Dómur um skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna aðgerða lögreglu og ákæruvalds við rannsókn máls

25.05.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem A krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds sem höfðu átt sér stað á tímabilinu frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016 í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim. Þá krafðist A miskabóta vegna ummæla saksóknara á opinberum vettvangi, bæði við upphaf rannsóknar og eftir að henni lauk. Einnig krafðist hann skaðabóta vegna atvinnutjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknar og meðferðar málsins. Sakamál hafði verið höfðað gegn A og þremur öðrum mönnum vegna hinna ætluðu brota í mars 2013 en fallið var frá hluta sakargifta undir rekstri málsins þar sem lögáskilið samþykki ráðherra hefði ekki legið fyrir við setningu reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál og því talið að reglurnar gætu ekki talist viðhlítandi refsiheimild. Með dómi héraðsdóms í desember 2014 voru fjórmenningarnir svo sýknaðir af þeim sakargiftum sem eftir stóðu. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar en ákæruvaldið féll frá áfrýjuninni í febrúar 2016. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að unnt væri að dæma sökuðum manni miskabætur vegna yfirlýsinga ákæruvalds á þeim grunni að hann hefði við rannsókn og meðferð máls orðið fyrir ólögmætri meingerð sem beinst hefði gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var vísað til þess að greinarmunur væri gerður á ummælum þar sem fullyrt væri að sakborningur væri sekur um ákveðinn verknað og ummælum þar sem lýst væri grunsemdum um að hann hefði framið verknaðinn. Ummæli af fyrrnefnda taginu hefðu verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en þau síðari ekki. Taldi rétturinn að umrædd ummæli saksóknara hefðu hvorki falið í sér fullyrðingu um sekt A né að þau væru að öðru leyti því marki brennd að skylda Í til greiðslu miskabóta hefði stofnast vegna þeirra. Varðandi kröfu A um bætur vegna rannsóknaraðgerða kom fram að þótt skilyrði hefðu verið til að grípa til þeirra aðgerða og tryggingarráðstafana bæri íslenska ríkið eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeim samkvæmt 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var talið að innlánsvextir sem lagst hefðu á hið haldlagða og kyrrsetta fé hefði ekki veitt honum fulla bót og nægilega hefði verið leitt í ljós að hann hefði orðið fyrir frekara fjártjóni vegna þeirra aðgerða. Voru bætur ákveðnar að álitum eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar og að virtum ákvæðum 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að fjárhæð 600.000 krónur. Þá var íslenska ríkið sýknað af kröfu A um bætur vegna atvinnutjóns þegar af þeirri ástæðu að ekki yrði annað ráðið en að lögregla og ákæruvald hefðu ekki fengið upplýsingar um skort á samþykki ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008 fyrr en að liðnu því tímabili sem A miðaði kröfu sína við. Var íslenska ríkið því dæmt til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 600.000 krónur

 

 

Dóminn í heild sinni mál lesa hér.