Ávarp

Erindi, Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseta Hæstaréttar

Í dag er þess minnst að Hæstiréttur Íslands hafi starfað í 100 ár, en löng hefð er fyrir því að líta svo á að 16. febrúar sé afmælisdagur réttarins. Um þá hefð er þó hægt að deila. Fyrstu lögin um Hæstarétt nr. 22 frá 1919 komu til framkvæmdar 1. janúar 1920, sem þannig mætti telja stofndag réttarins og minnast afmælis hans á nýársdegi. Annað hefur hins vegar orðið ofan á. Í desember 1919 kvaðst eitt Reykjavíkurblaðanna hafa heimildir um að til stæði að fyrsta þinghald Hæstaréttar yrði háð 2. febrúar 1920 í væntanlegu aðsetri hans í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem Landsyfirréttur hafði starfað frá 1873. Þessar heimildir voru réttar, en þegar nær dró seinkaði framkvæmdum við breytingar á húsnæðinu og var þinghaldinu frestað til mánudagsins 16. febrúar. Eftir hádegi þann dag var dómþing Hæstaréttar Íslands sett í fyrsta sinn og af því hefur afmælisdagurinn markast. Tafir á verki iðnaðarmanna í ársbyrjun 1920 hafa sem sagt ráðið því að við erum hér í dag en vorum það ekki fyrir tveimur vikum. Hvað sem þessu líður eru nú tímamót og vel við hæfi að nota þetta tækifæri til að rifja upp aðdragandann að því að Hæstiréttur varð til og virða fyrir sér nokkur atriði í sögu hans. Í þeim efnum nýt ég góðs af því að hafa fengið að fylgjast með vinnu Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við ritun aldarsögu Hæstaréttar og get með leyfi höfundarins stuðst hér í fjölmörgum atriðum við verk hans.

Talið hefur verið að allt frá því að allsherjarríki var stofnað á Íslandi árið 930 hafi verið hér til dómstólar á fleiri en einu dómstigi. Á fyrstu öldunum hafði Alþingi á hendi æðsta dómvaldið en með Jónsbók færðist það úr landi 1281 með því að skjóta mátti dómum til konungs, framan af til Noregs og síðar meir Danmerkur. Hæstiréttur Danmerkur var stofnaður 1661 en tók þó ekki við æðsta dómsvaldi á Íslandi fyrr en 1732 þegar heimilað var að áfrýja til hans dómum æðsta innlenda dómstólsins, sem fyrst í stað var yfirréttur á Alþingi en frá árinu 1800 Landsyfirréttur. Landsyfirrétturinn, sem skipaður var þremur dómurum, var síðan í 120 ár millistig í þriggja dómstiga kerfi.

Ekki er að sjá að Íslendingar hafi látið það angra sig mikið að æðsta dómsvald í málum þeirra væri í höndum útlendinga, því frá 1281 liðu 570 ár þar til fyrst var gerð krafa á þjóðfundinum 1851 um að það yrði flutt aftur til landsins. Næstu áratugina sendi Alþingi bænaskrár til konungs um að dómurum við Landsyfirrétt yrði fjölgað í fimm og hann gerður að æðsta dómstólnum í íslenskum málum, sex sinnum voru flutt á þinginu lagafrumvörp sem beindust í svipaða átt og tvisvar voru þau samþykkt en synjað um staðfestingu konungs. Að endingu fór svo að dansk-íslensku sambandslögin tóku gildi 1. desember 1918 og urðu grunnurinn að fullveldi Íslands. Í 10. gr. þeirra var mælt fyrir um að Hæstiréttur Danmerkur færi með æðsta dómsvald í íslenskum málum þar til Íslendingar kynnu að stofna sinn eigin æðsta dómstól.

Með þessu höfðu Íslendingar þannig í sínum höndum hvort og þá hvenær æðsta dómsvaldið yrði flutt til landsins. Þetta mátti vera langþráður áfangi miðað við orð Lárusar H. Bjarnasonar, síðar hæstaréttardómara, sem sagði í umræðum á Alþingi 1909 að „af öllum greinum hins opinbera valds, er dómsvaldið í rauninni það vald, sem mest er undir komið ... enda hefir það alt síðan Íslendingar fyrst hófu sjálfstæðisbaráttuna verið einróma krafa þeirra, að fá æðsta dómsvaldið inn í landið.“ Maður hefði því haldið að nánast sjálfgefið hafi verið að nýta þetta færi en ef að er gáð var það þó ekki alveg einfalt. Á árinu 1912 birtist grein eftir Einar Arnórsson um hvort flytja ætti æðsta dómsvaldið til landsins. Hann taldi það mæla með þeim flutningi að dómarar við Hæstarétt Danmerkur kynnu hvorki íslensku né þekktu hér þjóðina, staðhætti, menningu eða hugsunarhátt, það væri undirlægjuháttur að hafa með Dönum hæstarétt sem við fengjum engu ráðið um, dýrt væri að skjóta þangað málum og úrlausn þeirra tefðist auk þess sem fáum íslenskum málum hafi verið áfrýjað og færi þeim fækkandi. Einar taldi það á hinn bóginn mæla gegn heimflutningnum að í Hæstarétti Danmerkur væru þrettán mjög hæfir dómarar sem hér hefðu engin hagsmunatengsl. Löggjafinn og framkvæmdarvaldið hér á landi legðu litla rækt við Landsyfirrétt, dómarar þar væru illa launaðir, sjálfsagt hafi þótt að þeir sætu á þingi og fengjust við ýmis önnur aukastörf, jafnvel að „gutla við bankastjórn“ eins og Einar komst að orði. Auk þess hafi ráðherra iðulega sett starfsmenn sína úr stjórnarráðinu til að gegna þar dómarastörfum tímabundið. Hvergi annars staðar myndi þetta viðgangast, þetta hafi dregið úr trausti á dómstólnum og valdið óánægju almennings. Atriði eins og þessi voru ekki gleymd þegar Bjarni Benediktsson ritaði grein í tilefni 20 ára fullveldis 1938 og sagði nokkurn ugg hafa verið í mönnum yfir heimflutningi æðsta dómsvaldsins. Hæstiréttur Danmerkur hafi notið hér trausts og mörgum þótt tvísýnt að búið yrði af öryggi um æðsta dómstólinn. Efast hafi verið um að nógu margir hæfir lögfræðingar fengjust þar til starfa dómara og málflytjenda, vegna smæðar þjóðfélagsins hafi verið óttast um hlutleysi dómenda og áhyggjur verið uppi um kostnað af þessu.

Vafalaust hafa atriði af þessum toga dregið nokkuð úr ákafa til að nýta heimildina í sambandslögunum. Reyndar virðist ekki nema eitt af mörgum blöðum sem komu út á þeim tíma hafa sýnt þessu áhuga, en snemma árs 1919 hvatti blaðið Frón til að hér yrði komið upp æðsta dómstól, því umheimurinn myndi aldrei taka Íslendinga alvarlega ef þeir geymdu áfram æðsta dómsvaldið í Danmörku. Svo fór að vorið 1919 setti dómsmálaráðherrann Jón Magnússon af stað vinnu við gerð frumvarps til laga um Hæstarétt og tók það verk skamman tíma, enda mælti hann fyrir frumvarpinu á Alþingi 7. júlí á því ári. Í framsögu sagðist hann undrast að kröfur um heimflutning æðsta dómsvaldsins hafi ekki verið háværari og vissulega hefði hann getað beðið í einhver ár, en á móti kæmi að það væri „harla óviðkunnanlegt fyrir fullvalda ríki að hafa ekki dómsvald í sínum eigin málum.“ Lítill ágreiningur varð um frumvarpið sem var samþykkt 18. ágúst 1919. Við það tækifæri sagði fjármálaráðherrann Sigurður Eggerz að sá dagur yrði merkilegur í sögu þjóðarinnar, því þá hafi verið ákveðið að flytja æðsta dómsvaldið heim. Ekki reyndust allir þeirrar skoðunar. Þremur dögum síðar birtist grein í Dagsbrún, málgagni jafnaðarmanna, þar sem átalið var að ekki einn einasti þingmaður hafi haft kjark í sér til að segja sannleikann um algert þarfleysi þessara laga, heldur hafi þeir látið þá, sem væru uppþembdir af þjóðernisrembingi, reka sig áfram eins og nautahjörð með þeim rökum einum að engin önnur fullvalda þjóð hefði hæstarétt sinn erlendis. Málgögn Framsóknarflokksins, Tíminn og Dagur, gagnrýndu þetta einnig, en aðallega vegna flýtis við setningu laganna, kostnaðar sem myndi leiða af þeim og erfiðleika við að tryggja hlutleysi dómenda.

Í lögunum um Hæstarétt var mælt fyrir um að stofna skyldi hæstarétt á Íslandi, afnumið væri dómsvald Hæstaréttar Danmerkur í íslenskum málum og Landsyfirréttur legðist niður þegar nýi dómstóllinn tæki til starfa. Með lögunum urðu þannig dómstigin tvö í stað þriggja áður. Við Hæstarétt skyldu starfa fimm dómarar og yrði dómaraefni, að fyrstu dómurunum frátöldum, að sýna að mati réttarins að það væri hæft til að taka þar sæti með því að greiða fyrst dómsatkvæði í fjórum málum. Þessi tilhögun átti sér rótgróna danska fyrirmynd og virðist brátt hafa farið að kallast dómarapróf. Í lögunum voru einnig ákvæði um málflutningsmenn fyrir Hæstarétti og ekki síst um meðferð mála, en helsta nýjungin í henni var sú að mál yrðu munnlega flutt. Dómararnir þrír við Landsyfirrétt höfðu lagst mjög gegn þessu í umsögn til Alþingis um frumvarp til laganna, en þeir urðu síðan meðal fimm fyrstu dómara Hæstaréttar sem þurftu að hrinda þessum nýmælum í framkvæmd.

Af lýsingum að dæma í Morgunblaðinu, Vísi og Ísafold hófst starfsemi Hæstaréttar fyrir réttri öld með virðulegri en látlausri athöfn, en að henni var nánast ekkert vikið í Alþýðublaðinu og Tímanum sem segir ef til vill sína sögu um afstöðu einstakra stjórnmálaflokka til nýja dómstólsins. Athöfnin fór fram í dómsal Hæstaréttar í Hegningarhúsinu sem tók ekki nema tuttugu áheyrendur og fólst einvörðungu í ávörpum dómstjóra réttarins, Kristjáns Jónssonar, og formanns Málflutningsmannafélags Íslands, Sveins Björnssonar. Að ávörpunum loknum hurfu gestir á braut, dómþing var sett, tekin voru fyrir nokkur mál sem Hæstiréttur hafði tekið að arfi frá Landsyfirrétti og kveðnir upp dómar í fjórum þeirra. Fyrstu húsakynni réttarins voru fábrotin, en auk dómsalarins réði hann yfir herbergi sem var í senn skrifstofa allra dómaranna, fundaraðstaða og bókasafn, öðru herbergi fyrir hæstaréttarritara og því þriðja fyrir málflytjendur. Í Hegningarhúsinu var einnig aðstaða bæjaryfirvalda í Reykjavík og dómsalur fyrir héraðsdóm, fyrir svo utan fangelsi sem setti sérkennilegan blæ á þetta sambýli en kom sér þó vel að því leyti að fangavörður einn gat um leið starfað sem fyrsti dómvörður Hæstaréttar. Starfsemi réttarins fór hægt af stað, á árinu 1920 var aðeins dæmt í 34 málum og 1921 fækkaði þeim í 30. Mál var í fyrsta sinn munnlega flutt 26. maí 1920 og voru málflytjendur Eggert Claessen og Sveinn Björnsson. Þessi nýbreytni virðist strax hafa vakið áhuga almennings og í kjölfarið fluttu mörg blöð árum saman reglulega fréttir af dómsmálum. Jafnvel virðist dómurum við Hæstarétt hafa þótt þetta skaplegt ef marka má ummæli í einkabréfi dómstjórans til bróður síns á árinu 1921, þar sem hann kvað dómarana fyllilega ánægða með Eggert og Svein og að auki væru fjórir eða fimm málflytjendur sem væru „svona og svona“ en gætu orðið „all-sæmilegir“. Þar kvað við aðeins annan tón hjá dómstjóranum en í samtali í ársbyrjun 1920 sem Sveinn Björnsson lýsti í endurminningum sínum og sagði dómstjórann hafa þar hvatt sig til að flytja ekki langar ræður, dómar yrðu eingöngu byggðir á skriflegum gögnum, ógerlegt yrði að muna það sem sagt yrði við málflutning og helst freistandi að hlusta ekkert á hann.

Eftir kyrrláta byrjun á starfsemi Hæstaréttar fór brátt í hönd tímabil ádeilna og ófriðar sem stóð með litlum hléum næstu fimmtán árin. Snemma árs 1921 kom út rit með heitinu „Um hæstarétt“ þar sem fyrrum sýslumaður deildi á hvernig staðið hafi verið að heimflutningi æðsta dómsvaldsins sem hann taldi hafa einkennst af flýti, flaustri og handahófi þannig að úr hafi orðið meingölluð lög. Nær hefði verið að byrja á því að skilja að dómsvald og framkvæmdarvald og hafi verið misráðið að fækka dómstigum og taka upp munnlegan málflutning. Í lok sama árs var þeirri skoðun lýst í Tímanum að réttast væri að leggja niður Hæstarétt í þáverandi mynd, því þar væri svo lítið að gera að dómurunum dauðleiddist. Í staðinn ætti til sparnaðar að skylda lagakennara við háskólann til að sitja í hjáverkum í æðsta dómstólnum og taka þar upp skriflegan málflutning. Stuttu síðar fluttu nokkrir þingmenn lagafrumvarp sem beindist einmitt í þessa átt. Í umræðum á Alþingi var því haldið fram að sparnaður af þessu frumvarpi yrði til skaða og sjálfstæði Hæstaréttar að engu gert, en jafnframt á hinn bóginn að heimflutningur æðsta dómsvaldsins hafi verið óþarfur og hæglega mátt bíða, enda væru hæstaréttarlögin hið „mesta flaustursverk“. Frumvarpið var fellt en í framhaldinu var því beint til ríkisstjórnar með þingsályktun að lögin yrðu endurskoðuð þannig að dómurum við réttinn yrði fækkað í þrjá og skriflegur málflutningur tekinn þar upp.

Á þessum tíma voru komnar upp miklar hræringar í samfélaginu í tengslum við stéttabaráttu og flokkadrætti í stjórnmálum og skutu þá upp kolli ýmsir harðir andstæðingar Hæstaréttar, ekki síst Jónas Jónsson frá Hriflu úr Framsóknarflokki og nokkrir frammámenn í Alþýðuflokknum. Inn í þessar hræringar dróst Hæstiréttur út af dómsmálum sem tengdust ýmist áhrifamönnum í þessum stjórnmálaflokkum eða andstæðingum þeirra. Vegna dóma í þeim málum sætti rétturinn aðkasti, dómararnir voru sakaðir um að láta pólitískar skoðanir ráða för, hjörtu þeirra hafi slegið með þeim sem þar hafi haft betur, ef hjörtu hugsjónarlausra manna gætu þá slegið, og hafi dómarnir verið andstæðir „almenningsdómi“ og „réttarmeðvitund þjóðarinnar“ sem í raun væru æðsti dómstóllinn. Dómsvald væri misnotað til að klekkja á mönnum, siðferðilega sljóir dómarar hefðu allt það vald í hendi sér og fremdu í skjóli þess dómsmorð. Væri eins og táknmynd Hæstaréttar að hann deildi húsi með fangelsi. Hann kvæði upp ranga dóma og ósamræmanlega, þeir væru illa gerðir og lögfræðilega vafasamir, fordóma gætti gagnvart sumum þjóðfélagshópum og um þetta allt stæði vörð „fámennur lögfræðingahópur“ í baráttunni um Hæstarétt, „baráttu þjóðarinnar fyrir réttlæti.“ Gagnstætt þessu átti Hæstiréttur sína formælendur sem sögðu árásir eins og þessar stefna að því að limlesta æðsta dómstól þjóðarinnar og væru þær fólskuverk sem greiddu götur stjórnleysis og byltingar með því að eyðileggja virðingu fyrir réttarfarinu. Í þessu fælist alvarleg tilraun til að hnekkja ímynd Hæstaréttar, tal um dómsmorð æðsta dómstólsins væri óverjandi, djúpt væri sokkið í rógi og mannlasti og þótt dómstólar hefðu gott af gagnrýni yrði hún að snúa að málefnum en ekki mönnum. Hæstiréttur hafi undir ítrekuðum svívirðingum staðið sjálfstæður og óháður og var spurt hvort þjóðin ætlaði að þola að lævíslega yrði grafið undan dómsvaldinu svo að það gæti ekki notið sjálfstæðis gagnvart framkvæmdarvaldinu og komið yrði upp pólitískum dómstól „undir handleiðslu „rjettvísinnar“ frá Hriflu.“ Hæstiréttur væri, eins og Morgunblaðið komst að orði, „sá hyrningarsteinn, sem þeir einir ráðast á að ósekju sem vilja kollvarpa þjóðskipulaginu.“

Þótt ekki hafi orðið af áðurnefndum breytingum á hæstaréttarlögunum 1922 var þess skammt að bíða að reynt yrði aftur, því Jónas Jónsson flutti frumvarp á Alþingi 1923 um að fækka dómurum við Hæstarétt í þrjá og afnema munnlegan málflutning. Frumvarpið náði ekki fram að ganga, en ári síðar flutti einn harðasti andstæðingur þess, Jón Magnússon, sitt eigið frumvarp um fækkun dómaranna sem kæmi þó ekki til framkvæmdar fyrr en tveir þeirra hefðu látið af störfum. Það frumvarp var samþykkt og fækkaði dómurunum í þrjá 1926. Á árinu 1930 flutti síðan Jónas, sem þá var orðinn dómsmálaráðherra, frumvarp til laga um Fimmtardóm. Samkvæmt því yrði Hæstiréttur lagður niður og kæmi í hans stað Fimmtardómur, sem skipaður yrði þremur dómurum. Einnig var ráðgert að dómaraprófið svonefnda yrði afnumið, en að öðru leyti fól frumvarpið ekki í sér teljandi breytingar frá gildandi lögum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins brugðust af hörku við frumvarpinu og kváðu Hæstarétt njóta óskoraðs trausts þjóðarinnar, en nú legði ráðherra fram frumvarp sem bryti gegn þeim grundvelli þjóðskipulagsins að dómsvaldið væri óháð framkvæmdarvaldinu. Frumvarpið væri andstætt stjórnarskránni, með því ætti að losna við sitjandi dómara og skipa í þeirra stað pólitíska gæðinga ráðherrans sem myndi einn ráða vali á dómurum. Þessu svaraði Jónas með því að ótækt væri að Hæstiréttur gæti með dómaraprófinu fellt tillögu ráðherra um veitingu dómaraembættis þar, enda gæti, eins og Jónas komst að orði, „sjálfgetinn dómstóll ... orðið klíkudómur“. Frumvarpið varð ekki útrætt, það var flutt á ný ári síðar, það dagaði aftur uppi og var síðan flutt í þriðja sinn 1932. Sem fyrr stóðu þá deilur aðallega um hvort andstætt væri stjórnarskránni að stofna nýjan æðsta dómstól án þess að dómarar við þann eldri tækju þar sjálfkrafa sæti og um dómaraprófið. Í umræðum á Alþingi sagði einn af fylgismönnum frumvarpsins að með dómaraprófinu fengi Hæstiréttur pólitískt vopn sem væri miklu hættulegra í höndum dómara en ráðherra sem bæri ábyrgð gerða sinna gagnvart þingi og þjóð. Andstæðingar frumvarpsins sögðu á móti að með því væru brotnar grundvallarreglur sem væru viðurkenndar í öllum lýðfrjálsum löndum sem tryggasta stoð þess þjóðskipulags. Með því að flytja ákvörðunarvald um skipun dómara frá dómstólnum til ráðherra yrði raskað skiptingu valdsins samkvæmt stjórnarskránni. Varasamt væri að fela ráðherra einum vald til að velja dómara við æðsta dómstólinn vegna „unggæðingsháttar þjóðfélagsins“ sem hafi ekki myndað „hollar starfsvenjur“ og væri því ekki unnt að treysta að farið yrði eftir „viðurkenndum venjum“ þótt það mætti gera í eldri þjóðfélögum þar sem „engin stjórn myndi leyfa sér að víkja frá þeim.“ Þegar hyllti undir að frumvarpið yrði að lögum lagði samflokksmaður ráðherrans óvænt til þær breytingar að skylt yrði að leita álits Fimmtardóms við veitingu dómaraembættis þar og að bera síðan upp tillögu um embættisveitinguna til samþykkis á ríkisstjórnarfundi. Sagði flutningsmaðurinn þetta vera nauðsynlegan mótleik við afnámi dómaraprófsins, því Hæstiréttur væri „vígi réttaröryggis í landinu“ og skilyrði þess að þjóðfélagið héldist, rétturinn væri þannig heilagur vegna mikilvægis hans fyrir samfélagið. Breytingartillögurnar voru naumlega samþykktar, ráðherra brást við með því að leggja árar í bát og frumvarpið dagaði uppi enn á ný. Í framhaldinu lét Sigurður Eggerz þau orð falla að þjóðin yrði að vara sig á ráðherrum sem vildu nýta stöðu sína til að veikja dómsvaldið, því þegar svo langt væri komið væri þjóðin í hættu.

Á árinu 1935 flutti nýr dómsmálaráðherra, Hermann Jónasson, frumvarp á Alþingi um ýmsar breytingar á hæstaréttarlögunum, þar á meðal um afnám dómaraprófsins, sem aldrei hafði þó reynt á, en þess í stað skyldi leitað umsagnar Hæstaréttar áður en dómaraembætti þar yrði veitt. Harðar deilur urðu um þetta á þingi og var því haldið fram að með þessu yrði brotið gegn grunnreglu stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvalds og grafið undan lýðræði. Einnig var deilt á þetta utan þingsins og taldi Morgunblaðið frumvarpið sýna að ofbeldisflokkar, sem blaðið nefndi svo og stóðu þá saman að ríkisstjórn, stefndu að „fullkomnu einræði“ með því að gera Hæstarétt pólitískan til að tryggja niðurstöðu mála sem þeir hefðu hagsmuni af. Þetta væri „hermdarverk“ og sagði blaðið að bak við það stæði „stóriðjuhöldur rógs og lyga“, Jónas Jónsson. Þessi andstaða fékk því ekki breytt að frumvarpið varð að lögum og stóðu reglur þess um skipun dómara óbreyttar næstu þrjá aldarfjórðunga.

Í sögu Hæstaréttar hafa fyrstu fimmtán árin án efa sérstöðu þótt því fari fjarri að þar hafi ríkt einhver samfelld kyrrð allar götur síðan. Nú kynni áheyrendum að þykja efni til að spyrja hvers vegna verið sé að lýsa öllum þessum löngu liðnu atburðum á hátíð vegna aldarafmælis. Í mínum huga er nærtækast að svara með því að spyrja á móti hvort nokkuð í þessari lýsingu minni á samtíma okkar. Vissulega hefur sitthvað sem áður olli ágreiningi, ádeilum eða vanda horfið með öllu af sjónarsviðinu. Þannig er langt síðan heyrst hefur af bakþönkum um hvort rétt hafi verið að flytja æðsta dómsvaldið aftur til landsins, nú orðið dytti líklega engum í hug að afnema munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti og víst er að ekkert tilefni er lengur til að deila á að dómarar gutli við bankastjórn í hjáverkum. Varanleg lausn hefur líka fengist á aðbúnaði réttarins sem ræður yfir fyrirmyndar húsakynnum, réttnefndu listaverki, og er því liðin tíð sambýlis við fangelsi í húsi með rottugang, í flóðahættu vegna skorts á niðurföllum og með hesthúsahaug handan götunnar, eins og lýst var í blöðum á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Á hinn bóginn hafa ýmis önnur atriði úr fortíðinni orðið öllu lífseigari. Þannig er til dæmis ekki langt síðan því var hreyft hvort leggja ætti Hæstarétt niður í tengslum við stofnun millidómstigs og setja á fót nýjan æðsta dómstól með nýjum dómurum. Ætti að skilja þetta svo að slíkt myndi ekki lengur stangast á við stjórnarskrána eins og haldið var fram af hörku um draumsýnina um Fimmtardóm? Deilur undanfarinna ára um hvernig standa eigi að vali á dómurum eru nánast eins og endurflutningur á áratuga gömlu leikriti, en að vísu virðast einhverjir stjórnmálaflokkar hafa skipt þar um hlutverk. Myndi það þá ekki lengur brjóta gegn grunnreglum stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins að gefa framkvæmdarvaldinu frjálsar hendur um val á dómurum? Líkt og á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar hefur löngum verið deilt á Hæstarétt og dómendur þar, en ef að er gáð eru enn sem fyrr höfð uppi keimlík atriði og stundum nákvæmlega sömu orðin. Getur staðist að meira en 50 dómarar sem hafa verið skipaðir til starfa við Hæstarétt á einni öld hafi verið haldnir sömu annmörkum eða benda þessi endurteknu stef til að ádeilur séu hafðar uppi sjálfra sín vegna? Ekki verður horft framhjá því að ýmsir kunna af mismunandi ástæðum, og þá ekki endilega málefnalegum, að líta Hæstarétt eða dómendur hans neikvæðum augum. Að nokkru kann að mega rekja þetta til þeirrar staðreyndar að þegar leyst hefur verið úr tugþúsundum dómsmála á einni öld hafa nánast jafn margir einstaklingar, forráðamenn félaga eða fyrirsvarsmenn opinberra hagsmuna beðið þar lægri hlut og allt hefur þetta fólk að auki átt sína vandamenn og aðra velunnara. Þótt niðurstaða dómsmáls ráðist af málstaðnum og að sjálfsögðu honum einum er ekki viðbúið að allir beri í hljóði harm eða gremju út af úrslitum máls þótt maður verði vissulega að ætlast til þess af handhöfum annarra þátta ríkisvaldsins. Í því ljósi ætti ekki að vera undrunarefni að það gusti stundum eitthvað um æðsta dómstól þjóðarinnar en þegar það gerist má vel minnast þess hvernig ádeilum var svarað fyrir tæpri öld og velta fyrir sér hvort þau svör standi enn fyrir sínu.

Flestir hljóta að geta sammælst um að æðsti dómstóllinn verði að fá starfsfrið. Til að tryggja þann frið þarf málefnaleg gagnrýni engan veginn að hljóðna, því hennar þarfnast Hæstiréttur eins og aðrar grunnstoðir ríkisvaldsins. Mikið yrði hins vegar lagt af mörkum til að stuðla að starfsfriði ef handhafar annarra þátta ríkisvaldsins myndu temja sér í ýmsum atriðum aðra hætti í umgengni við dómsvaldið en sést hafa stundum og jafnvel ítrekað síðustu hundrað árin. Farsælt yrði að vaxa loksins upp úr unggæðingshætti þjóðfélags sem hefur ekki í þessum efnum myndað sér hollar starfsvenjur sem engin stjórn myndi leyfa sér að víkja frá, svo að notuð séu í þessu samhengi áðurnefnd orð sem Jón Þorláksson lét falla í umræðum á Alþingi 2. maí 1932. Í mínum huga yrði það verðug gjöf til Hæstaréttar í tilefni aldarafmælis að setja það markmið að þegar önnur hundrað ár verða liðin verði atriði eins og þessi löngu að baki.


Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.