Dómur um húsbóndaábyrgð og stórkostlegt gáleysi

04.06.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm þar sem S hf. krafði V hf., H hf. og R um endurgreiðslu vátryggingabóta sem S hf. hafði greitt úr húftryggingu L ehf. vegna tjóns sem varð á kranabifreið í umráðum L ehf. Málavextir voru þeir að L ehf. leitaði eftir því við H hf. að fá R tímabundið til starfa við að stjórna tiltekinni kranabifreið í útseldri tímavinnu. Þegar tjónið varð var R að hífa svokölluð andvægi á kranann sem var hluti af búnaði hans og nauðsynlegt fyrir notkun hans en við það valt hann á hliðina. Hefðu andvægin virst tvískipt en voru í raun þrískipt og voru því til viðbótar 3,85 tonn á króknum. Í dómi Hæstaréttar var fallist á það með Landsrétti að R hefði sýnt af sér gáleysi með því að ganga ekki úr skugga um hver væri þyngd andvægjanna sem hann hefði verið að hífa og að þar sem hann hefði ekki til frekara öryggis dregið út stoðfætur kranans. Við sakarmatið gagnvart R var litið til þess sem fram kom í skoðunarskýrslu fulltrúa vinnueftirlitsins um að andvægin virtust vera tvískipt og að R hefði ekki áttað sig á því hvað hefði orsakað óhappið fyrr en honum hefði verið bent á að þau væru í þremur hlutum en ekki tveimur. Að þessu gættu var talið ósannað að R hefði í umrætt sinn sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Þá var með vísan til heildstæðs mats á atvikum talið að R í skilningi reglunnar um vinnuveitandaábyrgð hefði verið starfsmaður L ehf. þegar tjónið varð þótt hann hefði starfað við verkið í útseldri vinnu frá H hf. og fengið greidd laun frá því félagi.Voru því H ehf. og V hf. sýknuð af kröfum S hf. Þá var talið ósanngjarnt í skilningi 3. mgr. 23. gr. skaðabótalaga að R yrði krafinn um bætur vegna tjónsins.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.