Print

Mál nr. 3/2019

Sparisjóður Höfðhverfinga ses. (Þórir Júlíusson lögmaður)
gegn
Mentis ehf. (Andri Árnason lögmaður)
Lykilorð
  • Hlutafélag
  • Hlutabréf
  • Forkaupsréttur
  • Sératkvæði
Reifun

Ágreiningur í málinu laut að því hvort S ses. hefði á grundvelli forkaupsréttar í R hf. leyst til sín hluti í félaginu sem M ehf. keypti af K hf. Hafði R hf. tilkynnt S ses. um viðskiptin og S ses. í tölvupósti til R hf. staðfest að hann félli frá forkaupsrétti sínum. Sama dag og frestur til að nýta sér forkaupsrétt rann út sendi S ses. tilkynningu til R hf. þar sem hann sagðist vegna breyttra aðstæðna hafa ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn vegna sölu hlutanna. Greindi aðila meðal annars á um hvort S ses. hefði með bindandi hætti fallið frá forkaupsrétti sínum. Þá deildu þeir um hvort fullnægjandi hefði verið að beina tilkynningu um beitingu forkaupsréttar til R hf. en M ehf. hélt því fram að S ses. hefði borið að senda hana til K hf. sem seljanda hlutanna í samræmi við nánar tilgreint hluthafasamkomulag vegna R hf. Talið var sýnt fram á að R hf. hefði haft heimild fyrir hönd K hf. sem seljanda hluta í félaginu til að taka með bindandi hætti við tilkynningum frá hluthöfum vegna forkaupsréttarins. Ætti það sér stoð í meginreglum samningaréttar og færi ekki í bága við reglur um hluti í IV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Var því talið að forkaupsréttur S ses. hefði fallið niður þegar hann svaraði tilkynningu R hf. með tölvupósti um að forkaupsréttarins yrði ekki neytt enda yrði að leggja til grundvallar að um slíkt svar færi eftir réttarreglum um ákvaðir þannig að það hefði réttaráhrif frá því að það kom til viðtakanda. Var því tekin til greina krafa M ehf. um viðurkenningu á því að hann væri réttur eigandi hlutanna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir liggur að áfrýjunarstefna í máli þessu barst Landsrétti 9. apríl 2018 og var hún gefin út 13. sama mánaðar. Málinu var því skotið til Landsréttar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu héraðsdóms 14. mars 2018 í samræmi við ákvæði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Mál þetta lýtur að forkaupsrétti að hlutabréfum í Reiknistofu bankanna hf. sem hluthafar í félaginu njóta eftir ákvæðum í samþykktum þess og samkvæmt hluthafasamkomulagi vegna Reiknistofu bankanna hf. 15. desember 2010. Til úrlausnar er ágreiningur aðila um hvort áfrýjandi hafi á grundvelli forkaupsréttarins leyst til sín hluti í félaginu sem stefndi keypti af Kviku banka hf.

II

Málavextir eru þeir í meginatriðum að með samningi 7. apríl 2016 keypti fyrirsvarsmaður stefnda fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags 6.444.000 hluti í Reiknistofu bankanna hf. af Kviku banka hf. Stefndi tók síðan við réttindum og skyldum samkvæmt samningnum og átti að afhenda hlutina fimm dögum eftir að 30 daga frestur hluthafa til að neyta forkaupsréttar var liðinn. Þá skuldbatt kaupandi sig eftir samningnum til að gangast undir fyrrnefnt hluthafasamkomulag 15. desember 2010. Ákvæði þess og samþykkta Reiknistofu bankanna hf. um forkaupsrétt hluthafa eru tekin orðrétt upp í héraðsdómi.

Með tölvupósti Kviku banka hf. til Reiknistofu bankanna hf., sem sendur var 11. apríl 2016 klukkan 13.21, var tilkynnt um kaupin á hlutum bankans í félaginu. Í viðhengi með póstinum fylgdi bréf bankans sama dag til félagsins, en þar var þess farið á leit að félagið tilkynnti hluthöfum í því án tafar um kaupin og óskaði eftir staðfestingu þeirra á því hvort fallið væri frá forkaupsrétti eða hvort þeir hygðust ganga inn í kaupin. Degi síðar eða 12. apríl klukkan 17.56 sendi Reiknistofa bankanna hf. tölvupóst til hluthafa í félaginu þar sem tilkynnt var um viðskiptin vegna forkaupsréttar þeirra. Með póstinum fylgdi fyrrgreint bréf Kviku banka hf. 11. apríl 2016 til félagsins og kaupsamningurinn 7. sama mánaðar.

Áfrýjandi staðfesti í tölvupósti til Reiknistofu bankanna hf. 14. apríl 2016 að sér hefði borist framangreint erindi og tók fram að hann félli frá forkaupsrétti sínum. Í héraðsdómi eru rakin orðaskipti í tölvupóstum sem gengu milli aðila um þetta leyti, en þar kom meðal annars fram í tölvupósti áfrýjanda til stefnda 6. maí 2016 að hann hygðist ekki nýta forkaupsrétt sinn. Þá sendi Reiknistofa bankanna hf. tölvupóst 9. maí 2016 til hluthafa þar sem minnt var á að frestur þeirra til að nýta sér forkaupsrétt rynni út 12. sama mánaðar klukkan 17.56. Um formið á tilkynningu hluthafa var tekið fram að tölvupóstur væri fullnægjandi þar sem fram kæmi hvort hluthafi ætlaði að nýta sér forkaupsréttinn eða ekki.

Með tölvupósti, sem sendur var 12. maí 2016 klukkan 17.21, tilkynnti áfrýjandi Reiknistofu bankanna hf. að hann hefði vegna breyttra aðstæðna ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn vegna sölu á hlutum Kviku banka hf. í félaginu. Síðar sama dag sendi Reiknistofa bankanna hf. tölvupóst til Kviku banka hf. þar sem vísað var til tilkynningarinnar til hluthafa 12. apríl sama ár vegna forkaupsréttarins, sem send hefði verið í umboði bankans. Í póstinum var greint frá þeim hluthöfum sem hefðu fallið frá forkaupsrétti og tekið fram að áfrýjandi hefði tilkynnt að hann myndi nýta sér forkaupsrétt sinn.

Meðal málsgagna er ódagsett framsal Kviku banka hf. á 6.444.000 hlutum félagsins í Reiknistofu bankanna hf. til stefnda. Jafnframt liggur fyrir yfirlýsing bankans 26. júní 2018 um að kaupverð hlutanna hafi verið greitt og þeir afhentir stefnda 18. maí 2016. Svo sem greinir í héraðsdómi mun Reiknistofa bankanna hf. ekki hafa skráð stefnda sem eiganda að hlutunum í hlutaskrá félagsins vegna ágreinings um forkaupsrétt áfrýjanda. Því mun Kvika banki hf. enn vera skráður í hlutaskránni fyrir hlutum þessum.

III

 Með aðilum er í fyrsta lagi ágreiningur um hvort áfrýjandi hafi með bindandi hætti fallið frá forkaupsrétti sínum. Í öðru lagi deila þeir um hvort frestur til að ganga inn í kaupin hafi verið liðinn þegar áfrýjandi lýsti því yfir. Í þriðja lagi heldur stefndi því fram að ófullnægjandi hafi verið að beina tilkynningu um beitingu forkaupsréttar til Reiknistofu bankanna hf. heldur hafi átt að senda hana til Kviku banka hf. sem seljanda hlutanna í samræmi við fyrrgreint hluthafasamkomulag 15. desember 2010.

IV

Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með hinum áfrýjaða dómi, að stefndi, er reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi öðlast eignarrétt að hlutum í Reiknistofu bankanna hf. á grundvelli kaupsamningsins 7. apríl 2016 við Kviku banka hf., sé réttur aðili að máli um viðurkenningu á þeim rétti gagnvart áfrýjanda sem forkaupsréttarhafa. Í því tilliti breytir engu þótt Kvika banki hf. sé enn skráður hluthafi í hlutaskrá félagsins sökum þess ágreinings sem hér er til úrlausnar, en fyrir liggur að bankinn hefur á grundvelli kaupsamningsins afhent stefnda hlutina með framsali þeirra eftir að hafa fengið kaupverðið greitt.

Svo sem hér hefur verið rakið njóta hluthafar í Reiknistofu bankanna hf. forkaupsréttar að hlutum í félaginu. Í forkaupsrétti felst heimild fyrir rétthafa til að ganga inn í kaup við sölu eignar og gilda um þau kaup sömu skilmálar og í kaupsamningi eiganda og viðsemjanda hans, nema annað leiði af samningi eða lögum. Samkvæmt grein 5.1.3 í hluthafasamkomulagi vegna Reiknistofu bankanna hf. 15. desember 2010 bar að tilkynna seljanda um hvort hluthafi hygðist neyta forkaupsréttar síns, en það sama leiðir einnig af almennum reglum um forkaupsrétt ef ekki er á annan veg samið.

Með bréfi 11. apríl 2016 fór Kvika banki hf. þess á leit við Reiknistofu bankanna hf. að félagið tilkynnti hluthöfum án tafar um kaup stefnda á hlutum bankans í félaginu og óskaði eftir staðfestingu þeirra á því hvort fallið væri frá forkaupsrétti eða hvort þeir hygðust ganga inn í kaupin. Í kjölfarið sendi Reiknistofa bankanna hf. tilkynningu þess efnis til hluthafanna með tölvupósti 12. sama mánaðar, en með því fylgdi bréf bankans. Þetta erindi var áréttað með tölvupósti 9. maí 2016 til hluthafanna, en þar kom jafnframt fram að fullnægjandi væri að senda tölvupóst um hvort hluthafi nýtti sér forkaupsrétt eða félli frá honum. Með tölvupósti 12. sama mánaðar sendi Reiknistofa bankanna hf. erindi til Kviku banka hf. með upplýsingum um viðbrögð hluthafa vegna forkaupsréttarins, en þar var beinlínis tekið fram að tilkynning til hluthafanna vegna forkaupsréttarins hefði verið send í umboði bankans og hefur ekki komið fram að það hafi verið vefengt af hans hálfu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður lagt til grundvallar að Reiknistofa bankanna hf. hafi haft heimild fyrir hönd Kviku banka hf. sem seljanda hluta í félaginu til að taka með bindandi hætti við tilkynningum frá hluthöfum vegna forkaupsréttarins. Á það sér stoð í meginreglum samningaréttar og fer ekki í bága við reglur um hluti í IV. kafla laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Hér gegnir því öðru máli en í dómi Hæstaréttar 14. desember 2000 í máli nr. 285/2000 þar sem stjórn hlutafélags hafði ekki fengið sérstaka heimild til að taka við tilkynningum forkaupsréttarhafa um nýtingu forkaupsréttar. Þá er þess einnig að gæta að áfrýjandi leggur sjálfur til grundvallar í málatilbúnaði sínum að fullnægjandi hafi verið að tilkynna með þessu móti um að forkaupsréttarins væri neytt, en það sama hlýtur að eiga við ef fallið var frá honum. Samkvæmt þessu féll niður forkaupsréttur áfrýjanda þegar hann svaraði tilkynningu Reiknistofu bankanna hf. með tölvupósti 14. apríl 2016 og greindi frá því að forkaupsréttarins yrði ekki neytt, enda verður að leggja til grundvallar að um slíkt svar fari eftir réttarreglum um ákvaðir þannig að það hafi réttaráhrif frá því að það kom til viðtakanda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. mars 2011 í máli nr. 85/2011. Að auki er til þess að líta að áfrýjandi hafði í tölvupósti 6. maí 2016 lýst því yfir gagnvart stefnda að hann hygðist ekki nýta forkaupsréttinn. Þegar af þessum ástæðum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður á öllum dómstigum falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um það sem fram kemur í fyrstu þremur köflum dóms þeirra og fyrstu efnisgrein IV. kafla. Ég er einnig sammála niðurstöðunni  um að staðfesta hinn áfrýjaða dóm, svo og um ákvörðun málskostnaðar. Ég er á hinn bóginn ósammála rökstuðningi þeirra og tel að hann eigi að vera eftirfarandi:

I

Í 21. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir að hluti í slíku félagi megi meðal annars selja nema annað leiði af lögum eða sé boðið í samþykktum félagsins. Í samþykktir megi þó aðeins setja ákvæði um viðskiptahömlur að því er hluti varðar sem séu í samræmi við ákvæði 22. og 23. gr. laganna eða sérstakra laga. Þá segir í 1. mgr. 22. gr. laganna að í samþykktum megi ákveða að við eigendaskipti að hlut önnur en við erfð eða búskipti skuli hluthafar eða aðrir hafa forkaupsrétt. Í samþykktum skuli þá vera nánari reglur um þetta efni og skuli þar meðal annars greina: ,,a. ... b. Ákvæði um frest er forkaupsréttarhafi hefur til að beita forkaupsrétti sínum sem lengstur má vera tveir mánuðir, og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð.“ Í 3. mgr. greinarinnar er svo mælt fyrir um það að stjórn félags skuli þegar í stað greina forkaupsréttarhöfum skriflega frá tilkynningu um tilboð.

Reiknistofa bankanna hf. hefur nýtt sér áðurnefnda heimild laga nr. 2/1995 um að veita hluthöfum í félaginu forkaupsrétt að hlutum. Um það eru ákvæði í grein 2.5 í samþykktum félagsins, sem eru nánar útfærð í grein 2.8. Þar kemur fram að hluthafar í félaginu hafi forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Frestur forkaupsréttarhafa til að beita forkaupsrétti sínum sé 30 dagar og teljist hann frá tilkynningu stjórnar um tilboð.

Þá liggur fyrir að allir hluthafar í Reiknistofu bankanna hf. gerðu með sér hluthafasamkomulag 15. desember 2010, en þar var í grein 5.1 að finna ákvæði um forkaupsrétt. Í öðrum lið þeirrar greinar kom fram að forkaupsréttarhöfum skyldi þegar tilkynnt skriflega um fyrirhuguð viðskipti og það verð og skilmála sem lægi þeim til grundvallar. Í þriðja lið greinarinnar sagði: ,,Forkaupsréttarhafar skulu tilkynna seljanda um það hvort hann hyggist neyta forkaupsréttarins innan 30 daga frá því að honum barst sannanlega tilkynning um framkomið tilboð.“ Loks sagði í grein 11.1 í samkomulaginu að engar breytingar yrðu á því gerðar nema með skriflegum hætti og með samþykki allra aðila þess.

Í dómi Hæstaréttar 14. desember 2000 í máli nr. 285/2000 var skorið úr ágreiningi sem laut að beitingu forkaupsréttar í einkahlutafélagi, en í 13. og 14. gr. laga nr. 138/1994 um þau félög eru reglur sama efnis og gilda um hlutafélög að því leyti sem hér skiptir máli. Í málinu voru atvik þau, að eigandi hluta í einkahlutafélagi seldi þá. Í samþykktum félagsins voru ákvæði um að við eigendaskipti að hlutum í því öðlaðist stjórn félagsins fyrir þess hönd fyrst forkaupsrétt, en að því frágengu ættu hluthafar í A-flokki forkaupsrétt í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Hluthafinn, sem seldi, tilkynnti stjórn félagsins um söluna og ákvað stjórnin að neyta ekki forkaupsréttarins sem hún fór með og sendi í framhaldinu tilkynningu til annarra hluthafa um söluna og skilmála hennar. Þá var þeim hluthöfum sem neyta vildu forkaupsréttar bent á að hafa samband við félagið eigi síðar en tilgreindan dag, auk þess voru þeir, sem ekki vildu neyta réttarins, beðnir um að senda tilkynningu um það til félagsins. Tveir hluthafar höfðu samband beint við seljanda og tilkynntu honum að þeir ætluðu að neyta forkaupsréttar síns og gekk seljandi að liðnum fresti frá sölu á hlutunum til þeirra. Þriðji hluthafinn tilkynnti stjórn félagsins í samræmi við framangreinda tilkynningu hennar að hann ætlaði að neyta forkaupsréttar síns. Seljandi fékk á hinn bóginn ekki slíka tilkynningu frá honum innan þess frests sem veittur var. Þriðji hluthafinn höfðaði mál á hendur seljandanum og þeim tveimur hluthöfum sem á endanum keyptu hina fölu hluti. Í málinu var einkum deilt um hvort beina hefði átt tilkynningu um nýtingu forkaupsréttar til seljanda hlutanna eða stjórnar einkahlutafélagsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að samkvæmt 14. gr. laga nr. 138/1994, sem að þessu leyti svarar til 22. gr. laga nr. 2/1995, væri stjórn einkahlutafélags ætlað nokkuð hlutverk í framkvæmd varðandi nýtingu forkaupsréttar. Í greininni væri meðal annars mælt fyrir um hámarksfrest til að beita forkaupsrétti sem mætti lengstur vera tveir mánuðir og teldist fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð í hlut. Einnig sagði að stjórnin skyldi þegar í stað greina forkaupsréttarhöfum skriflega frá tilkynningu um tilboð. Stjórninni væri þannig ætlað það hlutverk að koma vitneskju til hluthafa um að til sölu væri hlutur, er þeir hefðu forkaupsrétt að. Í lögunum væru á hinn bóginn ekki ákvæði um hliðstæða milligöngu stjórnar félagsins varðandi tilkynningar frá hluthöfum um nýtingu á forkaupsrétti sínum. Yrði það hlutverk félagsins heldur ekki leitt af því einu að hliðstæð efnisrök, og lægju að baki hinum lögákveðnu tilvikum, kynnu að mæla með slíkri milligöngu, enda væri slíkt skyldubundið hlutverk félagsstjórnar takmörkun á meginreglu um frelsi eiganda hlutar til að framselja hann. Í samþykktum einkahlutafélagsins væri ekki kveðið á um að stjórn þess hefði hlutverk varðandi móttöku tilkynninga um nýtingu forkaupsréttar frekar en ráðið yrði af framangreindum lagaákvæðum. Af þessu leiddi að stefnandi málsins teldist ekki hafa tilkynnt að hann hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn innan tilskilins frests þeim sem væri bær til að veita tilkynningunni viðtöku. Einkahlutafélagið hefði heldur ekki einhliða getað takmarkað forræði seljandans á framsali á hlutabréfum sínum með því að taka sér víðtækara hlutverk varðandi framkvæmd kaupa í skjóli forkaupsréttar en leiddi af lögum og samþykktum félagsins, en í því sambandi væri einnig til þess að líta að ekki hefði verið í ljós leitt að seljandanum hafi verið kunnugt um efni bréfsins að þessu leyti. Var því kröfu þess sem málið höfðaði hafnað.

II

Af því sem rakið hefur verið er ljóst að ákvæði 22. gr. laga nr. 2/1995 eru ófrávíkjanleg um það, sem í þeim greinir. Í því felst að upphaf þess frests, sem áfrýjandi hafði til þess að neyta forkaupsréttar síns, var 11. apríl 2016 klukkan 13.21 þegar tilkynning barst til stjórnar Reiknistofu bankanna hf. um sölu hluta Kviku banka hf. til stefnda. Þá liggur einnig fyrir að í samþykktum Reiknistofu bankanna hf. eru ekki ákvæði um víðtækara hlutverk stjórnar félagsins, en leiðir af lögum nr. 2/1995, um tilkynningar eða móttöku þeirra þegar leitað er til hluthafa um hvort þeir hyggist neyta forkaupsréttar síns.

Í áðurnefndu tölvubréfi Kviku banka hf. til Reiknistofu bankanna hf. þar sem tilkynnt var um sölu bankans á hlutum sínum í síðarnefnda félaginu sagði meðal annars: ,,Bið þig að koma upplýsingum um þetta til annarra hluthafa vegna forkaupsréttar þeirra samkvæmt gr. 2.8. í samþykktum RB.“ Tölvubréfinu fylgdi einnig bréf þar sem gerð var grein fyrir sölunni og skilmálum hennar og hver væri kaupandi hlutanna. Þá sagði í því bréfi að með vísan til greinar 2.8 í samþykktunum væri óskað eftir því að Reiknistofa bankanna hf. tilkynnti hluthöfum án tafar um hið samþykkta tilboð ,,og óski eftir staðfestingu þeirra á því hvort fallið er frá forkaupsrétti eða hvort þeir hyggjast ganga inn í hið samþykkta tilboð.“ Þótt tilvitnuð orð í bréfinu verði skýrð þannig að með þeim sé stjórn Reiknistofu bankanna hf. veitt umboð til þess að taka við tilkynningum um hvort forkaupsréttar væri neytt, en á þann hátt sýnist viðtakandi hafa skilið bréfið, var það í andstöðu við það hlutverk stjórnar sem mælt er fyrir um í 22. gr. laga nr. 2/1995. Samkvæmt því átti stjórn eingöngu að taka við tilkynningu um sölu hluta og senda forkaupsréttarhöfum upplýsingar um hana og skilmála. Í samræmi við almennar reglur um forkaupsrétt bar þeim, sem neyta vildi þess réttar, að beina um það tilkynningu til seljanda hlutanna, enda stofnaðist við það réttarsamband milli seljandans og þess sem slíka tilkynningu sendi. Þetta var einnig sá háttur sem hluthafar höfðu með hluthafasamkomulagi 15. desember 2010 samið um að yrði á hafður þegar til álita kæmi hvort neyta skyldi forkaupsréttar við sölu hluta í félaginu. Hluthafasamkomulag þetta var annað tveggja skjala sem fyrirsvarsmaður stefnda fékk afhent við undirritun kaupsamnings við Kviku banka hf. um hlutina og undirgekkst stefndi að yfirtaka þau réttindi og þær skyldur sem þar var mælt fyrir um. Það var því hvorki á færi Kviku banka hf. né stjórnar Reiknistofu bankanna hf., og heldur ekki þeirra sameiginlega, að mæla fyrir um að sá háttur skyldi á hafður að tilkynningar um að neyta forkaupsréttar skyldu sendar til stjórnar félagsins. Tilkynningu um að hann neytti forkaupsréttar átti því áfrýjandi að beina að Kviku banka hf. og ef hann hefði gert það innan frests hefði stofnast réttarsamband milli þeirra um kaupin. Engin slík tilkynning barst Kviku banka hf. fyrir 11. maí 2016 klukkan 13.21 og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur þegar af þeirri ástæðu.

Ég tek einnig undir það sem fram kemur í niðurlagi forsendna dóms meirihluta dómenda í málinu að áfrýjandi hafi í tölvubréfi 6. maí 2016 til stefnda, með yfirlýsingu um að hann hygðist ekki neyta forkaupsréttar, afsalað sér þeim rétti.

 

 

Dómur Landsréttar 7. desember 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar með áfrýjunarstefnu 13. apríl 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2018 í málinu nr. E-3694/2016.

2. Áfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4. Gögn málsins bera með sér að tilkynning Kviku banka hf. var send með tölvupósti til Reiknistofu bankanna hf. 11. apríl 2018 kl. 13:21. Samkvæmt þessu var frestur áfrýjanda runninn út þegar hann tilkynnti stjórn Reiknistofu bankanna hf. 12. maí 2016 kl. 17:21 um að hann hygðist nýta sér forkaupsréttinn.

5. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að rekin hafa verið samhliða tvö önnur mál milli sömu aðila þar sem ágreiningsefni eru sambærileg. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Sparisjóður Höfðhverfinga ses., greiði stefnda, Mentis ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

 

 

Sératkvæði

Vilhjálms H. Vilhjálmssonar

1. Ég er ósammála meirihluta dómenda um forsendur dómsins og niðurstöðu.

2. Um málsatvik og helstu ágreiningsefni málsins er vísað til hins áfrýjaða dóms.

3. Eins og þar kemur fram gerðu stefndi og Kvika banki hf. með sér kaupsamning hinn 7. apríl 2016 um kaup á hlutafé í Reiknistofu bankanna hf. Í þeim samningi segir meðal annars: ,,4.2 Seljandi [Kvika banki hf.] hefur undirritað eftirtalda samninga við aðra hluthafa og við félagið sjálft: 4.2.1 Samkomulag milli hluthafa félagsins, dags. 14. desember 2010, sem fylgir samningi þessum sem viðauki I; og 4.2.2 Hluthafasamning vegna Reiknistofu bankanna hf., dags. 15. desember 2010, sem fylgir samningi þessum sem viðauki II. Kaupandi hefur kynnt sér framangreinda samninga og tekur við öllum réttindum og skyldum seljanda samkvæmt þeim frá afhendingu hins selda.“

4. Með vísan til þessara viðauka, efnis samnings aðila og undirritunar er sannað að stefndi hafði kynnt sér bæði hluthafasamkomulag og samþykktir Reiknistofu bankanna hf. Þá var stefnda kunnugt um rétt forkaupsréttarhafa í Reiknistofu bankanna hf. til að ganga inn í kaupin og skilyrði fyrir því að forkaupsrétturinn yrði nýttur, bæði um 30 daga frestinn og frá hvaða tíma hann átti að reikna. Með undirritun sinni á kaupsamninginn er stefndi bundinn af samþykktum félagsins um forkaupsrétt hluthafa. Einnig má nefna að allir aðrir sem komu að viðskiptunum fóru eftir ákvæðum samþykktanna og svöruðu tilkynningu Reiknistofu bankanna hf. 12. apríl 2016 innan 30 daga frá því að tilkynningin var send út.

5. Í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög er ekki að finna ákvæði um forkaupsrétt hluthafa en heimildarákvæði er í 22. gr. laganna. Af því ákvæði má ráða að samningur hluthafa um tilhögun forkaupsréttar gildir innan hvers félags, þó þannig að ákvæðið mælir fyrir um að forkaupsréttar skuli neytt innan tveggja mánaða frá því kaup eiga sér stað. Rúmast ákvæði samþykkta Reiknistofu bankanna hf. því innan þess ramma sem athafnafrelsi hluthafa samkvæmt 22. gr. laga nr. 2/1995 er sett.

6. Hvorki í 22. gr. laga nr. 2/1995 né annars staðar í lögunum er að finna ákvæði þess efnis að ákvæði greinarinnar séu ófrávíkjanleg, eins og héraðsdómur heldur fram. Ákvörðun hluthafa sem fram kemur í samþykktum og hluthafasamkomulagi ræður.

7. Orðið dagur hefur fasta merkingu í íslensku lagamáli og má nefna í því sambandi ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála um stefnufrest og áfrýjunarfrest. Með orðinu er átt við heilan dag, 24 klukkustundir. Áfrýjandi hafði því frest til miðnættis 12. maí 2018 til að neyta forkaupsréttar að umræddum hlutum. Þar sem áfrýjandi tilkynnti þann dag að hann myndi neyta forkaupsréttar að hlutunum gekk hann inn í kaupsamning stefnda og Kviku banka hf. og varð eigandi hlutanna. Tel ég því einsýnt að sýkna beri áfrýjanda af öllum kröfum stefnda í málinu og dæma stefnda til að greiða honum málskostnað, bæði í héraði og fyrir Landsrétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2018.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 22. nóvember 2016 og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð föstudaginn 2. mars sl. Stefnandi er Mentis ehf., Hverafold 31, Reykjavík. Stefndi er Sparisjóður Höfðhverfinga ses., Túngötu 3, Grenivík. Þá er Reiknistofu bankanna hf., Katrínartúni 2, Reykjavík, og Kviku banka hf., Borgartúni 25, Reykjavík, stefnt til réttargæslu í málinu.

Stefnandi gerir þá kröfu að viðurkennt verði að hann sé réttur eigandi 6.444.000 hluta í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf., að nafnvirði 1 króna hver, sem stefnandi keypti af réttargæslustefnda Kviku banka hf. með kaupsamningi 7. apríl 2016. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu sem hafa engar kröfur uppi fyrir sitt leyti.

Með úrskurði 30. maí 2017 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

 

Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika

Með samningi 7. apríl 2016 keypti stefnandi 6.444.000 hluti í réttargæslustefnda, Reiknistofu bankanna hf., af réttargæslustefnda, Kviku banka hf. Ekki er um það deilt að stefndi, sem hluthafi í félaginu, naut forkaupsréttar vegna sölunnar. Lýtur meginágreiningur aðila að því hvort stefndi hafi nýtt sér forkaupsrétt sinn með lögmætum hætti með yfirlýsingu í tölvubréfi 12. maí 2016 og þannig gengið með gildum hætti inn í kaupin. Málsatvik eru að meginstefnu ágreiningslaus.

A

Nánari tildrög málsins eru þau að 7. apríl 2016 gerðu fyrirsvarsmaður stefnanda og réttargæslustefndi Kvika banki hf. með sér samning um kaup hins fyrrnefnda á 6.444.000 hlutum í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. að nafnvirði 1 króna hver. Kaupverð hlutanna nam 70.000.000 króna og skyldi það greitt í reiðufé við afhendingu hins selda. Samkvæmt kaupsamningnum gerði fyrirsvarsmaðurinn samninginn fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, sem yrði að fullu í eigu hans og tæki við öllum réttindum og skyldum hans sem kaupanda. Ekki er um það deilt að téð félag fyrirsvarsmannsins er stefnandi, sem mun hafa verið stofnaður 30. apríl 2016, og tók það við réttindum og skyldum samkvæmt samningnum.

Samkvæmt grein 3.1 í fyrrgreindum kaupsamningi skyldi réttargæslustefndi Kvika banki hf. afhenda kaupanda hið selda fimm dögum eftir að „30 daga forkaupsréttarfrestur samkvæmt gr. 2.8. í samþykktum félagsins [þ.e. Reiknistofu bankanna hf.] rennur út“. Í grein 3.3 sagði að aðilar myndu tilkynna eigendaskipti að hinu selda til hluthafaskrár félagsins við afhendingu. Samkvæmt grein 4.1 í samningnum átti kaupandi að taka við öllum réttindum og skyldum „samkvæmt hinu selda, þ.m.t. rétti til arðgreiðslna, jöfnunarhluta, áskriftar að nýjum hlutum og útborgunar vegna lækkunar hlutafjár félagsins, frá afhendingu hins selda.“ Þá átti kaupandi frá afhendingu hins selda að taka við réttindum og skyldum seljanda samkvæmt tveimur samningum, sem seljandi hafði undirritað og gert við aðra hluthafa og við hið selda félag, sbr. grein 4.2 í kaupsamningnum. Nánar tiltekið var, annars vegar, um að ræða samkomulag 14. desember 2010 milli tiltekinna hluthafa og, hins vegar, hluthafasamkomulag 15. sama mánaðar. Þessir tveir samningar fylgdu kaupsamningnum sem viðaukar.

Í grein 2.8 í samþykktum réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. sagði eftirfarandi: „Hluthafar hafa forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Forkaupsréttarhafi hefur 30 daga frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu stjórnar um tilboð. Eigi mega líða fleiri en þrír mánuðir frá því kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.“

Í grein 5.1 í fyrrgreindu hluthafasamkomulagi voru einnig ákvæði um forkaupsrétt hluthafa réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. Í grein 5.1.1 sagði meðal annars eftirfarandi: „Samþykki hlutahafi sölu hluta sinna í félaginu, að hluta til eða í heild, skulu aðrir hluthafar eiga forkaupsrétt að hinum seldu hlutum í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína, í samræmi við ákvæði samþykkta félagsins. Kjósi einn eða fleiri forkaupsréttarhafa að neyta ekki forkaupsréttar skal réttur hinna aukast í réttu hlutfalli við hlutafjáreign.“ Grein 5.1.2 var svohljóðandi: „Forkaupsréttarhöfum skal þegar tilkynnt skriflega um fyrirhuguð viðskipta og það verð og skilmála sem liggja þeim grundvallar. Skulu forkaupsréttarhafar eiga rétt á því að ganga inn í kauptilboð á því verði og með þeim skilmálum sem náðst hefur samkomulag um milli seljanda og kaupanda, sbr. þó ákvæði samþykkta félagsins.“ Í grein 5.1.3 sagði eftirfarandi: „Forkaupsréttarhafar skulu tilkynna seljanda um það hvort hann hyggist neyta forkaupsréttarins innan 30 daga frá því að honum barst sannanlega tilkynning um framkomið tilboð.“

B

Með bréfi réttargæslustefnda Kviku banka hf. 11. apríl 2016, sem sent var réttargæslustefndu Reiknistofu bankanna hf. með tölvubréfi kl. 13:21 sama dag, tilkynnti bankinn að hann hefði samþykkt tilboð stefnanda í hlut bankans í félaginu. Var stefnandi þar tilgreindur sem kaupandi. Þá sagði eftirfarandi: „Með vísan til gr. 2.8 í samþykktum félagsins óskar Kvika hér með eftir að félagið tilkynni hluthöfum án tafar um hið samþykkta tilboð og óski eftir staðfestingu þeirra á því hvort fallið er frá forkaupsrétti eða hvort þeir hyggjast ganga inn í hið samþykkta tilboð.“

Degi síðar, 12. apríl 2016, kl. 17:56, sendi lögfræðingur réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. út tölvubréf til hluthafa þar sem tilkynnt var um fyrrgreint samþykki réttargæslustefnda Kviku banka hf. við tilboði stefnanda. Í bréfinu sagði eftirfarandi: „Samkvæmt grein 2.8 í samþykktum RB hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Forkaupsréttarhafi hefur 30 daga frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu stjórnar um tilboð.“ Með tölvubréfinu fylgdu bréf réttargæslustefnda Kviku banka hf. til félagsins frá 11. apríl 2016, sem og kaupsamningur bankans og stefnanda frá 7. sama mánaðar. Af hálfu stefnda er á það bent að umrætt tölvubréf hafi verið sent út eftir lokun starfsstöðvar hans.

Að kvöldi sama dags sendi fyrirsvarsmaður stefnanda tölvubréf til fyrirsvarsmanns stefnda vegna væntanlegs stjórnarkjörs í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. og leitaði eftir því að stefndi styddi sig sem fulltrúa smærri eigenda félagsins. Hinn 14. apríl 2016 svaraði fyrirsvarsmaður stefnda bréfinu með eftirfarandi orðum: „Haraldur hjá SÍSP fer með umboð Sparisjóðs Höfðhverfinga, við fylgjum SÍSP [Sambandi íslenskra sparisjóða].“ Sama dag sendi fyrirsvarsmaður stefnda svohljóðandi tölvubréf til réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. sem svar við framangreindri tilkynningu félagsins vegna forkaupsréttar frá 12. apríl 2016: „Þetta er móttekið. Sparisjóður Höfðhverfinga fellur frá forkaupsrétti.“ Þá kom fram í tölvubréfi fyrirsvarsmanns stefnda til fyrirsvarsmanns stefnanda 6. maí 2016, að „SPSH [hygðist] ekki nýta forkaupsréttinn“.

Hinn 12. maí 2016, kl. 17:21, sendi fyrirsvarsmaður stefnda að nýju tölvubréf til réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. vegna tilkynningarinnar um forkaupsrétt frá 12. apríl sl., með eftirfarandi orðum: „Vegna breyttra aðstæðna, þá hefur Sparisjóður Höfðhverfinga ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn. Óskar sparisjóðurinn eftir að nýta forkaupsrétt sinn að öllum þeim hlutum sem sparisjóðnum er heimilt.“ Síðar sama dag, eða kl. 20:25, sendi lögfræðingur réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. starfsmanni réttargæslustefnda Kviku banka hf. svohljóðandi tölvubréf: „Vísað er til tilkynningar vegna forkaupsréttar sem send var hluthöfum Reiknistofu bankanna hf. í umboði Kviku banka hf. þann 12. apríl sl. í tilefni af kaupsamningi, dags. 7. apríl 2016, um hlut Kviku banka hf. í RB. Fresturinn rann út í dag kl. 17:56.“ Í bréfinu var greint frá hluthöfum sem hefðu fallið frá forkaupsrétti og hluthöfum sem ekki hefðu sent neinar tilkynningar. Þá sagði eftirfarandi: „Sparisjóður Höfðhverfinga ses. tilkynnti að hann myndi nýta forkaupsréttinn, sbr. meðfylgjandi tölvuskeyti.“

Ekki er um það deilt að stefnandi hefur greitt réttargæslustefnda Kviku banka hf. umsamið kaupverð fyrir hina keyptu hluti í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. og hafa hlutirnir verið afhentir stefnanda. Á hinn bóginn hefur réttargæslustefndi Reiknistofa bankanna hf. ekki skráð stefnanda sem eiganda hlutanna í hlutaskrá vegna ágreinings málsaðila. Í stefnu er því lýst að af þessum sökum sé stefnanda nauðsynlegt að höfða mál þetta til viðurkenningar á því að hann njóti eignarréttar á hinu keypta hlutafé í samræmi við ákvæði kaupsamningsins 7. apríl 2016.

Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann njóti eignarréttar á hinum keyptu hlutum í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. sem hann hafi þegar fengið afhenta. Því er mótmælt að stefndi hafi, svo gilt sé, nýtt ætlaðan forkaupsrétt sinn á umræddum hlutabréfum. Stefnandi leggur á það áherslu að við úrlausn um forkaupsrétt stefnda og beitingu hans verði almennt að horfa til þess að forkaupsréttur feli í sér takmörkun á samningsfrelsi og eignarrétti. Verði því slíkur réttur jafnan ekki skýrður rýmkandi gagnvart eiganda hagsmuna og viðsemjanda hans.

Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi ekki neytt forkaupsréttar innan 30 daga tímafrests samkvæmt grein 2.8 í samþykktum félagsins. Hafi 30 daga frestur til nýtingar réttarins verið runninn út þegar stefndi beindi tilkynningu sinni til réttargæslustefnda 12. maí 2016. Stefnandi vísar í þessu sambandi til b-liðar 1. mgr. 22. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem kveðið er á um að í samþykktum félags skuli vera ákvæði um „frest er forkaupsréttarhafi hefur til að beita forkaupsrétti sínum sem lengstur má vera tveir mánuðir, og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð“. Samkvæmt tilvísuðu lagaákvæði, sem telja verði ófrávíkjanlegt varðandi upphafstíma slíks frests, hafi 30 daga frestur samkvæmt gr. 2.8 í samþykktunum byrjað að líða 11. apríl 2016, þ.e. þegar réttargæslustefndi Kvika banki hf. tilkynnti réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. um kaupin. Jafnvel þótt miðað væri við 30 daga tímafrest til nýtingar á forkaupsrétti frá „tilkynningu stjórnar“ telur stefnandi að fresturinn hafi verið liðinn 11. maí 2016, kl. 17:56. Engin haldbær rök séu til þess að miða upphaf 30 daga tímafrests, sbr. gr. 2.8 í samþykktunum, við næsta dag á eftir, 12. apríl 2016.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að stefndi hafi fallið frá forkaupsrétti sínum með bindandi hætti með yfirlýsingu sinni til réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. 14. apríl 2016 og með yfirlýsingu sinni til stefnanda 6. maí 2016. Enn fremur styður hann sýknukröfu sína við það að stefndi hafi ekki beint tilkynningu um nýtingu forkaupsréttar til aðila sem hafi verið bær til að veita henni viðtöku að lögum, þ.e. réttargæslustefnda Kviku banka ehf. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir málsástæðum og lagarökum stefnanda varðandi þessi atriði.

 

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála geti ekki beinst að stefnda. Jafnframt sé aðildarskortur til sóknar þar sem réttargæslustefndi Kvika banki hf. sé ekki stefnandi í málinu, en bankinn sé skráður eigandi þeirra hluta sem krafa stefnanda byggist á. Þegar af þessum ástæðum beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefndi grundvallar sýknukröfu sína að öðru leyti á því að hann hafi nýtt sér forkaupsrétt að hinum umdeildu hlutum með lögmætum hætti og sé því réttur eigandi þeirra. Óumdeilt sé að hann njóti forkaupsréttar að hlutum í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. á grundvelli samþykkta félagsins, hluthafasamkomulags og laga um hlutafélög. Stefndi hafi tilkynnt um nýtingu forkaupsréttarins og greitt kaupverð umræddra hluta inn á vörslureikning, þar sem greiðslufyrirmæli hefðu ekki borist frá seljanda. Þannig hafi stefndi efnt skyldur sínar, sem forkaupsréttarhafi, að öllu leyti.

Stefndi vísar til þess að hann hafi nýtt forkaupsrétt sinn innan tímamarka. Hann telur að bæði ákvæði samþykkta réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. og fyrrgreint hluthafasamkomulag mæli skýrlega fyrir um að fresturinn teljist frá tilkynningu stjórnar um tilboð og að tilkynna skuli um nýtingu forkaupsréttarins innan 30 daga frá því að sannanlega sé tilkynnt um tilboðið. Stefnda hafi ekki verið tilkynnt um tilboðið með sannanlegum hætti fyrr en 14. apríl 2016. Þegar af þeirri ástæðu sé augljóst að tilkynning stefnda um nýtingu forkaupsréttarins 12. maí 2016 hafi verið vel innan tímamarka. Stefndi áréttar að hann telji að grein 2.8 í samþykktum réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. standist lög. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 22. gr. laga um hlutafélög fjalli um hámarksfrest til nýtingar forkaupsréttar, en þar sé ekki að finna ófrávíkjanlega reglu um upphaf frestsins. Málsástæða stefnanda að þessu leyti sé í ósamræmi við ákvæðið og einnig í hróplegu ósamræmi við framkvæmd þeirra viðskipta sem hér um ræði. Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda á þá leið að fresturinn hafi verið liðinn, jafnvel þótt miðað sé við tilkynningu réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. 12. apríl 2016, og þeirri fullyrðingu að við þær aðstæður hafi 30 dagar verið liðnir 11. sama mánaðar. Telur hann að fresturinn hafi í öllu falli ekki runnið út fyrr en í fyrsta lagi á miðnætti aðfaranætur 13. maí 2016 eða að morgni þess dags. Vísar hann til þess að tilkynningin 12. apríl hafi borist eftir lokun starfsstöðvar stefnda.

Stefndi hafnar einnig þeirri málsástæðu stefnanda að hann hafi ekki beint tilkynningu um nýtingu forkaupsréttarins til aðila sem var bær til að veita henni viðtöku. Hið sama eigi við um þá málsástæðu stefnanda að stefndi hafi með skuldbindandi hætti fallið frá forkaupsrétti. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir málsástæðum og lagarökum stefnda um þessi atriði.

 

Niðurstaða

Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að hann telji sig hafa orðið eiganda þeirra hluta í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. sem vísað er til í kröfugerð stefnanda á grundvelli fyrrgreindrar yfirlýsingar sinnar um beitingu forkaupsréttar 12. maí 2016. Eins er ljóst af gögnum málsins að réttargæslustefndi Kvika banki hf. hefur gert samning um sölu hlutanna til stefnanda og er sá samningur meðal gagna málsins. Verður ekki önnur ályktun dregin af gögnum málsins en að þessi réttargæslustefndi, sem ekki hefur látið málið til sín taka, telji sig ekki lengur eiganda hlutanna, þrátt fyrir að vera skráður sem slíkur í hluthafaskrá. Liggur og fyrir að réttargæslustefndi Reiknistofa bankanna hf. hefur, vegna ágreinings málsaðila, synjað um skráningu stefnanda sem eiganda hlutanna í hluthafaskrá. Fellst dómurinn því ekki á að réttur aðili til sóknar í málinu sé réttargæslustefndi Kvika banki hf. þannig að sýkna beri stefnda af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög má í samþykktum félags ákveða að við eigendaskipti að hlut önnur en við erfð eða búskipti skuli hluthafar eða aðrir hafa forkaupsrétt. Í samþykktum skulu þá vera nánari reglur um þetta efni og skal þar meðal annars greina ákvæði um frest er forkaupsréttarhafi hefur til að beita forkaupsrétti sínum, sem lengstur má vera tveir mánuðir, og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð, sbr. b-lið 1. mgr. greinarinnar. Þessi heimild var nýtt með grein 2.8 í samþykktum réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. og grein 5 í áðurlýstum hluthafasamningi. Er ekki um það deilt að þar er gert ráð fyrir því að þessi frestur sé 30 dagar en aðila greinir hins vegar á um það við hvað beri að miða upphaf frestsins.

Ákvæði 22. gr. laga nr. 2/1995 eru ófrávíkjanleg, þar á meðal reglan um upphaf frests hluthafa til að nýta forkaupsrétt samkvæmt samþykktum félags. Af fyrrgreindu ákvæði, svo og 3. mgr. greinarinnar, verður dregin sú ályktun að stjórn félags sé ætlað það hlutverk að taka við tilkynningu um samþykkt tilboð og jafnframt að koma upplýsingum um það til hluthafa. Sömu ákvæði bera hins vegar ótvírætt með sér að upphaf frests til að nýta forkaupsrétt miðist við tilkynningu til stjórnar félags um tilboð, en ekki við tilkynningu stjórnarinnar til hluthafa sem fara skal fram þegar í stað. Er hlutverk stjórnar félags, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt lögum nr. 2/1995 og almennum reglum, þar af leiðandi einskorðað við að tilkynna hluthöfum þegar í stað um tilboð á grundvelli hluthafaskrár félags. Geta ákvæði í samþykktum réttargæslustefnda Reiknistofunnar eða hluthafasamningi ekki haggað við fortakslausri reglu laganna um upphaf frests hluthafa til að nýta sér forkaupsrétt. Því síður gat stjórn téðs réttargæslustefnda vikið einhliða frá þessum fyrirmælum laganna með tilkynningu sinni til hluthafa 12. apríl 2016.

Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar úrlausn málsins að frestur stefnda til að nýta sér forkaupsrétt sinn vegna áðurlýstra kaupa stefnanda og réttargæslustefnda Kviku banka hf. hafi byrjað að líða 11. apríl 2016. Hvorki af lögum nr. 2/1995 né öðrum réttarheimildum verður dregin sú ályktun að við nánari ákvörðun upphafstímamarks frestsins beri að miða við annan tíma dags en rauntíma móttöku tilkynningar, enda liggi sá tími fyrir. Verður því að skilja framangreint ákvæði bókstaflega á þá leið að þar sem fyrir liggur með vissu hvenær dags tilkynning hefur borist stjórn félags beri að miða við þá tímasetningu. Samkvæmt þessu rann frestur stefnda samkvæmt samþykktum réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna og hluthafasamningi til að nýta sér forkaupsrétt sinn vegna áðurlýstrar sölu hlutabréfa út 11. maí 2016, kl. 11:58, þegar liðnir voru réttir 30 dagar frá því að réttargæslustefndi Kvika banki hf. tilkynnti stjórn félagsins um söluna. Var frestur til að neyta forkaupsréttar því liðinn þegar stefndi tilkynnti um nýtingu réttarins til stjórnar réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. 12. maí 2016, kl. 17:21. Af þessari ástæðu gat tilkynning stefnda um nýtingu forkaupsréttar ekki haft þau áhrif að skapa honum eignarrétt að téðum hlutum.

Samkvæmt þessu, svo og að teknu tilliti til áðurlýstrar afstöðu réttargæslustefnda Kviku banka hf., þykir stefnandi hafa fært nægilegar sönnur á eignarrétt sinn að hinum umdeildu hlutum. Verður því fallist á kröfu hans um viðurkenningu eignarréttar, svo sem nánar greinir í dómsorði, og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort stefnda var rétt að beina tilkynningu um nýtingu forkaupsréttarins til réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf. eða hvort stefndi hafði áður afsalað sér forkaupsréttinum með skuldbindandi hætti.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts og frávísunarþáttar málsins.

Af hálfu stefnanda flutti málið Andri Árnason lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Þórir Júlíusson lögmaður.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Eignarréttur stefnanda, Mentis ehf., að 6.444.000 hlutum í réttargæslustefnda Reiknistofu bankanna hf., að nafnvirði 1 króna hver, sem stefnandi keypti af réttargæslustefnda Kviku banka hf. með kaupsamningi, 7. apríl 2016, er viðurkenndur.

Stefndi, Sparisjóður Höfðhverfinga ses., greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.