Print

Mál nr. 52/2019

A (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
Lykilorð
 • Stjórnarskrá
 • Rannsókn
 • Kyrrsetning
 • Haldlagning
 • Skaðabætur
 • Miskabætur
 • Framsal lagasetningarvalds
 • Stjórnvaldsfyrirmæli
 • Refsiheimild
Reifun

A höfðaði mál á hendur Í og krafðist skaðabóta vegna ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds sem höfðu átt sér stað á tímabilinu frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016 í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim. Þá krafðist A miskabóta vegna ummæla saksóknara á opinberum vettvangi, bæði við upphaf rannsóknar og eftir að henni lauk. Einnig krafðist hann skaðabóta vegna atvinnutjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna rannsóknar og meðferðar málsins. Sakamál hafði verið höfðað gegn A og þremur öðrum mönnum vegna hinna ætluðu brota í mars 2013 en fallið var frá hluta sakargifta undir rekstri málsins þar sem lögáskilið samþykki ráðherra hefði ekki legið fyrir við setningu reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál og því talið að reglurnar gætu ekki talist viðhlítandi refsiheimild. Með dómi héraðsdóms í desember 2014 voru fjórmenningarnir svo sýknaðir af þeim sakargiftum sem eftir stóðu. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar en ákæruvaldið féll frá áfrýjuninni í febrúar 2016. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að unnt væri að dæma sökuðum manni miskabætur vegna yfirlýsinga ákæruvalds á þeim grunni að hann hefði við rannsókn og meðferð máls orðið fyrir ólögmætri meingerð sem beinst hefði gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var vísað til þess að greinarmunur væri gerður á ummælum þar sem fullyrt væri að sakborningur væri sekur um ákveðinn verknað og ummælum þar sem lýst væri grunsemdum um að hann hefði framið verknaðinn. Ummæli af fyrrnefnda taginu hefðu verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en þau síðari ekki. Taldi rétturinn að umrædd ummæli saksóknara hefðu hvorki falið í sér fullyrðingu um sekt A né að þau væru að öðru leyti því marki brennd að skylda Í til greiðslu miskabóta hefði stofnast vegna þeirra. Varðandi kröfu A um bætur vegna rannsóknaraðgerða kom fram að þótt skilyrði hefðu verið til að grípa til þeirra aðgerða og tryggingarráðstafana bæri Í eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeim samkvæmt 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var talið að innlánsvextir sem lagst hefðu á hið haldlagða og kyrrsetta fé hefði ekki veitt honum fulla bót og nægilega hefði verið leitt í ljós að hann hefði orðið fyrir frekara fjártjóni vegna þeirra aðgerða. Voru bætur ákveðnar að álitum eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar og að virtum ákvæðum 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að fjárhæð 600.000 krónur. Þá var Í sýknað af kröfu A um bætur vegna atvinnutjóns þegar af þeirri ástæðu að ekki yrði annað ráðið en að lögregla og ákæruvald hefði ekki fengið upplýsingar um skort á samþykki ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008 fyrr en að liðnu því tímabili sem A miðaði kröfu sína við. Var Í því dæmt til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 600.000 krónur

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2019. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 58.042.540 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. janúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna ýmissa aðgerða lögreglu og ákæruvalds sem áttu sér stað á tímabilinu frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016 í tengslum við rannsókn á ætluðum brotum á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim. Þá krefst hann miskabóta vegna ummæla saksóknara á opinberum vettvangi, bæði við upphaf rannsóknar og eftir að henni lauk. Einnig krefst hann skaðabóta vegna atvinnutjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna rannsóknar og meðferðar málsins.

Framangreind rannsókn hófst í lok árs 2009 og lauk með útgáfu ákæru 22. mars 2013 á hendur áfrýjanda og þremur öðrum mönnum fyrir að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Þá var þeim jafnframt gefið að sök að hafa á sama tímabili staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi. Við meðferð málsins féll ákæruvaldið frá síðara ákæruatriðinu og með dómi héraðsdóms 18. desember 2014 voru áfrýjandi og meðákærðu sýknaðir af því ákæruatriði sem eftir stóð. Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum 14. janúar 2015 til Hæstaréttar en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016.

Héraðsdómur féllst á kröfu áfrýjanda um miskabætur vegna rannsóknaraðgerða lögreglu samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og vegna tilgreindra ummæla saksóknara í fjölmiðlum við rannsókn málsins. Voru miskabætur vegna þessa ákveðnar að álitum samtals 1.400.000 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var stefnda gert að greiða áfrýjanda miskabætur að álitum vegna rannsóknaraðgerða lögreglu og tafa við rannsókn málsins, samtals 2.500.000 krónur.

Áfrýjandi undi dómi um miskabætur vegna framangreindra þvingunarúrræða og tafa við rannsókn málsins. Hann leitaði hins vegar eftir áfrýjunarleyfi 28. október 2019 hvað aðra þætti málsins varðaði og var leyfi veitt 19. nóvember sama ár á þeim grunni að úrslit málsins kynnu að hafa fordæmisgildi hvað varði mörk leyfilegrar opinberrar umfjöllunar lögreglu og ákæruvalds í sakamálum. Þá reyni í málinu á við hvaða aðstæður megi dæma bætur að álitum, annars vegar fyrir atvinnutjón og hins vegar vegna kyrrsetningar eða haldlagningar reiðufjár.

 Kröfur sínar fyrir Hæstarétti sundurliðar áfrýjandi með svofelldum hætti: 1. Krafa um miskabætur 2.000.000 krónur vegna yfirlýsinga saksóknara um sekt hans 29. janúar og 2. febrúar 2010 og 500.000 krónur vegna yfirlýsingar saksóknara 23. febrúar 2016. 2. Bætur fyrir fjárhagslegt tjón vegna kyrrsettra og haldlagðra eigna, aðallega 3.388.773 krónur, en til vara 1.643.828 krónur og til þrautavara 1.089.885 krónur. 3. Bætur fyrir atvinnutjón 52.153.767 krónur.

II

1

Í kjölfar hruns þriggja stærstu viðskiptabanka landsins í byrjun október 2008 var eitt brýnasta verkefni stjórnvalda að tryggja stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Af þeim sökum var talið nauðsynlegt að grípa til tímabundinna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum. Með lögum nr. 134/2008 um breytingu á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál með síðari breytingum og reglum nr. 1082/2008 um gjaldeyrismál, sem settar voru á grundvelli þeirra laga, voru slík höft sett á gjaldeyrisviðskipti.

Í 8. gr. laga nr. 87/1992 er mælt fyrir um að öðrum en Seðlabanka Íslands sé óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í fyrrnefndum breytingarlögum var Seðlabanka Íslands heimilt fram til 30. nóvember 2010, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga nr. 87/1992 og 9. gr. laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, að ákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmörkuðu eða stöðvuðu tímabundið einhverja eða alla flokka fjármagnshreyfinga, sem gerð var grein fyrir í ákvæðinu, og gjaldeyrisviðskipti sem þeim tengdust, ef slíkar hreyfingar fjármagns til og frá landinu myndu að mati bankans valda alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Til fjármagnshreyfinga samkvæmt þessu töldust meðal annars innlegg á og úttektir af reikningum í lánastofnunum og inn- og útflutningur innlends og erlends gjaldeyris. Seðlabanki Íslands nýtti þessa heimild með útgáfu framangreindra reglna nr. 1082/2008, sem tóku gildi 28. nóvember 2008. Þær féllu úr gildi 16. desember sama ár við gildistöku reglna nr. 1130/2008 um sama efni. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. síðargreindu reglnanna voru óheimil gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga samkvæmt framangreindu bráðabirgðaákvæði á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða Seðlabanka Íslands. Þá var í 13. gr. reglnanna mælt fyrir um viðurlög vegna brota á þeim. Þessar reglur féllu úr gildi 30. október 2009 með gildistöku nýrra reglna um sama efni nr. 880/2009. Í 2. og 3. gr. þeirra voru ákvæði sem takmörkuðu gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar í tengslum við þau.

2

Hinn 19. nóvember 2009 kærði Fjármálaeftirlitið til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra ætluð brot á  lögum nr. 87/1992 og reglum settum á grundvelli þeirra. Tilefni kærunnar var tilkynning Seðlabanka Íslands 11. sama mánaðar í samræmi við þágildandi ákvæði 15. gr. a. laganna. Í tilkynningunni kom fram að grunur beindist að sænska fyrirtækinu B AB vegna meiriháttar brota á lögunum á tímabilinu 25. mars til 5. október 2009. Fælust ætluð brot í óheimilli milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í atvinnuskyni af hálfu félagsins. Fjórir nafngreindir Íslendingar, þeirra á meðal áfrýjandi, væru einnig grunaðir um brot á lögunum vegna tengsla sinna við félagið, en þeir hefðu á tímabilinu fengið verulega fjármuni greidda frá félaginu inn á persónulega reikninga sína. Talið var að þessir aðilar hefðu haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án heimildar og þannig brotið gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Þá laut kæran að ætluðum brotum gegn 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008, sbr. 3. gr. laganna og 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í sömu lögum.

Með úrskurði héraðsdóms 28. janúar 2010 var að kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra heimiluð húsleit í húsnæði að [...] í Kópavogi, sem talið var starfsaðstaða B AB og tengdra félaga, og á heimilum þeirra fjögurra manna er rannsókn beindist að, þar á meðal áfrýjanda. Sama dag var einnig með úrskurði héraðsdóms heimiluð haldlagning og rannsókn gagna í vörslum Símans hf. er vörðuðu sömu aðila. Með úrskurði héraðsdóms 29. sama mánaðar var enn fremur heimiluð leit í bifreiðum í eigu eða umráðum fjórmenninganna þar af í tveimur bifreiðum í umráðum áfrýjanda. Sama dag kyrrsetti sýslumaður að kröfu ríkislögreglustjóra eignarhlut áfrýjanda í þremur fasteignum og innstæðu á tveimur bankareikningum hans til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur. Þá lagði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hald á innstæðu á einum bankareikningi áfrýjanda til viðbótar sem sýslumaður hafði ákveðið að undanþiggja kyrrsetningu með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 41. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Áfrýjandi og tveir aðrir grunaðir voru jafnframt handteknir þennan dag og yfirheyrðir síðdegis eftir að leit hafði farið fram á grundvelli fyrrgreindra úrskurða.

Ríkislögreglustjóri, í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands, boðaði til blaðamannafundar 29. janúar 2010. Fyrir hönd þessara stofnana voru á fundinum saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og forstöðumaður gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Í máli saksóknara kom meðal annars fram að þau brot sem væru til rannsóknar vörðuðu fyrst og fremst ólögmæta miðlun á gjaldeyri. Það væri háð leyfi Seðlabanka Íslands að hafa milligöngu um miðlun gjaldeyris og viðskiptin sem um ræddi væru umfangsmikil og líkleg til að hafa haft neikvæð áhrif á tilraunir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands til að vinna gegn veikingu krónunnar. Sagði saksóknari sterkar grunsemdir um að brotin væru með þessum hætti, en rannsókn málsins beindist að félaginu B AB sem skrásett væri í Svíþjóð og fjórum Íslendingum, sem saksóknari vildi ekki nafngreina. Væru þessir menn með skráð lögheimili erlendis og taldir raunverulegir eigendur félagsins með stjórn þess á hendi þótt tveir erlendir einstaklingar væru skráðir eigendur. Aðspurður í kjölfarið um hvort lögheimili sakborninga hefði áhrif á stöðu þeirra við rannsóknina svaraði saksóknari að hann teldi svo ekki vera. Rannsóknaraðilar teldu brotin hafa átt sér stað, en þó yrði að hafa þann fyrirvara að rannsókn stæði yfir og ekkert hefði enn verið sannað. Á fundinum kom einnig fram að fyrr sama dag hefði lögregla gert leit á heimilum fjórmenninganna og starfsstöð félagsins og að unnið hefði verið að því að tryggja upptöku ávinnings af ætluðum brotum með kyrrsetningum hérlendis og erlendis. Þrír væru í haldi og í yfirheyrslum en lögregla hefði mælt sér mót við þann fjórða sama dag. Hinn 2. febrúar 2010 veitti saksóknari viðtal við Morgunblaðið þar sem meðal annars kom fram það álit hans að sakborningar hefðu virst gera sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en rannsóknaraðilar væru ekki á þeirri skoðun.  

Með samkomulagi ríkislögreglustjóra og áfrýjanda var kyrrsetningargerð hjá áfrýjanda endurupptekin 18. maí 2011 og aflétt kyrrsetningu af tveimur þeirra fasteigna sem áður höfðu verið kyrrsettar. Þess í stað voru kyrrsettir fjármunir sem lagðir höfðu verið til viðbótar inn á annan áður kyrrsettan bankareikning jafnframt sem kyrrsettur var eignarhluti eiginkonu hans í tilgreindri fasteign en eignarhluti áfrýjanda í þeirri fasteign hafði áður verið kyrrsettur. Með dómi 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 felldi Hæstiréttur kyrrsetninguna úr gildi með þeim rökum að dráttur á rannsókn málsins hefði verið í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

3

Embætti sérstaks saksóknara tók við rannsókn málsins 1. september 2011 við sameiningu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og embættis sérstaks saksóknara. Hinn 14. júní 2012 voru áfrýjandi og aðrir grunaðir yfirheyrðir í annað sinn við rannsókn málsins og á ný 29. nóvember 2012. Rannsókn lauk hjá embætti sérstaks saksóknara 22. janúar 2013.

Hinn 22. mars 2013 var ákæra gefin út á hendur áfrýjanda og áðurnefndum þremur mönnum og þann sama dag var aftur kyrrsettur hlutur áfrýjanda í tilgreindri fasteign fyrir kröfu að fjárhæð allt að 164.000.000 króna. Með ákærunni var áfrýjanda og meðákærðu gefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Með því voru þeir taldir hafa brotið gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992, sbr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að því er tók til tímabilsins 25. mars til 13. júlí 2009, en frá þeim tíma og til 2. nóvember sama ár var háttsemin sögð varða við 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tölulið 16. gr., laga nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 73/2009 um gjaldeyrismál. Jafnframt var þeim gefið að sök að hafa á sama tímabili staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi. Var þessi háttsemi sögð varða við 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr., reglna nr. 1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. áðurnefndra laga um gjaldeyrismál vegna tímabilsins 25. mars 2009 til og með 30. október sama ár, en vegna tímabilsins 31. október til 2. nóvember sama ár hafi þessi háttsemi varðað við 2. og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna nr. 880/2009, sbr. sömu málsgrein bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms 14. mars 2014 var sakamálinu vísað frá dómi með þeim rökum að ákæran væri of óskýr til að dómur yrði lagður á málið. Með dómi Hæstaréttar 4. apríl 2014 í máli nr. 206/2014 var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar með vísan til þess að ákæran uppfyllti skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Við fyrirtöku málsins á ný í héraði 5. maí 2014 lagði ákæruvaldið fram bókun þar sem tekið var fram að lögáskilið samþykki ráðherra hefði ekki legið fyrir við setningu framangreindra reglna nr. 1130/2008. Vegna þessa annmarka gætu reglurnar ekki talist viðhlítandi refsiheimild og væri því fallið frá heimfærslu háttsemi ákærðu til þeirra. Þá var jafnframt bókuð sú yfirlýsing ákæruvalds að hið sama ætti við um reglur nr. 880/2009. Einskorðuðust sakargiftir í málinu því við brot gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 og þá verknaðarlýsingu sem lá þeirri heimfærslu til grundvallar, þannig að framangreindum fjórum einstaklingum var gefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi „án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands.“

Hinn 18. desember 2014 voru áfrýjandi og meðákærðu sýknaðir af því ákæruatriði sem eftir stóð. Í niðurstöðu dómsins kom fram að áfrýjandi og meðákærðu hefðu átt gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækjum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilar þeirra hefðu lagt inn á gjaldeyrisreikning í nafni B AB í Svíþjóð. Krónurnar hefðu síðan verið lagðar inn á bankareikning félagsins hér á landi og þaðan inn á bankareikning sem mótaðilinn hefði stofnað hér. Í því hefðu hin eiginlegu gjaldeyrisviðskipti falist og þau viðskipti ekki farið fram hér á landi. Því væri ekki fullnægt skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 að viðskiptin færu fram hér á landi.

Ákæruvaldið áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, 14. janúar 2015 en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016 eins og áður segir. Hinn 23. þess mánaðar veitti vararíkissaksóknari viðtal í Ríkisútvarpinu þar sem kom fram að fallið hefði verið frá áfrýjun málsins því líklegt hefði þótt að sakir væru fyrndar. Hefði fjárskortur og mannekla rannsóknaraðila meðal annars orðið til þess að málið dróst á langinn. Einnig hefði mun vægari hluti sakargiftanna staðið eftir þegar sá hluti sem varðaði brot gegn gjaldeyrishöftum hefði fallið niður vegna mistaka Seðlabanka Íslands sem ekki hefði fengið lögboðið samþykki viðskiptaráðherra fyrir setningu reglna sinna um gjaldeyrishöft.

III

1

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, en vísað er til þessa ákvæðis í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995.

Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um það hlutverk ákærenda að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum. Einnig segir að þeir taki ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum. Þá er í 3. mgr. greinarinnar mælt fyrir um hlutlægnisskyldu ákærenda með þeim hætti að þeir skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim ber jafnframt að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er.  Loks segir í 4. mgr. greinarinnar að ákærendur séu bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tekur þetta til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga sem varða starfshætti ákæruvalds og lögreglu og fyrirhugaðar aðgerðir í þágu rannsóknar, og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða eðli máls.

Þótt upplýsingalög nr. 140/2012 gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn, sbr. 1. mgr. 4. gr. þeirra, og réttur almennings til upplýsinga nái almennt ekki til slíkra upplýsinga sem að framan greinir verður með hliðsjón af rétti almennings til að taka við upplýsingum samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að líta svo á að eðlilegur hluti starfs yfirmanna lögreglu og ákæruvalds sé að gera fjölmiðlum nokkra grein fyrir stöðu máls meðan á rannsókn þess stendur og þeim ákvörðunum sem teknar eru, sbr. til hliðsjónar dóm mannréttindadómstóls Evrópu 24. janúar 2017 í máli Paulikas gegn Litháen og þá dóma sem þar er vísað til. Fer það þó nokkuð eftir eðli mála hverju sinni og hversu mjög málefni telst eiga erindi við almenning, en gæta verður nauðsynlegs skýrleika og varfærni í yfirlýsingum svo ummæli teljist ekki andstæð framangreindri meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Samkvæmt framansögðu er unnt að dæma sökuðum manni miskabætur vegna yfirlýsinga ákæruvalds á þeim grunni að hann hafi við rannsókn og meðferð máls orðið fyrir ólögmætri meingerð, sem beinst hefur gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður í því tilliti að líta til efnis yfirlýsinga ákæruvalds með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, af hvaða tilefni þær eru settar fram og hvernig og í hvaða samhengi það er gert. Þannig er greinarmunur á ummælum þar sem fullyrt er að sakborningur sé sekur um ákveðinn verknað og ummælum þar sem lýst er grunsemdum um að hann hafi framið verknaðinn. Ummæli af fyrrnefnda taginu hafa verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en ummæli af síðarnefndum toga ekki. Eðli máls samkvæmt hvílir sérstaklega rík skylda á handhafa ákæruvalds að gæta orða sinna í þessum efnum, sbr. meðal annars dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 6. febrúar 2007 í máli Garycki gegn Póllandi.

Ummæli saksóknara á blaðamannafundinum 29. janúar 2010, sem áfrýjandi vísar sérstaklega til, fólust í svari við spurningu blaðamanns um hvort lögheimili sakborninga hefði áhrif á stöðu þeirra við rannsóknina. Samkvæmt nýju og mikið leiðréttu endurriti, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, sagði saksóknari: „Ég sé það ekki að það geri það, það er ekki hefur ekki áhrif á hugsanlega refsiábyrgð og brot þessi teljast vera að okkar áliti alla vega, teljist þau sönnuð og ég vill nú hafa alltaf þennan fyrirvara og við erum að tala um mál sem er í rannsókn og það er ekki búið að sanna neitt og grunsemdir og annað slíkt. En þá eru þau talin vera fullframin á Íslandi. Með því að skila að sem sagt að viðskiptunum ljúki með því að íslenskum krónum sé skilað til Íslands til íslenskra aðila. Þar af leiðandi séu brot framin á Íslandi og sé þá í rauninni ekki atriði, skipti þá ekki máli hvort það eru íslenskir menn með lögheimili hér eða erlendis eða erlendir aðilar sem fremji brotin.“

Þótt nafn félagsins B AB hafi komið fram á blaðamannafundi sem haldinn var á sama degi og umfangsmiklar rannsóknaraðgerðir gegn áfrýjanda hófust viðhafði saksóknari afdráttarlaust þá fyrirvara er lög bjóða um ætlaða sekt ónafngreindra manna sem tengdust því félagi og tók fram að sök hefði ekki verið sönnuð. Að þessu gættu og í ljósi þess að rannsóknin varðaði þjóðfélagsmál sem átti brýnt erindi við almenning verður ekki talið að næg efni séu til að dæma áfrýjanda miskabætur vegna þessara ummæla.

Þá voru ummæli sem Morgunblaðið hafði eftir saksóknara 2. febrúar 2010 svofelld: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“ Skilja verður ummælin svo að hér sé saksóknari að veita almenningi innsýn í rannsókn málsins eins og hún þá stóð og gengu ummælin ekki lengra en að fela það í sér að lýsa því viðhorfi að fyrir hendi væru grunsemdir lögreglu um brot, án þess að staðhæft væri að refsivert brot hefði verið framið. Í því ljósi verður ekki talið að ummælin séu þess eðlis að leiði til bótaskyldu stefnda.

Loks koma til skoðunar eftirfarandi ummæli saksóknarans í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016: „Auðvitað tók þessi rannsókn miklu lengri tíma en að var stefnt. Og í ljósi þess að þá teljum við að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja þetta vera fyrnt, þessar sakir. Og að það sé þá réttara í ljósi allrar meðferðar málsins að láta hér við sitja.“ Hér er þess að gæta að áfrýjun máls felur einatt í sér að dómi sé ekki unað. Jafnframt vísaði saksóknari til þess að mun vægari hluti sakargifta hefði staðið eftir sökum þess að ákæra vegna brota gegn gjaldeyrishöftum hefði fallið niður vegna mistaka Seðlabanka Íslands sem ekki hefði fengið lögboðið samþykki viðskiptaráðherra fyrir setningu reglna sinna um gjaldeyrishöft. Í þessu samhengi verður hvorki talið að fyrrgreind ummæli hafi falið í sér fullyrðingu um sekt áfrýjanda né að þau séu að öðru leyti því marki brennd að skylda stefnda til greiðslu miskabóta hafi stofnast vegna þeirra.

2

Svo sem áður greinir unir áfrýjandi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um dæmdar miskabætur samkvæmt 246. gr. laga nr. 88/2008, vegna rannsóknaraðgerða sem áttu sér stað samkvæmt IX. til XIII. kafla laganna. Eftir stendur því krafa hans um skaðabætur fyrir fjártjón, vegna kyrrsetningar og haldlagningar reiðufjár á bankainnstæðum.

Áfrýjandi byggir á því að honum beri bætur vegna haldlagningar og kyrrsetningar reiðufjár á hlutlægum grunni samkvæmt 246. gr. laga nr. 88/2008. Telur hann rétt að líta með tilgreindum hætti til laga nr. 38/2001 sem viðmiðs fyrir meðalhófsbætur vegna missis afnota reiðufjár, að virtri 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 sem mælir fyrir um að bætur megi dæma að álitum vegna kyrrsetningar er fellur niður ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið, en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess.

Eins og áður greinir liggur fyrir að rannsókn sú sem fór fram á starfsemi áfrýjanda og samstarfsfélaga hans á vettvangi B AB laut að afar umfangsmikilli milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án þess að aflað hefði verið heimildar Seðlabanka Íslands samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992. Töldu stjórnvöld að starfsemi áfrýjanda og annarra sem að málinu komu græfi verulega undan því markmiði laganna að tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir bærist til landsins. Þótt skilyrði hafi verið til að grípa til þeirra rannsóknaraðgerða og tryggingaráðstafana sem um ræðir, og komu í kjölfar úrskurða dómstóls, ber stefndi eigi að síður hlutlæga ábyrgð á þeim samkvæmt 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Þó má lækka bætur eða fella þær niður sýni stefndi fram á að áfrýjandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á, sbr. síðari málslið 2. mgr. 246. gr. laganna. Á það verður ekki fallist með stefnda að áfrýjandi hafi valdið eða stuðlað að því að fjármunir hans voru kyrrsettir og haldlagðir þann tíma sem um ræðir. Eru því ekki efni til að fella niður eða lækka bætur til hans af þeim sökum. Eftir sem áður ber honum að sanna fjártjón sitt vegna þessara aðgerða.       

Hjá áfrýjanda voru kyrrsettir tveir bankareikningar með innstæðu samtals að fjárhæð tæpar fjórar milljónir króna auk þess sem haldlagður var reikningur hans með rúmlega sex milljón krónum. Við endurupptöku kyrrsetningar 18. maí 2011 voru svo 10 milljón krónur til viðbótar lagðar inn á annan hinna kyrrsettu reikninga. Kyrrsetningargerðir þessar voru loks felldar úr gildi með framangreindum dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að haldlagningunni hafi verið aflétt á sama tíma. Fallist er á með áfrýjanda að þeir innlánsvextir sem lögðust á hið haldlagða og kyrrsetta fé þann tíma sem um ræðir hafi ekki veitt honum fulla bót og nægilega sé í ljós leitt að hann hafi orðið fyrir frekara fjártjóni vegna þessara aðgerða.

Í lögum er ekki að finna ákvæði er kveða beinlínis á um hvernig reikna skuli fjárhæð bóta í tilviki sem þessu. Verða bætur því ákveðnar að álitum eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar og að virtum ákvæðum 42. gr. laga nr. 31/1990 um heimild til að ákveða bætur á þeim grunni. Þótt ákvæði laga nr. 38/2001 eigi samkvæmt efni sínu ekki við um kröfu sem þessa má við ákvörðun bóta líta til ákvæða 4. gr. laganna um almenna vexti á útlánum, að teknu tilliti til þeirra innlánsvaxta sem lögðust á innstæður þessar umrætt tímabil, en stefndi hefur ekki vefengt tölulega útreikninga áfrýjanda þar að lútandi. Að þessu virtu verða bætur ákveðnar 600.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2017 til greiðsludags, en nefndan dag var mánuður frá höfðun málsins.

3

          Kröfu sína um bætur fyrir atvinnutjón reisir áfrýjandi á því að saknæm háttsemi lögreglu og ákæruvalds við rannsókn og meðferð sakamálsins hafi leitt til þess að sér hafi ekki verið unnt að fá atvinnu við hæfi. Hafi rannsókn verið haldið áfram þrátt fyrir vitneskju þessara aðila um að framangreindar reglur nr. 1130/2008 hefðu ekki getað orðið grundvöllur refsiábyrgðar. Annars vegar hafi falist í reglunum ólögmætt framsal lagasetningarvalds til handa Seðlabanka Íslands og hins vegar hafi skort á samþykki viðskiptaráðherra fyrir útgáfu þeirra. Að þessu fengnu hafi einungis staðið eftir ætlað brot hans gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Grunsemdir um það brot hefðu ekki átt að kalla á viðamikla rannsókn, enda ætíð legið fyrir að viðskiptin sem um ræðir hefðu átt sér stað erlendis og ekki verið háð samþykki Seðlabanka Íslands. Miðar áfrýjandi kröfu sína við tímabilið frá og með febrúar 2011 til og með apríl 2012 og takmarkar hana við aðgerðir lögreglu og ákæruvalds, en ekki annarra stjórnvalda.

          Maður sem sakaður hefur verið um refsiverða háttsemi á ekki einvörðungu rétt á bótum á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu í 246. gr. laga nr. 88/2008, heldur getur hann einnig átt slíkan rétt eftir almennu sakarreglunni, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóm Hæstaréttar 6. maí 2009 í máli nr. 445/2008. Skilyrði þess að slíkri ábyrgð verði komið fram eru þó að lögreglumenn eða handhafar ákæruvalds hafi valdið sökuðum manni tjóni sem rakið verður til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á og fellur ekki undir gildissvið XXXIX. kafla laga nr. 88/2008 um bætur vegna sakamáls, sbr. dóm Hæstaréttar 6. mars 2019 í máli nr. 27/2018. Verður jafnframt að líta til þess að lögregla og handhafar ákæruvalds njóta að lögum verulegs sjálfstæðis við ákvörðun um rannsókn og höfðun refsimáls, sbr. III. og VII. kafla laga nr. 88/2008. Sætir mat þeirra um það ekki endurskoðun dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar 8. maí 2008 í máli nr. 207/2008 og 20. desember 2018 í máli nr. 30/2018.   

          Í málinu hefur komið fram að snemma árs 2011 var haldinn fundur í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu með ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og fulltrúa frá Seðlabanka Íslands, meðal annars til undirbúnings sameiningar efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og embættis sérstaks saksóknara 1. september það ár. Á fundinum mun meðal annars hafa verið rætt hvort reglur nr. 1130/2008 fælu í sér of víðtækt framsal lagasetningarvalds. Á hinn bóginn hefur ekkert komið fram um að þar hafi verið upplýst að ráðherra hefði ekki samþykkt reglur þessar. Þá er í gögnum málsins bréf sérstaks saksóknara 7. apríl 2014 til verjenda ákærðu í framangreindu sakamáli þar sem fram kemur að embættið hafi um haustið 2011 óskað eftir upplýsingum frá gjaldeyriseftirliti seðlabankans um lögáskilin samþykki ráðherra fyrir reglusetningu bankans um gjaldeyrismál. Hafi embættið fengið þau munnlegu svör frá bankanum að formlegar staðfestingar fyrir reglunum hefðu ætíð legið fyrir. Embættið hafi ekki séð ástæðu til að vefengja þau svör en vegna dómsmeðferðar í sakamálinu talið rétt að afla formlegra og skriflegra upplýsinga þar um. Í fyrstu hafi svör bankans gefið til kynna að samþykki ráðherra fyrir reglum um málefnið hafi legið fyrir, en samkvæmt síðasta svari bankans 27. janúar 2014 hafi ekki fundist formleg staðfesting ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008.

          Samkvæmt þessu og öðrum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að lögregla og ákæruvald hafi ekki fengið upplýsingar um skort á samþykki ráðherra fyrir reglum nr. 1130/2008 fyrr en eftir að áfrýjandi hóf störf á ný hjá fyrirtæki á fjármálamarkaði. Fékk lögregla og ákæruvald því ekki vitneskju um þetta fyrr en að liðnu framangreindu tímabili sem áfrýjandi miðar kröfu sína við. Ber honum þegar af þeim sökum ekki bætur á þeim grunni.

          Ekki verður heldur fallist á með áfrýjanda að lögregla eða handhafar ákæruvalds hafi sýnt af sér skaðabótaskylt gáleysi við að ganga ekki harðar fram eftir réttum upplýsingum frá Seðlabanka Íslands eða viðskiptaráðherra um hvort framangreindar reglur sem birtar höfðu verið skorti lögboðið samþykki ráðherra. Enn síður verður talið að saknæm háttsemi lögreglu og ákæruvalds hefði getað falist í áframhaldandi rannsókn á brotum gegn reglunum enda um að ræða efnislegt atriði sem útkljáð yrði með dómi.

          Samkvæmt því sem rakið hefur verið fer einnig fjarri að fallist verði á með áfrýjanda að rannsókn sú er laut að brotum gegn 8. gr. laga nr. 87/1992 og leiddi til ákæru geti hafa falið í sér skaðabótaskylda háttsemi gagnvart honum. Verður stefndi því sýknaður af kröfu áfrýjanda um bætur vegna atvinnutjóns.

4

          Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

          Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

        Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, A, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2017 til greiðsludags.

          Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð.

          Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                  

 

 

 

Dómur Landsréttar 11. október 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Oddný Mjöll Arnardóttir og Arngrímur Ísberg, settur landsréttardómari.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 25. október 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2018 í málinu nr. E-508/2017.

 2. Aðaláfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

 3. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Landsréttar fyrir sitt leyti 22. nóvember 2018. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum 65.092.540 krónur auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

  Málsatvik og sönnunarfærsla

 4. Hinn 11. nóvember 2009 tilkynnti Seðlabanki Íslands Fjármálaeftirlitinu, í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, að grunur væri um að sænskt félag með heitinu B AB og fjórir nafngreindir menn, þar á meðal gagnáfrýjandi, hefðu brotið á nánar tilgreindan hátt gegn þeim lögum og reglum nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál, en þær hafi bankinn gefið út 15. desember 2008 og fengið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Á grundvelli þessarar tilkynningar sendi Fjármálaeftirlitið kæru 19. nóvember 2009 til þáverandi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra sem tók málið til rannsóknar í janúar 2010.

 5. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2010 var að kröfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra heimiluð húsleit í húsnæði að [...], Kópavogi, sem sagt var vera starfsaðstaða B AB og tengdra félaga og á heimilum og í fasteignum þeirra fjögurra manna er rannsókn beindist að, þar á meðal gagnáfrýjanda. Sama dag var jafnframt heimiluð haldlagning og rannsókn gagna í vörslum Símans hf. er vörðuðu sömu aðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. sama mánaðar var enn fremur heimiluð leit í bifreiðum í eigu eða umráðum fjórmenninganna, þar af voru tvær bifreiðar í umráðum gagnáfrýjanda. Sama dag kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík að kröfu ríkislögreglustjóra eignarhlut gagnáfrýjanda í þremur fasteignum og innstæðu á tveimur bankareikningum hans til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur. Þá haldlagði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra innstæðu á einum bankareikningi til viðbótar.

 6. Gagnáfrýjandi var handtekinn 29. janúar 2010 og þann dag fór fram húsleit á heimili hans á grundvelli áðurnefnds úrskurðar. Þennan sama dag boðaði efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til blaðamannafundar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands þar sem greint var frá þeim rannsóknaraðgerðum sem að framan greinir. Á fundinum kom fram að rannsóknin væri nýhafin og beindist að hinu sænska félagi, sem var nafngreint, og fjórum einstaklingum hér á landi sem væru taldir tengjast félaginu, ætluðum brotum þeirra var lýst og hugsanlegri refsiábyrgð sem og áhrifum brotanna á gjaldeyrisstöðugleika í landinu. Fram kom að sterkar grunsemdir væru fyrir hendi af hálfu lögregluyfirvalda um brot á áðurnefndum lögum og reglum um gjaldeyrismál. Sagði þáverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra meðal annars að lögregluyfirvöld teldu brot þessara fjögurra einstaklinga „sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að tala um mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt“. Í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar 2010 var haft eftir yfirmanninum að þessir fjórir einstaklingar „virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið“. Sama dag og framangreindar húsleitir og blaðamannafundur fóru fram var tekin skýrsla af gagnáfrýjanda.

 7. Með samkomulagi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og gagnáfrýjanda var framangreind kyrrsetningargerð endurupptekin 18. maí 2011 og aflétt kyrrsetningu af tveimur þeirra fasteigna sem áður höfðu verið kyrrsettar, en þess í stað kyrrsett öll innstæða á tilteknum bankareikningi gagnáfrýjanda og eignarhluti eiginkonu gagnáfrýjanda í þriðju fasteigninni. Í framhaldi af því að lög nr. 82/2011 um breytingu á lögum nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara öðluðust gildi 1. september 2011 tók það embætti við rannsókn málsins.

 8. Með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 var fallist á kröfu gagnáfrýjanda um að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 29. janúar 2010 og 18. maí 2011, um að kyrrsetja áðurgreindar eignir gagnáfrýjanda, yrði felld úr gildi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tvö ár og rúmir tveir mánuður væru liðnir frá því að kæra Fjármálaeftirlitsins barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Gripið hefði verið til nokkuð umfangsmikilla rannsóknaraðgerða og tryggingarráðstafana í lok janúar 2010. Í framhaldi af því hefði verið tekin skýrsla af einu vitni en síðan hefði ekki verið aflað gagna í þágu rannsóknarinnar ef frá væru taldar skýrslur sem teknar voru af sjö mönnum snemma árs 2011. Hefði sérstakur saksóknari ekki gert það líklegt að ekki hefði mátt ljúka úrvinnslu rannsóknargagna á mun skemmri tíma en embættið hefði haft til þess. Taldi Hæstiréttur að þessi dráttur á rannsókn málsins væri með þeim hætti að færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 

 9. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur fjórmenningunum 22. mars 2013. Sama dag var að kröfu embættisins kyrrsettur á ný eignarhlutur gagnáfrýjanda í nánar tiltekinni fasteign til tryggingar kröfu að fjárhæð allt að 164.000.000 króna.

 10. Undir rekstri framangreinds sakamáls fyrir héraðsdómi leitaði embætti sérstaks saksóknara að gefnu tilefni upplýsinga Seðlabanka Íslands um hvernig aflað hefði verið þess samþykkis ráðherra fyrir setningu reglna nr. 1130/2008 sem áskilið var í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 87/1992, svo sem þeim hafði verið breytt með lögum nr. 134/2008. Samkvæmt svari bankans fannst engin formleg staðfesting ráðherra á reglum þessum. Í framhaldi af því féll ákæruvaldið frá sakargiftum sem vörðuðu brot gegn reglum Seðlabanka Íslands en hélt málinu að öðru leyti áfram í óbreyttu horfi. Með dómi héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014 var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum 14. janúar 2015, en féll frá áfrýjuninni 18. febrúar 2016, einu ári og rúmum einum mánuði síðar. Málið var síðan fellt niður fyrir Hæstarétti 19. febrúar 2016. Í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016 greindi vararíkissaksóknari frá því að ástæða þess að fallið var frá áfrýjun málsins væri sú að miklar líkur væru á því að sakir málsins yrðu taldar fyrndar.

 11. Við aðalmeðferð málsins í héraði gaf gagnáfrýjandi aðilaskýrslu og greindi frá því að málið hefði haft mikil og þungbær áhrif á sig. Þá komu eftirtalin vitni fyrir héraðsdóm: Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi starfsmaður Seðlabanka Íslands, Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari við embætti héraðssaksóknara, áður saksóknari við embætti sérstaks saksóknara og Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og fyrrverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Hreiðar og Valtýr báru að á fundi sem haldinn var í dóms- og mannréttindaráðuneyti snemma árs 2011 hafi áhyggjur Seðlabanka Íslands af reglum nr. 1130/2008 sem refsiheimild komið til tals. Í vætti Finns kom fram að þegar mál B AB og fjórmenninganna kom frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra í september 2011 hafi enn átt eftir að vinna mikið í því. Helgi Magnús bar að vegna manneklu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefði rannsókn málsins farið að „haltra“.

 12. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti gaf Elvar Rúnarsson, starfsmaður Íslandsbanka hf., vitnaskýrslu og bar að hann hefði hvatt gagnáfrýjanda til að sækja um starf „forstöðumanns stýringa eigna VÍB“ en þar sem hann hefði haft réttarstöðu grunaðs manns hafi hann ekki komið til greina í starfið.

  Niðurstaða

 13. Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi meðal annars skaðabóta á grundvelli þágildandi 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú 246. gr. sömu laga, vegna rannsóknaraðgerða sem hann sætti af hendi lögreglu og sérstaks saksóknara á tímabilinu 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016, þegar aflétt var síðari kyrrsetningu eigna gagnáfrýjanda. Fólust þessar aðgerðir í handtöku, leit á heimili, skrifstofu, í íbúð, bílskúr og tveimur bifreiðum í umráðum gagnáfrýjanda, haldlagningu og rannsókn gagna frá Símanum hf., kyrrsetningu á eignum í tvígang og haldlagningu innstæðu á bankareikningi.

 14. Samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 á maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, rétt til bóta úr hendi aðaláfrýjanda samkvæmt 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að dæma skuli bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði fyrstu málsgreinarinnar eru fyrir hendi. Þar er þó einnig tekið fram að fella megi niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum, sem krafa hans er reist á.

 15. Í málinu liggur fyrir að gagnáfrýjandi sætti framangreindum aðgerðum samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr. 88/2008 í þágu rannsóknar á sakamáli, þar sem hann var sýknaður með endanlegum dómi. Hann á því rétt til skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda nema því aðeins að telja megi hann sjálfan hafa valdið eða stuðlað að þeim.

 16. Aðaláfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til þess að rannsókn málsins hafi ekki verið tilhæfulaus. Málið hafi horft þannig við lögreglu að rökstuddur grunur hafi verið um að starfsemi B AB hafi verið andstæð lögum nr. 87/1992 og reglum Seðlabanka Íslands nr. 1130/2008. Starfsemi félagsins hafi verið umfangsmikil og til þess fallin að torvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir skilaði sér til landsins. Gagnáfrýjandi hafi jafnframt ekki leitast við að upplýsa málið. Hann hafi í yfirheyrslu hjá lögreglu 29. janúar 2010 veitt litlar upplýsingar, neitað að tjá sig um sakarefnið og gefið ótrúverðugar skýringar á fjármagnsflutningum milli reikninga í sinni eigu og B AB. Í síðari tveimur yfirheyrslum hafi hann neitað að tjá sig. Hann hafi því sjálfur stuðlað að upphafsaðgerðum lögreglu gegn sér.

 17. Við meðferð máls ákæruvaldsins gegn gagnáfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjaness komu tveir starfsmenn Seðlabanka Íslands fyrir dóm og báru að þeim hefði borist tilkynning frá Skandinaviska Enskilda Banken AB um að bankinn hefði tekið B AB í viðskipti og að þau snerust um aflandsviðskipti með íslenskar krónur. Var því engin leynd yfir þeim viðskiptum, sem gagnáfrýjandi taldi frá upphafi lögleg, líkt og síðar var staðfest, hvað varðaði þá ákæruliði sem þá hafði ekki verið fallið frá, með endanlegum sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014. Verður því ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að tildrög rannsóknarinnar hafi verið með þeim hætti að gagnáfrýjandi hafi með háttsemi sinni valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem gripið var til. Þá verður framburður gagnáfrýjanda hjá lögreglu ekki einn og sér talinn leiða til þess að hann teljist hafa valdið eða stuðlað að upphafsaðgerðum lögreglu í skilningi 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Er þá einnig horft til þess að gagnáfrýjandi var fyrst yfirheyrður síðla dags 29. janúar 2010 þegar upphafsaðgerðir lögreglu í rannsókn málsins í formi leitar, haldlagningar gagna og kyrrsetningar á fjármunum höfðu þegar farið fram. Aðaláfrýjanda verður því gert að greiða gagnáfrýjanda miskabætur vegna rannsóknaraðgerða lögreglu samkvæmt IX. til XIII. kafla laga nr. 88/2008.

 18. Gagnáfrýjandi krefst jafnframt skaðabóta fyrir fjárhagstjón sem hann hafi orðið fyrir vegna kyrrsettra og haldlagðra peningaeigna. Samkvæmt 5. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 skal bæta fjártjón og miska samkvæmt lagagreininni ef því er að skipta. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem varpa ljósi á umfang fjárhagslegs tjóns síns en kveður kröfu sína byggjast á mismun þeirra vaxta sem þær eignir báru meðan á kyrrsetningunni og haldlagningunni stóð og dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sem séu lögákveðnar meðalhófsbætur fyrir missi afnota af peningum. Til vara byggir hann á vaxtamun raunvaxta og vaxta samkvæmt 4. eða 8. gr. sömu laga.

 19. Ákvæði II. til IV. kafla laga nr. 38/2001 eiga ekki samkvæmt efni sínu við um kröfu vegna missis afnota af kyrrsettu eða haldlögðu fé og verður framangreind krafa gagnáfrýjanda um greiðslu bóta fyrir fjártjón því ekki á þeim byggð. Þá er óumdeilt í málinu að umræddir fjármunir báru vexti á meðan þeir voru kyrrsettir eða haldlagðir og gagnáfrýjandi hefur ekki gert sennilegt að hann hefði getað ávaxtað þá betur hefðu þeir staðið honum til frjálsrar ráðstöfunar. Kemur því heldur ekki til greina að honum verði dæmdar bætur að álitum á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 2. mgr. 88. gr. laga nr. 88/2008. 

 20. Gagnáfrýjandi hefur jafnframt byggt á því að hann hafi ekki aðeins beðið tjón vegna aðgerða sem falla undir 246. gr. laga nr. 88/2008. Þannig krefst hann skaðabóta annars vegar vegna yfirlýsinga yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á blaðamannafundi 29. janúar 2010 og í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar sama ár og hins vegar vegna ummæla vararíkissaksóknara er fram komu í viðtali sem birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins 23. febrúar 2016. Þá krefst hann skaðabóta vegna óhæfilegs dráttar málsins og vegna atvinnutjóns.

 21. Maður sem sakaður hefur verið um refsiverða háttsemi á ekki aðeins rétt á bótum úr hendi aðaláfrýjanda á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 246. gr. laga nr. 88/2008, heldur einnig samkvæmt almennu sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Skilyrði þess að bótaábyrgð verði dæmd er þó að lögreglumenn, handhafar ákæruvalds eða aðrir ríkisstarfsmenn hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið honum tjóni. Sökuðum manni verða jafnframt aðeins dæmdar miskabætur á þessum grunni ef hann hefur orðið fyrir líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi þess sem varð valdur að því, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða ólögmætri meingerð sem beinst hefur gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans, sbr. b-lið sömu málsgreinar.

 22. Gagnáfrýjandi kveður nánar tiltekin ummæli yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á blaðamannafundi 29. janúar 2010, í Morgunblaðinu 2. febrúar sama ár og í Ríkisútvarpinu 23. febrúar 2016 hafa verið ólögmæt og saknæm og andstæð rétti gagnáfrýjanda til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

 23. Endurrit af fyrrnefndum blaðamannafundi liggur fyrir í gögnum málsins. Þar er eins og áður er komið fram haft eftir yfirmanninum: „…brot þessi teljast vera að okkar áliti allavega teljast þau sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að tala um mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt.“ Í gögnum málsins er einnig að finna afrit af viðtali við þennan sama yfirmann sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2010 þar sem eftirfarandi er haft eftir honum: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“ Enn fremur liggur fyrir endurrit fréttar sem birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins 23. febrúar 2016 þar sem eftirfarandi er haft eftir vararíkissaksóknara um ástæður þess að málið var fellt niður fyrir Hæstarétti: „Auðvitað tók þessi rannsókn miklu lengri tíma en að var stefnt. Og í ljósi þess að þá teljum við að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja að þetta væri fyrnt þessar sakir.“

 24. Ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu felur bæði í sér rétt til að veita og taka við upplýsingum. Af þeim sökum hefur lögreglu og opinberum starfsmönnum verið talið heimilt að upplýsa almenning um rannsókn sakamála enda sé gætt meginreglunnar í 2. mgr. 6. gr. sáttmálans um að hver sá sem borinn er sökum skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Greinarmun verður að gera á ummælum þar sem fullyrt er að sakborningur sé sekur um tiltekinn verknað og ummælum þar sem lýst er grunsemdum um að hann hafi framið verknaðinn. Ummæli sem falla undir fyrrnefnda flokkinn hafa verið talin fara í bága við meginreglu 2. mgr. 6. gr. en ekki ummæli sem falla í síðarnefnda flokkinn, sbr. meðal annars dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 6. febrúar 2007 í máli Garycki gegn Póllandi.

 25. Meta verður efni tilvitnaðra yfirlýsinga, ekki aðeins með hliðsjón af orðalagi þeirra, heldur einnig hvar og hvernig þær eru settar fram, af hvaða tilefni og í hvaða samhengi. Þótt yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra komist svo að orði í hinni tilvitnuðu yfirlýsingu frá blaðamannafundinum 29. janúar 2010 að „brot þessi teljast að okkar áliti allavega teljast þau sönnuð …“ bætir hann við í beinu framhaldi að um sé að ræða grunsemdir og mál í rannsókn. Skilja verður ummælin svo að þar sé yfirmaðurinn að greina frá því mati lögregluyfirvalda að í málinu liggi fyrir nægar sannanir svo að leitt geti til sakfellingar fyrir dómi. Að því virtu verða þau ekki talin brjóta í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 26. mars 2002 í máli Butkevicius gegn Litháen. Hið sama á við um ummælin frá 2. febrúar 2010 þar sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra greinir beinlínis frá því að þeir aðilar sem til rannsóknar voru, þar á meðal gagnáfrýjandi, hafi gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna. Þá fer því fjarri að skilja megi ummælin frá 23. febrúar 2016, þar sem vararíkissaksóknari greinir frá ástæðu þess að málið var fellt niður fyrir Hæstarétti, svo að þar sé kveðið á um sekt gagnáfrýjanda.

 26. Gagnáfrýjandi krefst eins og fyrr segir skaðabóta vegna óhæfilegs dráttar málsins. Við mat á því hvort meðferð máls hafi dregist svo mikið að bótaskyldu varði verður að líta til þess að markmið rannsóknar er að upplýsa mál svo að unnt sé að taka ákvörðun um saksókn á eins traustum grundvelli og kostur er. Fyrir liggur að mál þetta var umfangsmikið í rannsókn svo sem fram kom meðal annars í skýrslu Finns Þórs Vilhjálmssonar fyrir héraðsdómi og ekki verður heldur fallist á að rannsóknin hafi verið án tilefnis. Þrátt fyrir það er til þess að líta að svo virðist sem málið hafi lítið verið rannsakað þegar það barst í september 2011 frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra til hins nýstofnaða embættis sérstaks saksóknara, tæpum tveimur árum eftir að Fjármálaeftirlitið kærði gagnáfrýjanda til efnahagsbrotadeildarinnar, svo sem ráðið verður af framburði Finns og Helga Magnúsar Gunnarssonar fyrir héraðsdómi. Líkt og greinir í efnisgrein átta hér að framan var einnig staðfest með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli nr. 682/2011 að sá dráttur á rannsókn málsins sem þá var orðinn hefði verið með þeim hætti að færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá hefur aðaláfrýjandi ekki skýrt ástæður þess að rúmt ár leið frá því að ríkissaksóknari áfrýjaði héraðsdóminum til Hæstaréttar þar til fallið var frá áfrýjuninni og þá án þess að málið hefði verið þingfest fyrir Hæstarétti. Var þó sérstök ástæða til að hraða meðferð málsins í ljósi framangreinds dóms Hæstaréttar 25. janúar 2012. Verður því fallist á með gagnáfrýjanda að meðferð málsins hafi dregist svo úr hömlu að telja verður hana fara gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og að í ljósi málsatvika felist í því brot gegn friði gagnáfrýjanda og æru. Aðaláfrýjanda verður því gert að greiða gagnáfrýjanda miskabætur vegna framangreindra tafa á meðferð málsins.

 27. Miskabætur til áfrýjanda eru hæfilega ákveðnar 2.500.000 krónur. Við ákvörðun þeirra er litið til þess að ákærði var með stöðu grunaðs manns í rúm sex ár og að verulegir fjármunir og fasteignir gagnáfrýjanda voru kyrrsett og haldlögð í tæp tvö ár eða frá 29. janúar 2010 til 25. janúar 2012 er Hæstiréttur kvað upp dóm í máli 682/2011. Fasteign gagnáfrýjanda var jafnframt kyrrsett að nýju 22. mars 2013 og stóð sú kyrrsetning í tæp þrjú ár eða þar til ríkissaksóknari féll frá áfrýjun málsins til Hæstaréttar 18. febrúar 2016.

 28. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á atvinnutjón eða að orsakatengsl séu milli aðgerða lögreglu og slíks ætlaðs tjóns.

 29. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda verða látin standa óröskuð.

 30. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir.

  Dómsorð:

  Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, A, 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2017 til greiðsludags.

  Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

  Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

  Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Reimars Péturssonar, 1.000.000 króna.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2018.

Mál þetta, sem var dómtekið 4. september sl., er höfðað með stefnu birtri 30. janúar 2017. Stefnandi er A, [...] í Garðabæ. Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verður dæmdur til að greiða honum 65.092.540 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 3.550.000 krónum frá 29. janúar 2010 til 31. desember 2010, en af 22.936.424 krónum frá þeim degi til 31. desember 2011, en af 47.511.932 krónum frá þeim degi til 25. janúar 2012, en af 50.900.705 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2012, en af 59.092.540 krónum frá þeim degi til 22. mars 2013, en af 59.592.540 krónum frá þeim degi til 23. febrúar 2016 en af 65.092.540 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

 

Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi hans en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Á árunum 2009 til 2013 rannsökuðu lögregluyfirvöld ætluð brot stefnanda og þriggja annarra manna á lögum um gjaldeyrismál og reglum settum á grundvelli þeirra, vegna starfa þeirra fyrir félagið B AB, sem var með skráð lögheimili í Svíþjóð. Rannsókninni lauk 22. janúar 2013 og ákæra var gefin út á hendur þeim 22. mars s.á.

          Í ákærunni var stefnda og meðákærðu gefið að sök að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands. Með því voru þeir taldir hafa brotið gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að því er tók til tímabilsins 25. mars til 13. júlí 2009 en frá þeim tíma til 2. nóvember s.á. var háttsemin sögð varða við 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tölul. 16. gr., laga nr. 87/1992. Þá var þeim jafnframt gefið að sök að hafa á sama tímabili staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi. Var þessi háttsemi sögð varða við 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. áðurnefndra laga um gjaldeyrismál en vegna tímabilsins 31. október til 2. nóvember hafi þessi háttsemi varðað við 2. og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna nr. 880/2009 um gjaldeyrismál, sbr. sömu málsgreinar bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992.

          Undir rekstri sakamálsins féll ákæruvaldið frá þeim hluta ákærunnar sem laut að gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa, þ.e. þeim hluta ákærunnar sem ákæruvaldið taldi varða við bann samkvæmt reglum Seðlabankans. Ástæðan var sú að í ljós hafði komið að reglur Seðlabankans nr. 1130/2009 höfðu ekki verið samþykktar af ráðherra, svo sem áskilið var í lögum, sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992. Taldi ákæruvaldið því vafa leika á að viðhlítandi refsiheimild væri til staðar hvað þennan ákærulið varðaði. Þann 18. desember 2014 voru stefnandi og meðákærðu sýknaðir af þeim ákærulið sem eftir stóð og laut að broti gegn banni við milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án viðeigandi heimildar. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að stefnandi og meðákærðu hafi átt gjaldeyrisviðskipti með því að kaupa íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækum fyrir erlendan gjaldeyri sem mótaðilar þeirra hafi lagt inn á gjaldeyrisreikning í nafni B í Svíþjóð. Í því hafi hin eiginlegu gjaldeyrisviðskipti þeirra falist og þau viðskipti hafi ekki farið fram hér á landi.

 

Sýknudómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar en 18. febrúar 2016 ákvað ákæruvaldið að falla frá áfrýjuninni.

          Rannsókn máls þessa hófst hjá lögreglunni með því að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra barst kæra frá Fjármálaeftirlitinu 19. nóvember 2009 vegna gruns um meiri háttar brot gegn ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Með kærunni fylgdi tilkynning Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins frá 11. sama mánaðar vegna gruns um brot B AB á lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og reglum settum samkvæmt þeim. Ætluðum brotum B og hlut stefnanda í þeim er lýst ítarlega í tilkynningu Seðlabankans. Þar kemur fram að grunur leiki á að fyrirtækið hafi haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í andstöðu við 8. gr. laga um gjaldeyrismál. Í nefndu lagaákvæði er kveðið er á um að öðrum en Seðlabanka Íslands sé óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða hafa fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum. Um skilgreiningu á því hvað felist í milligöngu í gjaldeyrisviðskiptum var vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 679/1994. Í tilkynningunni var einnig vísað til þess að starfsemin kynni að brjóta gegn 3. gr. og 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögunum. Í síðarnefnda ákvæðinu var mælt fyrir um að fram til 30. nóvember 2010 væri Seðlabanka Íslands heimilt að ákveða að gefa út reglur, að fengnu samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra, sem takmörkuðu eða stöðvuðu tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem tengdust þeim ef slíkar hreyfingar fjármagns til og frá landinu yllu að mati Seðlabankans alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Meðal fjármagnshreyfinga sem bankanum var heimilt að stöðva samkvæmt ákvæðinu voru innlegg á og úttektir af reikningum í lánastofnunum og inn- og útflutningur innlends og erlends gjaldeyris, sbr. 2. og 4. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Reglur nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál voru gefnar út og birtar 15. desember 2008, með stoð í þessu bráðabirgðaákvæði og með þeim felldar úr gildi eldri reglur um sama efni, nr. 1082/2008, sbr. 15. gr. þeirra. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglnanna voru óheimil gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða Seðlabankanum. Samhljóða ákvæði var að finna í eldri reglum nr. 1082/2008.

          Í tilkynningu Seðlabankans kemur jafnframt fram að gögn málsins bendi til að umsvif B AB hafi numið verulega háum fjárhæðum. Á tímabilinu 25. mars 2008 til 5. október 2009 hafi inn- og útborganir á innlendum reikningum félagsins numið ríflega 13 milljörðum króna, mismunur inn- og útborgana hafa verið um 73 milljónir á sama tímabili. Sá mismunur, auk greiðslna sem stefnandi og samstarfsmenn hans hafi fengið greiddar inn á reikninga sína nemi tæplega 216 milljónum króna en grunur leiki á að ágóðinn sé að stærstum hluta geymdur á erlendum bankareikningum félagsins sem þörf sé á að kanna nánar. Þá er því lýst að heildarinnstreymi erlends gjaldeyris sem skipt hafi verið í íslenskar krónur á gjaldeyrismarkaði hér á landi á því tímabili sem var til rannsóknar hafi numið tæplega 193 milljörðum króna. Segir jafnframt að sé gert ráð fyrir að innborganir á reikninga B endurspegli þann erlenda gjaldeyri sem sé skilaskyldur hér á landi megi ætla að umfang starfsemi félagsins nemi um 6,82% af heildarveltu alls markaðarins.

          Stefnandi, sem áður starfaði hjá [..], hóf störf í þágu B í mars 2009. Í stefnu segir að starfsemi félagsins hafi falist í því að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í Svíþjóð milli erlendra aðila.

          Svo sem að framan er rakið beindist rannsókn lögreglu að því hvort starfsemi félagsins bryti í bága við íslensk lög. Segir í áður tilvitnaðri skýrslu Seðlabankans frá 11. nóvember 2009 að þótt félagið sé skráð í Svíþjóð leiki vafi á því hvort raunveruleg framkvæmdastjórn þess sé hér á landi og félagið teljist af þeim sökum innlendur lögaðili í skilnngi laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 2. tölul. 1. gr. laganna. Við rannsókn lögreglu á ætluðum brotum stefnanda neitaði hann ávallt sök og byggði m.a. á því að starfsemi B hefði ekki farið fram hér á landi og bryti þar af leiðandi ekki í bága við íslensk lög og reglur settar samkvæmt þeim. Þá voru varnir stefnanda einnig á því byggðar að Seðlabankinn hefði ekki staðið rétt að setningu reglna um bann við fjármagnshreyfingum til og frá landinu skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 87/1992 þar sem reglur bankans nr. 1130/2008 hefðu ekki verið samþykktar af ráðherra, svo sem lögboðið var. Hefðu reglurnar af þeim sökum ekki öðlast gildi þrátt fyrir birtingu þeirra. Að auki hefði B gert ráðstafanir til að tryggja að farið væri að reglum nr. 1130/2008, hvað sem liði gildi þeirra.

          Ekki er um það deilt að umræddar reglur skorti formlegt samþykki ráðherra en í greinargerð stefnda er á því byggt að sérstakur saksóknari hafi ekki verið upplýstur um það fyrr en í ársbyrjun 2014. Þá liggur fyrir að eftir setningu reglna Seðlabanka Íslands nr. 880/2009 um gjaldeyrismál, frá 31. október 2009, lagðist starfsemi B AB af en í 3. mgr. 2. gr. þeirra reglna var með nýjum hætti kveðið á um takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum gjaldeyri, sbr. 3. mgr. 2. gr. þeirra.

          Á meðan á rannsókn málsins stóð sætti stefnandi ýmiss konar þvingunarráðstöfunum af hálfu lögreglu í þágu rannsóknar málsins. Stefnandi var handtekinn að morgni 29. janúar 2010 og sleppt að kvöldi sama dags að yfirheyrslu lokinni. Stefnandi var síðan yfirheyrður tvívegis aftur á meðan á rannsókn málsins stóð, 14. júní og 29. nóvember 2012.

 

          Sama dag og stefnandi var handtekinn var gerð húsleit á starfsstöð B hérlendis, á heimili stefnanda að [..] í Garðabæ, fasteign hans að [...] í Reykjavík og leitað í tveimur bifreiðum í hans umráðum, í því skyni að haldleggja skjöl og önnur sönnunargögn sem tengdust rannsókn málsins. Jafnframt voru haldlögð gögn í vörslum Símans hf. á tímabilinu 1. janúar 2009 til 28. janúar 2010 sem vörðuðu B AB, önnur félög tengd því félagi, sem og stefnanda sjálfan. Meðal þeirra muna sem haldlagðir voru á starfsstöð B AB samkvæmt úrskurði um haldlagningu voru sími, tölva og minnislykill í eigu stefnanda, harður diskur og ýmis önnur tæki og gögn. Við leit á heimili stefnanda var lagt hald á ýmis skjöl, tölvur, síma, minnislykil og fleiri gögn og tæki í hans eigu. Hald var lagt á eitt minniskort við leit í bifreiðum í umráðum stefnanda.

          Sama dag, þ.e. 29. janúar, boðaði embætti ríkislögreglustjóra til blaðamannafundar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans þar sem greint var frá fyrrnefndum rannsóknaraðgerðum. Á fundinum var ætluðum brotum stefnanda og fyrrum samstarfsmanna hans lýst, sem og hugsanlegri refsiábyrgð og áhrifum brotanna á gjaldeyrisstöðugleika. Þá kom fram að rannsóknin væri nýhafin en að sterkar grunsemdir væru fyrir hendi af hálfu lögregluyfirvalda um brot á áðurnefndum lögum og reglum um gjaldeyrismál. Sagði þáverandi yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra að þeir teldu brot stefnanda og samstarfsmanna hans vera sönnuð en hafði þó þann fyrirvara á að málið væri í rannsókn og um væri að ræða „grunsemdir og annað slíkt“. Í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar er haft eftir honum varðandi málið: „Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“

          Ennfremur voru sama dag að kröfu ríkislögreglustjóra kyrrsettar eignir stefnanda til tryggingar kröfu að fjárhæð 42.610.000 krónur vegna greiðslu sakarkostnaðar, sekta og annarra krafna ákæruvaldsins á grundvelli 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 o.fl. reglna. Kyrrsetningin tók til eignarhluta stefnanda í fasteignunum [...] í Reykjavík, [...] í Garðabæ og [...] í Hrunamannahreppi. Að auki voru kyrrsettir fjármunir á tveimur bankareikningum stefnanda, annars vegar reikningur nr. [...] í Arion banka og hins vegar reikningur nr. [...] í Íslandsbanka. Sýslumaður hafnaði hins vegar kröfu um kyrrsetningu fjármuna á reikningi nr. [...] í Íslandsbanka en fjármunir á þeim reikningi námu 6.120.593 krónum. Taldi sýslumaður þá fjármuni nauðsynlega til framfærslu stefnanda og fjölskyldu hans. Lögregluyfirvöld lögðu aftur á móti hald á innstæðu þess reiknings með vísan til 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 88/2008.

 

          Hinn 4. mars 2010 gerði lögregla jafnframt kröfu fyrir dómi um að tilteknum símafyrirtækjum yrði skylt að veita lögreglu upplýsingar um svokölluð símagögn, þ.e. notkun símanúmera í eigu og umráðum stefnanda, sem sýndu sundurliðuð símtöl í og úr viðkomandi númeri á tímabilinu 25. mars 2009 til 4. mars 2010. Fallist var á kröfuna með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.

          Áðurnefnd kyrrsetning frá 29. janúar 2010 var endurupptekin 18. maí 2011, þegar felld var niður kyrrsetning í [...] og [...] en í þess stað kyrrsettur eignarhlutur eiginkonu stefnanda í [...] auk þess sem frekari fjármunir voru lagðir inn á áðurnefndan reikning stefnanda í Arion banka. Kyrrsetning á reikningi í Íslandsbanka hélst óbreytt.

          Sumarið 2011 fór stefnandi þess á leit við embætti ríkislögreglustjóra að kyrrsetningu eigna yrði aflétt, en þeirri beiðni var hafnað af hálfu embættisins. Að endingu krafðist stefnandi þess fyrir dómi að kyrrsetningu eigna hans yrði aflétt og var fallist á kröfu hans með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012 í máli réttarins nr. 682/2011 með vísan til þess að dráttur á rannsókn málsins færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og hliðstætt ákvæði í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

          Rannsókn málsins var í upphafi á hendi efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Með lögum nr. 82/2011, sem tóku gildi 1. september 2011, voru verkefni deildarinnar flutt yfir til embættis sérstaks saksóknara sem hélt rannsókn málsins áfram á óbreyttum grundvelli.

          Svo sem áður greinir var ákæra gefin út 22. mars 2013. Sama dag var að kröfu sérstaks saksóknara kyrrsettur á ný eignarhlutur stefnanda í fasteigninni [...], til tryggingar kröfu að fjárhæð allt að 164.000.000 króna, til greiðslu sakarkostnaðar, sekta og krafna ákæruvaldsins á grundvelli 2. mgr. 16. gr. a í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. a-lið 3. gr. laga nr. 143/2008 og 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hélst sú kyrrsetning þar til 18. febrúar 2016 þegar máli þessu að endingu lauk með því að ákæruvaldið féll frá áfrýjun á sýknudómi héraðsdóms.

          Í viðtali við RÚV 23. febrúar 2016 greindi vararíkissaksóknari frá því að ástæða þess að ákveðið hefði verið að falla frá áfrýjun málsins væri sú að miklar líkur væru á að sakir máls yrðu taldar fyrndar.

II.

Stefnandi krefst bóta fyrir tjón sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu og ákæruvalds í tengslum við rannsókn ætlaðra brota hans gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál.

          Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að hann eigi hlutlægan rétt til skaðabóta vegna allra þeirra aðgerða sem hann hafi þurft að þola við rannsóknina, sbr. 1. mgr. 228. gr., nú 246. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samhliða því og til vara byggir hann á því að hann eigi rétt til bóta á sakargrundvelli vegna allra þessara sömu aðgerða. Rannsóknin hafi verið tilhæfulaus og hefði lögreglu og ákæruvaldi átt að hafa orðið það ljóst við frumathugun máls, sem og dómurum sem hafi kveðið upp úrskurði í þágu rannsóknarinnar.

          Frá upphafi hafi afstaða stefnanda til sakargifta verið sú að þau störf sem hann hafi unnið í þágu B AB hafi samrýmst lögum. Fyrirkomulagi viðskipta félagsins hafi verið háttað þannig að það hafi aldrei haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi í skilningi 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, heldur hafi þau farið fram erlendis. Þá hafi starfsemi B AB falið í sér „innflæði“ fremur en „útflæði“ á krónum og reglur nr. 1130/2008 því ekki falið í sér nein fyrirmæli sem hamlað hafi starfseminni. Saksóknari hafi viðurkennt í viðtali við Morgunblaðið strax 2. febrúar 2010 að sakborningar hefðu „gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna“ þótt ekki hafi það orkað til að breyta fyrirfram þeim hugmyndum sem hann hafi tjáð á blaðamannafundinum. Saksóknarinn hafi sökum þess hnýtt við: „en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið“.

          Þegar árið 2010 hafi á opinberum vettvangi verið hafðar uppi efasemdir um að setning reglna nr. 1130/2008 hvíldi á lögmætum grunni. Þess sæist hvergi stað að ráðherra hefði samþykkt þær, eins og lög nr. 87/1992 þó áskildu. Afstaða stefnanda til sakargifta hafi í kjölfarið tekið mið af þessu. Þrátt fyrir þessa fyrirferð hafi rannsókn málsins lagst í langvarandi dvala þegar upphafsaðgerðum lauk. Stefnandi hafi því að endingu séð sig knúinn til að krefjast þess fyrir dómi þann 23. nóvember 2011 að kyrrsetning í eignum hans yrði felld úr gildi. Við það tilefni hafi hann gert ítarlega grein fyrir þeirri afstöðu sinni að viðskipti hans á vegum B AB hefðu ekki brotið í bága við lög og reglur og að enginn lögmætur grundvöllur hefði verið fyrir setningu reglna nr. 1130/2008. Að endingu hafi Hæstiréttur fellt kyrrsetninguna úr gildi 25. janúar 2012 með vísan til þess að dráttur á rannsókn ætlaðra brota væri óhæfilegur. Í framhaldi þess hafi lögregla loks gert reka að því að rannsaka málið. Þegar rannsókninni hafi lokið og ákæra verið gefin út 22. mars 2013 hafi ákæruvaldið enn á ný óskað kyrrsetningar í eignum stefnanda. Þá hafi ákæruvaldið upplýst við meðferð málsins að fallið væri frá öllum sakargiftum á hendur stefnanda um brot á reglum nr. 1130/2008. Þá fyrst hafi saksóknari orðið þess áskynja að umræddar reglur hefðu ekki verið settar með lögformlegum hætti. Saksóknari hafi skýrt þetta með vísan til þess að starfsmenn Seðlabanka Íslands hefðu veitt embætti saksóknara rangar upplýsingar um setningu reglnanna.

          Stefnandi byggir á því að afskipti ákæruvaldsins af honum hafi varað samtals í rúmlega sex ár frá handtöku hans 29. janúar 2010 og lyktað með sýknu hans af öllum sakargiftum. Í stað þess að leyfa stefnanda að njóta sýknudómsins eftir fráfall áfrýjunar héraðsdóms hafi vararíkissaksóknari greint frá því í viðtali við Ríkisútvarpið 23. febrúar 2016 að ákæruvaldið hefði fallið frá áfrýjun þar sem saksóknarar hafi talið „miklar líkur“ á því að „þessar sakir“ yrðu álitnar fyrndar. Þannig hafi ákæruvaldið gefið til kynna, þrátt fyrir sýknudóminn, að „sakir“ hefðu verið til staðar og þar með að stefnandi hefði gerst brotlegur.

          Þá vekur stefnandi jafnframt athygli á umfangi kyrrsetninga eigna hans og þess langa tíma sem kyrrsetningin stóð. Með fyrri kyrrsetningargerðinni hinn 29. janúar 2010 hafi verið kyrrsettir tveir bankareikningar og þrjár fasteignir í hans eigu. Við framkvæmd gerðarinnar hafi sýslumaður synjað kröfu lögreglu um kyrrsetningu á einum bankareikningi stefnanda með vísan til 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 41. gr. laga nr. 90/1989. Að áliti fulltrúa sýslumanns hafi sú innstæða verið stefnanda „nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu „stefnanda og þeirra sem hann var framfærsluskyldur við“. Lögregla hafi brugðist freklega við þessari niðurstöðu og beitt valdi sínu til að haldleggja innstæðuna á þessum reikningi með vísan til 1. mgr. 68. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 88/2008. Stefnandi hafi þannig einnig verið sviptur vörslum þessa bankareiknings hinn 29. janúar 2010. Kyrrsetningunni hafi verið breytt 18. maí 2011 og hún felld niður með dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012. Eignarhlutur stefnanda í [...] hafi hins vegar aftur verið kyrrsettur 22. mars 2013 og hafi sú kyrrsetning staðið þar til 18. febrúar 2016. Verðmæti þeirra peningalegu eigna sem kyrrsettar eða haldlagðar hafi verið hafi verið eftirfarandi: [...]

          Hinir kyrrsettu bankareikningar hafi borið vexti sem hafi verið greiddir út í árslok á reikningum nr. [...] og nr. [...] en í lok hvers mánaðar á reikningi nr. [...]. Vextirnir hafi numið eftirfarandi fjárhæðum á þessum dögum: [...]

          Miðað við fasteignamat hafi hinar kyrrsettu eignir hækkað með tímanum en með hliðsjón af kröfugerð stefnanda sé óþarft að rekja þetta nánar.

          Þá byggir stefnandi á því að þegar í upphafi hafi verið óhjákvæmilegt annað en að málinu lyki með sýknudómi. Staðsetning viðskipta B AB hafi legið fyrir strax í öndverðu og meðal annars birst í bókum félagsins. Af þeim sökum hafi aldrei verið fótur fyrir ásökunum gegn stefnanda um brot gegn 8. gr. laga nr. 87/1992. Þá hafi einnig legið fyrir þegar í upphafi að samþykki ráðherra fyrir setningu reglna nr. 1130/2008 skorti. Af þeim sökum hafi aldrei verið fótur fyrir rannsókn gegn stefnanda vegna ásakana um brot gegn reglunum nema slíkt samþykki hefði áður legið fyrir. Að auki megi nefna að B hafði gert ráðstafanir til að tryggja að farið væri eftir fyrirmælum reglna nr. 1130/2008, hvað sem formlegu gildi þeirra hafi liðið.

          Stefnandi byggir á því að það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna allra áðurnefndra aðgerða lögreglu og ákæruvalds gegn honum sé bótaskylt á grundvelli hinnar hlutlægu bótareglu 228. gr. laga nr. 88/2008. Aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar með samstilltum hætti og blaðamannafundurinn verið liður í þeim og markað upphaf þeirra. Því sé óhjákvæmilegt að álíta að bótagrundvöllur 246. gr. taki einnig til hans. Verði ekki á það fallist byggir stefnandi á því að þær aðgerðir sem ekki falli undir bótareglu 246. gr. hafi verið framkvæmdar með saknæmum og ólögmætum hætti. Rannsóknin hafi verið tilhæfulaus, engin þörf hafi verið á þessum aðgerðum og þær hafi í framkvæmd gengið langt úr hófi fram. Stefnandi tekur fram að við mat á saknæmi gildi einu þótt sumar hinna umdeildu aðgerða hafi verið framkvæmdar á grundvelli dómsúrskurðar, enda hafi aldrei verið skilyrði fyrir því að kveða upp slíka úrskurði. Aðgerðirnar séu því bótaskyldar að þessu leyti.

          Varðandi ummæli saksóknara á opnum blaðamannafundi hinn 29. janúar 2010, ummæli í Morgunblaðinu 2. febrúar s. á. og í Ríkisútvarpinu hinn 23. febrúar 2016, um sekt stefnanda, er byggt á því að þau hafi verið saknæm og ólögmæt og andstæð rétti stefnanda til að vera álitinn saklaus uns sekt sé sönnuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig megi um þetta vísa til 234.–236. gr. almennra hegningarlaga. Allt þetta hafi orsakað tjón sem hafi verið sennileg afleiðing áðurnefndra aðgerða eða hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi.

Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína með svofelldum hætti:

 

Varðandi þá undirliði sem fram komi undir 1. lið um miskabætur byggir stefnandi á því að þær aðgerðir sem þar séu tilgreindar hafi verið óþarfar. Rannsóknin hafi verið tilhæfulaus og miski stefnanda því verið sérstaklega mikill. Þá hafi það reynst stefnanda einkar særandi að saksóknari hafi á opnum blaðamannafundi hinn 29. janúar 2010 viðhaft ummæli um hann og aðra sakborninga sem gefið hafi til kynna sekt hans. Sama megi segja um ummæli saksóknarans sem birst hafi í Morgunblaðinu 2. febrúar 2010. Í því sambandi verði að hafa í huga að með öllu hafi verið fyrirsjáanlegt að nafn stefnanda yrði tengt ummælunum, eins og raunin hafi orðið.

          Rannsóknin hafi síðan dregist fram úr öllu velsæmi og það hafi aukið mjög á miska stefnanda af aðgerðunum og falið í sér sjálfstæðan miska. Málinu hafi síðan ekki lokið fyrr en 18. febrúar 2016, en við það tilefni, eða hinn 23. febrúar 2016, hafi vararíkissaksóknari viðhaft ummæli sem gefið hafi til kynna að stefnandi hefði gerst brotlegur, þrátt fyrir sýknudóm héraðsdóms. Allt þetta hafi valdið stefnanda verulegan miska sem hann sundurliði með þeim hætti sem að framan greini.

          Varðandi 2. lið, um bætur fyrir fjárhagstjón vegna kyrrsettra eigna, þá reiknist sú fjárhæð sem dráttarvextir af hinum kyrrsettu og haldlögðu peningalegu eignum að frádregnum þeim vöxtum sem eignirnar hafi borið á meðan. Fjárhæðir eignanna hafi verið þessar í krónum á eftirtöldum dögum:

          Hefði kyrrsetningin ekki átt sér stað hefði stefnandi getað hagnýtt sér þessa fjármuni til arðsköpunar. Dráttarvextir samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu feli í sér meðalhófsbætur fyrir að hafa ekki haft þau afnot fjármuna sem réttur standi ella til. Því miði stefnandi bótakröfuna við að fá greiddar bætur sem nemi dráttarvöxtum af þessum fjárhæðum. Fjárhæð dráttarvaxta af framangreindum fjárhæðum hefði hinn 25. janúar 2012 numið 3.388.773 krónum. Verði ekki á þetta fallist varðandi 2. lið er til vara miðað við vaxtafót 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt því viðmiði yrði fjárhæð kröfu samkvæmt 2. lið 1.643.828 krónur. Til þrautavara sé svo varðandi 2. lið miðað við vaxtafót 8. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt því viðmiði yrði fjárhæð kröfu samkvæmt 2. lið 1.089.885 krónur. Stefnandi gerir ekki kröfu fyrir tjón vegna kyrrsetningar fasteigna sinna. Þess í stað byggir hann á því að horfa megi til þess óhagræðis sem hún hafi haft í för með sér sem aukins rökstuðnings fyrir því að kröfu hans vegna hinna peningalegu eigna sé stillt í hóf.

          Varðandi 3. lið byggir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir verulegu atvinnutjóni. Hann hafi áður en málið kom til haft lífsviðurværi sitt af störfum á fjármálamarkaði. Rannsókn málsins hafi því hamlað honum verulega við atvinnuleit og honum ekki auðnast að fá vinnu fyrr en í maí 2012. Síðasta fasta starf sem stefnandi hafi gegnt áður en hann hóf störf í þágu B AB hafi verið hjá [...]. Þar hafi hann fengið samkvæmt ráðningarsamningi frá 9. janúar 2009 110.000 sterlingspund í föst árslaun eða 9.167 pund á mánuði. Sé miðað við miðgengi punds gagnvart krónu 1. febrúar 2010, sem hafi verið 202,79 krónur, hafi föst mánaðarlaun hans numið 1.858.908 krónum. Rétt þyki að bæta við þá fjárhæð orlofi sem megi reikna sem 10,17%, sbr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Þannig sé að mati stefnanda rétt að leggja til grundvallar að hann hafi á þeim tíma sem aðgerðir lögreglu hófust getað unnið sér inn föst mánaðarlaun samtals að fjárhæð 2.047.959 krónur. Miðist kröfugerð hans hér við þetta. Í málinu geri stefnandi kröfu um atvinnutjón vegna þess tíma sem hafi liðið frá upphafi rannsóknarinnar og þar til hann hafi hafið störf á nýjan leik í maí 2012. Hann hafi þannig farið á mis við tekjur þær er að framan greini í 11 mánuði á árinu 2010, samtals að fjárhæð 22.527.548 krónur, alla 12 mánuði ársins 2011, samtals að fjárhæð 24.575.507 krónur og í fjóra mánuði á árinu 2012, samtals að fjárhæð 8.191.836 krónur. Tjón stefnanda nemi því alls sökum þessa 55.294.891 krónu. Til að allrar varfærni sé gætt dragi hann þó frá þessari kröfu laun sem hann hafi fengið tilfallandi frá [...] ehf. árið 2010 að fjárhæð 3.141.124 krónur.

          Gerð er krafa um vexti og dráttarvexti í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001. Krafan miðist við 29. janúar 2010 að því er varði miskabætur fyrir yfirlýsingar á blaðamannafundi, handtöku, leit á heimili, öflun gagna frá Símanum hf., fyrri kyrrsetningu og haldlagningu eigna og öflun gagna um símasamskipti, samtals að fjárhæð 3.550.000 krónur. Krafa um vexti og dráttarvexti miðist við 22. mars 2013 að því er varði miskabætur fyrir seinni kyrrsetningu eigna stefnanda, samtals að fjárhæð 500.000 krónur. Þá miðist krafa að því er varði miskabætur fyrir ummæli vararíkissaksóknara um brot stefnanda eftir lok málsins og óhæfilegar tafir á meðferð þess, samtals að fjárhæð 5.500.000 krónur, við 23. febrúar 2016.

          Krafa um vexti af tjóni vegna kyrrsetningar miðist við lok hennar hinn 25. janúar 2012. Krafa um vexti af atvinnutjóni miðist við lok hvers árs og samanlagt atvinnutjón á árinu, að því gættu að krafa um vexti af atvinnutjóni á árinu 2012 reiknist frá 30. apríl 2012 en á því tímamarki hafi atvinnuleysi stefnanda lokið.

Vextir reiknist þá af uppsafnaðri kröfu stefnanda eins og hér greini:

 

          Krafan miðist við að skilyrði séu til að krefjast dráttarvaxta frá umræddum dögum, en verði ekki á það fallist er krafist skaðabótavaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá umræddum dögum til þess dags er skilyrði verði talin hafa myndast fyrir kröfu um dráttarvexti.

          Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar og hlutlægrar bótareglu 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá er vísað til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Til stuðnings sýknukröfu sinni bendir stefndi á að íslenska ríkið njóti fullveldis í peningamálum og hér á landi sé íslenska krónan lögeyrir, sbr. lög nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Í lögum nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands séu bankanum faldar yfirgripsmiklar heimildir til að standa vörð um verðgildi íslensku krónunnar. Sjálfstæði Seðlabankans við stjórn peningamála helgist af því meginmarkmiði peningastefnunnar að stuðla að stöðugu verðlagi. Fjármagnshöftin sem sett hafi verið haustið 2008 hafi staðið í nánum tengslum við þetta hlutverk bankans sem og það hlutverk að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, sbr. 3. og 4. gr. laga nr. 36/2001.

          Ein hliðaráhrif fjármagnshaftanna hafi meðal annars birst í því að gjaldeyrismarkaður hafi skapast fyrir íslenskar krónur erlendis (aflandsmarkaði) þannig að til hafi orðið tvöfalt gengi á íslensku krónunni, annars vegar á þeim markaði og hins vegar á opinberum gjaldeyrismarkaði hér á landi. Gengismunurinn hafi að jafnaði verið mikill fyrst eftir setningu haftanna rétt eftir bankahrunið, svo numið gat tugum prósenta. Með því að nýta sér þann mismun á gengi krónunnar sem hafi verið á aflandsmarkaði og hinum opinbera markaði hafi aðilar getað hagnast verulega. Í þessu sambandi vísist meðal annars til eftirfarandi röksemda í ákæru: „Þessar efnahagslegu aðstæður á Íslandi nýttu ákærðu sér til að framkvæma þá háttsemi sem þeim er gefin að sök samkvæmt ákæru. Þeir höfðu allir þekkingu og reynslu af gjaldeyrisviðskiptum, þar með á alþjóðlegum vettvangi og á tímanum eftir að gjaldeyrishöftin voru sett…“.

          Ástæðu þess að stefnandi og aðrir meðákærðu hafi verið sýknaðir með dómi héraðsdóms 18. desember 2014 sé ekki að rekja til þess að gögn málsins hafi ekki varpað ljósi á það í hverju starfsemi B AB hafi verið fólgin, heldur vegna þess að hluti viðskiptanna hafi ekki verið talinn hafa átt sér stað hér á landi í merkingu 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Engin afstaða hafi verið tekin til þess í dómnum hvort þjónusta félagsins við mótaðila hafi falið í sér milligöngu. Þá hafi legið fyrir að við meðferð málsins hafi ákæruvaldið fallið frá sakargiftum um að háttsemi ákærðu varðaði við 4. mgr. 1. gr. reglna nr. 1130/2008 um gjaldeyrismál, sem hafi verið ætlað að taka gildi 16. desember 2008 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis laga nr. 134/2008. Að mati ákæruvaldsins hafi reglurnar ekki getað talist viðhlítandi refsiheimild þar sem lögáskilið samþykki ráðherra fyrir setningu reglnanna hafi ekki legið fyrir.

          Samskipti sérstaks saksóknara og Seðlabanka Íslands, sem fyrir liggi í málinu, beri með sér að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki verið upplýst um að formlegt samþykki ráðherra hefði skort fyrr en í upphafi árs 2014 og eftir að ákæra í málinu hafi verið gefin út. Fyrir liggi að formlegt samþykki ráðherra hafi ekki legið fyrir við setningu reglna nr. 1130/2008 en þeim hafi verið ætlað að leysa af hólmi reglur nr. 1082/2008 frá 28. nóvember 2008. Jafnvel þótt þótt litið sé svo á að reglur nr. 1130/2008 hafi aldrei öðlast gildi vegna skorts á formlegu samþykki ráðherra, hafi það vart getað haft aðrar afleiðingar en að endurskoðun á reglum nr. 1082/2008, sem gert hafi verið ráð fyrir í 14. gr. þeirra, hefði ekki gengið eftir og þær reglur þar af leiðandi áfram verið í gildi. Samanburður leiði í ljós að 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1130/2008, sem brot stefnanda hafi verið talin varða við, hafi verið samhljóða 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1082/2008. Því verði að líta svo á að þessi regla hafi verið í gildi á brotatímabilinu, enda hafi aðstæður í hagkerfinu á þeim tíma ekki gefið tilefni til að ætla að löggjafinn hefði breytt afstöðu sinni til nauðsynjar hafta.

          Ákvæði 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1082/2008 og 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 1130/2008 hafi hljóðað svo: „Gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga skv. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi eða Seðlabanka Íslands eru óheimil.“ Á bls. 7–9 í ákæru, sem fyrir liggi í gögnum málsins, sé því lýst hvernig háttsemi ákærðu hafi fallið undir þetta bann og hvernig fjármagnshreyfingar sem ákærðu hafi staðið fyrir á íslenskum krónum til Íslands hafi verið órjúfanlegur hluti af þeim gjaldeyrisviðskiptum sem þeir hafi stundað. Fram kemur að orðalagið taki meðal annars mið af því hvernig alþjóðleg greiðslumiðlun milli fjármálastofnana sé framkvæmd. Sakargiftir hafi einnig varðað ætluð brot gegn 8. gr. laga um gjaldeyrismál.

          Stefndi hafnar því að til aðgerða lögreglu, sem stefnandi krefjist bóta fyrir, hafi verið gripið að tilefnislausu eða þær gengið lengra en nauðsyn hafi borið til. Stefnandi staðhæfi að afstaða hans til sakargifta hafi frá fyrstu stundu verið sú að þau störf sem hann vann í þágu B AB hafi samrýmst lögum. Hins vegar hafi stefnandi ekki leitast við að upplýsa málið í yfirheyrslum hjá lögreglu og í síðari tveimur yfirheyrslunum hafi hann alfarið neitað að tjá sig um sakarefnið. Þótt stefnandi hafi með þessu nýtt sér lögvarinn rétt sinn til að fella ekki á sig sök hafi sú háttsemi verið til þess fallin að styrkja grunsemdir um aðkomu hans að ætluðum brotum, hvað sem álitaefnum um skýrleika refsiheimilda líði.

          Rannsókn málsins hafi verið umfangsmikil og leitt í ljós flókið félaganet sem að mati stefnda hafi gefið réttmæta ástæðu til að ætla að hefði verið komið upp í því skyni að sniðganga reglur um fjármagnshöft. Í því sambandi vísist m.a. til 3. kafla í skýrslu rannsakenda sem fyrir liggi í málinu. Þar komi fram að stefnandi og samverkamenn hans hafi, með þeim ásetningi að hagnast, hagað starfsemi B AB og tengdra félaga þannig að mótaðilum félagsins, sem í raun hafi verið innlendir aðilar, hafi verið gert kleift að kaupa íslenskar krónur á aflandsmarkaði á hagstæðara gengi en á íslenskum gjaldeyrismarkaði. Stefnandi hafi mátt vita að með því væri farið á svig við reglur um fjármagnshöft og þá neyðarrástöfun sem í þeim hafi falist. Fjórmenningarnir hafi hagnast vel á starfseminni þótt ekki sé með vissu vitað hvað hafi á endanum orðið um þann hagnað.

          Þær upplýsingar sem fram hafi komið við rannsókn málsins veiti áreiðanlega vitneskju um starfsemi B AB og þann ávinning sem af henni hafi hlotist. Af þeim megi ráða, hvað sem refsinæmi háttseminnar líði, að stefnandi hafi í félagi við samverkamenn sína aflað sér og öðrum ólögmæts eða óréttmæts ávinnings á kostnað almennings á brotatímabilinu. Sönnunarkröfur í einkamálum, sem ekki séu jafn strangar og í refsimálum, standi þeirri ályktun alls ekki í vegi að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðum gegn sér, enda hafi hann sjálfur ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur hjá lögreglu.

          Stefndi vísi enn fremur til bls. 2 í ákæru þar sem fram komi að heildarágóði af starfseminni, sem koma hafi átt jafnt til skipta fjórmenninganna, hafi verið talinn nema að minnsta kosti 656 milljónum króna. Fjárhæðin sé langt umfram þær bótafjárhæðir sem stefnandi krefjist í stefnu, sem aftur veki upp efasemdir um í hverju tjón stefnanda sé raunverulega fólgið. Að mati stefnda hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á það frumskilyrði bótaábyrgðar að tjóni sé til að dreifa.

          Stefndi mótmælir því að aðrar aðgerðir lögreglu en þær sem vísað sé til í 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 geti leitt til hlutlægrar ábyrgðar skv. 1. mgr. sömu greinar. Ekki verði ráðið að þeir bótaliðir sem tengist málsmeðferðartíma rannsóknarinnar og yfirlýsingum ákæruvaldsins eigi hér undir. Bætur vegna þessara liða komi því ekki til skoðunar nema að uppfylltum skilyrðum almennu sakarreglunnar.

          Stefndi mótmælir bótakröfu stefnanda vegna opinberra yfirlýsinga handhafa ákæruvalds og krefst sýknu af þessum bótalið. Megintilgangur blaðamannafundarins 29. janúar 2010 hafi verið að koma á framfæri þeim skilaboðum að stjórnvöld litu ætlaða brotastarfsemi alvarlegum augum með tilliti til þeirra almannahagsmuna sem í húfi hafi verið. Hugsanlega hafi aðrir aðilar, t. a. m. viðskiptavinir B AB sem fylgst hafi með fundinum, áttað sig á því hverjir sakborningarnir væru.

 

          Stefndi bendir á að stefnandi og samverkamenn hans hafi um margra mánaða skeið átt í mjög umsvifamiklum viðskiptum við mótaðila í gjaldeyrisviðskiptum. Á bls. 6 í ákæru sé vísað til þess að einstök viðskipti hafi alls verið 748 talsins og að mótaðilarnir hafi verið 84. Niðurstöður rannsóknarinnar hafi einnig bent til þess að rekstur starfseminnar hafi farið fram hér á landi og að mótaðilarnir eða raunverulegir eigendur þeirra hafi verið innlendir. Þá telur stefndi umkrafða fjárhæð vera órökstudda og fari fram á að hún sæti verulegri lækkun verði fallist á það með stefnanda að umræddar yfirlýsingar hafi valdið honum miska.

          Hvað málsástæðu stefnda um óhæfilegan drátt málsins varði þá hafnar stefndi því að þær tafir sem orðið hafi á rannsókn málsins, og hafi verið liður í framfylgd laga um gjaldeyrismál, verði virtar þeim sem að henni hafi unnið til sakar á þann hátt að leiði til bótaskyldu. Þegar slíkur dráttur þyki hafa átt sér stað hafi dómstólar að öðru jöfnu tekið tillit til slíkra atriða við ákvörðun refsingar. Í því samhengi skuli áréttað að tafir á rannsókn málsins hafi leitt til þess að Hæstiréttur hafi fellt úr gildi kyrrsetningu á eignum stefnanda, sbr. niðurstöðu í máli nr. 682/2011. Ákvörðun handhafa ákæruvaldsins um að áfrýja ekki sýknudómi yfir stefnanda megi enn fremur rekja til tafa sem orðið hafi á rannsókn málsins.

          Tafir á meðferð sakamála veiti sakborningi ekki sjálfstæðan rétt til bóta enda ýmislegt sem geti haft áhrif þar á annað en sök þeirra sem að rannsókn slíkra mála starfi. Einnig liggi fyrir að hvorki stefnandi né samverkamenn hans hafi leitast við að upplýsa málið á meðan á rannsókn þess hafi staðið. Þá hafi rannsóknin ekki verið frábrugðin rannsóknum í ýmsum öðrum efnahagsbrotamálum að því leyti að hún hafi verið flókin og umfangsmikil.

          Þá telur stefndi umkrafða fjárhæð vera órökstudda og fari fram á að hún sæti verulegri lækkun verði fallist á það með stefnanda að tafirnar hafi valdið honum miska. Stefndi telur með hliðsjón af því sem áður hafi verið rakið um tilefni rannsóknar lögreglu, háttsemi stefnda við rannsóknina og ávinning af ætluðum brotum að ekki hafi stofnast til bótaskyldu vegna þeirra aðgerða sem stefnandi hafi sætt og sem fjallað sé um í 2. mgr. 246. gr. laga um meðferð sakamála. Þá sé fjárhæð umkrafinna bóta mótmælt sem allt of hárri.

          Hvað varði miskabótakröfu stefnanda vegna handtöku hans að fjárhæð 200.000 krónur, þá bendir stefndi á að stefnandi hafi verið færður í fangageymslu og til yfirheyrslu á lögreglustöð hinn 29. janúar 2010 í tengslum við húsleit sem gerð hafi verið á starfsstöðvum B AB. Stefnanda hafi verið sleppt að lokinni þeirri yfirheyrslu en síðan verið yfirheyrður aftur í tvígang. Stefnandi, sem hafi verið undir rökstuddum grun um viðamikil brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál, hafi neitað sök og ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur. Hann hafi því að mati stefnda stuðlað að aðgerðinni gegn sér og fyrirgert rétti til bóta, sbr. 228. gr. laga um meðferð sakamála. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti til bóta fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist vegna handtökunnar verði lækkuð.

          Þá bendir stefndi á að leitað hafi verið á dvalarstað stefnanda sama dag og hann var handtekinn eða hinn 29. janúar 2010. Leitin hafi verið heimiluð samkvæmt dómsúrskurði. Við leitina hafi meðal annars verið lagt hald á skjöl, fartölvur og önnur tölvugögn. Í kröfu lögreglu um húsleit hafi komið fram að stefnandi væri undir rökstuddum grun um brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Stefndi telur hér einnig að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðinni gegn sér þar sem hann hafi ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti til bóta fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist verði lækkuð.

          Hvað varði öflun gagna frá Símanum hf., sem heimiluð hafi verið með dómsúrskurði 28. janúar 2010, bendir stefndi á að atriði er tengst hafi dvöl sakborninga sjálfra hér á landi og hvar starfsemi þeirra hafi í reynd farið fram, hafi skipt miklu máli fyrir rannsókn sakamálsins. Því hafi öflun þessara gagna verið eðlilegur liður í viðleitni til að upplýsa málið og hvorki verið óréttmæt, tilefnislaus, né úr hófi fram. Þá hafi stefnandi ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur hjá lögreglu og þannig stuðlað að aðgerðum gegn sér. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti til bóta fer stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefst sæti verulegri lækkun.

          Hvað varði fyrri kyrrsetningabeiðnina, dagsetta 29. janúar 2010, bendir stefndi á að forsenda hennar hafi verið verið sú að erfitt gæti verið að sækja á hendur stefnanda kröfu um upptöku ávinnings og/eða greiðslu sektar og sakarkostnaðar, væri engin trygging til staðar. Af dómi Hæstaréttar 25. janúar 2012, þar sem kyrrsetning eigna stefnanda hafi verið felld úr gildi á þeirri forsendu að rannsókn málsins hefði dregist úr hófi fram, verði að mati stefnda ekki önnur ályktun dregin en að fullnægt hafi verið skilyrðum um lögmæti kyrrsetningarinnar á þeim tíma er hún hafi verið gerð. Þá telur stefndi enn að líta beri svo á að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðinni þar sem hann hafi ekki leitast við að upplýsa málið við yfirheyrslur hjá lögreglu. Stefndi bendir auk þess á að umrædd miskabótakrafa virðist að einhverju leyti fléttast saman við þá miskabótakröfu sem stefnandi geri vegna tafa á rannsókn málsins, sem að óbreyttu leiði til þess að hvoruga sé unnt að taka til greina. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi stuðlað að kyrrsetningaraðgerðinni gegn sér og fallist á að tafir á rannsókn málsins hafi valdið honum miska fari stefndi fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist sæti verulegri lækkun.

          Hvað varði haldlagningu tiltekins bankareiknings í eigu stefnda, sem undanþeginn hafi verið kyrrsetningunni 29. janúar 2010, þá bendi stefndi á að stefnandi hafi farið fram á að haldlagningu fjármunanna yrði aflétt með bréfi til ríkislögreglustjóra, dagsettu 8. júlí 2010. Í svari ríkislögreglustjóra við erindinu 15. júlí 2010 hafi verið tekið fram að ekki væri tilefni til að aflétta haldlagningunni að svo stöddu og óskað eftir ítarlegri rökstuðningi. Af gögnum málsins virðist mega ráða að haldlagningin hafi breyst í kyrrsetningu í kjölfar samkomulags aðila sem legið hafi til grundvallar endurupptöku kyrrsetningargerðarinnar hinn 18. maí 2011. Til stuðnings sýknu og lækkun bóta vísi stefndi því til sömu sjónarmiða og rakin séu að framan og varði kyrrsetningu á eignum stefnanda 29. janúar 2010.

          Með vísan til fyrri sjónarmiða um tilefni og ástæður þeirra aðgerða lögreglu í málinu sem varðað hafi öflun símagagna, þá hafnar stefndi kröfu stefnanda um miskabætur vegna öflunar gagna um símasamskipti hans. Verði ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétt til bóta fari stefndi jafnframt fram á að sú bótafjárhæð sem stefnandi krefjist verði lækkuð.

          Hvað síðari kyrrsetningargerðina varði, sem fram hafi farið 22. mars 2013, bendir stefndi á að hún hafi, eins og fyrri kyrrsetningargerðin, lotið að því að tryggja greiðslu sakarkostnaðar og upptöku ávinnings af ætluðum brotum. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um að hann hafi orðið fyrir miskatjóni af völdum þessarar kyrrsetningargerðar og því fái stefndi ekki séð í hverju ætlað tjón hans felist eða hvert orsakasamhengið sé á milli þess og kyrrsetningarinnar. Dómur Hæstaréttar frá 25. janúar 2012, þar sem fyrri kyrrsetningin hafi verið felld úr gildi, hafi engan enda bundið á rannsókn málsins heldur haft í för með sér að lögregla hafi talið þörf á að beiðast kyrrsetningar á ný í eignum stefnanda. Stefndi byggir á því að öll lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi við þá kyrrsetningu, enda hafi rannsóknin leitt í ljós verulegan ávinning af ætluðum brotum. Stefndi telur auk þess að stefnandi hafi stuðlað að aðgerðinni gegn sér, svo sem með því að leitast ekki við að upplýsa málið við yfirheyrslur hjá lögreglu. Verði talið að stefnandi hafi ekki fyrirgert rétti til miskabóta vegna síðari kyrrsetningargerðarinnar fari stefndi fram á að sú krafa sæti verulegri lækkun.

          Þá mótmæli stefndi kröfu stefnanda um bætur vegna fjártjóns af völdum kyrrsetninganna. Ítrekuð sé sú afstaða stefnda að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að upphafsaðgerðum rannsóknarinnar í janúar 2010. Þá standi engin efni til þess, hvorki í ljósi dómafordæma né laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, að ákvarða stefnanda dráttarvexti eða almenna vexti á tímabili kyrrsetningarinnar. Stefnandi hafi ekki heldur fært sönnur á að ætlað vaxtatap hans sé umfram þá vexti sem hann hefði notið á tímabilinu. Þá hafi stefnandi farið fram á miskabætur vegna þessarar sömu kyrrsetningaraðgerðar og vegna tafa á rannsókn málsins sem vart geti farið saman.

          Stefndi bendir á að fyrir liggi að kyrrsetningin á umræddum bankainnstæðum hafi fallið niður 25. janúar 2012 á grundvelli fyrrgreinds Hæstaréttardóms. Enda þótt stefnandi hafi í kjölfar dómsins enn verið með réttarstöðu sakbornings hafi hann átt þess kost að krefjast miska- og skaðabóta frá íslenska ríkinu, teldi hann ekki hafa verið tilefni til gerðarinnar, sbr. 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. og 2. mgr. 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi, sem frá fyrstu stundu hafi notið lögmannsaðstoðar, hefði á þeim grundvelli getað takmarkað ætlað tjón sitt sem hann reikni sér hér sem dráttarvexti.

          Krafa stefnanda vegna fjártjóns af völdum kyrrsetningarinnar sé að mati stefnda því marki brennd að vera í eðli sínu krafa um vexti en samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 fyrnist slíkar kröfur á fjórum árum. Málið sé höfðað með stefnu 16. febrúar 2017 og því eigi kröfur stefnanda um vexti sem fallið hafi fyrir 16. febrúar 2013 að vera niður fallnir, þ.á m. sú krafa sem hér sé til umfjöllunar.

          Hvað bótakröfu stefnanda vegna atvinnutjóns varðar byggi stefndi á því að aðgerðir lögreglu hafi engin áhrif haft á starfslok stefnanda hjá [...]., sem hann samt sem áður reikni sér til tjóns. Stefnandi hafi misst vinnuna hjá [...]í mars 2009, þ.e. áður en eftirlitsstjórnvöld og síðar lögregla hafi byrjað afskipti af málinu. Að mati stefnda skorti hér verulega á samhengi á milli dómkröfu stefnanda og málsástæðna í stefnu, og leiði það að mati stefnda til sýknu hans, ef ekki til frávísunar málsins af sjálfsdáðum. Þá mótmæli stefndi því einnig sérstaklega að þau kjör sem stefnandi hafi notið í starfi sínu fyrir [...] í Bretlandi séu lögð til grundvallar útreikningi á hugsanlegum tekjum hans síðar. Í því sambandi bendi stefndi á að það sé alls óljóst hvort og að hvaða leyti stefnandi hafi notið tekna eða getað orðið sér úti um atvinnutækifæri meðan á rannsókn málsins hafi staðið. Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að nokkrar aðgerðir yfirvalda gagnvart stefnanda hafi einar og sér varnað því að hann hefði getað útvegað sér starf eða að öðru leyti aflað tekna á framangreindu tímabili. Fyrir þeirri staðhæfingu beri stefndi sönnunarbyrði sem ekki verði séð af stefnu og framlögðum gögnum að hann hafi axlað með neinu móti.

          Að endingu mótmæli stefndi upphafstíma dráttarvaxta í öllum tilvikum. Engin efni standi til þess að ákvarða stefnanda dráttarvexti frá fyrra tímabili en málshöfðunardegi að því leyti sem kröfur hans kunni að verða teknar til greina. Þá hafi þess sjónarmiðs einnig verið gætt í dómaframkvæmd er varði bætur vegna aðgerða lögreglu að látið sé þar við sitja og að aðrir vextir komi ekki til tals, sem að mati stefnda megi eflaust rekja til þess hversu erfitt geti verið að staðreyna slíkar kröfur fyrirfram, enda séu slíkar bætur oft á tíðum dæmdar að álitum. Með hliðsjón af því mótmæli stefndi einnig upphafstíma seðlabankavaxta sem stefnandi krefjist til vara í öllum tilvikum.

          Að því leyti sem fallist yrði á með stefnanda að hann eigi tilkall til vaxta frá fyrra tímabili en málshöfðunardegi sé að mati stefnda þá ekki heimilt að viðurkenna þann rétt lengra aftur í tímann en fjögur ár frá höfðun málsins, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007.

IV.

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur vegna ýmissa rannsóknaraðgerða sem hann sætti af hálfu lögreglu og sérstaks saksóknara frá 29. janúar 2010 til 18. febrúar 2016, þegar aflétt var síðustu kyrrsetningu í eign stefnanda. Þá krefst hann bóta vegna ummæla sem núverandi vararíkissaksóknari lét falla á opinberum vettvangi í upphafi rannsóknar málsins er hann starfaði hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem og eftir að málinu lauk. Ennfremur krefst hann bóta vegna dráttar á rannsókn málsins. Stefnandi reisir bótakröfu sína annars vegar á reglu 1. mgr. 246. gr., áður 228. gr., laga nr. 88/2008 um hlutlæga bótaábyrgð stefnda og hins vegar á almennu sakarreglunni.

          Samkvæmt 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 á sá sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta úr hendi stefnda ef hann er sýknaður með endanlegum dómi. Í 2. mgr. er tekið fram að bætur skv. 1. mgr. skuli dæma vegna aðgerða eftir IX.–XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi en þó megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakrafan er reist á. Fyrir liggur að stefnandi sætti ýmsum aðgerðum samkvæmt IX., X.,XI. og XII. kafla. laganna og var sýknaður með endanlegum dómi. Á hann því rétt til skaðabóta vegna aðgerða sem gripið var til á grundvelli heimilda í nefndum köflum laga nr. 88/2008, nema því aðeins að telja megi að hann sjálfur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum.

          Hvað varðar bótakröfu stefnanda vegna aðgerða lögreglu sem ekki falla undir IX.–XIV. kafla laga nr. 88/2008, þá verða þær kröfur ekki reistar á hinni hlutlægu bótareglu sem fram kemur í 1. mgr. 246. gr. laganna, enda í 2. mgr. hennar með tæmandi hætti talið til hvaða aðgerða bótaskylda á þeim grunni kemur til álita. Er málsástæðu stefnanda í þessa veru hafnað.

          Stefnandi reisir kröfur málsins m.a. á því að rannsókn málsins hafi verið tilhæfulaus. Á þetta felst dómurinn ekki. Fyrir liggur að starfsemi stefnanda og samstarfsfélaga hans sem rannsókn lögreglu laut að var umfangsmikil og til þess fallin að torvelda stjórnvöldum að ná markmiðum sínum í gjaldeyrismálum og tryggja að skilaskyldur gjaldeyrir skilaði sér til landsins. Þá verður jafnframt að telja að málið hafi við upphaf rannsóknar litið þannig út frá sjónarhóli lögreglu að rökstuddur grunur hafi verið uppi um að starfsemin væri andstæð ákvæðum laga um gjaldeyrismál og reglum settum samkvæmt þeim og jafnframt refsiverð á grundvelli þeirra laga og ákvæða hegningarlaga. Ekki er um það deilt að til grundvallar öllum aðgerðum lögreglu lágu úrskurðir dóms að því leyti sem lög áskilja. Hvað sem líður refsinæmi verknaðar stefnanda vegna skorts á samþykki ráðherra á reglum Seðlabankans mátti stefnanda vera ljóst að hin umfangsmikla starfsemi B væri í andstöðu við markmið ákvæða gjaldeyrislaga nr. 87/1992, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 134/2008, og til þess fallin að vekja grunsemdir um refsiverðan verknað og því kallað á viðbrögð af hálfu lögreglu og annarra stjórnvalda.

          Við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu þann 29. janúar 2010 veitti stefnandi litlar upplýsingar, neitaði að tjá sig um sakarefnið og gaf ótrúverðugar skýringar, m.a. á millifærslu hárra fjárhæða milli reikninga hans og fyrirtækisins B AB á því tímabili sem rannsókn málsins tók til. Í síðari tveimur yfirheyrslunum neitaði hann alfarið að tjá sig.

          Með vísan til þess sem að framan er rakið um tildrög rannsóknar lögreglu og viðbrögð stefnanda í yfirheyrslum er það mat dómsins að stefnandi hafi að nokkru stuðlað að þeim þvingunaraðgerðum sem beindust að honum og hans hagsmunum í skilningi 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Er af þessum sökum hafnað miskabótakröfu hans að því leyti sem hún varðar upphafsaðgerðir lögreglu, þ.e. vegna handtöku og yfirheyrslu 29. janúar 2010 auk húsleitar og leitar í bifreiðum hans sama dag og haldlagningar muna í kjölfar þeirra aðgerða. Sömuleiðis er með sömu rökum hafnað miskabótakröfu hans vegar gagnaöflunar lögreglu hjá Símanum og haldlagningar gagna frá því fyrirtæki og gagnaöflunar frá öðrum fjarskiptafyrirtækjum.

          Hvað varðar kröfu um miskabætur vegna haldlagningar og kyrrsetningar fjármuna stefnanda verður hins vegar að taka mið af því að þótt aðgerðir lögreglu hafi í upphafi verið réttmætar þá stóðu þær lengur yfir en ástæða var til. Rannsókn málsins tók liðlega þrjú ár frá upphafsaðgerðum lögreglu og þar til ákæra var gefin út. Eftir að sakamálið var höfðað féll ákæruvaldið frá stórum ákærulið en umfang rannsóknarinnar tók hins vegar mið af upphaflegum ákæruliðum. Þá kom fram við aðalmeðferð málsins að málsmeðferðartímann megi að hluta rekja til manneklu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og síðar flutnings verkefna hennar til sérstaks saksóknara. Verulegir fjármunir og eignir stefnanda voru kyrrsettar og haldlagðar í tvö ár, þ.e. frá 29. janúar 2010 fram að þeim tíma þegar Hæstiréttur felldi niður kyrrsetninguna með dómi 25. janúar 2012. Þá var fasteign stefnanda að [...] kyrrsett á ný 22. mars 2013 og stóð sú kyrrsetning þar til málinu að endingu lauk 18. febrúar 2016, þegar ljóst var að ákæruvaldið áfrýjaði ekki dómi héraðsdóms. Á stefnandi rétt til miskabóta á grundvelli 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 vegna kyrrsetningar og haldlagningar eigna á rannsóknartíma, enda verður að telja að meginorsök þess hve langan tíma rannsókn málsins tók sé að rekja til atvika og aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á.

          Verður þá næst vikið að miskabótakröfum stefnanda vegna annarra aðgerða, sem sýnt þykir að mati dómsins að falli ekki undir IX.–XIV. kafla laga nr. 88/2008 og verða af þeim sökum ekki reistar á bótagrundvelli 246. gr. laganna.

          Stefnandi gerir kröfu um greiðslu miskabóta vegna opinberra ummæla af hálfu rannsóknaryfirvalda er lutu að sekt stefnanda. Krafan beinist annars vegar að ummælum saksóknara hjá embætti ríkislögreglustjóra er féllu á blaðamannafundinum 29. janúar 2010 og jafnframt í viðtali við Morgunblaðið 2. febrúar s. á. Hins vegar beinist krafan að ummælum er féllu í viðtali við vararíkissaksóknara hjá Ríkisútvarpinu 23. febrúar 2016. Samtals nemur miskabótakrafa stefnanda vegna þessara kröfuliða 2.500.000 krónum.

          Hvað varðar ummæli saksóknara hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra um sekt hans á blaðamannafundi 29. janúar 2010, þá liggur fyrir í gögnum málsins endurrit af áðurnefndum blaðamannafundi. Þar er eftirfarandi haft orðrétt eftir saksóknara: „... Það hefur ekki áhrif á hugsanleg[a] refsiábyrgð og brot þessi teljast vera að okkar áliti allavega teljast þau sönnuð en ég vil hafa alltaf þennan fyrirvara að við erum að tala um mál í rannsókn og grunsemdir og annað slíkt.“

          Þá liggur fyrir í gögnum málsins viðtal við hann í Morgunblaðinu 2. febrúar 2010 þar sem eftirfarandi kemur fram: „... Þeir virðast hafa gert sér far um að halda sig formlega innan ramma laganna en við erum á þeirri skoðun að svo hafi ekki verið.“

          Ljóst er af tilvitnuðum texta að af orðum saksóknara megi ætla að stefnandi hafi gerst sekur um refsivert athæfi og það á þeim tíma er rannsókn málsins var skammt á veg komin og ákæra hafði ekki verið gefin út. Þá var yfirheyrslum yfir stefnanda ekki lokið á þessum tíma. Þó að ákveðnir fyrirvarar séu hafðir um ætlaða sekt stefnanda, sbr. síðari hluta fyrri ummælanna, þykja hvor tveggja ummælin, eins og þau voru sett fram, einkum í ljósi hlutlægnisskyldu þeirrar er á ákæruvaldinu hvílir, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, hafa verið óheppileg og ótímabær og gefið sekt stefnanda fyrirfram til kynna. Að mati dómsins þykir hann því eiga rétt til miskabóta sökum þeirra, enda hafi ummælin verið til þess fallin að vega að æru hans.

          Ummæli vararíkissaksóknara í viðtali við Ríkisútvarpið þann 23. febrúar 2016 lét hann falla aðspurður um ástæður þess að embætti ríkissaksóknara hefði ákveðið að hætta við áfrýjun dóms héraðsdóms í sakamálinu á hendur stefnanda. Þá var í viðtalinu einnig rætt um hve lengi rannsóknin hefði staðið yfir en í máli vararíkissaksóknara kom fram að hún hefði tekið mun lengri tíma en til stóð sökum manneklu og fjárskorts. Ummæli þau er stefnandi krefst miskabóta fyrir hljóða svo: „Og í ljósi þess að þá teljum við að miklar líkur séu á því að Hæstiréttur myndi telja að þetta vera fyrnt þessar sakir.“

          Að mati dómsins þykja þessi ummæli ekki vera til þess fallin að vera sérstaklega meiðandi eða særandi fyrir stefnanda, einkum í því samhengi er þau voru látin falla. Eingöngu er verið að skýra frá þeim ástæðum er lágu að baki þeirri ákvörðun embættis ríkissaksóknara að falla frá áfrýjun og því mati sem lá til grundvallar henni. Af þeim sökum verður ekki fallist á kröfu stefnanda um miskabætur vegna þeirra.

          Hvað varðar kröfu stefnanda um bætur vegna óhæfilegs dráttar á rannsókn málsins er ekki fallist á að það veiti stefnanda sjálfstæðan rétt til bóta.. Áður er rakið að kyrrsetning og haldlagning eigna stefnanda stóð lengur yfir en efni stóðu til vegna þess hve langan tíma tók að rannsaka mál stefnanda. Við ákvörðun um fjárhæð miskabóta er tekið tillit til þessa. Að öðru leyti er hafnað bótakröfu stefnanda sem tengist rannsóknartímanum.

          Þá gerir stefnandi kröfu um bætur fyrir fjártjón vegna kyrrsetningar og haldlagningar peningalegra eigna inni á bankareikningum hans. Fjárkrafa hans er byggð á mismun greiddra vaxta af umræddu fé og dráttarvöxtum á sama tíma, eða til vara og þrautavara miðað við vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 og 8. gr. sömu laga.

          Í 2. mgr. 246. gr. laganna er mælt fyrir um það að bótaskylda samkvæmt ákvæðinu taki bæði til fjártjóns og miska ef því er að skipta. Hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði bóta samkvæmt greininni séu fyrir hendi að því er varðar kyrrsetningu og haldlagningu fjármuna stefnanda. Sönnunarbyrðin um það að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna kyrrsetningar og haldlagningar fjármuna á reikningum hans hvílir á stefnanda. Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram gögn sem sýna fram á slíkt tjón. Ekki er fallist á það með stefnanda að lagaskilyrði standi til þess að ákvarða honum einhvers konar meðalhófsbætur sem felist í mismun ávöxtunar fjármuna annars vegar og dráttarvaxta eða vaxta miðað við tiltekinn annan vaxtafót hins vegar. Er þessari kröfu hans því hafnað.

          Að endingu gerir stefnandi kröfu um bætur fyrir atvinnutjón frá þeim tíma er rannsókn málsins hófst og þar til hann fékk atvinnu að nýju í maí 2012, nánar tiltekið frá og með febrúar 2011 til og með apríl 2012, samtals í 27 mánuði. Stefnandi byggir á því að hann eigi á þessu tímabili rétt á þeim tekjum sem hann hafði í starfi sínu hjá [...] samkvæmt ráðningarsamningi sem lagður hefur verið fram í málinu. Þar kemur fram að árstekjur stefnanda þar hafi numið 110.000 sterlingspundum sem að sögn stefnanda nemi, að viðbættu 10,17% orlofi, samtals 2.047.959 krónum í mánaðarlaun.

          Samkvæmt gögnum málsins féll [...] 2009 og er óumdeilt að stefnandi hætti þar störfum í kjölfarið. Starfslok stefnanda hjá því fyrirtæki eru því alls ótengd rannsókn á ætluðum brotum stefnanda í starfi í þágu B AB, sem hann hóf fljótlega eftir starfslok hjá Straumi. Gögn málsins benda enn fremur til að stefnandi hafi haft tekjur af þessari starfsemi. Rannsókn á starfsemi B hófst 19. nóvember 2009. Þá kemur fram í stefnu að starfsemi B hafi lagst af eftir að reglur Seðlabankans nr. 880/2009 tóku gildi í lok október 2009. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem styðja staðhæfingar stefnanda um að rannsókn lögreglu hafi hindrað atvinnuþátttöku hans. Skortir því bæði á að stefnandi hafi sýnt fram á atvinnutjón á umræddu tímabili og jafnframt að orsakatengsl séu á milli aðgerða lögreglu og slíks tjóns. Verður kröfu stefnanda um bætur fyrir atvinnutjón því hafnað.

          Með vísan til alls framangreinds er fallist á kröfu stefnanda um miskabætur vegna kyrrsetningar og haldlagningar fjármuna og eigna hans og bætur vegna ummæla saksóknara við upphaf rannsóknaraðgerða. Eru bætur vegna þessa metnar að álitum og hæfilega ákveðnar 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum svo sem stefnandi krefst, en upphafstími dráttarvaxta skal vera 28. febrúar 2017, þegar mánuður var liðin frá málshöfðun þessari, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

          Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar vegna reksturs málsins samkvæmt gjafsóknarleyfi dagsettu 27. júní 2017. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Reimars Péturssonar, sem er hæfilega ákveðin 1.100.000 krónur.

Málið flutti Reimar Pétursson lögmaður fyrir stefnanda og Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður fyrir stefnda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 1.400.000 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. febrúar 2017 til greiðsludags. Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Reimars Péturssonar, 1.100.000 krónur.