Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2021

Ákæruvaldið (Marín Ólafsdóttir saksóknari)
gegn
Ragnari Ólafssyni (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot
  • Dómvenja
  • Ítrekunaráhrif
  • Lagaskil
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skilorð
  • Tafir á meðferð máls

Reifun

R var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið í tvö skipti undir áhrifum ávana-og fíkniefna og fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum tiltekið magn af fíkniefnum. Við meðferð málsins í héraði játaði R sök en bar því við að umferðarlagabrotin væru fyrnd. Hæstiréttur vísaði til þess að löng dómvenja væri fyrir því að dæma mann til fangelsisvistar þegar hann gerðist í þriðja skipti eða oftar sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þar sem ákæra lyti að brotum R af sama toga í fjórða og fimmta skipti miðaðist fyrningarfrestur við 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og því hefðu brotin ekki verið fyrnd þegar ákæra var gefin út í málinu. Um ákvörðun viðurlaga vísaði Hæstiréttur til sakaferils R, þar á meðal dóms réttarins 22. apríl 2015, þar sem R var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem mælst hefðu í þvagi hans, þó að sú háttsemi væri ekki lengur refsiverð samkvæmt nýjum umferðarlögum nr. 77/2019. Með fyrirmælum 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eldri dóma og lögskýringargögnum væri tekið af skarið um að ítrekunaráhrif refsiákvörðunar standi óbreytt, þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu væri eftir yngri lögunum talinn refsilaus. Taldi Hæstiréttur að sú regla yrði ekki leidd af 69. gr. stjórnarskrárinnar eða framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu á 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að óheimilt væri að líta til ítrekunaráhrifa fyrri brota við ákvörðun refsingar þótt refsinæmi slíkra brota hefði síðar verið fellt niður. Var R einnig talinn sekur um fíkniefnabrot. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Þar sem tafir hefðu orðið á meðferð málsins, sem brutu í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, var fangelsisrefsing R skilorðsbundin. Þá var R sviptur ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 99. gr. umferðarlaga. Loks var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2021. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur hvað varðar sakfellingu ákærða og upptöku efna. Þá er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti ævilangt og að refsing hans verði þyngd.

3. Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæruliðum I.1 og II.2 en að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna ákæruliðar IV.5. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að sviptingu ökuréttinda verði markaður skemmri tími en í hinum áfrýjaða dómi.

Ágreiningsefni

4. Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 14. maí 2019 voru ákærða gefin að sök meðal annars eftirfarandi brot:

I.1. Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 29. janúar 2017, ekið bifreiðinni ... óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 55 ng/ml af amfetamíni, 20 ng/ml af kókaíni og 0,40‰ vínandi, í þvagi mældist amfetamín og kókaín). Brotið var talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
II.2. Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 6. mars 2017, ekið bifreiðinni ... óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 435 ng/ml af amfetamíni og í þvagi mældist amfetamín). Brotið var talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
IV.5. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 5. september 2017, haft í vörslum sínum, í félagi við […] kt. ..., 65,18 g af maríhúana, sem fannst við húsleit ... og lagt var hald á. Taldist brotið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

5. Auk framangreindra brota voru ákærða gefin að sök þjófnaður í ákærulið III.3, hylming í lið IV.4 og umferðarlagabrot í lið V.6. Við fyrirtöku málsins í héraði 23. september 2019 féll ákæruvaldið frá þessum ákæruliðum.

6. Með héraðsdómi 3. október 2019 var ákærði sakfelldur fyrir umferðarlagabrotin sem honum voru gefin að sök í ákæruliðum I.1 og II.2 og fyrir fíkniefnalagabrot samkvæmt ákærulið IV.5. Refsing hans var ákveðin 60 daga fangelsi. Auk þess var hann sviptur ökurétti ævilangt og haldlögð fíkniefni gerð upptæk. Með hinum áfrýjaða dómi 26. mars 2021 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og viðurlög en fullnustu fangelsisrefsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

7. Ríkissaksóknari leitaði leyfis til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar þar sem mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um 3. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ítrekunaráhrif dóma og um röksemdir fyrir skilorðsbindingu refsingar ákærða. Með ákvörðun Hæstaréttar 8. júní 2021 var ákæruvaldinu veitt leyfið með vísan til þess að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í málinu.

Málsatvik og meðferð máls

8. Við fyrirtöku málsins í héraði játaði ákærði umferðarlagabrot samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 en taldi sakir fyrndar. Þá játaði hann fíkniefnalagabrot samkvæmt lið IV.5. Farið var með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sem fyrr segir féll ákæruvaldið frá öðrum ákæruliðum en við meðferð málsins kom ekki fram af hvaða ástæðum.

9. Við ákvörðun refsingar ákærða í héraðsdómi fyrir fyrrgreind tvö umferðarlagabrot var litið til sakaferils hans samkvæmt framlögðu sakavottorði sem þó geymdi ekki allar upplýsingar um fyrri umferðarlagabrot hans. Þar kom fram að ákærði hefði tvisvar áður hlotið refsingu vegna brota á umferðarlögum. Annars vegar fésekt og sviptingu ökuréttar í tvö ár með sektargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. febrúar 2012, meðal annars fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hins vegar hefði hann með dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 569/2014 verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og verið sviptur ökurétti í tvö ár. Með vísan til dómvenju var ákærði í héraðsdómi dæmdur til fangelsisrefsingar auk ævilangrar ökuréttarsviptingar. Við ákvörðun um lengd fangelsisvistar var einnig litið til játningar ákærða á fíkniefnalagabroti samkvæmt lið IV.5 í ákæru og skyldi hann sæta fangelsi í 60 daga.

10. Við meðferð málsins í Landsrétti lagði ákæruvaldið fram nýtt sakavottorð sem tók til allra fyrri brota ákærða. Samkvæmt því hafði ákærði meðal annars einnig gengist undir viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2008. Var honum þá gerð sekt og svipting ökuréttar í fjóra mánuði fyrir að hafa tvisvar ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrri refsiákvarðanir vegna brota ákærða á banni við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna fyrir útgáfu ákæru í máli þessu voru því samanlagt þrjár.

11. Við ákvörðun refsingar í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að sakfelling og refsing ákærða í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 hefði grundvallast á því að ávana- og fíkniefni hefðu mælst í þvagi hans. Þar sem sú háttsemi væri ekki lengur refsiverð samkvæmt nýjum umferðarlögum nr. 77/2019, sem höfðu tekið gildi eftir að héraðsdómur gekk, yrði ekki litið til þess dóms við mat á sakaferli hans og ákvörðun refsiviðurlaga. Ákvörðun héraðsdóms um lengd fangelsisrefsingar, „ökuleyfissviptingu“ og upptöku fíkniefna var staðfest.

12. Í hinum áfrýjaða dómi var loks tekið fram að ríflega tvö ár hefðu liðið frá síðustu rannsóknaraðgerðum lögreglu vegna umferðarlagabrota ákærða samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 þar til ákæra var gefin út og 20 mánuðir frá því að fíkniefni í vörslu ákærða voru haldlögð. Þar sem engar skýringar hefðu komið fram á þeim óhóflega drætti yrði fangelsisrefsing ákærða skilorðsbundin.

Lagaumhverfi og réttarframkvæmd

13. Þegar þau umferðarlagabrot sem ákært er fyrir voru framin 29. janúar og 6. mars 2017, svo og fyrri brot ákærða sömu tegundar, giltu umferðarlög nr. 50/1987. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a laganna var lagt bann við því að stjórna vélknúnu ökutæki undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar taldist ökumaður vera undir áhrifum þeirra og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef slík efni mældust í blóði eða þvagi hans. Um skýringu á 2. mgr. 45. gr. a hafði í dómaframkvæmd verið vísað til þess að löggjafinn hefði tekið þá afstöðu að ökumaður teldist undir áhrifum ávana- og fíkniefna ef þau mældust í þvagi hans. Ekki væri því um sakarlíkindareglu að ræða heldur bann við akstri við þessar aðstæður sem ekki væri á valdi dómstóla að hreyfa við, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 260/2008. Í 100. gr. laganna var mælt fyrir um að brot á lögunum vörðuðu sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

14. Ný umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi 1. janúar 2020, eftir að héraðsdómur gekk í máli ákærða. Færðist ákvæði um bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna þá efnislega í 50. gr. laganna. Sú breyting var þá jafnframt gerð frá eldri umferðarlögum að mæling á mögulegu magni ávana- og fíkniefna, til að leggja grundvöll að ályktun um að ökumaður teldist undir áhrifum slíkra efna og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, færi aðeins fram á blóði hans. Þannig voru felld niður fyrirmæli sem áður komu fram í 2. mgr. 45. gr. a eldri laga um að mæling efna í þvagi gæti ein og sér verið viðhlítandi grundvöllur refsiábyrgðar. Í skýringum með 50. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 77/2019 var vísað til þess að þegar ávana- og fíkniefni, eða óvirkt umbrotsefni þess, mældist aðeins í þvagi ökumanns væri almennt rétt að álykta að efnis hefði verið neytt, en ekki unnt að ætla að hann væri enn undir áhrifum þess og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega í skilningi umferðarlaga.

15. Með nýjum umferðarlögum voru einnig gerðar þær breytingar á framsetningu refsiákvæða að þar er greint á milli þeirra brota sem aðeins varða sektum, sbr. 94. gr. laganna og brota sem varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 95. gr. Er 50. gr. um bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna talin upp í síðarnefnda refsiákvæðinu og hefur því að þessu leyti ekki orðið breyting frá refsiákvæði eldri umferðarlaga sem gilti um brot þau sem ákært er fyrir.

16. Samkvæmt framangreindu varðar akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sektum eða fangelsi allt að tveimur árum bæði samkvæmt eldri og núgildandi umferðarlögum. Með lögum nr. 54/1976 var fellt niður ákvæði þágildandi umferðarlaga nr. 40/1968 um að ölvunarakstur og nokkur fleiri brot á lögunum skyldu ekki varða vægari refsingu en varðhaldsrefsingu. Í lögskýringargögnum kom fram að markmið þessarar breytingar hefði verið að veita dómstólum svigrúm til að meta hvort þeir beittu sektum eða refsivist fyrir nefnd brot. Þannig er litið svo á að dómstólar skuli meta viðurlög sjálfstætt innan þess refsiramma sem settur er með umferðarlögum en jafnframt verði þeir að gæta ákveðins samræmis og jafnræðis við ákvarðanir sínar í þeim efnum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998.

17. Á þessum grundvelli hefur mótast dómvenja á undanförnum áratugum um túlkun og framkvæmd refsiákvæða fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. febrúar 2007 í máli nr. 390/2006. Í því sambandi ber að hafa í huga að þótt ekki sé að finna sérstaka ítrekunarheimild í umferðarlögum fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur liggur refsimat almennt neðarlega í refsimörkum fyrir fyrsta brot sem varðar þá að jafnaði sektum. Þannig er svigrúm til að taka tillit til fyrri brota við ákvörðun refsingar vegna endurtekinna brota af sama toga, sbr. einnig 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en með því eru varnaðaráhrif viðurlaga aukin.

18. Samkvæmt fyrrgreindri dómvenju hefur verið byggt á því að manni sem er sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna sé gert að greiða sektir í tvö fyrstu skiptin sem refsing er ákveðin þótt brot kunni að vera fleiri. Við þriðju refsiákvörðun sæti hann fangelsi í 30 daga og fyrir hvert endurtekið brot af þeim toga þaðan í frá hækki fangelsisrefsingin um 30 daga í hvert sinn. Frávik frá þessu var þó að finna í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 569/2015 sem var þriðja refsiákvörðun vegna brota ákærða af þessu tagi. Taldi dómurinn hæfilegt að dæma hann til greiðslu sektar þar sem sakfelling ákærða fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna byggði einungis á mælingu á efnum í þvagi ákærða en ekki blóði.

19. Þegar refsing er ákveðin fyrir fleiri en eitt brot og um þriðju refsiákvörðun er að ræða stendur dómvenja einnig til þess að dæma fulla 30 daga fangelsisrefsingu þannig reiknaða fyrir fyrsta brotið en lægri refsingu að tiltölu fyrir önnur brot af sama toga með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 434/2013 og 4. maí 2016 í máli nr. 815/2015.

20. Ólíkt því sem gildir samkvæmt framangreindu um ákvörðun refsingar á grundvelli dómvenju hafa bæði eldri og núgildandi umferðarlög mælt fyrir um ítrekunaráhrif fyrri brota við ákvörðun um sviptingu ökuréttar. Samkvæmt 3. mgr. 99. gr. gildandi umferðarlaga skal svipting ökuréttar vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en einn mánuð, eða ævilangt ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað öðru sinni. Er þessi regla óbreytt frá umferðarlögum nr. 50/1987 þar sem hana var að finna í 3. mgr. 101. gr.

21. Í 2. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um áhrif þess að refsilöggjöf breytist eftir að verknaður var framinn en áður en dómur gengur. Samkvæmt 1. mgr. skal þá dæma eftir nýrri lögunum bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei má þó dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skal dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið.

22. Eftir gildistöku nýrra umferðarlaga 1. janúar 2020 hafa dómstólar við ákvörðun viðurlaga við umferðarlagabrotum sem framin voru fyrir þann tíma vísað til þess að sú háttsemi að mælast með ávana- og fíkniefni eingöngu í þvagi varði ekki lengur refsingu. Þar sem sú háttsemi er ekki lengur refsinæm og breytingin ber vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, svo sem fram kemur í lögskýringargögnum sem lýst er að framan, ber við þessar aðstæður að sýkna af ákæru um slíkt brot, sbr. fyrrgreinda 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga.

23. Í 3. gr. almennra hegningarlaga er að finna eftirfarandi ákvæði sem tekur til ítrekunaráhrifa refsidóma þegar refsilöggjöf hefur breyst:

Þegar refsilöggjöfin lætur ítrekun brots varða aukinni refsingu eða öðrum viðurlögum, skal refsiákvörðun samkvæmt eldri lögum hafa ítrekunaráhrif eftir orðan sinni, eins og hún hefði verið gerð eftir nýrri lögunum.

Í athugasemdum um efni greinarinnar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/1940 var meðal annars tekið fram að um ítrekunaráhrif yrði að leggja eldri dóm eða refsiákvörðun til grundvallar eftir orðan sinni. Þannig hafi til dæmis dómur fyrir þjófnað eftir eldri lögum ítrekunaráhrif á nýjan þjófnaðardóm þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu og þá taldist til þjófnaðar væri eftir yngri lögunum talinn annað brot eða ef til vill refsilaus. Við skýringu dómstóla á lagafyrirmælum um ítrekunaráhrif brota hefur meðal annars verið litið til þess að skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt lagaákvæði þurfi að vera skýr og efni þess bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt þannig að maður eigi að geta séð fyrir hverjar afleiðingar brot hafa að lögum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. apríl 2008 í máli nr. 179/2008.

Niðurstaða

Krafa um sýknu vegna fyrningar

24. Ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Á hinn bóginn er því haldið fram af hans hálfu að umferðarlagabrotin séu fyrnd. Hann vísar til þess að bæði í gildistíð eldri og núgildandi umferðarlaga varði vímuefna-, ölvunar- eða lyfjaakstur sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Hefð sé fyrir því að fíkniefnaakstur varði aðeins sektum og í umferðarlögum sé hvergi getið um ítrekunaráhrif að því er varðar refsingu. Ekki geti heldur staðist að tvenns konar mislangir fyrningarfrestir gildi um sama brot á umferðarlögum. Þar sem meira en tvö ár hafi liðið frá því að brot samkvæmt þessum ákæruliðum voru framin þar til ákæra var gefin út hafi brotin verið fyrnd með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.

25. Samkvæmt umræddu ákvæði almennra hegningarlaga fyrnist sök á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem unnið er til fer ekki fram úr sektum. Brot á umferðarlögum sem ákærði er borinn sökum um í ákæru varða sektum eða refsingu allt að tveimur árum. Svo sem rakið er að framan byggist það á langri dómvenju að dæma mann til fangelsisvistar þegar hann gerist í þriðja skipti eða oftar sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Því er ljóst að brot ákærða samkvæmt liðum I.1 og II.2 í ákæru varða þyngri refsingu en sektum enda í fjórða skipti sem honum eru ákveðin viðurlög fyrir brot af sama toga. Um mörk fyrningarfrests í þessu tilliti verður að líta til þess hvernig refsing er ákveðin í tilteknu máli (in concreto) en samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. málsliðar 1. mgr. 81. gr. laganna gildir tveggja ára fyrningarfrestur aðeins ef refsing sú sem til er unnið fer ekki fram úr sektum.

26. Fyrning brota ákærða samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 miðast því við 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um að sök fyrnist á fimm árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en fjögurra ára fangelsi. Voru brot ákærða samkvæmt þessu ekki fyrnd þegar ákæra var gefin út í málinu.

Ákvörðun viðurlaga

27. Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi er ákærða nú í fjórða skipti ákveðin refsing fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og hefur ákærði gerst sekur um tvö slík brot. Í dóminum var tekið fram að við mat á sakaferli ákærða og ákvörðun viðurlaga skyldi ekki, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif refsidóma, litið til dóms Hæstaréttar 22. apríl 2015 þar sem sú háttsemi ákærða sem þar hefði verið talin refsinæm á grundvelli mælingar fíkniefna í þvagi væri það ekki lengur. Því til stuðnings var vísað til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 svo og til 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skýrt regluna um bann við afturvirkni refsilaga á síðustu árum.

28. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar mega viðurlög við refsiverðri háttsemi ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað. Ákvæði þetta er efnislega hliðstætt 2. málslið 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálans. Í skýringum um 69. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 er meðal annars vísað til þessa ákvæðis sáttmálans sem fyrirmyndar. Í hvorugu þessara ákvæða er þó mælt skýrt fyrir um að ákærður maður skuli njóta vægari refsingar hafi löggjafinn breytt löggjöf á þann veg eftir að brot var framið. Engu að síður hefur sú meginregla lengi verið fest í lög hér á landi að beita beri nýjum refsilögum hafi þau að geyma vægari refsingu en eldri lög, svo sem leiðir af 2. gr. almennra hegningarlaga eins og fyrr var lýst. Í fyrrgreindum skýringum um 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram að ákvæðinu sé ekki ætlað að breyta í neinu gildandi túlkun á 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga.

29. Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi hefur Mannréttindadómstóll Evrópu á síðari áratugum túlkað 7. gr. sáttmálans með rýmri hætti en leiðir af hljóðan hennar, og veitt henni sama efnislega inntak og fram kemur í 2. gr. almennra hegningarlaga, um að sakaður maður eigi að njóta þess að háttsemi sem talin var refsinæm þegar brot var framið sé það ekki lengur vegna lagabreytinga.

30. Í máli því sem hér er til úrlausnar reynir hins vegar ekki á að refsilöggjöf hafi breyst eftir að brot ákærða á umferðarlögum voru framin og beitingu 2. gr. almennra hegningarlaga. Þannig stendur óbreytt í gildandi umferðarlögum refsinæmi þeirrar háttsemi ákærða að aka bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem mælast í blóði. Lýtur álitaefnið aðeins að því hvort ítrekunaráhrif fyrri refsidóms á hendur ákærða vegna brots af sama toga sem byggðist einvörðungu á mælingu ávana- og fíkniefna í þvagi eigi áfram að hafa þýðingu við ákvörðun viðurlaga við síðari brotum þegar refsinæmi slíkrar háttsemi féll niður með gildistöku laga nr. 77/2019. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að með nýjum umferðarlögum var eingöngu um að ræða breytingu á þeim viðmiðum sem löggjafinn taldi áður nægilegan grundvöll til að álykta að ökumaður væri óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Voru þau viðmið í engu háð því að staðreynt væri hvort ökumaður væri í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sbr. einnig til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 260/2008.

31. Þótt umferðarlög mæli ekki fyrir um lögbundin ítrekunaráhrif að því er refsingu varðar byggir dómvenja um að litið sé til brotaferils manns við ákvörðun refsingar á hliðstæðum sjónarmiðum og ítrekunaráhrif þar sem þeirra er getið í lögum. Með fyrirmælum 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eldri dóma og lögskýringargögnum með því ákvæði er tekið af skarið um að ítrekunaráhrif refsiákvörðunar standi óbreytt þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu sé eftir yngri lögunum talinn refsilaus. Samkvæmt þessu mælir löggjafinn fyrir um að ekki skuli afmá bindandi réttaráhrif dóma sem gengið hafa um lögbrot manns í gildistíð eldri laga, haldi hann áfram brotaferli sams konar brota þótt lög mæli síðar fyrir um að refsinæmi þeirra falli niður eða breytist. Er enda fyrirsjáanlegt þegar fyrra brotið er framið og það dæmt á grundvelli gildandi laga að það hafi áhrif á ákvörðun viðurlaga við ítrekuðum brotum af sama toga sem framin eru síðar. Þá er ljóst að afstaða stjórnarskrárgjafans um að 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki ætlað að breyta gildandi túlkun á 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga breytti engu um gildi 3. gr. laganna.

32. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu felst í kjarna verndar 7. gr. mannréttindasáttmálans að engan skuli sakfella fyrir háttsemi sem ekki var refsiverð samkvæmt lögum á verknaðarstundu, ekki megi þyngja viðurlög frá því sem þau voru við það tímamark svo og að ákærður maður skuli njóta þess að refsiviðurlög hafi verið milduð með lögum sem taka gildi eftir að brot átti sér stað. Jafnframt er gerð rík krafa til skýrleika refsiheimilda samkvæmt orðum refsilaga eða dómaframkvæmd þannig að fyrirsjáanlegt sé að tilteknar athafnir manns geti leitt til refsiábyrgðar hans. Hins vegar hefur dómstóllinn tekið fram, í málum þar sem reynt hefur á álitaefni um ítrekunaráhrif refsidóma, að það sé fyrst og fremst á færi aðildarríkja en ekki dómstólsins að móta stefnu og setja lagafyrirmæli um hvaða áhrif brotaferill manns hefur á ákvörðun um refsiviðurlög. Má til hliðsjónar um það vísa til dóms yfirdeildar mannréttindadómstólsins 29. mars 2006 í máli nr. 67335/01, Achour gegn Frakklandi (44. og 51. liður), með þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 7. gr. sáttmálans standi því ekki í vegi að löggjafinn getið ljáð ítrekun brota aukið vægi eftir að brot er framið, sbr. einnig framangreindan dóm Hæstaréttar 28. apríl 2008 í máli nr. 179/2008.

33. Sú regla verður því ekki leidd af framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu á 7. gr. mannréttindasáttmálans að óheimilt sé að líta til ítrekunaráhrifa fyrri brota við ákvörðun refsingar þótt refsinæmi slíkra brota hafi síðar verið fellt niður. Svo að til greina komi að slá því föstu að fyrirmæli 3. gr. almennra hegningarlaga fái ekki staðist vegna ákvæða sáttmálans verður að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir að íslensk lög fari í bága við þau eða eftir atvikum í ljósi dóma mannréttindadómstólsins. Þá er það verkefni löggjafans að taka afstöðu til hvort ákjósanlegt er að breyta eða fella niður fyrirmæli 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eða móta nýja stefnu í þeim efnum, sbr. til hliðsjónar að þessu leyti dóm Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010.

34. Að framangreindu virtu ber við ákvörðun refsingar ákærða fyrir brot þau sem getið er í ákæruliðum I.1 og II.2 samkvæmt gildandi dómvenju einnig að líta til brots hans sem dæmt var í dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015. Í máli þessu er ákærða í fjórða skipti gerð refsing fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og um tvö brot er að ræða. Þá hefur ákærði jafnframt gerst sekur um fíkniefnalagabrot samkvæmt ákærulið IV.5. Að því athuguðu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Þá ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 99. gr. umferðarlaga enda er um ítrekun í þriðja sinn að ræða. Loks verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna.

Tafir á meðferð málsins

35. Langur tími er liðinn frá því að ákærði framdi brot þau sem mál þetta lýtur að en hann játaði þau öll fyrir dómi. Umferðarlagabrotin voru framin 29. janúar og 6. mars 2017. Rannsókn brota af þessu tagi er að jafnaði einföld og af gögnum málsins er ljóst að síðustu rannsóknaraðgerðir vegna þeirra voru öflun matsgerða um mælingar á efnum í blóð- og þvagsýnum úr ákærða 17. febrúar og 17. mars 2017. Þá fjallaði ákæruliður um fíkniefnalagabrot um atvik sem urðu 5. september 2017. Rannsókn þess brots sem fólst í vörslu lítils magns fíkniefna var einnig mjög einföld í sniðum. Ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en 14. maí 2019 en þá voru liðin ríflega tvö ár frá því að rannsókn umferðarlagabrotanna lauk og 20 mánuðir frá umræddu fíkniefnabroti. Þótt ákæran hafi upprunalega lotið að fleiri ætluðum brotum ákærða sem samkvæmt ákærunni voru framin fram til 13. september 2018 verður ekki fram hjá því litið að fallið var án skýringa frá þessum ákæruliðum við fyrirtöku málsins og því ekki um haldbæra ástæðu að ræða fyrir töfum á meðferð þess. Ekki verður heldur séð að ákærði eigi sök á þeim.

36. Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 14. október 2019 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en dómur Landsréttar gekk rúmlega 17 mánuðum síðar. Eftir að ákæruvaldið skilaði greinargerð sinni í málinu til Landsréttar 20. maí 2020 og þar til dómur gekk 26. mars 2021 verður ráðið af málsgögnum að málið hafi legið óhreyft hjá dómstólnum í meira en níu mánuði. Í ljósi fyrri tafa á meðferð málsins hefði verið enn ríkari ástæða en ella til að hraða meðferð þess fyrir Landsrétti.

37. Þessar margþættu tafir á málsmeðferð brjóta í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi er rétt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að fangelsisrefsing ákærða verði skilorðsbundin.

38. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Rétt er að áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð með vísan til 2. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda eru ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Ragnar Ólafsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og upptöku fíkniefna.

Allur áfrýjunarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 620.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.