Ávarp

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Kæru gestir!
Til er mynd af málflutningi í Hæstarétti frá fyrsta starfsári réttarins sem er
merkileg samtímaheimild.

Fimm dómarar Hæstaréttar sitja skikkjuklæddir, fjórir með mikilfengleg
yfirvaraskegg en forseti réttarins, Kristján Jónsson, fyrrverandi ráðherra Íslands,
er hvítur fyrir hærum með voldugt alskegg. Margir dómaranna eru með lonníettur
– vafalaust fórnarlömb aldurstengdrar fjarsýni – eins og sú sem hér talar varð líka
nýverið.

Við ræðupúltið standa þeir Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, og Eggert
Claessen sem fyrstir voru titlaðir því óþjála heiti hæstaréttarmálaflutningsmaður
– sem er eitt lengsta orð íslenskrar tungu.

Stofnun Hæstaréttar var stór áfangi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga þar sem í fyrsta
sinn frá 13. öld varð endanlegt dómsvald í landinu aftur innlent. Það var
mikilvægur hluti af fullveldinu að tryggja landsmönnum öllum réttláta
málsmeðferð hér á Íslandi.

Dómasafn Hæstaréttar er mikilvægur aldarspegill. Fyrir utan það hlutverk að vera
safn réttarheimilda ber það einnig vitni um sögu þjóðar, ágreining, erfiðleika og
um viðhorf, gildismat og réttarvitund hennar.

Og um hvað var fjallaði fyrsti dómurinn sem var kveðinn upp af Hæstarétti fyrir
einni öld? Hann fjallaði um tilkall til einnar rekaspýtu að andvirði 65 króna sem
ber nokkuð vitni um það samfélag sem Ísland var á árinu 1920.

Ríkisstjórnin var skipuð þremur ráðherrum sem allir sátu í Stjórnarráðshúsinu,
Alþingi sat í tæpan mánuð á ári og Hæstiréttur var til húsa á efri hæð
Hegningarhússins við Skólavörðustíg.

Allar hafa þessar stofnanir ríkisvaldsins þróast og breyst mikið á síðastliðnum
100 árum í takt við umbyltingu á samfélaginu þar sem viðfangsefni hins opinbera
hafa orðið umfangsmeiri og flóknari.

Góðir gestir

Hlutverk dómstóla í lýðræðisríki er að standa vörð um lög og rétt, vera endir allrar
þrætu, og veita öðrum handhöfum ríkisvalds aðhald. Hæstiréttur tók sér snemma
það vald að meta samræmi löggjafar við stjórnarskrá og þeirri hugmynd hefur
verið fleygt að fela eigi réttinum formlegt hlutverk á þessu sviði í framtíðinni.
Þótt dómstólar séu þannig öðrum þræði í því hlutverki að hafa hemil á
löggjafanum og gæta þess að stjórnsýslan fari að lögum og virði réttindi
borgaranna þá starfa þeir ekki einangrað. Greina má í gegnum söguna visst
samspil handhafa ríkisvalds við að þróa samfélagið áfram. Stundum ryður
löggjafinn nýjum viðhorfum braut en stundum er dómsvaldið í því hlutverki.

Nýlegt dæmi um þetta samspil ólíkra þátta ríkisvaldsins eru lög sem Alþingi
samþykkti í vetur um bætur vegna fyrrverandi sakborninga í Guðmundar- og
Geirfinnsmálinu. Hæstiréttur hafði á árinu 2018 sýknað viðkomandi og þar með
snúið fyrri dómi frá 1980. Til þess að stuðla að því að unnt væri að greiða út bætur
sem fyrst á jafnræðisgrundvelli steig ríkisstjórnin og Alþingi inn í málið og
samþykkti fyrrnefnd lög sem nú hafa komið til framkvæmdar. Það mál er
auðvitað líka dæmi um afdrifarík mistök sem gerð hafa verið hér á landi við
meðferð dómsvalds. Dómstólar munu svo eiga lokaorðið um bótarétt í þessum
málum ef svo fer fram sem horfir,

Þær grundvallarbreytingar sem urðu með tilkomu Landsréttar á árinu 2018 léttir
af Hæstarétti því hlutverki að vera eini áfrýjunardómstóll landsins og styrkir
vafalaust hlutverk hans sem fordæmisgefandi dómstóls sem tryggir réttaröryggi
borgaranna.

Nú er svo komið að drjúgur hluti löggjafar hefur bein eða óbein tengsl við
alþjóðlegar skuldbindingar vegna EES-samningsins og Mannréttindasáttmála
Evrópu sbr. breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrár árið 1995. Við höfum
fyrir löngu tekið þá grundvallarafstöðu að vera virkir þátttakendur í
alþjóðasamstarfi þar sem við höfum verið talsmenn mannréttinda og framþróunar
réttarríkisins. Því fylgir að við erum ekki hafin yfir gagnrýni og eigum að vera
fær um að geta brugðist við henni og unnið úr henni í takt við þau grundvallargildi
sem alltaf hafa verið okkar leiðarljós.

Og í þessum efnum kalla breytingar og þróun á löggjöf og þjóðfélagsháttum á að
skera þarf úr nýjum álitaefnum þar með talið tengdum mannréttindum. Hér má til
dæmis nefna að ýmis álitamál kunna að vakna á næstu árum í tengslum við
ofhitnun jarðar, stafræna byltingar og þróun gervigreindar.

Ágæta samkoma

Fræg er sagan frá miðri síðustu öld þegar Helga Pedersen borgardómari í
Kaupmannahöfn stöðvaði málflutning lögmannssem vildi útlista vísindalegt gildi
nælonsokka með athugasemdinni: Má ég vekja athygli yðar á því að rétturinn
klæðist nælonsokkum!

Þótt sannarlega hafi það verið nýmæli í kringum 1950 í Danmörku að kona væri
dómari varð þróunin mun hægari hér á landi. Auður Þorbergsdóttir var fyrst
kvenna skipuð dómari á Íslandi árið 1972 og Guðrún Erlendsdóttir var síðan
skipuð dómari við Hæstarétt árið 1986. Þótt jöfnuður kynjanna hafi aukist í
dómskerfinu – eins og annars staðar í þjóðfélaginu – hallar enn á hlutfallið í
Hæstarétti. Við berum öll ábyrgð á því verkefni að reyna að jafna hlut kynjanna
– þar með talið í Hæstarétti – og ungar stúlkur eiga að geta séð það fyrir sér sem
raunhæft markmið að verða hæstaréttardómarar – alveg eins og þær geta orðið
forsætisráðherrar.

Hér vil ég minnast þess að hlutur Hæstaréttar í jafnréttismálum hefur skipt drjúgu
máli. Með dómum árin 1978 og 1982 var konum dæmd hlutdeild í eignum
sambýlismanns í stað ráðskonulauna, forgangsreglu jafnréttislaga var slegið fastri
með dómi árið 1993 og fyrri dómvenju um lægra tekjuviðmið stúlkna heldur en
drengja í skaðabótamálum var snúið við með dómi árið 1997.

Ágæta samkoma.

Saga Hæstaréttar er saga þjóðarinnar. Breytingar í löggjöf og þjóðfélagsháttum,
viðhorfum og gildismati hafa jafnframt áhrif á störf og fordæmi réttarins.
Lýsandi dæmi um þetta er að árið 1924 var maður dæmdur í átta mánuða
betrunarhúsvinnu fyrir samkynhneigð – eins fráleitt og það nú hljómar. Í
dómasafni Hæstaréttar frá árinu 2012 er að finna mál þar sem rétturinn fjallaði
um deilu um eignarhald á ketti við eignaskipti samkynja sambúðarmaka - sem ber
vitni um þær breytingar á lögum og viðhorfi sem varð á tæpri öld og endurspeglast
meðal annars í lögum um kynrænt sjálfræði sem Alþingi samþykkti á síðasta ári.

Ein öld er drjúgur tími í réttarsögunni.

Í tilefni af þessum merku tímamótum samþykkti ríkisstjórn Íslands í júní 2017 að
afla fjárheimilda til að unnt væri að rita sögu Hæstaréttar sem er órjúfanlegur hluti
af sögu fullveldisins. Að því sögðu færi ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar
Hæstarétti, dómurum réttarins og öðru starfsfólki árnaðaróskir í tilefni þessa
merkisafmælis um leið og ég óska Hæstarétti alls velfarnaðar í störfum sínum í
framtíðinni.

Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.