Ávarp

Ávarp forseta Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson

Háu dómendur!

Þessi stund mun jafnan talin merkisstund í sögu íslenskuþjóðarinnar. Sú stund er æðstu dómendur í íslenskum málum taka aftur sæti til dóma á fósturjörð vorri. Þessi atburður ... hlýtur að vekja fögnuð í hjörtum allra Íslendinga. ... Hér eftir verður íslenskum málum ekki skotið til neins æðri réttar en þessa virðulega réttar.

Forseti Hæstaréttar, forsætisráðherra, forseti Alþingis, ráðherrar og þingmenn, fulltrúar erlendra ríkja og aðrir góðir gestir: Með þessum orðum hóf Sveinn Björnsson málflutningsmaður ræðu sína við setningu Hæstaréttar í fyrsta sinn, mánudaginn 16. febrúar 1920, fyrir réttri öld. Áður hafði Kristján Jónsson dómstjóri sett réttinn og lokið máli sínu með heillaóskum honum til handa: Qvod felix faustumqve sit!

Dómarar klæddust síðum kápum sínum, dökkbláum með hvítum linda. Kápa skrifara var eins sniðin en ljósblá og málafærslumenn báru eigin einkenniskápur, svartar með bláum börmum.

Klæðnaðurinn er að mestu sá sami um okkar daga en latína heyrist lítt í dómsal. Í traustu réttarfari renna saman tveir meginstraumar, hin stillta elfur vanans og hraðari vötn sem finna sér nýja farvegi, falla jafnvel í flúðum og erfitt að greina hvað bíður eftir næstu bugðu. Vissulega getur verið vandasamt að stýra fleyi á slíkri ferð. Ég eftirlæt salnum að setja sér fyrir hugskotssjónir kápum klædda dómara á hægri siglingu eða ólgusamri og lýkur nú þessari myndlíkingu.

En svona hefur sögu Hæstaréttar Íslands undið fram í hundrað ár. Sumt breytist, annað ekki. Þannig voru þeir einir um hituna karlarnir þegar réttur var fyrst settur. Okkar ágæti fundarstjóri, Guðrún Erlendsdóttir, braut bæði ísinn og glerþakið á sínum tíma. Í jafnréttismálum hefur Hæstiréttur látið til sín taka, einatt verið í forystu í þeim efnum. Önnur framfaramál hefur dómstóllinn einnig stutt, stuðlað að auknum mannréttindum og bætt stöðu okkar sem viljum búa í réttarríki.

Enginn er þó óskeikull, það sanna dæmin. Sagan er ætíð margþætt, úr ýmsu að ráða þegar litið er fram á veg. Ósjaldan létu valdhafar eigin stjórnmálaskoðanir og hagsmuni ráða mestu þegar skipað var í Hæstarétt. Enn vantar ákvæði um sjálfstæði dómstóla í stjórnarskrá. Stilla þarf strengi eftir stofnun nýs dómstigs í landinu. Æðsta dómsvaldið er vissulega innanlands –á fósturjörð vorri ‒ en lýðveldið Ísland á einnig aðild að alþjóðastofnunum og samningum, með þeim réttindum og skyldum sem í því felast.

Góðir áheyrendur: Við þessi miklu tímamót árna ég Hæstarétti allra heilla. Já, megi honum fylgja gæfa og gengi eins og Kristján dómsstjóri kvað á latínu fyrir réttri öld. En gleymum ekki heldur heilræði hans til málflutningsmanna við hinn nýja rétt: „Blessaðir, farið þér ekki að halda langar ræður. ... Hvernig eigum við að muna það sem þið kunnið að segja? Maður freistast helst til þess að hlusta ekki á ykkur.“

Þessi viska festist Sveini Björnssyni í minni og hafði hann á orði síðar að við, sem eigum okkar Íslendingasögur, ættum að kunna þá list að vera kjarnyrt. Í Njálssögu er ein meginstoð réttláts samfélags einmitt dregin saman í örfáum orðum sem áttu við á þeirri tíð, eiga við um okkar daga og einnig á nýrri öld Hæstaréttar Íslands: Með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða.

Ég ítreka góðar óskir mínar: Farnist réttinum vel og þeim sem undir hann heyra.

Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.