Print

Mál nr. 57/2019

Stemma hf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
gegn
Sjarmi og Garmi ehf. og Sigmari Vilhjálmssyni (Tómas Jónsson lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
 • Hlutafélag
 • Málsforræði
 • Kröfugerð
 • Ómerking dóms Landsréttar
Reifun

S og G ehf. og S höfðuðu mál gegn S hf. og kröfðust þess að ógilt yrði ákvörðun hluthafafundar S hf. þar sem samþykkt var að selja Fox ehf. lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli. Töldu þeir að ákvörðunin hefði verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa og félagsins. Héraðsdómur hafði fallist á kröfu S og G ehf. og S og ógilti ákvörðun hluthafafundarins um sölu beggja lóðanna en með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var krafa þeirra tekin til greina að hluta og ákvörðunin ógilt hvaða varðaði Austurveg 12. Hæstiréttur vísaði til 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög þar sem fram kemur að verði úrslit dómsmáls þau að ákvörðun hluthafafundar teljist ógild skuli ómerkja ákvörðunina eða breyta henni. Breytingu á ákvörðun hluthafafundar sé þó einungis hægt að gera sé hennar krafist og á færi dómsins sé að ákveða hver efnisákvörðunin hefði réttilega átt að vera. S og G ehf. og S hefðu lagt í öndverðu þann grundvöll að málatilbúnaði sínum á hendur S hf. að krefjast ógildingar á ákvörðuninni í heild og S hf. hafi frá upphafi krafist sýknu af þeirri kröfu. Hvorugir aðila hefði við meðferð málsins krafist breytinga á henni.Var því talið að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ógildingu ákvörðunar hluthafafundarins varðandi einungis aðra lóðina hefði verið í andstöðu við 4. mgr. 96. gr. auk þess sem hún hefði farið í bága við 1. mgr. 111. gr., sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið hefði því verið dæmt á röngum grundvelli og var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2019. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjenda og málskostnaðar úr hendi þeirra í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 17. desember 2019. Þeir krefjast þess að ógilt verði ákvörðun hlutahafafundar aðaláfrýjanda 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja Fox ehf. lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli, auk stofnkostnaðar og annarra réttinda tengdum þeim, samkvæmt drögum að kaupsamningi í maí 2016. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda á öllum dómstigum.

I

Í málinu greinir aðila á um hvort fullnægt sé skilyrðum 95. og 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög til að ógilda þá ákvörðun hluthafafundar í aðaláfrýjanda 9. maí 2016 að selja Fox ehf. lóðarréttindi félagsins að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli og önnur réttindi tengd þeim í samræmi við drög að kaupsamningi sem lögð voru fyrir fundinn. Af hálfu gagnáfrýjenda er á því byggt að ákvörðunina beri að ógilda þar sem hún hafi verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa og félagsins en því er andmælt af hálfu aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandinn Sigmar var á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin stjórnarmaður í aðaláfrýjanda og gagnáfrýjandinn Sjarmur og Garmur ehf. einn þriggja hluthafa í félaginu. Aðal- og gagnáfrýjendur óskuðu báðir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar og var áfrýjunarleyfi veitt á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu á 95. og 96. gr. laga nr. 2/1995.

II

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er nánar rakið voru aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandinn Sjarmur og Garmur ehf. stofnaðir í apríl 2014 til að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd Skúla Gunnars Sigfússonar og gagnáfrýjandans Sigmars Vilhjálmssonar um eldfjallasetur sem unnið hafði verið að frá árinu 2013. Er í hinum áfrýjaða dómi gerð nánari grein fyrir eignarhaldi í fyrrgreindum tveimur félögum og samkvæmt því sem þar kemur fram fór umræddur Skúli Gunnar með ráðandi hlut í aðaláfrýjanda í gegnum eignarhald sitt í einkahlutafélögunum Leiti og Gufupressunni. Samkvæmt viðskiptaáætlun fyrir eldfjallaverkefnið frá september 2014 laut það í senn að uppbyggingu og rekstri sýningar og byggingu fasteignar fyrir hana og var því á þeim tíma litið á fasteigna- og sýningarhluta verkefnisins sem eina heild.

Þegar leið á árið 2015 magnaðist samkvæmt gögnum málsins ágreiningur gagnáfrýjandans Sigmars og Skúla Gunnars um það hvernig staðið skyldi að fasteignahluta verkefnisins. Er svo að sjá sem Skúli Gunnar hafi snemma ársins ákveðið að taka að sér fasteignahlutann í samstarfi við Pálma Harðarson eiganda Þingvangs ehf. sem eftir það var með í ráðum um þann þáttinn og lagði til hans fé. Settar voru fram hugmyndir um að gagnáfrýjandinn Sigmar yrði keyptur út úr fasteignahlutanum en það gekk ekki eftir. Aðaláfrýjanda barst í september 2015 tilboð frá Þingvangi ehf. í allar „eignir Stemmu hf. ... er varða fasteignahluta ... verkefnisins“ en tilboðið sem var bundið tímafrestum rann út án þess að afstaða væri tekin til þess á stjórnarfundi í aðaláfrýjanda 25. september 2015.

Aðaláfrýjandi stofnaði einkahlutafélagið Butru ehf. í október 2015 en heiti þess var síðar breytt í Lava-Eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands ehf. (Lava). Í tengslum við fyrirhugaða hlutafjáraukningu í Butru ehf. gerðu væntanlegir hluthafar í félaginu með sér samkomulag 5. nóvember 2015 sem jafnframt fól í sér áskriftarloforð. Í því sagði að stofnandi Butru ehf. og eini eigandi við gerð samkomulagsins væri aðaláfrýjandi. Félagið væri stofnað í þeim tilgangi að skapa umgjörð fyrir aðkomu þeirra sem væru aðilar að samkomulaginu um uppsetningu og rekstur á sýningu á Hvolsvelli með áherslu á jarðfræði Suðurlands, einkum eldfjöll og eldvirkni. Með verkefninu væri hvorki átt við fasteign sem „sýningin/eldfjallamiðstöðin verður staðsett í né heldur veitingarekstur eða annan rekstur sem kann að tengjast sýningunni/eldfjallamiðstöðinni. Aðilar eru þó sammála um að ITF megi hafa aðkomu í minjagripaverslun sem rekin verður í tengslum við eldfjallamiðstöðina ... Stjórn Félagsins mun semja um leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist verður fyrir sýninguna/eldfjallamiðstöðina og mun jafnframt hafa ákvörðunarvald um það við hvern aðila er samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignarinnar. Ákvörðun stjórnar Félagsins skal byggja á málefnalegum ástæðum ... Eitt af markmiðum samkomulagsins er að tryggja tiltekna minnihlutavernd og leggja þannig grunn að farsælu samstarfi hluthafa um meðferð og stjórn á Félaginu.“

Hluthafasamkomulagið var lagt fyrir stjórnarfund í aðaláfrýjanda 12. nóvember 2015 og heimild stjórnarformanns til undirritunar þess þar samþykkt. Í bókun frá fundinum kemur fram að gagnáfrýjandinn Sigmar hafi lýst ánægju með gerð þess. Á fundinum var einnig, eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi, lagt fram tilboð Hótel Vatnajökuls ehf. frá 5. nóvember 2015 í „fasteignahluta LAVA verkefnisins“ en fjárhæð þess nam 50.000.000 króna og taldi gagnáfrýjandinn Sigmar á fundinum rétt að samþykkja tilboðið en því hafnaði meiri hluti stjórnar. Hlutafjáraukningin í Butru ehf., síðar Lava, gekk eftir og í kjölfar hennar  voru hluthafar í félaginu Landsbréf-Icelandic Tourism Fund (ITF) með 54,73% hlut, Eimskipafélag Íslands hf. með 6,84%, Kynnisferðir ehf. með 4,56%, Þingvangur ehf. með 3,99%, Norðurflug ehf. með 2,85% og aðaláfrýjandi með 27,02% hlut.  

Deiliskipulag vegna eldfjallaseturs og hótels á lóðunum nr. 12 og 14 við Austurveg á Hvolsvelli var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra 16. apríl 2015. Umsókn aðaláfrýjanda til sveitarstjórnarinnar um leigu lóðanna tveggja var samþykkt 3. september 2015 og í ágúst árið 2016 gerði aðaláfrýjandi tvo samninga við sveitarstjórnina um leigu umræddra lóða til 75 ára. Var lóðin nr. 12 leigð undir hótel en lóðin nr. 14 til byggingar eldfjallaseturs. Samkvæmt framburði þáverandi sveitarstjóra fyrir dómi var ekkert greitt fyrir lóðirnar í upphafi og 50% afsláttur gefinn af gatnagerðargjöldum en árleg lóðarleiga ákveðin 1% af fasteignamati hvorrar lóðar fyrir sig. Leigutaka var samkvæmt leigusamningunum heimilt að selja og veðsetja leigurétt sinn yfir lóðunum ásamt húsum og mannvirkjum.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var haldinn hluthafafundur í aðaláfrýjanda 9. maí 2016. Eina dagskrármálið var ósk Gufupressunnar ehf. og Leitis ehf. um „að hluthafafundur taki ákvörðun um samkomulag um sölu á lóð og kostnaði tengdum henni til Fox ehf., til samræmis við drög að kaupsamningi sem lagður er fyrir fundinn.“ Í drögunum kom fram að hið selda væru fasteignirnar Austurvegur 12 og 14 á Hvolsvelli, nánar tiltekið „lóðir við Austurveg 12 og 14 ... byggingarleyfisumsóknir og öll réttindi og leyfi sem fylgja umræddum lóðum. Lóðirnar eru ætlaðar undir byggingu fyrir annars vegar sýningu/eldfjallasetur ... og hins vegar hótelbyggingu ... Kaupverðið fyrir hið selda eru kr. 40.000.000 ... sem skiptist þannig að greiddar eru kr. [25.000.000 (tuttugu og fimm milljónir króna)] fyrir eldfjallaseturslóðina og kr. [15.000.000 (fimmtán milljónir króna)] fyrir hótellóðina.“ Kaupverðið skyldi greitt inn á tilgreindan reikning í eigu seljanda þannig að 25.000.000 króna skyldu að uppfylltu tilteknu skilyrði greiðast 25. júní 2016 og 15.000.000 króna eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að byggingarleyfi hefði fengist fyrir byggingu á hótellóðinni. Samkvæmt fundargerð hluthafafundarins var samningurinn borinn undir atkvæði og samþykktur með 63,64% atkvæða Gufupressunnar ehf. og Leitis ehf. gegn 36,26% atkvæða gagnáfrýjandans Sjarms og Garms ehf.

Í málinu liggur fyrir kaupsamningur aðaláfrýjanda og Fox ehf. 12. maí 2016 um lóðina nr. 14 við Austurveg og var efni hans um hið selda og kaupverðið í samræmi við samningsdrögin sem lögð voru fyrir hluthafafundinn 9. maí 2016. Aðaláfrýjandi afsalaði 5. september 2016 þeirri lóð til Fox ehf. og kom þar fram að kaupverðið hefði verið greitt. Meðal gagna málsins er kaupsamningur 14. október 2016 milli aðaláfrýjanda og Fox ehf. um lóðina nr. 12 við Austurveg. Í honum sagði um kaupverðið að kaupandi lofaði að greiða fyrir þau réttindi sem fælust í hinu selda 25.000.000 króna með peningum inn á bankareikning sem seljandi tilgreindi eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að byggingarleyfi hefði fengist fyrir byggingu á lóðinni. Að öðru leyti var í kaupsamningnum vísað til þess að um réttindi og skyldur kaupanda og seljanda vegna hins selda færi eftir kaupsamningi aðila 12. maí 2016 og viðauka sem gerður hefði verið við hann.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var Fox ehf. á árunum 2014 og 2015 í eigu Harðar Jónssonar. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 var Pálmar Harðarson orðinn stjórnarmaður félagsins og framkvæmdastjóri þess. Eigandi Fox ehf. var á hinn bóginn Marnes ehf. og Pálmar Harðarson stjórnarformaður þess félags. Þess er og getið í hinum áfrýjaða dómi að af hálfu gagnáfrýjandans Sigmars sé því haldið fram að Pálmar Harðarson sé viðskiptafélagi og fjölskylduvinur Skúla Gunnars Sigfússonar.

Með bréfi 2. október 2019 tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi Rangárþings eystra aðaláfrýjanda um fyrirhugaða afturköllun úthlutunar lóðarinnar að Austurvegi 12. Var vísað til þess að samkvæmt 10. gr. reglugerðar um úthlutanir lóða í Rangárþingi eystra væri frestur lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðinni tólf mánuðir frá úthlutun og að hún félli úr gildi ef fresturinn rynni út án þess að lóðarhafi hæfi byggingarframkvæmdir eða setti fram rökstudda beiðni um lengri frest. Var aðaláfrýjanda veittur frestur til 18. október 2019 til að koma á framfæri athugasemdum við fyrirhugaða ákvörðun. Engar athugasemdir bárust frá aðaláfrýjanda og var lóðarúthlutunin afturkölluð 24. október 2019 og lóðarleigusamningi aflýst.

III

Gagnáfrýjendur höfðuðu mál þetta á hendur aðaláfrýjanda 8. ágúst 2016 og að þeirra beiðni var undir rekstri málsins í héraði aflað matsgerðar tveggja dómkvaddra manna um virði lóðarréttindanna að Austurvegi 12 og 14 og annarra tengdra réttinda í maí 2016. Var í matinu óskað sundurliðunar fyrir hvora lóð og jafnframt báðar lóðirnar og réttindi þeim tengd saman. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir aðferð matsmanna og forsendum þeirra. Niðurstaða þeirra var sú að verðmæti lóðarinnar að Austurvegi 14, byggt á svokallaðri sjóðstreymisaðferð, væri á bilinu 100 til 110 milljónir króna. Matsmenn töldu ekki unnt að beita sjóðstreymisaðferð við verðmat á Austurvegi 12 en töldu mesta virði þeirrar lóðar felast í hugsanlegum samlegðaráhrifum í rekstri og fjárfestingu við starfsemina að Austurvegi 14. Að teknu tilliti til samlegðaráhrifa væri verðmæti lóðarinnar að Austurvegi 12 á bilinu 50.000.000 til 80.000.000 króna en án þeirra 25.000.000 króna.

Fyrir Landsrétti var fallist á beiðni aðaláfrýjanda um dómkvaðningu þriggja yfirmatsmanna til að leggja mat á sömu atriði og undirmatsmenn höfðu gert. Yfirmatsmenn beittu í aðalatriðum sömu matsaðferð og undirmatsmenn varðandi Austurveg 14 (sjóðstreymisaðferð) og töldu virði lóðarinnar hafa verið 16.200.000 krónur. Við mat á virði lóðarinnar að Austurvegi 12 beittu yfirmatsmenn samanburðaraðferð svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi og töldu virði lóðarinnar hafa verið 30.000.000 króna ef litið væri til samlegðaráhrifa svo sem vegna samnýtingar bílastæða. Samandregin niðurstaða yfirmatsins var að virði lóðanna saman hefði verið 46.200.000 krónur en hvorrar lóðar fyrir sig á bilinu 33.700.000 króna til 41.200.000 krónur. Þar af hafi virði Austurvegar 14 verið 16.200.000 krónur en Austurvegar 12 á bilinu 17.500.000 krónur til 25.000.000 króna.

Í hinum áfrýjaða dómi er þess getið að helsti munur yfirmats og undirmats skýrist einkum af mismunandi ávöxtunarkröfum sem notaðar voru við útreikninginn en matsaðferðin sé afar næm fyrir tiltölulega lítilli breytingu á henni. Ekki verði séð að undir- og yfirmatsmenn hafi byggt mat sitt í þeim efnum á röngum forsendum en með hliðsjón af því að matsgerð þriggja yfirmatsmanna hafi almennt meira sönnunargildi en matsgerð tveggja undirmatsmanna sé rétt að byggja á yfirmatsgerðinni að þessu leyti. Verði undirmatsgerðin því ekki lögð til grundvallar í málinu hvað varði verðmæti lóðarréttindanna að Austurvegi 14.

Hvað yfirmatsgerðina varðar er í hinum áfrýjaða dómi í fyrsta lagi talið að yfirmatsmenn hafi ekki fært að því sannfærandi rök að miða miðpunkt tekjuflæðis við 1. október ár hvert í stað þess að miða við mitt ár. Í öðru lagi að ekki hafi í yfirmatinu verið skýrðar með fullnægjandi hætti mismunandi forsendur við val á dagsetningu til viðmiðunar um núvirðingu byggingarkostnaðar. Í þriðja lagi að ekki hafi í yfirmatinu verið færð fullnægjandi rök fyrir því að gera hafi mátt ráð fyrir því að fasteignamat Austurvegar 14 yrði svo miklu hærra en það varð í raun. Í fjórða lagi að sú forsenda yfirmatsgerðar að draga allan byggingarkostnaðinn að meðtöldum kostnaði við öflun lóðarréttinda frá núvirtu verðmæti fasteignarinnar væri ekki í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu og óútskýrð af hálfu yfirmatsmanna. Í fimmta lagi að niðurstaða samanburðarmats yfirmatsmanna væri ekki til þess fallin að byggt yrði á niðurstöðu yfirmatsins enda forsendur matsins óljósar.  

Samkvæmt framangreindu yrði hvorug matsgerðin lögð til grundvallar fullum fetum um verðmæti lóðarréttindanna að Austurvegi 14. Þrátt fyrir þá annmarka sem væru á yfirmatsgerðinni þættu gagnáfrýjendur hafa sýnt fram á að verðmæti lóðarréttindanna hefði verið nokkru meira en það 25.000.000 króna endurgjald sem fyrir þau kom. Gagnáfrýjendum hefði þó ekki tekist að sýna fram á að réttindin hefðu verið seld á svo verulegu undirverði að það eitt og sér gæti leitt til þess að ákvörðun hluthafafundarins um sölu lóðarréttindanna að Austurvegi 14 teldist hafa verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins. Þá segir að þar sem aðrar málsástæður gagnáfrýjenda til stuðnings kröfu um ógildingu ákvörðunar hluthafafundarins þyki ekki á rökum reistar verði áfrýjandi sýknaður af kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar hvað varðar sölu lóðarréttindanna að Austurvegi 14.

Um Austurveg 12 segir í dómi Landsréttar að verðmæti þeirra lóðarréttinda hafi í undirmatsgerð verið talið 25.000.000 króna en 50.000.000 til 80.000.000 króna að teknu tilliti til samlegðaráhrifa. Í yfirmatsgerð hafi þessi sömu lóðarréttindi verið metin á 17.500.000 til 25.000.000 króna en 30.000.000 króna að teknu tilliti til samlegðaráhrifa og séu þau að stórum hluta talin vera vegna sameiginlegrar nýtingar bílastæða og því ekki alfarið bundin við að sami aðili reki fasteignir á báðum lóðunum. Þá er þess og getið að í samningsdrögunum sem lögð voru fyrir hluthafafundinn 9. maí 2016, sem síðar hafi raungerst í endanlegum kaupsamningi um lóðina, hafi engin tímamörk verið sett um hvenær kaupandinn Fox ehf. skyldi í síðasta lagi sækja um byggingarleyfi fyrir hótel á lóðinni og ekki heldur mælt fyrir um úrræði ef kaupandi léti hjá líða að sækja um slíkt leyfi. Kaupandanum hafi þannig verið í sjálfsvald sett hvenær hann tæki ákvörðun um að sækja um byggingarleyfi og þar með greiða kaupverðið. Þá segir að þegar raunverulegt endurgjald sem fékkst fyrir lóðarréttindi aðaláfrýjanda að Austurvegi 12 samkvæmt samningnum við Fox ehf. sé borið saman við niðurstöður bæði undir- og yfirmats um hvert hafi verið verðmæti  réttindanna þegar ákvörðun var tekin um sölu þeirra sé ljóst að verulegur munur hafi verið á verðmætinu og því endurgjaldi sem fyrir þau kom.  

Enn segir í hinum áfrýjaða dómi að vegna hins óvenjulega ákvæðis um greiðslu kaupverðsins verði ekki séð að í samningi um sölu þeirra hafi falist raunveruleg verðmæti fyrir félagið. Með vísan til þess og niðurstöðu bæði undir- og yfirmats um verðmæti réttindanna þyki gagnáfrýjendur hafa sýnt nægilega fram á að þau hafi verið seld á veruleg undirverði. Ákvörðun hluthafafundarins hafi ekki verið til þess fallin að hámarka hagnað aðaláfrýjanda og verði ekki réttlætt með vísan til þeirra sjónarmiða sem hann hafi teflt fram um svigrúm hluthafafundar til að taka viðskiptalegar ákvarðanir sem samrýmist best hagsmunum félagsins. Þættu gagnáfrýjendur því hafa sýnt nægilega fram á að ákvörðun hluthafafundarins um að selja lóðarréttindin að Austurvegi 12 hafi verið fallin til þess að afla Fox ehf. og mögulega ákveðnum hluthöfum í aðaláfrýjanda ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins. Ákvörðunin hafi því verið í andstöðu við 95. gr. laga nr. 2/1995 sem ætlað sé að veita minnihluta hluthafa og félaginu sjálfu vernd gegn ákvörðunum meirihlutans og væri því fallist á kröfu gagnáfrýjenda um ógildingu.

IV

Eins og áður er rakið greinir aðila á um hvort fullnægt sé skilyrðum 95. og 96. gr. laga nr. 2/1995 til að ógilda þá ákvörðun hluthafafundar í aðaláfrýjanda 9. maí 2016 að selja Fox ehf. lóðarréttindin að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli og önnur réttindi tengd þeim í samræmi við drög að kaupsamningi sem lögð voru fyrir fundinn. Héraðsdómur féllst á kröfu gagnáfrýjenda og ógilti ákvörðun hluthafafundarins um sölu beggja lóðanna en með dómi Landsréttar var krafa gagnáfrýjenda tekin til greina að hluta og ákvörðunin ógilt hvað varðar Austurveg 12.    

Í 95. gr. laga nr. 2/1995 segir að hluthafafundur megi ekki taka ákvörðun sem sé til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Ákvæði þetta felur í sér meginreglu um minnihlutavernd sem fyrst og fremst hefur sjálfstætt gildi þegar ekki er sérregla í lögunum um þá tegund ákvörðunar hluthafafundar sem um ræðir. Við setningu laga um hlutafélög nr. 32/1978 var miðað við að ákvörðun hluthafafundar væri bersýnilega fallin til ívilnunar en með lögum nr. 68/2010 var orðið „bersýnilega“ fellt brott úr ákvæðinu í þeim tilgangi að styrkja minnihlutaverndina þannig að einstökum hluthöfum yrði gert auðveldara að byggja rétt sinn á ákvæðum lagagreinarinnar.

Málatilbúnaðar gagnáfrýjenda er hvað efni máls varðar á því reistur að lóðarréttindin sem um ræðir hafi aðaláfrýjandi selt Fox ehf. á undirverði en kaupandinn sé aðili tengdur Skúla Gunnari Sigfússyni, eiganda meirihluta hlutafjár í aðaláfrýjanda. Ákvörðun hluthafafundarins hafi verið til þess fallin að afla kaupandanum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa í aðaláfrýjanda og félagsins sjálfs. Fyrir Hæstarétti byggja gagnáfrýjendur á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og þeir gerðu í héraði og fyrir Landsrétti. Að auki telja þeir dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til og formi þar sem þeir hafi krafist ógildingar á ákvörðun hluthafafundarins í heild en ekki að henni yrði breytt með þeim hætti sem Landsréttur gerði með því að ógilda ákvörðunina einungis að hluta. Þetta hafi falið í sér breytingu á ákvörðuninni sem sé í andstöðu við 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 þar sem slíkrar breytingar hafi ekki verið krafist af hálfu gagnáfrýjenda og þar með hafi skilyrðum greinarinnar ekki verið fullnægt.  

Aðaláfrýjandi reisir efnisvarnir sínar á því að ákvörðun hluthafafundarins 9. maí 2016 hafi hvorki verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum né öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins þannig að ógildingu varði samkvæmt 95. og 96. gr. laga nr. 2/1995. Þá sé það annmarki á hinum áfrýjaða dómi að skipta ákvörðun hluthafafundarins upp og fallast einungis á sölu lóðarréttindanna að Austurvegi 14 en ekki að Austurvegi 12. Um hafi verið að ræða eina ákvörðun viðskiptalegs eðlis sem lotið hafi að því að selja báðar lóðirnar í einu lagi sama aðilanum. Ekkert liggi fyrir um að einhver hafi ætlað að kaupa lóðina að Austurvegi 12 eina og sér og hvorki hafi aðaláfrýjandi né gagnáfrýjendur gert kröfu um að ákvörðun hluthafafundarins yrði breytt og hún brotin upp með þeim hætti sem gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi. Með dómi Landsréttar hafi því ekki einungis verið endurmetið hvað hafi verið rétt viðskiptaleg ákvörðun hluthafafundar í aðaláfrýjanda heldur hafi dómurinn einnig tekið ákvörðun sem aldrei hafi staðið til af hálfu aðaláfrýjanda að taka.  

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 getur hluthafi, stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri félags höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar sem tekin hefur verið með ólögmætum hætti eða brýtur í bága við lögin eða samþykktir félagsins. Báðir gagnáfrýjendur geta á þessum grundvelli höfðað mál þetta og haft uppi dómkröfu til ógildingar á ákvörðun hluthafafundarins 9. maí 2016. Í 4. mgr. 96. gr. laganna kemur fram að verði úrslit dómsmáls þau að ákvörðun hluthafafundar teljist ógild skuli ómerkja ákvörðunina eða breyta henni. Breytingu á ákvörðun hluthafafundar sé þó einungis hægt að gera að hennar sé krafist og á færi dómsins sé að ákveða hvers efnis ákvörðunin hefði réttilega átt að vera. Samkvæmt þessu setur 4. mgr. 96. gr. tvö skilyrði fyrir breytingu á ákvörðun hluthafafundar og þarf þeim báðum að vera fullnægt. Að baki þeim áskilnaði búa þau lagarök að dómstólum sé með breytingu á ákvörðun hluthafafundar fengin í hendur vandmeðfarin heimild þar sem þeim sé ekki ætlað það hlutverk að stjórna þeim málefnum hlutafélags sem háð séu frjálsu mati þess eins og að velja milli tveggja kosta sem í boði séu varðandi tiltekna viðskiptalega ákvörðun.

Kröfugerð í einkamálum er í meginatriðum háð vilja aðila og ráðstafa þeir með henni sakarefni máls. Ráða aðilarnir samkvæmt þessu því hvort mál verður höfðað, úr hvaða kröfum verður leyst og á hvaða röksemdum, sönnunargögnum og staðreyndum úrslit máls velta. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má dómari almennt ekki fara út fyrir kröfur aðila í dómi nema með samþykki þeirra en aðilarnir geta einhliða fallið frá kröfum sínum eða dregið úr þeim. Í 1. mgr. 163. gr. laganna kemur fram að dómar Landsréttar skulu byggðir á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt og gilda ákvæði 1. mgr. 111. gr. laganna einnig um dóma Landsréttar.

Á umræddum hluthafafundi í aðaláfrýjanda var með atkvæðum meirihluta eigenda hlutafjár í félaginu tekin sú ákvörðun að selja Fox ehf. í einu lagi báðar lóðirnar að Austurvegi á Hvolsvelli. Að sama skapi fólst í þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ógilda einungis sölu annarrar lóðarinnar breyting á ákvörðun hluthafafundarins í skilningi 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995. Til sanns vegar má færa að á grundvelli sérþekkingar og matsgerða geti dómstóll eftir atvikum tekið afstöðu til þess hver hefði átt að vera rétt ákvörðun hluthafafundar um tiltekið viðskiptalegt málefni félags. Forsenda þess að dómstóll geti breytt ákvörðun hluthafafundar er þó sú samkvæmt skýru orðalagi 4. mgr. 96. gr. að breytingar sé krafist. Gagnáfrýjendur lögðu í öndverðu þann grundvöll að málatilbúnaði sínum á hendur aðaláfrýjanda að krefjast ógildingar á ákvörðun hluthafafundarins um sölu beggja lóðanna að Austurvegi og þar með á ákvörðun fundarins í heild og aðaláfrýjandi hefur frá upphafi krafist sýknu af þeirri kröfu. Hvorugur aðila hefur á nokkru stigi meðferðar málsins krafist breytingar á ákvörðun hluthafafundarins með þeim hætti sem gert var í hinum áfrýjaða dómi og stóðu því samkvæmt framansögðu ekki skilyrði til slíks að lögum. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ógildingu ákvörðunar hluthafafundarins varðandi einungis aðra lóðina var því  í andstöðu við 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 auk þess sem hún fór í bága við 1. mgr. 111. gr., sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Málið var því dæmt á röngum grundvelli og verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.  

Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

 

 Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                                  

 

 

Dómur Landsréttar 25. október 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon og Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Landsréttar 19. júlí 2018. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. september sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 27. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018 í málinu nr. E-2470/2016.

 2. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að kröfum stefnda, Sigmars Vilhjálmssonar, verði vísað frá dómi og áfrýjandi verði sýknaður af kröfum stefnda Sjarms og Garms ehf. Að því frágengnu krefst hann sýknu af öllum kröfum stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

 3. Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

  Málsatvik

 4. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið hvernig Skúli Gunnar Sigfússon og stefndi Sigmar unnu frá árinu 2013 að því að hrinda í framkvæmd hugmynd um eldfjallasetur. Fyrir liggur að Skúli Gunnar og félög hans lögðu fram stærstan hluta þeirra fjármuna sem þurfti til að koma verkefninu af stað en stefndi Sigmar lagði fram tiltölulega litla fjármuni en mikla vinnu. Áfrýjandi og hið stefnda félag, Sjarmur og Garmur ehf., voru stofnuð í apríl 2014 til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.

 5. Fyrir liggur að stefndi, Sjarmur og Garmur ehf., er að jöfnu í eigu einkahlutafélaganna Immis, sem er í eigu stefnda Sigmars, og Leitis, sem er í eigu Skúla Gunnars. Sjarmur og Garmur ehf. er eigandi 36,36% hlutafjár í áfrýjanda. Leiti ehf. á auk þess 18,18% hlut í áfrýjanda. Annað einkahlutafélag Skúla, Gufupressan, á 45,45% hlut í áfrýjanda. Sjarmur og Garmur ehf. og Leiti ehf. voru eigendur alls hlutafjár í áfrýjanda, að nafnverði 9.000.000 króna, eftir hlutafjárhækkun 30. apríl 2014 en félagið var þá einkahlutafélag. Áfrýjanda var breytt í hlutafélag 5. ágúst 2014 og við hækkun hlutafjár að því tilefni skráði Gufupressan ehf. sig fyrir 7.500.000 króna hlut í áfrýjanda fyrir 50.000.000 króna eða á genginu 6,67. Samkvæmt því hafði Skúli Gunnar tögl og hagldir í áfrýjanda.

 6. Í fyrirliggjandi drögum að ítarlegri viðskiptaáætlun vegna framangreinds verkefnis, sem þá gekk undir nafninu „Lava, eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands“, frá september 2014 kemur skýrlega fram að verkefnið laut að uppbyggingu og rekstri sýningar og byggingu fasteignar undir hana.

 7. Af framburði Skúla Gunnars og stefnda Sigmars fyrir héraðsdómi verður ráðið að framangreind drög að viðskiptaáætlun, sem þeir könnuðust báðir við, endurspegli ráðagerðir þeirra og að þeir hafi á þessum tíma litið á fasteigna- og sýningarhluta verkefnisins sem eina heild.

 8. Stefndi Sigmar lýsti því í skýrslu fyrir héraðsdómi að á fundi sem þeir Ásbjörn Björgvinsson, verkefnastjóri verkefnisins, hafi átt með Landsbréfum-Icelandic Tourism Fund 1 slhf. (ITF) í september 2014, um þá hugmynd að sjóðurinn kæmi sem fjárfestir að verkefninu, hefði komið skýrt fram að sjóðurinn gæti ekki fjárfest í fasteign og að óskað hefði verið eftir því af hálfu sjóðsins að lögð yrði fram tvískipt viðskiptaáætlun, annars vegar fyrir fasteignina og hins vegar fyrir sýninguna. Í kjölfarið hafi Skúli Gunnar sagt berum orðum að hann skyldi taka að sér fasteignaverkefnið.

 9. Í framburði Skúla Gunnars fyrir héraðsdómi kom fram að þótt þetta hefði verið heildarverkefni í byrjun hefði aldrei komið til greina af hans hálfu að leggja út í afmarkað fasteignaverkefni með stefnda Sigmari.

 10. Eins og tölvupóstur Helga Júlíussonar, starfsmanns ITF, 12. febrúar 2015 ber með sér féllst sjóðurinn á að koma að sýningarhluta verkefnisins með 240.000.000 króna hlutafé. Forsenda sjóðsins var að hann fjárfesti aðeins í sýningarhlutanum og mögulega minjagripaverslun en hvorki í fasteignahlutanum né veitingarekstri.

 11. Gögn málsins sýna að ágreiningur Skúla Gunnars og stefnda Sigmars, um hvernig staðið yrði að fasteignahluta verkefnisins, magnaðist á árinu 2015.  Svo virðist sem Skúli Gunnar hafi snemma ársins tekið ákvörðun um að hann tæki að sér þann hluta verkefnisins í samstarfi við Pálmar Harðarson, eiganda Þingvangs ehf., og að hann og félög hans hafi eftir það verið með í ráðum um þann þátt og lagt fjármuni til verkefnisins. Tölvupóstsamskipti Skúla Gunnars, Pálmars og stefnda Sigmars, 31. mars og 8. apríl 2015, sýna að þá voru uppi hugmyndir um að Sigmar yrði keyptur út úr fasteignahlutanum og fengi greiddar 20 milljónir króna. Virðist Skúli Gunnar hafa lagt til að sú fjárhæð yrði greidd af félagi sem myndi annast fasteignahlutann, með fyrirvara um samþykki Pálmars. Pálmar hafnaði hugmyndinni í tölvupósti 8. apríl 2015. Tölvupóstsamskipi Skúla Gunnars og Sigmars, sem bera með sér að hafa átt sér stað 17. apríl 2015, sýna að Skúli Gunnar hafði þá með öllu útilokað að þeir Sigmar ynnu saman að fasteignahluta verkefnisins. Fjölmörg gögn sýna megna óánægju stefnda Sigmars með að áfrýjandi léti frá sér fasteignahluta verkefnisins.

 12. Áfrýjandi stofnaði upphaflega einkahlutafélagið Butru með 9.000.000 króna hlutafé. Eftir aukningu hlutafjár í Butru ehf., sem áfrýjandi tók þátt í með kaupum á hlutafé að nafnvirði 6.800.000 krónur, á áfrýjandi samtals 27,02% hlut í félaginu og heitir það nú Lava – Eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands ehf. (Lava) Nýtt hlutafé í félaginu var selt á genginu 7,5. Nýir hluthafar í Lava voru Landsbréf-Icelandic Tourism Fund 1 slhf. (ITF) með 54,73% hlut, Eimskipafélag Íslands hf. með 6,84% hlut, Kynnisferðir ehf. með 4,56% hlut, Þingvangur ehf. með 3,99% hlut og Norðurflug ehf. með 2,85% hlut.

 13. Umsókn áfrýjanda til sveitarstjórnar Rangárþings eystra um leigu á lóðunum Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 3. september 2015. Lóðaleigusamningar voru undirritaðir 31. ágúst 2016 og voru þeir til 75 ára. Lóðin nr. 12 var leigð undir hótel en lóðin nr. 14 til byggingar eldfjallaseturs. Ekkert var greitt fyrir lóðirnar í upphafi en samkvæmt framburði Ísólfs Gylfa Pálmasonar, þáverandi sveitarstjóra, fyrir Landsrétti var gefinn 50% afsláttur af gatnagerðargjöldum. Árleg leiga var ákveðin 1% af fasteignamati hvorrar lóðar um sig. Leigutaka var heimilt að selja og veðsetja leigurétt sinn á lóðunum ásamt húsum og mannvirkjum á þeim.

 14. Áfrýjanda barst 24. september 2015 tilboð frá Þingvangi ehf. „Í allar eignir Stemmu hf. […] er varða sk. fasteignahluta „LAVA verkefnisins“ sem er verkefni sem undirbúið hefur verið af tilboðshafa og varðar uppbyggingu eldfjallaseturs á Suðurlandi sem ætlað er að verði fjármagnað í samstarfi við ITF1 sjóð Landsbréfa hf., ásamt öðrum fjárfestum.“ Í tilboðinu kom fram að það tæki til allra teikninga, heimilda og leyfa, þar með talið byggingarleyfisumsókna, sem tilboðshafi hefði kostað við undirbúning fasteignahluta verkefnisins og þar með til alls þess kostnaðar sem tilboðshafi hefði lagt í vegna undirbúnings fasteignahlutans, samtals um 25.000.000 króna. Tilboðið var sett fram með fyrirvara um að fyrir lægi samkomulag um leigusamning á milli rekstarfélags og fasteignafélags sem stofnuð yrðu um „LAVA verkefnið“ sem tilboðshafi og tilboðsgjafi sættu sig við. Tilboðið gilti til 28. september 2015.

 15. Frá og með stjórnarfundi í áfrýjanda 25. september 2015 urðu þeir Guðmundur Hjaltason og Bjarki Diego stjórnarmenn í félaginu sem fulltrúar félaga í eigu Skúla Gunnars og varð Guðmundur formaður stjórnarinnar. Stefndi Sigmar sat með þeim í stjórninni en á fundinum var prókúra hans afturkölluð.

 16. Á stjórnarfundinum var fyrrnefnt tilboð Þingvangs ehf. tekið til umfjöllunar og ákveðið að fresta ákvörðun um samþykki þess. Frestur til að samþykkja tilboðið rann því út án þess að tekin væri afstaða til þess af hálfu áfrýjanda.

 17. Á sama stjórnarfundi var upplýst að áfrýjanda hefði borist reikningur frá Vimmis slf., vegna vinnu stefnda Sigmars í þágu áfrýjanda á árinu 2014 og að tímaskýrslur fyrir árin 2014 og 2015 hafi fylgt. Ákveðið var að fresta því að taka afstöðu til reikningsins. Stefndi Sigmar benti á að áfrýjandi hefði áður greitt reikninga frá tveimur félögum sem væru í eigu eða systurfélög stærsta hluthafa áfrýjanda vegna vinnu fyrir þann hluthafa. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur 28. september 2015 frá Skúla Gunnari til stefnda Sigmars og fleiri þar sem hann lýsir yfir andstöðu við að áfrýjandi greiði fyrir vinnu stefnda Sigmars. Þar segir: „Ég hef boðið honum að ræða við Pálmar um að Pálmar greiði þóknun fyrir verkefnið, en Sigmar hefur ekki þegið það.“ Einnig segir þar: „Ég vil fara fram á að nýja fyrirtækið, sem stofnað verður um Lava verkefni, gangist í ábyrgð fyrir reikningi frá Vimmis slf. að fjárhæð 5.751.900 krónur auk hugsanlegs málskostnaðar ef Sigmar reynir að innheimta reikninginn með málaferlum. Ástæða þessarar beiðni er augljós, þar sem Vimmis slf. er að rukka fyrir vinnu og fundarsetu tengt Lava verkefninu.“

 18. Í tengslum við framangreinda hlutafjáraukningu í Lava (þá Butru ehf.) gerðu væntanlegir hluthafar í félaginu með sér hluthafasamkomulag 5. nóvember 2015, sem jafnframt fól í sér áskriftarloforð nýrra hluthafa. Í því kom meðal annars fram eftirfarandi yfirlýsing: „Með verkefninu er hvorki átt við fasteign sem sýningin/eldfjallamiðstöðin verður staðsett í né heldur veitingarekstur eða annan rekstur sem kann að tengjast sýningunni/eldfjallamiðstöðinni. […]  Þá er gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu fasteignar undir reksturinn verði í samræmi við kostnaðaráætlun sem fylgir samkomulagi þessu og að leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist verður miðist við þá kostnaðaráætlun með sanngjörnum hætti. Stjórn félagsins mun semja um leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist verður fyrir sýninguna/eldfjallamiðstöðina og mun jafnframt hafa ákvörðunarvald um það við hvern aðila er samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignarinnar. Ákvörðun stjórnarinnar skal byggja á málefnalegum ástæðum.“

 19. Hluthafasamkomulagið var lagt fyrir stjórnarfund áfrýjanda 12. nóvember 2015 og heimild stjórnarformanns til undirritunar þess samþykkt. Bókað var í fundargerð að stefndi Sigmar lýsti yfir ánægju með að hluthafasamkomulagið lægi fyrir. Á stjórnarfundinum var einnig lagt fyrir tilboð Hótels Vatnajökuls ehf. frá 5. nóvember 2015 í „fasteignahluta LAVA verkefnisins“. Í tilboðinu kom fram að um væri að ræða fasteignahluta verkefnisins sem eftir yrði í eigu áfrýjanda eftir að gengið hefði verið frá aðkomu ITF og fjárfesta að sýningarhluta verkefnisins og sérstaklega tilgreint að um væri að ræða tvær lóðir á Hvolsvelli sem nánar var lýst. Í tilboðinu var gerður fyrirvari í 4. gr. um að fyrir lægi ásættanlegt samkomulag um helstu skilmála leigusamnings á milli tilboðsgjafa og rekstraraðila sýningarhluta verkefnisins vegna þess hluta fasteignarinnar sem myndi hýsa þann hluta þess. Tilboðsfjárhæðin var 50.000.000 króna og skyldi greiða fjárhæðina í reiðufé innan fimm daga frá því að fyrrgreindum fyrirvara hefði verið aflétt. Stefndi Sigmar taldi rétt að ganga að tilboðinu en meirihluti stjórnarinnar ákvað að samþykkja það ekki. Formaður stjórnar vísaði til þess að það væri hlutverk nýrrar stjórnar Butru ehf. að semja um leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist yrði og hefði hún jafnframt ákvörðunarvald um það við hvern yrði samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignarinnar.

 20. Meðal gagna málsins er leigusamningur milli Fox ehf. og „LAVA – Eldfjalla og jarðskjálftamiðstöðvar Íslands ehf.“, dagsettur 3. mars 2016. Samkvæmt samningnum var hið leigða „húsnæði/aðstaða að Austurvegi 14, Hvolsvelli fyrir LAVA – Eldfjalla og jarðskjálftamiðstöð sem leigutaki hyggist koma á fót ásamt tilheyrandi hlutdeild í sameign og lóðarréttindum eignarinnar“. Húsnæðið var leigt til 20 ára. Leiga á mánuði skyldi miðast við 0,81% af byggingarkostnaði auk virðisaukaskatts. Við útreikning á raunverulegum framkvæmdakostnaði skyldi notast við raunkostnað verktaka auk 10% álags á allt aðkeypt efni og kostnað vegna undirverktaka en þó skyldi fjármagnskostnaður og kostnaður vegna starfsmanna verktakans vera reiknaður án álags. Leigukjör skyldu taka breytingum til hækkunar eða lækkunar í samræmi við breytingar á byggingarkostnaði hússins þar sem gengið væri út frá meðfylgjandi kostnaðaráætlun. Leigugjaldið skyldi breytast á þann hátt að þegar beinar tekjur leigutaka færu yfir 300 milljónir króna á ári skyldi leigusali fá 5% hlutdeild af tekjum umfram þá fjárhæð. Enginn fyrirvari var gerður um rétt Fox ehf. yfir lóðinni.

 21. Á stjórnarfundi í áfrýjanda 10. mars 2016 kynnti formaður stjórnar félagsins „helstu efnisatriði leigusamnings sem samið hefur verið um milli stjórnar Lava og Þingvangs. Í kynningunni kom fram að stjórn Lava teldi að um hagfelld leigukjör væri að ræða fyrir félagið og hluthafa þess og tæki stjórnarformaðurinn undir það. Stefndi Sigmar mótmælti því að samið yrði við Þingvang ehf. og lét bóka mótmælin í fundargerð. Taldi hann meðal annars að það hefði verið röng ákvörðun að fela stjórn Lava að semja um leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist yrði fyrir eldfjallamiðstöðina og hafa ákvörðunarvald um það við hvern yrði samið um byggingu, eignarhald og rekstur. Hann taldi stjórn áfrýjanda ekki geta framselt öðrum aðila þetta verkefni.

 22. Á sama stjórnarfundi kynnti stjórnarformaður áfrýjanda drög að kaupsamningi milli félagsins og Þingvangs ehf., þar sem gert væri ráð fyrir því að Þingvangur ehf. keypti af áfrýjanda umræddar tvær lóðir, byggingarleyfisumsóknir, hönnunarkostnað, ýmsan útlagðan kostnað og öll réttindi og leyfi sem fylgdu umræddum lóðum sem ætlaðar væru undir byggingu annars vegar sýningar/eldfjallaseturs og hins vegar hótelbyggingu. Gert væri ráð fyrir því að kaupverðið yrði samtals 40 milljónir króna sem skiptist þannig að greiddar yrðu 25 milljónir króna fyrir lóð undir eldfjallasetur og 15 milljónir króna fyrir lóð undir hótel. Greiða skyldi kaupverðið með peningum, 25 milljónir króna, þegar skilyrði kaupsamningsins yrðu uppfyllt og 15 milljónir króna þegar byggingarleyfi fengist fyrir byggingu á hótellóðinni. Var lögð fram tillaga um að formanni stjórnarinnar yrði falið að ganga frá endanlegum kaupsamningi á þeim grunni sem fram kæmi í kaupsamningsdrögunum. Stefndi Sigmar lýsti sig mótfallinn og lagði fram bókun með rökstuðningi gegn ákvörðuninni en þar kom meðal annars fram að söluverð eignarinnar væri of lágt og að þörf væri á að stjórnin aflaði verðmats óháðs þriðja aðila. Auk þess vísaði hann til fyrri tilboða og að rétt væri að gefa fleiri aðilum kost á að gera tilboð í verkefnið. Jafnframt vísaði hann til þess að Þingvangur ehf. væri tengdur Butru ehf. sem hluthafi og einnig tengdur stærsta hluthafa áfrýjanda. Af hálfu formanns stjórnar var vísað til fyrrnefnds hluthafasamkomulags hluthafa Butru ehf. og áréttað að því hærra verð sem greitt yrði fyrir lóðina þeim mun hærri yrði byggingarkostaður og þar með leigugjald fasteignarinnar, sem jafnvel gæti stefnt verkefninu í heild í hættu. Þá benti hann á að aðkoma Hótels Vatnajökuls, félags í eigu sömu aðila og Íslandshótels, sem væri aðallega að horfa til hótelbyggingar á svæðinu, gæti haft áhrif á afstöðu annarra hluthafa í Lava og jafnvel sett verkefnið í uppnám. Tillagan um að ganga til samninga við Þingvang ehf. var samþykkt af tveimur stjórnarmönnum.

 23. Fox ehf. gerði 28. apríl 2016 leigusamning við Steinafjall ehf. um leigu á húsnæði undir veitingaaðstöðu að Austurvegi 14 til 20 ára. Sama dag gerði Fox ehf. leigusamning við Sjóklæðagerðina ehf. um húsnæði undir starfsemi verslunar í húsnæðinu. Í báðum samningunum var samið um að mánaðarleiga miðaðist við 0,965% af sannanlegum byggingarkostnaði eða 10% af veltu hvort sem væri hærra. Í hvorugum þeirra var gerður fyrirvari um að Fox ehf. hefði ekki aflað sér lóðarréttinda.

 24. Hluthafafundur var haldinn í áfrýjanda 9. maí 2016. Í fundargerð kemur fram að eitt mál hafi verið á dagskrá en það var ósk Gufupressunnar ehf. og Leitis eignarhaldsfélags ehf. um að „hluthafafundur taki ákvörðun um samkomulag um sölu á lóð og kostnaði tengdum henni til Fox ehf., til samræmis við drög að kaupsamningi sem lagður er fyrir fundinn“. Stefndi Sigmar mótmælti tillögunni og lagði fram ítarlega bókun þar sem mótmæli hans voru rökstudd. Röksemdum hans var svarað af hálfu Skúla Gunnars og formanns stjórnar með ítarlegum rökstuðningi. Af þeirra hálfu var þá upplýst að Lava hefði gert leigusamning við Fox ehf. í samræmi við þau meginatriði sem lýst væri í kaupsamningi um lóðina. Leigusamningurinn væri af stjórn Lava talinn hagstæður Lava og þar með einnig fyrir hluthafa áfrýjanda. Samningurinn við Fox ehf. var borinn undir atkvæði og samþykktur með öðrum atkvæðum en Sjarms og Garms ehf. Um kaupverðið sagði að 25 milljónir króna skyldu greiddar í peningum 25. júní 2015 en þó ekki fyrr en 7. gr. samningsins væri uppfyllt en 15 milljónir króna yrðu greiddar eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir að byggingarleyfi fengist fyrir byggingu á hótellóðinni.

 25. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur áfrýjanda og Fox ehf. 12. maí 2016 og var efni hans um hið selda og kaupverð í samræmi við þau samningsdrög sem lögð voru fram á hluthafafundinum.

 26. Á hluthafafundi í áfrýjanda 2. ágúst 2016 voru kosnir tveir nýir menn í stjórn í stað stefnda Sigmars og Bjarka Diego en aðila greinir á um hvort löglega hafi verið staðið að boðun fundarins, kosningu stjórnar og ritun fundargerðar.

 27. Í málinu liggur fyrir afsal áfrýjanda til Fox ehf. 5. september 2016 á fasteigninni Austurvegi 14, Rangárþingi eystra, ásamt meðal annars „hlutdeild í leigulóðarréttindum og réttindum til lóðar“ samkvæmt lóðarleigusamningi 31. ágúst 2016. Fram kom að kaupverðið hefði verið greitt.

 28. Lagður var fram fyrir Landsrétti kaupsamningur áfrýjanda og Fox ehf. 14. október 2016 um fasteignina Austurveg 12 í Rangárþingi eystra. Um kaupverðið sagði svo í kaupsamningnum: „Kaupandi lofar að greiða fyrir þau réttindi sem felast í hinu selda kr. 25.000.000, með peningum, inn á bankareikning sem seljandi tilgreinir, eigi síðar en tveimur (2) virkum dögum eftir að byggingarleyfi fæst fyrir byggingu á lóðinni, …“ Í kaupsamningnum var vísað til þess að um réttindi og skyldur kaupanda og seljanda vegna hins selda færi að öðru leyti eftir kaupsamningi aðila frá 12. maí 2016 og viðauka sem gerður hefði verið við samninginn.

 29. Fyrir liggur að Fox ehf. var á árunum 2014 og 2015 alfarið í eigu Harðar Jónssonar og framkvæmdastjóri auk hans var Kristján Sveinlaugsson. Engin starfsemi var í félaginu á árunum 2014 og 2015. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 var Pálmar Harðarson, sem er sonur Harðar Jónssonar, orðinn stjórnarmaður þess og framkvæmdastjóri en Marnes ehf. eigandi. Pálmar er stjórnarformaður síðastnefnda félagsins. Þingvangur ehf. var á sama tíma alfarið í eigu Eignasamsteypunnar ehf. en eini eigandi síðarnefnda félagsins var Pálmar Harðarson. Þingvangur ehf. var einn hluthafa í Butru ehf., síðar Lava, Þingvangur ehf. var einnig eigandi fjórðungs hluta í Heilsuboganum ehf. en Gufupressan ehf., einkahlutafélag í eigu Skúla Gunnars og eitt hluthafa í áfrýjanda, var eigandi annars fjórðungs hlutafjár. Heilsuboginn ehf. var á árinu 2015 meðal annars eigandi fasteigna sem metnar voru í efnahagsreikningi á tæpar 800 milljónir króna. Guðmundur Hjaltason formaður stjórnar áfrýjanda var jafnframt framkvæmdastjóri Heilsubogans ehf. Af hálfu stefnda Sigmars hefur því verið haldið fram að Pálmar Harðarson sé viðskiptafélagi og fjölskylduvinur Skúla Gunnars og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu áfrýjanda.

 30. Í þinghaldi í málinu nr. E-2470/2016 fyrir héraðsdómi 9. febrúar 2017 var af hálfu stefnda Sigmars lögð fram matsbeiðni. Þar sem matsbeiðendur og matsþolar voru fleiri en aðilar málsins ákvað dómarinn að sérstakt matsmál yrði rekið um beiðnina. Þeir Dan Valgarð Wiium, hdl. og löggiltur fasteignasali, og Gunnar Jóhannesson, verkfræðingur og löggiltur verðbréfamiðlari, voru dómkvaddir 26. júní 2017 til að meta hvert hafi verið virði lóðarréttinda að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli og annarra tengdra réttinda, sem tilgreind voru sem hið selda í kaupsamningi milli áfrýjanda og Fox ehf. í maí 2016. Óskað var eftir því að matið yrði sundurliðað fyrir hvora lóð og jafnframt báðar lóðirnar og réttindi þeim tengd saman.

 31. Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna 22. nóvember 2017 var við mat á verðmæti lóðarinnar Austurvegar 14 notuð sjóðstreymisaðferð byggð á væntu sjóðstreymi miðað við fyrirliggjandi leigusamninga um fasteign á lóðinni og mat á væntum rekstrar- og viðhaldskostnaði. Verðmæti lóðarinnar er reiknað sem mismunur á reiknuðu markaðsverði fasteignarinnar miðað við 9. maí 2016 og byggingarkostnaði án lóðar. Í matsgerðinni kemur fram að við útreikning á sjóðsstreymisverðmæti hefði ávöxtunarkrafa (WACC) verið byggð á markaðsforsendum á þeim tíma sem ákvörðun var tekin um sölu. Tekið var mið af ársuppgjörum skráðra fasteignafélaga fyrir árið 2015 þar sem veginn fjármagnskostnaður við núvirðisútreikninga hefði verið á bilinu 5,7 til 8,5%. Að teknu tilliti til styrkleika og starfsemi leigutaka, staðsetningar lóðar, eðlis fasteignar og væntinga um lánskjör leigusala hefði verið mat matsmanna að verðmat byggt á sjóðstreymi skyldi reiknað með 7,5% ávöxtunarkröfu. Matsmenn töldu verðmæti fasteignarinnar að Austurvegi 14, byggt á sjóðstreymisverðmæti miðað við framangreindar forsendur, 968 milljónir króna. Matsmenn miðuðu við þann byggingarkostnað að frátöldu lóðarverði sem gengið var út frá í forsendum leigusamnings, það er að segja 885 milljónir króna að frádregnum 25 milljónum króna eða 860 milljónir króna. Samkvæmt því mátu matsmennirnir verðmæti lóðarinnar á bilinu 100 til 110 milljónir króna miðað við hvort sem væri 9. eða 12. maí 2016.

 32. Matsmennirnir töldu ekki unnt að byggja mat á verðmæti lóðarinnar Austurvegar 12 á sjóðstreymismati. Þeir töldu lóð miðsvæðis á Hvolsvelli meira virði en aðrar lóðir sem stæðu til boða undir ný hótel á Suðurlandi. Þá töldu þeir „mestu verðmæti lóðarinnar“ felast í mögulegum samlegðaráhrifum í rekstri og fjárfestingu við starfsemina að Austurvegi 14 en fyrir ótengdan aðila væri verðbótarverðmæti lóðarinnar takmarkað. Niðurstaða matsmanna var að verðmæti lóðarinnar fyrir utan samlegðaráhrif væri 25 milljónir króna en með tilliti til samlegðaráhrifa á bilinu 50 til 80 milljónir króna.

 33. Fyrir Landsrétti var fallist á beiðni áfrýjanda um dómkvaðningu þriggja matsmanna til að leggja yfirmat á sömu matsspurningu og matsmenn höfðu áður lagt mat á. Yfirmatsmennirnir, Friðjón Sigurðsson byggingarverkfræðingur, Magnús Leopoldsson, löggiltur fasteignasali, og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur, voru dómkvaddir 30. nóvember 2018. Að auki var fallist á dómkvaðningu tveggja matsmanna til að svara einni viðbótarspurningu og voru þeir Magnús Leopoldsson og Magnús Árni Skúlason dómkvaddir í því skyni sama dag.

 34. Í ódagsettri yfirmatsgerð, sem lögð var fyrir Landsrétt á síðasta degi sameiginlegs gagnaöflunarfrests 16. janúar 2019, kemur fram að við mat á virði lóðar nr. 14 við Austurveg þætti við þær aðstæður sem um ræddi tilhlýðilegt að beita svokallaðri afgangsaðferð sem gengi út á að meta virði fullbúinnar tekjuberandi fasteignar og draga frá áætlaðan byggingarkostnað. Við mat á virði fullbúinnar tekjuberandi fasteignar væri beitt svokallaðri sjóðstreymisaðferð eða tekjuvirðingu en þá væru væntar leigutekjur af frádregnum rekstrarkostnaði yfir tiltekið tímabil núvirtar til þess dags sem verðmat skyldi miða við, að teknu tilliti til tiltekinnar ávöxtunarkröfu. Að lokum væri verðmatsniðurstaða samkvæmt afgangsaðferð borin saman við aðra nálgun með samanburðaraðferð.

 35. Í yfirmatsgerðinni voru leigutekjur áætlaðar á grundvelli þriggja fyrirliggjandi leigusamninga. Þá miðuðu matsmenn við eigin áætlun á væntu fasteignamati fullbúinnar eignar en ekki því fasteignamati sem fyrir lá þegar yfirmatið var framkvæmt. Í yfirmatsgerðinni kom fram að ávöxtunarkrafa til núvirðingar fjárflæðis af eigninni væri ein aðalstýribreytan við mat á virði samkvæmt sjóðstreymisaðferð. Yfirmatsmenn töldu hæfilegt að miða við raunávöxtunarkröfuna 7,95% við núvirðingu fjárflæðis þar sem hún endurspeglaði bæði vaxtastig og fyrirliggjandi áhættu sem falist hefði í fjárfestingunni þegar stofnað hefði verið til hennar. Niðurstaða þeirra var að virði fasteignarinnar, byggingar og lóðar, 9. og 12. maí 2016 hefði verið 901,5 milljónir króna og ef stofnkostnaðurinn, 885,3 milljónir króna, væri dreginn frá fengist sú niðurstaða að virði lóðar og tengdra réttinda hefði verið 16,2 milljónir króna. Þeir töldu engar vísbendingar eða forsendur fyrir því að virði fasteignar eða lóðar hefði verið annað við ákvörðun hluthafafundar 9. maí 2016. Matsmenn töldu að verðmat með samanburðaraðferð styddi niðurstöðu verðmats með afgangsaðferð. Í matsgerðinni kom fram að matsmenn hefðu aflað sér upplýsinga um viðskipti með sambærilegar lóðir og lóðarréttindi í tengslum við önnur ferðaþjónustutengd verkefni og væri meðal annars horft til Ormsvalla á Hvolsvelli, uppbyggingar hótels við Mývatn og á Hnappavöllum í Öræfum og tekið mið af fyrirliggjandi tilboði frá Vatnajökli hf. í hið selda.

 36. Yfirmatsmenn beittu samanburðaraðferð við mat á verðmæti lóðarinnar nr. 12 við Austurveg en töldu ekki forsendur til að beita tekjuvirðingu eða afgangsaðferð. Niðurstaða þeirra var að virði lóðarinnar Austurvegar 12 hefði verið 30 milljónir króna ef litið væri til samlegðaráhrifa, svo sem vegna samnýtingar bílastæða á lóðunum nr. 12 og 14 sem gert væri ráð fyrir í deiliskipulagi.

 37. Samandregin niðurstaða yfirmatsmanna var að virði lóðanna saman hefði verið 46,2 milljónir króna. Virði lóðanna hvorrar í sínu lagi hefði verið 33,7 til 41,2 milljónir króna, þar af hafi virði Austurvegar 14 verið 16,2 milljónir króna en Austurvegar 12 á bilinu 17,5 til 25 milljónir króna.

 38. Lögð var fyrir tvo matsmenn ný matsspurning sem miðaði að því að meta verðmæti beggja lóðanna miðað við að enginn leigusamningur hefði verið til staðar um fasteign á lóðinni nr. 14. Niðurstaða matsmannanna var að virði lóðanna hefði við þær aðstæður verið samtals 21 milljón króna miðað við 9. og 12. maí 2016.

  Niðurstaða

 39. Stefndu, Sjarmur og Garmur ehf. og Sigmar, höfðuðu málið upphaflega saman gegn áfrýjanda með stefnu sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 6. september 2016 og hlaut málið númerið E-2470/2016. Stefnan var birt 8. ágúst 2016 og málið því höfðað innan þriggja mánaða frá hluthafafundi í áfrýjanda 9. maí 2016. Málið var fellt niður hvað varðaði Sjarm og Garm ehf. með ákvörðun dómara í þinghaldi 27. september 2016, að kröfu lögmanns sem mætti í þinghaldið og lagði fram gögn frá Skúla Gunnari Sigfússyni því til stuðnings að lögmaðurinn færi með málflutningsumboð fyrir það félag. Ákvörðunin var kærð til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá réttinum með dómi 27. október 2016 í máli nr. 695/2016, með þeim rökum að aðeins úrskurðir gætu sætt kæru til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 en ekki ákvarðanir.

 40. Þar sem mótmæli komu fram gegn niðurfellingu málsins af hálfu lögmanns sem rekið hafði málið fram að því fyrir báða upphaflega stefnendur og hann krafðist úrskurðar um ágreininginn, bar héraðsdómara að kveða upp úrskurð um ágreiningsefnið, sbr. niðurlag 3. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi þess að áfrýjandi Sjarmur og Garmur ehf. er aftur orðinn aðili málsins hefur þessi annmarki á meðferð málsins á fyrri stigum þess ekki áhrif á lögmæti málsmeðferðarinnar í heild.

 41. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2016 var kröfu áfrýjanda um frávísun málsins hafnað.

 42. Stefndi, Sjarmur og Garmur ehf., höfðaði að nýju mál gegn áfrýjanda sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. janúar 2017 og gerði sömu kröfur og í hinu fyrra máli. Málið hlaut númerið E-5/2017. Stefndi krafðist þess jafnframt að málin yrðu sameinuð með vísan til c-liðar 30. gr. laga nr. 91/1991.

 43. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. apríl 2017 var kröfu áfrýjanda um frávísun síðara málsins hafnað en hún var byggð á því að málið hefði ekki verið höfðað innan þess þriggja mánaða frests sem mælt væri fyrir um í 2. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í þinghaldi 12. júní 2017 var mál nr. E-5/2017 sameinað máli nr. E-2470/2016, að kröfu stefnda Sjarms og Garms ehf. og án athugasemda af hálfu áfrýjanda.

 44. Áfrýjandi hefur ekki, samhliða áfrýjun málsins, leitað endurskoðunar á framangreindum tveimur úrskurðum sem gengu undir rekstri málsins í héraði, sbr. síðari málslið 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim frávísunarástæðum sem byggt var á í héraði koma einungis til álita fyrir Landsrétti þær ástæður sem geta leitt til frávísunar málsins að sjálfsdáðum.

 45. Af hálfu áfrýjanda er krafa um frávísun málsins í heild byggð á því að stefnur í máli þessu og málatilbúnaður stefndu að öðru leyti standist ekki kröfur e-, f- og g-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

 46. Að sönnu hefði málatilbúnaður stefndu í upphafi mátt vera markvissari og framlagning gagna betur afmörkuð. Ekki verður þó fallist á með áfrýjanda að málatilbúnaði stefndu hafi verið svo áfátt að farið hafi í bága við fyrirmæli framangreindra ákvæða laga nr. 91/1991 enda verður ekki séð að þeir annmarkar sem eru á málatilbúnaði stefndu hafi bitnað á vörnum áfrýjanda í málinu. Þá eru ekki þeir ágallar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi að varðað geti ómerkingu héraðsdóms.

 47. Áfrýjandi telur að þar sem stefndi Sigmar hafi ekki verið stjórnarmaður í áfrýjanda á þeim tíma sem ákvörðun um málsóknina var tekin njóti hann ekki heimildar 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 til að höfða mál þetta til ógildingar á ákvörðun sem tekin hafi verið á umræddum hluthafafundi áfrýjanda. Af hálfu áfrýjanda er krafa um frávísun af kröfum stefnda Sigmars byggð á því að skortur á heimild til málshöfðunar eigi að leiða til frávísunar. Þá eigi skortur á lögvörðum hagsmunum hans af framangreindri ákvörðun, sem tekin hafi verið af hluthöfum félagsins en ekki stjórn þess, einnig að leiða til frávísunar, enda sé ábyrgð hans sem stjórnarmanns í áfrýjanda á ákvörðun sem tekin var af hluthöfum á hluthafafundi engin. Af hálfu áfrýjanda er krafa um sýknu af kröfum stefnda Sigmars byggð á aðildarskorti hans þar sem hann hafi ekki, sem fyrrverandi stjórnarmaður á þeim tíma sem ákvörðun um málsóknina var tekin, haft heimild til höfðunar málsins á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995. 

 48. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að stefndi Sigmar hafi á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995, haft heimild  til að höfða mál vegna þeirrar ákvörðunar hluthafafundar í áfrýjanda sem málsókn hans beinist að þar sem hann var stjórnarmaður í áfrýjanda á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin. Eins og háttað er málatilbúnaði stefnda Sigmars, sem er eigandi annars tveggja hluthafa í Sjarmi og Garmi ehf., sem er hluthafi í áfrýjanda, leikur ekki vafi á því að hann hafi sem stjórnarmaður í áfrýjanda á þeim tíma sem hin umdeilda ákvörðun hluthafafundar var tekin, haft lögvarða hagsmuni af höfðun málsins. Verður því hvorki fallist á með áfrýjanda að vísa beri málinu frá héraðsdómi hvað varðar stefnda Sigmar né að sýkna beri áfrýjanda af kröfum hans vegna aðildarskorts.

 49. Dómkrafa stefnda í máli þessu lýtur að því að fá ógilta með dómi ákvörðun hluthafafundar áfrýjanda 9. maí 2016. Með ákvörðuninni var samþykkt var að selja Fox ehf. lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 á Hvolsvelli, auk stofnkostnaðar og annarra réttinda þeim tengdum, til samræmis við drög að kaupsamningi, dagsettum í maí sem lögð voru fram á hluthafafundinum.

 50. Málatilbúnaður stefndu er aðallega reistur á því að ógilda beri ákvörðun hluthafafundar áfrýjanda þar sem hún hafi verið tekin með ólögmætum hætti og brjóti í bága við 95. gr. laga nr. 2/1995, þar sem segi að hluthafafundur megi  ekki taka ákvörðun sem sé fallin til að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

 51. Ákvæði þetta hefur að markmiði vernd minnihluta í hlutafélögum, sem og hagsmuni félagsins sjálfs. Þá er ákvæðinu ætlað að sporna við því að ótilhlýðilegir hagsmunir falli öðrum félagsmönnum eða þriðja manni í skaut.

 52. Í ákvæðinu var upphaflega kveðið á um að ákvörðun yrði að vera bersýnilega fallin til að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna, en orðið „bersýnilega“ var fellt brott með 12. gr. laga nr. 68/2010. Við skýringu ákvæðisins ber að líta til athugasemda við 12. gr. í greinargerð með frumvarpi að umræddum breytingalögum. Þar kemur fram að breytingin sé til þess fallin að styrkja minnihlutavernd með því að auðvelda einstökum hluthöfum að byggja rétt á 95. gr. laganna.

 53. Við mat á því hvort ákvörðun hluthafafundarins um sölu á lóðarréttindum og öðru sem lóðunum tengdust hafi verið andstæð ákvæði 95. gr. laga nr. 2/1995 skiptir máli hver tengsl þeirra aðila sem tóku ákvörðunina, og fóru með meirihlutavald í áfrýjanda, voru við viðsemjandann Fox ehf., sem fékk í sinn hlut þá hagsmuni sem um ræðir. Af hálfu stefnda Sigmars er því haldið fram að Pálmar Harðarson sé viðskiptafélagi og fjölskylduvinur Skúla Gunnars og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu áfrýjanda. Tengsl Pálmars, Fox ehf. og Þingvangs ehf. við áfrýjanda og Skúla Gunnar, sem er eigandi þeirra félaga sem fóru með meirihluta í áfrýjanda á hluthafafundi 9. maí 2019, eru rakin í málsgrein 39 hér að framan og ljóst er að þau eru margvísleg og mikil. Þessi tengsl gera að verkum að enn ríkari skylda en ella hvíldi á þeim sem tóku ákvörðunina á hluthafafundinum að gæta hagsmuna félagsins og þar með minnihluta hluthafa við ákvörðun um viðskiptin. 

 54. Í málsgreinum 30 og 31 hér að framan er því lýst að leigusamningur milli Lava og Fox ehf. um fasteign á lóðinni nr. 14 við Austurveg hafi verið undirritaður 3. mars 2016, áður en drög að leigusamningi milli Lava og Þingvangs ehf. voru kynnt fyrir stjórn áfrýjanda og samþykkt var að ganga til samninga við Þingvang ehf. um sölu á lóðarréttindunum. Á hluthafafundinum 9. maí 2016 var hins vegar lagt til að Fox ehf., yrði kaupandi lóðarréttindanna. Sú staðreynd að að Fox ehf. hafði þegar samið við Lava um leigu á fasteign á lóð áfrýjanda, án fyrirvara um að félagið hefði ekki aflað sér lóðarleiguréttinda, svo og misvísandi upplýsingar sem veittar voru í aðdraganda að undirbúningi ákvörðunar hluthafafundarins, eru atriði sem skipta máli þegar metið er hvort ákvörðun hluthafafundarins hafi verið ótilhlýðileg.

 55. Af hálfu stefndu er byggt á því að eignir áfrýjanda, lóðarréttindi vegna lóðanna nr. 12 og 14 við Austurveg, og réttindi þeim tengd, hafi verið seldar Fox ehf. á undirverði og því sé augljós munur á framlagi áfrýjanda og þeim greiðslum sem fyrir hið selda kom. Ákvörðunin hafi því ekki verið í samræmi við það grundvallarmarkmið hlutafélags að hámarka fjárhagslega hagsmuni þess og þar með hluthafanna.

 56. Í málinu liggja fyrir tvær undirmatsgerðir og yfirmatsgerð. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að leggja verði yfirmatsgerðina til grundvallar og að með henni hafi niðurstöðu undirmatsgerðar og þar með mikilvægri forsendu hins áfrýjaða dóms verið hnekkt.

 57. Af hálfu stefndu er því haldið fram að forsendur yfirmatsmanna hafi í ýmsum atriðum verið rangar. Í fyrsta lagi hafi yfirmatsmenn, þrátt fyrir að byggja mat á núvirðingu greiðsluflæðis frá fasteigninni á fyrirliggjandi leigusamningum, ákveðið að núvirða greiðsluflæðið miðað við 1. október ár hvert, en venjan sé að miða miðpunktinn við mitt ár. Rétt hefði verið að miða við 15. ágúst vegna ársins 2017 en eftir það við 1. júlí ár hvert. Í öðru lagi hafi matsmenn ákveðið að miða við að öll fjárfestingin hefði átt sér stað í upphafi byggingartímabilsins og núvirðing byggingarkostnaðar verið miðuð við þann tímapunkt. Ekki hafi verið samræmi í forsendum þeirra um núvirðingu greiðsluflæðis og byggingarkostnaðar. Ef yfirmatsmenn hefðu gætt samræmis hefðu þeir átt að miða núvirðingu byggingarkostnaðar við miðpunkt 10 mánaða byggingartímabils. Í þriðja lagi hafi yfirmatsmenn ranglega miðað greiðslu fasteignagjalda við eigin áætlun á fasteignamati húss á lóðinni Austurvegi 14, eða 472,7 milljónir króna, sem hafi verið of hátt ef litið væri til hlutfalls fasteignamats af brunabótamati sambærilegra eigna á Hellu og Hvolsvelli á árinu 2016 og raunverulegs fasteignamats hússins. Þessar þrjár röngu forsendur yfirmatsmanna hafi orðið til þess að niðurstaða mats þeirra á verðmæti fasteignarinnar hafi verið 82,5 milljónum króna lægri en ella hefði verið.

 58. Til stuðnings umræddri gagnrýni á forsendur yfirmatsgerðarinnar vísa stefndu til framlagðs álits tveggja endurskoðenda hjá Deloitte 6. febrúar 2019. Álitið sem nefnt er „yfirferð á matsgerð“ barst Landsrétti 7. febrúar 2019 í kjölfar framlagningar yfirmatsgerðar 16. janúar 2019, á síðasta degi sameiginlegs gagnaöflunarfrests málsaðila. Með ákvörðun Landsréttar 28. febrúar 2019 var fallist á framlagningu álitsins með vísan til jafnræðissjónarmiða og þar sem stefndu gafst ekki tilefni til að afla þess fyrr en gagnaöflunarfrestur fyrir Landsrétti var liðinn, sbr. 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður byggt á þessu áliti fyrir Landsrétti á sama hátt og matsgerð dómkvaddra matsmanna en mótbárur stefndu, sem byggðar eru á álitinu, gegn forsendum yfirmatsins þykja ekki of seint fram komnar og komast að í málinu.

 59. Yfirmatsmenn komu fyrir Landsrétt og skýrðu matsgerðina og forsendur hennar. Yfirmatsmaðurinn Magnús Árni skýrði þá ákvörðun að miða við 1. október sem miðpunkt greiðsluflæðis ár hvert þannig að reynslan sýndi að ferðaþjónustan skili almennt meiri tekjum á síðari hluta árs en þeim fyrri og þrátt fyrir að leiga samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningum félli í gjalddaga 1. hvers mánaðar mætti vænta þess að greiðslur drægjust. Þá taldi hann að þegar lóðin var seld hefði verið rétt að miða fasteignamat við hærri fjárhæð en núverandi fasteignamat enda taldi hann að það myndi hækka.

 60. Í matsgerð sem aflað var fyrir héraðsdómi og yfirmatsgerð voru niðurstöður í meginatriðum byggðar á sömu matsaðferð þótt í yfirmatsgerðinni hefði einnig verið beitt samanburðaraðferð varðandi Austurveg 14. Í báðum tilvikum var mat á núvirtu tekjuflæði frá fasteigninni byggt á fyrirliggjandi leigusamningum. Með hliðsjón af því að umræddir leigusamningar milli Fox ehf. og Lava lágu fyrir þegar hluthafafundur samþykkti að ganga til samninga við Fox ehf. var rétt að byggja niðurstöður matsins á tilvist þeirra. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á niðurstöðu matsgerðar tveggja matsmanna sem aflað var fyrir Landsrétti við úrlausn málsins.

 61. Þegar matsgerð sem aflað var fyrir héraðsdómi og yfirmatsgerð eru bornar saman og tillit tekið til framburðar matsmanna fyrir héraðsdómi og Landsrétti virðist munur á niðurstöðum þeirra einkum skýrast af því að yfirmatsmenn reikna með ávöxtunarkröfunni 7,95% en undirmatsmenn með 7,5%. Eins og fram kom í yfirmatsgerð er matsaðferðin afar næm fyrir tiltölulega lítilli breytingu á ávöxtunarkröfu. Um er að ræða matsatriði sem ræðst af mati á fleiri undirliggjandi breytum og næmi þeirra. Ekki verður séð að undir- eða yfirmatsmenn hafi byggt mat sitt á þessum þætti á röngum forsendum. Með hliðsjón af því og þar sem matsgerð þriggja yfirmatsmanna hefur almennt meira sönnunargildi en matsgerð tveggja undirmatsmanna er rétt að byggja á niðurstöðu yfirmatsgerðar fremur en undirmatsgerðar að þessu leyti. Verða niðurstöður undirmatsgerðarinnar því ekki lagðar til grundvallar í máli þessu við úrlausn þess hvert hafi verið verðmæti hinna seldu lóðarréttinda að Austurvegi 14.

 62. Dómurinn telur að yfirmatsmenn hafi ekki fært sannfærandi rök fyrir þeim forsendum sínum að miða miðpunkt tekjuflæðis við 1. október ár hvert enda gerðu allir leigusamningarnir ráð fyrir jöfnum mánaðarlegum leigugreiðslum allt árið. Skýrt kom fram í framburði þeirra fyrir Landsrétti að þeir hefðu ekki tekið mið af afkomutengingu leigugreiðslna við mat sitt. Þótt rök yfirmatsmanna geti réttlætt að færa þessa viðmiðunardagsetningu eitthvað aftur fyrir mitt ár fellst dómurinn ekki á að það hafi verið rétt forsenda hjá þeim, í ljósi þess leigusamnings sem þeir byggðu matið á, að færa þessa viðmiðunardagsetningu aftur á síðasta ársfjórðung. Sú forsenda sem yfirmatsmenn gáfu sér leiðir til lægra mats á virði fasteignarinnar og þar með lóðarréttindanna en ef miðað hefði verið við dagsetningu nær miðju ári. Þá hafa yfirmatsmenn ekki skýrt með fullnægjandi hætti mismunandi forsendur við val á dagsetningu sem núvirðing byggingarkostnaðar var annars vegar miðuð við og núvirðing tekjuflæðis hins vegar. Loks hafa yfirmatsmenn ekki að mati dómsins fært fullnægjandi rök fyrir því að gera hefði mátt ráð fyrir því 9. maí 2016 að fasteignamat fasteignarinnar yrði svo miklu hærra en það í raun varð. Í því sambandi er rétt að geta þess að þegar þessi verðmatsaðferð er notuð hefur sú ákvörðun að styðjast við hærra fasteignamatsverð þau áhrif að fasteignagjöld hækka sem hefur þau áhrif að reiknað sjóðstreymi frá fasteigninni lækkar og þar með mat á verðmæti hennar og lóðarréttindanna.

 63. Þótt ekki verði byggt á framlagðri „yfirferð á matsgerð“ tveggja endurskoðenda hjá Deloitte um töluleg áhrif þessara forsendna yfirmatsmanna á niðurstöður yfirmatsgerðarinnar þykja stefndu hafa sýnt nægilega fram á að umræddar forsendur yfirmatsmanna, sem dómurinn getur ekki fallist á, hafi leitt til talsvert lægri niðurstöðu, á grundvelli afgangsaðferðar, um verðmæti hinna seldu lóðarréttinda að Austurvegi 14 en ella hefði verið.

 64. Í forsendum matsgerðar sem aflað var í héraði og yfirmatsgerðar kemur fram að byggingarkostnaður fasteignarinnar er í báðum tilvikum miðaður við 885 milljónir króna sem er sá kostnaður sem gengið var út frá í kostnaðarmati því sem fylgdi leigusamningunum. Óumdeilt er að í því mati á byggingarkostnaði var gert ráð fyrir 25 milljóna króna kostnaði vegna öflunar lóðarréttinda og tengdum kostnaði. Í undirmatsgerð eru þessar 25 milljónir dregnar frá byggingarkostnaði áður en sá kostnaður er dreginn frá núvirtu verðmæti fasteignarinnar. Í yfirmatsgerð er hins vegar allur byggingarkostnaðurinn, að meðtöldum kostnaði við öflun lóðarréttinda, dreginn frá núvirtu verðmæti fasteignarinnar. Dómurinn fær ekki betur séð en að þessi forsenda sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu og óútskýrð af hálfu yfirmatsmanna.  

 65. Niðurstaða samanburðarmats yfirmatsmanna þykir ekki til þess fallin að byggt verði á niðurstöðu yfirmatsins enda forsendur samanburðarmatsins fremur óljósar og byggjast samkvæmt framburði yfirmatsmanna fyrir Landsrétti að hluta til á upplýsingum sem einn yfirmatsmanna bjó yfir vegna starfa sinna, en þær eru hvorki aðgengilegar málsaðilum né dómendum og verða ekki staðreyndar.

 66. Samkvæmt framansögðu verður hvorug matsgerðanna lögð til grundvallar fullum fetum um hvert hafi verið verðmæti hinna seldu lóðarréttinda og annars sem tengdist lóðinni Austurvegi 14. Með vísan til alls framangreinds og þeirra annmarka sem dómurinn telur á forsendum yfirmatsgerðarinnar þykja stefndu hafa sýnt fram á að verðmæti lóðarleiguréttinda og annars þess sem fylgdi með vegna lóðarinnar Austurvegar 14 hafi verið nokkru meira en það 25 milljóna króna endurgjald sem fyrir réttindin kom. Stefndu hefur þó ekki tekist að sýna fram á að þessi réttindi hafi verið seld á svo verulegu undirverði að það geti eitt og sér leitt til þess að ákvörðun hluthafafundar um sölu á réttindum vegna lóðarinnar Austurvegar 14 teljist hafa verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins, sbr. 95. gr. laga nr. 2/1995.

 67. Af hálfu stefndu er því haldið fram að með ákvörðun hluthafafundar 9. maí 2016 um sölu á lóðarréttindum vegna lóðanna nr. 12 og 14 við Austurveg hafi Fox ehf. verið gefinn valréttur um kaup á lóðinni Austurvegi 12 án endurgjalds og þannig komið í veg fyrir að áfrýjandi gæti notið þeirra verðmæta sem í lóðarréttindunum fólust. Af hálfu áfrýjanda er þessu hafnað.

 68. Samkvæmt matsgerð sem aflað var í héraði var verðmæti lóðarréttinda að Austurvegi 12 talið 25 milljónir króna en 50 til 80 milljónir króna að teknu tilliti til samlegðaráhrifa. Í yfirmatsgerð voru þessi sömu lóðarréttindi metin á 17,5 til 25 milljónir en 30 milljónir króna ef litið væri til samlegðaráhrifa. Ljóst er af matsgerðum að samlegðaráhrifin eru að stórum hluta vegna sameiginlegrar nýtingar bílastæða og því ekki alfarið bundin við að sami aðili reki fasteignir á báðum lóðunum.

 69. Samkvæmt drögum að samningi áfrýjanda við Fox ehf. sem lögð voru fyrir hluthafafund 9. maí 2016 og þeim samningi sem gerður var 12. sama mánar, var gert ráð fyrir því að Fox ehf. greiddi samtals 40 milljónir króna vegna lóðarréttinda að Austurvegi 12 og 14 og annars sem þeim tengdist. Í endanlegum kaupsamningi 14. október 2016 milli áfrýjanda og Fox ehf. hefur kaupverð lóðarréttinda vegna Austurvegar 12 verið hækkað í 25 milljónir króna. Eins og áður er fram komið var svofellt ákvæði um greiðslu kaupverðs í þeim samningi: „Kaupandi lofar að greiða fyrir þau réttindi sem felast í hinu selda kr. 25.000.000, með peningum, inn á bankareikning sem seljandi tilgreinir, eigi síðar en tveimur (2) virkum dögum eftir að byggingarleyfi fæst fyrir byggingu á lóðinni, …“ Samsvarandi ákvæði var í fyrrnefndum samningsdrögum og samningi 12. maí 2016 að því frátöldu að þar var kaupverð fyrir umrædd lóðarréttindi tilgreint 15 milljónir króna.

 70. Í þeim drögum að samningi við Fox ehf. sem hluthafafundur áfrýjanda samþykkti og síðar raungerðist í endanlegum kaupsamningi um lóðarréttindi vegna Austurvegar 12, sem að framan er lýst, voru engin tímamörk sett um hvenær Fox ehf. skyldi í síðasta lagi sækja um byggingarleyfi fyrir hótel á lóðinni og samningurinn mælti ekki fyrir um nein úrræði fyrir áfrýjanda ef kaupandi léti hjá líða að sækja um það. Kaupandanum Fox ehf. var þannig í sjálfsvald sett hvenær hann tæki ákvörðun um að sækja um byggingarleyfið og þar með að greiða kaupverð hennar. Samkvæmt framburði Ísólfs Gylfa Pálmasonar, fyrrverandi sveitarstjóra Rangárþings eystra, fyrir Landsrétti getur sveitarfélagið afturkallað úthlutun lóðar að sex mánuðum liðnum ef þá hefur ekki verið ráðist í byggingu á henni. Ákvæði þess efnis er þó ekki að finna í lóðarleigusamningi um lóðina. Ekki liggur fyrir að sótt hafi verið um slíkt byggingarleyfi þremur árum eftir úthlutun lóðarinnar. Samkvæmt framansögðu hefur þessi samningur því ekki skapað áfrýjanda nein verðmæti og með öllu er ófyrirséð hvenær eða hvort endurgjaldið verði greitt.

 71. Þegar raunverulegt endurgjald, sem fékkst fyrir lóðarréttindi áfrýjanda að Austurvegi 12 samkvæmt samningnum við Fox ehf., er borið saman við niðurstöður bæði undirmats og yfirmats um hvert hafi verið verðmæti þessara réttinda þegar ákvörðun var tekin um sölu þeirra 9. maí 2016, er ljóst að verulegur mismunur var á verðmæti réttindanna og því endurgjaldi sem fyrir þau kom. 

 72. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að þrátt fyrir að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að lóðarréttindin hafi verið seld á undirverði verði að líta til hagsmuna áfrýjanda í heild af viðskiptunum og þar verði sérstaklega að líta til hluthafasamkomulags hluthafa Lava.

 73. Af hálfu áfrýjanda er lögð áhersla á áhrif hluthafasamkomulags hluthafa Lava og vísað til greinar 1.3 þar sem fram komi að Lava muni ekki koma að rekstri né byggingu fasteignarinnar og jafnframt að kostnaður við byggingu hennar verði í samræmi við kostnaðaráætlun og leigugjald taki mið af því. Stjórn Lava hafi með samkomulaginu verið fengið ákvörðunarvald um við hvern yrði samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignarinnar. Áfrýjandi hafi því við undirritun þess gengist undir verulegar takmarkanir á umráðarétti sínum yfir þeim eignum sem ákvörðun hluthafafundarins hafi tekið til. Ákvörðun um undirritun hluthafasamkomulagsins hafi verið tekin með heildarhagsmuni áfrýjanda að leiðarljósi. Nauðsynlegt hafi verið fyrir áfrýjanda að koma sýningarhlutanum í rekstur enda hefði hann að öðrum kosti eingöngu setið eftir með kostnað og lóðir á Hvolsvelli sem hefðu verið lítils eða einskis virði. Hagsmuni sína hafi áfrýjandi tryggt gagnvart öðrum hluthöfum Lava með þeim hætti að félagið hafi eignast 27,2% hlut í Lava en virði þess hlutar sé langt umfram kostnað sem tengst hafi sýningarhluta verkefnisins. Þá hafi eingöngu staðið eftir að fá kostnað við fasteignahlutann endurgreiddan og það hafi tekist með kaupsamningnum við Fox ehf. Áfrýjandi hafi ekki getað vænst þess að hagnast á þátttöku í sýningarhluta verkefnisins með aðkomu að Lava á góðum kjörum og jafnframt að hagnast verulega á fasteignahlutanum með sölu lóðanna á margföldum stofnkostnaði þvert á hagsmuni Lava.

 74. Af hálfu áfrýjanda er enn fremur byggt á því að hluthöfum beri, hverjum og einum, að byggja ákvarðanir sínar á hluthafafundum á því sem þeir telji líklegast til að hámarka arðsemi félags og þar með allra hluthafa. Ýmsar ákvarðanir sem hluthafafundur geti tekið séu þess eðlis að ekki sé augljóst með hvaða hætti arðsemin verði hámörkuð. Hluthöfum verði því að veita svigrúm til að taka viðskiptaákvarðanir og ef ákvörðun þeirra rúmast innan þess svigrúms verði hún ekki endurskoðuð af dómstólum. Við mat á því hvort skilyrðum 95. gr. laga nr. 2/1995 sé fullnægt sé aðalatriðið að kannað sé hvort viðkomandi ákvörðun hafi verið byggð á réttlætanlegum sjónarmiðum og hvort hún hafi verið tekin í góðri trú um að með henni væri stuðlað að hagsæld félagsins. Varlega verði að fara í að endurmeta viðskiptalegar ákvarðanir og mikilvægt að við það mat sé aðeins litið til þeirra forsendna sem sannarlega lágu fyrir þegar ákvörðunin var tekin.

 75. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að hagsmunir félagsins af því að sýningarhluti verkefnisins myndi ganga eftir hafi verið forsenda alls annars. Áhættan af því að ganga gegn ákvörðun Lava um að semja við Fox ehf. eða gera tilraun til að selja eignirnar fyrir margfaldan stofnkostnað með tilheyrandi hækkun byggingarkostnaðar og þar með leigukostnaðar Lava hafi verið sú að áfrýjandi fengi ekki endurgreiddan þann kostnað sem félagið hafði lagt út. Áhættan hafi jafnframt falist í því að ekkert yrði af rekstri Lava en áfrýjandi hafi haft verulegra hagsmuna að gæta í því félagi sem annar stærsti hluthafinn. Ákvörðun hluthafafundar hafi því verið tekin í því skyni að hámarka líkur á því að sýningin yrði að veruleika.

 76. Stefndu byggja aftur á móti á því að með gerð hluthafasamkomulagsins hafi áfrýjandi ekki framselt ráðstöfunarrétt sinn yfir lóðunum. Í hluthafasamkomulaginu hafi verið vísað til þess að gert væri ráð fyrir því að kostnaður við bygginguna yrði í samræmi við kostnaðaráætlun sem fylgdi samkomulaginu og leigugjald vegna afnota af fasteigninni skyldi miðast við þá kostnaðaráætlun með sanngjörnum hætti. Þá hafi komið þar fram að stjórn Lava myndi semja um leigugjald vegna afnota af fasteign sem reist yrði og hafa ákvörðunarvald um við hvern yrði samið. Ákvörðun þar um  skyldi byggja á málefnalegum ástæðum. Stefndu telja að hluthafasamkomulagið hafi eingöngu fjallað um uppsetningu og rekstur eldfjallamiðstöðvar á Hvolsvelli á lóðinni Austurvegi 14 og ákvæði þess um ákvörðunarvald stjórnar Lava lúti eingöngu að byggingu og rekstri fasteignar undir þá starfsemi. Hluthafasamkomulagið hafi því á engan hátt varðað ráðstöfun lóðarinnar nr. 12 við Austurveg. Þá hafi hluthafasamkomulagið gefið áfrýjanda talsvert svigrúm til samninga um sanngjarnt verð fyrir lóðarréttindi og önnur verðmæti sem tengdust lóðinni Austurvegi 14. Með ákvörðun hluthafafundar hafi áfrýjandi verið sviptur þeirri hagnaðarvon sem fólst í fasteignahluta verkefnisins sem félagið hefði getað annast sjálft. Sú hagnaðarvon hafi verið færð eignalausu félagi sem Skúli Gunnar hafi haft mikil tengsl við.

 77. Fyrir liggur að hagsmunir áfrýjanda og þar með hluthafa þess, Sjarms og Garms ehf., fólust annars vegar í að starfsemi Lava, sem áfrýjandi átti rúmlega fjórðungshlut í, myndi dafna. Um var að ræða mikilsverða langtímahagsmuni fyrir áfrýjanda og verður ekki dregið í efa að Skúli Gunnar, eigandi félaga sem stóðu að hinni umdeildu ákvörðun hluthafafundarins, hafi sett þessa hagsmuni í öndvegi þótt ekki verði litið fram hjá tengslum hans við Fox ehf. og Þingvang ehf., en þau félög höfðu mikla hagsmuni af fasteignahluta verkefnisins.

 78. Hins vegar höfðu áfrýjandi og hluthafar félagsins einnig hagsmuni af því að fá sem hæst verð fyrir þau lóðarréttindi sem félagið hafði aflað sér og þá undirbúnings-, markaðs-, og þróunarvinnu sem stefndi Sigmar og fleiri höfðu lagt að mörkum til áfrýjanda auk kostnaðar við aðkeypta þjónustu. Í þessu sambandi er verður ekki framhjá því litið að í gögnum málsins liggur fyrir að félög í eigu Skúla Gunnars höfðu fengið greitt fyrir vinnu í þágu áfrýjanda en stefnda Sigmari hafði verið neitað um að félög í hans eigu fengju greidda reikninga vegna vinnu hans.

 79. Við mat á því hvort ákvörðun um að selja Fox ehf. lóðarréttindi og annað tengt lóðinni Austurvegi 14 hafi verið ótilhlýðileg verður að líta til þess markmiðs áfrýjanda og hluthafa hans að koma á fót sýningu um eldfjöll og jarðskjálfta og þeirra hagsmuna sem áfrýjandi hafði vegna 27,2% eignarhlutar sem félagið átti í Lava. Einnig verður að taka mið af þeim hömlum sem samkomulag hluthafa Lava, sem áfrýjandi stóð meðal annars að og stefndi Sigmar lagði blessun sína yfir, lagði á áfrýjanda um ráðstöfun réttindanna. Þar á meðal eru ákvæði samkomulagsins um ákvörðunarvald Lava um hver yrði viðsemjandi félagsins um byggingu og rekstur fasteignarinnar og um leigugjald en það skyldi taka mið af kostnaðaráætlun meðal annars um lóðarleigu. Vegna þessa hluthafasamkomulags verður ekki gerð jafn rík krafa og ella hefði verið um að áfrýjandi aflaði mats á verðmæti lóðarréttindanna áður en ákvörðun um sölu þeirra var tekin.

 80. Við framangreint mat verður jafnframt að taka tillit til þess að þegar hluthafafundur áfrýjanda tók ákvörðun um að selja Fox ehf. lóðarréttindin lá sem fyrr segir fyrir að Lava hafði samið við Fox ehf. um leigu á fasteign sem Fox ehf. hugðist reisa og reka á lóðinni Austurvegi 14. Þótt Fox ehf. hafi dregið úr áhættu sinni af kaupum á lóðarréttindunum með því að semja um leigu á fyrirhugaðri fasteign á lóðinni fyrir fram var fasteignaverkefnið ekki án áhættu. Á sama hátt hefði það ekki verið áhættulaust fyrir áfrýjanda að annast sjálfur fasteignahluta verkefnisins.

 81. Við þetta mat verður heldur ekki fram hjá því litið að hluthafafundurinn hafði réttmæta ástæðu til að ætla að mun hærra söluverð eignarinnar væri til þess fallið að hafa áhrif til hækkunar á leigugjaldi og gæti þar með stefnt sýningarverkefni Lava í hættu og skaðað hagsmuni áfrýjanda, sem hluthafa í Lava, meira en sem nam mögulegum hagnaði af hærra söluverði réttinda yfir lóð undir byggingu fyrir sýninguna.

 82. Fallist er á með áfrýjanda að játa verði hluthafafundi félagsins nokkurt svigrúm til að meta og bera saman alla framangreinda hagsmuni og áhættuþætti og taka þá ákvörðun sem þeir teldu samrýmast best hagsmunum félagsins. Þegar allt framangreint er virt verður ekki talið að stefndu hafi sýnt fram á að ákvörðun hluthafafundar,  um að selja Fox ehf. lóðarréttindi og annað sem tengdist lóðinni nr. 14 við Austurveg fyrir 25 milljónir króna, hafi verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Þar sem aðrar málsástæður stefndu til stuðnings kröfu um ógildingu ákvörðunar hluthafafundar hvað varðar lóðarréttindi að Austurvegi 14 þykja ekki á rökum reistar verður ekki fallist á þann hluta kröfu þeirra. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar hvað varðar sölu á lóðarréttindum að Austurvegi 14.

 83. Ákvæði um greiðslu kaupverðs fyrir lóðarréttindi og annað sem tengdist lóðinni nr. 12 við Austurveg fólu sem fyrr segir í sér að það var algerlega undir Fox ehf. komið hvenær eða hvort til þess kæmi að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir hótel á lóðinni og hvenær eða hvort endurgjald fyrir lóðina yrði þar með greitt. Það kaupverð sem ákveðið var fyrir þessi lóðarréttindi í þeim samningsdrögum sem hluthafafundur samþykkti fól þannig ekki í sér eiginlegt endurgjald fyrir lóðina. Sú hækkun á tilgreindu kaupverði fyrir lóðarréttindin í endanlegum kaupsamningi hafði þar af leiðandi enga sérstaka þýðingu og virðist fyrst og fremst hafa verið ætlað að réttlæta heildarverð hinna seldu réttinda vegna lóðanna Austurvegar 12 og 14 í ljósi 50 milljóna króna tilboðs sem áður hefði borist í lóðarréttindin. Vegna þessara óvenjulegu samningsákvæða um greiðslu kaupverðs fyrir lóðarréttindi vegna lóðarinnar Austurvegar 12 verður ekki séð að í samningi um sölu þeirra réttinda hafi falist raunveruleg verðmæti fyrir félagið. Með vísan til þess og niðurstöðu bæði undirmats og yfirmats um verðmæti þessara lóðarréttinda þykja stefndu hafa sýnt nægilega fram á að þau hafi verið seld á verulegu undirverði.

 84. Ákvörðun hluthafafundar um að láta lóðarréttindi vegna Austurvegar 12 fylgja með í sölunni til Fox ehf. á framangreindum kjörum fær engan stuðning í hluthafasamkomulagi hluthafa Lava enda snýr það ekki að neinu leyti að þeirri lóð. Ákvörðunin var ekki til þess fallin að hafa áhrif á byggingarkostnað þeirrar fasteignar sem Fox ehf. hafði tekið að sér að reisa fyrir starfsemi Lava og þar með leiguverð. Ákvörðunin gat heldur ekki miðað að því að tryggja að sýningarhluta verkefnisins væri ekki stefnt í hættu. Hluthafafundurinn hafði þar af leiðandi ekki réttmæta ástæðu til þess að ætla að sala á lóðarréttindum vegna þessarar lóðar til Fox ehf. stuðlaði að því að vernda fjárhagslega hagsmuni áfrýjanda af sýningarhluta verkefnisins. Með ákvörðuninni voru möguleikar áfrýjanda á að fénýta lóðarréttindin skertir verulega en Fox ehf. var, án nokkurs endurgjalds eða áhættu, veittur réttur til á ákveða hvenær eða hvort endurgjald kæmi fyrir fyrir réttindin. Ákvörðunin var því ekki til þess fallin að hámarka hagnað áfrýjanda og verður ekki réttlætt með vísan til þeirra sjónarmiða sem áfrýjandi hefur teflt fram um svigrúm hluthafafundar til að taka viðskiptalegar ákvarðanir sem þeir telja samrýmast best hagsmunum félagsins.

 85. Við mat á því hvort ákvörðun hluthafafundar um sölu á réttindum yfir lóðinni Austurvegi 12, telst hafa brotið í bága við 95. gr. laga nr. 2/1995 verður jafnframt að líta til framangreindra tengsla eigenda þeirra félaga sem stóðu að ákvörðuninni við eigendur og stjórnendur Fox ehf. og Þingvangs ehf. og hvernig staðið var að undirbúningi ákvörðunarinnar.

 86. Að öllu framangreindu virtu þykja stefndu hafa sýnt nægilega fram á að ákvörðun hluthafafundar áfrýjanda um að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 á Hvolsvelli, auk annarra réttinda tengdra þeim, hafi verið fallin til þess að afla Fox ehf. og mögulega ákveðnum hluthöfum áfrýjanda ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa og félagsins. Ákvörðun hluthafafundar áfrýjanda var því í andstöðu við 95. gr. laga nr. 2/1995 sem ætlað er að veita minnihluta hluthafa og félaginu sjálfu vernd gegn ákvörðunum meirihluta hluthafa og er því fallist á kröfu stefndu um að hún verði ógilt.

 87. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að því leyti sem í dómsorði greinir. Eftir úrslitum málsins þykir rétt að áfrýjandi greiði stefndu hluta málskostnaðar þeirra í héraði og fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í dómsorði.

  Dómsorð:

  Ógilt er ákvörðun hluthafafundar áfrýjanda, Stemmu hf., 9. maí 2016, að því er varðar samþykki fyrir því að selja Fox ehf. lóðarréttindi að Austurvegi 12 á Hvolsvelli, og önnur réttindi tengd þeim, samkvæmt drögum að kaupsamningi, dagsettum í maí 2016, sem lögð voru fram á hluthafafundinum.

  Áfrýjandi, Stemma hf., greiði stefndu, Sjarmi og Garmi ehf. og Sigmari Vilhjálmssyni, samtals 5.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

   

  Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018.

                  Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu þann 8. ágúst 2016 og dómtekið 24. maí 2018. Stefnendur eru Sjarmur og Garmur ehf., kt. 550414-2280, Suðurlandsbraut 46, Reykjavík, og Sigmar Vilhjálmsson, kt. 030177-5339, Þrastarhöfða 26, Mosfellsbæ. Stefndi er Stemma hf., kt. 700414-0270, Suðurlandsbraut 46, Reykjavík.

                  Stefnendur krefjast þess hvor um sig að ógilt verði ákvörðun hluthafafundar stefnda 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14, Hvolsvelli, auk stofnkostnaðar og annarra réttinda tengdra þeim, til Fox ehf., kt. 410908-1740, Gnitaheiði 3, Kópavogi, til samræmis við drög að kaupsamningi, dagsettum í maí 2016, sem lögð voru fram á hluthafafundinum. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krafðist frávísunar málsins og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins.

                  Málavextir og helstu ágreiningsefni:

                  Mál þetta er höfðað til ógildingar á ákvörðun hluthafafundar stefnda sem haldinn var 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja Fox ehf. lóðir að Austurvegi 12 og 14, Hvolsvelli, og önnur réttindi. 

                  Hið stefnda félag, Stemma hf., var stofnað utan um þróunarverkefni Skúla Gunnars Sigfússonar og stefnanda Sigmars, sem varð til haustið 2013. Í stefnu segir að upphaflega hugmyndin hafi verið sú að opna sýningu um Eyjafjallajökul í litlu húsnæði eða skemmu. Hugmyndin hafi þróast þannig að til hafi staðið að reisa stóra fasteign á Hvolsvelli, sem gæti gegnt hlutverki þjónustumiðstöðvar fyrir ferða­þjónustu á Suðurlandi. Þar yrði að finna afþreyingu, verslanir, veitingastaði og hótel. Þessar hugmyndir voru kynntar sveitarstjórn Rangárþings eystra um svipað leyti, svo og ýmsum aðilum í ferðaþjónustu. Frá 1. febrúar 2014 var ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri verkefnisins og áfram unnið að því að fá fjármögnun, ljúka skipulagsmálum og semja við leigutaka í smásölu- og veitingaþjónustu. Í september 2014 voru útbúin drög að viðskiptaáætlun fyrir Eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands. Þar var gerð grein fyrir viðskiptahugmyndinni og ýmiss konar þjónustu í tengslum við hana, auk þess sem gert var ráð fyrir því að hótelbygging gæti risið síðar meir á reitnum við hliðina. Fagfjárfestasjóðurinn Landsbréf Icelandic Tourism Fund I slhf., í umsjá Landsbréfa hf., undirritaði þann 19. febrúar 2015 viljayfirlýsingu um hlutafjárloforð varðandi sýningarhluta verkefnisins, en hvorki um veitinga- né fasteignahlutann. Þá lýstu nokkrir aðilar áhuga á vormánuðum 2014 á því að taka á leigu verslunar- og veitingarými fasteignarinnar. Deiliskipulag vegna eldfjallaseturs og hótels á lóðunum að Austurvegi 12–14 var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Rangárþings eystra 16. apríl 2015 og var lóðarumsókn til stefnda samþykkt 3. september 2015. 

                  Hið stefnda félag, Stemma hf., var stofnað þann 5. ágúst 2014. Samkvæmt hlutaskrá félagsins þann 23. september 2015 voru þrír hluthafar skráðir eigendur að 16.500.000 króna hlutafé í stefnda. Þessir hluthafar voru Gufupressan ehf. sem átti 45,45% hlut, Sjarmur og Garmur ehf. sem átti 36,36% hlut og Leiti eignarhaldsfélag ehf. sem átti 18,18% hlut. Stefnandi Sigmar Vilhjálmsson á hlut í Sjarmi og Garmi ehf. 

                  Á stjórnarfundi stefnda þann 25. september 2015 lýsti stefnandi Sigmar Vilhjálmsson sig ekki tilbúinn til þess að undirrita skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins fyrir árið 2014. Á fundinum lagði stjórnarformaður stefnda fram kauptilboð Þingvangs ehf. í allar eignir stefnda er vörðuðu fasteignahluta verkefnisins, að fjárhæð 25.000.000 króna, en endanleg fjárhæð skyldi ákvörðuð sameiginlega af tilboðsgjafa og tilboðshafa og miðast við raunverulegan kostnað sem tilboðshafi hafði lagt til verkefnisins. Af hálfu stefnanda Sigmars var óskað eftir því að fengið yrði hlutlaust álit til að leggja mat á verðmæti fasteignahlutans. Meirihluti stjórnarmanna stefnda samþykkti að fresta því að taka afstöðu til tilboðsins að svo stöddu. Þá var prókúruumboð stefnanda Sigmars afturkallað á fundinum. Stefnandi Sigmar gerði athugasemdir við skýrsluna og fundargerðina og lagði fram eigin fundargerð. Í framhaldinu kannaði hann áhuga annarra aðila á fasteignahluta verkefnisins og barst tilboð frá Íslandshótelum í nóvember 2015.

                  Þann 28. september 2015 tilkynnti Skúli Gunnar Sigfússon stefnanda Sigmari að hann hefði ekki áhuga á að fara inn í fasteignahlutann, hvorki sjálfur né í félagi með honum. Í kjölfarið áttu fulltrúar Þingvangs ehf. fundi með arkitektum stefnda, fjármögnunaraðilum og áhugasömum leigutökum. Stefnandi Sigmar mótmælti þessu með vísan til þess að stjórn stefnda hefði ekki tekið afstöðu um sölu lóðarréttindanna eða samið við þriðja aðila um byggingu fasteigna á lóðunum

                  Þann 8. október 2015 stofnaði stefndi félagið Butru ehf., sem síðar fékk nafnið Lava – Eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands ehf. Stofnfé félagsins, 9.000.000 króna, var greitt með framlögðum reikningi við undirbúning verkefnisins og lá fyrir sérfræðiskýrsla endurskoðanda því til staðfestingar. Stofnfjárframlagið var metið á genginu 1,0. Hlutaféð var jafnframt hækkað í ríflega 6,8 milljónir króna á genginu 7,5 og greiddi stefnandi 51.000.000 króna fyrir þann hlut, og er óumdeilt að greiðslan var fjármögnuð af félögum í eigu Skúla Gunnars Sveinssonar. Hlutafé Butru ehf. var aftur hækkað með sölu hlutafjár til Icelandic Tourism Fund (ITF), Kynnisferða ehf., Þingvangs ehf., og Eimskipa hf. Eftir hækkunina var ITF-sjóður Landsbréfa langstærsti hluthafinn, en hann greiddi 240 milljónir fyrir 32.000.000 króna hlut sem svarar til 54,73% af heildarhlutafé félagsins.

                  Þann 5. nóvember 2015 var undirritað hluthafasamkomulag á milli stefnda, Landsbréfa hf., vegna Icelandic Tourism Fund I slhf., Kynnisferða ehf., Þingvangs ehf., og Eimskipa hf. um eignarhald, meðferð hluta og stjórn á Butru ehf. og áskriftir að nýju hlutafé í félaginu. 

                  Þann 10. mars 2016 var samþykktur kaupsamningur við Fox ehf. á stjórnarfundi stefnda 10. mars 2016 um sölu á fasteignum félagsins. Var hann síðan lagður fyrir hluthafafund 9. maí 2016. Fulltrúar Gufu­pressunnar ehf. og Leitis eignarhaldsfélags ehf. samþykktu samninginn, en stefnandi Sigmar, sem var mættur fyrir Sjarm og Garm ehf., greiddi atkvæði á móti.  

                  Stefndi krafðist upphaflega frávísunar og skilaði sérstakri greinargerð vegna þess. Kröfu um frávísun var hafnað með úrskurði 1. desember 2016. Stefnandi Sigmar krafðist þess jafnframt að honum yrði heimilað að þinglýsa stefnu málsins á fasteignirnar Austurveg 12 og 14 á Hvolsvelli. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 11. janúar 2017. Þá var skráð sérstakt matsmál nr. M-22/2017 vegna matsbeiðni stefnenda. Matsgerð í málinu var lögð fram 5. desember 2017. Mál nr. E-5/2017 var sameinað máli þessu, en beiðni um sameiningu málanna var lögð fram 23. janúar 2017. Áður hafði kröfu um frávísun þess máls verið hafnað með úrskurði 26. apríl 2017.

                  Ágreiningur aðila varðar það hvort ákvörðun hluthafafundar um sölu umræddra lóða hafi verið ótilhlýðileg og andstæð 95. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, hvort hún hafi verið samþykkt með tilskildum atkvæðafjölda, hvort stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa eignunum, hvort stjórn stefnda hafi þurft að samþykkja umræddan kaupsamning áður en hann var lagður fyrir hluthafafund, hvort stefnandi Sigmar geti átt aðild að málinu, hvort ákvörðun um málshöfðun stefnanda Sjarms og Garms ehf. hafi verið tekin með lögmætum hætti og hvort vísa beri málinu frá dómi ex officio.                                                           

                  Við aðalmeðferð gáfu eftirtaldir skýrslu fyrir dómi: Sigmar Vilhjálmsson, Skúli Gunnar Sveinsson, Guðmundur Hjaltason, Pálmar Harðarson og matsmennirnir Dan Wium og Gunnar Jóhannesson.

   

  Helstu málsástæður stefnenda:

                  Í upphafi byggðu stefnendur á því að hlutafjáreign í félaginu hefði verið ranglega skráð, m.a. að atkvæðisréttur hefði verið ranglega skráður og því hefði salan ekki hlotið tilskilinn fjölda atkvæða. Í þinghaldi 2. febrúar 2018 féllu stefnendur frá þessum málsástæðum.

                  Stefnendur höfða málið á grundvelli 96. gr. laga nr. 2/1995 um hluta­félög, sem vísar til þess að hluthafar, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar geti höfðað mál vegna ákvarðana hluthafafunda sem teknar hafi verið með ólögmætum hætti eða brjóti í bága við lög eða samþykktir félagsins. 

                  Stefnendur vísa til þess að sala lóðarinnar hafi verið andstæð 95. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Með sölunni hafi kaupandanum verið aflað ótilhlýðilegra hags­muna í skilningi 95. gr. hlutafélagalaga, þar sem kaupverðið hafi verið mun lægra en raun­verulegt verðmæti hins selda. Þá vísa stefnendur til þess að stjórn félagsins hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 91. gr. hlutafélagalaga með því að afla ekki verðmats frá þriðja aðila eða leita tilboða frá fleiri aðilum. Hvorki hluthafar né stjórnarmenn voru sérfróðir um viðskipti af þessum toga og því mikilvægt að slíkra upplýsinga væri aflað til að hægt væri að leggja mat á viðskiptalegar forsendur samningsins. Stefnandi Sigmar hafi margítrekað mikilvægi þessa og sjálfur lagt fram upplýsingar frá stjórnendum fasteignafélaga sem bentu til þess að kaupverðið væri langt undir markaðsvirði. Þá hafi lóðin verið metin mun hærra í upphaflegum viðskiptaáætlunum.

                  Stefnendur vísa til þess að meirihluti stjórnar félagsins hafi hafnað tilboði sem stefnandi Sigmar hafi aflað frá öflugum aðila úr ferðaþjónustu eða að ganga til frekari samninga við hann, þó að fyrirliggjandi tilboð hafi verið 10 milljónum króna hærra en það sem samþykkt var frá Fox ehf. Kauptilboð Fox ehf. hafi verið hagstæðara fyrir rekstraraðila sýningarinnar og ekki háð skilyrði um að byggingarleyfi fengist vegna hótels. Fjárhagslega staða Fox ehf. hafi verið óviss, enda enginn rekstur í félaginu og eigið fé þess nánast ekkert.

                  Stefnendur byggja á því að við mat á ótilhlýðileika verði að horfa til tengsla Pálmars Harðarsonar og Harðar Jónssonar annars vegar og Skúla Gunnars Sigfússonar, hins vegar, eiganda Gufupressunnar og Leitis eignarhaldsfélags og félaga sem tengjast þeim. Þá verði einnig við matið að horfa til þess að Þingvangur ehf., félag Pálmars Harðarsonar, sonar Harðar Jónssonar, eiganda Fox ehf., er meðal hluthafa í Lava ehf. Loks verði að líta til tengsla Guðmundar Hjaltasonar við fyrrgreinda aðila.

                  Stefnendur vísa til þess að við mat á ótilhlýðileika verði að horfa til þess að stefnanda Sigmari hafi verið meinaður aðgangur að gögnum, þ.m.t. leigusamningi milli Lava ehf. og Þingvangs ehf. eða Lava ehf. og Fox ehf. og kostnaðaráætlunum vegna framkvæmdanna, en stefnendur telja að kauptilboð Fox ehf. geri ráð fyrir ofáætluðum byggingarkostnaði. Liður í því hafi verið að afturkalla prókúruumboð stefnanda Sigmars.

                  Stefnendur hafna sjónarmiðum stjórnarmanna stefndu um að ákvörðun um söluna hafi verið nauðsynleg vegna hagsmuna stefnda að því er varðar sýningarhluta verkefnisins. Stefnandi Sigmar hafi um langt skeið kallað eftir því að leitað yrði tilboða frá fleiri aðilum í því skyni að tryggja sem hæst verð fyrir eignir stefnda. Þessum ábendingum hafi ekki verið sinnt. Jafnframt er hafnað þeim sjónarmiðum að stefndi hafi ekki átt annan kost en að ganga til samninga við Fox ehf. á grundvelli hluthafasamkomulags eigenda Lava ehf. Sú skýring sé ekki í samræmi við þá staðreynd að lóðarréttindin voru seld til Þingvangs ehf. sem var ekki aðili að samningnum. Þá telja stefnendur að stjórn stefnda hafi ekki getað framselt ákvörðun um það við hvaða aðila yrði samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignar um verkefnið, með vísan til 68. gr. laga nr. 2/1995. Jafnvel þótt fallist yrði á ofangreind sjónarmið hafi engin nauðsyn verið að selja lóðina sem ætluð var til hótelreksturs, sbr. meðal annars bókun Bjarka Diego stjórnarmanns á stjórnarfundi.

                  Þá byggja stefnendur á því að ákvörðun hlutahafafundar hafi tekið til hagsmuna sem stefndi var ekki þinglýstur eigandi að, eins og fasteigna að Austurvegi 12 og 14, Hvolsvelli. Stefndi hafi því ekki haft heimild til að ráðstafa þeim hagsmunum sem tilgreindir eru í kaupsamningnum.

                  Loks vísa stefnendur til þess að ákvörðun hluthafafundar hafi tekið til ráðstöfunar á hagsmunum félagsins án þess að samþykki stjórnar hafi legið fyrir, en það sé ólögmætt, sbr. meðal annars 68. gr. laga nr. 2/1995.

                  Stefnendur vísa til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála varðandi aðild beggja að málinu og 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Stefnandi Sjarmur og Garmur ehf. er hluthafi í stefnda. Þá sat stefnandi Sigmar í stjórn stefnda þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin. Það að hann hafi ekki verið endurkjörinn í stjórnina breyti engu um heimild hans til málshöfðunar. Aðalfundur þessi hafi verið ólögmætur í heild sinni. Boðað hafi verið til hans með ólögmætum hætti og ekki hafi verið heimilt að taka ákvörðun um staðfestingu ársreiknings þar sem árs­reikningur hafi ekki legið fyrir. Þá hafi stefnanda verið meinað að greiða atkvæði á fundinum sem fyrirsvarsmanni Sjarms og Garms. 

                  Jafnvel þótt aðalfundurinn teldist hafa verið lögmætur byggir stefnandi á því að samkvæmt 1. mgr. 96. gr. hafi þeir sem sátu í stjórn þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin heimild til málshöfðunar. Að öðrum kosti gæti meirihlutaeigandi félags komið í veg fyrir málshöfðun með því að kjósa aðra menn í stjórn. 

                  Þá vísar stefnandi til þess að ákvörðun um málshöfðun stefnanda Sjarms og Garms ehf. var tekin á stjórnarfundi félagsins 8. ágúst 2016. Stjórnarformanni hafi ítrekað verið send boðun um fundinn og boðið að taka þátt í honum gegnum fundarsíma en hann hafi ekki þáð það. Stjórnarformaðurinn hafi auk þess verið vanhæfur til meðferðar málsins, sbr. 48. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

   

                  Helstu málsástæður stefnda.

                  Í greinargerð stefnda eru ýmsar athugasemdir varðandi upphaflegar málsástæður stefnanda um hlutafjáreign og atkvæðavægi hluthafa. Þar sem stefnandi hefur fallið frá þessum málsástæðum þykir ekki ástæða til að reifa þær sérstaklega. 

                  Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá stefnda að vísa ætti málinu frá ex officio þar sem dómkrafa stefnanda feli í sér bindandi niðurstöðu fyrir aðila sem ekki er stefnt í málinu og eigi því ekki kost á að taka til varna. Krafa stefnanda byggi á matsgerð þar sem einungis einum matsþola af níu er stefnt. Verði fallist á kröfu stefnanda sé dómurinn bindandi og hafi fullt sönnunargildi um það hvort ákvörðunin hafi verið ótilhlýðileg. Það feli í sér að hvorki kaupandi, stjórnarmaður, endurskoðandi né aðrir, sem stefnandi hefur lýst yfir, m.a. í matsbeiðni, að hann kunni að beina að bótakröfu, geti tekið til varna um það hvort háttsemi þeirra hafi verið saknæm og ólögmæt.

                  Stefndi byggir á því að stefnandi Sigmar Vilhjálmsson geti ekki átt aðild að málinu og því beri að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi Sigmar byggi aðild sína á 96. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Á aðalfundi stefnda þann 3. ágúst 2016 hafi verið kosin ný stjórn í félaginu og hafi stefnandi Sigmar ekki verið kosinn. Stefnandi Sigmar hafi mætt á fundinn og gert athugasemdir við lögmæti hans. Fundarstjóri hafi lýst fundinn lögmætan og hafi ekki verið krafist ógildingar á þeirri ákvörðun fyrir dómi. Ríkisskattstjóri hafi ekki gert athugasemdir við tilkynningu um stjórn stefnda í kjölfar hluthafafundarins frá 3. ágúst 2016 og hafi hafnað kröfu lögmanns stefnenda um óbreytta skráningu stjórnar eins og hún var fyrir aðalfundinn. Stefndi vísar til þess að ef stefnandi telur sig eiga að vera í stjórn stefnanda þurfi hann að bera þann ágreining undir dómstóla í sérstöku máli, sbr. 5. mgr. 150. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.

                  Stefndi hafnar því að regla 1. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög taki til fyrrverandi stjórnarmanna. Ákvæðið sem kveði á um sérstakan málssóknarrétt hluthafa, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra verði að skýra þröngt og í samræmi við orðanna hljóðan. Fyrrverandi stjórnarmenn hlutafélags geti ekki tekið að sér hagsmunagæslu fyrir félagið eða hluthafa þess. Ef þeir telja á sér brotið geti þeir sjálfir höfðað skaðabótamál takist þeim að sanna bótaskylda háttsemi af hálfu hluthafa.

                  Verði stefndi ekki sýknaður vegna aðildarskorts er á því byggt að ákvörðun hluthafafundar stefnda þann 9. maí 2016 um sölu lóða og annarra réttinda sé gild. Í fundargerð kemur fram að fulltrúar allra hluthafa félagsins sóttu fundinn, þar á meðal stefnandi Sigmar Vilhjálmsson sem framkvæmdastjóri stefnanda Sjarms og Garms ehf., eigandi 36,36% hlutafjár. Á dagskrá fundarins hafi einungis verið eitt mál sem var sala á lóðum að Austurvegi 12 og 14 samkvæmt drögum að kaupsamningi sem hafi legið fyrir fundinum.

                  Stefndi vísar til þess að fundarstjóri hafi úrskurðað að Skúli Gunnar Sigfússon gæti greitt atkvæði á hluthafafundinum þar sem hann hefði ekki tengsl við kaupanda lóðanna, Fox ehf., sem gerðu hann vanhæfan í skilningi 1. mgr. 76. gr. eða 95. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Önnur niðurstaða hefði leitt til þess að minnihluti hluthafa hefði getað tekið ákvörðun sem ekki samrýmdist hagsmunum eigenda meirihluta hlutafjárins. Forsenda þess að hægt sé að svipta hluthafa atkvæðisrétti sé sú að hagsmunir hans og félagsins séu augljóslega andstæðir. Sú hafi ekki verið raunin í þessu tilviki.

                  Stefndi vísar til þess að ákvörðun hluthafafundarins hafi varðað hagsmuni allra hluthafa félagsins. Tilgangur félagsins sé almenn ferðaþjónusta og tengd starfsemi, rekstur eignarhaldsfélags, kaup, sala og rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur. Ákvörðun hluthafafundarins hafi varðað sölu á fasteignaréttindum og kostnað sem stofnað hafi verið til vegna þessara réttinda sérstaklega. Stefnandi Sigmar hafi ekki lagt neitt fé til þessa verkefnis heldur hafi allt fé til rekstrar- og uppbyggingar stefnda komið frá Skúla Gunnari Sigfússyni og félögum í hans eigu. Eftir að Sigmar var rekinn sem markaðsstjóri Stjörnunnar ehf. hafi hann hafið atlögu að stefnda og Skúla Gunnari Sigfússyni og sé málssókn þessi hluti af því.

                  Stefndi vísar til 27,02% eignarhlutar stefnda í Lava – Eldafjalla- og jarðskjálftamiðstöð Íslands ehf. sem sérstaklega var stofnað utan um sýningarþátt verkefnisins, með fjármögnun Skúla Gunnars Sigfússonar. Eins og fram komi í stefnu hafi stefnandi Sigmar talið þá fjármögnun nauðsynlega til að auka tiltrú annarra fjárfesta. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. Stefndi bendir á að sérstakt hluthafasamkomulag og áskriftarloforð gildi á milli hluthafa þess félags. Í því samkomulagi er tekið fram að með verkefninu sé hvorki átt við fasteignina né veitingarekstur eða annan rekstur sem kunni að tengjast sýningunni. Jafnframt kemur fram að kostnaður við byggingu fasteignar undir reksturinn verði í samræmi við kostnaðaráætlun og leigugjald taki mið af því. Stjórn félagsins hafi ákvörðunarvald um það við hvern verði samið um byggingu, eignarhald og rekstur fasteignarinnar. Stefndi vísar til þess að með þessu samkomulagi hafi stefndi í raun afsalað sér yfirráðum yfir þeim lóðarréttindum sem hann hafði tryggt sér á Hvolsvelli með samningi við sveitarstjórn og bundið leigugjaldið við ákveðið hlutfall af áætluðum byggingarkostnaði. Þessar forsendur hafi legið til grundvallar ákvörðun hluthafa, sem fóru með 63,64% hlut í stefnda og áttu auk þess 18,18% óbeint í stefnda, um að selja öll lóðarréttindi stefnda á Hvolsvelli til aðila sem gæti byggt sýningarhús á því verði sem kostnaðaráætlunin gerði ráð fyrir og eftir atvikum aðrar byggingar sem hugmyndir voru um en engar ákvarðanir höfðu verið teknar um að reisa.

                  Stefndi vísar til þess að einungis hafi munað 10 milljónum króna á tilboði hans og tilboði Hótels Vatnajökuls sem stefnandi lagði fram og hafi verið háð fjölda fyrirvara. Endanlegt tilboð Fox ehf. hafi síðan verið hækkað um 10 milljónir króna. Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið sé ósannað að umrædd ákvörðun hafi verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra.

                  Stefndi vísar því á bug að ákvörðun hluthafafundar sé bundin því að stjórn félagsins hafi áður samþykkt ákvörðunina. Slík skilyrði sé ekki að finna í 68. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.

                  Loks byggir stefndi á því að hlutkesti geti ekki ráðið úrslitum um ákvörðun um málshöfðun þegar atkvæði eru jöfn. Tillagan hafi fallið á jöfnum atkvæðum aðila, sem eigi jafnan hlut í stefnanda, Sjarmi og Garmi ehf.

   

  Niðurstaða

  I.

                  Samkvæmt 96. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 er varnaraðili í ógildingarmáli félagið sjálft. Ákvæðið felur í sér sérstaka heimild til málssóknar þar sem fram kemur að hún beinist gegn félaginu og varðar gildi ákvörðunar hluthafafundar. Á það er ekki fallist að eins og kröfugerð stefnenda er háttað hafi verið nauðsynlegt að stefna öðrum aðilum en félaginu sjálfu. Einungis er verið að krefjast ógildingar á ákvörðun hluthafafundar á grundvelli framangreindrar heimildar í hlutafélagalögum nr. 2/1995, en ekki á síðari lögskiptum eða kaupsamningum sem gerðir voru við þriðja aðila á grundvelli ákvörðunarinnar. Það eitt að ákvörðun hluthafafundar um að selja lóðarréttindi verði ógilt með dómi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að fella beri kaupsamning og afsal úr gildi. Hin umdeilda ákvörðun var tekin af hluthöfum félagsins en ekki af kaupanda fasteignar, endurskoðanda eða stjórnarmanni þess. Ekki er þörf á að stefna þessum aðilum saman á grundvelli reglna um samaðild. Samkvæmt meginreglum einkamálaréttarfars geta þeir einir talist aðilar að einkamáli sem gera dómkröfur eða sem kröfum er beint að. Dómur er einungis bindandi fyrir aðila máls en ekki aðra, sbr. 1. mgr. 116. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Frá þessari meginreglu er undantekning í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 2/1995 um að dómur um ógildingu samkvæmt 96. gr. bindi einnig þá hluthafa sem hafi ekki staðið að málssókninni. Í þessu máli verður einungis dæmt um kröfu stefnanda varðandi ógildingu ákvörðunar hluthafafundar um sölu lóðarréttinda. Verði fallist á kröfuna verður ekki dæmt um það hvernig leyst verður úr lögskiptum félagsins við þá sem ekki eru aðilar að þessu máli. Málinu verður því ekki vísað frá dómi ex officio.

   

  II.

                  Samkvæmt 96. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 geta hluthafar, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri höfðað mál vegna ákvörðunar hluthafafundar sem hefur verið tekin með ólögmætum hætti. Með stjórnarmanni og framkvæmdastjóra er átt við einstaklinga sem hlotið hafa skráningu sem slíkir í hlutafélagaskrá Ríkisskattstjóra. Stefnandi Sigmar Vilhjálmsson var ekki skráður í hlutafélagaskrá eftir aðalfund stefnda þann 3. ágúst 2016. Hins vegar er óumdeilt að hann var skráður stjórnarmaður í félaginu á þeim tíma sem ákvörðunin um að selja lóðarréttindin var tekin og kaupsamningur undirritaður. Orðalag ákvæðisins sker ekki úr um það hvort með stjórnarmönnum sé átt við þá sem eru stjórnarmenn á þeim tíma sem ákvörðun um málshöfðun er tekin eða hvort það taki til þeirra sem eru stjórnarmenn á þeim tíma sem hin umþrætta ákvörðun er tekin.

                  Í athugasemdum með frumvarpi, þegar ákvæði 96. gr. laga nr. 2/1995 var upphaflega lögfest, kom fram að ákvæðið fæli í sér rýmkun frá ákvæðum þágildandi laga, en þau bundu málshöfðunarréttinn við hluthafa. Með ákvæðinu var þannig verið að styrkja aðhaldshlutverk stjórnarmanna. Stjórnarmenn bera ábyrgð samkvæmt XV. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995 vegna tjóns sem þeir valda hlutafélaginu í störfum sínum. Ábyrgðin miðast við þær ákvarðanir sem voru teknar á þeim tíma sem þeir voru stjórnarmenn og fellur ekki niður við það eitt að þeir hætti stjórnarstörfum. Í dómaframkvæmd hefur verið fallist á þá niðurstöðu að málssóknarréttur hluthafa sé miðaður við þann tíma þegar þær ráðstafanir sem krafist er ógildingar á voru gerðar, sbr. Hrd. nr. 554/2017 og Hrd. nr. 215/2015. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er fallist á þau sjónarmið stefnanda að skýra verði ákvæðið á þá leið að það taki til stjórnarmanna á þeim tíma sem ákvörðun var tekin, enda hafi þeir lögvarða hagsmuni af ákvörðuninni. Önnur skýring myndi leiða til þess að meirihluti gæti boðað til hluthafafundar gagngert í þeim tilgangi að kjósa nýja stjórn til þess að losna undan yfirvofandi málshöfðun. Slík niðurstaða er í andstöðu við þá minnihlutavernd og aðhaldshlutverk stjórnarmanna sem lögunum er ætlað að tryggja. Samkvæmt framansögðu verður fallist á að stefnandi Sigmar Vilhjálmsson geti átt aðild að þessu máli, enda eru fyrir hendi lögvarðir hagsmunir.

                  Ákvörðun um málshöfðun stefnanda Sjarms og Garms ehf. var staðfest á hluthafafundi 23. desember 2016 eftir hlutkesti. Þeirri ákvörðun hefur ekki verið hnekkt með því að krefjast ógildingar hennar fyrir dómi. Í samþykktum félagsins er ekki kveðið á um hvernig með skuli fara ef atkvæði falla jöfn. Verður því fallist á að ákvörðun um málshöfðun stefnanda Sjarms og Garms ehf. hafi verið tekin með lögmætum hætti.

   

  III.

                  Samkvæmt samþykktum stefnda er tilgangur félagsins almenn ferðaþjónustustarfsemi og tengd starfsemi, rekstur eignarhaldsfélags, kaup, sala og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Verður ekki fallist á að sala á fasteign feli í sér breytingar á tilgangi félagsins, enda eitt af því sem sérstaklega er talið upp í samþykktum. Þá verður ekki fallist á að um vanheimild hafi verið að ræða. Stefndi átti réttindi í umræddri fasteign sem hann gat afsalað til þriðja aðila. Loks verður ekki fallist á að stjórn stefnanda hafi þurft að samþykkja kaupsamninginn áður en hann var lagður fyrir hluthafafund. Hluthafafundur er æðsta vald í málefnum hlutafélags, sbr. 80. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir því að ákvörðun hluthafafundar um sölu á fasteign sé bundin því að stjórn félagsins hafi áður samþykkt kaupsamninginn fyrir sitt leyti.

   

  IV.

                  Samkvæmt 95. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 má hluthafafundur ekki taka ákvörðun sem er fallin til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Ákvörðun hluthafafundar varðaði sölu á lóðarréttindum að Austurvegi 12 og 14 til Fox ehf. fyrir 40 milljónir króna, en forsvarsmenn stefnda segja að jafnframt hafi verið samið við kaupanda um 10 milljóna króna hækkun á kaupverðinu. Umrætt kaupverð er talsvert lægra en niðurstaða fyrirliggjandi matsgerðar, en þar er virði lóðanna þann 9. maí 2015 metið á bilinu 125–135 milljónir króna fyrir utan samlegðaráhrif sem geti numið allt að 25–55 milljónum króna.

                  Í málinu liggur fyrir að þáttur stefnanda Sjarms og Garms ehf. var ólíkur þætti annarra hluthafa. Stefnandi Sjarmur og Garmur ehf. lagði takmarkað fjármagn inn í stefnda, en það voru fyrst og fremst félög í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar sem fjármögnuðu rekstur félagsins. Slíkt fjármagn var að mati stefnanda Sigmars nauðsynleg forsenda þess að fá aðra fjárfesta og leigutaka að verkefninu. Í ljósi þessa verður að játa hluthöfum stefnda nokkurt svigrúm til þess að gera ráðstafanir sem miða að því að draga úr fjárhagslegri áhættu þeirra, einfalda rekstur félagsins og tryggja nauðsynlega fjármögnun frá þriðja aðila.

                  Þá liggur fyrir að aðkoma fjárfestingasjóðs á vegum Landsbréfa var háð því skilyrði að stofnað yrði sérstakt félag um ferðaþjónustuhluta verkefnisins sem fólst í uppsetningu eldfjalla- og jarðskjálftamiðstöðvar. Sjóðurinn lagði 240 milljónir króna inn í félagið og eignaðist 54,73% hlutafjár. Samhliða þessum viðskiptum var gerður hluthafasamningur þar sem fjárfestingasjóðurinn tryggði sér viss ítök í minjagripaverslun sem rekin yrði í fasteigninni og að leiguverð fyrir fyrirhugaða eldfjallamiðstöð tæki mið af fyrirliggjandi kostnaðaráætlun sem fylgdi hluthafasamkomulaginu. Þessar ráðstafanir höfðu vissulega áhrif á verðmæti lóðarréttindanna. Hins vegar verður ekki fallist á að með þessu samkomulagi hafi stefndi afsalað sér yfirráðum yfir umræddum lóðarréttindum.

                  Í skýrslu Skúla Gunnars Sigfússonar fyrir dómi kom fram að hann hefði fengið stefnanda Sigmar Vilhjálmsson í þetta verkefni til þess að koma ferðaþjónustuþættinum á laggirnar. Aldrei hefði staðið til að þeir færu saman í fasteignaverkefni, enda hefði hvorki hann og enn síður Sigmar einhverja þekkingu á slíku. Engar hugmyndir hafi verið uppi um að stefndi myndi reisa þessar byggingar, hvorki í stjórn stefnda né á hluthafafundum. Hvað sem þessu líður, þá liggur það fyrir að stofnað var hlutafélag sem eignaðist umrædd lóðarréttindi. Með því undirgengust hluthafar ákveðnar leikreglur sem þeir verða að hlíta, enda er ekki að finna neitt samkomulag milli hluthafanna þar sem aðrar forsendur eru tilteknar og hvaða afleiðingar það eigi að hafa. Þá eru samþykktir stefnda hefðbundnar samþykktir einkahlutafélags þar sem sérstaklega er tekið fram að kaup og sala fasteigna og fasteignarekstur sé hluti af tilgangi félagsins.

                  Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að virði lóðarréttindanna hafi verið umtalsvert meira en það verð sem stefndi seldi þau á. Í matsgerðinni er ekki sérstaklega vikið að hugsanlegum áhrifum hluthafasamkomulags hluthafa Butru ehf., sem stefnandi Sjarmur og Garmur ehf. var aðili að, á virði lóðarréttindanna. Aðspurðir fyrir dómi sögðu matsmenn að hluthafasamkomulagið hefði verið meðal þeirra gagna sem þeir byggðu mat sitt á en að mat þeirra væri að það hefði ekki haft veruleg áhrif á virði réttindanna. Stefndi hefur mótmælt niðurstöðu matsgerðarinnar og bent á að legið hafi fyrir tilboð í lóðirnar að fjárhæð 50 milljónir króna, sem stefnandi Sigmar hafi aflað frá þriðja aðila. Einungis hafi munað 10 milljónum króna á tilboðunum, auk þess sem síðar hafi verið samið um að tilboðið hækkaði um 10 milljónir króna. Þó að umrætt tilboð hafi gefið einhverja vísbendingu um verð lóðanna gaf það að mati dómsins engu að síður ástæðu til að fara betur ofan í verðforsendur lóðarréttindanna sem voru umdeildar meðal hluthafa.

                  Þó að verðmat á umræddum lóðarréttindum sé erfiðleikum bundið og játa verði hluthöfum nokkurt svigrúm til þess að draga úr áhættu vegna fjármögnunar er slíkt svigrúm ekki án takmarkana. Ágreiningur um virði lóðarréttindanna og sala til aðila sem tengdist tilteknum hluthöfum stefnda gaf fullt tilefni til þess að afla verðmats eða setja af stað söluferli svo að auðveldara yrði að leggja mat á verðmæti lóðanna. Stefndi verður að bera hallann af því að það var ekki gert. Með umræddri ákvörðun var eign stefnda ráðstafað til aðila sem tengdist ákveðnum hluthafahópi félagsins á verði sem var umtalsvert lægra en virði hennar samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð. Sú ákvörðun var tekin án þess aflað væri frekari upplýsinga um grundvöll þeirrar verðlagningar. Niðurstaða matsgerðarinnar er afgerandi, jafnvel þó horft sé til hluthafasamkomulagsins, og henni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að ákvörðunin hafi verið til þess fallin að afla öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað hluthafa eða félagsins. Því verður fallist á kröfu stefnenda um að ógilt verði ákvörðun hluthafafundar stefnda 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14 til Fox ehf. með vísan til 95. gr. og 96. gr. laga nr. 2/1995.

                  Við ákvörðun málskostnaðar verður horft til niðurstöðu málsins og þess að frávísunarkröfum stefnda var hafnað, auk kostnaðar vegna matsmáls. Jafnframt verður að horfa til þess að stefnendur féllu frá málsástæðum sem stefndi hafði undirbúið varnir fyrir, auk þess sem kröfu um þinglýsingu var hafnað. Með vísan til framangreinds þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 4.000.000 króna.

                  Af hálfu stefnenda flutti málið Daði Bjarnason lögmaður.

                  Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.

                  Helgi Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Sigríði Elsu Kjartansdóttur héraðsdómara og Hersi Sigurgeirssyni dósent.

   

  DÓMSORÐ:

                  Ógilt er ákvörðun hluthafafundar stefnda Stemmu hf. 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14, Hvolsvelli, auk stofnkostnaðar og annarra réttinda tengdra þeim, til Fox ehf., kt. 410908-1740, Gnitaheiði 3, Kópavogi, samkvæmt drögum að kaupsamningi, dags. í maí 2016, sem lögð voru fram á hluthafafundinum.

                  Stefndi greiði stefnendum 4.000.000 króna í málskostnað.