Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni (Gestur Jónsson lögmaður)

Lykilorð

 • Endurupptaka
 • Endurupptökudómur
 • Réttlát málsmeðferð
 • Mannréttindasáttmáli Evrópu
 • Skattsvik
 • Staðgreiðsla opinberra gjalda
 • Fjármagnstekjuskattur
 • Málshraði
 • Dráttur á máli
 • Tafir á meðferð máls
 • Frávísun frá héraðsdómi
 • Refsiákvörðun
 • Málskostnaður

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012 voru J og T sakfelldir fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem þeir frömdu í eigin nafni og sem stjórnendur B hf. Endurupptökudómur féllst á beiðni J og T um endurupptöku málsins. Vísað var til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði 18. maí 2017 komist að þeirri niðurstöðu að með framangreindum dómi Hæstaréttar hefði verið brotið gegn rétti J og T samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákærðu og ákæruvaldið kröfðust þess að vísað yrði frá dómi sakargiftum samkvæmt I. og II. kafla ákæru, en ágreiningur aðila laut að ákvörðun refsingar vegna 1. og 2. tölul. III. kafla ákæru. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í ljósi málsatvika og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar væri málinu vísað frá héraðsdómi er varðaði sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru. Þá kom fram að með hliðsjón af brotum J samkvæmt III. kafla ákæru og að teknu tilliti til dómaframkvæmdar væru brot hans talin meiri háttar og heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. T var talinn hafa brotið gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Að teknu tilliti til þess verulega dráttar sem orðið hafði á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi á fyrri stigum og með hliðsjón af þeim sektargreiðslum sem J og T höfðu þegar innt af hendi var þeim ekki gerð sérstök refsing í málinu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma Ása Ólafsdóttir hæstaréttardómari, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar og Þorgeir Ingi Njálsson landsréttardómari.

2. Með úrskurði Endurupptökudóms 21. janúar 2022 var fallist á beiðni ákærðu um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 74/2012 sem dæmt var 7. febrúar 2013. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 26. janúar 2022 sem birt var ákærðu 11. febrúar sama ár.

3. Ákæruvaldið krefst þess að sakargiftum samkvæmt I. og II. kafla ákæru verði vísað frá dómi en að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu að öðru leyti og að ákærðu verði gerð refsing lögum samkvæmt.

4. Ákærði Jón Ásgeir krefst þess að I. kafla ákæru verði vísað frá dómi og að honum verði ekki gerð refsing vegna 1. töluliðar III. kafla hennar. Ákærði Tryggvi krefst þess að II. kafla ákæru verði vísað frá dómi og að honum verði ekki gerð refsing vegna 2. töluliðar III. kafla hennar.

Málsatvik

Upphaflegar sakargiftir á hendur ákærðu

5. Með ákæru 18. desember 2008 höfðaði settur ríkislögreglustjóri sakamál á hendur ákærðu ásamt öðrum að lokinni rannsókn skattyfirvalda og lögreglu. Verður hér gerð grein fyrir þeim ákæruefnum sem varða ákærðu.

6. Í I. kafla ákæru voru ákærða Jóni Ásgeiri gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum vegna eigin skattskila með því að hafa skilað röngum skattframtölum árin 1999 til 2003, þar sem hann hafi vantalið skattskyldar tekjur sínar öll árin og fjármagnstekjur árin 1999, 2002 og 2003 og þannig komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts samtals 14.975.863 króna og fjármagnstekjuskatts samtals 14.927.490 króna.

7. Samkvæmt 1. tölulið III. kafla ákæru var ákærði Jón Ásgeir sakaður sem framkvæmdastjóri Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) um meiri háttar brot gegn skattalögum á tímabilinu 2. júlí 1998 til 30. maí 2002. Var honum gefið að sök að hafa á árunum 1998 til 2002 skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið, þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla hafi verið vantalin og látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við lög nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, vegna launagreiðslna, afhendingar á bifreið og húsgögnum auk greiðslna félagsins á líftryggingariðgjaldi í þágu ákærða og þriggja annarra stjórnenda og starfsmanna félagsins. Samtals voru hin vantöldu laun sögð nema 27.631.277 krónum og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda samtals 10.633.204 krónum.

8. Ákærða Jóni Ásgeiri voru samkvæmt 1. tölulið IV. kafla ákæru gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem starfandi framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. til 27. ágúst 1999 og stjórnarmaður þess skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið á árinu 1999 þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla voru vantalin og látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna og bifreiðahlunninda til starfsmanns félagsins. Samtals voru hin vantöldu laun sögð nema 1.038.875 krónum og vangoldin staðgreiðsla samtals 398.305 krónum.

9. Loks voru ákærða Jóni Ásgeiri í V. kafla ákæru gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa sem starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Gaums ehf. látið undir höfuð leggjast að skila skattframtali fyrir félagið vegna fyrstu sex mánaða ársins 1998 og vantalið tekjur félagsins með þeim hætti er nánar var lýst í ákæru og þannig komið því undan greiðslu tekjuskatts samtals 200.555.830 króna.

10. Í II. kafla ákæru voru ákærða Tryggva gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum vegna eigin skattskila með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1999 til 2003 og með því að hafa vantalið skattskyldar tekjur sínar og þar með komið sér undan greiðslu tekjuskatts, útsvars og sérstaks tekjuskatts umrædd ár samtals 13.277.400 króna.

11. Samkvæmt 2. tölulið III. kafla ákæru voru ákærða Tryggva gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa á árinu 2002 sem framkvæmdastjóri Baugs Group hf. skilað röngum skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir félagið þar sem greidd laun og skilaskyld staðgreiðsla hafi verið vantalin og látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við lög nr. 45/1987 vegna launagreiðslna og greiðslna félagsins á líftryggingariðgjöldum vegna ákærða og tveggja annarra stjórnenda og starfsmanna þess. Samtals voru hin vantöldu laun sögð hafa numið 8.400.620 krónum og vangoldin staðgreiðsla samtals 3.237.598 krónum.

12. Í VI. kafla ákæru voru brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, svo sem nánar var rakið í ákærunni.

Rannsókn málsins og meðferð þess hjá skattyfirvöldum

13. Upphaf málsins verður rakið til húsleitar sem gerð var hjá Baugi Group hf. 28. ágúst 2002. Hinn 17. september 2003 sendi saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra bréf til skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna gruns um brot fyrirsvarsmanna félagsins á skattalögum sem og lögum um bókhald og ársreikninga. Rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum ákærða Jóns Ásgeirs og bókhaldi og skattskilum félaganna Baugs Group hf. og Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. hófst 17. nóvember 2003. Rannsóknin beindist jafnframt að nánar tilteknu félagi sem og öðrum einstaklingum sem tengdust fyrrgreindum félögum, þar á meðal ákærða Tryggva. Hann gegndi starfi aðstoðarforstjóra Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) allt frá stofnun félagsins fram til 30. maí 2002 er hann var ráðinn framkvæmdastjóri þess. Mun ákærði Tryggvi hafa gegnt þeirri stöðu allt þar til hann lét af störfum hjá félaginu 1. nóvember 2002. Skattrannsóknarstjóri hóf jafnframt rannsókn á skattskilum ákærða Tryggva 22. júní 2005 vegna tekjuáranna 1999 til 2002.

14. Í framhaldi af skýrslu skattrannsóknarstjóra árið 2004 voru mál ákærðu send ríkisskattstjóra til meðferðar á grundvelli 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003. Með úrskurði ríkisskattstjóra 30. desember 2004 voru opinber gjöld ákærða Jóns Ásgeirs endurákvörðuð að viðbættu 25% álagi vegna gjaldársins 1999. Með úrskurði 30. desember 2005 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld ákærða Jóns Ásgeirs vegna gjaldáranna 2000 til 2003 að viðbættu 25% álagi. Með úrskurði 29. desember 2005 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld ákærða Tryggva vegna gjaldáranna 2000 til 2003 að viðbættu 25% álagi.

15. Með kærum 29. mars 2005 og 29. mars 2006 skaut ákærði Jón Ásgeir til yfirskattanefndar úrskurðum ríkisskattstjóra 30. desember 2004 vegna gjaldársins 1999 og 30. desember 2005 vegna gjaldáranna 2000 til 2003. Með tveimur úrskurðum yfirskattanefndar 26. september 2007 var lítill hluti af fyrrgreindum úrskurðum ríkisskattstjóra felldur úr gildi en að öðru leyti tók nefndin ekki til greina kröfur ákærða.

16. Með kæru 28. mars 2006 skaut ákærði Tryggvi úrskurði ríkisskattstjóra frá 29. desember 2005 til yfirskattanefndar vegna gjaldáranna 2000 til 2003. Með úrskurði 29. ágúst 2007 féllst yfirskattanefnd á að fella niður álag vegna tiltekinnar tekjufærslu hlunninda í skattframtali ákærða árið 2000 en að öðru leyti var kröfum hans hafnað.

Málsmeðferð fyrir dómi

17. Með bréfi 12. nóvember 2004 vísaði skattrannsóknarstjóri máli ákærðu til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Sem fyrr segir var ákæra gefin út 18. desember 2008 og málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. febrúar 2009. Á árinu 2006 hafði auk þess verið gefin út ákæra á hendur ákærðu vegna sakargifta sem tengdust rekstri Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.). Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 5. júní 2008 í máli nr. 385/2007 þar sem ákærðu voru dæmdir til refsingar.

18. Af hálfu ákærðu var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi þar sem brotið hefði verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar þar sem þeir hefðu meðal annars ekki notið skilvirkrar málsmeðferðar og þess að teljast saklausir uns sekt væri sönnuð samkvæmt 1. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá hefði meðferð málsins brotið í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann um bann við endurtekinni málsmeðferð og refsingu í sakamálum þar sem með úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um skattálag hefði þeim verið refsað í skilningi nefnds ákvæðis. Með úrskurði héraðsdóms 20. maí 2009 var kröfum ákærðu um frávísun málsins hafnað.

19. Með bókun í héraðsdómi 1. desember 2009 vísuðu ákærðu til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 10. febrúar 2009 í máli nr. 14939/03, Sergey Zolotukhin gegn Rússlandi, um túlkun á 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Var þar jafnframt vísað til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um heimild til að gera kröfu um frávísun á nýjan leik. Í kjölfarið lögðu ákærðu fram greinargerðir 15. mars 2010 þar sem krafist var á ný frávísunar málsins í heild frá dómi. Héraðsdómur kvað 1. júní 2010 upp úrskurð vegna frávísunarkrafna ákærðu þar sem fallist var á frávísun málsins frá dómi að því er varðaði I. og II. kafla ákærunnar með þeim rökum að málsmeðferð skattyfirvalda teldist hafa tekið til sömu atvika eða brota og ákærðu væru gefin að sök í umræddum köflum ákærunnar. Því væri málshöfðunin á hendur þeim andstæð 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann.

20. Ákæruvaldið kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem kvað upp dóm 22. september 2010 í máli nr. 371/2010. Þar var meðal annars vísað til þess að óvissu gætti um skýringu á bæði gildissviði og inntaki 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmálann, enda hefði ekki verið samræmi í skýringu á honum í dómum mannréttindadómstólsins. Svo til greina kæmi að slá því föstu að þessi skipan skattamála hér á landi fengi ekki staðist vegna ákvæða mannréttindasáttmálans yrði að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir að íslensk lög færu í bága við þau, eftir atvikum í ljósi dóma mannréttindadómstólsins. Með því að svo hagaði ekki til í málinu var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

21. Við áframhaldandi meðferð málsins í héraði voru á ný gerðar kröfur um frávísun hluta ákærunnar en með úrskurði héraðsdóms 9. maí 2011 hafnaði héraðsdómur þeim kröfum og var efnisdómur kveðinn upp 9. desember sama ár. Þar var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur fyrir ýmis brot vegna eigin skattskila samkvæmt I. kafla ákæru. Jafnframt var hann á grundvelli 1. töluliðar III. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa sem fyrirsvarsmaður Baugs hf. staðið skil á röngum skilagreinum vegna greiðslu til ákærða Tryggva í desember 1998, greiðslu til Aí júní 1999, greiðslu til B í desember 1999 með afhendingu á bifreið og húsgögnum og greiðslu til ákærða Tryggva í mars 2000. Á hinn bóginn var hann sýknaður af þeim sakargiftum að hafa staðið skil á röngum skilagreinum vegna iðgjaldagreiðslna fyrir sig sjálfan og fleiri á árunum 1998 til 2002 svo og fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu af þeim fjármunum. Þá var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur samkvæmt 1. tölulið IV. kafla ákæru sem fyrirsvarsmaður Fjárfestingafélagsins Gaums ehf. fyrir að hafa staðið skil á röngum skilagreinum vegna launa starfsmanns þess á árinu 1999 en sýknaður af sakargiftum um að hafa staðið skil á röngum skilagreinum vegna bifreiðahlunninda sama starfsmanns. Loks var ákærði sýknaður af sakargiftum samkvæmt V. kafla ákæru.

22. Ákærði Tryggvi var sakfelldur með fyrrgreindum héraðsdómi fyrir brot samkvæmt flestum ákæruatriðum II. kafla vegna eigin skattskila. Hann var jafnframt sakfelldur samkvæmt 2. tölulið III. kafla ákæru fyrir að hafa sem fyrirsvarsmaður Baugs Group hf. ekki gert skilagrein og staðið skil á staðgreiðslu vegna greiðslu til A í júní 2002. Á hinn bóginn var ákærði Tryggvi sýknaður af sakargiftum um að hafa staðið skil á röngum skilagreinum vegna iðgjaldagreiðslna fyrir sig sjálfan og fleiri á árinu 2002.

23. Héraðsdómur heimfærði brot ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva eftir I. og II. kafla ákæru til 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu samkvæmt III. kafla ákæru og 1. tölulið IV. kafla ákæru hvað ákærða Jón Ásgeir varðar voru heimfærð til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Við ákvörðun refsingar ákærðu var meðal annars vísað til aðdraganda málsins og þess tíma sem rannsókn þess tók. Hefði ákæruvaldið ekki réttlætt þann drátt sem orðið hefði á rannsókninni og því hefðu ákærðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í skilningi 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til þessa var ákvörðun refsingar ákærðu frestað skilorðsbundið í eitt ár frá uppsögu héraðsdóms.

24. Hinn 6. janúar 2012 áfrýjaði ríkissaksóknari dómi héraðsdóms til Hæstaréttar sem kvað upp dóm 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012. Þar var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur samkvæmt tilteknum liðum I. kafla ákærunnar vegna eigin skattskila, sem samtals námu 172.074.912 krónum, og fyrir að standa ekki skil á opinberum gjöldum, samtals 25.278.690 krónum. Þá var hann sakfelldur samkvæmt 1. tölulið III. kafla ákæru fyrir tilgreind brot í starfsemi Baugs hf. árin 1998, 1999 og 2000, samtals 19.400.000 krónur, og að standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra, samtals 7.473.460 krónum. Á hinn bóginn var hann sýknaður af broti samkvæmt 1. tölulið IV. kafla ákæru. Ákærði Tryggvi var sakfelldur samkvæmt tilteknum liðum í II. kafla ákæru vegna eigin skattskila, sem samtals námu 28.800.000 krónum, og fyrir að standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra, samtals 13.087.700 krónum. Þá var hann sakfelldur samkvæmt 2. tölulið III. kafla ákæru fyrir að hafa í starfsemi Baugs Group hf. skilað rangri skilagrein til staðgreiðslu opinberra gjalda og vantalið launagreiðslu til A í júní 2002 að fjárhæð 8.000.000 króna og ekki haldið eftir og staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals 3.083.200 krónum.

25. Hæstiréttur taldi ákærðu hafa gerst seka um meiri háttar brot á skattalögum og var refsing þeirra ákveðin samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 107. gr. laga nr. 75/1981, nú 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Við ákvörðun refsingar var tekið mið af þeim verulega drætti sem orðið hafði á málsmeðferðinni og því álagi á skattstofna sem fellt hafði verið á ákærðu. Refsing þeirra var jafnframt ákveðin eftir 78. gr., sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Var ákærða Jóni Ásgeiri gert að sæta fangelsi í 12 mánuði og honum jafnframt gert að greiða 62.000.000 króna sekt. Ákærða Tryggva var gert að sæta fangelsi í 18 mánuði og einnig að greiða 32.000.000 króna sekt. Fangelsisrefsing beggja ákærðu var bundin almennu skilorði 57. gr. almennra hegningarlaga í tvö ár frá uppsögu dómsins.

Endurupptaka

26. Ákærðu lögðu fram kvörtun til Mannréttindadómstóls Evrópu 21. mars 2011 á þeim grundvelli að þeir hefðu tvívegis sætt saksókn og refsingu fyrir sama brot með beitingu álags á stjórnsýslustigi og síðar í sakamáli fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Í dómi 18. maí 2017 í máli nr. 22007/11, Jón Ásgeir Jóhannesson og fleiri gegn Íslandi, var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti ákærðu með því að þeir hafi verið saksóttir og refsað tvívegis vegna sömu eða efnislega sömu háttsemi í tveimur aðskildum málum sem hafi ekki tengst með fullnægjandi hætti, sbr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Var íslenska ríkið dæmt til að greiða ákærðu nánar tilgreindar miskabætur og málskostnað fyrir dómstólnum en ekki var fallist á kröfu um bætur vegna þeirra sekta sem þeim hafði verið gert að greiða með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012. Þá var hafnað kröfu um endurgreiðslu kostnaðar og útgjalda sem til hafði stofnast við málarekstur hér á landi.

27. Ákærðu fóru þess á leit við endurupptökunefnd 9. júní 2017 að hæstaréttarmálið nr. 74/2012 yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti með vísan til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Þótt dómurinn hafi eingöngu tekið til atvika varðandi I. og II. kafla ákæru var þess krafist að málið yrði endurupptekið í heild svo að unnt yrði að endurskoða ákvörðun viðurlaga. Með bréfum ríkissaksóknara til endurupptökunefndar 28. júlí 2017 og 22. febrúar 2018 var að mestu tekið undir sjónarmið ákærðu um réttmæti endurupptöku málsins. Féllst endurupptökunefnd með úrskurði 12. apríl 2018 á að taka upp málið „í heild að því er varðar endurupptökubeiðendur“ á grundvelli d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 4. maí 2018 vegna endurupptöku málsins sem birt var ákærðu 14. sama mánaðar.

28. Með dómi Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018 var endurupptöku málsins hafnað og því vísað frá Hæstarétti. Fyrir lægi að óhlutdrægur og óháður dómstóll hefði komist að niðurstöðu í málinu í samræmi við ákvæði 61. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki væri að finna heimild í íslenskum lögum til endurupptöku máls í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum við þær aðstæður sem uppi væru í málinu.

29. Með lögum nr. 47/2020 sem tóku gildi 1. desember 2020 voru gerðar breytingar á lögum nr. 50/2016 um dómstóla, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 88/2008. Endurupptökudómi var komið á fót og gerðar breytingar á skilyrðum fyrir endurupptöku bæði einkamála og sakamála. Sú breyting var gerð á a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 að bætt var við orðinu „upplýsingar“ og voru skilyrði fyrir endurupptöku sakamála eftir breytingarnar þar með rýmkuð. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 47/2020 kom meðal annars fram að ekki væri gert ráð fyrir efnislegum breytingum á þeim skilyrðum sem fram kæmu í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þó hefði orðalag a-liðar verið samræmt þeim breytingum sem gerðar væru á skilyrðum endurupptöku eftir lögum nr. 91/1991. Áréttað var að skýra bæri orðalagið „ný gögn eða upplýsingar“ svo rúmt að það tæki ekki eingöngu til sönnunargagna heldur gæti það einnig átt við úrlausnir alþjóðlegra dómstóla. Var um þetta vísað til skýringa við það ákvæði sem breytti lögum nr. 91/1991 að þessu leyti. Þar sagði meðal annars að með nýjum gögnum eða upplýsingum í umræddum skilningi væri átt við öll þau gögn eða upplýsingar sem leitt gætu til breyttrar niðurstöðu máls í mikilvægum atriðum. Þar á meðal gætu verið úrlausnir alþjóðlegra dómstóla á borð við Mannréttindadómstól Evrópu.

30. Með beiðni 24. mars 2021 fóru ákærðu þess á leit við Endurupptökudóm að hæstaréttarmál nr. 74/2012 yrði endurupptekið hvað þá varðaði og tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju. Til stuðnings beiðninni var vísað til þess að dómur mannréttindadómstólsins í máli þeirra teldist „ný gögn eða upplýsingar“ í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Einnig hefðu verulegir gallar verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sömu málsgreinar.

31. Endurupptökudómur tók beiðni ákærðu til greina með úrskurði 21. janúar 2022. Sagði meðal annars í úrskurðinum að í fyrrgreindum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu hefði eingöngu verið fjallað um atvik sem vörðuðu I. og II. kafla ákæru og leyst hefði verið úr með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012. Í dóminum hefði einnig verið leyst úr fleiri ákæruliðum og báðir ákærðu ,,sakfelldir fyrir fleiri atriði en vegna brota samkvæmt I. og II. kafla ákærunnar“. Þar sem refsing hefði verið ákvörðuð í einu lagi þótti ekki annað unnt en að endurupptaka dóminn í heild sinni hvað ákærðu varðaði.

Málatilbúnaður aðila

Helstu röksemdir ákæruvaldsins

32. Í greinargerð ákæruvaldsins kemur fram að krafist sé frávísunar á I. kafla ákæru hvað ákærða Jón Ásgeir varðar og II. kafla ákæru hvað ákærða Tryggva varðar. Þá unir ákæruvaldið sýknu héraðsdóms vegna V. kafla ákærunnar vegna ákærða Jóns Ásgeirs, auk þess sem vísað er til þess að hann hafi verið sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. tölulið IV. kafla ákæru í hæstaréttarmáli nr. 74/2012 og komi það sakarefni því ekki til skoðunar í málinu á grundvelli fyrirmæla 5. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008.

33. Þótt dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí 2017 í máli nr. 22007/11, Jón Ásgeir Jóhannesson og fleiri gegn Íslandi, sé að mati ákæruvaldsins nokkuð óskýr verði að telja að þar falli eingöngu undir sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru þar sem lýst sé brotum ákærðu tengdum persónulegum skattskilum þeirra sjálfra. Forsenda brota gegn 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sé að ákærðu hafi, áður en ákæra var gefin út, verið refsað í formi álags sem lagt hafi verið á vegna sömu vantalinna skattstofna af skattyfirvöldum. Slíku sé ekki til að dreifa vegna starfa ákærðu sem fyrirsvarsmanna Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) samkvæmt III. kafla ákæru.

34. Með dómi héraðsdóms hafi ákærðu verið sakfelldir fyrir hluta sakargifta samkvæmt III. kafla ákæru vegna starfa þeirra sem framkvæmdastjórar Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) árin 1998 til 2002. Ákærði Jón Ásgeir hafi verið sakfelldur samkvæmt 1. tölulið III. kafla ákæru fyrir að hafa vantalið og látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Samanlagt hafi vantaldar greiðslur numið 19.400.000 krónum og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda 7.473.460 krónum. Ákærði Tryggvi hafi verið sakfelldur samkvæmt 2. tölulið III. kafla ákæru fyrir að hafa vantalið og látið undir höfuð leggjast að halda eftir og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Samanlagt hafi vantalin greiðsla numið 8.000.000 króna og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna hennar 3.083.200 krónum. Að öðru leyti sæti sakarefni III. kafla ákæru ekki áfrýjun.

Helstu röksemdir ákærðu

35. Af hálfu ákærðu er vísað til þess að upphaf málsins megi rekja til húsleitar hjá Baugi Group hf. 28. ágúst 2002. Skattrannsóknarstjóri hafi tekið skattskil ákærða Jóns Ásgeirs til rannsóknar á grundvelli tilkynningar ríkislögreglustjóra til embættisins 17. september 2003. Skattrannsóknarstjóri hafi síðar sent málið til meðferðar ríkisskattstjóra með bréfi 27. október 2004. Gjöld ákærða Jóns Ásgeirs hafi verið endurákvörðuð og við þau bætt 25% álagi með tveimur úrskurðum yfirskattanefndar 26. september 2007 vegna gjaldársins 1999 og gjaldáranna 2000 til 2003. Opinber gjöld ákærða Tryggva vegna gjaldáranna 2000 til 2003 hafi verið endurákvörðuð að viðbættu 25% álagi með úrskurði yfirskattanefndar 29. ágúst 2007. Í kjölfarið hafi ákærðu greitt að fullu alla skatta, vexti og álög sem á þá voru felld af skattyfirvöldum. Hinu sama hafi gegnt um Baug hf. (síðar Baug Group hf.).

36. Af hálfu ákærðu er tekið undir kröfu ákæruvaldsins um frávísun I. og II. kafla ákærunnar frá héraðsdómi. Þá er byggt á því að óheimilt sé að gera þeim refsingu í málinu.

37. Með dómi Hæstaréttar 7. febrúar 2013 máli nr. 74/2012 hafi ákærða Jóni Ásgeiri verið gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en fullnustu refsingar hans frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá hafi hann verið dæmdur til greiðslu 62.000.000 króna sektar. Fullnustu refsingar hafi lokið 7. febrúar 2015 enda hélt ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga auk þess sem hann greiddi 39.300.000 króna sekt og sakarkostnað að fullu. Ákærða Tryggva hafi verið gert að sæta fangelsi í 18 mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Auk þess hafi hann verið dæmdur til greiðslu 32.000.000 króna sektar. Fullnustu refsingar hafi lokið 7. febrúar 2015 enda hélt ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi hann greitt 8.900.000 krónur í sekt og sakarkostnað að fullu. Miðað við þær sakargiftir sem eftir stæðu samkvæmt 1. og 2. tölulið III. kafla ákæru hafi ákæruvaldið áætlað í greinargerð við meðferð hæstaréttarmálsins nr. 12/2018 að sekt ákærða Jóns Ásgeirs hefði numið 15.000.000 króna og ákærða Tryggva 6.200.000 krónum. Þar með hefðu ákærðu ofgreitt sektir og af þeim sökum væri ekki unnt að refsa þeim með sektarákvörðun í dómsorði, sbr. dóm Hæstaréttar 12. mars 2021 í máli nr. 34/2019.

38. Brot ákærðu yrðu auk þess ekki heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru hafi ákærða Jóni Ásgeiri verið gefið að sök að hafa vanframtalið ýmist persónulega eða vegna nánar tiltekinna félaga 879.414.921 krónu og vangreitt 241.490.692 krónur og ákærða Tryggva að hafa vanframtalið 37.617.466 krónur og vangreitt 16.514.998 krónur. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 hafi ákærði Jón Ásgeir verið sakfelldur fyrir að hafa vanframtalið 191.474.912 krónur og vangreitt 32.752.150 krónur og ákærði Tryggvi fyrir að hafa vanframtalið 36.800.000 krónur og vangreitt 16.170.900 krónur. Yrði sakargiftum vegna I. og II. kafla ákæru vísað frá dómi stæðu eftir ákæruefni vegna ákærða Jóns Ásgeirs samtals að fjárhæð 19.400.000 krónur vegna vanframtalinna tekna og þar með vangreiðsla samtals 7.473.460 krónur. Vegna ákærða Tryggva stæði eftir ákæruefni samtals að fjárhæð 8.000.000 króna og vangreiðsla samtals 3.083.200 krónur. Þá verði einnig að líta til þess að fyrrgreindar tekjur tengdust rekstri Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) sem velti tugum milljarða króna á þeim árum sem ákæran nær til.

39. Við ákvörðun refsingar verði einnig að líta til þeirra óhóflegu tafa sem hefðu orðið á meðferð málsins og yrði ákærðu ekki kennt um þær. Þeir hefðu jafnframt átt kröfu til og mátt ætla að öll mál gegn þeim yrðu útkljáð með dómi um ákæru sem gefin var út 31. mars 2006 og lauk með dómi Hæstaréttar 5. júní 2008 í máli nr. 385/2007.

40. Þá sé ekki unnt að ákveða ákærðu refsingu í þessu máli á grundvelli 78. gr. almennra hegningarlaga þegar svo langt sé liðið frá fyrri dómi. Til viðbótar hafi ákærðu þurft að sæta ólögmætri endurtekinni málsmeðferð fyrir dómstólum og augljósri mismunun í meðferð ákæruvalds. Þá hafi verið gerðar breytingar á lögum um rannsókn og saksókn skattalagabrota með lögum nr. 29/2021 og fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 6/2021, settum með stoð í þeim lögum. Ákveða eigi ákærðu refsingu með hliðsjón af því, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

Niðurstaða

41. Með lögum nr. 47/2020 var gerð sú breyting á dómstólaskipan landsins að stofnaður var Endurupptökudómur. Hlutverk hans er að skera úr um hvort heimila á endurupptöku mála sem meðal annars hafa verið dæmd af Hæstarétti. Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 er fjallað um endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í Landsrétti eða Hæstarétti. Í 3. mgr. 232. gr. laganna segir að Endurupptökudómur taki ákvörðun um hvort mál verði endurupptekið og gildi ákvæði 1. mgr. 231. gr. um þá ákvörðun. Í 4. mgr. kemur jafnframt fram að hafi endurupptaka máls verið heimiluð, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta, skuli upp frá því fara með málið að því marki, sem heimildin nær, eftir almennum reglum XXXI. kafla laganna eins og áfrýjunarstefna hefði verið gefin út á þeim tíma þegar endurupptaka var ráðin og XXXIII. kafla eftir því sem á við. Eins og að framan greinir kvað Endurupptökudómur 21. janúar 2022 upp úrskurð um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 74/2012 sem dæmt var í Hæstarétti 7. febrúar 2013 að því er varðar sakargiftir í heild á hendur ákærðu Jóni Ásgeiri og Tryggva.

42. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Jón Ásgeir sakfelldur fyrir brot samkvæmt I. kafla, 1. tölulið III. kafla og 1. tölulið IV. kafla ákæru. Eins og áður greinir var hann sýknaður af broti gegn 1. tölulið IV. kafla ákærunnar með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012. Í 5. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, segir að sé mál endurupptekið eftir beiðni dómfellda megi hlutur hans aldrei verða lakari en hann var eftir hinum upphaflega dómi. Með vísan til fyrrgreinds ákvæðis var því lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að fallið væri frá sakargiftum samkvæmt 1. tölulið IV. kafla ákæru hvað ákærða Jón Ásgeir varðar. Kemur sá liður ákæru því ekki til frekari skoðunar í málinu.

43. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var jafnframt af hálfu ákæruvaldsins áréttuð yfirlýsing þess sem gefin var við meðferð hæstaréttarmáls nr. 74/2012 um að fallið væri frá þeim þætti 1. töluliðar III. kafla ákæru sem lýtur að staðgreiðslu vegna greiðslu til ákærða Jóns Ásgeirs í október 2000 að fjárhæð 4.000.000 króna, en ekki var tekin afstaða til þess ákæruliðar í hinum áfrýjaða dómi. Verður að telja að um óverulegan annmarka sé að ræða á samningu dómsins þegar hliðsjón er höfð af umfangi málsins, sem leiði ekki til ómerkingar hans, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998 og 30. maí 2002 í máli nr. 96/2002.

44. Ákæruvaldið hefur eins og að framan greinir tekið undir kröfu ákærðu um að vísað verði frá dómi I. kafla ákæru hvað ákærða Jón Ásgeir varðar og II. kafla hvað ákærða Tryggva varðar. Er byggt á því að efnismeðferð og sakfelling myndi brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis, sbr. lög nr. 62/1994. Þessu til stuðnings vísar ákæruvaldið meðal annars til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí 2017 í máli nr. 22007/11, Jón Ásgeir Jóhannesson og fleiri gegn Íslandi, og til þess að þar falli eingöngu undir sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru þar sem lýst er persónulegum skattskilum ákærðu. Jafnframt vísar ákæruvaldið til dóma Hæstaréttar 22. júní 2022 í máli nr. 11/2022 og 14. september 2022 í máli nr. 21/2022. Samkvæmt þessu og í ljósi fyrrgreindra málsatvika verður I. og II. kafla ákæru vísað frá héraðsdómi, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 13. apríl 2022 í máli nr. 34/2021.

45. Ákærðu voru með III. kafla ákæru gefin að sök brot vegna starfa þeirra sem framkvæmdastjórar Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) sem að lögum var sjálfstæður lögaðili og jafnframt sjálfstæður skattaðili. Í ljósi stöðu hlutafélagsins sem sérstaks lögaðila verða ákærðu ekki samsamaðir því. Af því leiðir að álag sem lagt var á félagið á grundvelli laga nr. 45/1987 felur ekki í sér refsingu á hendur ákærðu persónulega. Af framangreindu leiðir að ekki verður talið að saksókn í máli þessu á hendur ákærðu samkvæmt 1. og 2. tölulið III. kafla ákæru brjóti í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 13. apríl 2022, í máli nr. 35/2021.

46. Samkvæmt 1. tölulið III. kafla ákæru er ákærði Jón Ásgeir í fyrsta lagi sakaður um að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til ákærða Tryggva árið 1998, að fjárhæð 5.000.000 króna og að halda ekki eftir og skila staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 1.951.000 krónum. Í öðru lagi er honum gefið að sök að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til A árið 1999, að fjárhæð 5.100.000 krónur, og að halda ekki eftir og skila staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 1.955.340 krónum. Í þriðja lagi er hann sakaður um að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið sem launagreiðslu til B árið 1999 afhendingu á bifreið og sófasetti samtals að fjárhæð 4.300.000 krónur og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 1.648.620 krónum. Í fjórða lagi að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til ákærða Tryggva árið 2000 að fjárhæð 5.000.000 króna og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 1.918.500 krónum. Í 2. tölulið III. kafla ákæru er ákærða Tryggva gefið að sök að hafa í starfsemi Baugs Group hf. skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu til A árið 2002 að fjárhæð 8.000.000 króna og ekki haldið eftir og skilað staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 3.083.200 krónum.

47. Hvorki kemur fram í þeim skjölum sem liggja frammi í málinu né í framburði ákærðu Jóns Ásgeirs og Tryggva fyrir héraðsdómi að sá fyrrnefndi hafi átt þátt í að semja um greiðslu til þess síðarnefnda sem innt var af hendi á árinu 1998 að fjárhæð 5.000.000 króna. Þá voru samkvæmt yfirliti, sem lagt hefur verið fram í málinu, tekin út hlutabréf í Baugi Group hf. að nafnverði 800.000 krónur af reikningi félagsins í Kaupþingi banka í Lúxemborg 14. júní 2002 og hefur A borið fyrir héraðsdómi að hafa tekið við greiðslu að fjárhæð 8.000.000 króna frá félaginu þann dag. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að sakfella ákærðu Jón Ásgeir og Tryggva fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök og lýst er í málsgreininni hér að framan.

48. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði Jón Ásgeir gerst sekur um að vantelja í starfsemi Baugs hf. (síðar Baugs Group hf.) launatekjur að fjárhæð 19.400.000 krónur og standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra, samtals 7.473.460 krónum. Einnig hefur ákærði Tryggvi gerst sekur um að vantelja í starfsemi sama félags greiðslu að fjárhæð 8.000.000 króna og standa ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna hennar, samtals 3.083.200 krónum.

49. Samkvæmt öllu því sem að framan greinir hefur ákærði Jón Ásgeir gerst sekur um meiri háttar brot á skattalögum. Að teknu tilliti til dómaframkvæmdar, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 19. október 2006 í máli nr. 77/2006 og 2. nóvember 2017 í máli nr. 439/2016, verða brot hans heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Þá er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að ákærði Tryggvi hafi með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, en eins og atvikum er háttað verður sú háttsemi hans ekki heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Tilvísun beggja ákærðu til laga nr. 29/2021 hefur ekki þýðingu í þessu tilliti enda hróflaði sú lagasetning ekki við refsinæmi brotanna eða lögbundnum viðurlögum við þeim, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 35/2021.

50. Við ákvörðun refsingar ákærðu með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 var tekinn upp skilorðsdómur Hæstaréttar 5. júní 2008 í máli nr. 385/2007 samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og refsing þeirra ákveðin í einu lagi sem hegningarauki í samræmi við 78. gr. sömu laga. Með vísan til 4. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 verður við ákvörðun refsingar að þessu sinni, í framhaldi af endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 74/2012, ekki litið til fyrrgreindra ákvæða almennra hegningarlaga enda telst refsing ákærðu sem þeim var gerð með dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2007 nú fyrnd samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna.

51. Verulegur dráttur hefur orðið á rannsókn máls þessa sem og meðferð þess fyrir dómi á fyrri stigum, sbr. nú 3. mgr. 18. gr., 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt hefur langur tími liðið frá því að ákærði Jón Ásgeir framdi þau brot sem hann hefur gerst sekur um og verður honum aðeins að takmörkuðu leyti kennt um að dregist hefur úr hömlu að ljúka málinu endanlega fyrir dómi. Samkvæmt þessu verður ákærða Jóni Ásgeiri ekki gerð refsing vegna brots hans gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

52. Samkvæmt 2. mgr. ¬30. gr. laga nr. 45/1987 varða brot beggja ákærðu sektum. Eftir þeirri málsgrein skal aldrei dæma lægri fésekt en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var staðið skil á. Að teknu tilliti til þessa og með hliðsjón af þeim sektargreiðslum sem ákærðu hafa innt af hendi er ljóst að ákvörðun sekta nú næmi lægri fjárhæðum en þeim sem þeir hafa greitt. Samkvæmt því verður hvorugum ákærða gert að greiða sekt.

53. Eftir þessum málsúrslitum verður allur kostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012 felldur á ríkissjóð, með vísan til 1. mgr. 235. gr. og 1. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008.

54. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu sem ákveðin eru í einu lagi með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar sakargiftir samkvæmt I. og II. kafla ákæru.

Ákærða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er ekki gerð sérstök refsing.

Ákærða Tryggva Jónssyni er ekki gerð sérstök refsing.

Allur kostnaður af rekstri málsins í héraði sem varðaði þátt ákærðu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar lögmanns, 7.781.000 krónur, og verjanda ákærða Tryggva, Jakobs R. Möller lögmanns, 5.013.725 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Allur kostnaður af rekstri hæstaréttarmáls nr. 74/2012 sem varðaði þátt ákærðu með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 7. febrúar 2013, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar lögmanns, 1.757.000 krónur, og verjanda ákærða Tryggva, Jakobs R. Möller lögmanns, 1.400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Allur kostnaður af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Jóns Ásgeirs og Tryggva, Gests Jónssonar lögmanns, 2.500.000 krónur.