Kröfur LÍN á hendur ábyrgðarmönnum fyrndar

01.11.2018

Í dag voru kveðnir upp dómar í tveimur málum sem Lánasjóður íslenskra námsmanna höfðaði á hendur ábyrgðarmönnum vegna skulda samkvæmt skuldabréfum sem einstaklingar höfðu gefið út til sjóðsins í tíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Eftir að lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna höfðu leyst fyrrnefnd lög af hólmi hófu einstaklingarnir nám að nýju og gáfu þeir að því tilefni út ný skuldabréf til lánasjóðsins. Í lögum nr. 21/1992 var mælt svo fyrir að skuld vegna námslána sem tekin hefðu verið eftir reglum þeirra laga skyldi fyrst endurgreidd að fullu og greiðsla af eldri skuld frestast þar til það hefði verið gert. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með 18. gr. laga nr. 21/1992 hefði löggjafinn gripið til íhlutunar í réttarsamband ábyrgðarmanns og lánveitanda með því að færa aftur um óákveðinn tíma upphafsmark tímabils endurgreiðslu skuldar samkvæmt eldri skuldabréfunum. Með því að þær gerðir löggjafans sem handhafa ríkisvalds lytu að réttarsambandi einstaklings við lánasjóðinn, sem heyrði undir framkvæmdavald ríkisins og væri borinn uppi af fé þess, yrði að skýra og beita ákvæðinu á þann hátt sem ábyrgðarmanni gæti talist hagfelldastur. Tæki ákvæðið eingöngu mið af tilvikum þar sem skuld við lánasjóðinn vegna námsláns eftir ákvæðum laga nr. 21/1992 fengist greidd að fullu en hvergi væri nokkuð sagt um afdrif eldri skuldar ef viðleitni til innheimtu þeirri yngri bæri ekki árangur. Ófært væri að lánasjóðurinn gæti í þeirri aðstöðu haft sjálfdæmi um hvenær sá tími gæti talist vera kominn að hefja mætti innheimtu á henni vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld. Yrði því að leggja til grundvallar að lánasjóðinum hefði borið að gera það þegar eftirstöðvar kröfu hans á hendur einstaklingunum samkvæmt skuldabréfunum sem gefin voru út í tíð laga nr. 21/1992 voru allar gjaldfallnar vegna vanskila. Var því talið að fjögra ára fyrningartími krafna hans á hendur ábyrgðarmönnunum hefði verið liðinn þegar málin voru höfðuð. Voru ábyrgðarmennirnir því sýknaðir af kröfum lánasjóðsins.

Dómana í heild sinni má lesa hér og hér.