Dómur um fyrningarfrest krafna um skaðabætur utan samninga

29.01.2020

Í dag kvað Hæstiréttur upp dómi í máli sem J höfðaði á hendur G, M og db. GB þar sem krafist var skaðabóta vegna tjóns sem J taldi sig hafa orðið fyrir vegna sölu G, M og GB á tiltekinni landspildu 18. desember 2008 sem hann taldi tilheyra sér að tveimur þriðju hlutum. Málið átti rætur að rekja til ágreinings um eignarhald á spildu úr landi H sem hafði verið í eigu GKG en hann lést í október 2007. GKG var faðir G, M og GB en stjúpfaðir J. Í febrúar 2008 ritaði M  fyrir sína hönd og GB undir yfirlýsingu þar sem fallist var á að GKG hefði í dánargjöf gefið J landspilduna til eignar. Degi áður en G, M og GB fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúi GKG var landspildunni ráðstafað með skiptayfirlýsingu til þeirra þriggja að jöfnum hlut þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu. Í október 2008 var spildunni svo skipt upp í tvo hluta. G, M og GB seldu GBS minni spilduna, spildu þá sem um ræddi í þessu máli, með kaupsamningi 18. desember 2008. Stærri hluta spildunnar höfðu M og GB selt G 19. desember 2008 en með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 87/2010 var viðurkenndur eignarréttur J að tveimur þriðju hlutum þeirrar spildu. J höfðaði svo mál þetta vegna minni hluta spildunnar sem seldur hafði verið til GBS en ágreiningsefni málsins fyrir Hæstarétti laut einkum að því hvort skaðabótakrafa J væri fyrnd. Í dómi Hæstaréttar kom fram að virtum gögnum málsins væri fallist á það með Landsrétti að J hefði eignast skaðabótakröfu á hendur G, M og db. GB vegna fyrrnefndrar ráðstöfunar á minni spildunni þvert á rétt J. Var við það miðað að krafa J um skaðabætur hefði stofnast á því tímamarki þegar eigninni var ráðstafað með fyrrnefndum kaupsamningi og fór því um fyrningu kröfunnar eftir lögum nr. 105/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laganna. Þá kom fram að J hefði höfðað mál vegna stærri spildunnar á hendur G með stefnu birtri 25. júní 2009 og að í málatilbúnaði J í því máli hefði hann rakið að minni spildan, sem þetta mál varðaði, hefði verið seld þriðja aðila og tilgreint í því sambandi gögn vegna þeirrar ráðstöfunar Hefði hann samkvæmt því í síðasta lagi við höfðun þess máls verið með nauðsynlegar upplýsingar um ætlað tjón sitt og hver hefði borið ábyrgð á því. Var því talið að krafa J hefði verið fyrnd þegar hann höfðaði málið í desember 2015 rúmum sex árum eftir upphafsdag fyrningarfrestsins.


Dóminn í heild sinni má lesa hér.