Dómur um sakfellingu í kynferðisbrotamáli ómerktur

15.10.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem X var ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar og fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslum sínum í síma 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan hátt. Þá var X ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni. Með héraðsómi var X sýknaður af því broti sem honum var gefin að sök gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar en fundinn sekur um hin brotin. Með dómi Landsréttar var X fundinn sekur um öll brotin sem honum voru gefin að sök. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að við mat á trúverðugleika framburðar X yrði ekki litið til þess hvort hann hefði áður verið sakfelldur fyrir samkynja brot eða hvort honum væri í málinu gefin að sök önnur sams konar brot enda sætti þá það brot sem til úrlausnar væri ekki sjálfstæðu mati. Auk þess að með því væri létt af ákæruvaldinu þeirri sönnunarbyrði sem það þyrfti að axla og X fengi heldur ekki notið þess vafa við sönnun sem kynni að vera fyrir hendi. Þá vísaði rétturinn til þess að gæta yrði grunnreglunnar í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem myndi hornstein réttarríkisins um að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð. Var talið að svo verulegir annmarkar hefðu verið á aðferð við sönnunarmatið í hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

 

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.