Kröfu móðurfélags um endurgreiðslu á fjármagnstekjuskatti vegna staðgreiðslu af arði frá dótturfélagi hafnað

19.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem félagið IS krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður Ríkisskattstjóra þar sem hafnað var beiðni hans um endurgreiðslu á fjármagnstekjuskatti vegna staðgreiðslu af arði frá dótturfélagi sínu I ehf. Ágreiningurinn laut að því hvort arðgreiðslan hefði fullnægt því skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög að hafa verið úthlutað úr frjálsum sjóði I ehf. og hvort fjármunum félagsins hefði verið úthlutað til hluthafa með lögmætum hætti. Reikningsskil I ehf. voru gerð eftir hlutdeildaraðferð samkvæmt 40. og 41. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og var sá arður sem greiddur var IS til kominn vegna hagnaðar af rekstri dótturfélaga I ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994 væri einungis heimilt að úthluta sem arði úr einkahlutafélagi hagnaði samkvæmt samþykktum ársreikningi síðasta reikningsárs, yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum og frjálsum sjóðum eftir að dregið hefði verið frá tap sem ekki hefði verið jafnað og það fé samkvæmt lögum eða félagssamþykktum skyldi lagt í varasjóð eða til annarra þarfa. Í lögunum væri enga heimild að finna fyrir frekari úthlutun arðs, þar með talið í tilvikum móðurfélaga sem beittu hlutdeildaraðferð í reikningsskilum sínum á grundvelli laga nr. 3/2006. Taldi Hæstiréttur ekki unnt að fallast á að dómur réttarins 4. desember 2014 í máli nr. 786/2013 ætti að leiða til þeirrar ályktunar við skýringu á ákvæðum 74. gr. laga nr. 138/1994 að bókhaldsleg færsla á hagnaðarhlutdeild frá dótturfélagi geti innan reikningsársins myndað sjóð hjá móðurfélagi til úthlutunar arðs án þess að slík hagnaðarhlutdeild hafi í reynd verið greidd út á milli félaganna í formi arðs. Þótt hlutdeildaraðferð hefði verið beitt við uppgjör samstæðu I ehf. og dótturfélaga þess leiddi slík reikningsskil ekki til rýmri heimilda til arðgreiðslna en mælt væri fyrir um í 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994. Var því ekki talið uppfyllt skilyrði fyrir endurgreiðslu staðgreiðsluskatts að um löglega úthlutaðan arð hefði verið að ræða til handa IS.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.