Dómur um kröfu um ógildingu ákvörðunar hluthafafundar ómerktur

09.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dómi í máli sem S og G ehf. og S höfðuðu gegn S hf. og kröfðust þess að ógilt yrði ákvörðun hluthafafundar S hf. þar sem samþykkt var að selja Fox ehf. lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli. Töldu þeir að ákvörðunin hefði verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa og félagsins. Héraðsdómur hafði fallist á kröfu S og G ehf. og S og ógilti ákvörðun hluthafafundarins um sölu beggja lóðanna en með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var krafa þeirra tekin til greina að hluta og ákvörðunin ógilt hvaða varðaði Austurveg 12. Hæstiréttur vísaði til 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem fram kemur að verði úrslit dómsmáls þau að ákvörðun hluthafafundar teljist ógild skuli ómerkja ákvörðunina eða breyta henni. Breytingu á ákvörðun hluthafafundar sé þó einungis hægt að gera sé hennar krafist og á færi dómsins sé að ákveða hver efnisákvörðunin hefði réttilega átt að vera. S og G ehf. og S hefðu lagt í öndverðu þann grundvöll að málatilbúnaði sínum á hendur S hf. að krefjast ógildingar á ákvörðuninni í heild og S hf. hafi frá upphafi krafist sýknu af þeirri kröfu. Hvorugir aðila hefði við meðferð málsins krafist breytinga á henni.Var því talið að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ógildingu ákvörðunar hluthafafundarins varðandi einungis aðra lóðina hefði verið í andstöðu við 4. mgr. 96. gr. auk þess sem hún hefði farið í bága við 1. mgr. 111. gr., sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið hefði því verið dæmt á röngum grundvelli og var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

 

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.