Ágreiningur um greiðsluskyldu íslenska ríkisins vegna reksturs hjúkrunarheimilis

16.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem G höfðaði gegn Í og krafðist greiðslu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar á árunum 2013 til 2015. Var málatilbúnaður G reistur á því að framlög til heimilisins frá Í með daggjöldum hefði ekki nægt fyrir rekstrarkostnaði. Aðilar höfðu gert samning í maí 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Garðabæ. Í þeim samningi var meðal annars tekið fram að aðilar myndu gera samning um rekstur hjúkrunarheimilisins en slíkur samningur var aldrei gerður. Með vísan til þess var í dómi Hæstaréttar talið að Í hefði ekki skuldbundið sig til greiðslu alls kostnaðar við rekstur hjúkrunarheimilisins og að greiðsluskylda Í yrði ekki reist á vanefnd samningsskuldbindingar gagnvart G. Þá taldi rétturinn að Í hefði axlað skyldur sínar að lögum gagnvart G með því að tryggja sveitarfélaginu fjárveitingar á fjárlögum á umræddum árum. Var Í því sýknað af kröfum G.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.