Tveir dómar um forkaupsrétt

28.05.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í tveimur málum þar sem deilt var um hvort Sparisjóður Höfðhverfinga ses. hefði á grundvelli forkaupsréttar í Reiknistofu bankanna hf. (Rb hf.) leyst til sín hluti í Rb hf. sem Mentis ehf. hafði keypt. Í öðru málinu hafði sparisjóðurinn í tölvupósti staðfest að hann félli frá forkaupsrétti sínum en síðar tilkynnt að hann hefði vegna breyttra aðstæðna ákveðið að nýta forkaupsréttinn vegna sölu hlutanna. Í því máli var talið að forkaupsréttur sparisjóðsins hefði fallið niður þegar hann tilkynnti að forkaupsréttarins yrði ekki neytt enda yrði að leggja til grundvallar að um slíkt svar færi eftir réttarreglum um ákvaðir þannig að það hefði réttaráhrif frá því að það kom til viðtakanda. Í hinu málinu hafði sparisjóðurinn tilkynnt að hann myndi beita forkaupsrétti sínum. Talið var að frestur til að tilkynna um nýtingu forkaupsréttarins hefði verið liðinn þegar sparisjóðurinn lýsti því yfir en miðað var við að hann hefði verið 30 dagar frá tilkynningu til stjórnar Rb hf. um kaupin. Í báðum málunum var því tekin til greina krafa Mentis ehf. um viðurkenningu á því að félagið væri réttur eigandi hlutanna.

Dómana í heild sinni má lesa hér og hér