Dómar um lögmæti skerðingar ellilífeyris og heimilisuppbótar vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum

02.11.2022

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í málum A, B og C gegn Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu vegna lækkunar á ellilífeyri og heimilisuppbót vegna greiðslna sem þau nutu úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. mars 2017 til 1. apríl 2020. Ágreiningur aðila laut að stjórnskipulegu gildi laga nr. 116/2016 og 9/2017 sem breyttu ákvæðum laga nr. 100/2007 þar á meðal um bótaflokka og skerðingu ellilífeyrisgreiðslna og heimilisuppbótar vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Í dómum Hæstaréttar kom meðal annars fram að lög nr. 116/2016 og 9/2017 hefðu í engu tilliti skert greiðslur til A, B og C úr lífeyrissjóðum samkvæmt réttindum sem þau hefðu áunnið sér á grundvelli iðgjalda. Um lækkun ellilífeyris og heimilisuppbótar vegna tekna úr lífeyrissjóðum var tekið fram að slíkar tekjur hefðu ávallt komið að einhverju marki til frádráttar réttindum A, B og C í almannatryggingakerfinu, sem byggðist á því að aðstoða þá sem lægstar tekjur hefðu. Þá kom fram að þrátt fyrir að tekjur þeirra úr lífeyrissjóðum leiddu til lækkunar á ellilífeyri og heimilisuppbótar þeirra hefðu lög nr. 116/2016 og 9/2017 í reynd hækkað slíkar greiðslur til þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins. Ekki var fallist á að réttmætar væntingar þeirra hefðu stofnast um að fá óskertan ellilífeyri og heimilisuppbót sem verndar nytu samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hún væri skýrð í ljósi 1. gr. 1. viðauka við mannréttindamála Evrópu. Með setningu laga nr. 116/2016 og 9/2017 var löggjafinn ekki talinn hafa farið út fyrir það svigrúm sem hann hefði í krafti fjárstjórnarvalds síns til að skipuleggja fyrirkomulag framfærsluaðstoðar samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og ákveða þær forsendur sem fjárhæð ellilífeyris og heimilisuppbót hvíli á. Loks var ekki fallist á þá málsástæðu A, B og C að brotið hefði verið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar vegna sérreglna sem giltu um séreignarsparnað og hærra frítekjumark vegna atvinnutekna. Voru því staðfestar niðurstöður héraðsdóms um að sýkna Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkið af kröfum A, B og C.

Dómana í heild sinni má lesa hér; A, B og C.