Dómar í endurupptökumálum nr. 34 og 35/2019

12.03.2021

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í málum nr. 34/2019: Ákæruvaldið gegn Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur og nr. 35/2019: Ákæruvaldið gegn Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni. Málin varða endurupptöku að hluta á dómum Hæstaréttar frá 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 og 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Í máli nr. 34/2019 voru Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín sýknuð af ákæru um umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar var Sigurjón Þorvaldur sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti vegna tveggja brota og Sigríður Elín sakfelld fyrir hlutdeild í öðru þeirra.  Var refsing Sigurjóns Þorvaldar ákveðin fangelsi í 12 mánuði skilorðsbundið en tekið fram að hæfileg refsing Sigríðar Elínar hefði numið fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið en þar sem hún hefði afplánað fangelsisrefsingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 var henni ekki gerð refsing. Í máli nr. 35/2019 var Sigurjón Þorvaldur einnig sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun, en vegna hluta af ákærutímabilinu. Var refsing Sigurjóns Þorvaldar ákveðin fangelsi í 9 mánuði skilorðsbundið.

 

Dómana í heild sinni má lesa hér og hér.