Fasteign og innstæður á bankareikningum í Bandaríkjunum ekki taldar falla undir opinber skipti á dánarbúi

20.05.2020

Í dag voru kveðnir upp dómar í tveimur málum þar sem Landsréttur hafði fallist á kröfu barna E heitins um að annars vegar tiltekin fasteign í Bandaríkjunum og hins vegar innstæður á bankareikningum þar í landi féllu undir opinber skipti á dánarbúi E en A, eiginkona E, hafði gert kröfu um að fasteignin og innstæðurnar féllu ekki undir skiptin. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur aðila að því hvort að um eignarhald á fasteigninni og fjármunum á bankareikningunum færi eftir ákvæðum íslenskra lagareglna eða laga í Suður Karólínu fylki í Bandaríkjunum um svokallað JTWROS sem fæli í sér að við andlát skammlífari sameiganda ljúki eignarrétti hans og öll eignin falli þar með óskipt til hins langlífari. Í dómum Hæstaréttar kom fram að samkvæmt ólögfestum lagaskilareglum væri sú meginregla talin gilda að um erfðir færi eftir reglum þess lands þar sem arfleiðandi átti síðast heimilisfesti. Sé í lögum erlends ríkis, þar sem eign er, mælt fyrir um sérstakar reglur varðandi slíkar eignir, sem komi í stað almennra reglna, víki meginreglan fyrir sérreglunni og beri þá að beita um eignina lögum þess lands þar sem hún er. Þegar sakarefni eða málsaðilar hafi slík tengsl við erlent ríki, að til beitingar reglna þess ríkis komi fyrir íslenskum dómstólum um sakarefnið í heild eða að hluta, þurfi að heimfæra lagareglur um hið erlenda lögfræðilega fyrirkomulag sem um ræðir til réttarsviðs en við slíka heimfærslu beri almennt að styðjast við lög dómstólslandsins. Ef hið erlenda fyrirkomulag sé mjög ólíkt því sem tíðkast í dómstólslandinu eða þekkist jafnvel ekki þar geti þó verið varhugavert eða orkað tvímælis að heimfæra það til annars réttarsviðs en þess sem miðað er við í því erlenda ríki þar sem reglan á uppruna sinn. Geti við þær aðstæður verið réttlætanlegt að víkja frá meginreglunni um að heimfærsla til réttarsviðs lúti lögum dómstólslandsins og láta hana þess í stað ráðast af lögum í hinu erlenda ríki. Taldi Hæstiréttur að A hefði með framlagðri matsgerð dómkvadds manns sannað tilvist og efni þeirra bandarísku lagareglna sem málatilbúnaður hennar var reistur á. Þá hefði A bæði sannað að til eignarhalds hennar og E á fasteigninni hefði í upphafi stofnast í samræmi við umræddar lagareglur og að bankareikningarnir hefðu verið stofnaðir, skráðir og varðveittir í fjármálastofnunum í Suður Karólínu fylki í samræmi við fyrrnefndar reglur. Eignarréttur E hefði þannig við andlát hans færst óskiptur yfir til hennar samkvæmt sömu reglum. Var krafa A um að fasteignin og innstæður á bankareikningunum í Bandaríkjunum féllu ekki undir opinber skipti á dánarbúi E því tekin greina.

 

Dómana í heild sinni má lesa hér og hér.