Print

Mál nr. 35/2019

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
Lykilorð
  • Endurupptaka
  • Markaðsmisnotkun
  • Fjármálafyrirtæki
  • Skilorð
Reifun

Í málinu var SÞÁ, sem bankastjóri L hf.,ákærður fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að starfsmenn eigin fjárfestinga L hf., að hans undirlagi, hefðu með tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning L hf. með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi kauphallarinnar á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum sem gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 var hafnað að vísa málinu frá réttinum þar sem ekkert hefði komið fram sem hnekkt hefði því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem fallnar hefðu verið til að draga óhlutdrægni dómara í hæstaréttarmáli nr. 842/2014 með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu var skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins fullnægt og það tekið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að starfshættir deildar eigin fjárfestingar L hf. hefði gefið eða verið líklegir til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í L hf. ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Tekið var fram að eins og málið lægi fyrir réttinum kæmi einungis til álita að sakfella SÞÁ fyrir það tímabil sem hann hafði verið sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi, það er 29. september til 3. október 2008. Þá var vísað til þess að niðurstaða um sakfellingu SÞÁ hefði ráðist fyrst og fremst af setu hans í fjármálanefnd L hf. og stöðu sem æðsta stjórnanda verðbréfasviðs bankans. Var talið sannað að starfsmenn eigin fjárfestinga hefðu ekki framkvæmt hin umfangsmiklu kaup á eigin bréfum á fyrrnefndu tímabili án vitundar og samþykkis SÞÁ og að viðskiptin sem um ræddi hefðu verið að undirlagi hans. Var því niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu SÞÁ staðfest. Var refsing SÞÁ ákveðin fangelsi í 9 mánuði en meðal annars með hliðsjón af því að meðferð málsins hefði tafist þar á meðal vegna endurupptöku þess var refsing skilorðsbundin til tveggja ára.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Karl Axelsson og Ása Ólafsdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari, Símon Sigvaldason landsréttardómari og Skúli Magnússon settur landsréttardómari.

Með bréfi til endurupptökunefndar 9. febrúar 2017 leitaði Sigurjón Þorvaldur Árnason eftir því að hæstaréttarmálið nr. 842/2014, sem dæmt var 4. febrúar 2016, yrði endurupptekið á grundvelli núgildandi ákvæðis 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Nefndin varð við þeirri beiðni með úrskurði 12. maí 2019 í máli nr. 6/2017 hvað hann varðaði. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 3. júní 2019 vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir dómfellda 11. júní 2019. Svo sem síðar greinir hafnaði Hæstiréttur kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins með ákvörðun 27. maí 2020.

Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru og dæmdur til refsingar samkvæmt ákæru. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess í því tilviki að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að sér verði gerð vægasta refsing sem lög heimila.

I

Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til embættis sérstaks saksóknara „vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.“ á tímabilinu maí 2003 til október 2008. Í henni kom meðal annars fram að Kauphöll Íslands hafi í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins „á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja“ og jafnframt sent minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 „þar sem þessi viðskipti voru nánar útlistuð“. Þegar Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu hafi verið „komnar fram vísbendingar um afmörkuð tilvik meintrar markaðsmisnotkunar ... í aðdraganda bankahrunsins.“ Hins vegar hafi fljótlega vaknað grunur um að deild eigin fjárfestinga í Landsbanka Íslands hf. (EFL) „hafi verið beitt með skipulögðum hætti í þeim tilgangi að hækka eða styðja við gengi hlutabréfa sem gefin voru út af Landsbankanum, yfir margra ára tímabil en ekki einungis í aðdraganda bankahrunsins.“ Í kæru Fjármálaeftirlitsins til saksóknara voru 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þeirra á meðal ákærði, sakaðir um brot á lögum um verðbréfaviðskipti vegna framangreindrar háttsemi. Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærða auk dómfelldu ÍG, JHS, SS, SES og SG.

Þær sakargiftir sem fjallað er um í þessu máli komu fram í I. kafla ákærunnar. Þar var ákærða sem bankastjóra Landsbanka Íslands hf., dómfellda ÍG sem forstöðumanni EFL og dómfelldu JSH og SS, sem starfsmönnum þeirrar deildar, gefin að sök „markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð „framkvæmd af“ dómfelldu JSH og SS „að undirlagi“ ákærða og dómfellda ÍG. Hefðu þeir fyrrnefndu, sem önnuðust fjárfestingar fyrir bankann sjálfan, lagt fram fyrir hans hönd „í upphafi hvers viðskiptadags á tímabilinu, röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þegar framboð á hlutabréfum í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar hafi orðið meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Landsbankans“ hefðu dómfelldu JSH og SS að jafnaði mætt „auknu framboði með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið“ og þannig komið ýmist í veg fyrir eða hægt á verðlækkun bréfanna. Þá hafi hlutfall kaupa þeirra á hlutabréfunum í umræddum viðskiptum að jafnaði hækkað við lok viðskiptadags og þeir þannig haft áhrif á dagslokaverð þeirra.

Síðan sagði í ákærunni: „Kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á áðurgreindu tímabili voru umfangsmikil og kerfisbundin, enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu. ... Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafði áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbankanum, tryggði óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjó til verð á hlutabréfunum og gaf eða var líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.“ Í niðurlagi ákærukaflans sagði svo: „Hin miklu kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum umfram sölu leiddu til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá bankanum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbankans þurfti að losa Landsbankann við hlutabréfin til þess að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það var meðal annars gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum, fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar Landsbankans.“ Var háttsemin talin varða við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Í II. kafla ákærunnar var ákærða ásamt dómfelldu SES gefin að sök umboðssvik með því að hafa veitt einkahlutafélaginu Imon lán 30. september 2008 til að fjármagna kaup þess á hlutum í Landsbanka Íslands hf. án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Jafnframt voru þau sökuð um markaðsmisnotkun við sölu bankans á hlutunum þar sem með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar 1. október 2008 hefði verið ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt til fé til kaupa á rúmlega 2% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Í III. og IV. kafla ákærunnar var ákærða ásamt dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu bankans á eigin hlutum 3. október 2008, annars vegar til Imon ehf. og hins vegar Azalea Resources Ltd., sem samtals hafi numið rúmlega 3,5% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., án þess að gengið hafi verið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Með því hafi eftirspurn bréfanna verið gefin ranglega og misvísandi til kynna eða verið líkleg til að gera það og viðskiptin falið í sér blekkingu og sýndarmennsku þar sem með þeim og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestar hefðu lagt fé til kaupa á bréfunum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.

Með heimild í 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað héraðsdómur 12. júní 2013 að skilja sakarefni samkvæmt II., III. og IV. kafla ákærunnar frá máli því sem hér um ræðir. Með dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 var ákærði, SES og SG sakfelld með nánar tilgreindum hætti fyrir háttsemi samkvæmt ákæruköflunum þremur. Sætir það mál, nr. 34/2019, nú sambærilegri málsmeðferð fyrir Hæstarétti og mál þetta á grundvelli ákvörðunar endurupptökunefndar um endurupptöku málsins gagnvart ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og SES með úrskurðum 12. maí 2019 í málum nr. 7 og 11/2016 og er dómur í því máli kveðinn upp samhliða þessum dómi.

II

1

Mál ákæruvaldsins á hendur ákærða, auk annarra framangreindra, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. apríl 2013. Héraðsdómur kvað upp efnisdóm í málinu 19. nóvember 2014 þar sem ákærði og dómfelldu ÍG og JSH voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákærunnar, en einungis vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Dómfelldi SS var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði en frestað var fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2

Ákæruvaldið og ákærði áfrýjuðu héraðsdómi til Hæstaréttar 21. nóvember 2014 sem kvað upp dóm 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Var ákærði sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun allt ákærutímabilið þar sem hann hefði, sem annar af bankastjórum Landsbanka Íslands hf. og formaður fjármálanefndar bankans, haft yfirsýn yfir starfsemi verðbréfasviðs bankans, þar á meðal EFL, og hefðu hin umfangsmiklu kaup deildarinnar á hlutum í Landsbanka Íslands hf., eins og að þeim hefði verið staðið, ekki getað farið fram án vilja hans og vitundar. Þá var talið sannað að dómfelldi ÍG hefði gefið dómfelldu JSH og SS fyrirmæli um hvernig þeir skyldu standa almennt að viðskiptum með hluti í Landsbanka Íslands hf. í Kauphöllinni og fylgst náið með þeim. Dómfelldu JSH og SS voru einnig sakfelldir samkvæmt ákæru þar sem talið var að ekki léki neinn vafi á því að sá mikli fjöldi tilboða sem þeir gerðu og þau umfangsmiklu viðskipti sem þeir hefðu átt þátt í að koma á hefðu gefið eða í það minnsta verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með hliðsjón af því hvernig staðið hefði verið að viðskiptunum allt ákærutímabilið var talið, öndvert við dóm héraðsdóms, að skýringar dómfelldu á viðskiptahegðun sinni á ákærutímabilinu hefðu enga þýðingu um sekt eða sýknu af þeim sökum sem þeir voru bornir. Voru brot allra framangreindra heimfærð undir a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 en ekki fallist á að brotin ættu jafnframt undir b-lið sömu málsgreinar.

Um ákvörðun refsingar ákærða vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að hann hefði með dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 verið dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Refsing hans yrði því hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga eins og brotin hefðu verið dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að teknu tilliti til þessa var ákærði dæmdur í fangelsi í eitt ár og sex mánuði.

III

1

Ákærði fór þess sem fyrr segir á leit við endurupptökunefnd með bréfi 9. febrúar 2017 að hæstaréttarmálið nr. 842/2014 yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti hvað hann varðaði. Reisti hann beiðnina á þeirri forsendu að uppfyllt væru skilyrði a-, c-, og d-liðar núgildandi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 232. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 18. maí 2020 um frávísunarkröfu ákæruvaldsins. Verður í IV. og V. kafla dómsins vísað til fyrrgreindrar ákvörðunar réttarins 27. maí 2020. Að þeirri ákvörðun stóðu Karl Axelsson hæstaréttardómari og Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Símon Sigvaldason þá dómstjóri og Skúli Magnússon þá héraðsdómari.

2

Ákærði byggði kröfu sína um endurupptöku í fyrsta lagi á að fram væru komin ný gögn sem hryndu niðurstöðu dómsins um sekt hans. Í öðru lagi á því að við rannsókn málsins hefði ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem rannsakendum og ákærendum bæri samkvæmt lögum. Í þriðja lagi hefðu dómstólar brotið gegn grunnreglu sakamálaréttarfars um að sérhver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Í fjórða lagi hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins þannig að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, nú samhljóða d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Taldi ákærði að tveir af hæstaréttardómurum málsins, Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, hefðu verið vanhæfir til þess að dæma í málinu vegna hlutafjáreignar þeirra í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 2007 til 2008.

Með endurupptökubeiðni fylgdu gögn sem ekki höfðu áður legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi en ákærði taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína.

Ríkissaksóknari taldi að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka málið enda skorti á að áskilnaður þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 væri fyrir hendi. Vísaði ríkissaksóknari til þess að dómarar gættu sjálfir að hæfi sínu og að umræddir hæstaréttardómarar hefðu, áður en þeir tóku sæti í málinu, metið hæfi sitt til að taka sæti í dómi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008. Þá tók hann fram að ekki væri unnt að skjóta slíkum ákvörðunum dómara Hæstaréttar til æðri dóms og því yrði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd. Að lokum taldi ríkissaksóknari að hagsmunir umræddra dómara hefðu verið svo óbeinir og óverulegir að þeir gætu ekki hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Ákærði mótmælti túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hann til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og horfa til grundvallarmannréttinda, svo sem 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísaði ákærði til þess að sú skylda hvíldi á dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um eignarhlut í félagi sem hefði skráð gengi í verðbréfaviðskiptum næmi hluturinn 3.000.000 króna eða meira að verðmæti. Hlutir umræddra dómara næmu hærri fjárhæðum og því hefðu þeir orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf.

Við meðferð málsins hjá endurupptökunefnd komu fram athugasemdir og upplýsingar frá hæstaréttardómurunum Eiríki Tómassyni og Viðari Má Matthíassyni um hlutabréfaeign þeirra í Landsbanka Íslands hf. við fall bankans 2008. Í bréfi Eiríks, 23. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í bankanum að nafnvirði 87.383 krónur. Kaupverð hlutanna hefði samtals numið 374.112 krónum. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem hafi numið 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 1.738.922 krónum. Í bréfi Viðars Más, 24. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 428.075 krónur. Samanlagt verðmæti þessara hluta þegar hann eignaðist þá hafi numið 14.753.256 krónum. Miðað við skráð gengi bréfanna 3. október 2008, 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 8.518.692 krónum.

Með bréfi 18. september 2018 til endurupptökunefndar kom ákærði á framfæri athugasemdum sínum við fyrrgreindar upplýsingar um eignarhluti hæstaréttardómaranna. Vísaði hann til þess að hann teldi eignarhluti þeirra hvorki óverulega væru þeir bornir saman við laun dómaranna né væru þeir bornir saman við eignarhlut annarra hluthafa bankans. Þá lægi fyrir að hlutir í eigu Viðars Más hefðu verið langt umfram viðmið reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Einnig vísaði ákærði til þess að uppi hefðu verið atvik eða aðstæður sem hefðu verið fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa.

Með öðru bréfi til endurupptökunefndar sama dag kom ákærði jafnframt á framfæri viðbótarröksemdum sínum sem reistar voru á öðrum sjónarmiðum en þeim sem lutu að ætluðu vanhæfi umræddra dómara. Með bréfinu fylgdi sérstök greinargerð 30. ágúst 2018 ásamt 12 fylgiskjölum. Ákærði vísaði einkum til þess að meginrökstuðningur Hæstaréttar fyrir niðurstöðu í málinu hefði verið byggður á gagnályktun sem hefði verið svo ófyrirsjáanleg að um hana hefði ekki verið fjallað í ákæru, greinargerðum eða munnlegum málflutningi. Að sama skapi hefði dómfellda ekki gefist kostur á að koma að athugasemdum við slíkri beitingu réttarheimilda í vörn sinni. Þá taldi ákærði að niðurstaða héraðsdóms hefði alfarið verið byggð á mati dómsins á skýringum meðákærðu fyrir dómi sem hefði með réttu ekki átt að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákærði taldi jafnframt að tilgreind ný gögn sem hann lagði fram beiðni sinni til stuðnings sýndu að ómögulegt hefði verið fyrir ákærðu að gera sér grein fyrir að hin umþrættu viðskipti gætu farið í bága við lög. Hinar nýju upplýsingar fælu jafnframt í sér að skilyrði a- og c-liða 228. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt. Loks vísaði ákærði til þess að mjög hæpið væri að fullyrða að hann hefði haft ásetning til markaðsmisnotkunar, meðal annars þar sem hann hefði aldrei fengið upplýsingar um annað en heildarstöðu bankans í umræddum eigin bréfum og afkomu af þeim en í allra versta falli væri um afsakanlegt gáleysi að ræða.

3

Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærða með úrskurði 12. maí 2019. Þar sagði að til að fallist yrði á endurupptöku nægði að eitt af skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 væri uppfyllt. Hvað varðaði þá málsástæðu ákærða, að umræddir dómarar sem dæmt höfðu í hæstaréttarmálinu hefðu verið vanhæfir og því hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, væri til þess að líta að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól teldist til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Væri sá réttur varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. einnig samhljóða ákvæði eldri laga um dómstóla nr. 15/1998. Sérstaklega væri fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í g-lið ákvæðisins kæmi fram að dómari væri vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi væru önnur atvik eða aðstæður en taldar væru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna gæti dómari að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum en aðili gæti einnig krafist þess að hann viki sæti. Þá er í niðurstöðum endurupptökunefndar vikið að d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og bent á að í athugasemdum með greininni í frumvarpi til laga við lögfestingu hennar sé tekið sem dæmi um tilvik sem fallið gæti undir lagaregluna að í ljós komi annmarkar á hæfi dómara sem með mál hafi farið og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Í niðurstöðu endurupptökunefndar var hafnað þeim sjónarmiðum ákæruvaldsins að ekki væri á færi nefndarinnar að endurskoða efnislegt mat einstaks dómara á eigin hæfi. Þá var sérstaklega vísað til þess, með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, að mat á hæfi dómara þurfi undir þessum kringumstæðum bæði að uppfylla huglæg og hlutlæg skilyrði.

Við mat á hæfi umræddra hæstaréttardómara kæmi meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir hefðu orðið fyrir væri til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, og það þá valdið því að verulegur galli hefði verið á meðferð málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Óumdeilt væri að hæstaréttardómarinn Viðar Már Matthíasson hefði keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og hefði verðmæti þeirra þegar hann eignaðist þau numið 14.753.256 krónum. Verðmæti bréfanna hefði tekið breytingum allt fram til þess tíma þegar Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd og bréfin urðu verðlaus. Miðað við síðasta skráða gengi bréfanna, 3. október 2008, hefði verðmæti fyrrgreindra hluta numið 8.518.692 krónum. Ljóst væri því að fjárhagslegt tjón dómarans vegna kaupa hans á hlutafé í bankanum hefði verið verulegt. Taldi nefndin að þeir fjármunir sem þannig fóru forgörðum hefðu verið slíkir að atvik eða aðstæður hefðu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni réttarins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þá var engu talið breyta þótt nokkur tími hefði liðið frá því að tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu. Um það mætti einnig líta til þess orðalags Hæstaréttar í dóminum að brot ákærðu, sem þeir hafi verið sakfelldir fyrir, hafi verið „mjög umfangsmikil, þaulskipulögð og stóðu yfir í langan tíma. Brotin leiddu til alvarlegrar röskunar á verðbréfamarkaði með víðtækum afleiðingum fyrir fjármálamarkaðinn hér á landi og allan almenning, en tjónið, sem af þeim hlaust, verður ekki metið til fjár.“ Loks væri til þess að líta að framangreindar upplýsingar um kaup og eignarhald dómarans hefðu ekki legið fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti og voru þær því endurupptökubeiðanda ókunnar. Samkvæmt framangreindu taldi nefndin að fram væru komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Við mat á skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 yrði að líta til þess að endurupptökuheimild samkvæmt þeim staflið hafi komið fyrst í lög með nýjum lögum um meðferð sakamála. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga væri sérstaklega tekið fram að þar undir gætu meðal annars fallið tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hafi áður verið um þá kunnugt, en það tilvik væri uppi í málinu. Þá segði jafnframt í frumvarpinu að þessi tiltekna heimild hefði verið sett í lögin í því skyni að tryggja réttláta málsmeðferð. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og þeirri grundvallarreglu sem fram kæmi í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól taldi nefndin uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Nefndin tók fram að þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 teldist uppfyllt hvað hæstaréttardómarann Viðar Má Matthíasson varðaði væri ekki þörf á að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður ákærða. Samkvæmt því var beiðni hans um endurupptöku málsins samþykkt.

4

Þess ber jafnframt að geta í samhengi við sakarefni máls þessa að 25. febrúar 2020 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm sem reistur var á kvörtun SES sem sakfelld var með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014. Kvörtun SES byggðist á vanhæfi þriggja dómara málsins í Hæstarétti, Markúsar Sigurbjörnssonar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar. Þeir hefðu átt hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á árunum 2007 og 2008 og tapað verulegum fjármunum við fall þeirra. Þessir þrír dómarar sátu jafnframt í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 sem í þessu máli var krafist endurupptöku á.

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti dómfelldu þar sem hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, sbr. 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóllinn vísaði til þess að óhlutdrægni hæstaréttardómarans Markúsar Sigurbjörnssonar yrði ekki dregin í efa enda hefði hann ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og hlutabréfaeign hans í öðrum viðskiptabönkum gæti ekki leitt til slíkrar ályktunar. Varðandi hæstaréttardómarann Eirík Tómasson vísaði dómstóllinn til þess að tilkynningarskylda til nefndar um dómarastörf ætti ekki við nema hlutabréfaeign í félagi næmi 3.000.000 króna eða hærri fjárhæð. Þar sem hlutabréfaeign hans í bankanum hefði verið töluvert undir þeim mörkum varð það niðurstaða dómstólsins að ekki væri heldur unnt að draga óhlutdrægni hans í efa. Dómstóllinn komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að draga mætti óhlutdrægni hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í efa. Vísaði dómstóllinn til þess að hann hefði tapað því sem næmi um þrefaldri þeirri fjárhæð sem tilkynningarskyld væri til nefndar um dómarastörf. Þá hefði tap hans vegna falls Landsbanka Íslands hf. verið mikið, sérstaklega þegar tekið væri tillit til árstekna hans sem prófessors á árunum 2007 og 2008. Einnig vísaði dómstóllinn til þess að endurupptökunefnd hefði talið skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt vegna hlutabréfaeignar dómarans.

IV

1

Meðal þeirra gagna sem lágu fyrir Hæstarétti við töku fyrrnefndrar ákvörðunar 27. maí 2020 var upplýsingaskýrsla ákæruvaldsins 9. mars 2020 þar sem fram koma fyllri upplýsingar um hlutabréfaeign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt skýrslunni nam hlutabréfaeign hans samtals 462.475 krónum að nafnvirði við fall bankans. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem nam 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti eignarinnar þann dag numið 9.203.253 krónum.

2

Í ákvörðun Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 væri endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tæki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hafi verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. færi að öðru leyti um endurupptöku máls eftir lögum nr. 88/2008 og lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 væru ákvæði um endurupptöku sakamáls sem dæmt hefði verið í Landsrétti eða Hæstarétti. Þar kæmi fram í 232. gr. að endurupptökunefnd gæti samkvæmt beiðni leyft að mál sem dæmt hafi verið í Landsrétti eða Hæstarétti yrði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt væri þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna um endurupptöku óáfrýjaðs máls. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. gæti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns sem teldi sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið ef einhverju eftirtalinna skilyrða væri fullnægt: a) fram væru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk; b) ætla mætti að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin væru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefði valdið rangri niðurstöðu málsins; c) verulegar líkur væru leiddar að því að sönnunargögn sem færð hefðu verið fram í máli hefðu verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess eða d) verulegir gallar hefðu verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Endurupptökunefnd, sem heyrði undir framkvæmdarvaldið, væri meðal annars með 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangsefni sem lytu að úrlausn dómsmála. Dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015, 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 og 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015. Samkvæmt því þyrfti að taka afstöðu til þess hvort lög hefðu með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í umræddum úrskurði sínum 12. maí 2019 um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014.

3

Krafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var reist á því að endurupptökunefnd hefði skort valdheimildir til að heimila endurupptöku þess og farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið byggði í fyrsta lagi á því að fyrrnefndur liður gæti ekki tekið til hæfis hæstaréttardómara þar sem engu breytti fyrir niðurstöðu um mat dómara Hæstaréttar á hæfi sínu hvort málsaðilar hefðu vitað af hugsanlegum vanhæfisástæðum enda ættu þeir enga aðkomu að því mati með málflutningi eða á annan hátt. Í öðru lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að verulegir gallar hefðu verið á málsmeðferðinni hefðu ekki verið uppfyllt en það gæti ekki talist verulegur galli á meðferð máls að endurupptökunefnd hefði aðra skoðun en dómarar Hæstaréttar á túlkun g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að galli á málsmeðferð hefði haft áhrif á niðurstöðu sakamáls væri ekki uppfyllt. Vísaði ákæruvaldið til þess að orðalag ákvæðisins kvæði á um að það þyrfti að liggja fyrir að gallinn hefði haft áhrif en ekki einungis að hann hefði getað haft áhrif. Það hefði ekki verið gert líklegt að niðurstaða dómsins væri röng að efni til eða að ætlað vanhæfi hefði haft áhrif á niðurstöðuna eins og d-liður kvæði á um. Þá fælu ákvarðanir hæstaréttardómara um að taka sæti í dómi og mat þeirra á eigin hæfi í sér endanlegar ákvarðanir. Ummæli í greinargerð um að leyfa endurupptöku samkvæmt fyrrnefndum d-lið gæti komið til skoðunar þegar í ljós kæmi síðar að dómari hefði verið vanhæfur gætu aðeins átt við í tilviki héraðsdómara eða landsréttardómara enda yrði úrskurðum þeirra um eigið hæfi skotið til æðri dóms. Í fjórða lagi vísaði ákæruvaldið til þess að endurupptökunefnd, sem væri stjórnsýslunefnd, væri með 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 falið vald til að víkja til hliðar réttaráhrifum dóms, samkvæmt 186. gr. sömu laga, og hefði því heimild til að taka ákvörðun um endurtekna málsmeðferð í máli þar sem fyrir lægi endanlegur dómur með þeim afleiðingum að hann félli niður. Taldi ákæruvaldið að þetta fyrirkomulag sem fæli framkvæmdarvaldinu umfangsmikið vald til íhlutunar í störf dómsvaldsins bryti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins.

Í greinargerð sinni hér fyrir rétti varðandi frávísunarkröfu ákæruvaldsins vísaði ákærði fyrst og fremst til niðurstöðu endurupptökunefndar um grundvöll þess að málið skyldi endurupptekið.

V

Í tilvitnaðri ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 er niðurstaða réttarins um frávísunarkröfu ákæruvaldsins svofelld: „Af hálfu ákæruvaldsins er krafa um frávísun málsins meðal annars á því reist að það fyrirkomulag 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 að fela endurupptökunefnd vald til að ákvarða hvort mál skuli endurupptekið fyrir Hæstarétti brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber þá að gæta að í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 kom fram að sú tilhögun þágildandi ákvæðis 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008, að ákvörðun endurupptökunefndar um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti hefði meðal annars í för með sér að fyrri dómur Hæstaréttar félli úr gildi, mælti nefndin ekki fyrir á annan veg, væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lagaákvæðið teldist því ekki gild réttarheimild og yrði ekki beitt. Í kjölfar þess var umrædd heimild endurupptökunefndar felld úr lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 99/2016, og er nú mælt fyrir um heimildir endurupptökunefndar í 3. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008. Að lögunum svo breyttum hefur Hæstiréttur ítrekað fjallað um ákvarðanir nefndarinnar um endurupptöku mála, sbr. í dæmaskyni dóma réttarins frá 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015 og 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 án þess að taldir hafi verið stjórnskipulegir annmarkar á lagaákvæðunum í núverandi mynd. Á hinn bóginn var áréttað í dómunum, svo sem fyrr greinir, að dómstólar eigi eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar og taki þar af leiðandi afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd kemst að hverju sinni. Er kröfu um frávísun málsins á þessum grundvelli því hafnað.

Forsendur úrskurðar endurupptökunefndar fyrir endurupptöku málsins voru eins og áður segir á því reistar að gallar hefðu verið á meðferð þess fyrir Hæstarétti samkvæmt þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga, í ljósi vanhæfis dómarans Viðars Más Matthíassonar vegna hlutabréfaeignar hans í Landsbanka Íslands hf. Tók nefndin fram að þegar að þeirri niðurstöðu fenginni væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður dómfellda. Af því tilefni skal áréttað að aðrar þær málsástæður dómfellda sem teflt var fram fyrir endurupptökunefnd og ekki komu þar til efnislegs mats geta ekki komið til frekari skoðunar hér fyrir dómi, enda er það ekki á valdi dómstóla að meta slíkt í stað nefndarinnar þótt þeir séu eftir almennum reglum bærir til að leysa eftir á úr ágreiningi um lögmæti úrskurðar hennar um slíkt efni, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 857/2017.

Við mat á því hvort vanhæfi dómara teljist verulegur galli, í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga 88/2008 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu máls, verður að horfa til þess að í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er meðal annars kveðið á um rétt manna til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Er sú regla og í samræmi við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir um fyrrnefnda ákvæðið að það leggi þá skyldu á löggjafann að setja skýrar reglur um hvenær dómari verði talinn vanhæfur í máli. Þá liggur fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur við skýringu 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans litið til þeirra reglna landsréttar sem giltu um hæfi dómara í einstöku tilviki, sbr. einkum áðurgreindan dóm 25. febrúar sl. í máli nr. 41382/17.

Samkvæmt framansögðu er það forsenda fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að reglur um hæfi dómara séu virtar og gildir þá einu á hvaða dómstigi meðferð máls fer fram og hvort dómurinn er skipaður einum eða fleiri dómurum. Vanhöld á að reglur um hæfi séu virtar hljóta því jafnan að teljast verulegir annmarkar á málsmeðferð og jafnframt þess eðlis að geta haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi fyrrnefnds d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem rakið er í úrskurði endurupptökunefndar fær sú lögskýring einnig beina stoð í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. Verður því hafnað þeirri málsástæðu ákæruvaldsins að d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna heimili ekki endurupptöku við þær aðstæður að hæstaréttardómari hefur tekið þátt í meðferð máls í andstöðu við hæfisreglur 6. gr. laga nr. 88/2008.

Áður eru raktar upplýsingar um hlutabréfaeign Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara í Landsbanka Íslands hf. Þá var og rakin sú efnislega niðurstaða endurupptökunefndar að fjárhagslegt tjón dómarans hafi verið svo verulegt að draga hafi mátt óhlutdrægni hans með réttu í efa í umræddu dómsmáli, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, ekki síst með hliðsjón af því að í forsendum dómsins voru brot ákærðu talin hafa verið til þess fallin að valda hluthöfum í bankanum, stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni. Laut sakarefni málsins þannig beinlínis að hagsmunum dómarans, sem jafnframt voru verulegir. Niðurstaða fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar síðastliðinn, þar sem talið var að téður dómari hefði í málinu ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstól og gilti þá einu þótt ekkert væri fram komið um að annarleg sjónarmið hefðu í reynd ráðið meðferð eða efnislegri niðurstöðu dómsins, samræmdist að þessu leyti forsendum endurupptökunefndar.

Að öllu virtu er í málinu ekkert komið fram sem fær hnekkt því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem fallnar voru til að draga hafi mátt óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Var þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 fyrir endurupptöku málsins, en því er ekki haldið fram í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð endurupptökunefndar sem leiða eigi til ógildis úrskurðarins.“

Kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Verður hér í framhaldinu gerð nánari grein fyrir meðferð málsins fyrir réttinum, þar á meðal um hverjir gáfu skýrslu við meðferð þess. Í þessu samhengi skal tekið fram að samhliða var hafnað kröfu ákæruvaldsins um frávísun máls nr. 34/2019 frá Hæstarétti en í því fólst að hæstaréttarmál nr. 456/2014 var endurupptekið að hluta til.

VI

Ákærði hefur nú undir áfrýjun málsins lagt fram tíu ný skjöl. Verður gerð grein fyrir þeim að því marki sem þau hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins en ekki eru efni til að fjalla frekar um gögn sem varða hæfi þeirra hæstaréttardómara sem dæmdu hæstaréttarmál nr. 842/2014.

Skjal merkt eitt er glærukynning Fjármálaeftirlitsins fyrir regluverði útgefenda skráðra verðbréfa 16. september 2005.

Skjal merkt tvö er tilkynning frá Verðbréfaþingi Íslands 2. júlí 1998 um að viðskiptastofa Íslandsbanka væri að hefja viðskiptavakt á hlutabréfum fimm fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands, þar á meðal í Íslandsbanka. Kom fram að viðskiptavaktin fæli sér að „á hverjum morgni eru sett fram kaup og sölutilboð að markaðsvirði 2 milljónir.“

Skjal merkt þrjú er svokölluð 4:15 dagskýrsla áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. fyrir 30. september 2008. Skýrslan er um 30 blaðsíður og var gerð til að draga saman markaðsáhættu bankans. Í henni er meðal annars að finna yfirlit yfir stöðu hvers sviðs bankans í skuldabréfum, hlutabréfum og gjaldeyri í lok dags sem og heimildir sviðanna. Þá er í skýrslunni að finna upplýsingar um heildarstöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum og hvernig staðan breyttist milli daga.

Skjal merkt fjögur er skýrsla 30. september 2008 sem ákærði leggur fram til samanburðar um framkvæmd daglegrar upplýsingagjafar í Kaupþingi banka hf. Sú skýrsla mun hafa verið send daglega til bankastjóra og starfandi stjórnarformanns Kaupþings banka hf. Í skýrslunni var að finna yfirlit yfir kaup og sölu hvers dags í bankanum. Þar kom fram hverjir væru kaupendur og seljendur og umfang viðskipta.

Skjal merkt fimm er bréf 19. desember 2016 frá embætti héraðssaksóknara til ákærða þar sem tilkynnt var um niðurfellingu þriggja mála vegna ætlaðra brota í tengslum við lánveitingar Landsbanka Luxembourg S.A. til hlutabréfakaupa í Landsbanka Íslands hf. Auk þess fylgdi tilkynning 30. október 2013 um niðurfellingu fjórða málsins.

Skjal merkt sex er útreikningur endurskoðanda Landsbanka Íslands hf. á hlutfalli eigin hlutabréfa af nafnverði hlutafjár í bankanum frá júní 2007 til september 2008. Við útreikninga hans var horft til eigin hlutabréfa bankans auk þeirra sem voru að veði hjá bankanum. Hins vegar var þar hvorki horft til hlutabréfa í eigu dótturfélaga né þeirra sem þau höfðu að veði. Var vísað til þess að lög hefðu á fyrrnefndu tímabili ekki gert ráð fyrir að þau bréf væru tekin inn í útreikning þeirra, en því hefði verið breytt með lögum nr. 75/2010. Samkvæmt útreikningunum fór hlutfall eigin hlutabréfa bankans tvisvar yfir 10% af nafnverði hlutafjár hans á umræddu tímabili. Var hlutfallið 10,6% 16. september 2008 og 23. sama mánaðar nam hlutfallið 10,1%.

Skjal merkt sjö er minnisblað „um færsluheimildir áhættureglna Landsbankans“, unnið af ÞAI fyrrverandi forstöðumanni áhættustýringar bankans að beiðni verjanda ákærða, en minnisblaðinu fylgdu áhættureglur Landsbanka Íslands hf. frá október 2005. Í minnisblaðinu kemur fram að áhættustýring Landsbanka Íslands hf. hefði fylgst náið með heildarstöðu EFL en litið svo á að með yfirferð sinni á fjármálanefndarfundum, þar sem farið hefði verið yfir stöðu og afkomu deildarinnar í þáliðinni viku, hefðu allar ákvarðanir deildarinnar sem teknar hefðu verið milli fjármálanefndarfundanna verið staðfestar af fjármálanefnd.

Við skýrslutökur fyrir Hæstarétti lagði ákærði enn fremur fram þrjú ný skjöl. Í fyrsta lagi skjal sem ber heitið: „Staða LÍ í eigin bréfum og lán með veði í eigin bréfum.“ Í skjalinu var útreikningur á stöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin bréfum og lánum með veði í eigin bréfum miðað við 26. nóvember 2007 og 22. apríl 2008. Þá var lagt fram skjal sem ber heitið: „Þriggja þrepa rannsókn á hvort viðskipti teljist markaðsmisnotkun eða ekki.“ Loks lagði ákærði fram minnisblað frá SRÞ fyrrverandi starfsmanni EFL 7. febrúar 2021 sem ber heitið: „Línuleg aðfallsgreining til að prófa kenningu embættis sérstaks saksóknara (EES) um verðgólf – Mismunandi skilgreining á umfangi viðskipta“. Í minnisblaðinu staðfesti höfundurinn að hann hefði aðstoðað ákærða og dómfelldu við að útbúa tölfræðigreiningu sem lögð var fram í héraðsdómi 1. október 2014. Í minnisblaðinu er leitast við að nota línulega aðfallsgreiningu til að kanna hvort umsvif viðskipta EFL gætu skýrt verðbreytingar á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. á ákærutímabilinu.

VII

1

Áður en afstaða verður tekin til einstakra ákæruatriða er rétt að gera grein fyrir stöðu ákærða innan Landsbanka Íslands hf. og þeim reglum bankans sem varða þau viðskipti sem I. kafli ákæru tekur til. Að auki verður vikið nokkrum orðum að stöðu fjármálamarkaða á þeim tíma sem ákært er fyrir, en ætla má að málavextir þar að lútandi séu nú alþekktir í ljósi umfangsmikillar umfjöllunar meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar.

2

Ákærði var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. með samningi 21. apríl 2003. Í tilkynningu bankans til Kauphallar Íslands daginn eftir kom fram að hann hafi verið ráðinn bankastjóri við hlið HJK sem hafði einn gegnt starfi bankastjóra um nokkurt skeið. Þar sagði jafnframt að bankastjórarnir myndu „fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að HJK fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.“ Þá var greint í tilkynningunni frá breytingum „á stjórnskipan bankans“ og að þrír nýir framkvæmdastjórar hafi verið ráðnir til starfa, þeirra á meðal YÖK sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans.

Enda þótt endurupptaka málsins taki ekki til annarra dómfelldu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 en ákærða þykir nauðsynlegt í ljósi sakargifta að gera stuttlega grein fyrir starfssviði þeirra innan bankans á þeim tíma sem I. kafli ákæru tekur til. Dómfelldi ÍG var ráðinn forstöðumaður „eiginfjárfestingadeildar á verðbréfasviði“ Landsbanka Íslands hf. með samningi 22. apríl 2003. Þar var tekið fram að yfirmaður hans væri framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, sem var sem fyrr segir YÖK. Í samningnum sagði enn fremur: „Starfsmaðurinn ber ábyrgð á daglegum rekstri deildarinnar, framþróun hennar og uppbyggingu. Auk þess sinnir starfsmaðurinn stjórnunarstörfum og öðrum þeim störfum sem honum kunna að vera falin af yfirmanni eða bankastjórn hverju sinni.“ Dómfelldi JSH starfaði í EFL undir stjórn dómfellda ÍG og fékkst þar einkum við kaup og sölu á innlendum hlutabréfum. Þá var dómfelldi SS ráðinn til starfa sem sérfræðingur hjá EFL á árinu 2005 og var undir stjórn framkvæmdastjóra verðbréfasviðs og dómfellda ÍG.

3

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019 sem dæmt er samhliða máli þessu átti Samson eignarhaldsfélag ehf. 3. október 2008 4.684.608.801 hlut í bankanum eða 41,8539% alls hlutafjár. Þar sem félagið átti svo stóran hlut voru meðal annars skil milli bankaráðs og stjórnar bankans eins og sjá má í þeim reglum sem raktar voru í fyrrgreindum dómi. Í 20. grein samþykkta fyrir Landsbanka Íslands hf. kom til að mynda fram að bankaráð skyldi setja reglur um verkaskiptingu þess og bankastjóra. Skyldi það setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um heimildir ráðsins til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti. Um ábyrgð á daglegum rekstri bankans og töku ákvarðana sem ekki væru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum var fjallað í 21. grein samþykktanna, en þar sagði að bankastjórar færu með þá ábyrgð og heimild. Í því fólst að þeim bar að sjá um að bankareksturinn væri í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs.

Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019 kemur einnig fram að samkvæmt grein 8.1 starfsreglna bankaráðs mynduðu bankastjórar bankastjórn og í grein 8.2 að bankastjórnin bæri ábyrgð á daglegum rekstri bankans og færi með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki væru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Samkvæmt grein 9.1 starfsreglnanna hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og jafnframt almennt eftirlit með rekstri hans. Í upphafi greinar 9.2 sagði að bankaráð skyldi „annast ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar“. Í upphafi greinar 9.3 sagði svo: „Bankastjórn hefur heimild til að ákveða kaup og sölu hlutabréfa í veltubók bankans.“

Í bréfi þáverandi forstöðumanns áhættusviðs bankans 16. mars 2015 segir hann að áhættureglur bankans hafi verið skrifaðar undir sinni ritstjórn og tilgangur þeirra hafi verið „að skrá vilja bankastjórnar hvernig áhættutaka færi fram fyrir áhættuþætti verðbréfasviðs bankans og starfsemi henni tengdri.“ Í málinu liggja fyrir tvær útgáfur af áhættureglum Landsbanka Íslands hf. Sú eldri er frá október 2005, merkt 2.0.4, og sú yngri frá september 2006, merkt 2.0.5. Liggur jafnframt fyrir tölvubréf framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Landsbanka Íslands hf. 27. september 2006 þar sem tilkynnt var um að nýjar reglur um rekstraráhættu sem bankastjórn hafi ,,samþykkt nýverið“ hefðu tekið gildi. Þrátt fyrir þetta er vafi um hvor útgáfan hafi í raun gilt á ákærutímabilinu, eins og ráða mátti af framburði ákærða við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hvað sem líður þeim vafa er sá hluti reglnanna sem hér verður rakinn efnislega samhljóða áhættureglum Landsbanka Íslands hf. frá október 2005, merktum 2.0.4.

Samkvæmt 3. grein áhættureglnanna frá september 2006 báru bankastjórar ábyrgð á daglegri stjórnun bankans gagnvart bankaráði en framkvæmdastjórar ábyrgð gagnvart bankastjórum á starfsemi hvers sviðs og að áhættan væri í samræmi við starfsreglur bankans. Þá kom fram að fjármálanefnd bankans hefði meðal annars „það hlutverk að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og að ákveða áhættumörk.“ Hlutverk millistjórnenda væri að sjá til þess að stefnu varðandi áhættu væri framfylgt, verkferlar væru skráðir og þeim viðhaldið og að starfsmenn þeirra færu eftir reglum og verkferlum bankans. Orðrétt sagði svo: „Reglunum er ætlað að setja fram á skipulegan hátt þau skilgreindu áhættumörk sem Landsbankinn leyfir sér að taka fyrir stöður í eigin reikning og miðlun áhættu til viðskiptavina sinna. Markmið með áhættureglunum er að tryggja að til séu heimildir um leyfilega áhættutöku og þannig stýra áhrifum áhættuþátta á rekstrarreikning bankans.“ Þá kemur fram í grein 9.5: „Stefnumótandi ákvarðanir er varða markaðsáhættu eru teknar af Fjármálanefnd.“ Í 21. grein sagði jafnframt að verkefni EFL fælust „í umsjón með öllum veltubókarviðskiptum bankans með hlutabréf og að sjá um fjárfestingar í skráðum eða óskráðum bréfum.“ Einnig sæi deildin „um sölutryggingar og viðskiptavakt á hlutabréfum“. Í grein 21.1.5.1 var fjallað um „færsluheimildir eigin fjárfestinga“ þar sem viðskiptum var skipt í fjóra flokka. Hefðu starfsmenn deildarinnar heimild til viðskipta fyrir allt að 250.000.000 króna en þyrftu að afla samþykkis forstöðumanns hennar fyrir viðskiptum að 500.000.000 króna, samþykkis framkvæmdastjóra verðbréfasviðs fyrir viðskiptum að 1.000.000.000 króna, en samþykkis fjármálanefndar eða bankastjórnar ef viðskiptin næmu hærri fjárhæð.

Í ársskýrslu Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 kom fram í kafla um stjórnarhætti bankans að „bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri og áhættustýringu bankans gegnum fimm fastanefndir: Lánanefnd, fjármálanefnd, eignastýringarnefnd, rekstrarnefnd og áhættunefnd samstæðunnar. Nefndirnar eru vettvangur ákvarðanatöku, stýringar og eftirlits samstæðunnar, t.a.m. útláneftirliti, markaðsáhættu og rekstrarumhverfi.“ Um hlutverk fjármálanefndar kom svo fram að hún ætti meðal annars að hafa eftirlit með fjárfestingarbankastarfsemi og áhættuþáttum í starfsemi bankans, auk þess sem nefndin ætti að setja reglur um áhættustýringu.

Samkvæmt gögnum málsins voru oftast nær haldnir fundir í fjármálanefnd Landsbanka Íslands hf. einu sinni í viku á þeim tíma sem ákæran tekur til þótt fyrir kæmi að þeir féllu niður. Ákærði var formaður nefndarinnar og fundastjóri en aðrir fastamenn voru HJK bankastjóri, BH framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, SES framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og YÖK framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Einstakir forstöðumenn sóttu jafnframt fundina þegar málefni þeirra sviða voru til umfjöllunar. Í bréfi fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar bankans, ÞAI 16. mars 2015, sagði að á vikulegum fjármálanefndarfundum hefðu deildirnar farið yfir sína stöðu og breytingar frá síðasta fjármálanefndarfundi og þannig ,,fengu starfsmenn samþykkt á stöðu og því sem þeir höfðu gert frá bankastjórn.“ Samkvæmt gögnum málsins var dagskrá fundanna að jafnaði á þann veg að þar fór fram kynning greiningardeildar, verðbréfamiðlunar, gjaldeyris- og afleiðumiðlunar bankans, fjárstýringar, alþjóðasviðs, eigin fjárfestinga og áhættustýringar bankans. Annaðist dómfelldi ÍG kynningu EFL á fundum nefndarinnar. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að ákærði hafi stjórnað fundum fjármálanefndar á tímabilinu 31. október 2007 til 1. október 2008, alls 32 fundum, og sat dómfelldi ÍG þá alla, stöðu sinnar vegna, að undanskildum þremur fundum sem haldnir voru 19. og 26. mars 2008 og 23. júlí sama ár.

4

Eitt af því sem kemur til skoðunar við úrlausn málsins eru aðstæður á fjármála- og hlutafjármörkuðum á ákærutímabilinu og hvernig þeir horfðu við stjórnendum Landsbanka Íslands hf. á hverjum tíma. Umfjöllun um það tekur óhjákvæmilega mið af því að um þá þróun hefur ítarlega verið fjallað meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Landsdóms. Eru margir þættir þeirrar atburðarásar alkunnir nú þegar liðið er á þrettánda ár frá falli viðskiptabankanna þriggja og annarra fjármálafyrirtækja.

Eins og fram kemur í gögnum málsins átti EFL viðskipti með hlutabréf í bankanum, bæði kaup og sölu, fyrir eigin reikning á ákærutímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 eða samtals 228 viðskiptadaga. Þau viðskipti sem ákært er fyrir áttu sér stað með sjálfvirkum pörunum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Auk þess munu viðskipti hafa átt sér stað með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í utanþingsviðskiptum og er að hluta til fjallað um þau í ákæru málsins.

Á árinu 2008 fór að gæta vaxandi alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og óróa á fjármálamörkuðum sem magnaðist til muna við fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september 2008. Um aðstæður á mörkuðum hér á landi á árinu 2008 má líta til dóms Landsdóms 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011, sem hefur samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm, fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir. Þar er greint frá því að á vettvangi Seðlabanka Íslands hafi farið fram ýmiss konar vinna í tengslum við vaxandi erfiðleika íslensku bankanna við fjármögnun á markaði á árinu 2008. Í fundargerð starfshóps seðlabankans um lausafjárvanda 23. janúar 2008 hafi verið fjallað um þessa erfiðleika og þar sérstaklega getið Landsbanka Íslands hf. og meðal annars tekið fram að búið hefði verið að loka á lánalínur bankans. Hafi það verið mat bankastjórnar Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 að íslensku bankarnir þrír væru í mikilli hættu og þar með íslenskt efnahagslíf og að á þessum tíma hefðu legið fyrir nægar vísbendingar um að bankarnir ættu í verulegum erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína með lánum á alþjóðlegum mörkuðum.

Alþjóðlegt umhverfi fjármögnunar viðskiptabanka, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., var til umfjöllunar á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. 24. september 2008 sem ákærði sat. Í upphafi fundarins fór forstöðumaður greiningardeildar bankans yfir greiningar og rannsóknir. Samkvæmt fundargerð kom þar meðal annars fram að gert væri ráð fyrir „að krónan styrkist frá öfgagildi“, en áfram væri fyrirsjáanlegur mikill halli á utanríkisviðskiptum. Millibankamarkaðir væru enn í uppnámi og samkeppni um innlán orðin mikil á Íslandi sem sýndi skort á krónum. Þá var vikið að svonefndum Icesave-innlánsreikningum hjá útibúi bankans í London þar sem orðrétt var bókað: „Útflæði upp á ca 10 mGPB á dag. Áhættufælni og menn þurfa að nota í annað ásamt því að væntingar eru til þess að vextir lækki. Barclays fer nú fram á að útflæði verði prefundað. Farið yfir flæðið.“ Samkvæmt fundargerð sýndi sérfræðingur hjá greiningadeild „yfirlit um aðgerðir í stærsta bail-outi sögunnar í USA. Bandaríska ríkið og Seðlabankinn hafa gripið til umfangsmikilla björgunaraðgerða. Gengi fjármálafyrirtækja hefur tekið kipp við þetta.“ Þá greindi BH framkvæmdastjóri alþjóðasviðs frá því að alþjóðamarkaðir væru „í raun lokaðir.“ Á fundinum skýrði dómfelldi ÍG meðal annars einnig svo frá samkvæmt fundargerð varðandi eigin fjárfestingar bankans: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum ... Jákvætt er að Marel hefur komið hressilega tilbaka síðustu daga ... Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn ... Staða niður um 6,5 ma.kr. á ársfjórðungnum. Má gera ráð fyrir að verði skilað á núlli ef uppfærsla á Iceland eign gengur eftir.“

Í áðurnefndum dómi Landsdóms kemur fram að vaxandi órói hafi verið á fjármálamörkuðum eftir því sem leið á árið 2008 og að 25. september það ár muni formaður stjórnar Glitnis banka hf. hafa átt fund með einum af bankastjórum Seðlabanka Íslands þar sem hann gerði grein fyrir erfiðri lausafjárstöðu bankans og óskaði eftir því að seðlabankinn veitti bankanum lán í því skyni að bæta hana. Að loknum fundahöldum, sem á eftir fóru, var fulltrúum Glitnis banka hf. tilkynnt að kvöldi sunnudags 28. sama mánaðar að bankanum stæði til boða hlutafjárframlag að fjárhæð 600.000.000 evra gegn 75% eignarhluta ríkisins í honum. Að morgni næsta dags mun stjórn Glitnis banka hf. hafa tilkynnt seðlabankanum að hún hefði ásamt stærstu hluthöfum í félaginu ákveðið fyrir sitt leyti að samþykkja þetta boð en efnt yrði til hluthafafundar til að taka endanlega afstöðu til þess. Þessi ráðagerð var kynnt að morgni mánudagsins 29. september 2008.

Á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. miðvikudaginn 1. október 2008, sem ákærði sat, var forstöðumaður greiningardeildar bankans meðal annars viðstaddur og lagði hann fram yfirlit yfir breytingar á langtímaeinkunnum fjármálafyrirtækja í september og bókaði í fundargerð: „væntingar aukast en það er mjög líklega tímabundið.“ Þá var bókað eftir SG forstöðumanni verðbréfamiðlunar í fundargerðinni: „Bara færeysk félög sem hækka undanfarið. Miklar lækkanir undanfarið en velta hefur aukist. Mikil velta með LAIS en lífeyrissjóðir hafa verið sölumegin. Mikill fjöldi viðskipta á tímabilinu. KAUP hefur lækkað umtalsvert minna en önnur fjármálafyrirtæki ... Heimsvístölur. Hrávörur hafa verið aðeins verið að koma til baka. Hráolía upp um 12% á árinu.“ Eftir dómfellda ÍG var meðal annars fært til bókar um EFL: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr. Síðan er óljóst með FL stöðu upp á 2,1 ma.kr. sem er væntanlega á núll. Ef tekið með þá 10,4 ma. kr. Mikil lækkun á Intrum en íslenskar eignir hafa margar verið seldar meira niður en aðrar undanfarið. Greiningaraðilar hafa komið með góðar greiningar undanfarið.“ Þá var jafnframt bókað eftir forstöðumanni fjárstýringar bankans að „veltubók í skuldabréfum tók góðan kipp, Hagnaður 7,5 ma.kr. ... ICESAVE UK hefur haldið ótrúlega vel. Í Hollandi virðist ljóst að viðskiptavinir koma inn upplýstir um stöðuna.“

Mál þróuðust áfram á fjármálamarkaði og fór svo að lokum að 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd en við það urðu hlutabréf í bankanum einskis virði. Reyndist föstudagurinn 3. október 2008 síðasti dagurinn þar sem viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fóru fram í Kauphöllinni. Með bréfi til skilanefndar bankans 8. október tilkynnti ákærði að hann segði upp starfi sínu hjá bankanum og óskaði eftir að verða leystur frá störfum þá þegar.

VIII

1

Rétt er að gera sérstaka grein fyrir upphafi og rannsókn þess máls sem leiddi til útgáfu ákæru. Fyrst verður hér rakið efni bréfs Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2009, því næst kæra Fjármálaeftirlitsins 19. október 2010 til embættis sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar 18 fyrrverandi starfsmanna Landsbanka Íslands hf., þar á meðal ákærða, með hlutabréf í bankanum á tímabilinu maí 2003 til október 2008 og að lokum skýrslu embættis sérstaks saksóknara um rannsókn málsins, sem sakargiftir á hendur ákærða og dómfelldu voru reistar á.

2

Í bréfi Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2009 kom fram að hún hafi haft til athugunar verðmyndun með hlutabréf stærstu viðskiptabanka landsins, þar á meðal Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu sagði: „Kauphöllin hefur veitt því athygli að þegar skoðuð eru viðskipti þeirra miðlara innan bankanna sem áttu viðskipti fyrir hönd eigin reiknings (eigin viðskipti) á sl. mánuðum virðist sem það magn hlutabréfa sem keypt var í eigin félagi hafi verið umtalsvert meira heldur en það sem var selt. Á stundum þar sem mikill almennur söluþrýstingur var á hlutabréfamarkaði, innlendum sem erlendum, sérstaklega gagnvart bönkum og fjármálafyrirtækjum, og í kjölfar birtingar á fréttum sem undir eðlilegum kringumstæðum teldust neikvæðar, allt að því einokuðu eigin viðskipti bankanna kauphlið tilboðabókar eigin félags. Slíkur kaupþrýstingur getur eðli málsins samkvæmt haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna. Til þess að kanna viðskiptahætti eigin viðskipta bankanna nánar voru tekin saman öll viðskipti í Kauphöllinni með hlutabréf hvers banka fyrir sig, yfir tímabilið 02.05.2008 – 03.10.2008. Tímabilið var valið með hliðsjón af þeim hremmingum sem höfðu átt sér stað á fjármálamörkuðum auk mikillar veltuhlutdeildar bankanna í hlutabréfum eigin félags á tímabilinu. Þó skal þess getið að þátttaka eigin viðskipta bankanna í tilboðabókum sinna félaga var einnig umtalsverð á fyrrihluta ársins. Að mati Kauphallarinnar fæst í þessu tilviki skýrust mynd af hegðun viðkomandi kauphallaraðila með því fyrst og fremst að skoða viðskipti sem verða til við sjálfvirka pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar (e. autotrades), eða m.ö.o. þegar horft er framhjá tilkynntum viðskiptum. Tilkynnt viðskipti hafa ekki áhrif á síðasta viðskiptaverð nema þau séu innan verðbils og eru verðáhrif slíkra viðskipta því takmörkuð ... Vankanturinn á þessari aðferðarfræði er sá að þegar skoða á nettó kaup eða sölu á tímabilinu er vantalið það magn sem keypt er, eða selt, utan tilboðabókarinnar og tilkynnt síðan í viðskiptakerfið. Nánar verður þó vikið að þessum þætti hér á eftir.“

Í bréfi Kauphallarinnar var síðan gerð grein fyrir viðskiptum hvers banka um sig, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu 2. maí til 3. október 2008 og þar að auki sérstaklega viðskiptum þeirra í opnunar- og lokunartilboðum. Kom fram að á fyrrnefndu tímabili hefðu heildarkaup á eigin bréfum numið 1.557.462.744 krónum en eigin bréf verið seld fyrir 4.258.830 krónur. Þá kom fram að heildarkaup EFL í eigin bréfum umfram sölu í opnunaruppboðum hafi numið að meðaltali 54,03% af öllum viðskiptum í opnunaruppboðum og heildarkaup umfram sölu í lokunaruppboðum hafi numið að meðaltali 72,69%. Að því búnu var tekið fram í bréfinu: „Til þess að fá heilsteypta mynd af viðskiptaháttum eigin viðskipta bankanna er nauðsynlegt að líta ekki aðeins til viðskipta sem verða til við pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar heldur einnig til tilkynntra viðskipta. Eins og fram hefur komið hér að framan eru kaup bankanna umfram sölu umtalsverð, þegar einungis eru skoðuð viðskipti sem orðið hafa við pörun tilboða. Sá möguleiki er aftur á móti fyrir hendi að eigin viðskipti bankanna hafi smám saman, eða í nokkrum stórum viðskiptum, selt þá hluti sem keyptir voru á tímabilinu með því að semja við aðra aðila, hvort sem um viðskiptavini eða aðra kauphallaraðila er að ræða, utan tilboðabókanna og tilkynna viðskiptin í kjölfar þess í viðskiptakerfið ... Þegar viðskipti eru tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar kemur ekki fram hver sé kaupandi og seljandi heldur einungis auðkenni miðlarans. Í tilvikum þar sem mótaðili viðskiptanna er einnig kauphallaraðili og samið er um að hvor aðilinn tilkynni sinn legg viðskiptanna er aftur á móti hægt að sjá auðkenni hvors miðlara fyrir sig, en ekki upplýsingar um hinn endanlega viðskiptavin – sem getur allt eins verið annar miðlari. Tilkynni starfsmaður eigin viðskipta viðskipti eru því mjög takmarkaðar leiðir til þess að sjá hvort um kaup eigin viðskipta eða sölu sé að ræða. Að auki geta aðrir kauphallaraðilar, eða miðlarar hjá sama kauphallaraðila, tilkynnt viðskipti þar sem eigin viðskipti bankanna eru hinn endanlegi kaupandi eða seljandi, m.ö.o. þar sem eigin viðskipti bankanna væru viðskiptavinur viðkomandi miðlara.“

3

Eins og áður segir hófst málið með kæru Fjármálaeftirlitsins 19. október 2010 til embættis sérstaks saksóknara. Þar kom fram að rannsókn Fjármálaeftirlitsins hefði hafist í kjölfar framangreinds erindis frá Kauphöllinni. Rannsóknin hefði meðal annars leitt í ljós að starfsmenn EFL hafi á þessu tæplega fimm og hálfs árs tímabili keypt samtals 3.300.000.000 hlutabréfa sem útgefin voru af bankanum „nettó á markaði með sjálfvirkri pörun ... eða um 30% af útgefnu hlutafé bankans. Umfang kaupanna var stór hluti af veltu bréfanna í mörgum mánuðum á tímabilinu sem um ræðir. Sem dæmi má nefna að frá maí til október 2008 námu nettó kaup EFL, sem hlutfall af heildarkaupum í Kauphöllinni, á bilinu 40-80% í sérhverjum mánuði.“

Í kæru Fjármálaeftirlitsins var gerð svofelld grein fyrir sjálfvirkum pörunarviðskiptum: „Sjálfvirk pörun verður til í viðskiptakerfi kauphallar þegar samsvörun verður milli tilboða kaupenda og seljenda í tilboðabók. Í kerfinu verða til skrár yfir æskilegt verð (e. desired price) og magn í mismunandi kaup- og sölutilboðum sem miðlarar, sem hafa aðgang að kerfinu, setja inn. Þegar samsvörun verður milli tilboða kaupanda og seljanda verður til sjálfvirk pörun viðskiptanna og verðbréfin skipta um hendur. Sjálfvirk pörun viðskipta er því drifkrafturinn í að til verði markaðsverð verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar sjálfvirk pörun tekst verður til síðasta viðskipta- eða markaðsverð verðbréfsins og þar með einnig það verð sem notað er til útreikninga í verðbréfavísitölum. Í raun verður markaðsverð verðbréfa til við sjálfvirka pörun ... Til að hafa áhrif á markaðinn með sjálfvirkri pörun í kauphöll, þarf verðbréfasalinn stöðugt að uppfæra kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðabókinni. Með því verður alltaf til kauptilboð sem samsvarar næsta sölutilboði og markaðsverðið, sem er síðasta greidda verð, ýmist hækkar, stendur í stað eða lækkar hægar en það hefði ella gert ef verðbréfasalinn hefði ekki verið til staðar. Án verðbréfasalans hefðu aðrir væntanlegir kaupendur að öllum líkindum ekki keypt hlutabréfin á því verði sem seljandinn bauð og verðið hefði lækkað til að mæta lægri kauptilboðum.“

Þá var í kærunni eftirfarandi lýsing á ferli viðskipta sem talið var að eigin fjárfestingar og verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hefðu staðið að: „Það er álit Fjármálaeftirlitsins að fyrrgreind svið ... hafi á tímabilinu maí 2003 – október 2008 unnið saman og búið til feril viðskipta í þeim tilgangi að hafa áhrif á markaðsverð hlutabréfa útgefnum af bankanum sjálfum. Fjármálaeftirlitið telur að ferillinn hafi falist í því að kaupa stöðugt hlutabréf á markaði og selja þau síðan utan markaðar. Þessi aðferð sem var bæði skipulögð og kerfisbundin virðist hafa verið notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á verð hlutabréfanna ... Algengt var að verðbréfasalar EFL fóru af krafti inn á markaðinn. Þeir voru á kauphliðinni í mörgum viðskiptum og notuðu til þess fjármuni bankans, að því er virðist í þeim tilgangi að hækka verð eða viðhalda verði hlutabréfa í Landsbankanum. Þessi aukna eftirspurn varð til þess að styðja við verðið (þegar verð lækkaði á markaði) eða hækka verðið (þegar verð var stöðugt eða hækkandi) þar sem það er fyrst og fremst við sjálfvirka pörun viðskipta í kauphöll sem markaðsverð verður til. Áhrifaríkasta leið verðbréfasala, sem vill styðja við eða hreyfa við hlutabréfaverði, er að vera á kauphliðinni í eins mörgum viðskiptum og hann getur í viðskiptakerfi kauphallar. Með því styður hann við verðið í hverjum viðskiptum fyrir sig. Það er álit Fjármálaeftirlitsins að verðbréfasalar EFL hafi haft þennan háttinn á ... Vandamálið við að kaupa ítrekað hlutabréf útgefið af fjármálafyrirtækinu sjálfu er að því er óheimilt að eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins ... Þegar reynt er að hafa áhrif á hlutabréfaverð með miklum kaupum á hlutabréfum er því oftast sjálfhætt, þar sem líklegast er að tap myndist þegar reynt er að selja uppsöfnuðu hlutabréfin í kauphöll. Miðlun Landsbankans var að mati Fjármálaeftirlitsins hjálparhöndin í þessu ferli. Miðlunin hafði aðgang að viðskiptavinum sem sumir fengu óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá lánadeildum bankans. Miðlararnir gátu því selt mikið af þessum hlutabréfum til „útvalinna“ viðskiptavina. Margir þeirra tóku litla eða enga áhættu við kaupin þar sem kaupin voru fjármögnuð að fullu með lánum frá bankanum og voru án annarra trygginga en veða í sjálfum hlutabréfunum ... Hér virðist því vera um tvenns konar óeðlileg áhrif að ræða, fyrst umfangsmikil kaup á opnum markaði til að styðja við hlutabréfaverðið og síðan losun á þessum bréfum með sýndarviðskiptum á verði sem var undir áhrifum af kaupum EFL.“

Í kærunni var því nánar lýst hvernig hin ætlaða markaðsmisnotkun hefði verið upp byggð, bæði með kaupum og sölu Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu sjálfu. Þar sagði meðal annars um kauphliðina á grundvelli upplýsinga um kaup EFL á slíkum hlutabréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni umfram sölu í þeim viðskiptum: „Fjármálaeftirlitið telur að EFL hafi stutt við verð hlutabréfa Landsbankans með því að auka kaup sín á bréfunum svo um munar þegar verð þeirra tók að lækka ... Eðlilegt verð á bréfum Landsbankans var aldrei vitað sökum verðstuðnings EFL við bréfin. Verð bréfanna hefði samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn lækkað mun hraðar og fyrr hefði ekki verið fyrir tilstilli falskrar eftirspurnar EFL ... Viðskipti með sjálfvirkri pörun geta verið á tvo vegu: sá aðili sem kaupir gengur að sölutilboði þess sem vill selja eða öfugt ... Allt þar til í lok árs 2007 voru flest viðskipti að frumkvæði mótaðila og telur Fjármálaeftirlitið að EFL hafi verið að dempa verðsveiflur bréfanna, þ.e.a.s. EFL var alltaf tilbúið með kauptilboð rétt undir síðasta viðskiptaverði. Frá nóvember 2007 og fram að falli bankans var verðið í frjálsu falli. „Gólf“ ... EFL réðu ekki við að halda verðinu uppi og telur Fjármálaeftirlitið að þá hafi EFL reynt að hækka verð bréfanna með því að ganga á sölutilboðahliðina, þ.e.a.s. EFL fór að kaupa meira að eigin frumkvæði til þess að hækka verðið. Þegar framboð er meira en eftirspurn á verð undir eðlilegum kringumstæðum að lækka. EFL beitti ákveðinni aðferð til þess að koma í veg fyrir þessa eðlilegu þróun. Aðferðin var sú að þegar framboð á bréfum var mikið röðuðu EFL inn kauptilboðum á verði nálægt síðasta viðskiptaverði og voru alltaf tilbúnir að kaupa bréfin á því gengi sem þeir vildu halda bréfunum á. Þannig gátu þeir komið í veg fyrir verðlækkun eða a.m.k. hægt á henni ... EFL voru virkir í viðskiptum með eigin hlutabréf og voru þátttakendur í um 14 – 20% af heildarveltu þeirra hvert ár frá 2003 – 2007 en árið 2008 var hlutfallið mun hærra eða u.þ.b. 53%. Árið 2006 var metár hvað varðar veltu með hlutabréf Landsbankans en árið eftir dróst veltan mikið saman. Það sama hefði að öllum líkindum gerst árið 2008 ef ekki hefði verið fyrir tilstilli EFL ... Þar sem EFL var svo stór aðili á markaði með hlutabréf Landsbankans á þessum árum gaf magn og seljanleiki (e. liquidity) bréfanna ranga mynd af raunverulegu virði þeirra.“

4

Embætti sérstaks saksóknara tók málið til rannsóknar og í skýrslu þess um rannsókn málsins, sem sakargiftir á hendur ákærða og dómfelldu eru reistar á, er línurit sem sýnir kaup EFL á hlutabréfum útgefnum af bankanum, umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands á tímabilinu 1. maí 2003 til 3. október 2008. Á línuritinu eru sýnd nettóviðskipti í sjálfvirkri pörun í hverjum mánuði, auk gengis hlutabréfanna í lok hvers mánaðar. Í skjali sem stafar frá ákæruvaldinu koma fram nettóviðskipti EFL með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í Kauphöllinni í hverjum mánuði frá maí 2003 til október 2008, miðað við nafnverð hlutabréfanna eða fjölda hluta í bankanum, svo og lokagengi bréfanna í lok hvers mánaðar á sama tímabili. Eins og þar greinir voru kaup EFL á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. umfram sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum yfirleitt sögð lítil frá miðju ári 2003 fram í október 2007 í samanburði við þann tíma sem ákært er fyrir og í einstaka mánuði voru hlutirnir, sem keyptir voru, færri en þeir sem seldir voru. Þetta hafi síðast átt sér stað í október 2007 þegar sá mismunur nam 1.502.012 hlutum. Nettókaup EFL hafi verið óvenjumikil í október 2004, 88.021.633 hlutir, þegar gengi hlutabréfanna lækkaði úr 14,00 krónum á hlut frá lokum september í 12,65 krónur í októberlok. Sama mun hafa gerst í mars 2006, en þá námu kaupin 86.966.733 hlutum meðan gengið lækkaði úr 28,90 í 24,50. Reyndar hafi nettókaup á öllu árinu 2006 verið miklum mun meiri en árin áður sem sjáist á því að árið 2005 hafi þau til að mynda numið samtals 192.696.536 hlutum en 438.541.388 hlutum árið 2006. Á því ári hafi gengi hlutabréfanna lækkað ört framan af árinu, úr 25,30 frá árslokum 2005 í 20,20 í lok júní 2006, en á þeim tíma hafi verið keyptir samtals 349.349.966 hlutir umfram þá sem seldir voru. Fyrstu tíu mánuði ársins 2007, þegar gengið hækkaði úr 26,50 frá árslokum 2006 í 43,80 í lok október 2007, hafi nettókaup EFL verið í lágmarki þar sem þau hafi numið samtals 83.018.767 hlutum. Þetta hafi breyst í nóvember og desember sama ár þegar nettókaup í hvorum mánuði um sig hafi verið um 80% af því sem þau námu samtals á tíu mánaða tímabili á undan. Í nóvember 2007 hafi gengi hlutabréfanna tekið að lækka. Það hafi svo lækkað enn meira þegar kom fram á árið 2008, en að sama skapi hafi kaup EFL aukist eftir því sem á árið leið og náð hámarki í september og október það ár. Þó hafi dregið nokkuð úr kaupunum í apríl og ágúst eftir að gengið hafði hækkað lítillega frá lokum febrúar annars vegar og lokum júlí hins vegar.

IX

Fyrir héraðsdómi voru teknar skýrslur af 45 vitnum auk ákærða og dómfelldu. Hæstiréttur ákvað að heimila skýrslutökur við meðferð málsins. Af hálfu ákæruvaldsins var þess óskað að teknar yrðu skýrslur af ákærða og dómfelldu JSH, ÍG og SS og vitninu YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. Af hálfu ákærða var þess óskað að tekin yrði skýrsla af vitninu SRÞ fyrrverandi starfsmanni EFL. Verður nú gerð grein fyrir framburði þeirra við meðferð málsins hér fyrir réttinum að því leyti sem nauðsynlegt þykir fyrir úrlausn þess.

Ákærði ítrekaði í meginatriðum framburð sinn sem fram kom við meðferð málsins í héraði. Af hálfu bankans hefði verið óformleg viðskiptavakt á eigin bréfum allt frá árinu 1998 en hún hefði aldrei verið rædd sérstaklega á fjármálanefndarfundum. Tilvist slíkrar viðskiptavaktar hefði verið alkunna á markaði, einnig í starfsemi hinna viðskiptabankanna. Eftirlitsaðilar hefðu hvorki gert athugasemdir við þetta né aðilar innan bankans, svo sem innri endurskoðun, lögfræðingar eða regluvörður.

Ákærði skýrði svo frá að fjármálanefnd hafi verið upplýsinganefnd en ekki vettvangur fyrir töku ákvarðana. Nefndin, sem hafi fundað á hverjum miðvikudegi, hafi meðal annars fjallað um málefni verðbréfasviðs. Á vettvangi hennar hafi hann ekki haft aðra stöðu en HJK sem jafnframt var bankastjóri, andstætt því sem átt hafi við til að mynda um lánanefnd. Fyrir fjármálanefnd hafi meðal annars verið lagðar skýrslur um nettóstöðu viðskipta EFL í vikunni þar á undan. Við upplýsingagjöf um viðskipti með eigin bréf bankans hafi ekki verið greint frá einstökum viðskiptum sem voru þar að baki, hvorki kaupum né sölu. Þar hafi ekki heldur verið aðgreind sala og kaup sem fóru annars vegar fram í utanþingsviðskiptum og hins vegar viðskiptum í Kauphöllinni. Á síðasta fundi nefndarinnar hafi hann fengið skýrslu um viðskipti EFL í vikunni þar á undan og því aldrei séð yfirlit yfir viðskipti EFL síðustu vikuna sem bankinn hafi verið í rekstri. Jafnframt hafi upplýsingar um afkomu verðbréfasviðs vegna viðskipta með eigin bréf bankans verið gefnar í því skyni að sýna fram á áhrif þeirra á efnahag hans. Ástæðan væri sú að tap eða hagnaður þeirra viðskipta kæmi ekki fram í rekstrarreikningi heldur sem sérstakur liður undir eigin fé í efnahagsreikningi bankans. Þá vísaði ákærði til þess að hefði hann haft áhuga á að fá upplýsingar um stöðu bankans í eigin bréfum hefði hann sjálfur óskað eftir gögnum um einstök viðskipti EFL en það hafi hann ekki gert. Þá bar ákærði að hann hefði aðallega fylgst með svokallaðri 10% reglu, sbr. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og fengið óreglulega skýrslur þar um, síðast í desember 2007 að því er hann minnti. Sem dæmi um viðbrögð sín vegna þeirrar stöðu sem hefði komið upp þegar bankinn hefði nálgast fyrrgreind mörk var að hann hafi meðal annars átt frumkvæði að því að greiða arð til hluthafa í formi hlutabréfa í bankanum og hafi sú ráðstöfun komið til framkvæmda vorið 2008.

Áhættustýring bankans hafi verið undir stjórn ÞAI sem heyrði undir alþjóðasvið en framkvæmdastjóri þess hafi verið BH. Alþjóðasviðið hafi heyrt undir HJK bankastjóra. Auk þess benti ákærði á að í áhættureglum bankans, þar sem talað væri um heimildir verðbréfasviðs, væri tekið fram að leita þyrfti heimildar ,,bankastjórnar“ eða fjármálanefndar, en ekki ,,bankastjóra“. Starfsmenn verðbréfasviðs hefðu haft rúmar heimildir til að fjárfesta í eigin bréfum innan þess ramma sem ákvarðaður hafi verið af fjármálanefnd sem hafi miðast við að eign færi ekki fram úr 5% af hlutafé bankans í ljósi flöggunarskyldu. Sama regla hafi gilt um kaup á bréfum í öðrum félögum. Við slíkar aðstæður hafi þurft að afla samþykkis bankastjórnar. Erfitt hafi verið að koma við raunhæfu eftirliti með einstökum viðskiptum EFL eða meta hvort farið hafi verið út fyrir heimildir vegna þess hvernig reglum bankans um upplýsingagjöf var háttað.

Hann hefði litið svo á að kæmu ekki fram athugasemdir á fjármálanefndarfundum teldust viðskipti EFL samþykkt. EFL hefði skilað miklum hagnaði fram til ársins 2008 þegar tap varð af viðskiptum. Það hafi fyrst og fremst skýrst af markaðsaðstæðum þess tíma. Vísaði ákærði ítrekað til þess að við meðferð málsins í héraði hefðu starfsmenn EFL gefið afar greinargóðar skýringar á einstökum fjárfestingum deildarinnar á ákærutímabilinu.

Ákærði gerði þá meginathugasemd við lýsingu viðskipta EFL í ákæru að þar væri ekki gerð grein fyrir öllum viðskiptum EFL með hlutabréf í bankanum heldur eingöngu lýst sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni en ekki utanþingsviðskiptum, en slíkur greinarmunur hafi aldrei verið gerður í bankanum eða á markaði. Að þessu athuguðu gerði ákærði ekki tölulegar athugasemdir við framsetningu í ákærunni. Þá mótmælti hann því að EFL hefði í reynd haft áhrif á verð hlutabréfa í bankanum og vísaði þar um til skýrslu SRÞ sem var starfsmaður EFL á ákærutímabilinu. Í því samhengi vísaði ákærði einkum til þess að verð á hlutabréfum í bankanum hefði þróast í takt við hlutabréfavísitölu norrænna banka og milli þeirra verið mikil fylgni eða um 70%. Sérstaklega aðspurður tók hann fram að á þeim tíma sem leið frá því að tilkynnt var um fyrirhuguð kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008 hafi EFL brugðist við aukinni eftirspurn, meðal annars vegna kaupa í gegnum Landsbankann í Lúxembourg, með því að kaupa bréf í auknum mæli á markaði. Ákærði tók þó fram að slíkar upplýsingar hefði hann ekki haft á þessum tíma.

Þá tók ákærði fram að hann myndi ekki eftir umræðu um eign bankans í eigin bréfum á fundi fjármálanefndar miðvikudaginn 1. október 2008 eins og vísað sé til í fundargerð þess fundar. Ákærði áréttaði jafnframt að hann hefði þekkt dómfellda ÍG og átt í samskiptum við hann vegna einstakra málefna bankans, en hann hafði hins vegar hvorki þekkt dómfelldu JSH né SS, hvað þá gefið þeim fyrirmæli vegna starfa þeirra fyrir EFL.

Dómfelldu, JSH, SS og ÍG, voru kvaddir til skýrslutöku við meðferð málsins fyrir Hæstarétti þar sem þeir töldust að lögum hafa réttarstöðu ákærðu. Neyttu þeir allir réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 og neituðu að gefa skýrslu um sakarefnið við meðferð málsins fyrir réttinum.

YÖK, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. á ákærutímabilinu, gaf skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hann ítrekaði það sem fram kom í framburði hans í héraði að kaup EFL á bréfum í bankanum hefðu verið rædd á fundum fjármálanefndar og stefnan verið mótuð þar. Dómfelldi ÍG hefði sem forstöðumaður EFL stjórnað ákvörðunum deildarinnar innan hvers viðskiptadags. Hann tók fram að Landsbanki Íslands hf. hefði verið viðskiptavaki á eigin bréfum. Tilgangur þess hefði verið að skapa seljanleika hlutabréfa í bankanum sem og að setja kaup- og sölutilboð fram. Nánar tiltekið vísaði hann til þess að hefði verið um eftirspurn að ræða hefðu bréf bankans verið seld en við aukið framboð þeirra hefði viðskiptavakinn keypt. Fjármálanefnd hefði ekki gefið fyrirmæli um einstök kaup EFL. Hagnaður og tap hefði verið af viðskiptum með eigin bréf og hefði það meðal annars komið fram í svokölluðum 4:15-skýrslum innan bankans og á einstökum fjármálanefndarfundum. Vitnið staðfesti enn fremur að einstakir meðlimir fjármálanefndar hefðu haft yfirsýn yfir stöðu bankans í eigin bréfum á hverjum tíma.

Vitnið SRÞ, fyrrverandi starfsmaður EFL, kom fyrir Hæstarétt. Hann staðfesti að hafa unnið að tölfræði í ódagsettri skýrslu sem lögð var fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Auk þess staðfesti hann að hafa gert framlagt skjal um ,,línulega aðfallsgreiningu“ 7. febrúar 2021. Hann tók fram að hvort heldur litið væri til heildarviðskipta með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. eða einungis viðskipta í sjálfvirkri pörun á ákærutímabilinu, sýndu útreikningar að viðskipti EFL hefðu ekki haft áhrif á verðbreytingar hlutabréfa í bankanum á tímabilinu.

X

1

Með dómi héraðsdóms var ákærði sakfelldur ásamt dómfelldu ÍG og JSH fyrir markaðsmisnotkun vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008 en dómfelldi SS sýknaður. Byggðist niðurstaða dómsins á því að á grundvelli mats á munnlegum framburðum væri ekki talið unnt að sakfella fyrir viðskipti nema vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Í tilviki dómfellda SS var ekki talið unnt vegna „ekki ótrúverðugs“ framburðar hans að sakfella hann fyrir neinn hluta ákærutímabilsins. Var ákærða gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en þar af skyldi fresta fullnustu níu mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi hann almennt skilorð eftir 57. gr. almennra hegningarlaga. Refsing dómfelldu ÍG og JSH var ákveðin fangelsi níu mánuðir en fresta skyldi fullnustu sex mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldu þeir almennt skilorð eftir 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, sem hér er endurupptekinn í tilviki ákærða, voru hann og allir dómfelldu sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun vegna alls ákærutímabilsins. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og annarra dómfelldu hefðu enga þýðingu um sekt eða sýknu þar sem af hálfu bankans hefði verið stunduð ólögmæt markaðsmisnotkun allt ákærutímabilið án þess að þar væri vikið sérstaklega að áskilnaði 1. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi eitt ár og sex mánuðir, dómfellda ÍG tvö ár, dómfellda JSH eitt ár og dómfellda SS níu mánuðir.

2

Við skýrslugjöf fyrir Hæstarétti lögðu dómfelldu ÍG, JSH og SS fram bókanir. Dómfelldi SS vísaði til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði tekið tvær kvartanir hans vegna framangreinds dóms Hæstaréttar til meðferðar en málið hefði ekki enn þá verið til lykta leitt á þeim vettvangi. Dómfelldi ÍG vísaði til þess að hann hefði kvartað yfir málsmeðferð Hæstaréttar í fyrrgreindu máli til dómstólsins og fyrir lægi viðurkenning íslenska ríkisins í formi yfirlýsingar 18. september 2020 um að brotinn hafi verið á honum réttur samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í bókunum allra dómfelldu kom fram að þeir teldu uppfyllt skilyrði til endurupptöku málsins, en enginn þeirra hefði enn tekið afstöðu til þess hvort þeir myndu óska hennar. Neyttu þeir allir réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 og neituðu að gefa skýrslu um sakarefnið við meðferð málsins fyrir Hæstarétti svo sem fyrr segir.

Eftir að málið hafði verið dómtekið óskaði Hæstiréttur, með vísan til 168. gr. laga nr. 88/2008, eftir upplýsingum með bréfum til ákæruvaldsins 19. og 22. febrúar 2021 um hvort fyrir lægju kvartanir frá dómfelldu til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 842/2014. Ef svo væri var jafnframt óskað eftir upplýsingum um afstöðu íslenska ríkisins til þeirra kvartana. Með bréfi 20. febrúar 2021 frá ákæruvaldinu var staðfest að dómfelldu SS og ÍG hefðu lagt fram kvartanir til dómstólsins og fylgdi með sátt í máli dómfellda ÍG og einhliða yfirlýsing íslenska ríkisins í máli dómfellda SS, en tekið fram að hún hefði ekki verið til lykta leidd af dómstólnum.

Með sáttinni við dómfellda ÍG 18. september 2020 viðurkennir íslenska ríkið að brotinn hafi verið réttur á honum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 16. júlí 2019 í máli Styrmis Þórs Bragasonar gegn Íslandi. Málinu mun hafa lokið á þeim grundvelli með niðurfellingu þess 4. mars 2021. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 í máli dómfellda SS viðurkennir það að brotinn hafi verið á honum réttur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar 2020 í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi og þess hvernig staðið var að sakfellingu hans fyrir Hæstarétti. Í sáttinni og yfirlýsingu íslenska ríkisins er vísað til þess að dómfelldu geti sótt um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014.

Í bréfi ákæruvaldsins 22. febrúar 2021 kom fram að ekki lægi fyrir kvörtun dómfellda JSH til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar í málinu. Með bréfinu fylgdi hins vegar samkomulag 30. júní 2020 þar sem íslenska ríkið féllst á að greiða honum miskabætur og lögmannskostnað vegna hlerunar á rannsóknarstigi málsins.

            Málið var endurupptekið í Hæstarétti miðvikudaginn 3. mars 2021, sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um framangreind gögn og endurflytja málið. Var málið því næst dómtekið að nýju.

Af 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu leiðir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 stendur að sínu leyti óraskaður í tilfelli dómfelldu ÍG, JSH og SS hvað sem líður áðurgreindum lyktum mála þeirra fyrir Mannréttindadómstólnum.

3

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er sökuðum manni tryggður réttur til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu er einungis til umfjöllunar sá hluti I. kafla ákæru þar sem fjallað er um ætlaða háttsemi ákærða, en ekki annarra dómfelldu í hæstaréttarmáli nr. 842/2014. Forsendur Hæstaréttar fyrir að hafna frávísunarkröfu ákæruvaldsins í málinu og fallast á endurupptöku þess á hendur ákærða leiða til þess að aðrir dómfelldu eiga að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum sambærilegan rétt til endurupptöku málsins leiti þeir eftir því. Að þessu virtu ber að árétta þá grunnreglu sakamálaréttarfars, sbr. meðal annars ákvæði þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, að sönnunargildi framburðar annarra dómfelldu fyrir héraðsdómi verður ekki endurmetið við meðferð máls þessa. Sú sérstaka staða sem að lögum hefur skapast vegna þessarar takmörkuðu endurupptöku málsins setur réttinum frekari skorður en ella væri við úrlausn Hæstaréttar um sakargiftir á hendur ákærða einum.

XI

1

            Verður nú gerð grein fyrir efnislegri úrlausn sakargifta á hendur ákærða. Fyrst er vikið nánar að lýsingu í ákæru, því næst gerð grein fyrir samskiptum starfsmanna EFL sem og verðbréfasviðs á ákærutímabilinu. Þá verður gerð grein fyrir fundargerðum fjármálanefndar og tölvubréfum ákærða á sama tímabili. Því næst verður vikið að vörnum ákærða, einkum er varðar áskilnað 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár um skýrleika refsiheimilda sem og verknaðarlýsingu í ákæru.

Að lokum er tekin afstaða til þess hvort á vegum Landsbanka Íslands hf. hafi verið stunduð markaðsmisnotkun á ákærutímabilinu og hvort ákærði hafi í því tilliti gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

2

Samkvæmt ákæru keypti EFL 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í félaginu sem viðskipti voru gerð með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 eða 48,4% af heildarveltu með hlutina í þeim viðskiptum á þessum liðlega ellefu mánuðum. Á sama tíma seldi deildin 57.213.029 hluti í félaginu eða 1,2% af heildarveltunni. Sagði í ákærunni að kaup umfram sölu hafi því samtals numið 47,2% af heildarveltu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., samtals 2.268.182.124 hlutum eða 56.240.113.876 krónum að markaðsvirði. Þar af hafi kaup umfram sölu verið 46% af heildarveltu með hlutabréf í félaginu í opnunaruppboðum og kaup umfram sölu 63% af heildarveltunni í lokunaruppboðum. Nafnverð kauptilboða EFL í hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hafi á fyrrgreindu tímabili numið 43% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin, en nafnverð sölutilboða deildarinnar í þau hlutabréf aðeins um 3% af heildarnafnverði sölutilboða. Samtals hafi kaup EFL á hlutabréfum í bankanum, umfram sölu, á tímabilinu verið um 20% af öllu útgefnu hlutafé þess.

Í töflu í ákærunni er að finna skiptingu á framangreindum nettóviðskiptum á umræddu tímabili eftir mánuðum. Þar kemur fram að þau hafi tekið til 67.705.455 hluta eða 15% af heildarveltu í þeim viðskiptum í nóvember 2007, 67.214.212 hluta eða 33% af heildarveltunni í desember sama ár, 195.885.014 hluta eða 39% af heildarveltunni í janúar 2008, 171.587.476 hluta eða 44% af heildarveltunni í febrúar sama ár, 154.885.306 hluta eða 42% af heildarveltunni í mars, 57.700.747 hluta eða 19% af heildarveltunni í apríl, 137.995.707 hluta eða 43% af heildarveltunni í maí, 241.609.648 hluta eða 57% af heildarveltunni í júní, 125.348.530 hluta eða 50% af heildarveltunni í júlí, 64.867.026 hluta eða 48% af heildarveltunni í ágúst, 569.989.300 hluta eða 61% af heildarveltunni í september og loks 413.393.703 hluta eða 79% af heildarveltunni í október 2008, en þann mánuð hafi viðskiptin sem fyrr segir aðeins staðið þrjá fyrstu dagana.

Í annarri töflu, sem er að finna í ákærunni, eru umrædd viðskipti sundurliðuð eftir viðskiptadögum sem voru alls 228 talsins á tímabilinu. Samkvæmt henni var yfirleitt um að ræða kaup umfram sölu á eigin bréfum og oftast nær munaði þar miklu. Í töflunni eru einnig upplýsingar um skráð gengi hlutabréfanna í lok hvers viðskiptadags. Þar kemur meðal annars fram að gengið hafi verið 43,40 krónur á hlut 1. nóvember 2007, 37,60 krónur 30. sama mánaðar, 35,50 krónur 28. desember sama ár, 30,80 krónur 31. janúar 2008, 26,80 krónur 29. febrúar sama ár, 29,60 krónur 31. mars, 29,90 krónur 30. apríl, 25,20 krónur 30. maí, 23,10 krónur 30. júní, 22,80 krónur 31. júlí, 24,00 krónur 29. ágúst, 20,40 krónur 30. september og loks 19,90 krónur 3. október 2008 þegar viðskiptum með hlutabréf í bankanum var hætt.

Samkvæmt ákæru voru framangreind viðskipti EFL framkvæmd að undirlagi ákærða. Um hafi verið að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafi haft áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, búið til verð á þeim og gefið eða verið líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega eða misvísandi til kynna. Þannig hafi ákærði raskað þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. með ólögmætum hætti.

3

Meðal málsgagna eru tölvubréf sem meðal annars dómfelldu ÍG, JSH og SS ýmist sendu eða fengu, svo og upptökur af símtölum þeirra á ákærutímabilinu og varða með einum eða öðrum hætti kaup EFL á hlutum í bankanum og mögulega skyldu til flöggunar vegna þeirra viðskipta vegna svonefndrar 5% reglu sbr. 93. gr. laga nr. 108/2007. Enda þótt í máli þessu sé eingöngu til úrlausnar ætluð refsiverð háttsemi ákærða þykir engu að síður rétt að rekja fyrrnefnd samskipti.

Að kvöldi 20. nóvember 2007 sendi dómfelldi JSH dómfellda ÍG svofellt tölvubréf: „Keyptum netto 17,4 m að nv í LAIS í dag (meðalverð 37,05) og heildar eignin er þá 150 m að nv í lok dags. Lokagengið var 37,90. Hvaða svigrúm höfum við í framhaldinu í LAIS ef mkt heldur áfram í ræpu á morgun?“ Að kvöldi 27. febrúar 2008 framsendi dómfelldi JSH í tölvupósti til dómfellda ÍG tölvubréf sem honum og dómfellda SS hafði rétt áður borist frá starfsmanni áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. með fyrirsögninni: „Nálgumst flöggunarmörk í LAIS“. Upphaf tölvubréfsins var svohljóðandi: „Nálgumst flöggunarmörkin í eigin bréfum. Staðan við lok dags var 523 milljónir hluta eða 4,67% af útgefnu hlutafé, um 36 milljón hlutum frá flöggun.“ Af þessu tilefni lét dómfelldi JSH eftirfarandi orð fylgja um leið og hann framsendi tölvubréfið til dómfellda ÍG: „Thad er ahyggjuefni hvernig stada mala er i lais. Verdum ekki lengi ad na floggunarmorkunum mv hvernig overhangid er og almenn stemmning a markadi. Hversu stift eigum vid ad taka a moti eigin brefum afram?“

Í símtali sama starfsmanns áhættustýringar við dómfellda SS að morgni 5. mars 2008 ræddu þeir um að hafa verið mjög nálægt flöggunarmörkum við lok markaðar daginn áður. Undir lok símtalsins spurði sá fyrrnefndi: „Er ekki ætlunin að flagga ekki eða?“ Því svaraði dómfelldi SS: „Jú jú, það er, geri allt til að komast hjá því.“ Viðmælandinn svaraði: „Já já, mig grunaði það.“ Síðdegis föstudaginn 14. mars 2008 sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til dómfelldu JSH og SS með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,85%“, þar sem sagði meðal annars: „Staðan í LAIS er 542,6 milljón hlutir, 4,85% eða 17 milljón hlutum frá flöggun ... Miðlun á eitthvað eftir að klára í dag. Veit samt ekki hvort það lækkar stöðuna. Veit að 3 milljónir eiga að fara yfir á valréttina. Skilst einnig að þessar 10 sem SG var með séu enn ófarnar út.“ Þremur dögum síðar, að morgni mánudagsins 17. sama mánaðar, sendi sami starfsmaður þeim dómfelldu JSH og SS tölvubréf með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,86%“, og hófst það þannig: „Update á þessu. EOD var 544,1 milljón hlutir eða 4,86%. 15,5 milljón hlutum frá flöggun.“ Þetta tölvubréf framsendi dómfelldi JSH til dómfellda ÍG sem svaraði að bragði: „Sendu þetta líka ávallt á mig.“

Annar starfsmaður áhættustýringar hringdi til dómfellda JSH skömmu eftir hádegi 11. september 2008 og sagði: „Þið eruð komnir hérna yfir 5% inn í LAIS.“ Því svaraði dómfelldi JSH: „Uhh við vitum allt um það.“ Viðmælandinn: „Þið vitið allt um það?“ Dómfelldi JSH : „Já.“ Viðmælandinn: „Okei, hérna verður þetta flaggað eða er þetta að fara út aftur eða hvernig er þetta?“ Dómfelldi JSH : „Uh ... þessu verður ekki flaggað.“ Síðan bætti hann við: „Og ... það er bara verið að vinna í því að koma þessu út.“ Fyrir hádegi mánudaginn 29. september ræddust dómfelldi SS og sami starfsmaður áhættustýringar tvívegis við. Í fyrra símtalinu spurði dómfelldi SS: „Heyrðu hérna, flöggunarmörk ... eigum við að flagga í Landsbankanum eða?“ Því svaraði viðmælandi hans: „Erum við ekki komnir yfir bara eftir þessar hreyfingar þarna í morgun?“ Í því síðara, sem átti sér stað tæpum tveimur klukkustundum síðar, spurði starfsmaður áhættustýringar: „Heyrðu hafið þið litið eitthvað á stöðuna hvað þið ætlið að gera?“ Dómfelldi SS: „Já hérna, við þurfum bara að sjá hvernig dagurinn spilast. Annars verðum við þá bara að flagga í lok dags ef ...“ Viðmælandinn: „Já. Nægir það eða? Hefðuð þið ekki þurft að gera þetta fyrir tíu eða?“ Dómfelldi SS: „Ég veit það ekki.“ Nokkru síðar í símtalinu sagði hann: „En þú veist þetta kom óvænt upp á sko. Þetta eru viðskipti sem gengu til baka. Þannig að það er alveg hægt að, hérna þú veist, við vissum ekkert af þessu.“ Viðmælandinn: „Nei, það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi gerst líka í dag sko.“ Dómfelldi SS: „Já ... þú sendir meilið til okkar, eða eitthvað svoleiðis, 10 mínútur 10 eða eitthvað þannig. Þannig að, það hefði heldur ekki verið skynsamlegt að senda út flöggun án þess að vera búinn að átta sig á hvað staðan var sko.“ Viðmælandinn: „Nei nákvæmlega.“ Dómfelldi SS: „Það verður bara að meta stöðuna núna og, og það verður bara flaggað í lok dags ... ef þess þarf.“

Síðdegis sama dag sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til dómfelldu JSH og SS með fyrirsögninni: „LAIS staða yfir flöggunarmörkum – lokastaða dagsins“. Í tölvubréfinu var greint frá flöggunarstöðunni í lok dagsins sem væri alls „705,127,218 eða 6,3% af útgefnu hlutafé.“ Í svari dómfelldar JSH sem sent var í tölvupósti með afriti til dómfellda ÍG sagði: „Það verður trade á eftir. Munum ekki flagga.“ Þá áframsendir starfsmaður Landsbanka Íslands hf. meðal annars til ÞAI, forstöðumanns áhættustýringar bankans, með eftirfarandi viðbót „Til upplýsinga. 200 nom á víst að fara út á til kúnna í Lux. Síðdegis daginn eftir, þriðjudaginn 30. september 2008, kom meðal annars fram í tölvubréfi frá dómfellda JSH til dómfellda ÍG: „Erum 53,6 að nv. yfir flöggunarmörkum m.v. að miðlun sé óbr. frá því í gær.“

Þá hefur verið lögð fram upptaka af símtali milli SG, forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans, og dómfellda JSH sem átti sér stað fyrir hádegi 14. mars 2008. Er ástæða til að gera hér nokkra grein fyrir þeim samskiptum. Í símtalinu spurði SG: „Hvernig er staðan?“ Dómfelldi JSH svaraði: „Þetta er að gappa aðeins upp, upp um tæpt prósent.“ Stuttu síðar sagði SG: „Já já, þetta verður fínt. Þetta, við erum að fara með þetta yfir 30 núna.“ Dómfelldi JSH: „Eigum við ekki bara að stefna á að setja það yfir það?“ SG: „Jú 32-3. Það er fínt. Eða 35, bara eins og árslokagengið. Ef þú ert sáttur við það.“ Dómfelldi JSH: „Já, er ekki fínt að fá þetta í eitthvað svoleiðis. Ég held það ... við þurfum að fá ... færri svona viðbjóðslega daga eins og í gær. Þetta var hræðilegur dagur maður.“ SG: „Já, en samt engin velta samt.“ Dómfelldi JSH: „En, það er ... nei engin velta. En það sem er jákvætt í þessu og það sem maður er svona að skynja. Sjáðu fyrir sex mánuðum ef að krónan hefði fallið um 4% hvað hlutabréfamarkaðurinn hefði gjörsamlega misst fæturna.“

4

Í skjölum málsins eru fundargerðir fjármálanefndar á ákærutímabilinu og tölvubréf ákærða. Verður efni þeirra hér rakið að svo miklu leyti sem það varðar ákæruatriði.

Um er að ræða 32 fundi fjármálanefndar sem haldnir voru frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir. Þar mun dómfelldi ÍG 24 sinnum hafa dreift skýrslu sem tekin hafði verið saman af EFL og bar yfirskriftina „Report 4:15/Prop Trading Total/Prop Trading“. Í hverri skýrslu komu fram breytingar á eign EFL í einstökum verðbréfaflokkum undanfarinnar viku eða frá því að síðasti fundur fjármálanefndar hafði verið haldinn, miðað við nafnverð og markaðsverð verðbréfanna, svo og hagnaður eða tap vegna viðskipta með bréfin. Samkvæmt fundargerðum af fundum fjármálanefndar, sem lagðar hafa verið fram, var dreift yfirliti yfir stöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum á fundum nefndarinnar 9. apríl, 16. apríl, 14. maí, 2. júlí, 23. júlí, 6. ágúst, 20. ágúst og 1. október 2008, undir dagskrárliðnum „Umfjöllun um stöðu Landsbankans í eigin bréfum“. Mun útlánaeftirlit bankans hafa tekið þessi yfirlit saman á grundvelli 29. gr. laga nr. 161/2002.

Meðal gagna málsins eru einnig skýrslur sem teknar voru nánast vikulega saman á tímabilinu frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008 og báru yfirskriftina: „Yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161 um fjármálafyrirtæki“. Af þessum skýrslum eru átta sem bera með sér að hafa verið lagðar fram á áðurnefndum fundum fjármálanefndar þar sem þær voru dagsettar einum eða tveimur dögum áður en fundirnir voru haldnir. Þá hafa verið lögð fram 19 tölvubréf sem send voru dómfellda ÍG frá starfsmanni útlánaeftirlits Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 27. febrúar til 30. september 2008 þar sem fram komu upplýsingar um „eign bankans í sjálfum sér“. Segir í minnisblaði ÞAI, fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar bankans, 16. desember 2015, sem áður hefur verið rakið, að á vikulegum fjármálanefndarfundum hefðu deildirnar farið yfir sína stöðu og breytingar frá síðasta fundi og starfsmenn þannig fengið samþykkt á því sem þeir höfðu gert.

Samkvæmt fundargerðum þeirra funda fjármálanefndar sem dómfelldi ÍG sat frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir gerði hann þar grein fyrir starfsemi EFL og fór yfir stöðuna á verðbréfamarkaði. Á fundi nefndarinnar 19. desember 2007 var meðal annars bókað eftir honum: „Lækkun á síðustu tveimur vikum eru 631 m.kr., sé ekki tekið tillit til LAIS er lækkunin 500 m.kr. ... Þessi vika er búin að vera erfið á mörkuðum en náðist að selja í LAIS á ágætu verði.“ Á fundi 27. sama mánaðar var auk annars fært til bókar þegar fjallað var um kynningu dómfellda: „Staða þróast jákvætt frá síðasta fundi. Innan við 100 m.kr. niður á Q4 að teknu tilliti til LAIS. Markaðir opna upp í dag og stefnir í að verðum réttu megin við núllið um áramótin.“ Þá sagði: „hugsanleg vakt Landsbankans við Kaupþing. Hugmyndum að samningi hefur verið kastaða á milli. KAUP með vakt á okkur 1m. kr. að nafnvirði tilboð inni, 400 m.kr. markaðsvirði á dag ... Við gerum sambærilegan samning um vakt á kaupþingsbréfum. Við viljum segja upp samningi við STRB.“ Hinn 23. janúar 2008 var eftirfarandi skráð í fundargerð eftir honum: „Heildarstaða niður um 5,4 ma.kr. ... frá áramótum, 4,8 ma.kr. ef LAIS staða er tekin út. Staða niður um 3,8 ma.kr. síðustu tvær vikur.“

Í fundargerð 6. febrúar sama ár var haft eftir dómfellda ÍG: „Stóra myndin er sú að síðustu tvær vikur hafa komið ágætlega til baka. Fyrir utan LAIS bréf er staðan 2,4 ma.kr. niður á árinu.“ Á fundi viku síðar var fært til bókar eftir honum: „Síðasta vika var erfið á öllum mörkuðum. Staða niður um 1300 m.kr. síðustu vikuna ef tekið er tillit til Landsbanka bréfa. Frá áramótum er staðan niður um 3,9 ma.kr.“ Í fundargerð 27. sama mánaðar var frásögn hans af stöðunni lýst svo: „Síðustu tvær vikur eru í heild niður 82 m.kr. ... fyrir utan Landsbankann. Staðan á árinu er niður um 4 ma.kr. ef tekið er tillit til LAIS.“ Á fundi viku síðar, 5. mars 2008, var haft eftir honum: „Lækkun í vikunni er um 246 m.kr. án LAIS. Á árinu 4,2 ma. niður.“

Hinn 9. apríl sama ár var gerð svofelld grein fyrir umfjöllun dómfellda ÍG um stöðuna: „Farið yfir niðurstöðu síðasta ársfjórðungs en staða er niður um 4,2 ma.kr á síðasta ársfjórðungi. Jákvætt að Intrum og Marel koma sterkt til baka í lok ársfjórðungs. Hagnaður á Straumsstöðu upp á 200 m.kr. Lok ársfjórðungs var góður. Draga verður 977 m.kr. frá vegna Landsbankabréfa. Af hlutdeildarfélögum er LME með hagnað upp á 2,2 m€ og Lánstraust var selt sem skilaði hagnaði upp á 340m. kr. Merrion er ekki inni en hagnaður upp á 1,5m€. Heildarstaða því tap upp á 2,6 ma.kr.“

Í fundargerð 14. maí 2008 var skráð þegar fjallað var um kynningu dómfellda ÍG: „Farið í þróun síðustu viku sem var viðunandi. Vika upp um 366 m.kr. ef ekki er tekið tillit til LAIS, ársfjórðungur upp um ca. 900 m.kr. þegar allt er tekið saman“. Þá sagði: „Markaður er almennt erfiður og LAIS á undir högg að sækja. Fáir kaupendur á markaði. Trading á grundvelli frétta hefur ekki komið fram. Er ákveðið áhyggjuefni ásamt því að neikvæður orðrómur er um Landsbankann.“ Á fundi hálfum mánuði síðar var bókað um umfjöllun hans um stöðuna: „Síðasta vika var mjög erfið á mörkuðum ... Vikan er niður um 548 m.kr. ef leiðrétt er fyrir Landsbankanum.“

 Hinn 11. júní sama ár var kynningu dómfellda ÍG á stöðunni lýst svo í fundargerð: „Síðustu tvær vikur er niður um rúmar 1,5 ma.kr. ef tekið er tillit til Landsbankabréfa og ársfjórðungur er því um 200 m.kr. í plús.“ Í fundargerð fjármálanefndar 25. júní 2008 var bókað: ,,Farið yfir tvær síðustu vikur. Niður um 1 ma.kr. sem er það sama og ársfjórðungurinn en án LAIS er staðan niður um 500 m.kr. á ársfjórðungnum.“

Þá var bókað í fundargerð 2. júlí 2008: ,,Síðasta vika var jákvæð og er niðurstaða ársfjórðungs ... upp um 855 m.kr.“ Í fundargerð 20. ágúst 2008 var haft eftir dómfellda ÍG: „Síðasta vika upp um rúmar 800 m.kr. sé ekki tekið tillit til Landsbanka bréfa. Þessi ársfjórðungur er þá niður um 3,8 ma.kr. ... LAIS hefur verið að hækka síðustu vikuna en framboð hefur þornað upp og eftirspurn leiddi til hækkunar.“

Á fundi 24. september var bókað eftir dómfellda ÍG: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum.“ Þá kom fram að „Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn.“ Í síðustu fundargerðinni, 1. október 2008, var meðal annars fært til bókar eftir honum: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr.“

Af gögnum málsins verður enn fremur ráðið að á tímabilinu 13. júní 2001 til 3. október 2008 hafi „eftir hvern bankadag“, eins og komist var að orði í bréfi þáverandi regluvarðar Landsbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 26. apríl 2010, verið tekin saman fyrrnefnd „4–15 skýrsla“ sem send var ákærða og HJK sem bankastjórum og nokkrum öðrum stjórnendum og starfsmönnum bankans með tölvubréfi. Mun deild áhættustýringar í bankanum hafa tekið þessar skýrslur saman á ákærutímabilinu. Í bréfi regluvarðarins sagði um hana: „Tilgangur skýrslunnar var að gefa mynd af þeirri markaðsáhættu sem bankinn hafði tekist á hendur hverju sinni.“

Í gögnum málsins er jafnframt að finna tölvubréf frá forstöðumanni á lögfræðisviði Landsbanka Íslands hf. til ákærða 13. mars 2008 með minnisblaði sem forstöðumaðurinn og tveir aðrir starfsmenn bankans höfðu tekið saman 5. sama mánaðar um efnið: „niðurstaða af skoðun á möguleikanum á að lækka hlutafé og hækka á einum og sama hluthafafundi.“ Í upphafi minnisblaðsins sagði: „Landsbanki Íslands hf. á talsvert stóran hlut af eigin hlutabréfum um þessar mundir. Talsverðar hræringar hafa verið á fjármálamörkuðum og hætt er við að ef reynt verður að losa umrædda hluti út á markað muni það valda talsverðri verðlækkun á gengi bankans með tilheyrandi auknum óróa. Leita þarf leiða til að losna við hlutina með öðrum aðferðum en sölu ... Spurning er hvort unnt er að lækka hlutafé Landsbankans með ákvörðun hluthafafundar og hækka það síðan aftur með útgáfu jöfnunarhluta þannig að heildarhlutafé eftir fundinn sé hið sama og fyrir fundinn. Meta þarf hvort slík aðferð sé tæk eftir hlutafélagalögum annars vegar og hver skattaleg áhrif hennar eru hins vegar.“

Auk þess hafa verið lögð fram tvö tölvubréf sem ákærði sendi BTB í ágúst og september 2008. Með fyrra tölvubréfinu 22. ágúst fylgdi kynning um hvernig haga mætti hugsanlegri sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf., en sá banki mun að stórum hluta hafa verið í eigu félaga sem BTB og BG réðu yfir.

Í síðara tölvubréfinu 17. september 2008 sagði meðal annars í umfjöllun um hugsanlegan samruna bankanna tveggja: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár. Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“

5

5.1

Ákærði neitar sem fyrr segir sök og vísar einnig til þess að hann hafi ranglega verið sakfelldur í héraði. Engin skjalleg sönnunargögn eða framburður vitna gefi vísbendingu um að viðskiptin á ákærutímabilinu hafi verið að undirlagi hans og sé aðkoma hans að þeim viðskiptum með öllu ósönnuð. Á engum tíma hafi komið fram athugasemd frá eftirlitsaðilum eða þar til bærum aðilum innan bankans um að framkvæmdin færi í bága við lög. Auk þess andmælir ákærði því sérstaklega að hann einn sé dreginn til ábyrgðar umfram aðra stjórnendur Landsbanka Íslands hf. Ákærði hefur einnig borið um að seta hans í fjármálanefnd hafi ekki veitt honum nokkrar vísbendingar um viðskipti EFL og aðrar skýrslur um eign bankans í eigin bréfum hafi tengst því að hann hafi sem bankastjóri viljað hafa góða yfirsýn yfir eiginfjárgrunn bankans, meðal annars vegna svonefndrar 10% reglu. Varnir ákærða fyrir héraðsdómi eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir Hæstarétti byggir ákærði enn fremur á því að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið fallist á framburð dómfelldu SS og JSH og metið trúverðugar skýringar þeirra á þeim viðskiptum sem ákæran taki til, þó að undanskildu tímabilinu 29. september til 3. október 2008. Þá hafi hann verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 á grundvelli gagnályktunar frá ákvæðum 115. og 116. gr. þeirra laga sem brjóti í bága við meginregluna um skýrleika refsiheimilda. Auk þess hefðu viðskipti EFL, hvað sem öðru líður, ekki verið framkvæmd „að undirlagi hans“ eins og fram komi í ákæru. Verður nú nánar vikið að vörnum ákærða.

5.2

Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda, sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í henni felst áskilnaður um að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi sé refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur var á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár.

Dómstólar túlka og skýra inntak refsiákvæða eins og annarra lagaákvæða, sbr. dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020. Við mat þess hvort ákvæði 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 hafi verið nægilega skýrt á verknaðarstundu með tilliti til þeirrar háttsemi sem ákærða er gefin að sök ber að líta til þess hvort orðalag ákvæðisins hafi verið svo afdráttarlaust og fyrirsjáanlegt að ekki hafi á verknaðarstundu verið vafi um að í háttsemi hans fælist markaðsmisnotkun í skilningi 1. mgr. 117. gr. laganna. Er því nauðsynlegt að fjalla um forsögu ákvæðisins í þessu samhengi og þá hagsmuni sem því er ætlað að vernda.

Ákvæði um markaðsmisnotkun voru fyrst tekin upp í lög hér á landi árið 1996 með 30. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Með samnefndum lögum nr. 33/2003 urðu nokkrar breytingar á ákvæðinu um markaðsmisnotkun og enn var gerð breyting að þessu leyti með breytingu á þeim lögum, sbr. 13. gr. laga nr. 31/2005 og 55. gr. laga nr. 33/2003 þannig breyttum. Með þessum breytingum, sem tóku mið af tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2003/6 frá 28. janúar 2003 um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun, voru ákvæði um markaðsmisnotkun gerð ítarlegri. Á grundvelli laganna var sett reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Var í 8. til 9. gr. reglugerðarinnar fjallað nánar um hvað teldist markaðsmisnotkun í skilningi laganna. Þá var í 10. gr. hennar fjallað um þá þætti sem Fjármálaeftirlitið skyldi taka tillit til við mat á því hvort um væri að ræða „viðurkennda markaðsframkvæmd“.

Lög nr. 108/2007 tóku gildi 1. nóvember 2007 og voru ákvæði 1. mgr. 117. gr. þeirra um markaðsmisnotkun óbreytt frá eldri lögum. Eitt af helstu markmiðum laganna er að stuðla að eðlilegri verðmyndun á markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegum verðbréfamarkaði, þar á meðal í kauphöll, en reglur um þá markaði er einkum að finna í IV. og XII. kafla laganna. Samkvæmt því eiga lögmál um framboð og eftirspurn að ráða þar ríkjum þannig að sé framboð á tilteknum hlutabréfum meira en eftirspurn lækki verð þeirra en sé eftirspurnin meiri en framboðið hækki verðið. Í samræmi við fyrrgreint markmið laganna beinast mörg ákvæði þeirra, svo og laga nr. 110/2007 um kauphallir, að því að koma í veg fyrir að fjárfestar og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta láti freistast til að hafa áhrif á þessa verðmyndun með ótilhlýðilegum hætti og geri þeir það eru lögð ströng viðurlög við þeim brotum. Þrátt fyrir framangreindar lagabreytingar er litið svo á að reglugerð nr. 630/2005 sé enn í gildi, nú með stoð í lögum nr. 108/2007.

Í III. kafla laga nr. 108/2007 er fjallað um gagnsæi við verðbréfaviðskipti og taka ákvæði þess kafla til fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til þeirra viðskipta, sbr. 27. gr. laganna. Samkvæmt 29. gr. þeirra skal fjármálafyrirtæki sem á viðskipti utan skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga, annaðhvort fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina, með hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, gera opinberar upplýsingar um verð, umfang og tímasetningu viðskiptanna.

Fyrir gildistöku laga nr. 108/2007 var litið svo á að þótt fjármálafyrirtæki teldist fruminnherji gagnvart viðskiptum með eigin bréf hefði þróun og styrking svonefndra ,,kínamúra“ sem lutu eftirliti Fjármálaeftirlitsins leitt til þess að viðskipti veltubókar slíks fyrirtækis, sem sett hafði sér reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga um eigin viðskipti, þyrfti ekki að tilkynna sem innherjaviðskipti til Kauphallar, enda þyrfti ekki að tilkynna slík viðskipti af öðrum ástæðum, til dæmis vegna reglna um flöggun. Umrædd heimild veltubókar fjármálafyrirtækis til viðskipta með eigin bréf, sem í tilviki Landsbanka Íslands hf. var hjá EFL, byggðist á því að slík viðskipti væru í eðli sínu ekki verðmótandi og hefðu því ekki upplýsingagildi fyrir fjárfesta. Grundvallaðist þetta fyrirkomulag þannig á því að vegna reglna um ,,kínamúra“ samkvæmt reglum um innri starfsemi banka hefði EFL ekki aðgang að innherjaupplýsingum og mætti því jafna slíkum viðskiptum til viðskipta ótengds aðila. Áttu þessi rök þar af leiðandi ekki við þegar um var að ræða ákvarðanir um viðskipti veltubókar með eigin bréf sem teknar voru af yfirstjórn bankans eða bankastjórum og voru stórfelld eða óvenjuleg í sögulegu ljósi. Þótt framangreind undanþága hafi verið viðurkennd í framkvæmd í tíð eldri laga var með gildistöku laga nr. 108/2007 ekki lengur um það að ræða að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur fjármálafyrirtækis um innri starfsemi sína, þar á meðal reglur um starfsemi veltubókar og þar af leiðandi þá undanþágu sem EFL hafði til viðskipta með eigin bréf. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir þetta héldu viðskipti eigin fjárfestinga íslensku viðskiptabankanna þriggja, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., áfram óbreytt og án þess að séð verði að það hafi sætt athugasemdum af hálfu eftirlitsaðila.

Í 93. gr. laga nr. 108/2007 er mælt fyrir um flöggunarskyldu vegna viðskipta með eigin hluti við ákveðnar aðstæður. Í 1. mgr. segir að ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum skuli hann birta opinberlega hlutfall þeirra ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir til þess að hlutfallið nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% atkvæðisréttar. Skal reikna hlutfallið út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður. Samkvæmt 2. mgr. skulu upplýsingarnar birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrir klukkan 12 næsta viðskiptadag eftir öflunina eða ráðstöfunina.

Í XII. kafla laganna er fjallað um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði. Þar er í 116. gr. kveðið á um viðskiptavaka. Eftir 1. mgr. getur fjármálafyrirtæki sem hefur heimild til verðbréfaviðskipta með samningi við útgefanda fjármálagerninga skuldbundið sig til að vera viðskiptavaki, það er kaupa og selja fyrir eigin reikning eða reikning útgefanda tiltekna fjármálagerninga í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim. Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn til skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi fjármálagerningar hafa verið teknir til viðskipta, svo sem nánar er kveðið á um í 2. mgr. Geri fjármálafyrirtæki viðskiptavakasamning um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal samkvæmt 4. mgr. tryggt að útgefanda sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins.

Í 117. gr. laganna eru ákvæði um markaðsmisnotkun sem lýst er óheimil í upphafi 1. mgr. þeirrar greinar. Samkvæmt 1. tölulið málsgreinarinnar er meðal annars með markaðsmisnotkun átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið, eða tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleiri fjármálagerningum, nema sá sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. b-lið. Þó er tekið fram í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæði 117. gr. þeirra eigi ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi viðskiptin farið fram í samræmi við reglugerð sem sett skuli á grundvelli 118. gr. laganna.

Í a-lið 2. töluliðar 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2003/6, þar sem hugtakið markaðsmisnotkun er skilgreint, eru ákvæði sem svara til a- og b-liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þó er sá munur á að eftir tilskipuninni nær undantekningarreglan, sem fram kemur í síðari hluta b-liðar, til þeirrar háttsemi sem lýst er í báðum stafliðunum. Eins og hér stendur á ber þar af leiðandi, í samræmi við 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og almennar reglur, að skýra a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 svo að það að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, teljist ekki markaðsmisnotkun ef sá sem í hlut á getur sýnt fram á að ástæður að baki viðskiptunum eða fyrirmælum um þau séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá er til þess að líta að samkvæmt 13. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007 er um viðurkennda markaðsframkvæmd að ræða í skilningi þeirra ef eðlilegt er að gera ráð fyrir að hún sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt hana með þeim hætti, sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr. laganna. Slíkt reglugerðarákvæði hafði ekki verið sett á ákærutímabilinu.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 110/2007 skal kauphöll setja reglur um aðild að skipulegum verðbréfamarkaði þar sem gerð er grein fyrir þeim skyldum sem hvíla á markaðsaðilum. Skulu reglurnar vera gagnsæjar, hlutlægar og byggðar á jafnræði. Á grundvelli þessarar lagagreinar höfðu verið settar aðildarreglur sem tóku til Kauphallar Íslands. Í þessum reglum var sjálfvirk pörun tilboða skilgreind þannig að með henni væri átt við „ferli í tilboðabók þar sem kaup- og sölutilboð eru pöruð sjálfkrafa þegar verð, magn og önnur skilyrði í tilteknu tilboði samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð í tilboðaskrá.“ Í grein 4.6.1 í reglunum sagði að tilboð, sem skráð væru í tilboðaskrá, viðskipti sem parast sjálfkrafa og tilkynnt kauphallarviðskipti skyldu „endurspegla gildandi markaðsverð viðkomandi verðbréfa og ... samanstanda af raunverulegum tilboðum og viðskiptum.“

Þegar eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 tóku gildi var í fyrsta skipti kveðið á um viðskiptavakt í lögum á sama hátt og gert er í 116. gr. laga nr. 108/2007. Með þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 31/2005 var skilgreiningunni á markaðsmisnotkun breytt í það horf, sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, auk þess sem tekið var fram eins og nú er gert í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæðin um markaðsmisnotkun ættu ekki við þegar um væri að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Eftir þessar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti verður að skýra ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði til samræmis við 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. laganna á þá leið að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. mars 2011 í máli nr. 52/2010. Verður í máli þessu byggt á þeirri skýringu laganna, enda í fullu samræmi við þann tilgang þeirra að tryggja trúverðuga verðmyndun á skipulögðum markaði með skráð hlutabréf.

Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á með ákærða að skort hafi á skýrleika refsiheimildar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

5.3

Í ákæru eru sakargiftir á hendur ákærða reistar á því að viðskiptin sem þar er nánar lýst hafi verið framkvæmd „að undirlagi“ hans. Telur ákærði hvað sem öðru líður að þessi verknaðarlýsing sé röng enda hafi hann hvorki tekið ákvarðanir né gefið fyrirmæli til starfsmanna EFL í þessa veru.

Skilja verður þetta orðalag ákærunnar á þá leið að ákærða sé gefið að sök að hafa átt aðild að ákvörðun og lagt á ráðin um hvernig almennt skyldi staðið að viðskiptum með eigin bréf Landsbanka Íslands hf. í Kauphöllinni á ákærutímabilinu af hálfu EFL, þannig að brotið hafi gegn a- og b-liðum 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 svo sem lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi.

6

Sönnunarbyrði í sakamálum hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Í 1. mgr. 109. gr. laganna segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Eftir 1. mgr. 115. gr. laganna metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans en við það mat skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Af öllu þessu leiðir að ríkar kröfur eru gerðar til ákæruvaldsins um sönnun.

Verður niðurstaða málsins auk annars byggð á skjölum málsins og mati héraðsdóms á munnlegum framburðum, eins og áður var rakið. Þá gaf ákærði skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, auk þess sem vitnin YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, og SRÞ, fyrrverandi starfsmaður EFL, gáfu skýrslu við meðferð málsins eins og einnig er fram komið.

7

Áður en afstaða verður tekin til þáttar ákærða samkvæmt ákæru verður að leysa úr því hvort viðskiptin sem þar er fjallað um hafi, sem slík, farið í bága við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi og staðfest var í skýrslu ákærða og YÖK fyrir Hæstarétti var rekin óformleg viðskiptavakt á vegum EFL í þeim tilgangi að „mynda markað“ um viðskipti með hlutabréf í bankanum. Í tilvitnuðum skýrslum fyrir Hæstarétti kom fram að tilgangur þessa hefði ekki verið sá að hafa óeðlileg áhrif á verð bréfanna heldur að skapa seljanleika þeirra. Einnig bar ákærði á þann veg að tilvist óformlegrar viðskiptavaktar hjá stóru viðskiptabönkunum þremur hefði verið á allra vitorði. EFL hafi jafnframt verið ætlað að hagnast á viðskiptum með eigin bréf bankans með sama hætti og gilti um önnur hlutabréfaviðskipti, en hann hefði ekki skipt sér af ákvörðunum um einstök viðskipti.

Ákærði hefur ekki andmælt því að þau viðskipti með eigin bréf bankans sem lýst er í I. kafla ákærunnar hafi átt sér stað og að þær tölur sem þar koma fram séu réttar. Hefur hann þó sem fyrr segir vísað til þess að þar vanti stóran hluta þeirra viðskipta sem átt hafi sér stað á ákærutímabilinu þar sem ákæruvaldið hafi í málatilbúnaði sínum einvörðungu litið til sjálfvirkra pörunarviðskipta EFL án þess að taka tillit til utanþingsviðskipta. Þetta megi ráða af samantekt ákærða um viðskipti í Kauphöllinni þar sem fram komi að á ákærutímabilinu hafi kaup EFL á eigin bréfum bankans numið samtals 3.013.958.117 krónum, þar af hafi kaupin verið 2.325.153 krónur í ,,þingviðskiptum“ en 688.562.964 krónur í utanþingsviðskiptum. Sé litið til sölu EFL á bréfum í bankanum á sama tímabili, hafi hún numið alls 2.852.518 krónum. Þar af hafi sala í ,,þingviðskiptum“ numið 57.213.029 krónum en í utanþingsviðskiptum 2.794.916.489 krónum. Nettókaup EFL á eigin bréfum bankans hafi því einungis numið 161.828.599 krónum á ákærutímabilinu. Raunveruleg viðskipti EFL með eigin bréf bankans hafi því verið með allt öðrum hætti en lýst sé í ákæru.

Af gögnum málsins verður ráðið að viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í Kauphöllinni hafi haft meiri áhrif á skráð gengi þeirra í lok dags en önnur hlutabréfaviðskipti þar með talin utanþingsviðskipti. Eigi að síður er fallist á með ákærða að hin síðartöldu geti einnig haft áhrif á markaðsverð hlutabréfa. Þó verður ekki litið fram hjá því að sjálfvirk pörunarviðskipti í kauphöll eru annars eðlis en utanþingsviðskipti, jafnvel þótt þau séu tilkynnt kauphöll um leið eða skömmu eftir að þau eru gerð. Í fyrrnefnda tilvikinu geta margir komið að viðskiptunum í einu án þess að vita hver af öðrum. Slík viðskipti komast á við það að kaup- og sölutilboð, sem skráð hafa verið í tilboðaskrá, eru pöruð sjálfkrafa ef þau samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð þar. Með þessu móti er leitast við að tryggja að viðskiptin séu gerð milli ótengdra aðila þannig að verð á hlutabréfum ráðist af raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði. Engin slík umgjörð er um kaup og sölu hlutabréfa utan kauphallar eða skipulegs verðbréfamarkaðar. Slík viðskipti geta að vísu verið milli ótengdra aðila og endurspeglað raunverulegt framboð og eftirspurn hlutabréfa og þar með gefið skilaboð til markaðarins, en aftur á móti er engin trygging fyrir því að svo sé í reynd enda geta ástæður fyrir slíkum viðskiptum verið ókunnar hinum skipulega verðbréfamarkaði. Af þessum sökum er réttlætanlegt að gera greinarmun á þessum tvenns konar viðskiptum þegar skorið er úr um hvort markaðsmisnotkun í skilningi a- og b-liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 hefur átt sér stað.

 Í röksemdum með ákæru er greint frá því að gripið hafi verið til ýmissa ráða í því skyni að losa Landsbanka Íslands hf. við eigin bréf sín sem safnast höfðu upp í veltubók. Í fyrsta lagi var skipt við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. á eigin hlutabréfum á tímabilinu 17. til 31. mars 2008 þar sem EFL seldi 201.000.000 hluta í félaginu til Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og keypti í staðinn 507.000.000 hluta í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í öðru lagi var hlutafé Landsbanka Íslands hf. lækkað með ákvörðun aðalfundar bankans 23. apríl 2008 um 300.000.000 hluta og hækkað aftur um sömu fjárhæð með útgáfu jöfnunarhlutabréfa til hluthafa bankans í formi arðgreiðslu. Í skýrslu ákærða fyrir Hæstarétti kom fram að hann hefði komið að framangreindri ráðstöfun.

Í þriðja lagi seldi Landsbanki Íslands hf. 91.000.000 hluta í bankanum til Hunslow S.A. í utanþingsviðskiptum 12. september 2008 og voru þau kaup að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda félagi var veitt lán frá dótturfélagi bankans í Lúxembourg en bankinn ábyrgðist sjálfur endurgreiðslu lánsins. Í fjórða lagi skipti Landsbanki Íslands hf. á eigin hlutabréfum við Glitni banka hf. á tímabilinu 17. til 30. september 2008 þar sem EFL seldu 168.000.000 eigin hluta og keypti þess í stað 462.000.000 hluta af Glitni banka hf. í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í fimmta lagi seldi Landsbanki Íslands hf. 210.000.000 eigin hluta til Pro-Invest Partners Corp. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008 og voru kaupin að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda fyrirtæki var veitt lán frá dótturfélagi bankans í Lúxembourg en bankinn ábyrgðist sjálfur endurgreiðslu lánsins. Að frátöldum hlutabréfaskiptum við Glitni banka hf. hefur ákærði mótmælt að hafa haft vitneskju um fyrrgreindar ráðstafanir.

Þá er í sjötta og sjöunda lagi vísað til þeirra viðskipta sem fjallað er um í II. og III. kafla ákærunnar, sbr. dóm réttarins í máli nr. 34/2019 sem kveðinn er upp samhliða dómi þessum. Eins og þar kemur fram hefur ákærði borið að honum hafi verið kunnugt um og samþykkt að Landsbanki Íslands hf. seldi 250.000.000 eigin hluta til Imon ehf. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008, með fjármögnun frá bankanum sjálfum, en ágreiningslaust er að þar var um að ræða stærstu einstöku viðskipti með bréf bankans á árinu 2008. Þá er í dómnum talið sannað að ákærði hafi ákveðið frekari sölu á eigin bréfum til Imon ehf. sem tilkynnt var til Kauphallarinnar 3. október 2008, sbr. III. kafla ákærunnar. Hefur sú niðurstaða fullt sönnunargildi í máli þessu, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Loks er vísað til þeirra viðskipta sem fjallað er um í IV. kafla ákærunnar en ákærði var sýknaður í héraðsdómi af sakargiftum samkvæmt þeim kafla og kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hafið yfir allan vafa að á vegum Landsbanka Íslands hf. hafi kerfisbundið verið stunduð kaup á eigin bréfum bankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni á ákærutímabilinu. Á sú niðurstaða sér bæði stoð í tölulegum gögnum málsins og munnlegum skýrslum fyrir Hæstarétti um óformlega viðskiptavakt bankans með eigin bréf. Þá er sannað, meðal annars með framburði ákærða sjálfs, að hin umfangsmiklu kaup EFL á hlutabréfum í bankanum leiddu til þess að þau söfnuðust upp hjá bankanum þótt það hafi einnig átt sér aðrar skýringar. Áður hefur verið rakið að Landsbanka Íslands hf. var lögum samkvæmt ekki heimilt án samþykkis Fjármálaeftirlitsins að eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem næmu hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár og var skylt að flagga á grundvelli 93. gr. laga nr. 108/2007 ef farið var yfir 5% mörk í þeim efnum. Af þeim ástæðum sem áður hafa verið raktar, meðal annars skyldu til flöggunar og þeirrar stefnu bankans að eignarhlutur veltubókar færi ekki yfir 5% mörkin, þurfti að losa bankann reglulega við bréfin. Var þetta einkum gert í umfangsmiklum utanþingsviðskiptum en einnig var gripið til þess ráðs að greiða út arð í hlutabréfum, svo sem áður greinir. Verður ekki fram hjá því litið að með því var bankanum í reynd gert kleift að halda áfram kaupum á eigin bréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum án flöggunar og hafa þannig áhrif á markaðsgengi bréfanna án þess að þurfa að bjóða þau til sölu á skipulegum verðbréfamarkaði.

Að mati réttarins gat ekki farið á milli mála að umrædd viðskiptahegðun EFL var til þess fallin að hafa áhrif á markaðsgengi bréfa í Landsbanka Íslands hf. og var þar af leiðandi líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfa bankans ranglega eða misvísandi til kynna og í reynd koma í veg fyrir að verð bréfanna réðist af raunverulegu framboði og eftirspurn. Er í því efni ekki rétt að líta til heildarumfangs viðskipta bankans með eigin bréf eða nettóstöðu kaupa og sölu, svo sem borið er við af ákærða, heldur skiptir mestu máli sú staðreynd að um var að ræða, að langmestu leyti, kaup í sjálfvirkum pörunarviðskiptum en bréfin síðan að stærstum hluta seld eða ráðstafað af bankanum utan skipulegs verðbréfamarkaðar.

Svo sem áður greinir verða ákvæði laga nr. 108/2007 skýrð með þeim hætti að lagt sé bann við því að fjármálafyrirtæki stundi skipuleg viðskipti með eigin hluti í þeim tilgangi að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á hlutunum nema í þeim tilvikum sem vísað er til í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna og þá með því að tilkynna þær fyrirhuguðu ráðstafanir opinberlega. Hvað sem líður þeim skilningi stjórnenda Landsbanka Íslands hf. að heimilt væri að láta það viðgangast að EFL viðhefði óformlega viðskiptavakt með eigin bréf bankans, er jafnframt vafalaust að viðskiptin með bréfin gengu lengra og voru umfangsmeiri en samrýmdust starfsemi formlegs viðskiptavaka í eðlilegu viðskiptaumhverfi, sbr. 116. gr. laga nr. 108/2007. Má um það meðal annars líta til upplýsinga sem liggja fyrir í málinu um að hinir viðskiptabankarnir voru nettóseljendur á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., á sama tíma og EFL keypti 47,2% meira en deildin seldi af hlutabréfum í bankanum í sjálfvirkri pörun.

Til þess er einnig að líta að EFL keypti samtals nettóhlut bréfa í Landsbanka Íslands hf. að markaðsvirði 13.861.904.361 krónu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum dagana 29. september til 3. október 2008, en eins og fram kemur í héraðsdómi voru þau kaup langt umfram heimildir samkvæmt áhættureglum bankans. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki hafi mátt líta svo á að um væri að ræða viðskipti í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd í skilningi lokaorða b-liðar 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

Samkvæmt öllu framangreindu ber að leggja til grundvallar að fyrrgreindir starfshættir hafi gefið eða verið líklegir til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Hins vegar þarfnast þáttur ákærða og ætluð refsiverð háttsemi hans nánari úrlausnar.

8

Ákærði var annar tveggja bankastjóra Landsbanka Íslands hf. sem fóru sameiginlega með stjórn bankans. Þá hefur að framan verið rakið meginefni áhættureglna Landsbanka Íslands hf., en samkvæmt 3. gr. þeirra báru bankastjórarnir báðir ábyrgð á daglegri stjórnun bankans gagnvart bankaráði. Framkvæmdastjórar báru ábyrgð gagnvart bankastjórum á starfsemi hvers sviðs og að áhætta væri í samræmi við starfsreglur bankans. Einnig hefur ítarlega verið fjallað um fjármálanefnd og það hlutverk hennar að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og ákveða áhættumörk.

Eins og áður sagði sat ákærði í fjármálanefnd sem formaður. Heyrði verðbréfasvið bankans, og þar með EFL, undir nefndina. Á vettvangi hennar var fylgst með stöðu bankans í eigin bréfum, meðal annars vegna fyrrgreindrar 5% reglu um flöggun, og var nefndin helsti vettvangur eftirlits stjórnenda bankans með starfsemi EFL. YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, bar einnig í skýrslu fyrir Hæstarétti að á fundum fjármálanefndar hefði verið rætt um kaup EFL á bréfum í bankanum og stefna EFL verið mótuð þar. Áður er fram komið að ákærði fékk reglulega upplýsingar um nettóviðskipti EFL með hlutabréf í bankanum á vettvangi nefndarinnar. Þótt ákærði hafi borið að hann hafi ekki lagt sig sérstaklega eftir því að fá þessar upplýsingar og heldur ekki óskað eftir upplýsingum um einstök viðskipti deildarinnar verður að líta til stöðu hans innan Landsbanka Íslands hf. og þeirrar ábyrgðar sem henni fylgdi, auk þess sem ákærði hefur borið að hann hafi lagt ríka áherslu á að EFL færi ekki yfir 5% eignarhlut í einstökum félögum, þar á meðal Landsbanka Íslands hf.

 Eins og málið horfir við réttinum getur aðkoma annarra stjórnenda bankans að þessu leyti ekki ráðið úrslitum. Niðurstaða um sakfellingu ákærða ræðst þannig fyrst og fremst af setu hans í fjármálanefnd og stöðu sem æðsta stjórnanda verðbréfasviðs bankans. Ákærði átti sem fyrr greinir þátt í því sem bankastjóri og formaður fjármálanefndar að marka EFL ramma við kaup á eigin bréfum bankans. Einnig liggur fyrir að af ýmsum ástæðum var tilefni til þess fyrir ákærða sem bankastjóra að fylgjast í stórum dráttum með stöðu veltubókar í eigin bréfum, enda sá hann ástæðu til þess í fleiri en eitt skipti að bregðast við stöðu bankans í eigin bréfum, svo sem áður er lýst. Að öllu virtu er því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða voru ljós hin umfangsmiklu og kerfisbundnu kaup EFL á eigin bréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum þótt hann kæmi ekki að ákvörðunum um einstök viðskipti. Jafnframt er sannað að ákærða var kunnugt um þá viðskiptahætti innan bankans að hinir keyptu hlutir voru einungis að óverulegu leyti seldir aftur í sjálfvirkum pörunarviðskiptunum á markaði en þess í stað seldir í stórum viðskiptum utan skipulegra markaða og gildir þá einu þótt honum hafi ekki verið kunnugt um nánara fyrirkomulag allra slíkra viðskipta.

Ákærða er gefin að sök markaðsmisnotkun sem byggist á einstökum viðskiptum EFL í samtals 228 viðskiptadaga 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Er í ákæru lagt til grundvallar að viðskiptin hafi verið framkvæmd af dómfelldu JSH og SS að undirlagi dómfellda ÍG og ákærða. Í hinum áfrýjaða dómi var á grundvelli mats á munnlegum framburðum sakfellt fyrir viðskipti vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Eins og áður er rakið eiga aðrir dómfelldu, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, sambærilegan rétt og ákærði til að leita endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 er ekki unnt að endurskoða munnlega framburði annarra en ákærða.

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti samkvæmt öllu framanröktu kemur einungis til álita að sakfella ákærða fyrir það tímabil sem hann var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi, það er 29. september til 3. október 2008. Í því sambandi er til þess að líta að þegar ljóst varð 29. september 2008 að íslenska ríkið hygðist kaupa 75% hlutafjár í Glitni banka hf. skapaðist enn ríkara tilefni en áður fyrir ákærða að fylgjast í meginatriðum með kaupum EFL á eigin bréfum bankans enda höfðu slík kaup neikvæð áhrif á eiginfjárgrunn bankans. Fyrir liggur að á þessum fimm síðustu viðskiptadögum með bréf bankans var EFL kaupandi allt að 79% bréfa bankans í Kauphöllinni eða 686.059.427 hlutum á gengi á bilinu 19,1 til 21,5 krónur á hlut. Í sögulegu ljósi var því um að ræða óvenjuleg og stórfelld viðskipti EFL sem höfðu augljósa þýðingu fyrir hagsmuni bankans á viðsjárverðum tímum. Er því ótrúverðugur sá framburður ákærða að honum hafi ekki á þessum tíma verið ljós hin umfangsmiklu kaup EFL á bréfum bankans. Í ljósi stöðu ákærða er í þeim efnum haldlaus sú skýring hans hér fyrir dómi að hin stórauknu kaup EFL á tímabilinu hafi verið til að anna aukinni eftirspurn hlutabréfa, meðal annars erlendis frá, sem honum hafi að stórum hluta verið ókunnugt um á þeim tíma. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að sannað sé að EFL hefðu ekki framkvæmt hin umfangsmiklu kaup á eigin bréfum á tímabilinu 29. september til 3. október 2008 án vitundar og samþykkis ákærða. Samkvæmt framansögðu þykir því sannað að viðskiptin sem um ræðir hafi verið að undirlagi ákærða, eins og í ákæru greinir.

Samkvæmt þessu og að gættum fyrirmælum 5. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr.. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007 vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008.

XII

Samkvæmt framansögðu var brot ákærða til þess fallið að hafa veruleg áhrif á verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. og þar með raska tiltrú fjárfesta og almennings á fjármálamarkaðinum.Verða þeir hagsmunir sem hér voru í húfi ekki metnir til fjár.

Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að um var að ræða kerfisbundna markaðsmisnotkun sem beindist að verulegum hagsmunum og fjölda viðskiptamanna að ógleymdum hagsmunum almennings alls af heilbrigðum mörkuðum. Jafnframt ber að líta til þess að ákærði gegndi starfi bankastjóra Landsbanka Íslands hf.

Fyrir liggur að meðferð málsins hefur tafist verulega, meðal annars vegna endurupptöku þess. Þær tafir eru ekki á ábyrgð ákærða. Þá tók rannsókn málsins langan tíma en til þess er þó að líta í þeim efnum að nauðsyn bar til að rannsaka það sakarefni sem leyst er úr að þessu sinni samhliða sakarefnum samkvæmt II., III. og IV. kafla ákæru. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019, sem kveðinn er upp samhliða þessum dómi, er ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði skilorðsbundið eftir því sem nánar greinir í dóminum. Við ákvörðun refsingar vegna beggja málanna verður ákærða, eins og hér stendur á, gerð refsing í hvoru máli fyrir sig en þó með hliðjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. tölulið 70. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans í þessu máli ákveðin níu mánaða fangelsi og verður refsingin skilorðsbundin eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Allur sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Hæstarétti sem lauk með dómi Hæstaréttar nr. 842/2014 greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 7.440.000 krónur. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 4. mgr. 231. gr., laga nr. 88/2008. Fer um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða eftir því sem í dómsorði greinir, en í fjárhæð þeirra er innifalinn virðisaukaskattur.

Dómsorð:

Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 842/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 4. febrúar 2016.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 4.500.000 krónur.