Dómur um greiðslu fyrir byggingarstjórn

20.12.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem V ehf. krafði B um greiðslu fyrir starf byggingarstjóra við nýbyggingar sem B byggði. Reisti B kröfu sína um sýknu á því að skriflegur samningur hefði ekki verið gerður milli aðila um byggingarstjórn V ehf., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og verktakinn S ehf. hefði borið ábyrgð á og tekið að sér að greiða V ehf. endurgjald fyrir byggingarstjórnina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar samningur væri formbundinn yrði að meta í hverju tilviki fyrir sig hvaða réttaráhrif það hefði að hann væri ekki í því formi sem áskilið væri. Með hliðsjón af því að ekki kæmi fram í fyrrgreindu lagaákvæði að gildi samnings milli eiganda við mannvirkjagerð og byggingarstjóra væri komið undir því að hann væri skriflegur yrði ekki fallist á með B að samningur gæti ekki hafa komist á þótt ekki hefði verið gætt að því að gera hann skriflega. Rík réttlætisrök mæltu gegn því að eigandi gæti komist hjá því að greiða þóknun fyrir veitta þjónustu af þeirri ástæðu einni. Þá kæmi ekkert fram í verksamningi V ehf. við S ehf. eða útboðsgögnum að kostnaður við byggingarstjórn hefði verið innifalinn í verklaunum. Það fyrirkomulag að verktaki greiddi fyrir byggingarstjórnina væri illsamrýmanlegt því hlutverki byggingarstjóra að vera faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfa í umboði hans. Hefði þurft að semja þannig beinlínis ef það ætti að koma til álita. Talið var að með umboðum eiganda til byggingarstjóra hefði B óskað eftir að V ehf. yrði byggingarstjóri vegna húsanna og var því lagt til grundvallar að hann hefði ráðið V ehf. til verksins þannig að til samnings hefði stofnast milli þeirra. Var krafa V ehf. því tekin til greina.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.