Skaðabætur dæmdar vegna tjóns á fatnaði í verslun

26.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem SP ehf. krafðist skaðabóta vegna tjóns á fatnaði í verslun S ehf. af völdum steinryks sem hafði borist inn í verslunina vegna framkvæmda á vegum SP ehf. í nærliggjandi verslunarrými í sömu verslunarmiðstöð. S ehf. gerði annars vegar kröfu um bætur fyrir munatjón sem nam kostnaðarverði óseljanlegra vara og hins vegar fyrir afleitt tjón vegna tapaðrar framlegðar af sölu þeirra. Undir rekstri málsins aflaði S ehf. bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar um kostnaðarverð hinna skemmdu vara og umfang rekstrartjóns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem SP ehf. hefði ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu gætu kröfur hans um greiðslu lægri fjárhæða ekki komið til álita. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur fyrir munatjón S ehf. því staðfest. Að mati Hæstaréttar leiddi aftur á móti af matsspurningum, svörum yfirmatsmanna og framburði annars þeirra fyrir héraðsdómi að í niðurstöðu yfirmatsgerðar um tapaða framlegð hefði aðeins falist mat á tekjum sem S ehf. hefði getað haft af því að selja þá vöru sem varð óseljanleg að frádregnum kostnaði við öflun hennar en ekki mat á öllum breytilegum kostnaði við að afla þeirra tekna. Yfirmatsgerðin var því ekki talin endurspegla umfang rekstrartjóns S ehf. og var því ekki lögð til grundvallar við ákvörðun skaðabóta vegna afleidds tjóns hans. Þótt umfang hins afleidda tjóns væri samkvæmt þessu ósannað var fallist á að skilyrði væru til að dæma S ehf. skaðabætur að álitum vegna slíks tjóns úr hendi SP ehf.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.