Print

Mál nr. 34/2019

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður) og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur (Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Endurupptaka
  • Umboðssvik
  • Markaðsmisnotkun
  • Hlutdeild
  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Skilorð
Reifun

Í málinu voru SÞÁ, sem bankastjóri L hf., og SES, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs L hf., ákærð fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa 30. september 2008 veitt I ehf. 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hlutum í L hf., án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Þá voru þau ákærð fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti fyrir að hafa ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til framangreindra hlutabréfakaupa og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Ennfremur var SÞÁ gefin að sök markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. við sölu L hf. á 200.000.000 hlutum í bankanum, sem voru í eigu hans, til I ehf. 3. október 2008 og þannig gefið eftirspurn hlutabréfa í L hf. ranglega og misvísandi til kynna. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 var hafnað að vísa málinu frá réttinum þar sem ekkert hefði komið fram sem hnekkt hefði því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem fallnar hefðu verið til að draga óhlutdrægni dómara í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu var skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins fullnægt og það tekið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar var talið að ekki hefði legið fyrir að SÞÁ og SES hefðu með ákvörðun um að veita I ehf. lán 30. september 2008 mátt vera ljóst að með henni hefðu þau stofnað hagsmun L hf. í hættu eða hefðu getað gert það þannig að líta bæri svo á þau hefðu misnotað af ásetningi aðstöðu sína hjá L hf. og með því gerst brotleg við 249. gr. almennra hegningarlaga. Voru þau af þeirri ástæðu sýknuð af þeim ákærulið. Hins vegar var talið að með ákvörðun SÞÁ um framangreint lán til I ehf. sem hefði verið forsenda viðskiptanna, stöðu sinnar sem æðsta yfirmanns verðbréfa- og fyrirtækjasviðs bankans og fullri vitneskju um tilgang viðskiptanna að öðru leyti hefði hann brotið gegn a-lið 1. töluliðar 117. gr. laga nr. 108/2007. Þá var SES sakfelld fyrir hlutdeild í því broti þar sem talið var að hún hefði hlotið að gera sér grein fyrir, meðal annar með setu sinni í fjármálanefnd L hf., að viðskiptin hefðu gefið ranga mynd af verðmæti bréfanna eða hefðu verið líkleg til að gera það. Þá var talið hafið yfir vafa að SÞÁ hefði með ákvörðun sinni 3. október 2008 mátt vita að með viðskiptunum hefði eftirspurn eftir bréfum L hf. og verðmæti þeirra verið ranglega eða misvísandi gefið til kynna. Var því talið að SÞÁ hefði með því gerst sekur um brot gegn a-lið 1. töluliðar 117. gr. laga nr. 108/2007. Var refsing SÞÁ ákveðin fangelsi í 12 mánuði en meðal annars með hliðsjón af því að meðferð málsins hefði tafist þar á meðal vegna endurupptöku þess var refsing skilorðsbundin til tveggja ára. Með sömu rökum kom fram að hæfileg refsing SES hefði numið fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið en þar sem hún hefði afplánað fangelsisrefsingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 var henni ekki gerð refsing.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Karl Axelsson og Ása Ólafsdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari, Símon Sigvaldason landsréttardómari og Skúli Magnússon settur landsréttardómari.

Með bréfum til endurupptökunefndar 19. september 2016 og 2. desember sama ár leituðu Sigurjón Þorvaldur Árnason og Sigríður Elín Sigfúsdóttir eftir því við endurupptökunefnd að hæstaréttarmálið nr. 456/2014, sem dæmt var 8. október 2015, yrði endurupptekið á grundvelli núgildandi ákvæðis 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Nefndin varð við þeim beiðnum með úrskurðum 12. maí 2019 í málum nr. 7 og 11/2016 hvað þessi dómfelldu varðaði. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 3. júní 2019 vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir ákærða Sigurjóni Þorvaldi 11. júní 2019 en ákærðu Sigríði Elínu 19. sama mánaðar. Svo sem síðar greinir hafnaði Hæstiréttur kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins með ákvörðun 27. maí 2020.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara að ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í a- og b-lið II. kafla ákæru og ákærði Sigurjón Þorvaldur einnig vegna III. kafla sömu ákæru og þeim gerð refsing.

Ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín krefjast aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og þau sýknuð en til vara að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög heimila.

I

Fjármálaeftirlitið vísaði máli vegna kaupa einkahlutafélagsins Imon á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. af eigin fjárfestingum bankans (EFL) sem átt höfðu sér stað í byrjun október 2008 til embættis sérstaks saksóknara 20. maí 2009. Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara í tilefni af ætlaðri markaðsmisnotkun með hlutabréf í bankanum á tímabilinu maí 2003 til október 2008. Í síðarnefnda bréfinu var meðal annars greint frá framangreindum kaupum Imon ehf. á hlutum í Landsbanka Íslands hf. 30. september og 3. október 2008, samtals að nafnvirði 450.000.000 króna, og kaupum Azalea Resources Ltd. á hlutum í bankanum 3. október sama ár, að nafnvirði 199.000.000 króna. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærðu í máli þessu auk SG,ÍG, JSH og SS.

Í I. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni Þorvaldi ásamt dómfelldu ÍG, JSH og SS gefin að sök markaðsmisnotkun í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. „í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 ... sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Var háttsemin talin varða við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Með heimild í 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað héraðsdómur 12. júní 2013 að skilja sakarefni samkvæmt I. kafla ákærunnar frá því máli sem hér um ræðir og rekið var gegn ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu svo og dómfellda SG. Með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 var ákærði Sigurjón Þorvaldur og fyrrnefndir þrír þáverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf. sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákærunnar. Sætir það mál nú sambærilegri málsmeðferð fyrir Hæstarétti og mál þetta á grundvelli ákvörðunar endurupptökunefndar um endurupptöku málsins gagnvart ákærða Sigurjóni Þorvaldi, sbr. úrskurð nefndarinnar 12. maí 2019 í máli nr. 6/2017 og ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 í máli nr. 35/2019, og er dómur í því máli kveðinn upp samhliða þessum dómi.

Þær sakargiftir sem fjallað er um í þessu máli og úrskurðir endurupptökunefndar taka til varða a- og b-lið II. kafla og III. kafla ákærunnar. Helstu efnisatriði þeirra eru sem hér segir:

Í a-lið II. kafla ákærunnar voru ákærða Sigurjóni Þorvaldi sem bankastjóra og ákærðu Sigríði Elínu sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf., er bæði sátu í lánanefnd bankans, gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 30. september 2008 í störfum sínum fyrir bankann misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu. Var háttsemi ákærðu nánar lýst svo að þau hefðu farið „út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf. ... 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði.“

Í b-lið II. kafla ákærunnar voru ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á fyrrgreindum 250.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 30. september 2008 fyrir 20,60 krónur á hlut. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallar Íslands 1. október 2008 hefði verið „ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2,23% útgefins hlutafjár í Landsbankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu.“

Í III. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni Þorvaldi og dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varðaði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á 200.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 3. október 2008 fyrir 19,11 krónur á hlut. Var tekið fram í ákærunni að viðskiptin hefðu gefið „eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,79% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.“ Hefði ákærði Sigurjón Þorvaldur tekið ákvörðun um viðskiptin og dómfelldi SG tilkynnt þau „þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og án þess að gengið hefði verið frá fjármögnun viðskiptanna.“

Í IV. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni og dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun sem varðaði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á 199.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Azalea Resources Ltd. 3. október 2008 fyrir 19 krónur á hlut. Var tekið fram í ákærunni að viðskiptin hefðu gefið „eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,78% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.“ Hefði ákærði Sigurjón Þorvaldur tekið ákvörðun um viðskiptin og dómfelldi SG tilkynnt þau „þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu en án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina.“

II

1

Mál ákæruvaldsins á hendur ákærðu og dómfellda SG var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. júní 2013. Af hálfu ákærðu voru hafðar uppi nánar rökstuddar kröfur um frávísun en þeim hafnað með úrskurði héraðsdóms 16. janúar 2014.

Héraðsdómur kvað upp efnisdóm í málinu 5. júní 2014 þar sem ákærðu voru sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins. Varðandi a-lið II. kafla ákærunnar var talið ósannað annars vegar að þau hefðu með háttsemi sinni stefnt fé Landsbanka Íslands hf. í verulega hættu og hins vegar að þau hefðu misnotað aðstöðu sína, sökum þess að þau hefðu hvorki brotið gegn útlánareglum bankans né öðrum þeim reglum sem vísað hefði verið til í ákæru. Taldi dómurinn með hliðsjón af aðdraganda viðskiptanna, þar með talið markaðsáhættu vegna bréfanna og reglna um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti, óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau hefðu verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum eða verið líkleg til að gera það. Jafnframt hefðu viðskiptin ekki falið í sér blekkingu og sýndarmennsku svo að varðaði ákærðu refsingu samkvæmt a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Vegna IV. kafla ákærunnar taldi dómurinn að með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 væri gegn eindreginni neitun ákærða Sigurjóns ósannað að hann hefði tekið ákvörðun um viðskiptin og var hann því sýknaður af þeirri kröfu ákæruvaldsins. Dómurinn sakfelldi hins vegar dómfellda SG á grundvelli framangreindrar verknaðarlýsingar ákæru.

2

Ríkissaksóknari áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar 2. júlí 2014 sem kvað upp dóm 8. október 2015 í máli nr. 456/2014. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu um sakargiftir samkvæmt a-lið II. kafla ákæru um að ákærðu hefðu átt að gera sér grein fyrir því að með því að veita Imon ehf. lán gegn tryggingum, sem metnar höfðu verið til verðs á alls ónothæfum grunni og að auki verið langt frá því sem almennt skyldi miða við samkvæmt útlánareglum Landsbanka Íslands hf., hefðu þau, við þær aðstæður sem þá ríktu á fjármála- og verðbréfamörkuðum, vikið á freklegan hátt frá því sem af þeim var krafist í störfum þeirra fyrir bankann. Var því talið að þau hefðu misnotað aðstöðu sína sem hefði valdið því að bankinn varð bundinn við þær ráðstafanir fjármuna sem áttu sér stað 30. september 2008 sem hefði leitt til verulegrar fjártjónshættu fyrir bankann, en líta yrði svo á að fjármunirnir væru bankanum glataðir. Voru þau því sakfelld fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði Sigurjón Þorvaldur sakfelldur fyrir brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 vegna framangreindra viðskipta samkvæmt b-lið II. kafla ákæru þar sem hann hefði, sem annar af bankastjórum Landsbanka Íslands hf., haft yfirsýn yfir hin umfangsmiklu kaup bankans á eigin hlutabréfum, auk þess sem hann hefði ásamt ákærðu Sigríði Elínu tekið ákvörðun um að veita Imon ehf. fyrrgreint lán 30. september 2008. Ákærða Sigríður Elín var sakfelld fyrir hlutdeild í umræddu broti. Ákærði Sigurjón Þorvaldur var enn fremur sakfelldur fyrir þátt sinn í sölu hlutabréfanna til Imon ehf. 3. október 2008 sem og dómfelldi SG, sbr. III. kafla ákæru. Var talið að þau viðskipti, sem tilkynnt höfðu verið sama dag til Kauphallar Íslands, hefðu gefið eftirspurn og þar með verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega til kynna eða verið líkleg til að gera það, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þá var dómfelldi SG sakfelldur fyrir brot samkvæmt IV. kafla ákæru, gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 vegna viðskipta við Azalea Resources Ltd. 3. október 2008 þar sem hann hefði sem miðlari viðskiptanna tilkynnt þau til Kauphallar Íslands og að honum hafi hlotið að vera ljóst að markaðsáhætta af viðskiptunum héldist áfram hjá bankanum. Ákærði Sigurjón Þorvaldur var hins vegar sýknaður af þeim ákærulið.

Ákærði Sigurjón Þorvaldur var dæmdur í fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, ákærða Sigríður Elín var dæmd í fangelsi í 18 mánuði en dómfelldi SG í fangelsi í 9 mánuði.

III

1

Ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín fóru þess sem fyrr segir á leit við endurupptökunefnd með bréfum ákærðu Sigurjóns Þorvaldar 19. september 2016 og Sigríðar Elínar 2. desember sama ár að hæstaréttarmálið nr. 456/2014 yrði endurupptekið hvað þau varðaði. Reistu þau beiðnirnar á þeirri forsendu að uppfyllt væru skilyrði a-, c- og d-liða núgildandi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 232. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið um frávísunarkröfu ákæruvaldsins flutt munnlega 18. maí 2020. Verður í V og VI kafla dómsins fjallað um fyrrgreinda ákvörðunar réttarins 27. maí 2020 og forsendur hennar. Að henni stóðu Karl Axelsson hæstaréttardómari og Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Símon Sigvaldason þá dómstjóri og Skúli Magnússon þá héraðsdómari.

2

Ákærði Sigurjón Þorvaldur byggði kröfu sína um endurupptöku í fyrsta lagi á því að fram væru komin ný gögn sem hryndu niðurstöðu dómsins um sekt hans. Í öðru lagi að við rannsókn málsins hefði ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem rannsakendum og ákærendum bæri samkvæmt lögum. Í þriðja lagi hefðu dómstólar brotið gegn grunnreglu sakamálaréttarfars um að sérhver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Í fjórða lagi hefðu verið búin til ný og áður óþekkt viðmið í refsirétti varðandi það hvenær aðili teldist hafa misnotað aðstöðu sína eða umboð í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga og í fimmta lagi hefðu ekki verið lögð fram nein gögn sem sannað hefðu auðgunarásetning ákærða. Í sjötta lagi að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, nú samhljóða d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Taldi ákærði að tveir af hæstaréttardómurum málsins, þeir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, hefðu verið vanhæfir til þess að dæma í því vegna hlutafjáreignar þeirra í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 2007 til 2008. Með endurupptökubeiðni fylgdu gögn, alls 26 fylgiskjöl, sem ekki höfðu áður legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi og ákærði Sigurjón Þorvaldur taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína.

Ríkissaksóknari taldi að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka málið enda skorti á að áskilnaður þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 væri fyrir hendi. Vísaði ríkissaksóknari til þess að dómarar gættu sjálfir að hæfi sínu og að umræddir hæstaréttardómarar hefðu, áður en þeir tóku sæti í málinu, metið hæfi sitt til að taka sæti í dómi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008. Þá tók hann fram að ekki væri unnt að skjóta slíkum ákvörðunum dómara Hæstaréttar til æðri dóms og því yrði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd. Að lokum taldi ríkissaksóknari að hagsmunir umræddra dómara hefðu verið svo óbeinir og óverulegir að þeir gætu ekki hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins.

 Ákærði Sigurjón Þorvaldur mótmælti túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hann til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og horfa til grundvallarmannréttinda, svo sem 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur til þess að sú skylda hvíldi á dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um eignarhlut í félagi sem hefði skráð gengi í verðbréfaviðskiptum, næmi hluturinn 3.000.000 króna eða meira að verðmæti. Hlutir umræddra dómara næmu hærri fjárhæðum og því hefðu þeir orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf.

Við meðferð málsins hjá endurupptökunefnd komu fram athugasemdir og upplýsingar frá hæstaréttardómurunum Eiríki Tómassyni og Viðari Má Matthíassyni um hlutabréfaeign þeirra í Landsbanka Íslands hf. við fall bankans 2008. Í bréfi Eiríks, 23. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í bankanum að nafnvirði 87.383 krónur. Kaupverð hlutanna hefði samtals numið 374.112 krónum. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem hafi numið 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 1.738.922 krónum. Í bréfi Viðars Más, 24. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 428.075 krónur. Samanlagt verðmæti þessara hluta þegar hann eignaðist þá hafi numið 14.753.256 krónum. Miðað við skráð gengi bréfanna 3. október 2008, 19,9 krónur á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 8.518.692 krónum.

Með bréfi 18. september 2018 til endurupptökunefndar kom ákærði Sigurjón Þorvaldur á framfæri athugasemdum sínum við upplýsingar um eignarhluti hæstaréttardómaranna. Vísaði hann til þess að hann teldi eignarhluti þeirra hvorki óverulega væru þeir bornir saman við laun dómaranna né bornir saman við eignarhlut annarra hluthafa bankans. Þá lægi fyrir að hlutir í eigu Viðars Más hefðu verið langt umfram viðmið reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Einnig vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur til þess að uppi hefðu verið atvik eða aðstæður sem hefðu verið fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa.

3

Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar með úrskurði 12. maí 2019. Þar kom fram að til að fallist yrði á endurupptöku nægði að eitt af skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 væri uppfyllt. Hvað varðaði þá málsástæðu ákærða Sigurjóns Þorvaldar, að umræddir dómarar sem dæmt hefðu í hæstaréttarmálinu hefðu verið vanhæfir og því hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, væri til þess að líta að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól teldist til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Væri rétturinn varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. samhljóða ákvæði eldri laga nr. 15/1998. Sérstaklega væri fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í g-lið ákvæðisins kæmi fram að dómari væri vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi væru önnur atvik eða aðstæður, en taldar væru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins, sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna gæti dómari að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili gæti einnig krafist þess að hann víki sæti. Þá var í niðurstöðum endurupptökunefndar vikið að d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og bent á að í athugasemdum með greininni í frumvarpi til laga við lögfestingu hennar væri tekið sem dæmi um tilvik sem fallið gæti undir lagaregluna að í ljós komi annmarkar á hæfi dómara sem með mál hafi farið og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Í niðurstöðum endurupptökunefndar var hafnað þeim sjónarmiðum ákæruvaldsins að ekki væri á færi nefndarinnar að endurskoða efnislegt mat einstaks dómara á eigin hæfi. Þá var sérstaklega vísað til þess, með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, að mat á hæfi dómara þyrfti undir þessum kringumstæðum bæði að uppfylla huglæg og hlutlæg skilyrði.

 Við mat á hæfi umræddra hæstaréttardómara kæmi meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir hefðu orðið fyrir væri til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 og það þá valdið því að verulegur galli hefði verið á meðferð málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Óumdeilt væri að hæstaréttardómarinn Viðar Már Matthíasson hefði keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og hefði verðmæti þeirra þegar hann eignaðist þau numið 14.753.256 krónum. Verðmæti bréfanna hefðu tekið breytingum allt fram til þess tíma þegar Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd og bréfin urðu verðlaus. Miðað við síðasta skráða gengi bréfanna 3. október 2008 hefði verðmæti fyrrgreindra hluta numið 8.518.692 krónum. Ljóst væri því að fjárhagslegt tjón dómarans vegna kaupa hans á hlutafé í bankanum hefði verið verulegt. Taldi nefndin að þeir fjármunir sem þannig fóru forgörðum hefðu verið slíkir að atvik eða aðstæður hefðu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni réttarins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þá var engu talið breyta þótt nokkur tími hefði liðið frá því tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu. Um það mætti einnig líta til þess orðalags Hæstaréttar í dómi hans í málinu að óvarlegar ákvarðanir ákærðu um lánveitingar ,,gátu því valdið hluthöfum í Landsbanka Íslands hf., stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni.“ Loks væri til þess að líta að framangreindar upplýsingar um kaup og eignarhald dómarans hefðu ekki legið fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti og því verið endurupptökubeiðanda ókunnar. Samkvæmt framangreindu taldi nefndin að fram væru komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Við mat á skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 yrði að líta til þess að endurupptökuheimild samkvæmt þeim staflið hefði komið fyrst í lög með nýjum lögum um meðferð sakamála. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga væri sérstaklega tekið fram að þar undir gætu meðal annars fallið tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hafi áður verið um þá kunnugt, en það tilvik væri uppi í málinu. Þá segði jafnframt í frumvarpinu að þessi tiltekna heimild hefði verið sett í lögin í því skyni að tryggja réttláta málsmeðferð. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og þeirri grundvallarreglu sem fram kæmi í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól taldi nefndin uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Nefndin tók fram að þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 teldist uppfyllt hvað hæstaréttardómarann Viðar Má Matthíasson varðaði væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður ákærða Sigurjóns Þorvaldar. Samkvæmt því var beiðni hans um endurupptöku málsins samþykkt.

4

Ákærða Sigríður Elín byggði endurupptökubeiðni sína á því að fram væru komin ný gögn sem verulega miklu hefðu skipt fyrir niðurstöðu málsins hefðu þau komið fram áður en dómur gekk, sbr. nú a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá taldi hún að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hefðu verið rangt metin svo að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið sömu málsgreinar. Að lokum taldi ákærða að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið, 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 og vísaði þar til þess að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Markús Sigurbjörnsson hefðu verið vanhæfir til að dæma í málinu, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Með endurupptökubeiðninni fylgdu gögn, alls 24 fylgiskjöl, sem ekki höfðu legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi en ákærða Sigríður Elín taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína.

Ríkissaksóknari taldi, með vísan til sömu sjónarmiða og vörðuðu beiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar og rakin eru hér að framan, að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka mál ákærðu Sigríðar Elínar.

Með bréfi 27. apríl 2017 til endurupptökunefndar mótmælti ákærða Sigríður Elín túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hún til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og endurskoða þannig mat þeirra á eigin hæfi. Þá mótmælti ákærða Sigríður Elín því að umræddir dómarar hefðu ekki verið vanhæfir sökum þess að hagsmunir þeirra af niðurstöðu málsins hefðu verið óbeinir og óverulegir heldur hefðu þeir átt eignarhlut í hinum föllnu bönkum og tapað tugum milljóna króna.

Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærðu Sigríðar Elínar með úrskurði 12. maí 2019 í máli nr. 11/2016 og taldi að skilyrði þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga nr. 88/2008, væri uppfyllt með sama rökstuðningi og í máli nefndarinnar nr. 7/2016, sbr. umfjöllun hér að framan.

IV

Ákærða Sigríður Elín lagði fram kvörtun fyrir Mannréttindadómstól Evrópu 2. júní 2017 á þeim grundvelli að hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti. Kvörtun ákærðu Sigríðar Elínar byggðist á vanhæfi þriggja dómara málsins í Hæstarétti, þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar. Þeir hefðu átt hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á árunum 2007 og 2008 og tapað verulegum fjármunum við fall þeirra.

Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm vegna þessarar kvörtunar 25. febrúar 2020. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti ákærðu Sigríðar Elínar þar sem hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól, sbr. 1. mgr. 6. gr. sáttmálans.

Mannréttindadómstóllinn vísaði til þess að óhlutdrægni hæstaréttardómarans Markúsar Sigurbjörnssonar yrði ekki dregin í efa enda hefði hann ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og hlutabréfaeign hans í öðrum viðskiptabönkum gæti ekki leitt til slíkrar ályktunar. Varðandi hæstaréttardómarann Eirík Tómasson vísaði dómstóllinn til þess að tilkynningarskylda til nefndar um dómarastörf ætti ekki við nema hlutabréfaeign í félagi næmi 3.000.000 króna eða hærri fjárhæð. Þar sem hlutabréfaeign hans í bankanum hefði verið töluvert undir þeim mörkum varð það niðurstaða dómstólsins að ekki væri heldur unnt að draga óhlutdrægni hans í efa. Dómstóllinn komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að draga mætti óhlutdrægni hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í efa. Vísaði dómstóllinn til þess að hann hefði tapað því sem næmi um þrefaldri þeirri fjárhæð sem tilkynningarskyld væri til nefndar um dómarastörf. Þá hefði tap hans vegna falls Landsbanka Íslands hf. verið mikið, sérstaklega þegar tekið væri tillit til árstekna hans sem prófessors á árunum 2007 og 2008. Einnig vísaði dómstóllinn til þess að endurupptökunefnd hefði talið skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt vegna hlutabréfaeignar dómarans.

V

1

Meðal þeirra gagna sem lágu fyrir Hæstarétti við töku fyrrnefndrar ákvörðunar 27. maí 2020 var upplýsingaskýrsla ákæruvaldsins 9. mars 2020 þar sem fram koma fyllri upplýsingar um hlutabréfaeign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt skýrslunni nam hlutabréfaeign hans samtals 462.475 krónum að nafnvirði við fall bankans. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem nam 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti eignarinnar numið 9.203.253 krónum.

2

Í téðri ákvörðun Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 væri endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tæki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hafi verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laganna færi að öðru leyti um endurupptöku máls eftir lögum nr. 88/2008 og nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 væru ákvæði um endurupptöku sakamáls sem dæmt hefði verið í Landsrétti eða Hæstarétti. Þar kæmi fram í 232. gr. að endurupptökunefnd gæti samkvæmt beiðni leyft að mál sem dæmt hafi verið í Landsrétti eða Hæstarétti yrði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt væri þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna um endurupptöku óáfrýjaðs máls. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. gæti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, sem teldi sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið, ef einhverju eftirtalinna skilyrða væri fullnægt: a) fram væru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk; b) ætla mætti að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin væru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefði valdið rangri niðurstöðu málsins; c) verulegar líkur væru leiddar að því að sönnunargögn sem færð hefðu verið fram í máli hefðu verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess eða d) verulegir gallar hefðu verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Endurupptökunefnd, sem heyrði undir framkvæmdarvaldið, væri meðal annars með 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangsefni sem lytu að úrlausn dómsmála. Dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015, 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 og 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015. Samkvæmt því þyrfti að taka afstöðu til þess hvort lög hefðu með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í umræddum úrskurðum sínum 12. maí 2019 um endurupptöku máls nr. 456/2014.

3

Krafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var reist á því að endurupptökunefnd hefði skort valdheimildir til að heimila endurupptöku þess og farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið byggði í fyrsta lagi á því að fyrrnefndur liður gæti ekki tekið til hæfis hæstaréttardómara þar sem engu breytti fyrir niðurstöðu um mat dómara Hæstaréttar á hæfi sínu hvort málsaðilar hefðu vitað af hugsanlegum vanhæfisástæðum, enda ættu þeir enga aðkomu að því mati með málflutningi eða á annan hátt. Í öðru lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að verulegir gallar hefðu verið á málsmeðferðinni hefðu ekki verið uppfyllt en það gæti ekki talist verulegur galli á meðferð máls að endurupptökunefnd hefði aðra skoðun en dómarar Hæstaréttar á túlkun g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að galli á málsmeðferð hefði haft áhrif á niðurstöðu sakamáls væri ekki uppfyllt. Vísaði ákæruvaldið til þess að orðalag ákvæðisins kvæði á um að það þyrfti að liggja fyrir að gallinn hefði haft áhrif en ekki einungis að hann hefði getað haft áhrif. Það hefði ekki verið gert líklegt að niðurstaða dómsins væri röng að efni til eða að ætlað vanhæfi hefði haft áhrif á niðurstöðuna eins og d- liður kvæði á um. Þá fælu ákvarðanir hæstaréttardómara um að taka sæti í dómi og mat þeirra á eigin hæfi í sér endanlegar ákvarðanir. Ummæli í athugasemdum í frumvarpi við lagagreinina þess efnis að það geti komið til skoðunar að leyfa endurupptöku samkvæmt fyrrnefndum d-lið ef síðar kemur í ljós að dómari hafi verið vanhæfur geti, að mati ákæruvaldsins, aðeins átt við í tilviki héraðsdómara eða landsréttardómara enda yrði úrskurðum þeirra um eigið hæfi skotið til æðri dóms. Í fjórða lagi vísaði ákæruvaldið til þess að endurupptökunefnd, sem væri stjórnsýslunefnd, væri með 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 falið vald til að víkja til hliðar réttaráhrifum dóms, samkvæmt 186. gr. sömu laga, og hefði því heimild til að taka ákvörðun um endurtekna málsmeðferð í máli þar sem fyrir lægi endanlegur dómur með þeim afleiðingum að hann félli niður. Taldi ákæruvaldið að þetta fyrirkomulag sem fæli framkvæmdarvaldinu umfangsmikið vald til íhlutunar í störf dómsvaldsins bryti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í greinargerð sinni hér fyrir rétti varðandi frávísunarkröfu ákæruvaldsins vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur fyrst og fremst til niðurstöðu endurupptökunefndar um grundvöll þess að málið skyldi endurupptekið. Ákærða Sigríður Elín vísaði með sama hætti til úrskurðar endurupptökunefndar sem og málatilbúnaðar síns fyrir nefndinni því til stuðnings að lagaskilyrði stæðu til þess að endurupptaka hæstaréttarmál nr. 456/2014 og að dæma ætti það að nýju af óháðum og óhlutdrægum dómi til að tryggja að hún fengi notið grundvallarréttinda til réttlátrar málsmeðferðar.

VI

Í tilvitnaðri ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 er niðurstaða réttarins um frávísunarkröfu ákæruvaldsins svofelld: „Af hálfu ákæruvaldsins er krafa um frávísun málsins meðal annars á því reist að það fyrirkomulag 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 að fela endurupptökunefnd vald til að ákvarða hvort mál skuli endurupptekið fyrir Hæstarétti brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber þá að gæta að í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 kom fram að sú tilhögun þágildandi ákvæðis 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008, að ákvörðun endurupptökunefndar um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti hefði meðal annars í för með sér að fyrri dómur Hæstaréttar félli úr gildi, mælti nefndin ekki fyrir á annan veg, væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lagaákvæðið teldist því ekki gild réttarheimild og yrði ekki beitt. Í kjölfar þess var umrædd heimild endurupptökunefndar felld úr lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 99/2016, og er nú mælt fyrir um heimildir endurupptökunefndar í 3. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008. Að lögunum svo breyttum hefur Hæstiréttur ítrekað fjallað um ákvarðanir nefndarinnar um endurupptöku mála, sbr. í dæmaskyni dóma réttarins frá 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015 og 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 án þess að taldir hafi verið stjórnskipulegir annmarkar á lagaákvæðunum í núverandi mynd. Á hinn bóginn var áréttað í dómunum, svo sem fyrr greinir, að dómstólar eigi eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar og taki þar af leiðandi afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd kemst að hverju sinni. Er kröfu um frávísun málsins á þessum grundvelli því hafnað.

Forsendur úrskurðar endurupptökunefndar fyrir endurupptöku málsins voru eins og áður segir á því reistar að gallar hefðu verið á meðferð þess fyrir Hæstarétti samkvæmt þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga, í ljósi vanhæfis dómarans Viðars Más Matthíassonar vegna hlutabréfaeignar hans í Landsbanka Íslands hf. Tók nefndin fram að þegar að þeirri niðurstöðu fenginni væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður dómfelldu Sigurjóns Þorvaldar og Sigríðar Elínar. Af því tilefni skal áréttað að aðrar þær málsástæður dómfelldu sem teflt var fram fyrir endurupptökunefnd og ekki komu þar til efnislegs mats geta ekki komið til frekari skoðunar hér fyrir dómi, enda er það ekki á valdi dómstóla að meta slíkt í stað nefndarinnar þótt þeir séu eftir almennum reglum bærir til að leysa eftir á úr ágreiningi um lögmæti úrskurðar hennar um slíkt efni, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 857/2017.

Við mat á því hvort vanhæfi dómara teljist verulegur galli, í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga 88/2008 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu máls, verður að horfa til þess að í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er meðal annars kveðið á um rétt manna til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Er sú regla og í samræmi við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir um fyrrnefnda ákvæðið að það leggi þá skyldu á löggjafann að setja skýrar reglur um hvenær dómari verði talinn vanhæfur í máli. Þá liggur fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur við skýringu 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans litið til þeirra reglna landsréttar sem giltu um hæfi dómara í einstöku tilviki, sbr. einkum áðurgreindan dóm 25. febrúar sl. í máli nr. 41382/17.

Samkvæmt framansögðu er það forsenda fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að reglur um hæfi dómara séu virtar og gildir þá einu á hvaða dómstigi meðferð máls fer fram og hvort dómurinn er skipaður einum eða fleiri dómurum. Vanhöld á að reglur um hæfi séu virtar hljóta því jafnan að teljast verulegir annmarkar á málsmeðferð og jafnframt þess eðlis að geta haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi fyrrnefnds d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem rakið er í úrskurði endurupptökunefndar fær sú lögskýring einnig beina stoð í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. Verður því hafnað þeirri málsástæðu ákæruvaldsins að d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna heimili ekki endurupptöku við þær aðstæður að hæstaréttardómari hefur tekið þátt í meðferð máls í andstöðu við hæfisreglur 6. gr. laga nr. 88/2008.

Áður eru raktar upplýsingar um hlutabréfaeign Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara í Landsbanka Íslands hf. Þá var og rakin sú efnislega niðurstaða endurupptökunefndar að fjárhagslegt tjón dómarans hafi verið svo verulegt að draga hafi mátt óhlutdrægni hans með réttu í efa í umræddu dómsmáli, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, ekki síst með hliðsjón af því að í forsendum dómsins voru brot ákærðu talin hafa verið til þess fallin að valda hluthöfum í bankanum, stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni. Laut sakarefni málsins þannig beinlínis að hagsmunum dómarans sem jafnframt voru verulegir. Niðurstaða fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar síðastliðinn, þar sem talið var að téður dómari hefði í málinu ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstól og gilti þá einu þótt ekkert væri fram komið um að annarleg sjónarmið hefðu í reynd ráðið meðferð eða efnislegri niðurstöðu dómsins, samræmdist að þessu leyti forsendum endurupptökunefndar.

Að öllu virtu er í málinu ekkert komið fram sem fær hnekkt því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem fallnar voru til að draga hafi mátt óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Var þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 fyrir endurupptöku málsins, en því er ekki haldið fram í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð endurupptökunefndar sem leiða eigi til ógildis úrskurðanna.

Kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Verður hér í framhaldinu gerð nánari grein fyrir meðferð málsins fyrir réttinum, þar á meðal um hverjir gáfu skýrslu við meðferð þess. Í því samhengi skal tekið fram að samhliða var hafnað kröfu ákæruvaldsins um frávísun máls nr. 35/2019 frá Hæstarétti en í því fólst að hæstaréttarmál nr. 842/2014 var endurupptekið, en það tekur eins og fyrr greinir til sakargifta á hendur ákærða Sigurjóni Þorvaldi samkvæmt I. kafla ákærunnar auk þriggja annarra dómfelldu sem ekki eiga aðild að endurupptöku þess máls.

VII

 Ákærðu hafa nú undir áfrýjun lagt fram ný gögn sem varða sakarefni málsins. Verður gerð grein fyrir þeim en ekki þykja efni til að fjalla frekar um gögn sem varða hæfi þeirra hæstaréttardómara sem dæmdu mál nr. 456/2014.

1

Ákærði Sigurjón Þorvaldur lagði fram 37 ný skjöl fyrir Hæstarétt. Í meginatriðum varða þau annars vegar verðmæti viðbótarveðs í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og samskipti sparisjóðsins og Glitnis banka hf. á tímabilinu 19. september 2008 til 27. sama mánaðar. Er meginefni þeirra skjala sem ákærði merkti 1 til 18 rakin nánar í 5. lið kafla VIII. Hins vegar fjalla framlögð gögn um aðkomu og yfirsýn ákærða um viðskipti EFL. Verður nú gerð grein fyrir þeim skjölum.

Skjal merkt 19 er bréf frá ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, til lögmanna ákærðu 16. febrúar 2016 þar sem hann áréttar nokkur atriði sem komu fram í dómi Hæstaréttar nr. 456/2014. Vísar hann meðal annars til þess að önnur lán hefðu verið veitt með sambærilegum veðhlutföllum á árunum 2004 og 2007 og þau lán sem ákært er fyrir og að þau lán hefðu einnig verið afgreidd milli lánanefndarfunda. Auk þess hefði nær alltaf verið notast við verðmöt sem unnin voru innanhúss, eins og raunin var við mat á virði stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði, en ekki leitað til utanaðkomandi sérfræðinga.

Skjal merkt 20 er skýrsla EFL 1. október 2008. Skýrslan mun hafa verið lögð fram sama dag á fundi fjármálanefndar bankans. Þar kemur fram yfirlit og breytingar á viðskiptum á verðbréfasviði bankans vikuna 23. til 30. september 2008. Í yfirlitinu koma einnig fram heildarbreytingar á viðskiptum með hlutabréf, það er upphafsstaða, sala/kaup og lokastaða, meðal annars í Landsbanka Íslands hf. Í skýrslunni er hins vegar ekki að finna sundurliðuð viðskipti.

Skjal merkt 21 er svokölluð 4-15 skýrsla frá 30. september 2008 sem var dagskýrsla áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. Þar eru meðal annars upplýsingar um hvernig heildarstaða bankans í eigin hlutabréfum breyttist milli daga.

Skjal merkt 22 er skýrsla 30. september 2008 sem ákærði leggur fram til samanburðar um framkvæmd daglegrar upplýsingargjafar í Kaupþingi banka hf. Sú skýrsla mun hafa verið send daglega til bankastjóra og starfandi stjórnarformanns bankans. Skýrslan hafði að geyma yfirlit yfir kaup og sölu hvers dags í bankanum. Þar kom fram hverjir væru kaupendur og seljendur og umfang viðskipta.

Skjöl merkt 23 og 24 eru tölvupóstsamskipti milli ákærða Sigurjóns Þorvaldar og ÞÖ regluvarðar bankans frá apríl og maí 2016 þar sem sá fyrrnefndi óskar eftir ákvörðunartökublöðum og fundargerðum frá árunum 2003 til 2008 vegna 15 nánar tiltekinna lánveitinga. ÞÖ taldi ekki unnt að verða við þeirri beiðni ákærða þar sem það væri mat bankans að skjölin féllu undir 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Skjal merkt 25 eru tíu fundargerðir lánanefndar Landsbanka Íslands hf. þar sem bókað var um lánveitingar sem teknar voru á milli lánanefndafunda. Er tilefni til þess að rekja þær helstu hér. Samkvæmt fundargerð 6. júní 2007 voru 17 lánamál afgreidd milli funda. Meðal annars var nafngreindu hlutafélagi veitt lánalína til fimm ára að fjárhæð 2.800.000.000 króna til kaupa á hlutabréfum í Glitni banka hf., með 65 eða 75% veðsetningu, sem tók mið af vaxtakjörum og var trygging veitt í hlutabréfum í bankanum sjálfum með sama veðsetningarhlutfalli. Samkvæmt fundargerð 11. júlí 2007 voru 24 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var öðru nafngreindu félagi veitt 4.500.000.000 króna eingreiðslulán til fimm ára til að gera upp og fjármagna nánar tiltekna fjármálagerninga. Var veitt handveð í hlutabréfasafni félagsins sem var í Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., FL Group og Boreas Capital Fund með 75% veðhlutfalli. Samkvæmt fundargerð 22. ágúst 2007 voru 12 lánamál afgreidd milli funda og nafngreindu félagi meðal annars veitt lánalína að fjárhæð 13.650.000.000 króna til 30. nóvember 2007 til kaupa á bréfum í öðru félagi. Til tryggingar voru hlutabréf í síðastnefndu félaginu sem var skráð á markað í Amsterdam en veðhlutfallið var 65%. Samkvæmt fundargerð 3. október 2007 voru 29 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var tilteknu félagi veitt 1.200.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og var veðhlutfallið 80%. Samkvæmt fundargerð 24. október 2007 voru 15 lánamál afgreidd milli funda og einkahlutafélagi meðal annars veitt 1.000.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja og hálfs árs vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Til tryggingar voru hin keyptu hlutabréf og var veðhlutfall 87%. Var tekið fram að eftir kaupin yrði heildarveðhlutfall á móti hlutabréfum 74%. Samkvæmt fundargerð 19. desember 2007 voru 37 lánamál afgreidd milli funda og tilteknu einkahlutafélagi meðal annars veitt 3.200.000.000 króna eingreiðslulán til 18 mánaða vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði og vegna yfirtöku á láni hjá MP banka hf. Til tryggingar var þáverandi veð í safnreikningum einkahlutafélagsins og annars nafngreinds félags auk nýrra veða í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Veðhlutfall var um 74%. Samkvæmt fundargerð 6. febrúar 2008 voru 19 lánamál afgreidd milli funda. Samkvæmt fundargerð 24. september 2008 voru 13 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var einkahlutafélagi veitt 50.000.000.000 króna lán til tveggja ára til uppgreiðslu lána. Til tryggingar var 29,7% hlutur í óskráðu félagi og hlutabréf í öðru félagi. Var veðhlutfallið 70%.

Samkvæmt ,,fundargerð“ 8. október 2008, eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Landsbanka Íslands hf., kemur fram að 19 lánamál hafi verið afgreidd milli funda og meðal annars lán til Imon ehf. að fjárhæð 5.163.000.000 króna til 20 mánaða til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og hefðu bréfin verið sett að handveði til tryggingar auk þáverandi trygginga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, sbr. a-lið II kafla ákærunnar. Var veðhlutfall 86 til 95%.

Skjal merkt 26 er fundargerð lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 16. maí 2007 en þar kom fram að Imon ehf. hefði verið veitt 279.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára gegn handveði í 9,095% hlut í stofnfjárbréfum Byr sparisjóðs. Áætlað veðhlutfall var 43%.

Skjal merkt 27 er fundargerð lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 15. ágúst 2007 en þar kom fram að Imon ehf. hafði verið veitt 1.140.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára gegn handveði í 9,587% eða alls 12.593.331 stofnfjárbréfi í Byr sparisjóði og yrði veðhlutfallið þá 43,5%. Um þessar lánveitingar verður fjallað nánar í 6.2 lið kafla VIII.

Skjal merkt 28 er minnisblað um færsluheimildir áhættureglna Landsbanka Íslands hf., sem ritað var af þáverandi yfirmanni áhættustýringar að beiðni lögmanns ákærða Sigurjóns Þorvaldar, en minnisblaðinu fylgdu áhættureglur bankans frá október 2005. Í minnisblaðinu kom fram að áhættustýring bankans hefði fylgst náið með heildarstöðu EFL en litið svo á að með yfirferð sinni á fjármálanefndarfundum, þar sem farið hefði verið yfir stöðu og afkomu einingarinnar í þáliðinni viku, hefðu allar ákvarðanir deildarinnar sem teknar hefðu verið milli funda í nefndinni verið „staðfestar af Fjármálanefnd, þ.e. Bankastjórn.“

Skjal merkt 29 er bréf Landsbankans hf. 7. október 2011 í tilefni af beiðni embættis sérstaks saksóknara 14. október 2011 þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum sem vörðuðu viðskipti Imon ehf. við bankann með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í september og október 2008 og um áhættuflokkun Imon ehf. fyrir ágúst, september og október 2008. Í bréfinu kom fram að Imon ehf. hefði verið flokkað í áhættuflokk átta en taldar voru 4,73% líkur á að félög í þeim flokki myndu lenda í vanskilum í 90 daga á næstu 12 mánuðum. Var tekið fram að vinna útlánaeftirlits varðandi áhættuflokka hefði ekki verið notuð af yfirstjórn Landsbanka Íslands hf. við ákvarðanatöku útlána.

Skjöl merkt 30 og 31 eru útlánareglur Byrs sparisjóðs, „útlánaheimildir-starfsregla stjórnar, Starfsregla um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga“, samþykktar 24. janúar 2008 og starfsreglur um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra auk viðauka samþykktar 22. febrúar 2007. Samkvæmt starfsreglunum voru sett mörk heimilda sparisjóðsstjóra í útlánareglum og tekið fram að þau væru ákvörðuð af stjórn sparisjóðsins. Í starfsreglum um veðsetningarhlutföll kom fram að veðsetningarhlutfall skráðra hlutabréfa væri að jafnaði 60%.

Skjal merkt 32 er samstæðuársreikningur Byrs sparisjóðs 2008 en 19. mars 2008 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga.

Skjal merkt 33 er frétt af vefsvæðinu mbl.is 3. janúar 2009 með yfirskriftinni „Týndir stofnfjáreigendur BYRS“.

Skjal merkt 34 eru bréf frá embætti héraðssaksóknara 19. desember 2016 til ákærða Sigurjóns Þorvaldar þar sem tilkynnt var um niðurfellingu þriggja mála vegna ætlaðra brota í tengslum við lánveitingar Landsbanka Luxembourg S.A. til hlutabréfakaupa í Landsbanka Íslands hf. Auk þess fylgdi tilkynning 30. október 2013 um niðurfellingu fjórða málsins.

Skjal merkt 35 er tafla sem sýnir eigið fé og veðhlutföll skulda á móti eignum Imon ehf. miðað við tvennskonar mat ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði samkvæmt ákvörðunartökublöðum um lánveitingar til félagsins.

Skjal merkt 36 er skipurit Landsbanka Íslands hf. 1. október 2008 og ýmsar verklagsreglur bankans frá janúar og maí 2007

Skjöl merkt 14 og 37 lágu þegar fyrir í gögnum málsins og verða efni þeirra því ekki rakin nánar hér.

2

Ákærða Sigríður Elín lagði alls fram 11 ný skjöl fyrir Hæstarétt. Verður nú rakið meginefni þeirra.

Skjal merkt eitt eru upplýsingar úr ársreikningi Imon ehf. fyrir árið 2008. Samkvæmt honum var MÁ eigandi alls hlutafjár í félaginu. Í árslok 2008 námu bókfærðar eignir þess 3.919.967.952 krónum, þar af voru áhættufjármunir 3.803.351.153 krónur, sem var bókfært virði 7,7% eignarhluta félagsins í Byr sparisjóði. Skuldir félagsins námu 3.987.298.940 krónum og var eigið fé þess því neikvætt um 67.330.988 krónur. Þá er tekið fram í skýringum að: „Viðskipti með eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. eru ekki færð í efnahagsreikning þar sem talið er að hafa beri þau að engu þar sem hlutabréfin hafi verið verðlaus þegar við kaup.“ Þá sagði „Landsbankinn leysti til sín stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði í mars 2009 og ágreiningur er á milli bankans og félagsins um verðmæti þeirra á þeim tíma. Endanlegt verðmæti þeirra kann því að reynast annað og er matið sett fram með þeim fyrirvara.“

Skjal merkt tvö er ársreikningur Gruppen ehf. fyrir árið 2013 (áður Imon ehf.). Samkvæmt honum námu skuldir félagsins í árslok 2013 rúmum átta milljónum króna og eigið fé tæpum 69 milljónum króna.

Skjal merkt þrjú eru ódagsettar verklagsreglur Landsbanka Íslands hf. um verðbréfaviðskipti. Í þeim var meðal annars fjallað um svokallaða kínamúra. Í grein sex kom fram að þess skyldi gætt „að eigin viðskipti bankans, verðbréfamiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýring séu aðskilin með fullnægjandi hætti.“

Skjal merkt fjögur eru aðildarreglur Norex-kauphallarinnar frá október 2008. Samkvæmt grein 5.6.13 í reglunum átti að tilkynna viðskipti sem stofnað var til eftir að viðskiptatíma lauk, svokölluð utanþingsviðskipti, á forviðskiptatímabilinu og eigi síðar en 15 mínútum áður en viðskiptatíminn hæfist næsta viðskiptadag. Þá kom fram í grein 5.6.6 að „Kauphallaraðilarnir sem hlut eiga að kauphallarviðskiptum skulu tilkynna viðskiptin í viðskiptakerfið ... Ef aðeins annar aðilanna er kauphallaraðili skal hann tilkynna viðskiptin sem innanhúsviðskipti. Eftirfarandi upplýsingar skulu gefnar: auðkenni tilboðaskrár; hvort um er að ræða kaup- eða sölu; viðskiptaverð; magn; auðkenni mótaðila; dagsetning og tíma viðskiptanna; tegund viðskipta; flokkur eiganda (viðskiptamaður/eigin reikningur/eigin bréf útgefandi/verðjöfnun); dagsetning uppgjörs.“

Skjal merkt fimm er 12. kafli úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um markaðsvirði hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. samkvæmt skráðum upplýsingum úr Kauphöll Íslands. Í skjalinu er að finna skráð gengi bréfa bankans frá 28. desember 2004 til og með 3. október 2008.

Skjal merkt sex hafði þegar verið lagt fram af ákærða Sigurjóni Þorvaldi, sbr. skjal merkt 29, og skjöl merkt sjö til 11 eru bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu og varða ekki efnishluta málsins sérstaklega. 

VIII

1

  Áður en afstaða verður tekin til einstakra liða ákæru er rétt að gera grein fyrir stöðu ákærðu innan Landsbanka Íslands hf. Þá verður í öðru lagi gerð grein fyrir þeim reglum sem giltu um starfsemi bankans á umræddum tíma. Þá verður í þriðja lagi vikið að stöðu fjármálamarkaða í aðdraganda þeirra viðskipta sem um ræðir en ætla má að málavextir þar að lútandi séu nú alþekktir í ljósi umfangsmikillar umfjöllunar meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Í fjórða lagi verður fjallað um Byr sparisjóð í tengslum við verðmæti hans tengt þeim viðskiptum sem fjallað er um í köflum II og III í ákæru. Þá verður í fimmta lagi gerð grein fyrir félaginu Imon ehf. og viðskiptum þess við Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007 og 2008.

2

  Ákærði Sigurjón Þorvaldur var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. með samningi 21. apríl 2003 og ákærða Sigríður Elín sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans með samningi sama dag. Í tilkynningu Landsbanka Íslands hf. til Kauphallar Íslands 22. apríl 2003 kom fram að ákærði hafi verið ráðinn bankastjóri við hlið HJK sem hafði einn gegnt starfi bankastjóra um nokkurt skeið. Í tilkynningunni sagði jafnframt: „Bankastjórarnir munu fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að HJK fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.“ Þá var í tilkynningunni greint frá breytingum „á stjórnskipan bankans“ og að þrír nýir framkvæmdastjórar hefðu verið ráðnir til starfa, þeirra á meðal ákærða Sigríður Elín. Myndu nýju framkvæmdastjórarnir starfa við hlið þeirra framkvæmdastjóra sem fyrir væru en einn þeirra, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, væri staðgengill bankastjóra.

3

  Samþykktir Landsbanka Íslands hf. voru upphaflega settar á stofnfundi félagsins 10. september 1997. Þeim var síðar breytt nokkrum sinnum, síðast á aðalfundi félagsins 23. apríl 2008. Samkvæmt 18. grein samþykktanna var stjórn félagsins, bankaráð, skipuð fimm mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Í 20. grein var kveðið á um að bankaráð hefði „yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög sem um starfsemina gilda, reglur og samþykktir og hefur eftirlit með rekstri bankans.“ Þá kemur fram í sömu grein að bankaráð setji sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi kveða á um heimildir þess til töku ákvarðana um einstök viðskipti. Svofelld ákvæði voru í 21. grein samþykktanna: „Framkvæmdastjórar félagsins, skv. lögum um fjármálafyrirtæki, nefnast bankastjórar. Bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum. Þeim ber að sjá um að bankareksturinn sé í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs ... Bankastjórar halda gerðabók þar sem þeir skrá helstu ákvarðanir sínar.“

Meðal gagna málsins er yfirlit yfir 50 stærstu hluthafa Landsbanka Íslands hf. 3. október 2008 og samkvæmt því átti Samson eignarhaldsfélag ehf. á þeim tíma 4.684.608.801 hlut í bankanum eða 41,8539% alls hlutafjár í honum. Þar sem félagið átti svo stóran hlut voru meðal annars skil milli bankaráðs og stjórnar bankans eins og sjá má í þeim reglum sem hér verða raktar.

Starfsreglur fyrir bankaráð Landsbanka Íslands hf., sem vísað var til í 20. grein samþykkta félagsins, voru samþykktar á fundi ráðsins 29. júlí 2004 og þeim síðar breytt tvívegis á fundum þess 2005. Samkvæmt 6. grein starfsreglnanna skyldi bankaráð gera skriflega ráðningarsamninga við bankastjóra. Í grein 8.1 reglnanna sagði: „Bankastjórar mynda bankastjórn. Þar sem mælt er fyrir um heimildir eða ábyrgð bankastjórnar þarf ávallt atbeina beggja bankastjóra til nýtingar heimilda eða ákvarðana. Í forföllum annars bankastjóra er þó heimilt að einn bankastjóri standi að máli ásamt staðgengli bankastjóra.“ Þá var svohljóðandi ákvæði í grein 8.2: „Bankastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur bankastjórn aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild bankaráðs nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir bankann. Í slíkum tilvikum skal bankaráði tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Bankastjórn ber að sjá um að reksturinn sé í öllum greinum samkvæmt lögum, reglugerðum eða samþykktum og ákvörðunum bankaráðs.“ Samkvæmt grein 9.1 starfsreglnanna hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og jafnframt almennt eftirlit með rekstri hans. Í upphafi greinar 9.2 sagði að bankaráð skyldi „annast ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar sem tekur m.a. til eftirfarandi ráðstafana.“ Síðar voru þær taldar upp í tólf töluliðum og meðal þeirra var, sbr. 5. tölulið, „að setja almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, hvort tveggja að fenginni umsögn bankastjórnar, sbr. þó gr. 9.3 í reglum þessum.“ Í upphafi greinar 9.3 sagði: „Bankastjórn hefur heimild til að ákveða kaup og sölu hlutabréfa í veltubók bankans.“ Í 12. grein var kveðið á um upplýsingagjöf til bankaráðs, þar á meðal skyldi bankastjórn samkvæmt grein 12.1 leggja „mánaðarlegt fjárhagsuppgjör bankans fyrir bankaráð á fyrsta reglulega bankaráðsfundi eftir að það liggur fyrir“ og jafnframt eftir grein 12.6 „mánaðarlega gefa bankaráði sundurliðað yfirlit um stöðu og þróun markaðsáhættu bankans.“

Í málinu liggja fyrir almennar útlána- og áhættureglur, sem bankaráð Landsbanka Íslands hf. setti haustið 2005, að fenginni tillögu bankastjórnar, með vísan til 5. töluliðar greinar 9.2 í starfsreglum ráðsins. Samkvæmt 1. grein útlána- og áhættureglnanna bar bankastjórn „ábyrgð gagnvart bankaráði á útlánum bankans og ábyrgðum.“ Jafnframt skyldi hún „bera ábyrgð á öðrum áhættuþáttum bankans þ.m.t. markaðs- og rekstraráhættu.“ Í 2. grein reglnanna sagði meðal annars: „Lánveitingar bankans skulu taka mið af þeirri meginstefnu bankans að vera alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir framúrskarandi fjármálaþjónustu í alþjóðlegu umhverfi. Að öðru leyti skulu lánveitingar bankans vera í samræmi við markaða stefnu bankans á hverjum tíma. Við útlánaákvarðanir og áhættutökur skal bankastjórn sjá til þess að hagsmuna bankans sé ætíð gætt, fjárhagsstaða hans treyst og að ákvarðanir brjóti ekki í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá skal bankastjórn hafa hliðsjón af stöðu og horfum í efnahags- og atvinnulífi, svo og þróun peningamarkaða, við ákvarðanir sínar. Bankastjórn skal setja ítarlegar útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða. Reglurnar skulu m.a. hafa að geyma ákvæði um eftirfarandi atriði: Meginregla um að við ákvörðun um lánveitingu skuli taka mið af greiðslugetu lánþega, framboðnum tryggingum og viðskiptasögu. Upplýsingaöflun og áhættumat fyrir ákvörðunartöku. Hámarksáhættu til viðskiptamanna. Útlánaheimildir einstakra starfsmanna. Verkaskiptingu innan bankans varðandi útlánaákvarðanir. Tryggingar ... Almennt skulu öll útlán bankans vera vel tryggð annað hvort með formlegum tryggingum eða haldi á greiðsluflæði. Heimilt er þó að veita lán án sérstakra formlegra trygginga til bestu fyrirtækja í viðskiptum við bankann, sé greiðsluflæði félagsins sterkt ... Bankastjórn skal reglulega gefa bankaráðinu upplýsingar um stöðu og þróun útlána og vanskila, þróun áhættuflokkunar og framlög í afskriftarsjóð útlána.“

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni útlánareglna Landsbanka Íslands hf. sem gefnar voru út af útlánaeftirliti bankans 20. ágúst 2008 og í gildi voru þegar atvik þessa máls urðu. Í 1. kafla reglnanna var tekið fram að tilgangur þeirra væri „að setja meginreglur um öll útlán til viðskiptamanna sem bankinn veitir á Íslandi og úr erlendum útibúum sínum. Í reglunum kemur fram hvaða aðilar innan bankans hafa útlánaheimildir og hvaða takmörkunum þær eru háðar. Einnig kemur fram hvaða kröfur bankinn gerir til þeirra trygginga sem hann fer fram á að lántakar setji fyrir lánum sínum og hvernig bankinn verðleggur útlán sín. Útlánareglunum er ætlað að taka til almennra lánveitinga í starfsstöðvum Landsbanka Íslands hf. ... Ef um er að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem fellur ekki innan ramma þessara reglna eða vafi leikur á að lánveiting falli undir reglurnar þarf skriflega ákvörðun frá Lánanefnd eða viðkomandi fagsviði.“ Í upphafi greinar 1.1 um áhættustýringu sagði síðan: „Bankaráð Landsbanka Íslands hf. ber ábyrgð á stefnumörkun í áhættu- og útlánamálum Landsbankasamstæðunnar og felur ráðið bankastjórninni að setja ítarlegar reglur um framkvæmd og eftirlit með þessum þáttum.“ Í framhaldinu kom fram að: „Bankastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin. Bankastjórn á að sjá til þess að reksturinn sé í öllum greinum samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum og ákvörðunum bankaráðs.“ Þá sagði meðal annars í grein 1.2: „Bankastjórar setja ítarlegar Útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða. Tilgangurinn með reglunum er að stýra útlánaáhættunni, mæla hana og hafa eftirlit með henni. Úrræði bankans til þess að lágmarka tap vegna útlána er m.a. að skoða viðskiptasögu lántaka, meta greiðslugetu hans og framboðnar tryggingar ... Lánanefnd bankans er æðsta vald í útlánamálum bankans. Nefndin hefur þríþætt hlutverk: Í fyrsta lagi tekur Lánanefndin ákvarðanir um lánveitingar sem eru umfram útlánaheimildir annarra aðila innan bankans. Í öðru lagi veitir hún ákveðnum aðilum innan bankans útlánaheimildir. Í þriðja lagi hefur nefndin eftirlit með stærstu áhættum í samstæðu bankans, bæði er varðar einstaka viðskiptamenn og flokka útlána.“ Í 12. kafla reglnanna var kveðið á um útlánaheimildir fyrirtækjasviðs og kom fram í grein 12.1 að næmi heildarskuldbinding viðskiptamanns hærri fjárhæð en 1.000.000.000 króna eftir „einstaka fyrirgreiðslu“ þyrfti að leggja málið „fram til samþykktar í Lánanefnd“. Þá voru í 13. kafla reglur um tryggingar fyrirtækjasviðs. Samkvæmt grein 13.1 var það meginreglan „að útlán bankans skulu vera tryggð með tryggingum innan skilgreindra veðmarka. Trygging innan veðmarka er trygging sem er innan við þau veðsetningarhlutföll sem skilgreind eru í Útlánareglum hér að neðan ... Útlán sem eru með tryggingum umfram þessi mörk skoðast sem lán utan veðmarka.“

Í grein 13.4 sagði: „Fyrirtækjasviði er heimilt að samþykkja veðsetningu í neðangreindum veðandlögum sem eru umfram þau hámörk sem þar koma fram.“ Mismunandi tegundir tryggingarandlaga og veðsetningarhlutföll voru svo talin upp í grein 13.5 í 17 liðum. Í grein 13.5.13, þar sem fjallað var um hlutabréf og hluti í einkahlutafélögum, sagði meðal annars: „Almenna reglan er að veita einungis lán með veði í skráðum hlutabréfum. Ef taka á veð í hlutabréfum eða hlutum í einkahlutafélagi skal lánaákvörðun um það tekin á Fyrirtækjasviði. Veðsetningarhlutfall skal taka mið af seljanleika og viðskiptum með bréfin. Veðhæf bréf teljast þau sem uppfylla eftirfarandi tvö skilyrði: Meðal viðskiptadagsvelta á 12 mánaða tímabili ˃ 40 m. kr. Viðskiptadagar/heildarfjöldi viðskiptadaga á 12 mánaða tímabili ˃ 95%. Hámarksveðsetningarhlutfall á skráðum innlendum hlutabréfum á Aðallista Kauphallar og erlendum skráðum hlutabréfum er 50% af markaðsverði. Hámarksveðsetningarhlutfall annarra innlendra skráðra hlutabréfa er 30% ... Heimilt er þó að veita lán með veði í óskráðum hlutabréfum en sú ákvörðun skal tekin af Fyrirtækjasviði/Lánanefnd. Óskráð hlutabréf skulu aldrei veðsett hærra en 30% af matsverði.“ Samkvæmt grein 13.5.16 var fyrirtækjasviði heimilt að taka veð í öðrum veðandlögum en talin voru upp í greinum 13.5.1 til 13.5.15 og ákveða veðmörk þeirra. Í 16. kafla reglnanna var fjallað um lánanefnd og útlánaheimildir hennar. Samkvæmt grein 16.1 sátu bankastjórar og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs í nefndinni. Hún var æðsta vald í útlánamálum bankans og gat „vikið frá gildandi útlánareglum Landsbanka Íslands við lánaákvarðanir sínar.“ Þá kom fram í grein 16.3 að gild samþykkt lánanefndar og fundargerð hennar væri árituð af báðum bankastjórum, en í fjarveru annars þeirra og staðgengils bankastjóra undirrituðu bankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs umrædd skjöl.

Í grein 16.4 var kveðið á um samþykktir milli funda. Sagði þar að til að flýta fyrir afgreiðslu mála á milli funda lánanefndar væri framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs heimilt að samþykkja lánsfjárhæðir allt að 400.000.000 króna. Væru málin talin óvanaleg eða áhættusöm skyldi þó ætíð hafa fyrst samráð við bankastjóra. Sömu undirskriftarreglur giltu varðandi útlánaákvarðanir sem samþykktar væru á milli funda. Samþykkt lánsbeiðni skyldi staðfest af formanni lánanefndar á næsta lánanefndarfundi en aðrir samþykktu utanfundarsamþykktirnar með því að undirrita fundargerð lánanefndar þar sem utanfundaákvarðanir voru tilgreindar. Loks sagði í 3. mgr. greinarinnar: „Að höfðu samráði við bankastjóra er heimilt að afgreiða stærri fjárhæðir en 400 m.kr. á milli funda enda séu þau staðfest á næsta fundi.“

4

Eitt af því sem kemur til skoðunar við úrlausn sakargifta á hendur ákærðu eru aðstæður á fjármála- og hlutafjármörkuðum síðari hluta september og fyrstu dagana í október 2008 og hvernig þeir horfðu við stjórnendum Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma. Eru ýmis atvik þeirrar atburðarrásar sem fyrr segir alkunn nú þegar liðið er á þrettánda ár frá því að þeir atburðir urðu sem leiddu til falls viðskiptabankanna þriggja og síðar annarra fjármálafyrirtækja.

Eins og fram kemur í I. kafla ákæru áttu EFL viðskipti með hlutabréf í bankanum, bæði kaup og sölu, fyrir eigin reikning á ákærutímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 eða samtals 228 viðskiptadaga. Þau viðskipti sem ákært er fyrir áttu sér stað með sjálfvirkum pörunum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands svo sem fjallað er um í hæstaréttarmáli nr. 35/2019. Til viðbótar áttu viðskipti sér stað með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í utanþingsviðskiptum og til þeirra taka meðal annars b-liður II. og III. kafli ákærunnar.

Sem fyrr greinir fór á árinu 2008 að gæta vaxandi alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og óróa á fjármálamörkuðum sem magnaðist til muna við fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september. Um aðstæður á mörkuðum á umræddum tíma má meðal annars líta til dóms Landsdóms 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011, sem hefur samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm, fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir. Þar er greint frá því að á vettvangi Seðlabanka Íslands hafi farið fram ýmiss konar vinna í tengslum við vaxandi erfiðleika íslensku bankanna við fjármögnun á markaði á árinu 2008. Í fundargerð starfshóps Seðlabanka Íslands um lausafjárvanda 23. janúar 2008 hafi verið fjallað um þessa erfiðleika og þar sérstaklega getið um Landsbanka Íslands hf. og meðal annars tekið fram að búið hefði verið að loka á lánalínur bankans. Hafi það verið mat bankastjórnar Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 að íslensku bankarnir þrír væru í mikilli hættu og þar með íslenskt efnahagslíf og að á þessum tíma hefðu legið fyrir vísbendingar um að bankarnir ættu í verulegum erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína með lánum á alþjóðlegum mörkuðum.

Í gögnum málsins er að finna minnisblað sem ákærði Sigurjón Þorvaldur sendi BTB í tölvupósti 17. september 2008. Í minnisblaðinu fjallar ákærði um mögulegan samruna Landsbanka Íslands hf. og annars banka er þá bar heitið Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. Í minnisblaðinu sagði meðal annars: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár. Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“

Alþjóðlegt umhverfi fjármögnunar viðskiptabanka, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., var til umfjöllunar á fundi fjármálanefndar þess banka 24. september 2008, en fundinn sátu meðal annarra ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín. Í upphafi fundarins fór forstöðumaður greiningardeildar bankans yfir greiningar og rannsóknir. Samkvæmt fundargerð kom þar meðal annars fram að gert væri ráð fyrir „að krónan styrkist frá öfgagildi“, en áfram væri fyrirsjáanlegur mikill halli á utanríkisviðskiptum. Millibankamarkaðir væru enn í uppnámi og samkeppni um innlán orðin mikil á Íslandi sem sýndi skort á krónum. Þá var vikið að svonefndum Icesave-innlánsreikningum hjá útibúi bankans í London þar sem orðrétt var bókað: „Útflæði upp á ca 10 mGPB á dag. Áhættufælni og menn þurfa að nota í annað ásamt því að væntingar eru til þess að vextir lækki. Barclays fer nú fram á að útflæði verði prefundað. Farið yfir flæðið.“ Samkvæmt fundargerð sýndi sérfræðingur hjá greiningardeild „yfirlit um aðgerðir í stærsta bail-outi sögunnar í USA. Bandaríska ríkið og Seðlabankinn hafa gripið til umfangsmikilla björgunaraðgerða. Gengi fjármálafyrirtækja hefur tekið kipp við þetta.“ Þá greindi framkvæmdastjóri alþjóðasviðs frá því að alþjóðamarkaðir væru „í raun lokaðir“. Samkvæmt fundargerð skýrði forstöðumaður EFL meðal annars einnig svo frá: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum ... Jákvætt er að Marel hefur komið hressilega tilbaka síðustu daga ... Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn ... Staða niður um 6,5 ma.kr. á ársfjórðungnum. Má gera ráð fyrir að verði skilað á núlli ef uppfærsla á Iceland eign gengur eftir.“

Í fyrrgreindum dómi Landsdóms kemur fram að 25. september 2008 hafi formaður stjórnar Glitnis banka hf. átt fund með einum af bankastjórum Seðlabanka Íslands þar sem hann hafi gert grein fyrir erfiðri lausafjárstöðu bankans og óskað eftir því að Seðlabankinn veitti bankanum lán í því skyni að bæta hana. Að loknum fundahöldum, sem á eftir fóru, var fulltrúum Glitnis banka hf. tilkynnt að kvöldi 28. sama mánaðar að bankanum stæði til boða hlutafjárframlag að fjárhæð 600.000.000 evra gegn 75% eignarhluta ríkisins í bankanum. Á þetta var fallist af hálfu fyrirsvarsmanna Glitnis banka hf. og að morgni mánudagsins 29. september 2008 var kynnt ráðagerð um að ríkið tæki yfir 75% eignarhluta í bankanum gegn framangreindu hlutafjárframlagi. Við þetta lækkaði gengi á hlutabréfum í bankanum verulega.

Sama dag var fundað í bankaráði Landsbanka Íslands hf. og sátu ákærðu fundinn. Af fundargerðinni verður ráðið að eftir að grein hafði verið gerð fyrir yfirlýsingu forsætisráðuneytis og efni tilkynningar bankastjóra til starfsmanna hafi verið vikið að mati á áhrifum aðgerðarinnar. Þar segir meðal annars: „Mat á áhrifum aðgerðarinnar á Landsbankann stendur yfir, en þrátt fyrir jákvæðan tón í yfirlýsingu bankastjórnar var ljóst að mjög skiptar skoðanir voru almennt um málið. Lækkun á verðmæti veða í hlutabréfum í Glitni sem hefur neikvæð áhrif á Landsbankann. Rætt var um hvort Glitnir hefði átt rétt á lausafjárstuðningi fremur en eigin fé. Aðferðin við yfirtöku Glitnis var óvenjuleg og ætti sér væntanlega fá fordæmi. Fimm ára CDS álag á ríkið hefur rokið upp í kjölfar tilkynningarinnar. ... Þá var rætt um hugmyndir um hugsanlega sameiningu Landsbankans, Glitnis, Straums og að bæta sparisjóðnum Byr síðan við. HJK nefndi að reynt hafi verið að koma fram hugmyndum um sameiningu, t.d. Glitnis, Landsbanka og Straums, ásamt eiginfjár- og lausafjárstuðningi ríkis og Seðlabanka, sem hefði þýtt minni heildaráhættu fyrir kerfið heldur en sú leið sem farin var þýddi. Sú vinna var unnin um helgina og komið á framfæri á fundum með bankastjórum Seðlabankans og forsætisráðherra. Farsælla hefði verið að víðtækari leið hefði náðst fram og ná með því fram styrkingu kerfisins, aukinni hagræðingu og afstýra frekara tjóni. Kjartan sagði bankastjórn leita allra skynsamlegra leiða til að treysta og styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans og treysta innlánagrunn hans innanlands og erlendis. CDS álög bankans eru nú langt, langt yfir öllum eðlilegum viðmiðunum. Sigurjón fór síðan yfir yfirlit um lausafjárstöðu. Þrátt fyrir ásættanlegt lausafé er mikillar varúðar þörf í núverandi umhverfi að mati Sigurjóns. Farið hefur verið reglulega yfir stöðu og horfur á fundum bankaráðs í ár. Skipulegur samruni a.m.k. Landsbankans og Glitnis, hefði að mati bankastjóra og bankaráðs verið heppilegri leið en þetta varð niðurstaðan. Moody‘s og Fitch hafa ekki skilað enn áliti sínu vegna beiðna okkar um mat þeirra á áhrifum hugsanlegs samruna Landsbankans og Straums á lánshæfismat Landsbankans.“

Í fyrrnefndum dómi Landsdóms kemur fram að þriðjudaginn 30. september 2008 hafi Seðlabanki Íslands tilkynnt að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkisins og Glitnis banka hf. og jafnframt sett Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. á athugunarlista vegna hugsanlegrar lækkunar á einkunnum þeirra. Þá mun matsfyrirtækið Fitch Ratings hafa lækkað lánshæfiseinkunnir ríkisins og allra viðskiptabankanna þriggja þennan sama dag.

Á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. miðvikudaginn 1. október 2008, sem ákærðu sátu, var forstöðumaður greiningardeildar bankans meðal annars viðstaddur og lagði fram yfirlit yfir breytingar á langtímaeinkunnum fjármálafyrirtækja í september. Bókað var í fundargerð: „væntingar aukast en það er væntanlega tímabundið.“ Þá var bókað eftir dómfellda SG í fundargerðinni: „Bara færeysk félög sem hækka undanfarið. Miklar lækkanir undanfarið en velta hefur aukist. Mikil velta með LAIS en lífeyrissjóðir hafa verið sölumegin. Mikill fjöldi viðskipta á tímabilinu. KAUP hefur lækkað umtalsvert minna en önnur fjármálafyrirtæki ... Heimsvístölur. Hrávörur hafa verið aðeins verið að koma til baka. Hráolía upp um 12% á árinu.“ Eftir forstöðumanni EFL var meðal annars fært til bókar um eigin fjárfestingar: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr. Síðan er óljóst með FL stöðu upp á 2,1 ma.kr. sem er væntanlega á núll. Ef tekið með þá 10,4 ma. kr. Mikil lækkun á Intrum en íslenskar eignir hafa margar verið seldar meira niður en aðrar undanfarið. Greiningaraðilar hafa komið með góðar greiningar undanfarið.“ Þá var jafnframt bókað eftir forstöðumanni fjárstýringar bankans að „veltubók í skuldabréfum tók góðan kipp, hagnaður 7,5 ma.kr. ... ICESAVE UK hefur haldið ótrúlega vel. Í Hollandi virðist ljóst að viðskiptavinir koma inn upplýstir um stöðuna.“

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd. Við það urðu hlutabréf í bankanum einskis virði svo sem áður greinir. Með bréfi til nefndarinnar daginn eftir tilkynnti ákærði Sigurjón Þorvaldur að hann segði upp starfi sínu hjá bankanum og óskaði eftir að verða leystur frá störfum þá þegar.

5

Við úrlausn málsins er svo sem fyrr segir nauðsynlegt að gera grein fyrir ætluðu verðmæti Byrs sparisjóðs eins og það horfði við ákærðu á þeim tíma sem ákæran fjallar um en stofnfjárbréf sjóðsins í eigu Imon ehf. voru sett að allsherjarveði vegna þeirra viðskipta sem um er fjallað í II. kafla ákærunnar og að sínu leyti III. kafla hennar. Hefur ákærði Sigurjón Þorvaldur lagt fram ný gögn er varða gang og stöðu viðræðna um sameiningu Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs síðari hluta septembermánaðar 2008, sbr. tilvísun til þeirra í 1. lið VII. kafla. Hafa þau þýðingu við mat á því hvort ákærðu máttu með réttu vænta þess að um hefði verið að ræða viðbótarveðrými í stofnfjárbréfum þeim í sparisjóðnum sem Landsbanki Íslands hf. hafði allsherjarveð í þegar til viðskiptanna kom í lok septembermánaðar 2008, svo sem gengið var út frá í fyrrnefndu ákvarðanatökublaði ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði. Verður í eftirfarandi umfjöllun vikið að þessum gögnum eftir því sem efni standa til.

Stjórn Glitnis banka hf. bauð stjórn Byrs sparisjóðs 19. september 2008 til viðræðna um hugsanlegan samruna félaganna. Lagði stjórn Glitnis banka hf. til að bankinn yrði yfirtökufélag við hugsanlegan samruna þar sem greitt yrði með hlutafé í Glitni banka hf. miðað við verðmat á Byr sparisjóði sem samsvaraði 65.000.000.000 króna og að greitt yrði með hlutabréfum í bankanum á genginu 14,5. Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 20. september 2018 samþykkti stjórnin að ganga til viðræðna við Glitni banka hf. um hugsanlegan samruna félaganna en hafnaði verðmatshugmyndum bankans. Samkomulag um samrunaviðræður var gert milli Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs 21. september 2008. Í 3. grein þess kom fram að samningsaðilar stefni “að því að ljúka viðræðum innan tveggja vikna frá undirritun samkomulags þessa með samþykkt samrunaáætlunar í stjórnum beggja félaga.“ Þá var tekið fram í 5. grein að gert væri ráð fyrir að framkvæma áreiðanleikakönnun „fjárhagslega og lagalega“ á félögunum.

 Hinn 22. september 2008 var tilkynnt bæði í fjölmiðlum og innan Glitnis banka hf. að bankinn og Byr sparisjóður hefðu hafið viðræður um sameiningu. Í gögnum málsins er að finna glærukynningu dagsetta sama dag fyrir starfsmenn Glitnis banka hf. um samrunaviðræðurnar. Þar kom fram að Glitnir banki hf. teldi Byr sparisjóð traustan viðskiptabanka sem væri með litla áhættu tengda verðbreytingum hlutabréfa þar sem Byr hefði ólíkt mörgum öðrum íslenskum sparisjóðum óverulega áhættu af þróun hlutabréfamarkaða. Þá var tekið fram að bókfært eigið fé Byrs sparisjóðs í lok fyrri árshelmings 2008 hefði verið 45.000.000.000 króna og að eiginfjárhlutfall hans væri 23,5%. Var vísað til þess að samruninn myndi styrkja eiginfjárhlutfall Glitnis banka hf. verulega.

Í tölvupóstsamskiptum að kvöldi 22. september 2008 milli starfsmanna Glitnis banka hf., þar á meðal bankastjóra, kom fram: „Við þurfum að klára í eigendahópnum verðið. RZ var alveg klár á því að verðið væri 70,2 og gengið væri 14,5 í Glitni.“ Hinn 23. september sendi Deloitte fjármálaráðgjöf ósk til Glitnis banka hf. um nánar tilgreindar upplýsingar og gögn vegna áreiðanleikakönnunar á Byr sparisjóði í tengslum við fyrirhugaðan samruna.

Meðal gagna málsins er skjal með yfirskriftinni „Viðræðurammi Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hf.“, dagsett 24. september. Gert var ráð fyrir að skjalið yrði undirritað af hálfu beggja en á því eintaki sem lagt hefur verið fram hefur það aðeins verið undirritað af hálfu sparisjóðsins. Samkvæmt 1. grein skilmálanna var gert ráð fyrir að Glitnir banki hf. og Byr sparisjóður myndu sameinast í eitt félag, miðað við 1. júlí 2008, og skyldi sparisjóðnum slitið án skuldaskila og eignir hans og skuldir ganga inn í bankann. Í 3. grein þar sem fjallað var um endurgjald sagði: „Við samrunann fá hluthafar í Byr, hluti í Glitni sem endurgjald fyrir hluti sína. Skiptahlutfallið verður reiknað á grundvelli eftirfarandi forsendna: a) Að endurmetið eigið fé Byrs að mati Glitnis miðað við 31. ágúst 2008, þar með talið þegar tekið hefur verið tillit til óskráðra eigna félagsins, sé að lágmarki 49 milljarðar króna. b) Kaupverðið jafngildir því að greitt er að lágmarki 1,4326 krónur fyrir hverja krónu endurmetins eigin fjár Byrs, og er kaupverðið greitt með hlutabréfum í Glitni. c) Að gengi hlutabréfa í Glitni í samrunanum verði að minnsta kosti 14,5 krónur fyrir hvern hlut í bankanum og kaupverð alls hlutafjár Byrs verði minnsta kosti 70,2 milljarðar króna.“ Í 4. grein voru greind ýmis skilyrði fyrir samrunanum, svo sem samþykki lánveitenda beggja aðila og Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem fyrir lægi „ásættanleg niðurstaða áreiðanleikakönnunar á fjárhag og rekstri Byrs og Glitnis að mati beggja fyrirtækja.“ Var skjalið sent bankaráði Glitnis banka hf. 24. september og samkvæmt tölvupóstsamskiptum starfsmanna bankans daginn áður átti að leita eftir samþykki stjórnar til að ganga til viðræðna á þeim grundvelli sem tilgreindur var í viðræðuskjalinu. Samkvæmt kynningu fyrir bankaráði Glitnis sama dag kom fram að eigið fé Byrs sparisjóðs væri metið á 49.000.000.000 króna miðað við hálfsársuppgjör þeirra árið 2008. Þá var talið að viðskiptavild vegna samrunans yrði 21.000.000.000 króna og því talið að 70.000.000.000 króna væri ásættanlegt verðmat fyrir Byr sparisjóð. Einnig kom fram að síðasta gengi Byrs sparisjóðs í viðskiptum 22. ágúst 2008 hefði numið 1,6 og að Capacent hefði verðmetið sparisjóðinn 31. mars 2008 á 57.500.000.000 króna.

Samkvæmt fundargerð bankaráðs Glitnis banka hf. 24. september 2008 var ákveðið að halda áfram samrunaviðræðum miðað við þær forsendur sem fram komu í viðræðurammanum með þeim fyrirvara að ekki væri hægt að vísa til eða miða við eldri áreiðanleikakönnun á Byr sparisjóði. Samkvæmt gögnum málsins var vinnu við samrunann haldið áfram til laugardagsins 27. september 2008 en ekkert varð úr frekari viðræðum vegna áformaðra kaupa íslenska ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. sem ráðin voru degi síðar eða sunnudaginn 28. september og tilkynnt að morgni mánudagsins 29. sama mánaðar.

Þá liggja fyrir í málinu upplýsingar af heimasíðu Byrs sparisjóðs um viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum á svonefndum stofnfjármarkaði Byrs. Samkvæmt þeim áttu síðustu viðskipti með stofnfjárbréf sér stað 22. ágúst 2008 þegar bréf að nafnvirði 30.000 voru seld á genginu 1,6. Samkvæmt því nam heildarsöluverðið í þessum viðskiptum 48.000 krónum. Í dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 greinir frá því að í bréfi Fjármálaeftirlitsins 7. september 2009 til embættis sérstaks saksóknara hafi meðal annars komið fram að umræddur stofnfjármarkaður, sem MP banki hf. hafi haft umsjón með, hafi ekki verið skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga í skilningi laga heldur í raun venjuleg verðbréfamiðlun með óskráð verðbréf þótt birt hafi verið á vefsíðu MP banka hf. hagstæðasta kaup- og sölutilboð sem í gildi hafi verið hverju sinni. Síðustu viðskipti fyrir lokun stofnfjármarkaðarins hafi verið á genginu 1,6, en tekið var fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins að markaðinum hefði verið lokað í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar Byrs sparisjóðs í hlutafélag og mögulegrar sameiningar hans við annað fjármálafyrirtæki.

6

Þessu næst eru efni til þess að gera grein fyrir einkahlutafélaginu Imon sem var mótaðili Landsbanka Íslands hf. í þeim viðskiptum sem um ræðir í II. og III. kafla ákærunnar, auk viðskiptasögu aðilanna. Verður hér í framhaldinu gerð grein fyrir þeirri sögu, þar á meðal þeim viðskiptum sem ákært er vegna.

6.1

Imon ehf. var stofnað 8. febrúar 2006 og samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá 24. júní 2009 skipaði MÁ einn stjórn félagsins og var eigandi þess. Tilgangur félagsins var fjárfestingar og tengdur rekstur og var hlutafé þess 500.000 krónur.

Meðal gagna málsins eru upplýsingar úr endurskoðuðum ársreikningi félagsins 2007. Samkvæmt honum námu bókfærðar eignir þess í árslok 2007 alls 3.818.250.000 krónum, þar af voru „áhættufjármunir og langtímakröfur“ 3.803.351.000 krónur. Skuldir félagsins voru alls 4.132.643.000 krónur og var eigið fé þess því neikvætt sem nam 314.393.000 krónum. Á árinu 2007 varð tap á rekstri félagsins að fjárhæð 319.751.000 krónur.

6.2

Hinn 27. mars 2007 var gerður samningur milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. um lán til félagsins að fjárhæð 638.000.000 króna. Lánstíminn var tvö ár og skyldi greiða lánið að fullu með einni afborgun í lok lánstímans 23. mars 2009. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta skipti 23. september 2007. Samkvæmt lánssamningnum setti Imon ehf. bankanum að veði stofnfjárhluti sína í Byr sparisjóði að nafnvirði 10.633.431 krónu með handveðsyfirlýsingu sama dag. Í ákvörðunartökublaði bankans 15. mars 2007 vegna lánveitingarinnar kom meðal annars fram að Imon ehf. hafi óskað eftir láni til að fjármagna kaup á 4,2874% hlut í Byr sparisjóði, en fyrir ætti félagið tæpan 4% hlut í sparisjóðnum sem væri óveðsettur. Að veði fyrir láninu yrði því 8,095% hlutur í sparisjóðnum en samkvæmt stofnfjármarkaði hefði hagstæðasta kauptilboð í stofnfjárbréf hans verið 75 krónur og miðað við það væri verðmæti veðsins „um 1,3 milljarður“.

Í veðsamningnum 27. mars 2007 sagði meðal annars: „Ofangreindir stofnfjárhlutir eru settir að handveði til tryggingar á skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem veðsali nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, stendur í við veðhafa ... Arður vegna stofnfjárhlutanna er innifalinn í veðsetningunni. Komi til útgreiðslu arðs vegna stofnfjárhlutanna er veðhafa heimilt að krefjast greiðslu hans beint og milliliðalaust frá útgefanda ... Samkvæmt samningnum voru hin veðsettu stofnfjárbréf í vörslum Byrs sparisjóðs og var samningurinn áritaður, því til staðfestingar, af hálfu sparisjóðsins.“

Hinn 7. ágúst 2007 tók Imon ehf. nýtt lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 1.140.000.000 króna. Lánstíminn var þrjú ár og skyldi greiða lánið að fullu með einni greiðslu í lok lánstímans, 30. júlí 2010. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. janúar 2008. Tekið var fram í samningnum að til tryggingar láninu hefði félagið sett bankanum að handveði hluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 12.593.331 krónu. Í tölvupósti 7. ágúst 2007 frá lögfræðingi í útlánaþjónustu Landsbanka Íslands hf. til starfsmanns bankans kom fram að „að beiðni V og með samþykki frá ÁM. er heimilt að greiða út lán til Imon ehf. að fjárhæð 1.140.000.000,- með núverandi tryggingum og án þess að ný handveðsyfirlýsing sé undirrituð og samþykkt frá stjórn BYR.“

Meðal gagna málsins frá sama tíma eru drög að nýjum samningi um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. Fyrirliggjandi eintak er ódagsett og óundirritað að öðru leyti en því að það hefur verið áritað af hálfu Byrs sparisjóðs sem vörsluaðila stofnfjárhlutanna. Voru skilmálar þeir sömu og í samningnum frá 27. mars 2007.

Í ákvörðunartökublaði bankans 1. ágúst 2007 vegna lánveitingarinnar kom fram að Imon ehf. hefði beðið um nýtt lán að fjárhæð 1.140.000.000 króna. Af upphæðinni væru 550.000.000 króna „nýtt lán“ en afgangurinn, 590.000.000 króna, yrði notaður til að greiða upp yfirdrátt félagsins á einum af reikningum þess hjá bankanum. Félagið ætti 9,587% af stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði eða 12.593.331 hlut sem væri að verðmæti 4.170.974.193,86 krónur, miðað við kauptilboð í stofnfjárbréfin á genginu 175 krónur og að teknu tilliti til uppreiknistuðuls 1,8926. Í skjalinu kom einnig fram að Imon ehf. væri „í eigu MÁ sem er gríðarlega sterkur fjárfestir og hefur átt í góðum viðskiptum við Landsbankann.“ Þá kom fram að veðhlutfall fyrir lánaveitinguna hafi verið 30% en yrði eftir hana 43,5%.

Ný lántaka af hálfu Imon ehf. fór fram 24. september 2007 en þá tók félagið lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 285.446.453 krónur. Lánstíminn skyldi vera tvö ár og bæri að greiða það að fullu í einu lagi í lok lánstímans 30. júlí 2009. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. janúar 2008. Í lánssamningum kom fram að til tryggingar láninu yrðu „núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í ákvörðunartökublaði bankans 18. september 2007 vegna lánveitingarinnar kom fram að Imon ehf. hefði beðið um nýtt lán að fjárhæð 300.000.000 króna vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði. Kom fram að nýlega hefði farið fram stofnfjáraukning í sjóðnum og eftir hana ætti Imon ehf. stofnfjárbréf í sparisjóðnum að markaðsverðmæti „um 5,5 ma. kr.“. Þá kom fram að Imon ehf. væri stærsti eigandinn í Byr sparisjóði.

Hinn 21. nóvember 2007 var gerður nýr veðsamningur um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. og setti félagið bankanum að veði stofnfjárhluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 163.479.473 króna. Veðið skyldi vera í vörslum sparisjóðsins og var samningurinn áritaður af hálfu hans. Ákvæði samningsins voru að mestu leyti þau sömu og eldri veðsamninga sem grein var gerð fyrir hér að framan. Hins vegar hafði svofellt ákvæði verið tekið upp í hinn nýja samning: „Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið á að tryggja nema hærra hlutfalli en 70% af markaðsverði hinna veðsettu stofnfjárbréfa skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint jafngildir það vanskilum á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja.“

Landsbanki Íslands hf. og Imon ehf. gerðu með sér samning um svokallaða lánalínu (viðskiptasamning) 19. desember 2007 þar sem bankinn samþykkti að veita félaginu „rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 2.022.500.000“ krónur og var því samkvæmt samningnum heimilt að taka lán hjá bankanum innan þeirra marka. Hámarkslánstími hvers lánshluta skyldi takmarkast af gildistíma samningsins, sem var til 11. desember 2008. Til tryggingar greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum hafi félagið sett bankanum að handveði „hlutabréf“ í Byr sparisjóði að nafnvirði 158.544.000 krónur.

Á ákvörðunartökublaði bankans, 17. desember 2007, sem virðist hafa verið tekið saman vegna umrædds viðskiptasamnings, þótt fjárhæðin þar greind væri aðeins lægri en raunin varð, kom fram að Imon ehf. óski eftir láni að fjárhæð 1.991.500.000 krónur vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði. Þá sagði: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið frekar illa út úr hræringum undanfarið á fjármagnsmarkaði. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 2,2ma. kr. og eftir nýja lánveitingu alls um 4,1ma. kr. Markaðsverðmæti hlutarins í Byr er hins vegar langt umfram það, markaðsverðmæti Byrs hefur verið um 48ma.kr. á markaði með stofnfé að undanförnu og 8,4% hlutur Imons því amk 4ma. kr. - aukningin nemur nú um 23,7ma. kr. og fer markaðsverðmætið verulega upp með því. Gera má ráð fyrir að góð arðgreiðsla komi inn á lánið á vormánuðum og greiði það niður um 50-60%.“

Sama dag var enn gerður nýr samningur um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. þar sem félagið setti Landsbanka Íslands hf. að veði stofnfjárhluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 1.023.401.431 krónu. Veðið skyldi sem fyrr vera í vörslum sparisjóðsins og var samningurinn áritaður af hálfu hans. Ákvæði samningsins voru að mestu leyti þau sömu og áðurgreindra veðsamninga frá 27. mars og 21. nóvember 2007 og samningsdraga frá ágúst 2007. Þó hafði verið fellt brott ákvæðið í samningnum frá 21. nóvember 2007 um rétt veðhafa til að krefjast viðbótartrygginga næmu eftirstöðvar skuldanna, sem veðinu væri ætlað að tryggja, hærra hlutfalli en 70% af markaðsverði hinna veðsettu stofnfjárhluta. Í staðinn var tekið upp í hinn nýja samning svohljóðandi ákvæði: „Falli markaðsverð hinna veðsettu hlutabréfa þannig að eftirstöðvar lána veðsala við bankann fari upp fyrir hámarks lánshlutfall bankans miðað við markaðsverð og veðhæfi í samræmi við útlánareglur bankans á hverjum tíma skal veðsali greiða niður lánin og/eða bæta við nýjum tryggingum jafnóðum svo jafnvægi náist á milli útlána og veðs að mati bankans. Verði veðsali ekki við beiðni bankans í samræmi við ofangreint jafngildir það vanskilum.“

Nýr samningur um lántöku var gerður 25. júní 2008 sambærilegum þeim sem gerður hafði verið 19. desember 2007 þar sem bankinn samþykkti að veita Imon ehf. „rekstrarfjármögnun í formi lánalínu að fjárhæð kr. 161.000.000.“ Hámarkslánstími hvers lánshluta skyldi takmarkast af gildistíma samningsins sem var til 23. mars 2009. Til tryggingar lánum sem veitt kynnu að verða samkvæmt samningnum „verða núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í ákvörðunartökublaði bankans 18. júní 2008 vegna samningsins var meðal annars tekið fram að óskað væri eftir láni til að greiða „gjaldfallna vaxtagjalddaga á lánum félagsins“ samtals að fjárhæð 160.730.320 krónur. Síðan sagði: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið frekar illa út úr hræringum undanfarið á fjármagnsmarkaði. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 3,6 mö.kr. Kom arðgreiðsla frá Byr þann 11/4 og fór arðurinn til niðurgreiðslu á skuldbindingum Imons, lánið sem var veitt vegna aukningarinnar var greitt vel niður eða um 935 m.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.584.458 Tryggingar 3.571.016 (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,4) Veðhlutfall: 100% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Lánalína til 9 mán, dregið er á línuna til að stemma við gjaldfallna vaxtagjalddaga. Um 108 m.kr. dregnar miðað við 30/1/2008 og 52,5 m.kr. dregnar miðað við 25/3/2008.“

Hinn 30. september 2008 var undirritaður af hálfu Landsbanka Íslands hf. og Imon ehf. viðauki við áðurnefndan viðskiptasamning frá 25. júní sama ár þar sem lánsheimild samkvæmt samningnum var hækkuð þannig „að bankinn skal hafa til reiðu fyrir lántaka Kr. 332.122.000“. Í ákvörðunartökublaði bankans 23. september 2008 vegna þessar hækkunar á lánalínu Imon ehf. kom fram að óskað væri eftir láni til að greiða upp „gjaldfallna vaxtagjalddaga á lánum félagsins“, samtals að fjárhæð 170.121.981 krónu. Þar sagði jafnframt: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið illa út úr hræringum undanfarið á fjármálamörkuðum. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 3,75 mö. kr. Kom arðgreiðsla frá Byr þann 11/4 og fór arðurinn til niðurgreiðslu á skuldbindingum Imons, lánið sem var veitt vegna aukningarinnar var greitt vel niður eða um 935 m.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.752.281,- Tryggingar 4.211.035,- (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,6) Veðhlutfall: 89% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Hækkun á lánalínu ... dregið yrði á línuna þann 30/7/2008 og 23/9/2008 til að stemma við gjaldfallna vaxtagjalddaga.“

6.3

Eins og greinir ítarlegar í hinum áfrýjaða dómi var lánssamningur sá sem ákært er vegna í a-lið II. kafla ákæru milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. dagsettur 30. september 2008 og undirritaður af ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, og ákærðu Sigríði Elínu fyrir hönd bankans og MÁ fyrir hönd félagsins. Í upphafsorðum samningsins kom fram að um væri að ræða „langtímalán til 19 mánaða að fjárhæð kr. 5.163.000.000“. Samkvæmt grein 2.1. bar félaginu að endurgreiða lánið í einu lagi í lok lánstímans, 10. maí 2010. Vexti bar þó að greiða 10. maí 2009 og á fyrrnefndum „lokagjalddaga“. Í grein 8.1 var kveðið á um heimild bankans til að fella lán samkvæmt samningnum í gjalddaga „einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar“ við nánar greind skilyrði sem talin voru upp í níu stafliðum. Síðasttalda skilyrðið var svohljóðandi: „Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið skv. gr. 10.2. á að tryggja nema hærra hlutfalli en 98% af markaðsverði hinna veðsettu hlutabréfa skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur, frá dagsetningu tilkynningar veðhafa til veðsala, til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint skal veðhafa heimilt að líta svo á að brotið hafi verið gegn ákvæðum yfirlýsingarinnar.“ Fjallað er um tryggingar í 10. grein samningsins og voru þær tvíþættar. Í fyrsta lagi voru þær samkvæmt grein 10.1 „núverandi allsherjarveð, tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í öðru lagi samkvæmt grein 10.2: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta skv. samningi þessum hefur lántaki sett bankanum að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nv. kr. 250.000.000,- með útgáfu handveðsyfirlýsingar.“

Hinn 30. september 2008 setti Imon ehf. að handveði hin keyptu bréf í Landsbanka Íslands hf. í samræmi við fyrrnefnda grein 10.2 lánssamningsins. Í handveðsyfirlýsingunni sagði meðal annars: „Fjármálagerningarnir eru hér með settir að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem veðsali nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, stendur í við veðhafa ... Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið á að tryggja nema hærra hlutfalli en 56% af markaðsverði hinna veðsettu fjármálagerninga skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint jafngildir það vanskilum á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja og er veðhafa þá heimilt að ganga að hinu handveðsetta í samræmi við handveðsyfirlýsingu þessa ....“

Í samræmi við lánssamninginn frá 30. september 2008 óskaði Imon ehf. eftir því 2. október sama ár að lánið yrði greitt út þann dag og lagt inn á nánar greindan bankareikning félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. Degi síðar, 3. október, var lánsfjárhæðin, að frádregnu 0,25% lántökugjaldi og kostnaði við skjalagerð, 5.150.079.700 krónur, greidd félaginu.

Meðal skjala málsins eru tvö eintök af ákvörðunartökublaði sem útbúið var af Landsbanka Íslands hf. 30. september 2008 vegna umræddrar lánveitingar til Imon ehf. Reyndar er aðeins á öðru eintakinu að finna forsíðu skjalsins en forsíðu og baksíðu á hinu. Á baksíðunni kemur fram að ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, hefði haft umsjón með lánveitingunni af hálfu bankans. Þar var greint frá fimm nýjustu beiðnum Imon ehf. um lánafyrirgreiðslu hjá bankanum. Einnig var lýst viðskiptum félagsins við bankann síðustu tvö ár þar sem vanskil þess voru sögð 175.000.000 króna 29. september 2008. Þá var vísað til ársreiknings félagsins 2006 þar sem meðal annars kom fram að tap á rekstri þess hefði numið 5.000.000 króna og eigið fé þess væri sömu fjárhæðar. Á forsíðu þessa eintaks af ákvörðunartökublaðinu, sem var augljóslega eldra en hitt, var greind fyrirhuguð lánsfjárhæð, 5.163.000.000 krónur, lánstíminn 1,67 ár og aðrir skilmálar lánsins. Dagsetningin „3/10 08“ var handrituð í viðeigandi reit og þar fyrir neðan, þar sem gert var ráð fyrir samþykkt lánveitingarinnar, höfðu ákærða Sigríður Elín og ÁM ritað upphafsstafi sína. Meginmál skjalsins var svohljóðandi: „Óskað er eftir láni til kaupa á bréfum í Landsbankanum nom. 400.000.000 Kaupverð 5.150m.kr. Viðskiptamaður: Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið illa út úr hræringum undanfarið á fjármálamörkuðum. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði og það stendur ágætlega. Núverandi skuldir nema um 3,75 mö.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.759.400,- Tryggingar 4.211.035,- (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,6) Tryggingar 5.269.063,- (miðað við fyrirhugað gengi í samruna við Glitni sem hætt var við) Eftir kaupin Innlend lán 12.359.400.000,- Tryggingar Landsbankinn 5.150.000.000,- Byr 4.211 - 5.269.000.000,- Alls 3.365 - 10.419.063.074,- Veðhlutfall 86-95% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Lán til 20 mánaða Vaxtagreiðsla í maí og síðan ári síðar Reibor + 3%.“ Forsíða hins eintaksins var eins að öðru leyti en því að upphæð hlutabréfanna, sem ætlunin var að kaupa, hafði verið breytt úr 400.000.000 króna í 250.000.000 króna að nafnvirði með því að strika yfir 400 og rita 250 í staðinn. Einnig hafði fjárhæð innlendra lána Imon ehf. eftir hina fyrirhuguðu lántöku félagsins verið leiðrétt með því að strikað hafði verið yfir hana og  í staðinn skrifað 8.992.000.000 króna. Loks hafði ákærði Sigurjón Þorvaldur sett upphafsstafi sína neðst á skjalið. Síðasti formlegi fundur lánanefndar Landsbanka Íslands hf., áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur bankans, var haldinn 24. september 2008 þannig að lánveitingin var afgreidd milli funda eins og sést í „fundargerð Lánanefndar“ 8. október 2008 en þá hafði Fjármálaeftirlitið tekið yfir stjórn bankans svo sem áður greinir.

Síðdegis þriðjudaginn 30. september 2008 keypti verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hlutabréf í bankanum að nafnvirði 250.000.000 króna á genginu 20,5382 af EFL. Samkvæmt því var kaupverðið í viðskiptunum 5.134.550.000 krónur. Uppgjörsdagur var 3. október 2008. Skömmu síðar þennan sama dag seldi verðbréfamiðlunin hlutabréfin til Imon ehf. á genginu 20,60 og nam kaupverðið í þessum síðari viðskiptum því 5.150.000.000 króna. Kom fram að bréfin færu inn á „Geymslusafn“. Dómfelldi SG var skráður miðlari í báðum viðskiptunum og voru þau síðarnefndu tilkynnt Kauphöll Íslands að morgni miðvikudagsins 1. október 2008. Miðað við skráningu 3. október 2008 varð Imon ehf. með framangreindum kaupum níundi stærsti hluthafi í Landsbanka Íslands hf. með 2,2336% hlut.

Landsbanki Íslands hf., sem þá var í greiðslustöðvun og laut stjórn skilanefndar samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, tilkynnti Imon ehf. 26. mars 2009 að hann hefði gengið að handveðsettum stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði á grundvelli heimildar í fyrirliggjandi veðsamningum vegna vanskila á þeim skuldum sem veðið hefði átt að tryggja. Bankinn hafi ákveðið að leysa veðið beint til sín og „að rétt verð fyrir stofnfjárhlutina er 1 kr. fyrir hverja nafnverðskrónu.“ Í innheimtubréfi, sem sent var Imon ehf. sama dag, kom fram að heildarskuld vegna lánsins 30. september 2008 næmi 5.919.578.138 krónum að meðtöldum vöxtum og innheimtuþóknun. Var skorað á félagið að greiða kröfuna innan 14 daga eða semja um hana, en að öðrum kosti yrði hún „innheimt með aðför eða atbeina dómstóla“. Áður, eða 19. mars 2009, hafði lögmaður Imon ehf. tilkynnt bankanum að honum hefði verið falið að kanna réttarstöðu félagsins gagnvart bankanum vegna sölu á eigin bréfum í lok september og byrjun október 2008. Var vísað til þess að viðskiptin hefðu átt sér stað nokkrum dögum áður en stjórn bankans hafði óskað eftir við Fjármálaeftirlitið að bankinn yrði yfirtekinn.

Hinn 10. júní 2009 höfðaði Landsbanki Íslands hf. mál á hendur Imon ehf. til heimtu lánsins ásamt vöxtum og kostnaði en málið mun hafa verið fellt niður. Á árinu 2011 krafðist bankinn þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta en þeirri kröfu var hafnað af dómstólum. Fyrir liggur bréf Landsbankans hf. til embættis sérstaks saksóknara 4. nóvember 2011. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir skuldastöðu Imon ehf. við Landsbanka Íslands hf. og kom þar fram að heildarskuld félagsins næmi 12.446.035.460 krónum miðað við þennan dag. Samkvæmt ársreikningi Gruppen ehf. (áður Imon ehf.) fyrir árið 2013, sem lagður var fram af hálfu ákærðu Sigríðar Elínar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, voru skuldir félagsins í árslok 2013 rúmar átta milljónir og eigið fé tæpar 69 milljónir króna. Hins vegar segir í bréfi LBI hf., áður Landsbanka Íslands hf., til embættis sérstaks saksóknara 5. maí 2014 að félagið væri eigandi kröfu á hendur Imon ehf. á grundvelli lánssamningsins 30. september 2008 og hefði staða hennar 28. apríl 2014 numið 10.989.002.822 krónum, að meðtöldum vöxtum, og hefði krafan ekki verið afskrifuð. Yngri upplýsingar sýnast ekki liggja fyrir í gögnum málsins.

6.4

Eins og greinir ítarlega í hinum áfrýjaða dómi voru þau viðskipti sem ákært var fyrir í III. kafla ákæru framkvæmd með þeim hætti að verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. keypti síðdegis föstudaginn 3. október 2008 hlutabréf í bankanum að nafnvirði 115.000.000 króna á genginu 19,09255 af EFL. Nokkrum mínútum síðar keypti verðbréfamiðlunin hlutabréf í bankanum að nafnvirði 85.000.000 króna sömuleiðis af EFL á genginu 18,99285. Samkvæmt þessu nam kaupverðið í viðskiptunum tveimur samtals 3.810.035.500 krónum. Svo til samstundis seldi verðbréfamiðlunin hlutabréfin til Imon ehf. á genginu 19,11 og var kaupverðið í þeim viðskiptum því 3.822.000.000 króna. Sama dag voru tilkynnt þrenn viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. til Kauphallar Íslands sem tóku samtals til 200.000.000 hluta í bankanum og er óumdeilt að hér hafi verið um að ræða sömu viðskipti og lýst er að framan.

Í frétt sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 4. október 2008, kom fram að mikil viðskipti hefðu verið með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. daginn áður og hefði gengi bréfanna hækkað um 4,2%. Heildarviðskipti á hlutabréfamarkaði hafi numið „tæpum 18,7 milljörðum króna.“ Þar af hafi velta með bréf í Landsbanka Íslands hf. numið „11,3 milljörðum“ og af þeim viðskiptum „skáru utanþingsviðskiptin sig úr en þau námu 8,2 milljörðum króna.“ Síðan sagði í fréttinni: „Tvenn utanþingsviðskipti með bréf bankans upp á tæpa 3,8 milljarða skáru sig úr.“

Meðal gagna málsins eru ódagsett og óundirrituð drög að lánssamningi milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. þar sem áformað var að félaginu yrði veitt „langtímalán til 19 mánaða að fjárhæð kr. 3.831.600.000.“ Einnig liggur fyrir óundirritað ákvörðunartökublað vegna láns að sömu fjárhæð að beiðni Imon ehf. Þar sagði að óskað væri „eftir láni til kaupa á bréfum í Landsbankanum nom. 200.000.000“ og kaupverð sagt „3.822m.kr.“. Á skjalinu kom fram að lagt væri til að beiðnin yrði samþykkt en ekkert var skráð í þann reit þar sem gert var ráð fyrir áritun um samþykki fyrir lánveitingunni. Þótt hvorki hafi verið gengið frá þessum skjölum né fjármögnun viðskiptanna fór salan fram og tilkynnt var um viðskiptin til Kauphallar Íslands eins og ákært er fyrir í III. kafla ákærunnar.

Imon ehf. hefur ekki greitt kaupverð vegna þessara viðskipta. Í áðurnefndu bréfi LBI hf. til embættis sérstaks saksóknara 5. maí 2014 sagði að félagið væri eigandi kröfu á hendur Imon ehf. á grundvelli viðskipta með hluti í Landsbanka Íslands hf. 3. október 2008 og væri staða hennar miðað við 28. apríl 2014 8.299.840.814 krónur. Ekki liggja fyrir í gögnum málsins frekari upplýsingar um afdrif umræddrar kröfu.

IX

Fyrir héraðsdómi var auk ákærðu teknar skýrslur af 28 vitnum. Hæstiréttur ákvað að heimila skýrslutökur við endurupptöku málsins. Af hálfu ákæruvaldsins var þess óskað að teknar yrðu skýrslur af ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu auk vitnisins ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði

Ákærði Sigurjón Þorvaldur bar í meginatriðum á sama veg og rakið er í héraðsdómi. Þar á meðal að stjórnskipulag Landsbanka Íslands hf. hefði verið með öðrum hætti en í hinum viðskiptabönkunum vegna stöðu eigenda Samson eignarhaldsfélags ehf. sem farið hefði með stærstan eignarhlut í bankanum. Það hefði þýtt að endanlegt vald um lánveitingar hefði legið hjá bankastjórunum tveimur en ekki lánanefnd stjórnar. Bankastjórar hefðu einnig samið lánareglurnar og samþykkt en þær hefðu ekki verið bornar undir bankaráðið til samþykktar.

Ákærði staðfesti fyrri framburð þess efnis að hann hefði allan septembermánuð 2008 vitað af áhuga eiganda Imon ehf. á kaupum á bréfum í bankanum og hefði þeim upplýsingum verið miðlað til hans af ÁM forstöðumanni á fyrirtækjasviði bankans. Þá bar hann á sama veg og fyrir héraðsdómi um þýðingu þess að stærsti eigandi Byrs sparisjóðs, Imon ehf., hefði með kaupum á hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. orðið stór hluthafi í bankanum. Áhugi hefði verið á því innan Landsbanka Íslands hf. að sameinast Byr sparisjóði eftir að sameiningaráform sparisjóðsins við Glitni banka ehf. runnu út í sandinn sunnudaginn 28. september 2008. Hafi sá möguleiki meðal annars verið ræddur á bankaráðsfundi mánudaginn 29. september 2008. Slík sameining hefði falið í sér styrkingu á eiginfjárgrunni bankans auk fjölþættrar hagræðingar og ávinnings fyrir hann. Þau áform hefðu verið ein forsenda viðskiptanna með hlutabréfin þriðjudaginn 30. september 2008. Benti ákærði sérstaklega á að Byr sparisjóður hefði ólíkt öðrum fjármálafyrirtækjum borið óverulega áhættu af viðskiptum með hlutabréf. Staðfesti ákærði að hann vissi að verið væri að selja bréf til Imon ehf. úr eigu bankans enda hefði bankinn ekki getað lánað fyrir kaupum bréfa á markaði vegna svonefndrar 10% reglu.

Þá rakti ákærði ítarlega þau nýju gögn sem hann lagði fram um sameiningarviðræður Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs og verðmat á sparisjóðnum á þeim tíma.

Hann lagði áherslu á að þær ráðstafanir sem honum eru gefnar að sök í II. og III. kafla ákærunnar hefðu meðal annars verið gerðar í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárgrunn bankans.

Hvað varðar eftirlit með viðskipti EFL með eigin bréf tók ákærði fram að hann hefði verið upplýstur daglega um nettóhreyfingar en á vikulegum fjármálanefndarfundum hafi hann verið upplýstur um heildareign bankans í eigin bréfum. Þar fyrir utan hafi yfirmaður áhættustýringar reglulega kynnt skýrslur um 10% reglu 29. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Að öðru leyti hefði ekki verið virkt eftirlit bankastjórnar með viðskiptum bankans með eigin bréf. Ákærði ítrekaði jafnframt þann fyrri framburð sinn að hann kannaðist ekki við að hafa mælt fyrir um þau viðskipti sem ákært væri fyrir í III. kafla ákæru í ætluðu samtali við ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, að kvöldi fimmtudagsins 2. október 2008.

Aðspurður kvaðst ákærði Sigurjón Þorvaldur fyrst hafa áttað sig á því síðdegis föstudaginn 3. október 2008 að mögulega stefndi í þrot bankans. Um þá helgi hefðu þó skapast vonir til að því mætti afstýra en þær að engu orðið mánudaginn 6. október og fyrirsvarsmenn bankans í framhaldinu skilað inn starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins.

Ákærða Sigríður Elín bar jafnframt í meginatriðum á sama veg og hún gerði fyrir héraðsdómi. Hún áréttaði að hún hafi talið lánveitinguna til Imon ehf. hagfellda fyrir Landsbanka Íslands hf. og að hún hafi hvorki komið að ákvörðun um viðskiptin þar að baki né þekkt að neinu verulegu til starfsemi verðbréfasviðs bankans. Hún tók sérstaklega fram að hún hefði hvorki starfaði á verðbréfasviði bankans né haft aðkomu eða heimildir þar enda hefði það verið brot á reglum fjármálafyrirtækja ef hún, forstöðumaður fyrirtækjasviðs, hefði skipt sér af því sem fram fór á verðbréfasviði. Að morgni mánudags 29. september 2008 hafi hún verið bjartsýnni en áður um framtíð bankans og styrkingu fjármálakerfisins í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um kaup á hlutum í Glitni banka hf. og að sú bjartsýni hafi endurspeglast á bankaráðsfundinum sama dag. Þar hefði verið rætt um sameiningu við Byr sparisjóð sem lið í því að styrkja eiginfjárgrunn bankans og rekstur hans til framtíðar. Ef til greiðslufalls hefði komið hjá Imon ehf. hefði bankinn gengið að undirliggjandi tryggingum en hún hefði talið eignarhluti í Byr áhugaverða eign meðal annars í ljósi þess sem fram hefði komið á framangreindum bankaráðsfundi. Án þess að hafa um slíkt beina vitneskju hefði hún gengið út frá því að um hefði verið að ræða lántöku til kaupa á eigin bréfum bankans. Þá skoðun byggði hún meðal annars á því að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði aldrei heimilað lánveitingu fyrir kaupum á öðrum landsbankabréfum nema þeirra eigin. Aðspurð taldi hún veðhlutfallið við lánveitinguna hátt en hún hafi litið til þess að þar sem um sölu á eigin bréfum væri að ræða gæti veðhlutfallið verið hærra en ella. Hún tók fram að hún hefði ekki sjálf metið verðmæti veða í bréfum Byrs sparisjóðs við ákvörðun um lánveitingu 30. september 2008. Hún hefði treyst því mati ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði sem fram kæmi á ákvörðunartökublaði vegna lánveitingarinnar. Um þýðingu vanskila Imon ehf. við bankann, sem gerð voru upp í aðdraganda lánveitingarinnar 30. september 2008, tók hún fram að hún hefði eins og í tilviki annarra sambærilegra eignarhaldsfélaga viljað hafa virkt eftirlit og í því skyni samið um fleiri en færri vaxtagjalddaga á lánum þeirra. Með því hefði skapast aukið aðhald en það hefði hins vegar leitt til þess að semja hefði þurft reglulega um uppgjör ógreiddra vaxta ýmist með greiðslu arðs, frekari lánveitingu bankans eða beitingu veðkalla. Aldrei hefði hvarflað að henni að tilkynna lánveitinguna til Imon ehf. 30. september 2008 til markaðarins og markaðurinn sem slíkur hefði ekki verið „til í mínum huga“.

Vitnið ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, bar í meginatriðum á sama veg og hann gerði fyrir héraðsdómi og benti á að 12 ár væru liðin. Hann myndi lítið umfram það sem hann hefði áður borið um það hvernig hefði verið staðið að því mati sem kemur fram á ákvörðunartökublaði vegna lánveitinga til Imon ehf. sem fjallað er um í ákæru. Hann staðfesti að hann hefði ekki sjálfur gert verðmat á Byr sparisjóði en á þessum tíma hefði verið fyrir hending þekking innan lánasviðs Landsbanka Íslands hf. á verðmæti bréfa Byrs sparisjóðs bæði vegna fyrri lána til Imon ehf. sem og til annarra félaga, þar sem stofnfjárbréf Byrs sparisjóðs hefðu verið sett til tryggingar. Þá benti hann á að einnig hefði verið horft til mögulegrar sameiningar Landsbanka Íslands hf. og Byrs sparisjóðs en samkeppni hefði verið meðal bankanna um að sameinast Byr sparisjóði. Þá ítrekaði hann fyrri framburð þess efnis að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði hringt í sig að kvöldi fimmtudagsins 2. október 2008 og spurt hvort fyrir hendi væri veðrými til frekari lánveitinga til Imon ehf. vegna kaupa á bréfum í bankanum. Hafi hann talið svo vera og sett í kjölfarið af stað vinnu við skjalagerð vegna fyrirhugaðrar lánveitingar. Hann hefði talið sig vita að bréfin sem Imon ehf. keypti í bankanum umrædd skipti hefðu verið bréf sem bankinn átti sjálfur enda hefði lánveitingin aldrei verið veitt ef kaupa hefði þurft hlutabréfin á markaði. Enn fremur staðfesti vitnið efni bréfs síns 15. febrúar 2016 til lögmanna ákærðu þar sem rakin eru dæmi um lánveitingar bankans þar sem um há veðhlutföll var að ræða.

X

1

Eftir að málið hafði verið dómtekið óskaði Hæstarétti, með vísan til 168. gr. laga nr. 88/2008, eftir upplýsingum með bréfi 22. febrúar 2021 um hvort fyrir lægi kvörtun frá dómfellda SG til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 456/2014. Ef svo væri var jafnframt óskað eftir upplýsingum um afstöðu íslenska ríkisins til þeirra kvartana. Með bréfi þann sama dag frá ákæruvaldinu var staðfest að dómfelldi hefði lagt fram kvörtun til dómstólsins og meðfylgjandi var einhliða yfirlýsing íslenska ríkisins í máli hans en tekið fram að hún hefði ekki verið leidd til lykta af dómstólnum. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 viðurkennir það að brotinn hafi verið á dómfellda réttur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar 2020 í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi. Í yfirlýsingunni er jafnframt vísað til þess að dómfelldi geti sótt um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 456/2014. Af 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu leiðir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 stendur að sínu leyti óraskaður í tilfelli dómfellda SG hvað sem líður lyktum málsins fyrir Mannréttindadómstólnum.

Málið var endurupptekið í Hæstarétti miðvikudaginn 3. mars 2021, sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um framangreind gögn og endurflytja málið. Var málið síðan dómtekið að nýju.

Forsendur Hæstaréttar fyrir að hafna frávísunarkröfu ákæruvaldsins í málinu og fallast á endurupptöku þess á hendur ákærðu leiða hins vegar til þess að dómfelldi SG á að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum sambærilegan rétt til endurupptöku málsins gagnvart sér leiti hann eftir því. Að þessu virtu ber að árétta þá grunnreglu sakamálaréttarfars, sbr. meðal annars ákvæði þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, að sönnunargildi framburðar dómfellda SG fyrir héraðsdómi verður ekki endurmetið við meðferð þessa máls. Sú sérstaka staða sem að lögum hefur skapast vegna þessarar takmörkuðu endurupptöku málsins setur réttinum frekari skorður en ella væri við úrlausn Hæstaréttar um sakargiftir á hendur ákærðu einum.

2

Samhengis vegna er nauðsynlegt að gera grein fyrir ákæruefni samkvæmt I. kafla ákærunnar en sem fyrr segir er leyst úr því samhliða máli þessu með dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2019. Áður hefur verið greint frá því að samkvæmt I. kafla er ákærða Sigurjóni Þorvaldi ásamt þremur öðrum gefin að sök markaðsmisnotkun í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. með tilboðum og viðskiptum með hlutabréf í félaginu fyrir eigin reikning bankans í svonefndum sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Í ákærunni kemur fram að „nettó viðskipti“ EFL hafi á þessu tímabili tekið til samtals 2.268.182.124 hluta í bankanum og numið alls 56.240.113.876 krónum eða 47,2% af heildarveltu sjálfvirkra pörunarviðskipta í Kauphöllinni þennan tíma. Samkvæmt yfirliti í ákæru yfir viðskiptin jukust þau til mikilla muna 29. september 2008, sama dag og ljóst varð að ríkið hygðist eignast 75% hlut í Glitni banka hf., og voru mjög mikil þá fjóra daga sem á eftir fylgdu en viðskipti með bréfin fóru síðast fram í Kauphöllinni 3. október sama ár. Samkvæmt ákæru tóku „nettó viðskipti“ EFL til samtals 685.059.427 hluta í bankanum þessa fimm daga eða 78,8% af heildarveltu sjálfvirkra pörunarviðskipta í Kauphöllinni þá daga. Í ákærunni koma enn fremur fram upplýsingar um gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Í upphafi þess var gengið 43,40 krónur á hlut en fór síðan lækkandi og var komið niður í 21,50 krónur í lok mánudagsins 29. september 2008. Næstu þrjá daga lækkaði gengið og var 19,10 krónur í lok fimmtudags 2. október sama ár, en hækkaði svo daginn eftir og endaði í 19,90 krónum. Reyndist föstudagurinn 3. október 2008 síðasti dagurinn þar sem viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fóru fram í Kauphöllinni.

Í I. kafla ákærunnar er því lýst að þessi miklu kaup bankans hafi leitt til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá honum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 eins og hún hljóðaði þá, reglna um flöggunarskyldu, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 108/2007 og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbanka Íslands hf., sökum þágildandi reglna 4. og 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, hafi þurft að losa bankann við bréfin til að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á eigin hlutum í félaginu. Í ákærunni kemur fram að þetta hafi meðal annars verið gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar bankans, en tvenn þessara viðskipta eru til meðferðar í máli þessu, sbr. II. og III. kafla ákærunnar.

Í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 var ákærði Sigurjón Þorvaldur og þrír aðrir fyrrverandi starfsmenn bankans sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun vegna alls ákærutímabilsins samkvæmt I. kafla ákærunnar. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt ár og sex mánuði. Eins og að framan er rakið hefur verið fallist á endurupptökubeiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar vegna málsins og er það nú rekið sem hæstaréttarmál nr. 35/2019 sem dæmt er samhliða máli þessu.

3

Ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu eru samkvæmt a-lið II. kafla ákæru gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 30. september 2008 í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu með því að hafa farið „út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf. ... 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hafði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur.“ Í ákæru er því síðan lýst með nánari tilvísunum í reglur bankans hvernig umrædd lánveiting hafi í einstökum atriðum brotið í bága við skráðar reglur sem um starfsemi bankans giltu og gerð var grein fyrir hér að framan.

Við meðferð hins endurupptekna máls fyrir Hæstarétti var því hins vegar lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins að fallið væri frá þeim hluta verknaðarlýsingar í a-lið II. kafla ákæru að með lánveitingunni hafi verið brotið í bága við téðar reglur Landsbanka Íslands hf. Eftir sem áður stendur verknaðarlýsing ákæru þess efnis að ákærðu hafi gerst sek um umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga.

Skilyrði þess að háttsemi teljist refsiverð samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga er að viðkomandi aðili hafi verið í aðstöðu til að gera eitthvað sem annar verður bundinn við og að hann hafi misnotað sér þá aðstöðu. Mat á því skilyrði fer ekki aðeins fram með vísan til brota á heimildum samkvæmt skráðum reglum, en sé slíkum formlegum viðmiðum ekki til að dreifa þarf ákæruvaldið þó að sýna fram á veruleg eða gróf frávik frá þeim starfsháttum sem gera mátti kröfu um að fylgt væri. Þá er til þess að líta að til þess að framangreind háttsemi teljist refsiverð samkvæmt 249. gr. laganna er jafnframt gerð krafa um að fyrir hendi hafi verið auðgunarásetningur þess sem sakaður er um slíkt brot, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Til þess að það skilyrði teljist uppfyllt er almennt viðurkennt að nægilegt sé að sýnt sé fram á að háttsemin hafi valdið verulegri fjártjónshættu fyrir þann sem bundinn varð af ráðstöfun. Til sakfellingar þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Hér að framan hefur ítarleg grein verið gerð fyrir því undir hvaða kringumstæðum lánveiting sú sem ákært er fyrir í a-lið II. kafla ákæru átti sér stað þriðjudaginn 30. september 2008. Þá hefur verið fjallað um þær lántökur Imon ehf. hjá Landsbanka Íslands hf. sem átt höfðu sér stað fyrir hina umdeildu lánveitingu sem og fjárhagslega stöðu þess félags á umræddum tíma. Einnig hefur verið gerð grein fyrir stöðu Byrs sparisjóðs og þeirra samtíma upplýsinga sem tiltækar voru um líklegt verðmæti hans 30. september 2008. Enn fremur hefur verið fjallað um stöðu Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímamarki og þá meðal annars í samhengi við þá viðsjárverðu stöðu sem hafði skapast á fjármálamörkuðum á ofanverðum septembermánuði 2008.

Nánari málsatvik sem að þessum ákærulið snúa eru að mestu óumdeild. Ákærða Sigurjóni Þorvaldi og vitninu ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, ber í meginatriðum saman um aðdraganda þess að stofnað var til viðskipta 30. september 2008 um kaup Imon ehf. á 250.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. af bankanum sjálfum. Hefur framburður ákærða Sigurjóns Þorvaldar frá upphafi verið á þann veg að hann hafi verið samþykkur umræddum viðskiptum og tilhögun þeirra, sem hann hafi talið bankanum hagstæð, þar með talið fjármögnun af hálfu bankans með þeim tryggingum sem boðnar voru fram af hálfu Imon ehf. Þá hefur ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu jafnframt borið saman um forsendur og samþykkt umræddrar lántöku þó þannig að ákærða Sigríður Elín telur sig hvorki hafa áritað ákvarðanatökublaðið né lánssamninginn fyrr en föstudaginn 3. október og ákærði Sigurjón Þorvaldur hefur ekki getað fullyrt með vissu hvenær hann skrifaði undir ákvarðanatökublaðið en telur að það geti hafa gerst enn síðar. Áður hefur verið rakin yfirlýsing ákæruvaldsins undir rekstri málsins hér fyrir Hæstarétti á þá leið að við lánveitinguna hafi verið gætt þeirra skráðu reglna sem um hana giltu í starfsemi bankans. Að henni virtri verður ekki talið að misræmi um einstakar dagsetningar í þessu sambandi skipti máli við úrlausn ákæruefnisins og verður lagt til grundvallar að ákvörðun um lánið hafi verið tekin þriðjudaginn 30. september 2008, svo sem miðað er við í ákæru og hafi hið ætlaða brot því verið fullframið þann dag.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms segir að ákærðu hafi bæði verið í aðstöðu til að skuldbinda Landsbanka Íslands hf. vegna stöðu sinnar hjá bankanum. Þá liggi fyrir að þau hafi samþykkt að veita Imon ehf. umrætt lán til kaupa á 250.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. sem voru í eigu bankans sjálfs og höfðu verið keypt í umfangsmiklum viðskiptum sem fjallað er um í I. kafla ákæru. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að við mat á því hvort háttsemi ákærðu hafi haft í för með sér verulega fjártjónshættu fyrir Landsbanka Íslands hf. hafi skipt máli að bréfin sem seld voru Imon ehf. höfðu áður verið keypt af bankanum með tilheyrandi fjárútlátum og þau handveðsett honum, og bankinn því getað leyst þau til sín á ný hefði komið til vanefnda á lánssamningnum. Þá hefði ákæruvaldið ekki sýnt fram á að veðrými allsherjarveðs bankans í stofnfjárhlutum Imon ehf. í Byr sparisjóði, sem jafnframt voru sett til tryggingar endurgreiðslu lánsins, hafi á þessum tíma verið fullnýtt vegna annarra skuldbindinga Imon ehf. við bankann. Við mat á tryggingum taldi héraðsdómur að líta yrði til þeirra gagna sem fyrir lágu um gengi stofnfjárbréfanna á þeim tíma sem lánveitingin fór fram. Þótt ákvörðun um lánveitinguna hefði verið tekin á viðsjárverðum tímum í íslensku efnahagslífi væri ekki unnt að leggja til grundvallar að ákærðu hefðu getað séð það fyrir að Fjármálaeftirlitið myndi taka yfir rekstur Landsbanka Íslands hf. með þeim afleiðingum að hlutabréf í bankanum yrðu verðlaus. Væri því ósannað að ákærðu hefðu með háttsemi sinni stefnt fé bankans í verulega hættu þannig að fullnægt væri skilyrðum auðgunarásetnings samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga. Þá var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að við lánveitinguna hefði hvorki verið brotið í bága við starfsreglur bankaráðs né útlánareglur bankans og því ekki sýnt fram á að ákærðu hefðu misnotað aðstöðu sína í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Væri því ekki fullnægt skilyrðum til að ákærðu yrði gerð refsing samkvæmt þeirri grein og þau sýknuð af kröfum ákæruvalds þar um.

Þótt leggja beri til grundvallar, meðal annars með hliðsjón af fyrrnefndri yfirlýsingu ákæruvaldsins, að ákærðu sem höfðu í reynd undir framangreindum kringumstæðum sameiginlega lítt takmarkaða heimild til þess að taka ákvarðanir um lán og ráðstafa þannig hagsmunum Landsbanka Íslands hf. hafi ekki brotið gegn skráðum útlánareglum við ákvörðun um veitingu umrædds láns til Imon ehf. 30. september 2008, haggaði það ekki skyldum þeirra sem stjórnenda til þess að haga hvers kyns ákvörðunum með hagsmuni bankans að leiðarljósi og í því sambandi fara eftir eðlilegum varúðarsjónarmiðum, þar á meðal við mat á tryggingum, sbr. í dæmaskyni dóma Hæstaréttar frá 10. mars 2016 í máli nr. 781/2014, frá 5. ágúst 2014 í máli nr. 525/2015 og frá 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011.

Áður er rakið að téð lán nam hárri fjárhæð, verulega umfram heimildir fyrirtækjasviðs samkvæmt lánareglum, og ber skýrslum fyrir dómi saman um að veðsetningarhlutfall þeirra hluta sem settir voru til tryggingar láninu hafi verið óvenjuhátt, eða 86 til 95%. Gat lækkun á þeim hlutum sem settir voru til tryggingar láninu, hvort heldur á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. eða stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, því fyrirsjáanlega leitt til þess að tryggingar fyrir láninu yrðu ónógar og taka þyrfti ákvörðun um hvort gjaldfella bæri lánið og ganga að tryggingum að því marki sem þær hrykkju til. Gat talist tvísýnt á þeim tíma sem hér um ræðir að gera ráð fyrir því að Imon ehf. gæti í nánustu framtíð lagt fram frekari tryggingar fyrir láninu.

Til þess ber á hinn bóginn að líta að samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldinu um að fullnægt sé öllum skilyrðum fyrir því að framin hafi verið umboðssvik í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Eykur það kröfur til sönnunar undir þessum kringumstæðum að því er ekki lengur haldið fram af ákæruvaldsins hálfu að skráðar reglur bankans um lánveitingar hafi verið brotnar. Eru slík formleg viðmið því að meginstefnu án þýðingar við mat á því hvort ákærðu hafi í umrætt sinn misnotað aðstöðu sína og gert sér ljóst að þau stefndu fé bankans þar með í verulega hættu, svo sem þeim er gefið að sök í a-lið II. kafla ákæru.

Fram er komið að eftir tilkynningu Seðlabanka Íslands um fyrirhuguð kaup íslenska ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008 hafi verið lögð á það rík áhersla af hálfu stjórnenda Landsbanka Íslands hf. að styrkja eiginfjárgrunn bankans með ýmsum ráðstöfunum og var sú stefna meðal annars rædd á fundi bankaráðs þann dag, svo sem áður er rakið. Verður einnig að miða við að viðleitni ákærðu í þessa veru hafi verið ætlað að þjóna lögmætum hagsmunum bankans við þær viðsjárverðu aðstæður sem komnar voru upp í íslenska bankakerfinu svo sem þau hafa haldið fram. Umræddur lánssamningur við Imon ehf. var þáttur í sölu á eigin hlutum Landsbanka Íslands hf. og hafði salan í för með sér að þau verðmæti sem fólust í eigin hlutunum töldust nú til eiginfjár í reikningum bankans. Styrktist eiginfjárgrunnur bankans þar af leiðandi. Þá er ekki ástæða til að draga í efa þann framburð ákærða Sigurjóns Þorvaldar að ráðstöfunin hafi einnig átt að þjóna þeim tilgangi að auka líkur á sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Byrs sparisjóðs sem hefði hugsanlega leitt til frekari og varanlegri styrkingar á eigin fé bankans.

Við mat á tryggingum Landsbanka Íslands hf. vegna lánveitingarinnar 30. september 2008 verður fyrst og fremst að horfa til fyrrnefnds ákvarðanatökublaðs sem útbúið var af ÁM, sem var forstöðumaður á fyrirtækjasviði og sérfræðingur á sviði lánamála, og því mati bankans sem þar kom fram á tryggingum vegna lánsins. Samkvæmt því skyldi Imon ehf. eins og áður segir annars vegar setja að handveði hin keyptu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og hins vegar allsherjarveð í stofnfjárbréfunum í Byr sparisjóði. Fram kom á ákvarðanatökublaðinu að umræddan dag hafi heildarskuldir Imon ehf. við bankann, að teknu tilliti til hinnar nýju lántöku, numið samtals 8.922.400.000 krónum. Samkvæmt ákvörðunartökublaðinu taldist verðmæti hlutabréfanna í bankanum sama og kaupverð þeirra sem miðaðist við gengið 20,60 krónur á hlut og nam markaðsverð hinna 250.000.000 hluta því 5.150.000.000 króna.

Að því er snerti verðmæti stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði var það sett fram með tvennum hætti. Tók hærri upphæðin, 5.269.063.000 krónur, mið af því gengi sem vitnið ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, taldi að lagt hefði verið til grundvallar í sameiningarviðræðum sparisjóðsins við Glitni banka hf. sem ítarleg grein er gerð fyrir í kafla 5. lið VIII. kafla. Lægri upphæðin, 4.211.035.000 krónur, miðaðist við gengi stofnfjárbréfanna í síðustu þekktu viðskiptum með þá 22. ágúst 2008, en ekki er fram komið að áðurnefndur starfsmaður hafi á þeim tíma þekkt umfang þeirra viðskipta. Hins vegar liggur fyrir að lokað var fyrir viðskipti með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar Byrs sparisjóðs í hlutafélag og orðróms um sameiningu við annað fjármálafyrirtæki. Samkvæmt þessum forsendum nam veðhlutfallið í stofnfjárbréfunum sem sett voru að allsherjarveði 30. september 2008 86 til 95% og var ónýtt veðrými því á bilinu 500.000.000 til 1.500.000.000 króna eftir því hvort litið var til neðri eða efri marka matsins.

Þegar tekin er afstaða til umrædds mats ÁM verður að taka mið af þeim upplýsingum sem lágu fyrir á þeim degi þegar lánveitingin var afráðin. Er á það fallist með héraðsdómi að útilokað sé að ákærðu hafi getað séð fyrir þriðjudaginn 30. september 2008 þá atburðarás sem á eftir fór næstu daga og vikuna og lyktaði með falli bankans. Andstætt því sem til dæmis átti við í þeim málum sem leyst var úr með dómum Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 og 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 verður að leggja til grundvallar að ákærðu hafi ekki brotið skráðar reglur bankans við lánveitinguna auk þess sem settar voru frekari tryggingar fyrir henni en þau eigin bréf sem voru andlag viðskiptanna.

Um reglur bankans hefur þegar verið fjallað. Hins vegar þarf að leysa úr því hvort ákærðu hafi, á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu á ákvarðanatökublaðinu sem og eigin þekkingar sem stjórnendur bankans, mátt reikna með því að í umræddu allsherjarveði í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði fælist trygging fyrir láninu umfram þau eigin bréf bankans sem voru andlag viðskiptanna.

Fyrst er til þess að líta að undir rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti voru af hálfu ákærða Sigurjóns Þorvaldar lögð fram gögn frá 19. til 28. september 2008 um sameiningarviðræður Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs. Fyrir gögnum þessum hefur verið gerð rækileg grein í 5. lið VIII. kafla. Þau staðfesta það sem fram kom í meðferð málsins fyrir héraðsdómi og vitnið ÁM forstöðumaður á fyrirtækjasviði endurtók í skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að viðræður um sameiningu umræddra fjármálafyrirtækja hafi verið vel á veg komnar. Í þeim hefði verið byggt á því að verðmæti Byrs sparisjóðs í sameinuðu félagi lægi mjög nærri því sem miðað var við sem efri mörk verðmætis stofnfjárbréfanna á ákvarðanatökublaði vegna lánveitingarinnar. Eins og rakið hefur verið runnu viðræðurnar út í sandinn helgina 27. til 28. september 2008 í kjölfar þess að samkomulag varð um það að íslenska ríkið yrði eigandi 75% hlutafjár í Glitni banka hf. Umrædd viðræðuslit munu í sjálfu sér ekkert hafa haft með Byr sparisjóð að gera og er óvarlegt að ganga út frá því að ákærðu hafi mátt gera ráð fyrir að atburðir þeirrar helgar myndu leiða til verulegrar og varanlegrar lækkunar á virði stofnfjárbréfa Byrs sparisjóðs sem hélt raunar áfram starfsemi fram á árið 2010.

Fyrir dómi hefur ákærði Sigurjón Þorvaldur borið að áhugi hafi verið fyrir hendi hjá öðrum fjármálafyrirtækjum á að sameinast Byr sparisjóði eftir að sameiningaráform hans við Glitni banka hf. urðu að engu. Því hafi ráðið sterk eiginfjárstaða sparisjóðsins og óveruleg áhætta hans af þróun hlutabréfamarkaða. Sú staðhæfing fær stoð í kynningu Glitnis banka hf. 22. september 2008 fyrir starfsmenn bankans um samrunaviðræður félagsins við Byr sparisjóð. Er jafnframt fram komið að sameining við sjóðinn hafi verið talinn kostur í stöðunni fyrir Landsbanka Íslands hf. líkt og áður greinir um umræður á bankaráðsfundi 29. september 2008. Þá eru ekki efni til að draga í efa þann framburð ákærða Sigurjóns Þorvaldar að þriðjudaginn 30. september hafi enn verið litið á fyrirhuguð kaup ríkisins á hlut í Glitni banka hf. sem hluta af viðleitni til endurskipulagningar íslensks fjármálakerfis til framtíðar litið. Bar ákærða Sigríður Elín á sama veg í skýrslutöku hér fyrir dómi.

Við mat á þeirri stöðu sem uppi var við ákvörðun um lánveitinguna 30. september 2008 verður að lokum að líta til þess að fyrir liggur að umræddir stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði höfðu áður verið notaðir til trygginga á lánum Landsbankans, bæði til Imon ehf. og annarra lántakenda. Einnig kom fram að síðasta gengi Byrs sparisjóðs í viðskiptum 22. ágúst 2008 hefði verið 1,6 og að Capacent hefði verðmetið sparisjóðinn 31. mars 2008 á 57.500.000.000 króna. Svipar þessum tveimur viðmiðum til lægra matsins á fyrrnefndum ákvörðunartökublöðum um verðmæti trygginga í Byr sparisjóði við þau viðskipti sem ákært er fyrir í II. og III. kafla ákærunnar. Er því ekki ósennilegur sá framburður vitnisins ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði fyrir dómi að á þessum tíma hafi verið fyrir hendi þekking innan fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. á verðmæti stofnfjárbréfa sjóðsins. Verður jafnframt ályktað að ákærðu hafi mátt treysta því að slík þekking hafi verið fyrir hendi.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 442/2011 kemur jafnframt fram að eigið fé Byrs sparisjóðs, samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2008, hafi numið rúmum 48.000.000.000 króna. Hafði það rýrnað um 16,1% frá áramótum en þó aukist um rúma þrjá milljarða frá 30. júní 2008. Hvað sem líður almennri þekkingu fjárfesta hvað þetta varðar á þeim tíma styður þetta frekar réttmæti þess mats sem fram kom á ákvörðunartökublaði vegna lántökunnar. Af framangreindu gættu verður ekki ályktað á þann veg að mat vitnisins ÁM á fyrrgreindu ákvörðunartökublaði hafi verið rangt eða að ákærðu hafi mátt vera það ljóst.

            Samkvæmt framangreindu er ekki komin fram næg sönnun, sbr. 1. mgr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, um að ákærðu hafi mátt vera ljóst að engin viðbótartrygging væri fyrir lánveitingunni og því borið að synja henni. Svo sem áður greinir voru þau innan formlegra heimilda sinna þegar þau tóku ákvörðun um að veita lánið og eru skýringar þeirra á tilgangi viðskiptanna og lánveitingunni í sjálfu sér ekki ósennilegar með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru þriðjudaginn 30. september 2008. Að öllu þessu virtu er það niðurstaða réttarins að ekki liggi fyrir að ákærðu hafi við umrædda ákvörðun mátt vera ljóst að með henni væru þau að stofna hagsmunum Landsbanka Íslands hf. í hættu eða gætu gert það þannig að líta beri svo á að þau hafi misnotað af ásetningi aðstöðu sína hjá bankanum með því að veita Imon ehf. lán það sem hér um ræðir og með því gerst brotleg við 249. gr. almennra hegningarlaga, svo sem þeim er gefið að sök í a-lið II. kafla ákærunnar. Af þessari ástæðu verða ákærðu sýknuð af þessum ákærulið.

4

Ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu er í b. lið II. kafla ákæru gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á fyrrgreindum 250.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 30. september 2008 fyrir 20,60 krónur á hlut. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallar Íslands 1. október 2008 hafi verið „ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2,23% útgefins hlutafjár í Landsbankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu.“ Þá er í ákæru vísað til þess að markaðsáhætta af hlutabréfunum hafi ekki færst frá Landsbanka Íslands hf. til Imon ehf. þar sem bankinn hefði fjármagnað kaupin að fullu með lánveitingu og lánið aðeins verið tryggt með veði í hinu selda hlutafé og allsherjarveði í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hefði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur hjá bankanum. Þar sem fjárfestar hefðu ekki verið upplýstir um skilmála þessara umfangsmiklu viðskipta hafi þau verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. eða verið líkleg til að gera það og auk þess falið í sér blekkingu og sýndarmennsku. Ákærðu hafi veitt Imon ehf. lánið í framangreindum tilgangi þrátt fyrir vitneskju sína um að hin seldu hlutabréf kæmu frá EFL. Auk þess hefði þeim verið kunnugt um að staða Imon ehf. væri bágborin og þær tryggingar sem félagið hefði lagt fram í tengslum við lánveitinguna væru ófullnægjandi. Þá hefðu viðskiptin verið afar umfangsmikil, enda um að ræða stærstu viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur meðal annars fram að þó svo að lagt yrði til grundvallar að sala bréfanna hefði verið liður í því að losa bankann við uppsafnaða hlutafjáreign yrði ekki horft fram hjá því að til viðbótar veði í hinum keyptu hlutabréfum hefði verið sett trygging á grundvelli allsherjarveðs í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði sem voru í eigu lántaka. Þætti því ekki sýnt fram á að engin breyting hefði orðið á markaðsáhættu bankans vegna viðskiptanna. Með hliðsjón af því og vísan til þess sem rakið hefði verið um aðdraganda viðskiptanna og reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti þætti óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau hefði verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum, eða verið líkleg til að gera það, og jafnframt falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, svo að varðaði ákærðu refsingu samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga nr. 108/2007. Voru ákærðu því sýknuð af þessum ákærulið.

Af forsendum sýknu ákærðu af broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt a-lið II. kafla ákæru leiðir að á það hefur verið fallist að Imon ehf. bar einhverja markaðsáhættu af viðskiptunum. Voru þau þar af leiðandi ekki hrein sýndarviðskipti eða tilbúningur svo sem áskilið er í 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og vísað er til í b-lið II. kafla ákærunnar. Sú niðurstaða ræður hins vegar ekki úrslitum um hvort viðskiptin gáfu eða voru líkleg til þess að gefa framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfa í bankanum ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. greinarinnar.

Hér verður enn á ný að líta til þess að veðsetningarhlutfall í þeim hlutabréfum sem sett voru til tryggingar láninu var óvenjuhátt eða 86 til 95%. Samkvæmt nánari ákvæðum lánssamningsins, sem ágreiningslaust er að hér átti við, gat bankinn gjaldfellt lánið ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið átti að tryggja nam hærra hlutfalli en 98% af markaðsverði hinna veðsettu hlutabréfa í bankanum. Ef gert var ráð fyrir að lántaki gæti fyrirsjáanlega orðið ófær um að leggja fram frekari tryggingar var þannig ljóst að áhætta Imon ehf. af viðskiptunum var í reynd takmörkuð við þau verðmæti sem fólust í allsherjarveði í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs að teknu tilliti til þess veðrýmis sem þar var fyrir hendi og heildarlántöku félagsins hjá bankanum.

Fyrir dómi bar ákærða Sigríður Elín að samþykki hennar fyrir lánveitingunni hefði grundvallast á þeirri forsendu að um væri að ræða fjármögnun á eigin bréfum Landsbanka Íslands hf. og hefði því ekki verið um það að ræða að „peningar færu út úr bankanum“. Er þetta svo sem fyrr segir efnislega í samræmi við framburði ákærða Sigurjóns Þorvaldar og vitnisins ÁM, forstöðumanns á fyrirtækjasviði. Verður ekki önnur ályktun dregin af þessu, svo og atvikum málsins að öðru leyti, en að aldrei hefði komið til greina að veita Imon ehf. lán á sömu kjörum ef ekki hefði verið um að ræða sölu á eigin bréfum bankans. Samræmist sú niðurstaða einnig þeim viðmiðum sem fram komu í lánareglum bankans og gerðu ráð fyrir mun lægra veðsetningarhlutfalli við lánveitingu til kaupa á hlutabréfum almennt svo og áðurlýstum framburði ákærðu og vitna fyrir dómi á þá leið að veðsetningarhlutfall við lánveitinguna hafi verið óvenjuhátt. Verður viðskiptunum því ekki jafnað til hefðbundinna viðskipta þar sem fjárfestir leitar eftir fjármögnun banka við almenn hlutabréfakaup og bankinn sér hag sinn í lánafyrirgreiðslu gegn viðhlítandi tryggingum.

Samkvæmt þessu var ekki aðeins um að ræða utanþingsviðskipti með verulegt magn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. heldur voru öll atvik við sölu og fjármögnun bréfanna óvenjuleg og helguðust af vilja bankans til að selja mikið magn eigin bréfa með fullri fjármögnun frá bankanum sjálfum vegna aðstæðna sem stjórnendur bankans báru sumpart ábyrgð á, svo sem slegið er föstu með dómi réttarins í máli nr. 35/2019 sem kveðinn er upp samhliða dómi þessum. Þótt áður hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu hafi við þessar sérstöku aðstæður í sjálfu sér borið hag bankans fyrir brjósti við ákvörðun um fjármögnun og framkvæmd viðskiptanna er óhjákvæmilegt að líta til þess að matið byggðist í reynd ekki á markaðslegu verðmæti þeirra hlutabréfa sem voru andlag viðskiptanna heldur öðrum og óskyldum þáttum, svo sem markmiðum bankans um að styrkja eiginfjárgrunn sinn, skapa forsendur fyrir samruna við Byr sparisjóð og losna við eigin bréf sem safnast höfðu upp vegna umfangsmikilla kaupa EFL. Er hafið yfir allan vafa að opinberar upplýsingar um að bankinn hefði selt svo mikið magn af eigin bréfum, og fjármagnað söluna með þeim hætti sem gert var í umrætt sinn, hefðu verið til þess fallnar að hafa önnur og neikvæðari áhrif á gengi bréfanna á markaði en ef til þeirra hefði verið stofnað án slíkrar aðkomu bankans. Við þetta mat er einnig til þess að líta að um var að ræða stærstu einstöku viðskipti með bréf í Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008 sem kallaði enn frekar á að upplýsingar yrðu veittar til markaðarins um hvernig fjármögnun þeirra hefði verið háttað.

Samkvæmt framangreindu gat ákærða Sigurjóni Þorvaldi ekki dulist að þau viðskipti með eigin bréf Landsbanka Íslands hf. sem hann kom að með framangreindum hætti voru að óbreyttu líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að aldrei hafi staðið til af hálfu bankans að kynna markaðnum raunveruleg atvik að baki viðskiptunum og var ákærða sem bankastjóra það fullljóst. Ekki er á það fallist með honum að lögmætir hagsmunir bankans hafi við þessar aðstæður getað réttlætt að eftirspurn eftir bréfum Landsbanka Íslands hf. væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Með ákvörðun sinni um lán til Imon ehf., sem var forsenda viðskiptanna, stöðu sinni sem æðsta yfirmanns verðbréfasviðs og fyrirtækjasviðs bankans og fullri vitneskju um tilgang viðskiptanna að öðru leyti braut ákærði Sigurjón Þorvaldur þar af leiðandi gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007.

Ákærða Sigríður Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf., kom í stað staðgengils bankastjóra á fundum lánanefndar og bar ábyrgð á ákvörðunum um lán í samræmi við það. Óumdeilt er að umrædd lánveiting hefði ekki getað farið fram án hennar samþykkis og var aðkoma hennar því forsenda viðskiptanna. Þá sat ákærða jafnframt í fjármálanefnd bankans og hafði stöðu sinnar vegna yfirsýn yfir starfsemi allra sviða hans. Fyrir liggur að ákærðu var kunnugt um markmið þeirra viðskipta sem lántakan byggðist á og bar hún sjálf um það fyrir dómi að mat hennar á tryggingum fyrir láninu hefði verið háð því að um var að ræða sölu á eigin bréfum bankans með handveði í þeim sjálfum. Þótt viðskipti með eigin bréf bankans og miðlun verðbréfa að öðru leyti hafi ekki heyrt undir ákærðu er samkvæmt þessu hafið yfir vafa að henni var kunnugt um tilgang viðskiptanna.

Af skýrslu ákærðu fyrir dómi verður ráðið að hún hafi ekki talið það heyra undir sitt verksvið að ganga úr skugga um hvort og hvernig viðskiptin yrðu tilkynnt á markaði eða kynnt opinberlega að öðru leyti. Það fær hins vegar ekki breytt því að samþykki hennar fyrir lánveitingunni var forsenda fyrir því að af sölu hlutabréfanna til Imon ehf. gæti orðið. Átti hún þannig þátt í því með liðsinni sínu að brot það sem ákærði Sigurjón Þorvaldur hefur verið sakfelldur fyrir var framið enda hlaut hún að gera sér grein fyrir, meðal annars með setu sinni í fjármálanefnd bankans, að viðskiptin gæfu ranga mynd af verðmæti bréfanna eða væru líkleg til að gera það. Samkvæmt því verður ákærða sakfelld fyrir hlutdeild í broti gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. og 3. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Sú niðurstaða er samrýmanleg 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, enda verður litið svo á að vörn ákærðu hafi ekki verið áfátt að þessu leyti.

5

Með III. kafla ákærunnar er ákærða Sigurjóni Þorvaldi, ásamt dómfellda SG, sem forstöðumanni verðbréfamiðlunar, gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu bankans á 200.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf., sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 3. október 2008 fyrir 19,11 krónur á hvern hlut. Undir rekstri máls þessa sætir aðeins þáttur ákærða Sigurjóns Þorvaldar endurskoðunar svo sem fyrr greinir.

Umrædd viðskipti eru í ákæru sögð hafa gefið eftirspurn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega og misvísandi til kynna, eða verið líkleg til að gera það, og falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag hafi ranglega verið látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,79% hlut í bankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum þótt ekki hefði verið gengið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Ákærði Sigurjón Þorvaldur er ákærður fyrir að hafa tekið ákvörðun um viðskiptin og brot hans talið varða við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007 og umfjöllun í b-lið II. kafla ákæru.

Í forsendum hins áfrýjaða dóms er fjallað um tilurð umræddra viðskipta. Hvað sem nánari atriðum þeirrar atburðarásar líður er í hinum áfrýjaða dómi lagt til grundvallar að um eiginleg viðskipti með 200.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. hafi verið að ræða og ákvörðun legið fyrir um fjármögnun í samræmi við óundirrituð gögn sem ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, hafði látið útbúa. Þá taldi héraðsdómur, einkum á grundvelli vitnisburðar ÁM, sannað að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði tekið ákvörðun um viðskiptin með hlutabréfin. ÁM bar á sama veg í skýrslutöku fyrir Hæstarétti. Er ekkert nýtt fram komið fyrir réttinum sem gerir líklegt að þessi niðurstaða hafi verið röng. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður því lagt til grundvallar að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi tekið ákvörðun um umrædd viðskipti.

Ekki fer á milli mála að markmiðið með ráðstöfun hlutabréfanna til Imon ehf. umrætt sinn var, eins og við fyrrgreinda sölu hlutabréfa 30. september, að losa bankann við eigin hlutabréf, sem hann hafði áður keypt í ríkum mæli, og þá án þess að áhrif hefði til lækkunar á gengi hlutabréfa í félaginu í Kauphöll. Líkt og áður greinir í niðurstöðu réttarins um b-lið II. kafla ákærunnar getur ekki ráðið úrslitum hvort Imon ehf. bar einhverja markaðsáhættu af viðskiptunum, enda ljóst að áhætta félagsins var lítil miðað við heildarfjárhæð þeirra og byggðist hagkvæmni þeirra fyrir bankann ekki á markaðslegum forsendum tengdum verðmæti bréfanna og ávöxtun lána heldur fremur öðrum og óskyldum þáttum, einkum þeim markmiðum bankans að styrkja eiginfjárgrunn sinn, skapa forsendur fyrir samruna við Byr sparisjóð og losna við eigin bréf sem safnast höfðu upp vegna umfangsmikilla kaupa EFL á eigin bréfum.

Þótt ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að umrædd viðskipti hafi verið hrein sýndarviðskipti eða tilbúningur þannig að háttsemi ákærða verði heimfærð til 2. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 er allt að einu hafið yfir vafa að með ákvörðun sinni um viðskiptin mátti ákærði Sigurjón Þorvaldur vita að eftirspurn eftir bréfum bankans og þar með verðmæti þeirra væri gefið ranglega eða misvísandi til kynna. Er ekki á það fallist með ákærða að lögmætir hagsmunir bankans hafi við þessar aðstæður getað réttlætt að eftirspurn eftir bréfum Landsbanka Íslands hf. væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Gerðist ákærði því með þessu sekur um brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 svo sem honum er gefið að sök í III. kafla ákæru.

XI

Samkvæmt framansögðu voru brot ákærðu til þess fallin að hafa veruleg áhrif á verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. og þar með raska tiltrú fjárfesta og almennings á fjármálamarkaðinum. Verða þeir hagsmunir sem hér voru í húfi ekki metnir til fjár.

Við ákvörðun refsingar ákærða Sigurjóns Þorvaldar verður horft til þess að brot hans voru þáttur í kerfisbundinni markaðsmisnotkun bankans sem fjallað er um í I. kafla ákæru og leyst er úr með dómi réttarins í máli nr. 35/2019 sem kveðinn er upp samhliða máli þessu en með þeim dómi er ákærði dæmdur til 9 mánaða skilorðsbundnar fangelsisrefsingar. Jafnframt ber að líta til þess að ákærði Sigurjón Þorvaldur gegndi starfi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Á hinn bóginn verður það metið ákærða til málsbóta að hann vann verkið með hagsmuni bankans að leiðarljósi og hefur að nokkru gengist við þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök. Við ákvörðun refsingar vegna beggja málanna verður ákærða, eins og hér stendur á, gerð refsing í hvoru máli fyrir sig en þó með hliðjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. töluliða 70. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans ákveðin 12 mánaða fangelsi. Fyrir liggur að meðferð málsins hefur tafist verulega, meðal annars vegna endurupptöku þess. Þær tafir eru ekki á ábyrgð ákærða. Þá tók rannsókn málsins langan tíma, en til þess er þó að líta í þeim efnum að nauðsyn bar til að rannsaka það sakarefni, sem leyst er úr að þessu sinni, samhliða sakarefnum samkvæmt I. kafla ákæru. Í þessu ljósi þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna svo sem nánar greinir í dómsorði. Komi til afplánunar refsingar ber að draga að fullu frá refsingu ákærða gæsluvarðhald frá 14. til 21. janúar 2011.

Ákærða Sigríður Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans og þar með einn af æðstu stjórnendum hans. Þótt ljóst sé að þau viðskipti sem hún er sakfelld fyrir samkvæmt b-lið II. kafla ákæru hefðu ekki getað átt sér stað nema með samþykki hennar verður að horfa til þess að innan bankans bar hún ábyrgð á lánamálum. Kaup og sala á verðbréfum, svo og tilkynningar þar um, féllu utan venjulegs starfssviðs hennar. Eins og áður greinir um ákærða Sigurjón Þorvald léði ákærða einnig atbeina sinn til verksins með hagsmuni bankans að leiðarljósi og hefur að nokkru gengist við háttsemi sinni. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. töluliða 70. gr. almennra hegningarlaga hefði hæfileg refsing hennar numið fjögra mánaða fangelsi, sem skilorðsbundið hefði verið vegna tafa á meðferð málsins á sömu forsendum og í tilviki ákærða Sigurjóns Þorvaldar. Ákærða hefur hins vegar á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 afplánað 18 mánaða fangelsisrefsingu og verður henni því ekki gerð refsing í málinu.

Ákærðu verður gert að greiða helming sakarkostnað málsins í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna eins og þau eru þar ákveðin. Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 456/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 8. október 2015. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 4. mgr. 231. gr., laga nr. 88/2008. Fer um málsvarnarlaun verjenda ákærðu eftir því sem í dómsorði greinir, en í fjárhæð þeirra er innifalinn virðisaukaskattur.

Dómsorð:

Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til afplánunar refsingar dregst óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 14. til 21. janúar 2011 frá refsingu.

Ákærðu Sigríði Elínu Sigfúsdóttur er ekki gerð sérstök refsing.

Helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 17.783.350 krónur, og ákærðu Sigríðar Elínar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns, 9.045.814 krónur fyrir héraðsdómi, greiðist úr ríkissjóði en helming málsvarnarlauna greiði ákærðu sjálf.

Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 456/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 8. október 2015.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 6.700.000 krónur og skipaðs verjanda Sigríðar Elínar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns 5.300.000 krónur.