Print

Mál nr. 385/2017

Lánasjóður íslenskra námsmanna (Kristján Þorbergsson lögmaður)
gegn
Mörtu Gunnlaugu Ragnarsdóttur (Ragnar Halldór Hall lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Ábyrgð
  • Afturvirkni laga
  • Fyrning
  • Frávísunarkröfu hafnað
Reifun

L höfðaði mál gegn M til heimtu skuldar samkvæmt níu skuldabréfum sem H gaf út á árunum 1986 til 1989 og M hafði gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Námslok H voru árið 1989 og við þau voru lánin sameinuð í eitt lán. Árið 1994 hóf H nám að nýju og gaf hún þá út skuldabréf til L sem M gekkst einnig í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Höfðu lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna þá leyst af hólmi eldri lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í lögum nr. 21/1992 var mælt svo fyrir um að stæði lántaki í skuld við L vegna námslána sem tekin hefðu verið eftir reglum þeirra laga og einnig í skuld vegna námslána sem tekin höfðu verið eftir reglum eldri laga nr. 72/1982 skyldi skuldin sem lyti ákvæðum laga nr. 21/1992 fyrst endurgreidd að fullu og greiðsla af eldri skuldinni frestast þar til það hefði verið gert. L kvaðst hafa hætt tilraunum til innheimtu á skuld samkvæmt skuldabréfinu frá 1994 og í framhaldi af því hefði skuld samkvæmt eldra skuldabréfinu verið tekin aftur til innheimtu á árinu 2012. Ekkert fékkst hins vegar greitt af skuldinni og höfðað L því á árinu 2013 mál til heimtu hennar á hendur H og M en því var vísað frá héraðsdómi. Höfðaði L síðan mál þetta á hendur M á árinu 2016. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrirmæli 18. gr. laga nr. 21/1992 tækju eingöngu mið af tilvikum þar sem skuld við L vegna námsláns eftir ákvæðum laga nr. 21/1992 fengist greidd að fullu en hvergi væri nokkuð sagt um afdrif eldri skuldar ef viðleitni til innheimtu þeirri yngri bæri ekki árangur og enn síður hvað þyrfti nánar að koma til svo að unnt væri að slá föstu að yngri skuldin fengist ekki greidd. Ófært væri að L gæti gagnvart ábyrgðarmanni á skuld sem stofnað var til í tíð laga nr. 72/1982 haft í þeirri aðstöðu sjálfdæmi um hvenær sá tími gæti talist vera kominn að hefja mætti innheimtu á henni vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld. Yrði því að leggja til grundvallar að L hefði borið að gera það þegar eftirstöðvar kröfu hans á hendur H samkvæmt skuldabréfinu frá 1994 voru allar gjaldfallnar vegna vanskila á greiðslu afborgunar á gjalddaga á árinu 2002. Þegar L höfðaði fyrrgreint mál á hendur M árið 2013 hefði löngu verið liðinn fjögra ára fyrningartími kröfu hans á hendur henni samkvæmt 3. tölulið 3. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Var M því sýknuð af kröfu L.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 4.013.038 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. ágúst 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 22. ágúst 2017. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sýknu hennar af kröfu aðaláfrýjanda en að því frágengnu að fjárhæð þeirrar kröfu verði lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins tók Hjördís Brynja Mörtudóttir námslán hjá aðaláfrýjanda á árunum 1986 til 1989 og gaf út vegna þeirra níu skuldabréf sem hvert um sig var auðkennt með bókstafnum T og mismunandi númerum eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Gagnáfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir endurgreiðslu lána samkvæmt skuldabréfunum öllum, en hún er móðir lántakanda. Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna sem gefin voru út á grundvelli þágildandi laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki var fjárhæð þeirra bundin lánskjaravísitölu en þau báru ekki vexti. Endurgreiðsla láns átti að hefjast þremur árum eftir námslok og fara fram með árlegum greiðslum sem ákveðnar yrðu í tvennu lagi, annars vegar sem föst greiðsla með tiltekinni fjárhæð sem skyldi innt af hendi 1. mars ár hvert og hins vegar sem svonefnd viðbótargreiðsla sem tæki á nánar tiltekinn hátt mið af útsvarsstofni lánþegans á næsta ári á undan, en standa átti skil á henni 1. september á hverju ári. Ljúka átti endurgreiðslu lánsins á 40 árum en dygðu ekki afborganir fyrir fullri greiðslu áttu eftirstöðvar skuldar að falla niður að þeim tíma liðnum. Í skuldabréfunum sagði að endurgreiðslur væru lögtakskræfar ef vanskil yrðu. Þá sagði enn fremur að stæði lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma væri lánið allt gjaldfallið án uppsagnar. Í samræmi við 3. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1982 ákvað aðaláfrýjandi að námslok Hjördísar hafi orðið vorið 1989 en við þau voru lánin sameinuð í eitt lán sem fékk númerið S-921293. Virðist fjárhæð lánsins hafa þannig numið 1.635.173 krónum að meðtöldum áföllnum verðbótum á fyrsta gjalddaga þess 1. mars 1992. Vanskil urðu á greiðslu þeirrar afborgunar og jafnframt þeirrar næstu 1. september sama ár en þær voru á hinn bóginn greiddar 12. nóvember 1993. Þá kveður aðaláfrýjandi Hjördísi hafa fengið hjá sér undanþágu frá afborgunum af láninu sem voru á gjalddaga á árunum 1993 og 1994 vegna veikinda hennar og bágrar stöðu, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982, og hafi því lánið talist vera í skilum eftir greiðslurnar í nóvember 1993.

Aðaláfrýjandi kveður Hjördísi hafa hafið nám að nýju á árinu 1994 og fengið af þeim sökum áfram undanþágu frá afborgunum eftir framangreindri heimild á meðan það nám stóð yfir. Á þeim tíma höfðu lög nr. 21/1992 leyst af hólmi áðurnefnd lög nr. 72/1982 og tók Hjördís í nýju námi sínu frekari lán hjá aðaláfrýjanda sem lutu ákvæðum nýju laganna. Gaf Hjördís út í því skyni skuldabréf til aðaláfrýjanda 8. október 1994 sem fékk auðkennið R-010842 og gekkst gagnáfrýjandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld samkvæmt því auk þess sem hún var umboðsmaður Hjördísar við lántöku í skjóli bréfsins. Fjárhæð skuldar samkvæmt skuldabréfinu var bundin lánskjaravísitölu og átti að bera breytilega vexti sem yrðu þó ekki hærri en 3% á ári. Endurgreiðslur áttu að fara fram með áþekkum hætti og lýst var í skuldabréfum fyrir eldri lánum Hjördísar og hefjast tveimur árum eftir námslok en miðað var þó við að lánið yrði endurgreitt að fullu og var ekki settur hámarkstími til þess. Í skuldabréfinu var mælt fyrir um heimild til að gera fjárnám fyrir kröfu samkvæmt því án undangengins dóms eða sáttar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, og sagði þar jafnframt að ef ekki yrði staðið í skilum með greiðslu afborgana væri lánið gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar. Aðaláfrýjandi kveður Hjördísi hafa lokið þessu nýja námi á árinu 1996 og hafi þá heildarfjárhæð lána til hennar í því námi, 2.096.488 krónur, verið fært inn á skuldabréf R-010842. Því til samræmis hafi fyrsti gjalddagi afborgunar af því skuldabréfi átt að verða 1. mars 1999 en afborganir af eldra láninu S-921293 að hefjast á ný 1. mars 1997. Hún hafi á hinn bóginn sótt um að verða undanþegin afborgunum af síðastnefnda láninu af heilsufarsástæðum á árunum 1997 og 1998 og hafi aðaláfrýjandi orðið við því.

Í lögum nr. 21/1992 sem tóku samkvæmt framansögðu til skuldabréfs Hjördísar frá 8. október 1994 var mælt svo fyrir í 18. gr. að væri skuldari samkvæmt þeim lögum jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin hefðu verið eftir lögum nr. 21/1992 en greiðslur af eldri námsskuldum skyldu frestast þar til þau lán væru að fullu greidd. Þessu til samræmis kveðst aðaláfrýjandi hafa krafið Hjördísi um afborganir eingöngu af skuldabréfi R-010842 frá og með gjalddaga 1. mars 1999 en engra afborgana krafist af skuldabréfi S-921293 eftir að hann hafi fallist á umsókn hennar um að verða undanþegin þeim 1997 og 1998. Óumdeilt er að gagnáfrýjanda var ekki kynnt þetta sem ábyrgðarmanni á skuld samkvæmt skuldabréfi S-921293. Eftir gögnum málsins greiddi Hjördís afborganir af skuldabréfi R-010842 á árunum 1999, 2000 og 2001 en upp frá því virðist það skuldabréf hafa verið í vanskilum. Með beiðni 22. nóvember 2004 leitaði aðaláfrýjandi eftir fjárnámi hjá bæði Hjördísi og gagnáfrýjanda fyrir skuld samkvæmt skuldabréfi R-010842 sem hann kvað þá vera að höfuðstól 2.691.589 krónur. Fjárnám var gert á þessum grunni í fasteign gagnáfrýjanda 15. desember 2004 en aðaláfrýjandi fylgdi því ekki frekar eftir með kröfu um nauðungarsölu á eigninni. Þá var fjárnám gert eftir þessari beiðni hjá Hjördísi 9. janúar 2006 og lauk því án árangurs en aðaláfrýjandi segir hana hafa í nokkur skipti innt af hendi greiðslur inn á skuld sína, síðast í apríl 2007. Aðaláfrýjandi kveðst hafa hætt tilraunum til innheimtu á skuld samkvæmt skuldabréfi R-010842 og sett hana „á svokallaða kröfuvakt“. Í framhaldi af því hafi skuld samkvæmt skuldabréfi S-921293 verið tekin aftur til innheimtu og krafa verið gerð um greiðslu á gjalddaga 1. mars 2012. Ekkert hafi fengist greitt af skuldinni og höfðaði aðaláfrýjandi því mál til heimtu hennar á hendur Hjördísi og gagnáfrýjanda 12. ágúst og 11. september 2013. Því máli var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 22. október 2015 í máli nr. 153/2015. Höfðaði aðaláfrýjandi þá mál þetta gegn gagnáfrýjanda um sömu kröfu 15. apríl 2016.

II

Fyrir héraðsdómi gerði gagnáfrýjandi þá kröfu að máli þessu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 17. nóvember 2016. Gagnáfrýjandi leitar nú endurskoðunar þeirrar niðurstöðu með aðalkröfu sinni hér fyrir dómi. Fallist er á það með aðaláfrýjanda að hann hafi nægilega bætt úr þeirri vanreifun sem varð til þess að fyrra máli hans var vísað frá héraðsdómi. Ekki verður litið svo á að aðaláfrýjandi sé hér bundinn af þeim grundvelli sem hann lagði að fyrra máli sínu og geti ekki af þeim sökum haft nú uppi frekari málsástæður en hann gerði þar. Er þá til þess að líta að í fyrra málinu fékkst ekki efnisleg úrlausn um kröfur aðaláfrýjanda og hefur því dómur Hæstaréttar 2. apríl 2004 í máli nr. 100/2004 ekki fordæmisgildi hér. Er því hafnað kröfu gagnáfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

 

III

Við úrlausn málsins verður að gæta að því að réttarsamband aðilanna sem mál þetta varðar myndaðist með því að gagnáfrýjandi gekkst með áritun á níu skuldabréf sem Hjördís Brynja Mörtudóttir gaf út í tímabilinu frá 24. febrúar 1986 til 17. apríl 1989 undir sjálfskuldarábyrgð gagnvart aðaláfrýjanda á kröfum hans á hendur Hjördísi um endurgreiðslu námslána samkvæmt þeim skuldabréfum. Réttarsamband þetta réðist af ákvæðum skuldabréfanna og hafði tekið á sig fullnaðarmynd þegar þau höfðu verið gefin út. Gat gagnáfrýjandi þannig gengið út frá því að ábyrgð hennar tæki til greiðslu afborgana sem eftir nánari fyrirmælum í skuldabréfunum yrðu reiknaðar út tvívegis á ári á tímabili sem hæfist þremur árum eftir að Hjördís lyki námi og staðið gæti síðan að hámarki í 40 ár, að gættu því að endurgreiðslum gæti lokið á skemmri tíma, vanskil á greiðslu afborgunar hefðu sjálfkrafa í för með sér að allar eftirstöðvar skuldarinnar féllu í gjalddaga og aðaláfrýjandi gæti orðið við umsókn Hjördísar um að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu af sérstökum ástæðum sem greindi í 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982. Með áðurnefndri 18. gr. laga nr. 21/1992 sem tók gildi 29. maí 1992 greip á hinn bóginn löggjafinn til íhlutunar í þetta réttarsamband með því að færa aftur um óákveðinn tíma upphafsmark tímabils endurgreiðslna aðalskuldarans af skuldabréfunum. Eftir meginreglum kröfuréttar getur krafa á hendur ábyrgðarmanni ekki orðið gjaldkræf fyrr en aðalskuldari lætur hjá líða að standa skil á greiðslu afborgunar á gjalddaga hennar og hafði þannig lagaákvæði þetta sjálfkrafa þau áhrif að einnig var því slegið á frest að krafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda gæti orðið gjaldkræf. Með því að þessar gerðir löggjafans sem handhafa ríkisvalds lutu að réttarsambandi einstaklings við aðaláfrýjanda, sem heyrir undir framkvæmdarvald ríkisins og er borinn uppi af fé þess, verður að skýra og beita ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 á þann hátt sem gagnáfrýjanda getur talist hagfelldastur, þar á meðal með tilliti til fyrningar kröfu aðaláfrýjanda á hendur henni.

Í 18. gr. laga nr. 21/1992, sbr. nú 2. mgr. sömu lagagreinar eftir að henni var breytt með 6. gr. laga nr. 140/2004, var sem áður segir mælt fyrir um að stæði lántaki í skuld við aðaláfrýjanda vegna námslána sem tekin voru eftir reglum þeirra laga og einnig í skuld vegna námslána sem tekin höfðu verið eftir reglum eldri laga nr. 72/1982 skyldi skuldin sem laut ákvæðum laga nr. 21/1992 fyrst endurgreidd að fullu og greiðslur af eldri skuldinni frestast þar til það hefði verið gert. Þessi fyrirmæli tóku þannig eingöngu mið af tilvikum þar sem skuld við aðaláfrýjanda vegna námsláns eftir ákvæðum laga nr. 21/1992 fengist greidd að fullu, en hvergi var nokkuð sagt um afdrif eldri skuldar ef viðleitni til innheimtu á þeirri yngri bæri ekki árangur og enn síður hvað þyrfti nánar að koma til svo að unnt væri að slá föstu að yngri skuldin fengist ekki greidd. Ófært er að aðaláfrýjandi geti gagnvart ábyrgðarmanni á skuld sem stofnað var til í tíð laga nr. 72/1982 haft í þeirri aðstöðu sjálfdæmi um hvenær sá tími geti talist vera kominn að hefja megi innheimtu á henni vegna árangurslausrar innheimtu á yngri skuld. Verður því að gættu öllu framangreindu að leggja til grundvallar að það hefði aðaláfrýjanda borið að gera þegar eftirstöðvar kröfu hans á hendur Hjördísi samkvæmt skuldabréfi R-010842 voru allar gjaldfallnar eftir hljóðan bréfsins vegna vanskila á greiðslu afborgunar á gjalddaga 1. mars 2002. Þegar aðaláfrýjandi höfðaði fyrrnefnt mál gegn gagnáfrýjanda á árinu 2013 var löngu liðinn fjögurra ára fyrningartími kröfu hans á hendur henni samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér á við samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði gagnáfrýjanda, Mörtu Gunnlaugu Ragnarsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2017.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 6. mars 2017, er höfðað af Lánasjóði íslenskra náms­manna, kt. 710169-0989, Borgartúni 21, Reykjavík, með stefnu birtri 15. apríl 2016 á hendur Mörtu Gunn­laugu Ragnarsdóttur, kt. [...], Fagra­hjalla 30, Kópavogi.

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða honum 4.013.038 kr. ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 17. ágúst 2013 til greiðsludags.

                Stefnandi krefst einnig málskostnaðar að skað­lausu úr hendi stefndu, að við­bættum 24% virðisaukaskatti.

                Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.

                Til vara krefst hún þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar veru­lega.

                Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu til­liti til virðisaukaskatts á lögmannsþóknun.

Málsatvik

                Krafa stefnanda á hendur stefndu Mörtu Gunnlaugu Ragn­ars­dóttur byggist á náms­lánum sem dóttir hennar, Hjör­dís Brynja Mörtudóttir, tók hjá stefn­anda en stefnda tók á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þeirra. Lántakinn stofnaði til skuldar­innar á árabilinu 1986-1989 með því að gefa út níu skulda­bréf sem báru eftirtalin númer og námu hvert um sig þeirri fjárhæð sem við númerið er greind: T-57325: 143.200 kr., T-63046: 64.126 kr., T-93938: 65.537 kr., T-96800: 46.024 kr., T-96799: 11.200 kr., T-98964: 114.503 kr., T-103497: 71.547 kr., T-114796: 292.917 kr. og T-126228: 195.400 kr. Stefnda Marta tók á sig sjálf­skuld­ar­ábyrgð fyrir greiðslu allra bréf­anna.

                Að námi lántaka loknu voru þessi námslán sam­einuð og þeim gefið nýtt sam­eig­in­legt númer, S-921293. T-skulda­bréfin voru þannig inn­heimt öll í einu undir einu sam­eig­in­legu lánsnúmeri. Að sögn stefnanda var það til hagræðis bæði fyrir hann og aðal­skuld­ara láns­ins, lán­tak­ann.

                Um þessi námslán Hjördísar giltu fyrirmæli laga nr. 72/1982, um náms­lán og náms­styrki. Helstu efnisatriði laganna um end­ur­greiðslu lána samkvæmt þeim lögum eru tekin upp í skilmála skulda­bréfanna auk þess sem áréttað er í loka­máls­lið skilmál­anna að um skuldabréfið gildi ákvæði II. kafla laga nr. 72/1982.

                Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna skyldi fyrsta afborgun námsláns vera þremur árum eftir námslok. Sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. þeirra skyldi náms­maður greiða tvær afborg­anir af náms­lán­inu á ári.

                Lántaki afhenti stefnanda ekki staðfestingu á til­skildum náms­árangri á vor­önn 1989 vegna veikinda. Að sögn stefnanda ákvað stjórn hans að falla frá sér­stakri inn­heimtu vegna ofgreiðslu námslána á því námsári, eins og fram lögð gögn sýni. Skulda­bréf vegna vor­annar 1989 hafi því verið innheimt sem hluti S-láns Hjör­dísar.

                Stefnandi vísar til þess að námslok miðist almennt við síðustu fyrirgreiðslu stefn­anda (útborgun láns) til lán­taka. Í tilviki Hjördísar var það árið 1989 og var fyrsta afborgun náms­láns hennar reiknuð og krafin 1. mars 1992. Sú afborgun var í van­skilum þegar seinni afborgun árs­ins 1992 féll í gjalddaga 1. september 1992. Lánið var þá sent í innheimtu til Lög­manns­stofu Arnmundar Backman hrl. Í öllum skulda­bréf­unum níu var sam­hljóða skil­máli þess efnis að lánið félli sjálfkrafa í gjalddaga án upp­sagnar stæði lán­taki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma.

                Þótt báðar afborganir ársins 1992 hafi fallið í gjalddaga og þrátt fyrir heimild til gjaldfellingar í skilmálum skuldabréfsins gjaldfelldi stefnandi ekki lánið og hóf ekki inn­heimtu­aðgerðir á hendur stefndu á þessum tíma.

                Hjördís hugði á frek­ara nám haustið 1993. Skil­yrði þess að stefnandi gæti veitt lán­þega með eldri námslán ný náms­lán var að eldri námslán væru í skilum. Gjald­fallnar afborganir voru því greiddar stefnanda 12. nóv­em­ber 1993.

                Stefnandi áréttar að þegar á þessum tíma hafi það verið rótgróin stjórn­sýslu­venja hjá honum að heimila lán­þegum að koma námslánum sínum í skil og halda áfram að greiða af námsláni í sam­ræmi við lögbundin greiðslukjör, þótt lán hafi gjald­fallið hvort sem er vegna sjálf­krafa gjald­fellingar eða á grundvelli sérstakrar til­kynn­ingar stefnanda til lántakans.

                Hjördís greind­ist með alvarlegan sjúk­dóm á árinu 1992.

                Reiknuð var út afborgun af námsláni hennar á báðum gjalddögum ársins 1993 (gjald­dagi var myndaður) og fékk hún greiðslu afborgananna fellda niður.

                Ný lög um námslán, nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, tóku gildi 29. maí 1992.

                Hjördís hóf nám að nýju árið 1994. Af þeim sökum frestuðust afborganir af náms­láni hennar (S-láni) í samræmi við heimild 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982, um náms­lán og náms­styrki.

                Til þess að kosta hið nýja nám tók Hjördís lán hjá stefnanda og giltu um það lán nýju lögin nr. 21/1992. Stefnda Marta tók einnig á sig sjálf­skuld­ar­ábyrgð á greiðslu þessa láns Hjördísar, sem fékk lánsnúmerið R-010842. Stefnda Marta var einnig til­greind sem umboðsmaður Hjördísar í láns­umsókninni.

                Í 18. gr. laga nr. 21/1992, sem giltu um R-lán Hjördísar, var mælt fyrir um að inn­heimta R-lána hefði for­gang framar inn­heimtu eldri námslána. Ákvæðið hljóðaði svo þegar stefnda Marta sótti um nýtt náms­lán fyrir hönd dóttur sinnar og gekkst á ný í sjálf­skuldar­ábyrgð fyrir hana:

Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán sam­kvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Greiðslur af eldri náms­skuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

                Í úthlutunarreglum stefnanda vegna námsársins 1993-1994 var í kafla 7.5 mælt fyrir um end­ur­greiðslu þegar greitt er af lánum eftir fleiri kerfum. Þar segir að þeir sem taki lán sam­kvæmt lögum nr. 21/1992 (R-lán) greiði fyrst afborganir og vexti af þeim lánum, en skuldi þeir eldri lán frestist afborganir þeirra þar til fyrrgreind R-lán eru að fullu greidd. Samhljóða ákvæði er í grein 7.6 í úthlutunarreglum náms­ár­anna 1994-1995 og 1995-1996.

                Þar eð Hjördís hafði fengið frest til að greiða af S-láni sínu vegna frek­ara náms bar henni að hefja endurgreiðslu þess láns að nýju eftir lok síðara náms sem stjórn stefn­anda ákvarð­aði að væru árið 1996. Af þessum sökum var reiknuð út afborgun af S-láni hennar fyrir gjalddagann 1. mars 1997. Hjördís óskaði eftir frestun þeirrar afborg­unar með bréfi dags. 14. júlí 1997. Stefnandi óskaði eftir við­bót­ar­upp­lýs­ingum með svar­bréfi viku síðar. Þau gögn bárust 13. ágúst 1997 og var afborg­unum frestað af S-láninu vegna ársins 1997.

                Þá var reiknuð út afborgun af S-láni Hjördísar á gjalddaga 1. mars 1998. Í kjöl­farið óskaði hún eftir fresti á endurgreiðslum vegna ársins 1998 og var einnig fall­ist á þá beiðni hennar enda uppfyllti hún skilyrði laga fyrir frestun afborg­ana. Stefnandi vísar til þess að honum hafi, meðal annars á grundvelli jafnræðisreglu stjórn­sýslu­réttar, borið að veita henni umbeð­inn greiðslufrest. Heimildir stjórnar hans til þess að veita frest á afborg­unum séu lög­bundnar og veiti stjórninni ekki svigrúm til mats­kenndra ákvarð­ana.

                Endurgreiðslur R-lánsins hófust 1. mars 1999, vegna fyrirmæla 18. gr. laga nr. 21/1992 um forgang þess gagnvart S-láni. Það var í samræmi við fyrir­mæli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 og skilmála R-lána skuldabréfsins. R-lánið var í skilum til 1. mars 2002 er það féll í gjalddaga. Í kjölfar vanskila fór lánið í inn­heimtu hjá Mandat lög­manns­stofu sem sendi Hjördísi og stefndu inn­heimtu­bréf vegna van­skil­anna. Garðar Björg­vinsson fjármálaráðgjafi hafði áður haft sam­band við stefn­anda haustið 2002 vegna alvarlegra fjárhagsörðugleika Hjördísar á þeim tíma.

                Þegar þrír gjalddagar R-lánsins voru komnir í vanskil, 16. júní 2003, voru greiddar 15.000 kr. inn á kröfuna. Fjárnámsbeiðni á hendur Hjördísi og stefndu Mörtu var send sýslu­manni 22. nóvember 2004. Fjárnám var gert í fasteign stefndu Mörtu að Miklu­braut 5 í Reykjavík en Hjördís sinnti ekki boðun til fjárnáms. Í janúar 2005 fékk Hjör­dís heimild stefnanda til að koma láninu í skil gegn því að greiða inn­heimtu­kostnað. Jafnframt var stefndu Mörtu lofað að því fjárnámi sem gert hafði verið í fast­eign hennar yrði ekki þinglýst á meðan látið yrði reyna á það hvort Hjördís gæti efnt skil­yrði um greiðslu innheimtukostnaðar og skuldbreytt náms­láninu í sam­ræmi við sam­þykki stefnanda. Í athugasemdum í innheimtukerfi Mandat kemur fram að faðir Hjör­dísar hafi hringt í desember 2005 og sagt hana ekk­ert geta greitt vegna veik­inda. Það var gert í kjölfar þess að Hjördís var boðuð í fjár­nám en árang­urs­laust fjár­nám var gert hjá henni 9. janúar 2006.

                Í byrjun febrúar 2006 hafði Hjördís samband við Mandat lögmannsstofu og ítrek­aði vilja sinn til að ganga frá skuldbreytingu lánsins. Hún greiddi 60.000 kr. inn á máls­kostnað 10. febrúar 2006, 10.000 kr. í mars 2006 og 10.000 kr. í apríl 2007. Hún greiddi ekki frekar inn á kröfuna og 25. september 2007 var fjárnámi stefn­anda í fast­eign stefndu Mörtu frá 15. desember 2004 þinglýst.

                Að sögn stefnanda hafði hann, þegar á þessum tíma, um langt árabil fylgt því verk­lagi við innheimtu á hendur ábyrgðar­mönnum að krefjast ekki nauðungarsölu fast­eignar þar sem ábyrgðarmaður hélt heim­ili sitt. Í samræmi við þá stjórn­sýslu­fram­kvæmd var ekki krafist nauð­ungar­sölu á fast­eign stefndu. Réttaráhrif þinglýsingar fjár­náms­ins féllu niður 25. september 2012 þegar fimm ár voru liðin frá þinglýsingu þess. Á þessum tíma hafi Mandat lög­manns­stofa sent stefndu fjölmargar áminningar og ítrek­anir.

                Stefnandi hóf innheimtu S-lánsins, sem hafði verið í bið á meðan lántakinn, dóttir stefndu, var í námi frá hausti 1994-1996 og á meðan reynt var að innheimta R-lánið sem hún tók á þeim tíma. Fyrsti gjalddagi S-lánsins, eftir að innheimta þess var hafin á ný, var 1. mars 2012. Stefndu var tilkynnt um gjaldfellingu skuldarinnar 17. júlí 2013.

                Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu og lántakanum, dóttur hennar, með stefnu birtri stefndu 12. ágúst 2013. Í stefnunni var þess einungis getið að lántakinn hafi stofnað til skuldar við stefnanda með því að gefa út níu T-skuldabréf, hvert að til­greindri fjárhæð, tryggð með sjálf­skuldar­ábyrgð stefndu. Þau hafi verið sameinuð í S-lán sem hafi verið í van­skilum frá gjalddaga 1. mars 2012. Vegna vanskilanna hafi skuldin öll verið gjaldfelld 16. júlí 2013 sam­kvæmt heimild í skuldabréfunum.

                Hæstiréttur vísaði kröfum stefnanda frá héraðsdómi með dómi 22. október 2015. Þetta mál var, eins og áður segir, höfðað á hendur stefndu einni, með stefnu birtri 15. apríl 2016.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar til þess að samkvæmt fyrirmælum 18. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, skuli skuldari fyrst „endur­greiða að fullu“ lán sam­kvæmt þeim lögum (R-lán) áður en greiðsla geti hafist af lánum samkvæmt lögum um náms­lán og náms­styrki, nr. 72/1982, eða eldri lögum sem giltu um sjóðinn. Á þessari reglu sé hnykkt í lokamálslið 18. gr. þar sem segi: „Greiðslur af eldri náms­skuldum frest­ast þar til lán samkvæmt lögum þessum eru að fullu greidd.“ Þetta orða­lag orki engan veginn tvímælis þegar R-lán greiðist að fullu, sem meiri­hluti R-lána geri.

                Þegar R-lán greiðist ekki, heldur verði vanskil á því, sé það sett á svokallaða kröfu­vakt. Í henni felist að eig­in­legri inn­heimtu námslánsins sé hætt tíma­bundið og lánið annaðhvort afskrifað eða fyrn­ingu þess slitið á ný í kjölfarið. Þegar svo standi á að van­skil verði á láni sem notið hafi forgangs við endurgreiðslu (t.d. R-lán) sé það rót­gróin stjórn­sýslu­fram­kvæmd hjá stefnanda að hefja inn­heimtu biðláns, í þessu til­viki S-láns.

                Þegar dóttir stefndu hafi hafið nám að nýju árið 1994 og tekið til þess lán hjá stefn­anda hafi stefnda Marta verið tilgreind sem umboðsmaður lántaka á umsókninni. Hún hafi jafn­framt ritað undir lánið sem ábyrgðarmaður. Henni hafi verið ljóst, eða mátt vera ljóst, þegar hún gekkst í ábyrgð fyrir R-láni Hjördísar að vanskil hefðu verið á S-láni hennar (skv. T-skulda­bréfum sem Marta hafði ábyrgst) frá árinu 1992 og það farið í lögfræðiinnheimtu svo og að láninu var komið í skil haustið 1993 í kjölfar van­skila. Einnig hafi henni ekki getað dulist að eftir­stöðvar S-láns­ins sem hún ábyrgðist voru þá ógreiddar og að inn­heimtu þess láns yrði frestað uns R-lánið yrði að fullu greitt. Henni hafi ekki heldur getað dulist að ekki yrði greitt af námslánum sem hún hafði þegar ábyrgst meðan aðal­skuld­ari, dóttir hennar, stundaði frekara listnám og sá sér far­borða með lánum frá stefn­anda.

                Í áðurnefndri 18. gr. laga nr. 21/1992 sé ekki kveðið skýrt á um það hve­nær beri að inn­heimta lán í bið (hér S-lán) þegar vanskil hafi orðið á R-láni sem hafi notið for­gangs. Sú stjórn­sýslu­fram­kvæmd, sem stefnandi hafi fylgt frá síðasta áratug síð­ast­lið­innar aldar, taki tillit til hags­muna skuldara og mótist af því markmiði að skuld­ari náms­lána geti ávallt, kjósi hann það, komið námslánaskuld sinni í skil. Þess vegna hafi stefn­andi dregið að hefja inn­heimtu biðlána uns lög­fræði­inn­heimta for­gangs­láns­ins telj­ist full­reynd að mati þeirra lög­manna stefnanda sem annast inn­heimt­una.

                Ekki sé hægt að túlka þessa framkvæmd þannig að geðþótti stefn­anda ráði því hve­nær fyrningarfrestur biðláns hefjist. Stefnandi bendir á að fyrir liggi hlut­lægt mat lög­manna hans á því hvenær innheimta forgangslánsins sé full­reynd. Einnig verði að líta til þess að stefnandi hafi að eigin frumkvæði tekið upp það verk­lag, ábyrgð­ar­mönnum til hags­bóta, að krefjast ekki nauðungarsölu á heim­ili ábyrgð­ar­manns. Stefnda hafi notið góðs af þessari almennu ívilnandi stjórn­sýslu­fram­kvæmd stefn­anda og ekki verði séð að hún hafi verið verr sett en ella vegna hennar. Þeirri framkvæmd stefn­anda, að hefja inn­heimtu bið­láns eftir að for­gangslán í van­skilum hefur verið sett á kröfuvakt, hafi verið fylgt allt frá því inn­heimta eldri náms­lána í bið vegna R-lána hófst í kjölfar gildistöku 18. gr. laga nr. 21/1992.

                Stefnandi byggir á því að hefði aðalskuldari, Hjördís, greitt af R-láni sínu sam­kvæmt skil­málum þess og að teknu tilliti til reiknaðra afborgana á greiðslutíma væri aðal­skuld­ari enn að greiða af R-láni sínu og S-lán (T-skuldabréf), sem stefnda ábyrgð­ist einnig, væri enn í bið.

                Sá dráttur sem hafi orðið á innheimtu S-lánsins (T-skuldabréfanna) sé ekki meiri en stefnda hafi mátt búast við þegar hún ábyrgðist R-lán dóttur sinnar á árinu 1994 og gekkst þá undir þau fyrirmæli 18. gr. laga nr. 21/1992 að innheimtu S-lánsins (T-skulda­bréfanna) yrði frestað. Ábyrgð stefndu á ein­staka T-skulda­bréfum gildi í fjöru­tíu ár frá því end­ur­greiðslur láns­ins hófust, en ábyrgð stefndu á R-láni Hjördísar sé ótíma­bundin eða jafn­löng líftíma láns­ins. Því verði ekki séð að fram­kvæmd stefn­anda við inn­heimt­una hafi á nokk­urn hátt verið meira íþyngjandi fyrir stefndu en hún mátti búast við þegar hún gekkst ítrekað í ábyrgð fyrir náms­lána­skuldbindingum dóttur sinnar. Þá hafi ekki lagst á stefndu meiri áhætta en geti almennt falist í því að ábyrgj­ast greiðslu svo hárra fjárhæða til svo langs tíma.

                Fyrningarfrestur skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 hefjist þegar krafa verði gjald­kræf. Það sé þegar afborgun af námsláni sé reiknuð út og hennar krafist á lög­boðnum gjalddaga (gjalddagi sé myndaður á námslán). Í tilviki Hjördísar hafi það verið 1. mars 2012 í kjölfar þess að R-lán hennar var sett á kröfuvakt. Vegna veru­legra van­skila allt frá þessum gjald­daga hafi skuldin öll verið gjaldfelld 16. júlí 2013 og stefndu til­kynnt um það með bréfi dags. 17. júlí 2013.

                Stefnandi sundurliðar fjárkröfu sína, alls 4.013.038 kr., svona:

Gjalddagi

Upphæð

01.03.2012

01.09.2012

01.03.2013

17.08.2013

67.502 kr.

64.328 kr.

70.551 kr.

3.810.657 kr.

                Þessi skuld hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé stefn­anda nauðsynlegt að fá dóm fyrir kröfunni. Málið sé rekið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 samkvæmt ákvæðum T-skuldabréfanna. Þrátt fyrir það heimili stefnandi stefndu að koma að þeim vörnum eða þeirri sönn­un­ar­færslu sem hún kjósi að bera fyrir sig í málinu.

                Stefnandi byggir auk framangreinds á því að Marta hafi með áritun sinni á öll T-skuldabréfin tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar dóttur sinnar sam­kvæmt bréfunum í samræmi við skilmála þeirra og fyrir­mæli laga nr. 72/1982.

                Stefnandi byggir einnig á því að stefnda Marta hafi fyrir sitt leyti sam­þykkt frestun inn­heimtu S-láns­ins með því að ábyrgjast R-lán Hjör­dísar árið 1994. Loks er á því byggt að seinkun inn­heimtu S-láns­ins hafi í engu skert mögu­leika stefndu á inn­heimtu endur­kröfu á hendur aðal­skuld­ara náms­láns­ins frá því sem var þegar hún sam­þykkti í verki frestun inn­heimtu S-láns­ins vegna frek­ara náms dóttur sinnar. Sú bið sem varð á inn­heimtu S-láns­ins í kjöl­far van­skila R-lánsins hafi verið stefndu frekar til hags­bóta og ekki aukið áhættu hennar af ábyrgð­ar­skuld­bind­ing­unni umfram það sem hún mátti búast við þegar hún ábyrgðist skil­vísa og skað­lausa greiðslu námslána Hjör­dísar. Stefndu hafi verið kunn­ugt um veik­indi Hjör­dísar þegar hún tók á sig ábyrgð á R-lánum hennar á árinu 1994 og fyrir liggi að þegar árið 2002 hafi stefnda Hjördís átt í miklum fjár­hags­legum örðug­leikum.

                Afborganir og greiðslubyrði lána stefnanda taki að mestu mið af aflahæfi greið­anda ólíkt til að mynda svokölluðum neytendalánum. Námslán njóti algerrar sér­stöðu á lána­markaði því engin önnur lán hafi afborganir sem miðast að mestu við afla­hæfi skuldara. Einnig veiti lög heimildir til að fresta afborgunum vegna sérstakra aðstæðna skuldara, hvort sem er vegna frekara náms, eða persónulegra áfalla svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis. Þótt stefnandi hafi frestað því að reikna afborganir á gjald­daga (frestað að mynda gjalddaga) S-námslánsins hafi það ekki aukið áhættu stefndu og aflahæfi aðalskuldara hafi ekki versnað umfram það sem búast mátti við á þeim tíma sem leið. Að auki sé beint samhengi milli aflahæfis og greiðslu­byrði náms­lána. Stefndu hafi frá öndverðu staðið til boða að greiða náms­lánið í skil og greiða síðan af því eftir upphaflegum skilmálum þess. Aðalskuldara standi til boða lög­bundnar heim­ildir til frestunar afborgana sé námslánið í skilum.

                Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 153/2014 uppkveðnum 22. október 2015 hafi máli vegna innheimtu þessarar kröfu á hendur stefndu verið vísað frá héraðsdómi. Þar sem þetta mál sé höfðað innan sex mánaða frá dómi Hæstaréttar um frávísun eldra máls vegna sömu kröfu sé krafa stefnanda ófyrnd, sbr. ákvæði 11. gr. laga nr. 14/1905, sbr. einnig 22. gr. laga nr. 150/2007. Aðalskuldari Hjördís hafi ekki áfrýjað dómi hér­aðs­dóms í máli nr. E-3593/2013 fyrir sitt leyti. Hann standi því óhagg­aður um skyldu hennar til að greiða stefnanda.

                Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggist á því að vanefnd stefndu á ábyrgðar­skuld­bind­ingu sinni gagnvart stefnanda sé sjálfstæð og óháð vanefnd aðalskuldara. Stefn­andi krefjist drátt­ar­vaxta að liðnum 30 dögum frá því stefndu var tilkynnt um gjald­fell­ingu námslánsins og hún krafin efnda á allri ábyrgðarskuldbindingu sinni.

                Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til meginreglu kröfu- og samn­inga­réttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og til meginreglna kröfuréttar um ábyrgð­ar­loforð og skuldbindingagildi þeirra. Hann vísar jafnframt til laga nr. 72/1982, um náms­lán og náms­styrki, einkum II. kafla laganna, og til laga nr. 21/1992, einkum II. kafla og 18. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til 11. gr. laga nr. 14/1905. Krafa um vexti og drátt­ar­vexti styðst við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísast til ákvæða bréfsins sjálfs og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðst við lög nr. 50/1988, en stefn­andi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé því nauðsynlegt að fá dæmdan virðis­aukaskatt úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu

Sýkna

                Fyrir sýknukröfu sinni færir stefnda þau rök að í öllum T-skuldabréfunum sem myndi S-lánið séu ákvæði um að endurgreiðsla láns hefjist þremur árum eftir námslok og að stjórn sjóðsins ákveði hvað teljist námslok. Stefnandi hafi gert grein fyrir því að náms­lok miðist almennt við síðustu útborgun láns til lántaka og að í til­viki þessa lán­taka, dóttur stefndu, hafi verið gerð krafa um fyrstu afborgun námslána hennar 1. mars 1992. Sú afborgun hafi farið í vanskil og verið í vanskilum þegar næsta afborgun féll í gjald­daga, 1. sept­ember 1992. Haustið 1993 hafi lántaki haft hug á frekara námi og hafi gjald­fallnar afborg­anir verið greiddar stefnanda 12. nóvember það ár. Samkvæmt skil­málum bréf­anna hafi þá verið gjaldfallnar fjórar afborganir af lánunum, vor- og haust­afborgun bæði 1992 og 1993.

                Í skilmálum allra skuldabréfanna sé meðal annars svohljóðandi ákvæði:

Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjald­fallið án uppsagnar.

                Stefnda telur augljóst að kröfur sjóðsins samkvæmt skuldabréfunum níu hafi allar verið gjaldfallnar þegar vanskil urðu á þessum greiðslum í mars 1992. Stefnda hafi ekkert samkomulag gert við stefnanda um að ábyrgð hennar héldist áfram þótt aðal­skuld­ari kæmi lán­unum í skil, enda hafi stefnandi ekki leitað eftir því og hún ekki átt nein sam­skipti við hann. Samkvæmt gögnum stefnanda hafi ekkert greiðst af umræddum lánum frá árinu 1993.

                Í gögnum sem stefnandi leggi fram segi að lántakinn hafi hafið nýtt nám á árinu 1994 og afborganir af S-láninu frestast af þeim sökum. Samkvæmt umsókn lán­tak­ans um lán hafi námið hafist í september 1994. Það þýði að áður en síð­ara námið hófst hafi fimmta afborgunin af S-láninu verið fallin í gjalddaga, 1. mars 1994, en svo virð­ist sem stefnandi hafi aldrei svo mikið sem reiknað út þá fjárhæð sem átti að greiða á þeim tíma miðað við að lánið væri í skilum frá hausti 1993. Gjald­dag­inn 1. mars 1994 hafi því verið í vanskilum allar götur síðan.

                Stefnda telur fyrningu aldrei hafa verið slitið gagnvart henni áður en stefna var birt í fyrra dóms­máli aðilanna.

                Í skilmálum allra skuldabréfanna sé ákvæði þess efnis að endurgreiðslur séu lög­taks­kræfar verði vanskil. Á þessum árum hafi lög um lögtak og fjárnám án undan­far­andi dóms eða sáttar, nr. 29/1885, gilt um lögtak. Samkvæmt þeim hefði stefn­andi getað fengið gert fjárnám hjá stefndu fyrir eftirstöðvum allra bréf­anna þegar árið 1992. Sam­kvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 hafi kröfur sem lög­taks­réttur fylgdi fyrnst á fjórum árum. Þessar kröfur hafi því allar verið fyrndar gagnvart stefndu þegar stefn­andi hóf innheimtuaðgerðir vegna þeirra á hendur henni. Stefnda vísar til dóma Hæsta­réttar í dómasafni 1998, bls. 3253 og dóms í máli nr. 242/2010 í þessu sam­hengi.

                Stefnda telur það ekki geta verið á ábyrgð hennar eða áhættu að stefnandi kunni að hafa ákveðið að fresta innheimtu skuldabréfanna gagnvart lántaka. Hafi hann gert það hafi það alfarið verið án samráðs við stefndu og hún aldrei samþykkt að ábyrgð hennar skyldi haldast áfram.

                Stefnda heldur því fram að ábyrgð hennar á viðkomandi kröfum felist ein­göngu í svohljóðandi yfirlýsingu í skuldabréfunum:

Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verð­trygg­ingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunn að valda, hefur ofan­rit­aður ábyrgðarmaður lýst yfir því að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálf­skuldarábyrgðarmaður.

Að öðru leyti gilda um þetta skuldabréf ákvæði 2. kafla laga um námslán og náms­styrki nr. 72/1982.

                Stefnda leggur áherslu á að ábyrgðaryfirlýsingin sé í hverju tilviki sjálfstæður lög­gern­ingur og að inntaki þess löggernings verði ekki breytt á íþyngjandi hátt, án sam­þykkis viðkomandi ábyrgðarmanns. Seinni tíma lagasetning geti til dæmis engu breytt í þeim efnum.

                Í stefnu segi að þegar gjaldfallnar afborganir hafi verið greiddar í nóv­ember 1993 hafi það verið „rótgróin stjórnsýsluvenja“ hjá stefnanda að heimila lán­þegum að koma námslánum í skil þótt lán hafi verið gjaldfallin. Stefnda telur að hin „rót­gróna stjórn­sýslu­venja“ geti vart verið annað en ákveðið vinnulag sem við­geng­ist hafi hjá stofn­un­inni. Slíkt vinnulag geti ekki haft nein áhrif á innihald ábyrgð­ar­yfir­lýs­ingar ábyrgð­ar­manns.

                Í stefnu segi að „myndaður hafi verið gjalddagi á lán“ sem hér eru til umfjöll­unar 1. mars 1997, þ.e. eftir að síðara námi lántaka var lokið. Stjórn stefnanda hafi fall­ist á að fresta þeirri afborgun. Aftur hafi verið „myndaður gjalddagi“ á lánin 1. mars 1998. Aftur hafi verið fallist á beiðni lántaka og afborgun frestað. Stefnda telur þetta sýna afdráttarlaust að málatilbúnaður stefnanda í fyrra málinu hafi verið efnis­lega rangur, en þar hafi því verið haldið fram að enginn gjalddagi hafi verið á lánunum fyrr en 1. mars 2012. Frestanir afborgana á árunum 1997 og 1998 hafi verið ákveðnar án sam­ráðs við stefndu. Hún hafi aldrei samþykkt að ábyrgð hennar ætti að standa óhögguð þrátt fyrir frestanir. Stefnandi vísi til laga nr. 72/1982 og 21/1992, um heim­ild stjórnar hans til að ákveða frest­un­ina. Í þeim ákvæðum sé hvergi minnst á að ábyrgð ábyrgðarmanns haldist þrátt fyrir slíka frestun. Stjórn stefnanda hafi verið í lófa lagið að áskilja samþykki ábyrgðarmanns fyrir breytingu á greiðslu­skil­málum og frestun afborg­ana, en það hafi aldrei verið gert.

                Stefnandi vísi nú til efnis 18. gr. laga nr. 21/1992 að skuldari skuli endur­greiða að fullu lán sem veitt eru samkvæmt þeim lögum áður en greiðsla geti hafist af lánum sam­kvæmt eldri lögum sem giltu um stefnanda. Þessi lög hafi tekið gildi 29. maí 1992, löngu eftir að þau skuldabréf, sem þetta mál snýst um, voru gefin út og eftir að þau voru fallin í gjalddaga vegna vanskila eins og áður var rakið.

                Sú málsástæða stefnanda að stefndu hafi verið ljóst að S-lánið væri í bið­stöðu þegar hún tók á sig sjálfsskuldarábyrgð á R-láni dóttur sinnar í október 1994 og atvik sem rakin eru í tengslum við þá málsástæðu hafi ekki verið hluti af málatilbúnaði stefn­anda í fyrra máli aðila. Stefnda mótmælir því að þessi málsástæða komist að í þessu máli af þeim sökum. Jafn­framt mótmælir stefnda því sem algerlega þýðingar­lausu í þessu máli hvort hún hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á öðrum lánum en þeim sem þetta mál snýst um.

                Fyrir liggi að stefnda hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð fyrir R-láni sem dóttir hennar fékk hjá stefnanda árið 1994. Ekkert hafi verið greitt af því láni þegar það féll í gjald­daga, og á árinu 2004 hafi verið hafnar innheimtuaðgerðir meðal annars hjá stefndu vegna þess. Skuld vegna þeirrar lánveitingar – R-lánsins – sé aug­ljós­lega einnig fyrnd.

                Ljóst sé að frestun innheimtuaðgerða vegna eldri námslána hafi aldrei getað staðið áfram eftir að R-lánið var allt fallið í gjalddaga. Sú staða hafi verið komin upp 23. sept­em­ber 2004, og raunar fyrr. Þar með hafi að sjálfsögðu verið brostin forsenda fyrir frekari frestun innheimtu á eldri kröfum sem voru samkvæmt efni skulda­bréf­anna fallnar í gjald­daga mörgum árum áður.

                Stefnda telur að verði lagt til grundvallar að hún hafi verið bundin af ákvörðun um frestun afborgana af S-láninu frá því að ákveðið var að veita dótturinni R-lán hjá stefn­anda hafi sú frestun verið fallin niður þegar allt R-lánið var fallið í gjalddaga.

                Stefnandi virðist vera sammála þessu, sbr. eftirfarandi ummæli í stefnu:

Stefnandi byggir á því að ef aðalskuldari hefði greitt af R-láni sínu samkvæmt skil­málum þess og að teknu tilliti til reiknaðra afborgana á greiðslutíma þá væri aðal­skuld­ari enn að greiða af R-láni sínu og S-lán (T-skuldabréf) sem stefnda er einnig í ábyrgð fyrir væri enn í bið.

                Liðið hafi tæp níu ár frá því að R-lánið var allt fallið í gjalddaga og stefndu send greiðslu­áskorun, 23. sept­em­ber 2004 fram að málshöfðuninni 12. ágúst 2013 Kröfur samkvæmt S-láninu hafi þá verið fyrir löngu fallnar niður fyrir fyrningu.

                Um þessa stöðu segir í stefnu: Þegar R-lán lendir í vanskilum hefur það verið rót­gróin stjórnsýsluframkvæmd hjá stefn­anda að hefja innheimtu biðláns þegar R-lán sem veitt hefur verið forgangur er sett á svokallaða kröfuvakt [...]. Í kröfu­vakt felst að eig­in­legri innheimtu náms­láns­ins er hætt tímabundið og lán annað hvort afskrifað eða fyrn­ingu slitið á ný í kjöl­farið.

                Hér vísi stefnandi aftur til „rótgróinnar stjórnsýsluframkvæmdar“ sem geti vart verið annað en vinnulag sem hafi viðgengist hjá honum. Vandamál stefn­anda vegna þessa liggi í því að ekkert samráð sé haft við ábyrgðarmanninn og hann sé ekki bund­inn af öðru en skilmálunum sem felast í ábyrgðaryfirlýsingu hans. Ann­ars sé þessi til­vitn­aði texti illskiljanlegur og vandséð hvaða þýðingu þetta vinnu­lag geti haft fyrir nið­ur­stöðu málsins.

                Stefnandi haldi því fram að upphafstími fyrningar á þeim kröfum sem málið snýst um hafi verið 1. mars 2012, en þá hafi stefnandi „myndað“ gjald­daga á lánin í kjöl­far þess að R-lánið var sett á svokallaða kröfuvakt. Stefnda mót­mælir þessu sem hreinni fjarstæðu.

                Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 reiknast fyrningarfrestur frá þeim tíma er krafa varð gjaldkræf. Þar sé ekki veitt neitt svigrúm til þess að „mynda gjald­daga“ eftir einhverjum öðrum reglum. Áður sé ítarlega rakið hvenær kröfur sam­kvæmt T-skuldabréfunum, sem stefnandi kallar S-lán, urðu gjaldkræfar. Ákvörðun stefn­anda um að setja kröfur á kröfuvakt skipti að mati stefndu nákvæmlega engu máli.

Fjárkröfur lækkaðar

                Verði þrátt fyrir framangreint ekki fallist á aðal- eða varakröfu stefndu krefst hún þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulegra.

                Eftirgjöf krafna

                Eins og rakið hafi verið hafi aðalskuldari hinna umkröfðu skulda­bréfa fengið til­kynn­ingu frá stefnanda 26. október 1992 þess efnis að skuldir hennar frá árunum 1988-1989 hefðu verið felldar niður vegna veikinda hennar. Samkvæmt yfir­liti yfir höfuð­stóls­fjárhæðir skuldabréfanna námu þessar kröfur upphaflega 674.367 krónum, en heild­ar­fjárhæð skulda­bréf­anna níu nam upphaflega 1.004.454 krónum. Lán­veiting­arnar 1988 og 1989 hafi því numið 67,14% af heildarfjárhæð þeirra lána sem þetta mál snýst um.

                Stefnda telur augljóst að ekki sé tekið tillit til þessarar niðurfellingar í málatil­bún­aði stefnanda og því beri að lækka höfuðstól kröfu hans til samræmis. Sé dómkrafa stefn­anda lækkuð um 67,14% komi út 1.318.684 krónur.

                Vaxtakrafa

                Stefnandi krefst dráttarvaxta af kröfu sinni frá 17. ágúst 2013. Stefnda mót­mælir þeirri kröfu sem tilhæfulausri. Í yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á öllum níu skulda­bréfunum í þessu máli segir um ábyrgðina:

Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verð­trygg­ingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda hefur ofan­rit­aður ábyrgðarmaður lýst yfir að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálf­skuld­ar­ábyrgðarmaður.

                Í yfirlýsingunni sé ekki minnst á dráttarvexti eða aðra vexti. Stefnandi sé opin­ber stofnun sem hafi lánveitingar og innheimtu lána sem sitt eina verkefni. Skulda­bréfið sé skrifað á eyðublað sem stefnandi leggur til og ráði alfarið efni þess. Ábyrgð ábyrgð­ar­manns geti því ekki náð til annars en þess sem skýrt sé kveðið á um í texta skjals­ins. Því sé óheimilt að dæma stefndu til að greiða dráttarvexti af skuld sam­kvæmt skuldabréfunum, að minnsta kosti ekki fyrr en frá uppsögu dóms í málinu.

Krafa um málskostnað

                Stefnda vísar um málskostnaðarkröfu sína til 130. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þessi málarekstur komi í kjölfar frávísunar Hæstaréttar á málatilbúnaði stefn­anda í fyrra máli sömu aðila um sömu dómkröfur og hér eru til úrlausnar. Stefnda telur þá vanreifun sem leiddi til frávísunar málsins eingöngu hafa stafað af óvönd­uðum vinnu­brögðum stefnanda við undirbúning þess máls. Vanreifunin teljist því hand­vömm í skiln­ingi b-liðar 1. mgr. 131. laga nr. 91/1991 sem hafi í för með sér tvöfalda máls­með­ferð um sömu kröfur fyrir dómi. Af þeirri ástæðu beri að leggja á stefnanda að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins hver sem úrslit máls­ins verða.

                Stefnda krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostn­aðar sem hún ber vegna virðisaukaskatts á lögmannsþóknun.

Niðurstaða

                Stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, krefst þess að stefnda greiði sér til­tekna fjárhæð. Þá fjárkröfu byggir stefnandi á skulda­bréfum sem lántaki, dóttir stefndu, gaf út á árunum 1986-1989 og stefnda undirritaði sem ábyrgðarmaður. Þau voru sameinuð í eitt lán, nefnt S-lán í kerfi stefnanda.

                Fyrra námi lántaka lauk 1989 en árið 1994 hóf hún nám að nýju og tók þá aftur náms­lán hjá stefnanda, sem var tilgreint sem R-lán. Vegna ákvæða í lögum bar stefn­anda að krefja lántakann fyrst um endurgreiðslu þess. Í lok árs 2011 eða byrjun árs 2012 taldi stefnandi sig hafa reynt að fullu að innheimta R-lánið. Í það minnsta hætti hann til­raunum til að innheimta það í bili og hóf þá innheimtu eldra lánsins með því að reikna út fyrstu afborgun þess á gjalddaga 1. mars 2012 og aftur 1. september sama ár. Þær afborganir féllu í gjalddaga og voru ekki greiddar á eindaga né heldur afborgun 1. mars 2013.

                Stefnandi höfðaði mál á hendur stefndu og dóttur hennar með stefnu birtri 12. ágúst 2013. Með dómi Hæstaréttar 22. október 2015 var því máli vísað frá héraðsdómi vegna van­reif­unar. Það mál sem er hér til úrlausnar höfð­aði stefnandi innan sex mán­aða frá dómi Hæsta­réttar.

                Stefnda telur að ábyrgð hennar á námsláninu sem lántaki tók á árunum 1986-1989 hafi verið fyrnd þegar henni var birt stefna 12. ágúst 2013.

                Til þess að svara því hvort fjárkrafa stefnanda á hendur stefndu hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað þarf fyrst að svara því hvenær krafan varð gjaldkræf.

                Réttarsamband stefndu og stefnanda stofnaðist eins og áður segir þegar hún rit­aði undir skulda­bréf vegna námslána dóttur sinnar þegar sú fór í fyrra skiptið í fram­halds­nám.

                Stefnda leggur áherslu á að í sérhverju skuldabréfi segi að standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma sé lánið allt fallið í gjalddaga án upp­sagnar. Þar eð dóttir hennar hafi ekki greitt fyrstu afborgunina, sem hafi fallið í gjald­daga 1. mars 1992, hafi fyrningarfrestur á kröfu stefnanda á hendur stefndu hafist þann dag. Hann hafi því runnið út 1. mars 1996 án þess að stefndi ryfi fyrninguna.

                Stefnandi byggir hins vegar á því að það hafi verið rótgróin stjórn­sýslu­fram­kvæmd hjá honum að gefa lántökum kost á að koma lánum í skil. Lántaki hafi gert það síðla árs 1993 og greitt upp afborganir sem féllu í gjalddaga 1. mars og 1. sept­em­ber 1992.

                Að mati dómsins verður að líta svo á að með því ákvæði í skuldabréfinu sem stefnda byggir á hafi stefnanda verið heimilt að gjaldfella S-lánið en ekki skylt. Hann gjald­felldi lánið ekki, heldur leyfði lántakanum að koma láninu í skil í því skyni að gera lántakanum kleift að komast í frekara nám. Að mati dómsins þurfti stefnandi ekki að fá samþykki ábyrgðarmannsins fyrir því að leyfa skuldaranum að koma láninu í skil.

                Þegar lántakinn hafði gert van­skilin upp, síðla árs 1993, skuld­aði hann stefn­anda ekki neinar gjaldfallnar afborganir og því beið ekki greiðslu nein fjárhæð, sem stefnda bar ábyrgð á. Þar með leið ekki neinn fyrn­ing­ar­frestur kröfu sem var gjald­kræf.

                Afborganir af S-láninu sem voru á gjalddaga í mars og september 1993 reikn­aði stefnandi út en féllst á þá beiðni lántakans að henni yrði veitt undanþága frá því að greiðar þær þá. Það átti einnig við um afborganir sem áttu að falla í gjalddaga 1. mars og 1. september 1994 sem og afborganir sem voru reiknaðar út á árunum 1997 og 1998 þegar síðara námi lántakans var lokið en ekki enn kominn sá tími að lántakinn ætti að hefja endurgreiðslu R-lánsins.

                Stefnanda var heimilt að veita lántakanum undanþágu frá endurgreiðslu afborg­ana S-lánsins sam­kvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 vegna veikinda hennar og bágrar fjár­hagsstöðu.

                Stefndu var kunnugt um heimild stefnanda til þess að veita greiðslufresti af þessum sökum því í skilmálum skulda­bréf­anna sem stefnda undirritaði segir jafnframt:

Stjórn Lánasjóðs er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndi­legar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára.

                Dóttir stefndu var veik og gat ekki greitt útreiknaðar afborganir. Sjóðurinn féllst á að þar með væru upp­fyllt skilyrði þessa ákvæðis. Á meðan stjórn sjóðsins veitti lántakanum greiðslu­frest vegna þessara breytinga á högum hennar gjaldféll S-lánið ekki. Stefndu var jafnframt mætavel kunnugt um veikindi dóttur sinnar og fjár­hags­vand­ræði hennar.

                Þegar liðin voru tvö ár frá því að síðara námi lántakans lauk kom 18. gr. laga nr. 21/1992 í veg fyrir að stefnandi gæti haldið áfram innheimtu S-lánsins. Ákvæðið var á þessum tíma orðað svo:

Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán sam­kvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Greiðslur af eldri náms­skuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

                Vegna þessa ákvæðis voru hendur stefnanda bundnar og hann varð að láta inn­heimtu R-lánsins ganga fyrir. Hann taldi sér ekki heim­ilt að reikna næstu afborgun af S-láninu þar til innheimta R-lánsins væri full­reynd.

                Endurgreiðslur R-lánsins hófust 1. mars 1999, vegna fyrirmæla 18. gr. laga nr. 21/1992 um forgang þess gagnvart S-láni. Það var í samræmi við fyrir­mæli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 og skilmála R-lána skuldabréfsins. R-lánið var í skilum til 1. mars 2002 er það féll í gjalddaga. Þegar þrír gjalddagar þess voru komnir í vanskil, 16. júní 2003, voru greiddar 15.000 kr. inn á kröfuna. Fjárnámsbeiðni á hendur lántakanum og stefndu var send sýslu­manni 22. nóvember 2004. Fjárnám var gert í fasteign stefndu en lántakinn sinnti ekki boðun til fjárnáms. Í janúar 2005 fékk lántakinn heimild stefn­anda til að koma láninu í skil gegn því að greiða inn­heimtu­kostnað. Jafn­framt var stefndu lofað að því fjárnámi sem gert hafði verið í fast­eign hennar yrði ekki þing­lýst á meðan látið yrði reyna á það hvort lántakinn gæti efnt skil­yrði um greiðslu inn­heimtu­kostn­aðar og skuldbreytt náms­láninu í sam­ræmi við sam­þykki stefnanda.

                Svo fór að árang­urs­laust fjár­nám var gert hjá lántakanum 9. janúar 2006. Í byrjun febrúar 2006 hafði lántakinn samband við Mandat lögmannsstofu og ítrek­aði vilja sinn til að skuldbreyta láninu. Hún greiddi 60.000 kr. inn á máls­kostnað 10. febrúar 2006, 10.000 kr. í mars 2006 og 10.000 kr. í apríl 2007. Hún greiddi ekki frekar inn á kröfuna og 25. september 2007 var fjárnámi stefn­anda í fast­eign stefndu frá 15. desember 2004 þinglýst.

                Að mati dómsins sýna þessi atvik að innheimta R-lánsins var fullreynd á árunum 2006 og 2007, þegar árangurslaust fjárnám hafði verið gert í eigum lántakans og til­raunir hennar til þess að koma láninu í skil reyndust henni ofviða fjárhagslega. Í sept­em­ber 2007 taldi stefn­andi sér ekki fært að draga lengur að þinglýsa fjárnámi sem var gert í eign stefndu. Það stóð aldrei til að ganga lengra í innheimtu R-lánsins því stefn­andi kveðst lengi hafa fylgt þeirri stefnu að selja heimili ábyrgðarmanna ekki nauð­ung­ar­sölu.

                Haustið 2007 hafði stefnandi því beitt þeim innheimtuúrræðum sem hann hugð­ist beita við innheimtu R-lánsins. Að mati dómsins var, í það minnsta þá, komið að því að hann liti svo á að innheimta þess láns væri fullreynd og honum væri heimilt, sam­kvæmt þeim skilningi sem hann leggur sjálfur í 18. gr. laga nr. 21/1992, að hefja inn­heimtu S-lánsins.

                Að mati dómsins var næsta afborgun af S-láninu gjaldkræf eigi síðar en á lög­boðnum gjalddaga 1. mars 2008. Því er ekki unnt að miða fyrningu ábyrgðar­skuld­bind­ingar stefndu á S-láninu við síðari tíma en þann dag. Eins og fram er komið fyrn­ist ábyrgð hennar á fjórum árum frá því að sú krafa sem ábyrgðin tryggir varð gjald­kræf, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfu­rétt­inda.

                Þegar stefndu var, 12. ágúst 2013, birt stefna fyrra málsins sem stefnandi höfð­aði til greiðslu S-lánsins var ábyrgðarskuldbinding hennar samkvæmt þessu fyrnd.

                Stefnda verður því sýknuð af kröfu stefnanda.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefn­anda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Við ákvörðun fjárhæðarinnar var tekið tillit til skyldu stefndu til þess að greiða virðis­aukaskatt af lögmannsþóknun.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefnda, Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Lána­sjóðs íslenskra námsmanna.

                Stefnandi greiði stefndu 1.200.000 kr. í málskostnað.