Dómur um ítrekunaráhrif fyrri brota

09.12.2021

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli þar sem X var sakfelldur fyrir meðal annars umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið í tvö skipti undir áhrifum ávana-og fíkniefna. Um ákvörðun viðurlaga vísaði Hæstiréttur til sakaferils hans, þar á meðal dóms réttarins 22. apríl 2015, þar sem hann var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem mælst hefðu í þvagi hans, þó að sú háttsemi væri ekki lengur refsiverð samkvæmt nýjum umferðarlögum nr. 77/2019. Með fyrirmælum 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eldri dóma og lögskýringargögnum væri tekið af skarið um að ítrekunaráhrif refsiákvörðunar standi óbreytt, þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu væri eftir yngri lögunum talinn refsilaus. Taldi Hæstiréttur að sú regla yrði ekki leidd af 69. gr. stjórnarskrárinnar eða framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu á 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að óheimilt væri að líta til ítrekunaráhrifa fyrri brota við ákvörðun refsingar þótt refsinæmi slíkra brota hefði síðar verið fellt niður. 
Var refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Þar sem tafir hefðu orðið á meðferð málsins, sem brutu í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, var fangelsisrefsing hans skilorðsbundin. 

Dóminn má í heild sinni lesa hér