Viðurkennt að kvöð á lóðum um samnýtingu bílastæða hafi stofnast

04.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem N hf. krafðist viðurkenningar á því að samkvæmt stofnskjali fyrir lóðina Hagasmára 3, sem var skipt úr lóðinni Hagasmára 1, hvíldu kvaðir á lóðunum um samnýtingu bílastæða. Í dómi Hæstaréttar kom fram að til kvaðar yfir fasteign geti meðal annars stofnast með gagnkvæmum samningi milli eiganda eignarinnar og þess sem fær réttindi samkvæmt kvöðinni. Hvort kvöð stofnist á þeim grunni réðist af því hvort réttindin, sem samningurinn kvæði á um, gætu í eðli sínu talist hlutbundinn réttur og ef svo væri hvort ætlun samningsaðila hefði verið að stofna til slíkra hlutbundinna réttinda. Hæstiréttur taldi að virtum gögnum málsins að skipting lóðarinnar hefði ekki aðeins falið í sér landfræðilega afmörkun á útskiptri lóð, heldur hefði beinlínis verið gert ráð fyrir því að lóðarleiguhafarnir hefðu tilteknar gagnkvæmar heimildir á lóð hvors annars. Að mati Hæstaréttar var því talið ljóst að vilji aðila hefði staðið til þess að kvöðin hvíldi á lóðunum og að stofnað hefði verið til réttinda sem eftir eðli sínu fólu í sér hlutbundinn réttindi yfir eignunum. Var því lagt til grundvallar að stofnast hefði á einkaréttarlegum grundvelli kvöð um samnýtingu bílastæða á lóðunum.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.