Print

Mál nr. 6/2020

Stefa ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Sportveri ehf. (Guðmundur Ágústsson lögmaður)
Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Munatjón
  • Sönnun
  • Matsgerð
Reifun

S ehf. höfðaði mál á hendur SP ehf. og krafðist skaðabóta vegna tjóns á fatnaði í verslun S ehf. af völdum steinryks sem hafði borist inn í verslunina vegna framkvæmda á vegum SP ehf. í nærliggjandi verslunarrými í sömu verslunarmiðstöð. S ehf. gerði annars vegar kröfu um bætur fyrir munatjón sem nam kostnaðarverði óseljanlegra vara og hins vegar fyrir afleitt tjón vegna tapaðrar framlegðar af sölu þeirra. Undir rekstri málsins aflaði S ehf. bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar um kostnaðarverð hinna skemmdu vara og umfang rekstrartjóns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem SP ehf. hefði ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu gætu kröfur hans um greiðslu lægri fjárhæða ekki komið til álita. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur fyrir munatjón S ehf. því staðfest. Að mati Hæstaréttar leiddi aftur á móti af matsspurningum, svörum yfirmatsmanna og framburði annars þeirra fyrir héraðsdómi að í niðurstöðu yfirmatsgerðar um tapaða framlegð hefði aðeins falist mat á tekjum sem S ehf. hefði getað haft af því að selja þá vöru sem varð óseljanleg að frádregnum kostnaði við öflun hennar en ekki mat á öllum breytilegum kostnaði við að afla þeirra tekna. Yfirmatsgerðin var því ekki talin endurspegla umfang rekstrartjóns S ehf. og var því ekki lögð til grundvallar við ákvörðun skaðabóta vegna afleidds tjóns hans. Þótt umfang hins afleidda tjóns væri samkvæmt þessu ósannað var fallist á að skilyrði væru til að dæma S ehf. skaðabætur að álitum vegna slíks tjóns úr hendi SP ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2020. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 29.208.508 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 8. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 5.096.012 króna innborgun 8. maí 2015. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að honum verði gert að greiða áfrýjanda 11.358.503 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum miðað við 8. maí 2015. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að greiða áfrýjanda 14.358.508 krónur með sömu vöxtum og frádrætti. Til þrautavara krefst stefndi þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta lýtur að kröfu áfrýjanda á hendur stefnda um skaðabætur vegna tjóns á fatnaði í verslun áfrýjanda 13. mars 2015 af völdum steinryks sem barst inn í verslun hans vegna framkvæmda á vegum stefnda í nærliggjandi verslunarrými í sömu verslunarmiðstöð. Áfrýjandi krefst annars vegar bóta fyrir munatjón sem nemur kostnaðarverði óseljanlegra vara, að því leyti sem það tjón hafði ekki þegar verið bætt af vátryggingafélagi, og hins vegar vegna afleidds tjóns sem nemur tapaðri framlegð af sölu þeirra miðað við meðaltalsálagningu í verslun hans á árunum 2014 og 2016. Fjárhæð bótakröfu er byggð á niðurstöðu yfirmatsgerðar.

 Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti byggði stefndi á því að hann bæri ekki bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda og taldi að auki tjón áfrýjanda ósannað þar sem niðurstöður yfirmatsgerðar um umfang bótakröfunnar væru byggðar á röngum forsendum.

Héraðsdómur féllst á allar kröfur áfrýjanda að frátöldum upphafstíma dráttarvaxta. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu áfrýjanda um bætur fyrir munatjón og áfrýjanda auk þess dæmdar bætur að álitum fyrir missi hagnaðar.

Með áfrýjun til Hæstaréttar freistar áfrýjandi þess að fá allar kröfur sínar dæmdar, þar á meðal dráttarvexti frá fyrri tíma en Landsréttur dæmdi. Stefndi hefur ekki áfrýjað dómi Landsréttar fyrir sitt leyti en aðal- og varakrafa hans fyrir Hæstarétti miða engu að síður að því að hann verði dæmdur til að greiða áfrýjanda lægri bætur fyrir munatjón en Landsréttur dæmdi og að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda um bætur fyrir afleitt tjón.

Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að Landsréttur hefði ranglega talið að bætur fyrir afleitt tjón skyldu miðast við áætlaðan missi hagnaðar áfrýjanda en rétt hefði verið að miða bætur við tapaða framlegð af óseljanlegum vörum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að með tilliti til gagna málsins gætu úrslit þess haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðni væri reist á.

II

Áfrýjandi hefur rekið fataverslun í verslunarmiðstöðinni Hafnarstræti 99 -101 á Akureyri. Að morgni 13. mars 2015, þegar opna átti verslunina, kom í ljós fyrrgreint tjón sem fólst í því að steinryk hafði borist inn í verslunina og meðal annars sest í fatnað sem þar var til sölu. Óumdeilt er að rykið stafaði af múrbroti í nærliggjandi verslunarrými stefnda. Haft var samband við fyrirsvarsmenn stefnda og vátryggingafélög beggja málsaðila.

Vátryggingafélag áfrýjanda taldi verulegan hluta fatnaðar í verslun áfrýjanda óseljanlegan og mat verðmæti hans 14.358.508 krónur. Í samræmi við skilmála vátryggingar áfrýjanda fékk hann 8. maí 2015 bættan hluta af þeirri fjárhæð eða 5.096.012 krónur.

Áfrýjandi krafði vátryggingafélag stefnda 6. júlí 2015 um 16.683.074 króna bætur vegna sama tjónsatburðar. Áfrýjandi krafðist þess að fá bættan þann hluta fatnaðarins sem vátryggingafélag áfrýjanda hafði ekki bætt, rekstrartjón að fjárhæð 6.883.990 krónur, byggt á útreikningum áfrýjanda um tapaða sölu eftir tjónsatburðinn, sundurliðað fyrir mánuðina mars, apríl, maí og júní 2015, og loks útlagðan kostnað. Vátryggingafélag stefnda hafnaði bótaskyldu.

Lögmaður áfrýjanda sendi stefnda bréf 31. mars 2016 þar sem boðað var að áfrýjandi myndi krefja stefnda um fullar bætur vegna tjónsatburðarins. Lögmaður áfrýjanda sendi stefnda bréf 28. apríl sama ár þar sem beint var að honum sömu bótakröfu og áður hafði verið beint að vátryggingafélagi hans og var krafan rökstudd og sundurliðuð með sama hætti. Kröfunni var hafnað með ódagsettu bréfi lögmanns stefnda en þar var mati á verðmæti óseljanlegra vara mótmælt og krafa um tjón vegna tapaðrar sölu talin vera óskýr og vanreifuð.

Með beiðni 4. desember 2016 óskaði áfrýjandi eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að meta tjón sitt. Í matsbeiðninni voru settar fram fimm matsspurningar sem raktar eru í héraðsdómi. Matsgerð var skilað 21. mars 2017 og í henni komist að þeirri niðurstöðu að þær vörur sem vátryggingafélag áfrýjanda mat óseljanlegar hefðu skemmst vegna ryks og að útilokað hefði verið að reyna að þrífa þær og gera söluhæfar. Þá komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að mat vátryggingafélags áfrýjanda á kostnaðarverði óseljanlegra vara hefði verið raunhæft en taldi þó varfærnislegt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um framlegð, veltuhraða birgða og bókfært verðmæti þeirra undanfarin þrjú til fjögur ár að gera ráð fyrir 20% afföllum frá því mati. Matsmaðurinn mat verðmæti birgðanna samkvæmt því 11.486.806 krónur. Þá mat hann framlegð af óseljanlegum vörum, að teknu tilliti til affalla, 13.900.000 krónur og miðaði þá niðurstöðu við áætlað söluverð að frádregnu áætluðu kostnaðarverði.

Áfrýjandi aflaði yfirmats og voru tveir yfirmatsmenn dómkvaddir 1. júní 2017. Í matsgerð 31. október 2017 komust þeir að þeirri niðurstöðu að umræddar vörur hefðu ekki verið seljanlegar. Þá töldu matsmennirnir að útreikningar vátryggingafélagsins á innkaupsverði hinna óseljanlegu vara hefðu verið raunhæfir og mátu kostnaðarverð þeirra 14.358.508 krónur. Yfirmatsmenn töldu að hæfileg álagning á óseljanlegar vörur hefði verið 103,47% og að framlegð af þeim vörum hefði því getað numið 14.850.000 krónum.

III

1

Fyrir Hæstarétti krefst stefndi aðallega og til vara að honum verði gert að greiða áfrýjanda lægri fjárhæðir en hann var dæmdur til að greiða með dómi Landsréttar en með þrautavarakröfu sinni krefst hann staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi. Þar sem stefndi hefur ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu til Hæstaréttar koma aðal- og varakrafa hans ekki til álita hér fyrir dómi. Rök hans fyrir þeim kröfum geta því ekki komið til skoðunar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem þau styðja þrautavarakröfu hans um staðfestingu hins áfrýjaða dóms. Samkvæmt því sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti og stendur óhögguð sú niðurstaða Landsréttar að stefnda beri að bæta áfrýjanda með 14.358.508 krónum kostnaðarverð þeirrar vöru sem ónýttist við fyrrnefndan tjónsatburð, í samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar, að frádregnum áður fengnum bótum frá vátryggingafélagi að fjárhæð 5.096.012 krónur. Af sömu ástæðu verða áfrýjanda ekki dæmdar lægri bætur úr hendi stefnda en 3.000.000 króna fyrir afleitt tjón.

Áfrýjandi miðar upphafsdag dráttarvaxtakröfu sinnar við 8. janúar 2018 en þá kröfu hafði hann jafnframt uppi í héraði. Héraðsdómur dæmdi áfrýjanda hins vegar dráttarvexti frá 17. júní 2018. Áfrýjandi gagnáfrýjaði ekki þeim dómi til Landsréttar og undi þar með niðurstöðu héraðsdóms um upphafsdag dráttarvaxtakröfu. Áfrýjandi getur því ekki haft þessa kröfu uppi fyrir Hæstarétti enda standa ekki til þess lagaskilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991.

Fyrir Hæstarétti liggur því einungis að skera úr ágreiningi málsaðila um hvort áfrýjandi eigi rétt á  hærri skaðabótum úr hendi stefnda vegna óbeins tjóns en Landsréttur dæmdi.

2

Í máli þessu reynir á ólögfestar reglur skaðabótaréttar utan samninga um bætur fyrir tjón vegna rekstrarstöðvunar eða missis hagnaðar sem leiðir af því að hlutur skemmist eða ónýtist en slíkt tjón er almennt nefnt afleitt tjón eða óbeint tjón til aðgreiningar frá munatjóni. Þessar reglur hafa mótast af dómaframkvæmd þar sem hliðsjón hefur meðal annars verið höfð af ákvæðum eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 um umfang slíks tjóns, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 7. október 1975 í máli nr. 182/1973 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 713. Ákvæði um skaðabætur fyrir óbeint tjón, svo sem missi hagnaðar og tjón sem rekja má til samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu eða viðskiptum vegna vanefnda, er nú til dæmis að finna í 1. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 1. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup.

Það afleidda tjón sem áfrýjandi freistar að fá bætt í máli þessu felst nánar tiltekið í þeim tekjum sem hann telur sig hafa orðið af í rekstri verslunar sinnar af völdum stefnda vegna þess að hluti fatnaðar í versluninni varð óseljanlegur og skapaði ekki þær tekjur sem áfrýjandi telur að þessi söluvara hefði myndað ef tjónsatburður hefði ekki orðið.

Tjónþoli ber almennt sönnunarbyrði um að hann hafi orðið fyrir afleiddu tjóni og um umfang þess. Í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila hefur tjónþoli almennt forræði á því hvernig hann hagar sönnunarfærslu um umdeild atriði, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Miklum örðugleikum getur þó verið bundið að færa sönnur á umfang afleidds tjóns. Mikilvægt er að slíkri sönnunarfærslu sé markaður farvegur sem stuðlað getur að því að leiða í ljós raunverulegt rekstrartjón sem leitt hefur af munatjóni.

Við afmörkun afleidds tjóns skiptir til dæmis máli hvort tjónsatburður hefur leitt til fullkominnar rekstrarstöðvunar hjá tjónþola eða aðeins raskað starfsemi hans að hluta. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar í hinum ýmsu tegundum skaðabótamála hefur verið fallist á bætur fyrir rekstrartjón og við umfang þess verið tekið mið af missi hagnaðar eða jafnvel tapaðri framlegð vegna tjónsatburðar. Missir hagnaðar getur endurspeglað rauntjón, til dæmis þegar tjónsatburður veldur því að fasteign eða lausafé fer forgörðum og rekstur stöðvast þannig að fastur kostnaður í rekstri fellur niður samfara tekjumissi. Í dómaframkvæmd hefur á hinn bóginn verið fallist á skaðabætur sem svara til tapaðrar framlegðar í rekstri sem rekja má til tjónsatburðar en framlegð er þá skilgreind sem mismunur rekstrartekna og breytilegs kostnaðar. Um slíka afmörkun á rekstrartjóni vísast meðal annars til dóms Hæstaréttar frá 20. september 2012 í máli nr. 416/2011. Verulegum vandkvæðum getur þó verið bundið að afmarka hvað telst breytilegur kostnaður og hvað fastur kostnaður í hverju einstöku tjónstilviki en um það ber tjónþoli sönnunarbyrði.

Um afleitt tjón gildir jafnframt sú regla skaðabótaréttar að tjónþola er skylt að grípa til þeirra ráðstafana sem með sanngirni má ætlast til af honum til að takmarka tjón sitt og getur hann ekki krafist bóta fyrir tjón sem orðið hefur vegna vanrækslu þar um.

3

Áfrýjandi hefur freistað þess að tryggja sér sönnun um umfang rekstrartjóns síns með öflun matsgerðar og yfirmatsgerðar. Hann markaði þeirri sönnunarfærslu farveg með matsspurningum þar sem óskað var annars vegar mats á hvað væri hæfileg álagning á þær vörur sem metnar voru óseljanlegar og hins vegar hver framlegð hefði orðið af þeim vörum. Dómkröfur áfrýjanda um bætur fyrir tapaða framlegð eru byggðar á þeim niðurstöðum yfirmatsmanna að hæfileg álagning á umræddum vörum hefði verið 103,47% og framlegð af þeim „hafi getað verið“ 14.850.000 krónur. Annar yfirmatsmanna skýrði þessar niðurstöður þannig fyrir héraðsdómi: „En við vorum í sjálfu sér bara beðin um að meta hver framlegðin hefði getað verið af þessum vörum miðað við, miðað við þær forsendur sem við síðan gáfum okkur sem var meðaltalsálagning áranna þarna tveggja á undan.“ Nánar spurður um forsendur niðurstöðunnar skýrði hann muninn á hagnaði og framlegð þannig að framlegð væri mismunurinn á raunverulegu innkaupsverði vörunnar, það er kostnaðarverði hennar, og því söluverði sem fengist fyrir hana. Hins vegar gæti verið einhver annar kostnaður við söluna eins og til dæmis auglýsingar þannig að hagnaður yrði minni en framlegð. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að leggja hefði þurft í einhvern kostnað við að selja vöruna en yfirmatsmenn hefðu ekki verið beðnir um að leggja mat á þann kostnað heldur aðeins hvaða framlegð varan hefði getað skilað.

Af hálfu stefnda hefur frá upphafi verið byggt á því að yfirmatsgerðin feli ekki í sér sönnun á rekstrartjóni áfrýjanda þar sem niðurstaða hennar um tapaða framlegð af þeim vörum sem urðu óseljanlegar sé ekki réttur mælikvarði á raunverulegt rekstrartjón. Jafnframt hefur stefndi byggt á því að áfrýjandi hafi ekki reynt allt sem hægt var til að takmarka tjón sitt. 

Af matsspurningum, svörum yfirmatsmanna við þeim í yfirmatsgerð og framburði annars þeirra fyrir héraðsdómi um forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar verður ráðið að í niðurstöðu hennar um tapaða framlegð felist aðeins mat á tekjum sem áfrýjandi hefði getað haft af því að selja þá vöru sem varð óseljanleg að frádregnum kostnaði við öflun hennar en ekki mat á öllum breytilegum kostnaði við að afla þeirra tekna. Yfirmatsgerðin hefur samkvæmt því ekki að geyma mat á áhrifum tjónsatburðarins á framlegð af rekstri áfrýjanda.

Fyrir liggur að verslun áfrýjanda var aðeins lokuð frá 13. til 24. mars 2015 en eftir það var rekstri hennar haldið áfram. Verulegur hluti af lager verslunarinnar varð óseljanlegur við tjónsatburðinn en ekki er vitað hversu stór hluti það var. Jafnframt liggur fyrir að áfrýjandi hafði 37.712.774 króna tekjur af vörusölu á árinu 2014 en 35.913.524 króna tekjur af vörusölu á árinu 2015, þegar sölutölur samkvæmt ársreikningi að fjárhæð 40.997.373 krónur hafa verið leiðréttar um fjárhæð sem nemur 5.096.012 króna vátryggingabótum. Þá voru tekjur áfrýjanda af vörusölu 48.845.684 krónur á árinu 2016. Þrátt fyrir framangreint var matsmönnum ekki falið að bera tekjur af vörusölu og framlegð í versluninni eftir tjónsatburðinn 13. mars 2015 saman við tekjur af vörusölu og framlegð sama tímabils á árunum 2014 og 2016 og afmarka og meta með þeim hætti raunveruleg áhrif tjónsatburðarins á framlegð í verslunarrekstri áfrýjanda.

Í málinu liggja ekki fyrir skjallegar upplýsingar um hvernig áfrýjanda gekk að afla sér fatnaðar til að hafa á boðstólum í verslun sinni í stað þess fatnaðar sem varð óseljanlegur við tjónsatburðinn 13. mars 2015. Fyrir héraðsdómi bar fyrirsvarsmaður áfrýjanda að verslunin hefði verið með „mikið svona klassískar vörur, danskar vandaðar vörur sem ég panta mikið bara inn í aftur, er alltaf að selja sömu vörurnar eins, svona vandað og sem að bara gengur alltaf og ... með undirföt, snyrtivörur, fatnað.“ Þá kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa misst megnið af því sem átt hafi að selja í versluninni það sem eftir lifði sumri.

 Í bréfum sem lögmaður áfrýjanda sendi vátryggingafélagi hans 6. júlí 2015 og stefnda 28. apríl 2016, þegar rúmt ár var liðið frá tjónsatburði, voru settar fram kröfur meðal annars um bætur vegna rekstrartaps sem byggðar voru á mismun á sölutölum verslunarinnar mánuðina mars til júní árið 2014 og sölutölum sömu mánaða árið 2015 en sá mismunur nam 6.883.990 krónum.

Framburður fyrirsvarsmanns áfrýjanda, umrædd framsetning kröfugerðar vegna rekstrartjóns fram á sumar 2015 og þær upplýsingar sem liggja fyrir úr rekstri áfrýjanda benda sterklega til þess að hann hafi dregið úr rekstrartjóni sínu á síðari hluta ársins 2015 með því að afla sér söluvöru í stað þeirrar sem varð óseljanleg við tjónsatburðinn, en þá vöru fær áfrýjandi bætta á kostnaðarverði samkvæmt niðurstöðu þessa máls. Framburður annars yfirmatsmanns fyrir héraðsdómi um þann tíma sem taki að afla fatnaðar til sölu í verslun hér á landi virðist eingöngu byggður á eigin reynslu en ekki upplýsingum úr verslunarrekstri áfrýjanda og hefur því ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á með stefnda að yfirmatsgerð sú sem áfrýjandi hefur aflað og byggir dómkröfur sínar á endurspegli ekki umfang rekstrartjóns hans og að niðurstöður matsgerðarinnar verði ekki lagðar til grundvallar við ákvörðun skaðabóta vegna afleidds tjóns áfrýjanda.

Áfrýjandi ber ábyrgð á því hvernig hann hefur kosið að haga sönnunarfærslu sinni. Þótt umfang afleidds tjóns áfrýjanda sé samkvæmt framansögðu ósannað er fallist á með Landsrétti að skilyrði séu til að dæma honum skaðabætur að álitum vegna slíks tjóns úr hendi stefnda.

Við ákvörðun skaðabóta að álitum verður, eins og fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms, að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir sannanir um fjárhæð tjóns, sbr. dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 321/2017. Þegar litið er til þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir í málinu um tekjur áfrýjanda af vörusölu árin 2014, 2015 og 2016, tímabundna rekstrarstöðvun áfrýjanda, vöruþurrð og minni tekjur af vörusölu fyrstu mánuðina eftir að tjónið varð er fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um fjárhæð óbeins tjóns.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. 

                                                                           

 

 

Dómur Landsréttar 13. desember 2019.

 

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Ragnheiður Harðardóttir.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 29. mars 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2019 í málinu nr. E-74/2018.

2        Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að krafa stefnda verði lækkuð verulega og málskostnaður í héraði felldur niður en stefnda verði gert að greiða honum málskostnað fyrir Landsrétti.            

3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

4        Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefndi varð fyrir vegna ryks sem barst inn í verslun hans við framkvæmdir á vegum áfrýjanda í mars 2015.

5        Töluleg krafa stefnda er í tveimur liðum. Annars vegar er krafist 14.358.508 króna vegna innkaupsverðs þess hluta lagers stefnda sem varð óseljanlegur en hins vegar 14.850.000 króna vegna þeirrar framlegðar sem orðið hefði af sama hluta lagersins. Í báðum tilvikum byggir stefndi á yfirmatsgerð dómkvaddra manna og í hinum áfrýjaða dómi var fallist að fullu á báða kröfuliði.

6        Um fyrri kröfuliðinn kemur fram í yfirmatsgerð að vörurnar sem teknar voru af lager stefnda hafi allar skemmst af völdum steinryks sem í þær barst, að þær hafi ekki verið seljanlegar úr versluninni eftir það og að innkaupsverð þeirra hafi verið 14.358.508 krónur. Er yfirmatsgerðin að þessu leyti til samræmis við það sem fram kemur í gögnum málsins um afstöðu starfsmanna Vátryggingafélags Íslands hf. sem og þá undirmatsgerð sem fyrir liggur í málinu. Samkvæmt framangreindu hefur stefndi fært sönnur á að vörurnar hafi farið forgörðum og að innkaupsverð þeirra hafi numið fyrrgreindri fjárhæð. Ekki eru efni til að færa þá fjárhæð niður enda er meginreglan við ákvörðun bóta þegar hlutur fer forgörðum sú að bætur skuli miðast við innkaupsverð, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika, en síðargreindu atriðin verða ekki talin geta leitt til frádráttar í málinu. Þá verður í ljósi framangreindra gagna að hafna sjónarmiðum áfrýjanda um að stefndi hafi ekki gripið til nægilegra ráðstafana til að takmarka tjón sitt. Verður fyrri kröfuliðurinn því tekinn til greina að fullu.

7        Síðari kröfuliðurinn byggist á niðurstöðu yfirmatsgerðar um framlegð af þeim vörum sem metnar voru óseljanlegar, en í yfirmatsgerðinni segir að framlegðin „hafi getað verið“ 14.850.000 krónur. Samkvæmt gögnum sem liggja fyrir í málinu og stafa frá stefnda var verslun hans lokuð frá 14. til 25. mars 2015 þegar hún var opnuð að nýju. Ljóst er að stefndi varð að kaupa aðrar vörur í stað þeirra sem ónýttust, enda var þar um að ræða meira en 60% af lager hans samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti. Samkvæmt sama yfirliti seldi stefndi vörur fyrir 2.279.912 krónur frá upphafi árs til 14. mars 2015, en af ársreikningi stefnda 2015 má ráða að heildarsala ársins hafi numið 40.997.373 krónum.

8        Af framangreindu er ljóst að sala stefnda eftir enduropnun verslunarinnar 25. mars til ársloka 2015 svarar til 38.717.461 krónu, sem er nokkuð meira en öll sala ársins 2014. Í kröfu stefnda felst að til viðbótar framlegð vegna þeirra viðskipta sem urðu eftir enduropnunina fái hann einnig ætlaða framlegð af sölu alls þess varnings sem ónýttist. Með því móti yrði stefndi í reynd settur í sams konar stöðu og ef allar vörurnar sem ónýttust, eða rúmlega 60% lagersins, hefðu selst frá 14. til 25. mars 2015. Hefur á engan hátt verið gert líklegt að af svo umfangsmikilli sölu á árinu 2015 hefði getað orðið. Þá benda fyrirliggjandi ársreikningar skýrlega til þess að tjón stefnda yrði ofbætt ef krafa hans yrði tekin að fullu til greina. Árið 2014 varð 17.329 króna tap af rekstrinum, árið 2015 3.083.849 króna tap og árið 2016 1.813.729 króna hagnaður. Ef fallist yrði á kröfu stefnda að fjárhæð 14.850.000 krónur yrði hagnaður vegna ársins 2015 verulegur og í engu samræmi við reksturinn á árunum 2014 og 2016. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að svar yfirmatsmanna við framangreindri spurningu endurspegli rauntjón stefnda, en yfirmatsmenn voru eðli málsins samkvæmt bundnir af matsspurningunni, sem einskorðaðist við mat á framlegð viðkomandi varnings.

9        Á hinn bóginn verður að telja að stefndi hafi með framlögðum gögnum sýnt nægilega fram á að hann myndi einhvern hagnað hafa haft af þeim hluta lagersins sem ónýttist og að hann hafi aðhafst nægilega í því skyni að sýna fram á tjón sitt svo að honum verði dæmdar bætur að álitum. Við ákvörðun skaðabóta með þeim hætti verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir fullar sönnur um fjárhæð tjóns. Þykja bæturnar, að virtum öllum gögnum og atvikum, hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna.

10       Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda samtals 17.358.508 krónur, auk vaxta og með frádrætti líkt og í dómsorði greinir, en um þau atriði er ekki ágreiningur milli aðila.

11       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest og áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Landsrétti líkt og í dómsorði greinir.                 

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sportver ehf., greiði stefnda, Stefu ehf., 17.358.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar voru inn á kröfuna 8. maí 2015.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.

 

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2019

Mál þetta var höfðað 17. maí 2018 og fyrst dómtekið föstudaginn 14. desember sama ár. Þar sem ekki reyndist unnt sökum embættisanna dómara að kveða upp dóm innan lögmælts frests var málið flutt að nýju og dómtekið 27. febrúar 2019.

Stefnandi er, Stefa ehf., Laxagötu 3b, Akureyri, en stefnda er Sportver ehf., Gleráreyrum 2, Akureyri.

                Stefnandi krefst þess að stefni verði dæmdur til að greiða stefnanda 29.208.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 8. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar hafi verið inn á kröfuna 8. maí 2015. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun. Þá krefst hann málskostnaðar.

 

I

                Mál þetta varðar skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda vegna rykmengunar sem barst inn í verslun stefnanda og rakin var til vinnu við endurbætur í húsnæði stefnda. Deila aðilar um hvort skaðabótaskylda hvíli á stefnda vegna tjónsins og hvert umfang þeirrar bótaskyldu á með réttu að vera. Fram kom við munnlegan málflutning að stefndi bæri ekki brigður á að umrædd rykmengun hefði stafað frá framkvæmdum á hans vegum, en hafnar því að hann beri skaðabótaábyrgð á þeirri mengun.

                Umræddur atburður átti sér stað að Hafnarstræti 99-101, fyrstu hæð en þar rak stefnandi verslun með tískufatnað og undirföt. Stefndi festi þar kaup á aðliggjandi verslunarrými og er atburðurinn átti sér stað vann hann að endurbótum þess. Fólust umræddar endurbætur m.a. í múrbroti. Liggur fyrir að starfsmenn stefnda einangruðu rýmið með byggingaplasti til að koma í veg fyrir að rykmengun bærist út úr rýminu. Liggur fyrir að um kvöld þann 12. mars 2015 var unnið að múrbroti í verslunarrými stefnda en í skýrslu fyrirsvarsmanns hans fyrir dómi kom fram að hann teldi sig hafa gengið þannig frá byggingaplasti að ekki hefði átt að vera hætta á að rykmengun bærist út úr rýminu. Lýsti hann því nánar svo að eftir lokun verslana að kvöldi 12. mars 2015 hafi hann starfað við að brjóta upp gólfflísar og af því hafi stafað rykmengun. Kvað hann að til að koma í veg fyrir að ryk bærist fram á sameiginlegan gang og inn í aðrar verslanir hafi hann strengt byggingaplastdúk til að loka verslunarrými sitt frá öðrum rýmum í verslunarhúsinu. Hann hafi notað tréstoðir til að festa plastið og hafi límt plastið á samskeytum til að tryggja að ryk bærist ekki fram. Um kvöldið hafi vinur hans komið til hans þarna og þegar hann hafi opnað útidyr hafi komið vindsveipur inn í rýmið. Í tilefni af því kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa kannað ástand plastsins en ekki séð neitt athugavert. Um kvöldið að vinnu lokinni hafi hann farið af staðnum og talið allt vera í lagi. Morguninn eftir hafi  honum verið tilkynnt um rykmengunina og kvað  hann, að er hann hafi komið á staðinn, hafi hann farið yfir plastið og fundið að plast hafi losnað frá í horni. Í kjölfarið hafi hann í samstarfi við aðra verslunareigendur tekið þátt í að þrífa verslanirnar þar sem ryk hafi komið inn. Hafi það gengið þokkalega og ekki hafi verið tilkynnt um tjón á öðrum verslunum. Verslun stefnanda hafi hins vegar verið lokað og læst og engin tilraun gerð til að ræða við hann um þrif þar. Þá kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnda að töluverður vindur hafi verið umrætt kvöld. Einnig nefndi hann að umgangur væri um sameignlegan gang eftir lokun verslana vegna fólks sem ætti erindi í tónlistarskóla á annarri hæð byggingarinnar á kvöldin. Þá kom fram hjá fyrirsvarsmanninum að hann hafi talið stefnda hafa tryggingu gegn tjóni af því tagi sem um ræðir en það hafi komið í ljós að farist hafi fyrir að skrá umrætt húsnæði hjá tryggingafélagi. Hafi félagið þegar af þeim ástæðum hafnað því að félagið bætti hugsanlegt tjón.

                Að morgni föstudagsins 13. mars 2015 er starfskona stefnanda kom til vinnu sá hún að ryk hafði borist inn í verslunina og lá yfir vörum m.a. fatnaði sem þar var einkum til sölu. Kallaðir voru til tjónaskoðunarmenn frá Vátryggingafélagi Íslands hf. (hér eftir kallað VÍS hf.), en stefnandi var með lausafjártryggingu hjá því félagi, og frá Tryggingamiðstöðinni hf. (hér eftir kallað TM hf.) en talið var í upphafi að stefndi hefði tryggingu hjá því félagi sem tæki til hugsanlegrar bótaskyldu hans.

                Þá gaf skýrslu Ármann Þorgrímsson tjónamatsmaður hjá VÍS hf. Hann kvað aðspurður að hann væri húsasmíðameistari að mennt og hefði um áratugaskeið starfað sem slíkur áður en hann hafi gerst tjónamatsmaður hjá ofangreindu tryggingafélag. Í skýrslu hans kom fram að hann hefði verið kallaður í verslun stefnanda 13. mars 2015 til að skoða þar aðstæður eftir að ryk hafi borist þar inn. Hann kvað steypuryk hafa legið yfir öllum vörum verslunarinnar. Þá kvaðst hann hafa skoðað rykvarnir á verslunarrými stefnda og að þeim hefði verið ábótavant að hans mati. Ekki hafi verið notaðar tréstoðir til að festa plastdúk við loftið heldur aðeins límband og hann hafi séð að plastið hafi gapað frá á nokkrum stöðum. 

                Að beiðni stefnanda kom Eiríkur Jónsson verkfræðingur í húsnæðið 16. mars 2015 og kannaði þar aðstæður. Liggur fyrir stutt skrifleg skýrsla hans í málinu þar sem m.a. kemur fram að yfir hafi staðið vinna við að breyta húsnæði verslunar handan gangsins sem verslun stefnanda stendur við og hafi það rými verið skermað frá ganginum með plastdúk. Frágangur hafi verið sæmilegur og samskeyti límd. Fram kemur það álit Eiríks að múrbrot í framangreindu rými og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar á meðan hafi orsakað rykmengunina sem orðið hafi í verslun stefnanda. Þá er því einnig lýst að verslun stefnanda sé aðskilin frá fyrrnefndum gangi með glerrúðum en rifur séu á milli þeirra, auk þess sem op (ca. 0,1²) sé efst á veggnum. Eiríkur kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni og staðfesti ofangreinda skýrslu. Kom fram í framburði hans að er hann hafi komið á staðinn 16. mars hafi hann meðal annars litið á frágang á rykvörn í verslunarrými stefnda. Kvað hann rykvörnina hafa falist í því að plastdúkur hafi verið límdur á veggi og við loft. Kvað hann greinilega hafa verið búið að laga dúkinn eitthvað þegar hann hafi komið þar að. Plastdúkurinn hafi að hans mati ekki verið loftþéttur og því ekki verið fullnægjandi til að verjast rykmengun. Aðspurður um hvort hann hefði séð missmíð eða gat á plastinu kvað hann að umræddur plastdúkur hafi ekki verið festur með tréstoðum (lektum) eða grind eins og oft sé gert við aðstæður sem þessar til að gera rými rykþétt.

                Stefnandi var með svokallaða „víðtæka lausafjártryggingu“ hjá VÍS hf. og eftir skoðun viðurkenndi tryggingafélagi að um bótaskyldan atburð væri að ræða og bætti kostnaðarverð þeirra vara sem taldar voru ónýtar að því hlutfalli sem samræmdist tryggingarskilmálum. Mun ákvörðun um að fatnaður væri ónýtur hafa verið tekin í kjölfar þess að kannað hafi verið hvort möguleiki væri á að hreinsa fatnaðinn, en ekki hafi verið talinn möguleika á því með þeim hætti að unnt væri að selja vörurnar sem nýjan tískufatnað. Í framangreindu uppgjöri var miðað við að innkaupsverð skemmdra vara væri að heildarfjárhæð 14.358.508 krónur. Í samræmi við skilmála tryggingarinnar greiddi tryggingafélagið 34.64% af tjóninu, eða 4.973.797 krónur að frádregnum 10% vegna eigin áhættu stefnanda, 319.300 krónur og fékk stefnandi því greiddar 4.654.497 krónur vegna tjónsins. Að auki greiddi tryggingafélagið 441.515 krónur með skýringunni „ýmis kostnaður ótalinn annarsstaðar“ og kveður stefnandi að þar sé um að ræða lögmannskostnað.

                Meðhöndlun fatnaðarins var þannig að honum var pakkað í 52 kassa sem færðir voru í geymslu hjá VÍS hf. og munu vera þar enn.

                Í skýrslu fyrirsvarsmann stefnanda fyrir dómari kom fram að henni hefði ekki verið unnt að afla nýs fatnaðar til að selja í verslun sinni þegar í stað eftir að tjónið varð. Lýsti hún því nánar svo að pantanir yrði að gera með margra mánaða fyrirvara og að framleiðendur framleiddu fatnaðinn upp í pantanir en lægju ekki með hann á lager. Hún hafi gert tilraunir til að fá ný föt til sölu en þær hafi verið árangurslausar.

                Undir rekstri málsins óskaði stefnandi dómkvaðningar matsmanns, til að svara eftirgreindum spurningum:

„1.           Óskað er eftir að matsmaður skoði og meti vörur sem teknar voru af lager matsbeiðanda 26. mars 2015 og leggi mat á hvort þær hafi skemmst vegna ryks sem barst í þær aðfaranótt 13. mars 2015.

2.             Óskað er eftir að matsmaðurinn leggi mat á hvort vörurnar hafi verið seljanlegar eftir að ryk barst í þær þann 13. mars 2015.

3.             Ef matsmaðurinn telur að vörurnar hafi að hluta eða öllu leyti verið óseljanlegar, sbr. spurningu 2 þá er óskað eftir að hann leggi mat á innkaupsverð varanna, sem hann metur óseljanlegar.

4.             Óskað er eftir að matsmaðurinn meti hvað er hæfileg álagning á þær vörur sem hann telur að hafi verið óseljanlegar.

5.             Óskað er eftir að matsmaðurinn meti hver hafi verið framlegð af þeim vörum sem hann metur óseljanlegar.“

 

                Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi var dómkvaddur til verksins og er matsgerð hans dagsett 21. mars 2017.  Svör matsmannsins við ofangreindum spurningum voru eftirfarandi í sömu töluröð.

„1.           Það er mat undirritaðs að þær vörur sem teknar voru af lager matsbeiðanda 26. mars 2015 hafi skemmst vegna ryks og útilokað hafi verið að reyna að þrífa þær og gera þær með því móti söluhæfar, enda óvíst að það hefði tekist og/eða svarað kostnaði.

2.             Það er mat undirritaðs að umræddar vörur hafi ekki verið seljanlegar sem slíkar, þ.e. sem nýjar tískuvörur, eftir að ryk komst í þær þann 13. mars 2015.

3.             Það er mat undirritaðs að útreikningar Vátryggingafélags Íslands hf. séu raunhæfir, þ.e. að miða kostnaðarverð lagersins við 200% álagningu með virðisaukaskatti.

4.             Með vísan til liðar 3 hér að framan er það mat undirritaðs að hæfileg álagning sé um 200% mið virðisaukaskatti. Hins vegar er það einnig mat undirritaðs að slíkum tískuvörum sem hér um ræðir fylgi áhætta um seljanleika og að ekki hefði tekist að selja allar vörurnar á fullu verði. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um framlegð, veltuhraða birgða og bókfært verðmæti birgða undanfarinna þriggja til fjögurra ára tel ég varfærnislegt að reikna með 20% afföllum frá mati Vátryggingafélags Íslands hf. og að samkvæmt því sé verðmæti birgðanna kr. 11.486.806. Miðað við það mat hefði framlegð ársins 2015 orðið um 60,1% í stað þess að vera 43,4%.

5.             Það er mat undirritaðs að framlegðin af þeim vörum sem taldar eru óseljanlegar að teknu tilliti til affalla, samtals að verðmæti 11.486.806 krónur, hefði getað orðið 50% af útsöluverði þeirra án virðisaukaskatts, eða um 13,9 millj. kr., það er áætlað söluverðmæti að frádregnu kostnaðarverði.“

                Stefnandi sætti sig ekki við framangreinda matsniðurstöðu og óskaði yfirmats til að svara sömu spurningum og undirmatsmaður. Til að framkvæma yfirmat voru dómkvödd þau Rögnvaldur Dofri Pétursson, löggiltur endurskoðandi og Stella Leifsdóttir rekstrarfræðingur. Yfirmatsgerð þeirra er dagsett 31. Október 2017 og eru svör þeirra við matsspurningum eftirfarandi í sömu töluröð:

1.             Eftir að hafa skoðað vörurnar og rætt við aðila hjá VÍS, er það niðurstaða okkar, að vörurnar hafi allar skemmst af völdum steinryks sem í þær barst þann 13. mars 2015.

2.             Við teljum að vörurnar hafi ekki verið seljanlegar úr versluninni, eftir að steinryk barst í þær þann 13. mars 2015.

3.             Við teljum að útreikningar VÍS á innkaupsverði vörulagersins séu raunhæfir og að innkaupsverð (kostnaðarverð) lagersins hafi verið kr. 14.358.508.

4.             Niðurstaðan af skoðun okkar leiddi í ljós, að forsendur fyrir álagningu voru þær sem okkur var tjáð og í samræmi við forsendur sem starfsmenn VÍS notuðu við útreikning á kostnaðarverði vörulagersins. Á árinu 2015 lækkaði VSK hlutfall úr 25,5% í 24% og innflutningstollar, sem áður voru af hluta af söluvörum matsbeiðanda, voru felldir niður. Hvorutveggja hafði þau áhrif að álagning hjá matsbeiðanda hækkaði á árinu 2015 frá því sem áður var, þar sem lægri opinberar álögur skiluðu sér ekki að fullu í útsöluverði varanna. Hluti af þeim lager sem ónýttist voru nýjar vörur, keyptar á árinu 2015 og hluti eldri vörur. Til að svara spurningunni um hvað við teljum hæfilega álagningu á þær vörur sem við teljum að hafi verið óseljanlegar, þykir okkur rétt að miða við meðalálagningu áranna 2014 og 2016, eins og hún kemur fram í ársreikningi fyrir hvort ár. Álagning samkvæmt ársreikningi 2014 var 98,36% og 108,57% samkvæmt ársreikningi 2016. Ársreikning 2015 teljum við ekki marktækan í þessu sambandi, í ljósi þess tjóns sem félagið varð fyrir og hér um ræðir. Við teljum því að hæfileg álagning á þær vörur sem við teljum óseljanlegar sé 103,47%.

5.             Í ljósi framangreindrar niðurstöðu okkar á því hvað hafi verið hæfileg álagning á þær vörur sem ónýttust, metum við að framlegð af þeim vörum hafi getað verið kr. 14.850.000.

                Framangreindir matsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi og staðfestu matsgerð sína og svöruðu spurningum um efni hennar.

 

II

                Stefnandi kveður stefnda hafi valdið rykmengun er hann viðhafði múrbrot á eignarhluta sínum í verslunarmiðstöðinni að Hafnarstræti 99-101. Stefndi hafi gert einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að rykmengun bærist inn í aðrar verslanir í húsinu, en þær hafi augljóslega verið ófullnægjandi. Hafi verkfræðingur á vegum stefnanda skoðað aðstæður og skilað minnisblaði sem liggi fyrir í málinu. Komi þar fram að rými þar sem vinna hafi farið fram hafi verið skermað með plastdúk, frágangur hafi verið sæmilegur og samskeyti límd. Þá kemur fram að múrbrot í rýminu og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar hafi valdið því að ryk hafi borist í verslun stefnanda.

                Engar aðrar framkvæmdir hafi verið í gangi í húsinu og kveðst stefnandi byggja á því að engin önnur ástæða geti verið fyrir rykmengun í verslun hans en fyrrnefndar framkvæmdir á vegum stefnda. Þá telur hann augljóst að stefndi hafi ekki gætt þess að gera nægjanlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja að ryk bærist um húsið og þar með í verslun stefnanda sem hafi verið rétt við þann hluta hússins sem stefnandi hafi verið að breyta. Sé eðlilegt að gera þær kröfur til stefnda, sem verið hafi að breyta verslunarhúsnæði, að hann gerði allt sem í hans valdi stæði til að fyrirbyggja að ryk bærist inn í önnur verslunarrými. Þar sem hann hafi ekki gert það beri hann skaðabótaábyrgð á afleiðingum þeirrar vanrækslu sinnar gagnvart stefnanda. Kveðst stefnandi byggja á því að tjón sem af þessu hlaust hafi verið fyrirsjáanlegt í ljósi þess að stefndi hafi verið að vinna við múrbrot inni í verslunarmiðstöð.

                Er starfsmaður stefnanda hafi komið til vinnu að morgni 13. mars 2015 hafi hann orðið var við að ryk hafi verið yfir öllu í versluninni. Þetta hafi reynst vera múrryk og hafi það borist í allan fatnað í versluninni. Hafi það verið mat kunnáttumanna að hluti varanna væri óseljanlegur þar sem ekki væri hagt að hreinsa rykið úr fötunum án þess að á þeim sæist. Hafi Vátryggingarfélag Íslands hf. talið og verðmetið vörur sem félagið taldi óseljanlegar og liggi gögn um þetta fyrir í málinu. Félagið hafi síðan greitt bætur til stefnanda og séu umræddar vörur í vörslum þess. Þetta mat kveður stefnandi að hafi verið staðfest með yfirmatsgerð sem liggi fyrir í málinu. Kveður stefnandi að fjárkrafa hans sé byggð á umræddri yfirmatsgerð.

                Vísar stefnandi til þess að verðmæti þeirrar vöru sem talin sé óseljanleg hafi verið metið 14.358.508 krónur af yfirmatsmönnum en það sé innkaupsverð vörunnar sem hafi skemmst. Kveðst stefnandi krefjast þess að stefndi bæti honum þetta tjón.

                Í yfirmatsbeiðni hafi verið óskað eftir að yfirmatsmenn leggðu mat á hver hefði orðið framlegð af þeim vörum sem metnar voru óseljanlegar. Meta matsmenn tapaða framlegð miðað við meðalálagningu áranna 2014 og 2016 eins og hún komi fram í ársreikningum stefnanda. Niðurstaða yfirmatsmanna sé að framlegðin hefði orðið 14.850.000 krónur af hinum óseljanlegu vörum. Kveðst stefnandi gera kröfu um að stefndi bæti honum þetta tjón. Stefnandi hafi haldið rekstri sínum áfram og hafi þurft að taka lán til að kaupa inn í verslunina að nýju. Sé byggt á því að stefnandi hafi greitt allan breytilegan og fastan kostnað af rekstri sínum án þess að njóta framlegðar af þeirri vöru sem talin hafi verið óseljanleg með tilheyrandi áhrifum á afkomu í rekstrinum. Hann telji því hluta af tjóni sínu vera hina töpuðu framlegð sem hann hefði haft af sölu hinnar skemmdu vöru. Við það sé miðað að við mat á tjóni stefnanda að þessu leyti sé ekki beitt hefðbundnum aðferðum við að finna út ætlaðan hagnað af sölu á þeim vörum sem metnar hafi verið óseljanlegar. Ástæðan sé sú að stefnandi hafi haldið áfram rekstri og hafi þegar greitt allan breytilegan og fastan kostnað af rekstrinum. Sú framlegð sem yfirmatsmenn telji að hafi tapast sé því beint tjón stefnanda sem hann krefjist að stefnandi bæti.

                Þá vísar stefnandi til þess að innborgun á kröfuna stafi af greiðslu Vátryggingarfélags Íslands hf. inn á hana.

 

 

III

                Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað að tjón stefnanda megi rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi stefnda eða starfsmanna á hans vegum, enda hafi allur umbúnaður við verkið verið eins góður og ætlast hafi mátt til við þessar aðstæður. Fullyrðingar í stefnu um frágang á vettvangi séu byggðar á minnisblaði nafngreinds verkfræðings sem kallaður hafi verið til af hálfu lögmanns stefnanda þremur dögum eftir tjónsatburð. Ekki sé að sjá að stefnda hafi verið gert viðvart eða honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við verkfræðinginn. Í minnisblaðinu segi að það rými þar sem múrbrot hafi farið fram hafi verið skermað frá ganginum með plastdúk og frágangur hafi verið „…sæmilegur, samskeyti límd.“ Enn fremur segi: „Múrbrot í rýminu og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar á meðan er talin hafa orsakað rykmengunina yfir í húsnæði Rósarinnar. Veggurinn milli Rósarinnar og gangsins er úr gleri, rifur eru milli glerrúðanna auk þess sem op (ca. 0,1 m²) er efst í veggnum fram á ganginn.

                Stefndi kveðst benda á að skoðun verkfræðingsins hafi farið fram þremur dögum eftir tjónsatburðinn og sé því ekki ótvíræð sönnun um ástandið eins og það hafi verið þegar hann átti sér stað. Þannig sé ekki hægt að útiloka að frágangur á plastdúknum hafi verið að einhverju leyti breyttur t.d. hafi límingar losnað.

                Stefndi veki athygli á að fram komi í minnisblaðinu að glerveggur milli Rósarinnar og gangsins sem sé milli verslunarrýmanna sé þannig úr garði gerður að rifur séu milli glerrúða og auk þess sé op efst á honum fram á ganginn. Þarna komi fram að hönnun á verslunarrými stefnanda virðist vera með þeim hætti að ryk eigi mjög greiða leið inn í rýmið. Stefndi kveðst hafna því að hann beri ábyrgð á þessu og telur það vera á eigin ábyrgð stefnanda að sjá til þess að húsnæði hans sé rykþétt, einkum í ljósi þess að þar séu vörur sem viðkvæmar séu fyrir ryki. Því sé ekki um saknæmt gáleysi að ræða af hálfu stefnanda, enda hafi hann gert það sem til hafi mátt ætlast af honum til að koma í veg fyrir að ryk bærist frá framkvæmdum hans og ylli skaða. Ef frágangur á verslunarrými stefnanda sjálfs hefði verið með forsvaranlegum hætti hefði tjónið aldrei orðið og því sé um eigin sök stefnanda að ræða.

                Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að tjón hans megi án vafa rekja til saknæmrar háttsemi stefnda. Stefndi byggi á því að sú sönnun liggi ekki fyrir. Ekki hafi verið aflað sönnunargagna um hvernig ástandið hafi verið strax eftir tjónsatburðinn t.d. með ljósmyndum eða lögregluskýrslum.

                Varðandi varakröfu um lækkun dómkrafna kveðst stefndi byggja á því að þrátt fyrir að stefnufjárhæðin sé byggð á fyrirliggjandi yfirmatsgerð sé kröfufjárhæðin ósönnuð, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fjárhæð tjóns síns.

                Stefnufjárhæðin sé samsett úr tveimur fjárhæðum; annars vegar innkaupsverði vörunnar og hins vegar af framlegð af sömu vörum, samkvæmt mati yfirmatsmanna. Stefndi kveðst mótmæla því að bótakrafa sé byggð á tapaðri framlegð eins og gert sé. Framlegð sé skilgreind þannig að um sé að ræða tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Framlegð sé ekki sama og hagnaður því fyrirtæki þurfi einnig að borga fastan kostnað, sem sé m.a. laun starfsmanna, húsnæðiskostnaður, rafmagn, hiti, vaxtakostnaður o.fl. Stefndi kveðst benda á að matsmennirnir meti einungis framlegð en ekki tapaðan hagnað, enda ekki um það beðnir. Ljóst sé að mati stefnda að stefnandi hafi haft verulegan fastan kostnað við rekstur verslunar sinnar svo sem vinnulaun og vaxtakostnað og kveðst stefndi vísa um það til framlagðra ársreikninga stefnanda. Þessi kostnaður hefði komið fram að fullu þótt tjónið hefði ekki orðið og dregist frá framlegð. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stefnanda til að sanna tapaðan hagnað og verði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndi byggi því á þeirri málsástæðu að hafna beri þessum þætti í bótakröfu stefnanda algerlega, því aðeins sé heimilt að bæta tapaðan hagnað en ekki tapaða framlegð, enda sé töpuð framlegð ein og sér ekki raunverulegt fjártjón.

                Stefndi kveðst jafnframt byggja á því að stefndi hafi ekki reynt allt sem hægt hafi verið til að takmarka tjón sitt. Bendir stefndi á að jafnvel þótt vörurnar séu taldar óseljanlegar sé alkunna að nánast allt megi selja fyrir eitthvert verð og því hefði mátt minnka tjónið hefði það verið reynt til þrautar. Þá hafi ekki verið tekið tillit til þess að alltaf má gera ráð fyrir einhverjum afföllum af söluvörum.

                Stefndi kveðst vísa til almennu skaðabótareglunnar og meginreglna skaðabótaréttarins til stuðnings kröfum sínum. Varðandi kröfu um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Við munnlegan málflutning mótmælti stefndi einnig upphafsdegi dráttarvaxta og kvað kröfuna sem beint var að umbjóðanda sínum ekki hafa verið nægilega skýra er honum var sent afrit yfirmatsgerðar með bréfi lögmanns stefnanda 8. Desember 2017.               

 

IV

Í máli þessu er óumdeilt að það ryk sem barst inn í verslun stefnanda aðfaranótt 13. mars 2015 gat aðeins stafað frá framkvæmdum á vegum stefnda handan gangsins í verslunarmiðstöð þeirri þar sem báðir aðilar voru með verslunarpláss. Þá liggur fyrir að stefndi hafði gert tilraun til að varna því að ryk bærist fram á sameiginlegan gang með öðrum verslunum. Fyrir liggur að er fyrirsvarsmaður stefnda kom í verslunarpláss sitt umræddan morgun veitti hann því athygli að plast hafði rifnað frá. Í framburði vitna, skoðunarmanns tryggingafélags og verkfræðings sem stefnandi fékk til að kanna aðstæður kom fram að hvorugur þeirra taldi rykvarnir hafa verið fullnægjandi og kvaðst annar þeirra hafa séð að byggingaplast gapti við loft. Þykir með framburði fyrirsvarsmanns stefnda og framangreindra tveggja vitna, verða að leggja til grundvallar að umbúnaður á byggingaplasti því sem stefndi setti upp hafi verið með þeim hætti að ekki hafi verið fulltryggt að ryk bærist ekki í aðrar verslanir. Er það mat dómsins að þessi vanbúnaður verði metinn stefnda til sakar og ekkert sé komið fram í málinu sem bendi til óhappatilviks eða sakar annarra manna sem stefndi ber ekki ábyrgð á. Ber hér að  athuga að vindstyrkur fyrir utan verslunina, sem gæti hafa átt þátt í því að plast losnaði við umgang um útihurð er atriði sem starfsmenn stefnda hefði að réttu átt að hafa í huga er þeir gengu frá rykvörnum. Þá verður að leggja til grundvallar að starfsmönnum stefnda mátti vera ljóst að þeir unnu við mjög rykmengandi endurbætur á húsnæði sínu sem staðsett var í verslunarmiðstöð þar sem verslanir voru í fullum rekstri.

Stefnda dugar ekki að bera fyrir sig að rifur meðfram glerjum sem aðskildu verslun stefnanda frá sameiginlegum gangi hafi verið óforsvaranlegur og ryk hafi borist inn í verslunina af þeim sökum. Verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að aðgreining á verslun stefnanda frá sameiginlegum gangi hafi verið ábótavant miðað við að um var að ræða verslunarmiðstöð.

Af framangreindum sökum verður lagt til grundvallar að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð í verslun stefnanda umræddan dag. Telst og sýnt að orsakasamband var á milli tjónsins og þess vanbúnaðar á rykvörnum sem fyrr er getið og er það einnig mat dómsins að tjón stefnanda hafi verið sennileg afleiðing af þeim vanbúnaði.

Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir til sönnunar tjóns þess sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir. Eru þær samstíga í því mati að þær vörur sem fjarlægðar voru úr versluninni í kjölfar atburðarins og fluttar til VÍS hf. hafi allar verið skemmdar og að ekki hafi verið hægt að selja þær sem nýjar tískuvörur. Þá fallast matsmenn einnig á að starfsmenn VÍS hf. hafi réttilega metið innkaupsverð samtals að fjárhæð 14.358.508 krónur. Þar sem framangreindu mati hefur ekki verið hnekkt er það mat dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem framangreindri fjárhæð nemur að frádreginni þeirri greiðslu sem VÍS hf. greiddi stefnanda vegna þess.

Stefndi gerir athugasemdir við að bótakrafa stefnanda taki einnig til missis framlegðar af sölu umræddrar vöru og kveður að réttara sé að líta til missis hagnaðar. Hann bendir á í þessu sambandi að tap hafi verið á rekstri verslunar stefnanda samkvæmt ársreikningum sem liggi fyrir.

Með yfirmatsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, hefur stefnandi gert nægilega líklegt að sala umræddrar vöru í verslun hans, hefði skilað rekstrinum framlegð að fjárhæð 14.800.000 krónur. Er fallist á með stefnanda að með yfirmatsgerð sé nægilega sannað að reksturinn hafi farið á mis við þessa fjárhæð og að sýnt sé að tjón stefnanda verði ekki fullbætt með innkaupsverði vörunnar einu. Liggur ekki annað fyrir en að fastur kostnaður við reksturinn hafi verið greiddur vegna rekstrarársins 2015 og því verði að leggja til grundvallar að framlegð vegna þeirra vara sem ónýttust hefði að fullu komið á móti þeim kostnaði greiða þurfti. Hefur stefndi í engu reynt að hnekkja þeirri sönnun sem í yfirmati felst og er ekki tilefni til annars en að leggja yfirmatsgerðina til grundvallar við ákvörðun bótafjárhæðar.

Af hálfu stefnda hafa ekki verið færðar nægar sönnur á það að stefnandi hafi ekki gripið til nægilegra ráðstafana til að takmarka tjón sitt. Kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnanda að innkaup tískufatnaðar væru gerð með margra mánaða fyrirvara og henni hefði því ekki verið kleift að afla nýs fatnaðar til að selja í stað þess sem eyðilagðist. Í framburði annars yfirmatsmanna kom fram staðfesting á því að þannig væri þessu háttað í fataverslun og pantanir væru gerðar með margra mánaða fyrirvara. Þá hefur ekki verið hnekkt því mati matsmanna að umræddur fatnaður hafi verið óseljanlegur í því ástandi sem hann var. Að svo komnu hvílir sönnunarbyrði um hið gagnstæða á stefnda og hefur honum ekki tekist slík sönnun.

Samkvæmt framansögðu verðu fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett. Upphafsdagur dráttarvaxta er ákveðinn sá dagur er mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, sem var 17. maí 2017, en taka verður undir með stefnda um að þá fyrst hafi honum verið birt skýrlega bótakrafa stefnanda.

Með vísan til framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til þess kostnaðar sem stefnandi bar af dómkvaðningu matsmanns og yfirmatsmanna.

Af hálfu stefnanda flutti málið Árni Pálsson lögmaður.

Af hálfu stefnda flutti málið Arnar Sigfússon lögmaður.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð

                Stefndi, Sportver ehf., greiði stefnanda, Stefu ehf., 29.208.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar voru inn á kröfuna 8. maí 2015.

Stefndi greiði stefnanda 2.186.593 krónur í málskostnað.