eyjólfsson gegnt dómaraembætti við Hæstarétt, í 30 ár og þrjá mánuði.
Horft inn ganginn á efstu hæð dómhússins. Hér hafa allir hæstaréttardómararnir herbergi sín.

Séð inn í vinnustofu hæstaréttardómara,
en allir dómararnir hafa svipaða aðstöðu.

Jafnskjótt og munnlegum málflutningi er lokið ganga dómarar til lokaðs fundar til þess að ráða ráðum sínum og greiða atkvæði um niðurstöðu málsins. Einn þeirra fer þar með framsögu, sem skiptist milli dómara eftir almennri reglu, og skal hann að jafnaði semja dómsatkvæði.

Á fundinum gerir frummælandi grein fyrir málinu í meginatriðum og niðurstöðu sinni um einstaka þætti þess, lagarök og lyktir máls. Síðan gerir hver dómaranna á fætur öðrum grein fyrir skoðunum sínum og forseti síðast.

Ef sjónarmið frummælanda njóta ekki fylgis meirihluta dómaranna, felur forseti öðrum dómara að semja dómsatkvæði, en minnihluti dómara ákveður sjálfur, hver skuli semja sératkvæði.

Dómsatkvæðin eru síðar til skoðunar og sameiginlegs yfirlestrar á fundum dómaranna, þar sem reynt er að samræma sjónarmið þeirra og tillögur, en til þess þarf stundum nokkra fundi.

Að lokum er dómur tilbúinn og undirrita dómararnir hann í einu eintaki, sem varðveitt er í atkvæðabókum Hæstaréttar.


Úr báðum herbergjum er útsýni yfir miðborg Reykjavíkur og sundin.