Dómur um endurupptöku hæstaréttarmáls í máli nr. 74/2012

09.11.2022

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli um endurupptöku dóms réttarins í máli nr. 74/2012 þar sem J og T höfðu verið sakfelldir fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem þeir frömdu í eigin nafni og sem stjórnendur B hf. Endurupptökudómur féllst með úrskurði 21. janúar 2022 á beiðni J og T um endurupptöku málsins hvað þá varðaði.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ljósi málsatvika og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar væri málinu vísað frá héraðsdómi er varðaði sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru vegna persónulegra skattskila þeirra. Í málinu höfðu bæði ákæruvaldið og ákærðu gert kröfu þar um. Ágreiningur aðila laut að ákvörðun refsingar vegna 1. og 2. tölul. III. kafla ákæru vegna brota sem voru framin í rekstri B hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með hliðsjón af brotum J samkvæmt III. kafla ákæru og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar væru brot hans talin meiri háttar og heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. T var talinn hafa brotið gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Að teknu tilliti til þess verulega dráttar sem orðið hafði á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi á fyrri stigum og með hliðsjón af þeim sektargreiðslum sem J og T höfðu þegar innt af hendi var þeim ekki gerð sérstök refsing í málinu.

Dóminn í heild sinni má lesa [hér].