Print

Mál nr. 492/2017

Lánasjóður íslenskra námsmanna (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
Guðrúnu Axelsdóttur (Ólafur Örn Svansson lögmaður, Jóhannes S. Ólafsson lögmaður  3. prófmál)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Ábyrgð
  • Afturvirkni laga
  • Fyrning
Reifun

L höfðaði mál gegn GA til heimtu skuldar samkvæmt átta skuldabréfum sem GR gaf út á árunum 1988 til 1989 og GA hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Námslok GR voru árið 1991 og við þau voru lánin sameinuð í eitt lán. Árið 1993 hóf GR nám að nýju og gaf hann þá út annað skuldabréf til L. Höfðu lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna þá leyst af hólmi eldri lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í lögum nr. 21/1992 var mælt svo fyrir um að stæði lántaki í skuld við L vegna námslána sem tekin hefðu verið eftir reglum þeirra laga og einnig í skuld vegna námslána sem tekin höfðu verið eftir reglum eldri laga nr. 72/1982 skyldi skuldin sem lyti ákvæðum laga nr. 21/1992 fyrst endurgreidd að fullu og greiðsla af eldri skuldinni frestast þar til það hefði verið gert. L kvað að innheimta krafna samkvæmt skuldabréfinu frá 1993 hefði lokið án árangurs og í framhaldi af því hefði skuld samkvæmt eldra skuldabréfinu verið tekin aftur til innheimtu á árinu 2013. Ekkert fékkst hins vegar greitt af skuldinni og höfðað L því á árinu 2014 mál til heimtu skuldarinnar á hendur GA óskipt með GR og öðrum nafngreindum ábyrgðarmanni en málið var fellt niður. Höfðaði L síðan mál þetta á árinu 2016. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrirmæli 18. gr. laga nr. 21/1992 tækju eingöngu mið af tilvikum þar sem skuld við L vegna námsláns eftir ákvæðum laga nr. 21/1992 fengist greidd að fullu en hvergi væri nokkuð sagt um afdrif eldri skuldar ef viðleitni til innheimtu þeirri yngri bæri ekki árangur og enn síður hvað þyrfti nánar að koma til svo að unnt væri að slá föstu að yngri skuldin fengist ekki greidd. Ófært væri að L gæti gagnvart ábyrgðarmanni á skuld sem stofnað var til í tíð laga nr. 72/1982 haft í þeirri aðstöðu sjálfdæmi um hvenær sá tími gæti talist vera kominn að hefja mætti innheimtu á henni vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld. Yrði því að leggja til grundvallar að L hefði borið að gera það þegar eftirstöðvar kröfu hans á hendur GR samkvæmt skuldabréfinu frá 1993 voru allar gjaldfallnar vegna vanskila á greiðslu afborgunar á gjalddaga á árinu 2009. Þegar L höfðaði fyrrgreint mál á árinu 2014 hefði verið liðinn fjögra ára fyrningartími kröfu hans á hendur GA samkvæmt 3. tölulið 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Var GA því sýknuð af kröfu L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2017. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 2.237.533 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. mars 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins tók Guðmundur R. Lúðvíksson námslán hjá áfrýjanda á árunum 1987 til 1991 og gaf vegna þeirra út tólf skuldabréf sem hvert um sig var auðkennt með bókstafnum T og mismunandi númerum eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu lána samkvæmt átta af þessum skuldabréfum en hún var á þeim tíma sambýliskona Guðmundar. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna sem gefin voru út á grundvelli þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki var fjárhæð þeirra bundin lánskjaravísitölu en þau báru ekki vexti. Endurgreiðsla láns átti að hefjast þremur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum sem ákveðnar yrðu í tvennu lagi, annars vegar sem föst greiðsla með tiltekinni fjárhæð sem skyldi innt af hendi 1. mars ár hvert og hins vegar sem svonefnd viðbótargreiðsla sem tæki á nánar tiltekinn hátt mið af útsvarsstofni lánþegans á næsta ári á undan, en standa átti skil á henni 1. september á hverju ári. Ljúka átti endurgreiðslu lánsins á 40 árum en dygðu ekki afborganir fyrir fullri greiðslu áttu eftirstöðvar skuldar að falla niður að þeim tíma liðnum. Í skuldabréfunum sagði að endurgreiðslur væru lögtakskræfar ef vanskil yrðu. Þá sagði enn fremur að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma væri lánið allt gjaldfallið án uppsagnar. Í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 ákvað áfrýjandi að námslok Guðmundar hafi orðið á árinu 1991 en við þau voru lánin sameinuð í eitt lán sem fékk númerið S-941652. Virðist fjárhæð lánsins hafa þannig numið 2.048.669 krónum að meðtöldum áföllnum verðbótum á fyrsta gjalddaga þess 1. mars 1994 en þar af hafi stefnda staðið í ábyrgð fyrir greiðslu á 944.520 krónum. Áður en kom að þeim gjalddaga hafði Guðmundur á hinn bóginn hafið nám að nýju í ágúst 1993 og kveður áfrýjandi hann hafa fengið af þeim sökum undanþágu frá árlegri endurgreiðslu lánsins á meðan nýja námið stóð yfir, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982. Því námi hafi lokið í janúar 1995 og Guðmundur verið krafinn um fyrstu afborgun af láninu með gjalddaga 1. mars 1996. Hafi hann staðið skil á henni 15. apríl sama ár en svo virðist sem tekjur hans á árinu 1995 hafi verið það lágar að ekki hafi verið skilyrði til að krefja hann um viðbótargreiðslu af skuldabréfinu á gjalddaga 1. september 1996.

Þegar Guðmundur hóf nám að nýju höfðu lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna leyst af hólmi áðurnefnd lög nr. 72/1982 og tók hann í því námi frekari lán hjá áfrýjanda sem lutu ákvæðum nýju laganna. Gaf Guðmundur út í því skyni skuldabréf til áfrýjanda 12. desember 1993 sem fékk auðkennið R-008156. Fjárhæð skuldar samkvæmt því skuldabréfi var bundin vísitölu neysluverðs og átti að bera breytilega vexti sem yrðu þó ekki hærri en 3% á ári. Endurgreiðslur áttu að fara fram með áþekkum hætti og lýst var í skuldabréfum fyrir eldri lánum Guðmundar og hefjast tveimur árum eftir námslok en miðað var þó við að lánið yrði endurgreitt að fullu og var ekki settur hámarkstími til þess. Í skuldabréfinu var mælt fyrir um heimild til að gera fjárnám fyrir kröfu samkvæmt því án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og sagði þar jafnframt að ef ekki yrði staðið í skilum með greiðslu afborgana væri lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar. Áfrýjandi kveður Guðmund sem áður segir hafa lokið þessu nýja námi í janúar 1995 og hafi þá heildarfjárhæð lána til hans í því námi, 819.188 krónur, verið fært inn á skuldabréf R-008156. Því til samræmis hafi fyrsti gjalddagi afborgunar af því skuldabréfi átt að verða 1. mars 1997.

Í lögum nr. 21/1992 sem tóku samkvæmt framansögðu til skuldabréfs Guðmundar frá 12. desember 1993 var mælt svo fyrir í 18. gr. að væri skuldari samkvæmt þeim lögum jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin hefðu verið eftir lögum nr. 21/1992 en greiðslur af eldri námsskuldum skyldu frestast þar til þau lán væru að fullu greidd. Þessu til samræmis kveðst áfrýjandi hafa krafið Guðmund um afborganir eingöngu af skuldabréfi R-008156 frá og með gjalddaga 1. mars 1997 en engra afborgana krafist af skuldabréfi S-941652 eftir þá greiðslu sem Guðmundur stóð samkvæmt áðursögðu skil á 15. apríl 1996. Óumdeilt er að stefndu var ekki kynnt þetta sem ábyrgðarmanni á hluta skuldar samkvæmt skuldabréfi S-941652. Eftir gögnum málsins greiddi Guðmundur afborganir af skuldabréfi R-008156 sem féllu í gjalddaga til og með 1. mars 2008 en upp frá því virðist það skuldabréf hafa verið í vanskilum. Áfrýjandi höfðaði mál á hendur Guðmundi og ábyrgðarmanni samkvæmt skuldabréfi R-008156 með stefnu 13. júní 2012 til heimtu gjaldfallinna afborgana sem áfrýjandi kvað nema alls 274.332 krónum og var stefnan árituð um aðfararhæfi 10. október sama ár. Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um hvað áfrýjandi hafi aðhafst frekar til að innheimta kröfur samkvæmt skuldabréfi R-008156 en í stefnu í máli þessu kveður hann þeirri innheimtu hafa lokið án árangurs og hafi þær kröfur verið settar „á kröfuvakt þegar talið var að frekari innheimtutilraunir væru þýðingarlausar.“ Segist áfrýjandi þá hafa tekið lán samkvæmt skuldabréfi S-941652 aftur til innheimtu og krafist greiðslu afborgunar eftir ákvæðum bréfsins á gjalddaga 1. mars 2013. Ekkert hafi fengist greitt af því skuldabréfi og höfðaði áfrýjandi mál 14. og 20. maí 2014 á hendur Guðmundi til heimtu heildarskuldar samkvæmt því að fjárhæð 4.990.037 krónur, svo og stefndu til greiðslu á 2.237.533 krónum af þeirri skuld óskipt með Guðmundi og öðrum nafngreindum ábyrgðarmanni samkvæmt skuldabréfinu til greiðslu skuldarinnar að öðru leyti. Það mál var fellt niður 9. febrúar 2016. Mál þetta var svo höfðað um sömu kröfur 9. ágúst 2016 gegn stefndu, Guðmundi og fyrrnefndum ábyrgðarmanni, en málinu lauk gagnvart þeim tveimur síðarnefndu með dómsátt 26. sama mánaðar.

II

Við úrlausn málsins verður að gæta að því að réttarsamband aðilanna myndaðist með því að stefnda gekkst með áritun á átta skuldabréf sem Guðmundur R. Lúðvíksson gaf út í tímabilinu frá 2. febrúar 1988 til 18. apríl 1989 undir sjálfskuldarábyrgð gagnvart áfrýjanda á kröfum hans á hendur Guðmundi um endurgreiðslu námslána samkvæmt þeim skuldabréfum. Réttarsamband þetta réðist af ákvæðum skuldabréfanna og hafði tekið á sig fullnaðarmynd þegar þau höfðu verið gefin út. Gat stefnda þannig gengið út frá því að ábyrgð hennar tæki til greiðslu afborgana sem eftir nánari fyrirmælum í skuldabréfunum yrðu reiknaðar út tvívegis á ári á tímabili sem hæfist þremur árum eftir að Guðmundur lyki námi og staðið gæti síðan að hámarki í 40 ár, að gættu því að endurgreiðslum gæti lokið á skemmri tíma, vanskil á greiðslu afborgunar hefðu sjálfkrafa í för með sér að allar eftirstöðvar skuldarinnar féllu í gjalddaga og áfrýjandi gæti orðið við umsókn Guðmundar um að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu af sérstökum ástæðum sem greindi í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982. Með áðurnefndri 18. gr. laga nr. 21/1992 sem tók gildi 29. maí 1992 greip á hinn bóginn löggjafinn til íhlutunar í þetta réttarsamband með því að færa aftur um óákveðinn tíma upphafsmark tímabils endurgreiðslna aðalskuldarans af skuldabréfunum. Eftir meginreglum kröfuréttar getur krafa á hendur ábyrgðarmanni ekki orðið gjaldkræf fyrr en aðalskuldari lætur hjá líða að standa skil á greiðslu afborgunar á gjalddaga hennar og hafði þannig lagaákvæði þetta sjálfkrafa þau áhrif að einnig var því slegið á frest að krafa áfrýjanda á hendur stefndu gæti orðið gjaldkræf. Með því að þessar gerðir löggjafans sem handhafa ríkisvalds lutu að réttarsambandi einstaklings við áfrýjanda, sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins og er borinn uppi af fé þess, verður að skýra og beita ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 á þann hátt sem stefndu getur talist hagfelldastur, þar á meðal með tilliti til fyrningar kröfu áfrýjanda á hendur henni.

Í 18. gr. laga nr. 21/1992, sbr. nú 2. mgr. sömu lagagreinar eftir að henni var breytt með 6. gr. laga nr. 140/2004, var sem áður segir mælt fyrir um að stæði lántaki í skuld við áfrýjanda vegna námslána sem tekin voru eftir reglum þeirra laga og einnig í skuld vegna námslána sem tekin höfðu verið eftir reglum eldri laga nr. 72/1982 skyldi skuldin sem laut ákvæðum laga nr. 21/1992 fyrst endurgreidd að fullu og greiðslur af eldri skuldinni frestast þar til það hefði verið gert. Þessi fyrirmæli tóku þannig eingöngu mið af tilvikum þar sem skuld við áfrýjanda vegna námsláns eftir ákvæðum laga nr. 21/1992 fengist greidd að fullu, en hvergi var nokkuð sagt um afdrif eldri skuldar ef viðleitni til innheimtu á þeirri yngri bæri ekki árangur og enn síður hvað þyrfti nánar að koma til svo að unnt væri að slá föstu að yngri skuldin fengist ekki greidd. Ófært er að áfrýjandi geti gagnvart ábyrgðarmanni á skuld sem stofnað var til í tíð laga nr. 72/1982 haft í þeirri aðstöðu sjálfdæmi um hvenær sá tími geti talist vera kominn að hefja megi innheimtu á henni vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld. Verður því að gættu öllu framangreindu að leggja til grundvallar að það hefði áfrýjanda borið að gera þegar eftirstöðvar kröfu hans á hendur Guðmundi samkvæmt skuldabréfi R-008156 voru allar gjaldfallnar eftir hljóðan bréfsins vegna vanskila á greiðslu afborgunar á gjalddaga 1. mars 2009. Þegar áfrýjandi höfðaði fyrrnefnt mál gegn stefndu í maí 2014 var liðinn fjögurra ára fyrningartími kröfu hans á hendur henni samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu, Guðrúnu Axelsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017

Málið er höfðað 9. ágúst 2016 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, 105 Reykjavík gegn Guðrúnu Axelsdóttur, Hvassaleiti 71, 103 Reykjavík.

Mál þetta var upphaflega einnig höfðað á hendur Guðmundi R. Lúðvíkssyni, Hrannargötu 5, 230 Reykjanesbæ og Sigríði Kristínu Eysteinsdóttur, Njarðvíkurbraut 12, 230 Reykjanesbæ en þau luku málinu með dómsátt við stefnanda 6. september 2016. Málið var dómtekið eftir endurflutning þess 8. maí sl.

Stefnandi krefst þess að stefnda Guðrún verði dæmd til að greiða stefnanda 2.337.533 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 39.252 krónum frá 1. mars 2013 til 1. september 2013, af 39.848 krónum frá þeim degi til 1. mars 2014, af 80.191 krónu frá þeim degi til 11. maí 2014, af 2.752.504 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefnda krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda á hendur stefndu verði lækkaðar verulega. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda, að viðbættum virðisaukaskatti.

I.

Krafa stefnanda er til komin vegna námslána Guðmundar R. Lúðvíkssonar sem hann tók hjá stefnanda. Að sögn stefnanda var krafan tryggð með sjálfskuldarábyrgð Sigríðar Kristínar Eysteinsdóttur sem var í ábyrgð fyrir 55,16% skuldarinnar og stefndu sem er í ábyrgð fyrir 44,84% skuldarinnar. Skuldin varð til með umsókn Guðmundar um námslán og útgáfu tólf skuldabréfa á árunum 1988-1991. 

Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna eru lánin verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu næsta mánaðar eftir að lánið er tekið eða einstakir hlutar þess greiddir út til fyrsta dags þess mánaðar er greiðsla fer fram. Endurgreiðsla skyldi hefjast þremur árum eftir námslok en stjórn stefnanda skyldi ákveða hvað teldust vera námslok í þessu sambandi. Árleg endurgreiðsla skyldi fara fram í tvennu lagi eftir nánari ákvæðum þar um. Þá eru samhljóða ákvæði í skuldabréfunum um að endurgreiðslum skyldi ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hæfust og séu eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr. þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Endurgreiðslur skyldu standa yfir í fimm ár hið skemmsta. Þá segir að stjórn stefnanda sé ,,heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára.“

Að loknu námi Guðmundar voru, að sögn stefnanda, veitt námslán sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer, S-941652. Stefnandi kveðst hafa haft þá vinnureglu, til hagræðis bæði fyrir sig og lántaka, að reikna og krefja um greiðslu afborgana T-skuldabréfanna allra í einu þar sem gjalddagi og afborganir þessara skuldabréfa reiknist allar á sama gjalddaga og afborganir þeirra allra eigi að byrja á sama tíma. Þetta er að sögn stefnanda gert með því að reikna öll T-skuldabréfin upp til sömu vísitölu og innheimta sem sameinað lán S-941652 í tilviki stefndu. Þessi aðferð við innheimtu námslána sem voru veitt samkvæmt lögum nr. 72/1982 á að mati stefnanda stoð í 2. mgr. 29. gr. reglugerðar nr. 578/1982 um námslán og námsstyrki. Endurgreiðslur T-skuldabréfa áttu að hefjast þremur árum eftir námslok samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982. Námslok Guðmundar vegna náms í myndlist við MHÍ voru að sögn stefnanda á árinu 1991. Stefnandi reiknaði því lánið upp til sameiginlegrar lánskjaravísitölu í janúar 1994 sem var 3343 stig. Stefnda kveður að hún hafi ekki verið upplýst um þessa sameiningu eða gefinn kostur á að tjá sig um hana.

Þau skuldabréf sem stefnda undirritaði sem sjálfskuldarábyrgðarmaður eru eftirfarandi:

Númer

Upphaflegur höfuðstóll

Vísitala skuldabréfs

Grunnvísitala útreiknings v. sameiningar

Uppfærður höfuðstóll m.v. vísitölu útreiknings v. sameiningar

T-101705

74.859 kr.

1977

3343

126.583 kr.

T-102658

66.900 kr.

1989

3343

112.442 kr.

T-109058

23.250 kr.

2051

3343

37.978 kr.

T-114022

19.831 kr.

2264

3343

29.282 kr.

T-114644

259.432 kr.

2312

3343

375.122 kr.

T-114854

14.252 kr.

2272

3343

20.970 kr.

T-126614

73.995 kr.

2433

3343

101.671 kr.

T-126900

104.000 kr.

2475

3343

140.474 kr.

 

Stefnda rekur að Guðmundur hafi beðið hana um að undirrita skjöl til þess að hann gæti fengið námslán frá stefnanda, en þau voru að hennar sögn í sambúð á árunum 1984 til 1990 og eignuðust barn saman árið 1985. Stefnda kveðst hafa undirritað þessi skjöl án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað það hefði í för með sér. Stefndu hafi fyrst orðið það ljóst að hún hafi undirritað skuldabréfin sem ábyrgðarmaður þegar hún hafi fengið innheimtuviðvörun vegna skuldbindinga Guðmundar í mars 2013. Stefnda kveðst fram að þeim tíma ekki hafa fengið upplýsingar um stöðu ábyrgða þeirra sem málið snýr að eða aðrar upplýsingar um lánveitingarnar eða endurheimtur þeirra.

Stefnandi gerði Guðmundi að endurgreiða 51.614 krónur vegna ofgreiðslu námsláns til hans vegna skuldabréfs nr. T-170989 á árinu 1990. Höfuðstóll þess skuldabréfs varð að sögn stefnanda við útreikning sameinaðs S-láns 397.568 krónur, í stað 449.182 króna. Upphaflegur höfuðstóll námsláns nr. S-941652 reiknist þá vera 2.048.669 krónur.

Guðmundur hóf nám að nýju í ágúst 1993 í Hollandi. Hann sótti um námslán hjá stefnanda vegna þessa nýja náms en á þeim tíma höfðu lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tekið gildi. Guðmundur ritaði undir skuldabréf nr. R-008156 vegna þess láns. Stefnandi veitti Guðmundi undanþágu frá árlegri endurgreiðslu þess S-láns sem ofan greinir á meðan hann var við nám í Hollandi og kveður stefnandi það hafa verið gert með heimild í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982, sbr. einnig 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Liggur fyrir að ella hefðu afborganir umrædds S-láns átt að hefjast 1. mars 1994. Námslok Guðmundar í Hollandi eru skráð hjá stefnanda 31. janúar 1995 og mun fjárhæð námslánsins þá hafa verið færð á skuldabréfið nr. R-008156, sbr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 210/1993.

Fyrsti gjalddagi umrædds S-láns eftir námslok Guðmundar í Hollandi var 1. mars 1996 og að sögn stefnanda innti stefndi þá afborgun af hendi. Stefnandi rekur að vegna fyrirmæla 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 hafi endurgreiðsla síðara námslánsins átt að hefjast 1. mars 1997. Á grundvelli 18. gr. sömu laga frestaði stefnandi innheimtu S-láns Guðmundar á meðan R-lánið var í innheimtu. Stefnandi kveður að R-lánið hafi farið í vanskil frá 1. mars 2009. R-lánið var ekki gjaldfellt af stefnanda heldur var Guðmundur ásamt ábyrgðarmanni krafinn um greiðslu hverrar afborgunar en síðasta reiknaða afborgun þess láns var 1. mars 2012. Að sögn stefnanda var innheimta R-lánsins árangurslaus. Stefnandi setti S-lán Guðmundar í innheimtu þegar allir gjalddagar R-lánsins höfðu verið reiknaðir. Fyrsti gjalddagi S-lánsins eftir þessa frestun innheimtu var 1. mars 2013 og féll lánið þegar í vanskil. Stefnandi gjaldfelldi lánið 11. apríl 2014. Eftirfarandi er sundurliðun á kröfu stefnanda:

Gjalddagi / Gjaldfelling

Upphæð

1. mars 2013

71.161 kr.

1. september 2013

1.081 kr.

1. mars 2014

73.138 kr.

11. apríl 2014

4.844.657 kr.

Alls séu þetta 4.990.037 krónur. Stefnandi telur að stefnda beri sjálfskuldarábyrgð á 44,84% skuldarinnar, eða 2.337.533 krónum.

II.

Stefnandi byggir á því að með áritun sinni um greiðsluloforð á T-lána skuldabréfin hafi Guðmundur R. Lúðvíksson skuldbundið sig til að greiða skuldina í samræmi við skilmála skuldabréfanna. Þá telur stefnandi að stefnda hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu framangreindra lána, í samræmi við skilmála þeirra og fyrirmæli laga nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki.

Stefnandi telur að hann jafnt sem stefndu séu bundin af fyrirmælum 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. einnig fyrirmæli 25. gr. reglugerðar nr. 210/1993 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og grein 7.6 í úthlutunarreglum stefnanda. Krafa stefnanda hafi ekki orðið gjaldkræf fyrr en R-lán Guðmundar hafi átt að vera að fullu greitt. Krafa stefnanda sé ófyrnd að lögum, sbr. 5. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Stefnandi fullyrðir að stefnda sé bundin af ábyrgðarloforði sínu, en ábyrgð hennar skyldi standa í 40 ár frá því innheimta kröfu stefnanda hófst þann 1. mars 1996. Greiðslufrestur sem veittur var á námslán sem stefnda var í ábyrgð fyrir hafi ekki aukið áhættu hennar umfram það sem hún hafi mátt búast við er hún gekkst í ábyrgð sína. Greiðslufrestur hafi fyrst verið veittur á S-láni Guðmundar í tvö ár samkvæmt heimild í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 vegna síðara náms hans. Greiðslufrestur á S-láni Guðmundar hafi síðar verið samkvæmt ófrávíkjanlegum fyrirmælum 18. gr. laga nr. 21/1992. Bæði stefnandi og stefnda séu bundin af lögum sem Alþingi setji og greiðsluskylda samkvæmt ábyrgðarloforðum sem krafa stefnanda byggi á standi óhögguð meðan 40 ára gildistími ábyrgðarloforðanna sé enn virkur.

Til vara byggir stefnandi á því að fjárhagsleg staða Guðmundar hafi í engu versnað frá því sem var þegar stefnda gekkst í ábyrgð fyrir námsláni hans. Guðmundur hafi þá verið eignalaus og hafi tekið námslán til framfærslu fjölskyldu sinnar. Stefndu hafi verið það ljóst. Guðmundur hafi fengið aukin námslán til framfærslu dóttur hans og stefndu. Greiðsluskylda stefndu standi óhögguð, enda hafi ábyrgðarloforð hennar staðið til allt að 40 ára.

Krafa um dráttarvexti byggir á því að stefndu beri að greiða dráttarvexti frá gjalddaga samkvæmt skilmálum skuldabréfsins og af gjaldfelldum eftirstöðvum höfuðstóls að liðnum 30 dögum frá því að stefndu var send tilkynning þar að lútandi. Stefnda hafi átt þess kost að koma námsláni Guðmundar í skil í kjölfar tilkynningar um gjaldfellingu hefði vilji hennar staðið til þess. Til vara byggir stefnandi á því að dráttarvextir reiknist að liðnum 30 dögum frá því stefnda vanefndi greiðsluloforð sitt með sjálfstæðum hætti.

Stefnandi rekur málið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr 91/1991, um meðferð einkamála með vísan til ákvæða allra T-skuldabréfanna. Stefnandi vísar til meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og til meginreglna kröfuréttar um ábyrgðarskuldbindingar og skyldur ábyrgðarmanna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 72/1982, einkum 1. gr., 6. gr. 7. gr. og 8. gr., og til laga nr. 21/1992, einkum II. kafla laganna og 18. gr. Þá vísar stefnandi til reglugerðar nr. 210/1993, aðallega 25. gr. Þá vísar stefnandi til fyrirmæla í úthlutunarreglum stefnanda fyrir námsárið 1993-1994 og síðar um endurgreiðslur eftir fleiri en einu námslánakerfi um forgang innheimtu R-lána gegn lánum samkvæmt lögum nr. 72/1982.  Krafa um vexti og dráttarvexti styðjist við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Um varnarþing vísast til ákvæða bréfsins sjálfs og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

III.

Stefnda byggir aðalkröfu sína á því að upprunalegir skilmálar T-skuldabréfanna gildi um þær skuldbindingar Guðmundar sem hún hafi gengist í ábyrgð fyrir. Stefnandi hafi ekki getað með einhliða aðgerð sameinað skuldbindingarnar í eitt lán, svo sem virðist gert ráð fyrir í stefnu. Ábyrgðarmenn, þar með talið stefnda, hafi ekki verið hafðir með í ráðum við þá aðgerð og hafi ekki undirritað nýja lánagjörninga. Aðeins geti því verið um að ræða innheimtuaðferð sem stefnandi, sem lánveitandi, kjósi að flokka sem „S-lán“. Með hliðsjón af því gildi upprunalegir skilmálar um T-lánin, meðal annars um innheimtu lánanna og gildi ábyrgða. Að öðru leyti ráðist réttarstaða lánanna af ákvæðum laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, eins og þau voru, þegar til ábyrgðanna var stofnað.

Samkvæmt skilmálum T-skuldabréfanna og ákvæðum laga nr. 72/1982 skyldi endurgreiðsla lána til Guðmundar hefjast þremur árum eftir námslok. Skuldabréfin skyldu þar að auki endurgreidd með tveimur nánar tilgreindum afborgunum á ári uns þau yrðu að fullu greidd. Stjórn LÍN væri að vísu heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar yrðu á högum lánþega á milli ára. Engan annan fyrirvara hafi verið að finna um frestun endurgreiðslna, hvorki í skilmálum T-skuldabréfanna né í lögum nr. 72/1982 og ekki sé byggt á því í stefnu að slíkar ástæður hafi valdið frestun innheimtu T-lánanna allt til ársins 2013. Miðað við námslok Guðmundar hafi fyrsti gjalddagi af T-lánunum, sameinuð undir innheimtu sem S-lán, myndast þann 1. mars 1996.

 

Stefnandi hafi frestað innheimtu S-lánsins á árunum 1996-2013 með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Hvað sem líði fyrirmælum þess ákvæðis geti ákvörðun stefnanda, um að setja R-lán í innheimtu framar T-lánum, ekki haft þau áhrif að ábyrgð stefndu framlengist sjálfkrafa. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 séu engin ákvæði þess efnis að ábyrgðir fyrir eldri skuldbindingum haldist í fullu gildi og óbreyttar þrátt fyrir fyrrgreinda frestun á endurgreiðslu þeirra. Engar vísbendingar sé heldur að finna um það í lögskýringargögnum að til þess hafi verið ætlast. Því séu fyrirmæli ákvæðisins óskuldbindandi fyrir ábyrgðarmenn, nema þá að fyrir hendi hafi legið samþykki þeirra fyrir framlengingu á ábyrgðum þeirra með frestun innheimtu eldri lána og samhliða forgangi á innheimtu yngri R-lána. Hafi það verið vilji löggjafans að ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 myndi skuldbinda ábyrgðarmenn eldri lána um ófyrirsjáanlega framtíð hefði verið nauðsynlegt að skilyrða ákvæðið við það að samþykki ábyrgðarmanna fengist fyrir frestun afborgana samkvæmt skilyrðum ákvæðisins. Ástæður þessa séu þær að ákvæðið feli í sér aukna áættu fyrir ábyrgðarmenn eldri lána. Í fyrsta lagi aukist áhætta þeirra vegna þess að ábyrgðartíminn hafi lengst. Í öðru lagi aukist áhætta þeirra við það að fjármunum lánþega sé fyrst varið til greiðslu á yngra láni.

Greiðslu frá lánþega verði ekki ráðstafað af hálfu kröfuhafa fyrst til greiðslu á yngra láni án samþykkis ábyrgðaraðila að eldra láni. Því brjóti fyrirmæli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 gegn þeirri grundvallarreglu fjármunaréttarins, að kröfuhafa beri að ráðstafa mótteknum greiðslum frá skuldara fyrst til greiðslu á elstu skuldinni. Slík ráðstöfun sé því háð samþykki ábyrgðarmanna eigi hún að hafa áhrif á áhættu þeirra. Löggjafinn hafi kosið að leiða í lög ákvæði um frestun eldri lána og breytta greiðsluröð án þess að víkja að samþykki ábyrgðarmanna og því hafi setning 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 ekki sjálfkrafa þau áhrif að efni ábyrgðarloforðs stefndu breytist eða áhætta hennar aukist. Hinir einhliða breyttu skilmálar um greiðslufrestun S-láns Guðmundar hafi því alfarið verið á áhættu og ábyrgð stefnanda.

Samþykki stefndu fyrir fyrrgreindum breytingum hafi verið nauðsynlegt í ljósi þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafa sé með öllu óheimilt að breyta lánaskilmálum skuldara í óhag án þess að afla fyrst samþykkis hans. Eðli máls samkvæmt nái sú regla jafnt til ábyrgðarmanna, enda feli ábyrgð í sér íþyngjandi skyldu.

Stefnda byggir einnig á því að lögum verði ekki beitt afturvirkt með íþyngjandi hætti. Yrði litið svo á að ábyrgð hennar héldist óbreytt á sama tíma myndi það hafa í för með sér íþyngjandi skyldu, sem fæli í sér ólögmætt inngrip í fjárhagsréttindi stefndu. Slíkt fái ekki staðist enda fæli það í sér brot gegn réttindum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994 og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Stefnda hafnar því að hún hafi mátt eiga von á greiðslufresti á T-lánunum, í innheimtuflokkinum S-lán, á meðan nýrri R-lán Guðmundar voru greidd upp. Þegar stefnda gekkst í ábyrgð hafi verið í gildi lög nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, sem ekki hafi innihaldið sams konar ákvæði og finna má í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Stefnda hafi auk þess aldrei mátt eiga von á því að lögum yrði beitt afturvirkt henni í óhag af hálfu stefnanda sem stjórnvalds og félagslegrar lánastofnunar. Aukinheldur hefði þurft að fara fram nýtt mat á greiðslufærni Guðmundar við svo íþyngjandi ráðstöfun gagnvart ábyrgðarmanni.

Stefnda byggir enn fremur á því að krafa stefnanda sé fyrnd og fallin niður fyrir áhrif tómlætis. Það ábyrgðartímabil sem vikið sé að í stefnu sé máli þessu óviðkomandi, enda hafi krafan verið tæk til innheimtu samkvæmt skilmálum skuldabréfanna þegar þann 1. mars 1996. Stefnandi hafi hins vegar kosið að innheimta heldur nýrri skuld samkvæmt R-láninu með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 uns það var uppgreitt árið 2013 og innheimta hófst að nýju á T-lánunum. Ábyrgð stefndu hafi fallið úr gildi á árinu 2000, sbr. 4. tl. 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Stefnda byggir jafnframt á því að stefnandi hafi ekki viðhaft eðlilega starfshætti opinbers lánveitanda er stofnað var til ábyrgðarinnar sem mál þetta varðar. Stefnandi hafi við þær aðstæður ekki gætt nægilega vel að greiðslugetu Guðmundar og vanrækt að upplýsa stefndu um lánshæfi hans sem og skyldur ábyrgðarmanna. Ákveðnar óskráðar starfsreglur gildi um lánveitendur á borð við stefnanda. Meðal þeirra sé sú skylda að skoða nægilega greiðslugetu lántakanda. Þá þurfi að tryggja að ábyrgðarmenn skilji örugglega hvaða skyldur þeir séu mögulega að taka sér á herðar og að þeir geti vitað hvort lántakandinn sé talinn borgunarmaður fyrir skuldinni. Sem dæmi megi nefna að ákveðnir viðskiptabankar og sparisjóðir hafi gert með sér samkomulag árin 1998 og 2001 sem hafi formfest starfsreglur af sama toga sem þeir hafi þó fylgt um árabil. Þessar reglur hafi síðar verið lögfestar með lögum nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn. Stefnda byggir á því að vægari reglur um veitingu lánsábyrgða geti ekki hafa gilt um opinbera lánveitendur eins og stefnanda, sem þar að auki gegni samfélagslegu hlutverki.

Stefnda byggir og á því að lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, hafi gilt um kröfu stefnanda á hendur henni frá gildistöku þeirra laga þann 2. apríl 2009. Lögin hafi lagt ákveðnar skyldur á herðar stefnanda sem hann hafi ekki axlað gagnvart stefndu. Þannig hafi stefnandi ekki sent stefndu eftir hver áramót upplýsingar um stöðu lánveitinga sem ábyrgð stefndu hafi staðið fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir, líkt og áskilið sé í d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Vanrækslan sé slík að hún teljist veruleg og skuli ábyrgðin því falla niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Við veitingu umræddrar ábyrgðar hafi stefnda verið í kringum tvítugt. Almennt verði að teljast ólíklegt að einstaklingar á því aldursbili hafi slíkt fjármálalæsi að þeir geri sér grein fyrir því hvaða ábyrgð þeir séu í raun að takast á hendur við undirritun sjálfskuldarábyrgða. Við veitingu ábyrgðarinnar hafi stefnda verið í sambúð með Guðmundi. Við upphaf sambúðar þeirra hafi stefnda aðeins verið 16 ára gömul en Guðmundur þrítugur. Það hafi hallað mjög á stefndu í sambandinu, meðal annars sökum þessa aldursmunar. Þar að auki hafi verið erfitt að treysta því að Guðmundur gæti tekið þátt í því að halda heimili sökum óreglu og óreiðu í fjármálum. Undirritun stefndu undir ábyrgðaryfirlýsingarnar hafi verið hluti af örþrifaráðum í því skyni að tryggja framfærslu dóttur þeirra Guðmundar. Forsendur fyrir veitingu ábyrgðarinnar hafi því ekki verið þær að tryggja skaðlausar endurgreiðslur af láninu fyrir opinberan lánasjóð á borð við stefnanda. Forsendur að baki því að stefnda tókst á hendur þá ábyrgð sem mál þetta varðar séu brostnar.

Þá vísar stefnda til þess að ábyrgðaryfirlýsingin sé sjálfstæður samningur að lögum og henni beri að víkja til hliðar í heild sinni á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnda byggir á því að af framangreindum ástæðum sé ósanngjarnt af hálfu stefnanda að bera fyrir sig ábyrgðina.

Varakrafa stefndu byggir á sömu málsástæðum og aðalkrafan. Því til viðbótar byggir stefnda á því að stefnanda hafi borið að færa endurgreiðslur Guðmundar á tímabilinu 1996-2013 til lækkunar á eldri lánveitingum, fyrst til þeirrar elstu og svo koll af kolli. Önnur niðurstaða sé ólögmæt með vísan til fyrri umfjöllunar um skyldur lánveitenda gagnvart ábyrgðaraðilum. Óheimilt sé að láta umræddar greiðslur lækka hverja T-skuldbindingu inni í svokölluðu S-láni hlutfallslega án þess að afla til þess fyrst samþykkis ábyrgðaraðila. Slíkt samþykki hafi stefnda ekki veitt. Stefnda hafi gengist í ábyrgð fyrir sjálfstæðum lánveitingum, þ.e. T-skuldabréfunum og ekki verði litið svo á að þau hafi sameinast með innheimtuaðferð LÍN.

Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hverjar raunverulegar eftirstöðvar kunni að vera af þeim lánum sem stefnda er skráð sem ábyrgðarmaður fyrir. Stefnandi búi yfir þeim upplýsingum sem þörf sé á til að reikna þær fjárhæðir út. Sönnunarbyrði fyrir því verði ekki varpað yfir á stefndu, enda hafi hún ekki aðgang að sömu gögnum og stefnandi. Þá sé upphafsdagsetning vaxtakröfu óljós. Upphafsdagsetningin sé 11. maí 2014 samkvæmt stefnu, en gjaldfelling skuldabréfsins hafi fyrst verið tilkynnt stefndu með bréfi þann 14. apríl 2014. Stefnandi geti í fyrsta lagi að liðnum 30 dögum frá þeirri dagsetningu krafist dráttarvaxta.

Stefnda vísar til stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 72. gr., og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 1. gr. 1. samningsviðauka. Þá er vísað til meginreglna fjármuna-, kröfu- og samningaréttar, sem og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Enn fremur er vísað til laga nr. 72/1982, laga nr. 21/1992, laga nr. 32/2009, eldri laga nr. 14/1905 og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan feli jafnframt í sér kröfu um virðisaukaskatt á grundvelli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV.

Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Guðmundur R. Lúðvíksson.

Stefnandi höfðar þetta mál til innheimtu á skuld vegna námslána sem Guðmundur tók á árunum 1988 til 1991. Stefnda gekkst undir ábyrgð á greiðslu átta T-skuldabréfa eins og fyrr er rakið. Öll skuldabréfin eru með samhljóða stöðluðum skilmálum. Þar er meðal annars tekið fram að endurgreiðsla skyldi hefjast þremur árum eftir námslok en stjórn stefnanda skyldi ákveða hvað teldist vera námslok í þessu sambandi. Endurgreiðslum skyldi ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hæfust og væru eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar. Endurgreiðslur skyldu standa yfir í fimm ár hið skemmsta. Þá segir að stjórn stefnanda sé ,,heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára“.

Á þessum tíma giltu um starfsemi stefnanda lög nr. 72/1982. Í 1. mgr. 8. gr. laganna voru ákvæði um árlega endurgreiðslu sem skyldi ákvarða í tvennu lagi, annars vegar fasta greiðslu sem skyldi innheimt á fyrri hluta árs og hins vegar viðbótargreiðslu sem skyldi innheimt á síðari hluta ársins og væri háð tekjum fyrra árs, eftir nánari fyrirmælum í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Ákvæði um endurgreiðslutíma og undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, sama efnis og fyrrgreind ákvæði skilmála skuldabréfanna, var að finna í 7. og 8. gr. laganna. Í 5. mgr. 8. gr. var meðal annars tekið fram að stjórn stefnanda væri heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu samkvæmt 2. mgr. ef tilteknar aðstæður, meðal annars nám, yllu verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Lög nr. 72/1982 voru leyst af hólmi með núgildandi lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í breytingatillögu meirihluta menntamálanefndar við frumvarp sem varð að lögum nr. 21/1992 var meðal annars lögð til sú breyting á 18. gr. frumvarpsins að væri skuldari samkvæmt lögunum jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin væru samkvæmt nýju lögunum, en greiðslur af eldri námsskuldum skyldu frestast þar til lán samkvæmt þeim lögum væru að fullu greidd. Í nefndaráliti meirihlutans var þessi tillaga ekki rökstudd. Breytingatillaga meirihluta menntamálanefndar var samþykkt og var frumvarpið svo breytt samþykkt sem lög nr. 21/1992. Ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 var einnig breytt með 11. gr. laga nr. 67/1997, en sú breyting varðar einungis endurgreiðsluhlutfall námslána. Með 6. gr. laga nr. 140/2004 var 18. gr. laga nr. 21/1992 breytt og nýrri málsgrein, 2. mgr. bætt við greinina, þar sem kveðið er á um að skuldi lánþegi námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skuli hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið og frestist greiðslur af eldri námsskuldum þá þar til R-lánið sé að fullu greitt. Hin nýja málsgrein kom inn í frumvarpið með breytingatillögu menntamálanefndar. Í áliti nefndarinnar kom fram að ætlunin með 6. gr. frumvarpsins væri að setja fram reglu sambærilega þeirri sem væri þá í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn lykju við að endurgreiða fyrst svokölluð R-lán áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum ætti að hefjast og væri því lagt til að 6. gr. frumvarpsins yrði breytt til samræmis við það.

Eins og fyrr greinir sameinaði stefnandi veitt T-námslán Guðmundar og gaf þeim nýtt sameiginlegt númer, S-941652. Samkvæmt lýsingu stefnanda á þessari aðgerð verður ekki annað séð en að hér sé um innheimtuaðferð að ræða sem hann telur sér og stefndu til hagræðis. Burtséð frá því hvort þessi aðferð fái stuðning í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 eða í reglugerð nr. 578/1982, eins og stefnandi byggir á, er ljóst að mati dómsins að hún megnar ekki að breyta ákvæðum í skuldabréfum vegna T-lána en stefnda gekkst í ábyrgð fyrir þeim skuldum og skilmálum þeirra skuldabréfa verður ekki breytt nema með samþykki ábyrgðarmannsins eða a.m.k. með einhverjum atbeina hans, enda ábyrgðarsamningurinn sjálfstæður samningur. Ekki verður betur séð en að óumdeilt sé að aldrei hafi verið leitað eftir slíku samþykki.

Í samræmi við ofangreind fyrirmæli 18. gr. frestaði stefnandi innheimtu S-lánsins á meðan R-lán Guðmundar var í innheimtu frá 1997 til 2012. Hvorki í 18. gr. laga nr. 21/1992, bæði fyrir og eftir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með 6. gr. laga nr. 140/2004, né þeim lögskýringargögnum sem áður eru rakin, er tekin afstaða til þess hvernig fari um ábyrgð ábyrgðarmanns að námsláni við slíka frestun og ekki sjáanlegt að um það atriði sé fjallað. Sú niðurstaða verður þannig ekki leidd af 18. gr. að ábyrgð stefnda á láninu frestist, án þess að sérstakt samþykki hans komi til, enda er þar ekki getið um skyldur ábyrgðarmanna eins og fyrr segir. Er þannig ekki fallist á, að stefnandi hafi í raun einhliða getað breytt skilmálum ábyrgðarsamningsins stefndu í óhag, þrátt fyrir lagafyrirmæli um það hvernig innheimtu lánsins skyldi háttað og skyldu stefnanda í þeim efnum.  Sú frestun á greiðslum á námslánum sem tekin voru samkvæmt lögum nr. 72/1982 sem lögfest var með 18. gr. laga nr. 21/1992, nú 2. mgr. sömu greinar, var ekki í samræmi við skilmála þeirra T-skuldabréfa sem Guðmundur gaf út og stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir, né 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982, enda var þar mælt fyrir um almenna frestun greiðslna allra lánþega sem féllu þar undir. Löggjafanum hefði verið í lófa lagið, hefði hann talið slíkt heimilt gagnvart ábyrgðarmönnum, að kveða afdráttarlaust á um þessi atriði við lögfestingu 18. gr., enda ábyrgðin þá orðin til muna meira íþyngjandi fyrir ábyrgðarmann en áður hafði verið.

Það athugist að með þeirri breytingu sem gerð var með 18. gr. laga nr. 21/1992, nú 2. mgr. 18. gr. sömu laga, var mælt fyrir um greiðsluröð námslána sem stefnandi veitir, þannig að stefnanda var gert að innheimta R-lán Guðmundar á undan S-láninu, þrátt fyrir að fyrrnefnda lánið hafi verið veitt síðar. Fyrir liggur að stefndi Guðmundur greiddi fyrstu afborgun af sameinaða S-láninu 1. mars 1996 og af R-láninu frá 1997 til 2008. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hversu háar afborganir Guðmundur hefði ella verið krafinn um af S-láninu á þessu tímabili. Að mati dómsins verður að ganga út frá því að Guðmundur hefði staðið í skilum með slíkar afborganir, en meta verður vafa þar um stefndu í hag. Hefði Guðmundur greitt umkrafðar afborganir S-lánsins á þessu tímabili hefði krafa stefnanda samkvæmt láninu lækkað og þar með sú krafa sem stefnda er í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Fallast verður á það með stefndu að með framangreindri lagasetningu hafi verið gripið inn í fjárhagsleg réttindi stefndu sem njóta verndar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og sem ekki verði skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf, sbr. dóm Hæstaréttar í málunum nr. 549/2002 og 242/2010. Þótt ekki sé dregið í efa að 2. mgr. 18. gr. hafi stjórnskipulegt gildi og hafi verið sett með réttum hætti verður ákvæðinu því ekki beitt gagnvart stefndu.

Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, fer um fyrningu á kröfu stefnanda eftir eldri lögum nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í skilmálum umræddra T-skuldabréfa er mælt fyrir um lögtaksheimild ef skuld samkvæmt bréfunum fellur í vanskil. Stefnanda var sömuleiðis með 3. mgr. 9. gr. laga nr. 72/1982 veittur lögtaksréttur fyrir vangoldnum endurgreiðslum af skuld og gjaldfelldum eftirstöðvum námslána. Í þeim skuldabréfum sem stefnda ritaði undir sem ábyrgðarmaður var svohljóðandi ákvæði: „Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.“ Samkvæmt 3. tl. 3. gr. síðarnefndu laganna fyrnist krafa stefnanda á hendur Guðmundi á fjórum árum, sbr. dóm Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 242/2010. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. fyrnist krafa stefnanda á hendur stefndu á fjórum árum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Fyrir liggur að fyrsta afborgun kröfunnar var á gjalddaga 1. mars 1996 og var greidd, en síðar frestaði stefnandi innheimtu kröfunnar samkvæmt 18. gr. laga nr. 21/1992 þar til hann hóf aftur innheimtu hennar. Fyrsti gjalddagi S-lánsins eftir þessa frestun innheimtu var 1. mars 2013 og féll lánið þegar í vanskil. Stefnandi gjaldfelldi hins vegar ekki lánið fyrr en 11. apríl 2014 og það reyndar þrátt fyrir að Guðmundur R. Lúðvíksson hafi hætt greiðslum 2009. Eins og fyrr segir er hvorki í 18. gr. laga nr. 21/1992, bæði fyrir og eftir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með 6. gr. laga nr. 140/2004, né fyrrgreindum lögskýringargögnum, tekin afstaða til þess hvernig fari um ábyrgð ábyrgðarmanns að námsláni við slíka frestun, þar á meðal hvaða áhrif frestunin hafi á upphaf fyrningarfrests gagnvart ábyrgðarmanni, og verður að skýra slíka óvissu stefndu í hag. Verður því að fallast á það með stefndu að miða beri upphaf fyrningarfrests við 1. mars 1996 og að stefnda hafi mátt vera í góðri trú um að skuldari stæði í skilum með greiðslur af láninu. Samkvæmt því er ljóst að krafa stefnanda á hendur henni féll niður fyrir fyrningu á árinu 2000 eða í síðasta lagi fjórum árum eftir að frestun afborgana á S láninu féll niður vegna seinna náms skuldara. Frestun byggðist í framhaldi á innheimtu á R-láninu sem hófst 1. mars 1997. Verður stefnda því sýknuð af kröfu stefnanda. 

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, Guðrún Axelsdóttir, er sýknuð af kröfum stefnanda, Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Stefnandi greiði stefndu 900.000 krónur í málskostnað.