Print

Mál nr. 36/2019

Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Verktaka nr. 16 ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
Lykilorð
  • Samningur
  • Verksamningur
  • Byggingarstjóri
  • Tómlæti
  • Málsástæða
Reifun

V ehf. krafði B um greiðslu samkvæmt reikningum fyrir starf byggingarstjóra við nýbyggingar sem B byggði. Reisti B kröfu sína um sýknu á því að skriflegur samningur hefði ekki verið gerður milli aðila um byggingarstjórn V ehf., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og verktakinn S ehf. hefði borið ábyrgð á og tekið að sér að greiða V ehf. endurgjald fyrir byggingarstjórnina. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar samningur væri formbundinn yrði að meta í hverju tilviki fyrir sig hvaða réttaráhrif það hefði að hann væri ekki í því formi sem áskilið væri. Með hliðsjón af því að ekki kæmi fram í fyrrgreindu lagaákvæði að gildi samnings milli eiganda við mannvirkjagerð og byggingarstjóra væri komið undir því að hann væri skriflegur yrði ekki fallist á með B að samningur gæti ekki hafa komist á þótt ekki hefði verið gætt að því að gera hann skriflega. Rík réttlætisrök mæltu gegn því að eigandi gæti komist hjá því að greiða þóknun fyrir veitta þjónustu af þeirri ástæðu einni. Þá kæmi ekkert fram í verksamningi V ehf. við S ehf. eða útboðsgögnum að kostnaður við byggingarstjórn hefði verið innifalinn í verklaunum. Það fyrirkomulag að verktaki greiddi fyrir byggingarstjórnina væri illsamrýmanlegt því hlutverki byggingarstjóra að vera faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfa í umboði hans. Yrði síður talið að þetta lögbundna eftirlit gæti þjónað tilgangi sínum ef verktaki ekki aðeins veldi byggingarstjóra heldur greiddi honum einnig fyrir þjónustu sína. Hefði þurft að semja þannig beinlínis ef það ætti að koma til álita. Talið var að með umboðum eiganda til byggingarstjóra hefði B óskað eftir að V ehf. yrði byggingarstjóri vegna húsanna og yrði því lagt til grundvallar að hann hefði ráðið V ehf. til verksins þannig að til samnings hefði stofnast milli þeirra. Var krafa V ehf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2019. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefst stefndi greiðslu samkvæmt reikningum á hendur áfrýjanda fyrir starf byggingarstjóra við nýbyggingar sem áfrýjandi reisti að Unnargrund í Garðabæ. Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að komist hafi á samningur milli aðila um þjónustu stefnda, en áfrýjandi andmælir því að hann hafi skuldbundið sig gagnvart stefnda. Áfrýjandi var sýknaður af kröfu stefnda í héraði en hún tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.

II

Málavextir eru þeir að áfrýjandi og sveitarfélagið Garðabær munu hafa gert samning 13. desember 2012 um að áfrýjandi léti byggja 25 raðhús við Arnarnesvog, en það svæði fékk síðar nafnið Unnargrund. Framkvæmdir við jarðvinnu og gatnagerð á svæðinu hófust í janúar 2016 og í maí það ár var auglýst útboð á byggingu húsanna. Í verkið bárust sex tilboð og var það lægsta frá SS Húsum ehf. Áfrýjandi tók því tilboði 15. júní 2016 og var verksamningur á þeim grunni gerður 19. september það ár. Samkvæmt samningnum námu verklaun 1.164.055.279 krónum með virðisaukaskatti í samræmi við tilboð verktaka og með leiðréttingum eftir útboðsgögnum. Tekið var fram að verktaki hefði hafið framkvæmdir 25. júlí 2016 en þeim ætti að vera að fullu lokið 1. september 2018. Þá sagði í samningnum að verkið ætti að vinna í samræmi við útboðsgögn eins og þau væru tilgreind í útboðs- og samningsskilmálum. Til tryggingar á efndum samningsins lagði verktakinn fram ábyrgðaryfirlýsingu Landsbankans hf. 14. október 2016 að fjárhæð 116.500.000 krónur.

Í útboðs- og samningsskilmálum var tekið fram að verktaki skyldi tilnefna byggingarstjóra í samræmi við kafla 4.7 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með minnisblaði 14. júní 2016 í aðdraganda þess að gengið var að tilboði SS Húsa ehf. upplýsti félagið um helstu starfsmenn sína og iðnmeistara og tiltók að byggingarstjóri yrði Hans Ragnar Þorsteinsson, en hann var á þeim tíma jafnframt starfsmaður verktakans.

Hinn 26. júlí 2016 ritaði áfrýjandi undir svonefnd „Umboð eiganda til byggingarstjóra“ vegna allra 25 raðhúsanna sem reisa átti við Unnargrund. Í þeim var tekið fram að áfrýjandi sem eigandi húsanna óskaði eftir að stefndi yrði byggingarstjóri við verkið, en fyrirsvarsmaður og eigandi stefnda mun vera fyrrnefndur Hans Ragnar Þorsteinsson. Samhliða þessu ritaði stefndi undir „Uppáskrift byggingarstjóra sem fyrirtæki“, en þar kom fram að Hans Ragnar hefði verið ráðinn byggingarstjóri. Þessi gögn voru móttekin af byggingarfulltrúa Garðabæjar 26. júlí 2016. Sama dag fékk stefndi útgefin vátryggingaskírteini frá Tryggingamiðstöðinni hf. vegna starfsábyrgðar byggingarstjóra við verkið, en í skírteinunum var tiltekið að vátryggingartímabil væri frá 26. júlí 2016 til 31. desember 2017.

Stefndi veitti tilteknum starfsmanni SS Húsa ehf. umboð 22. nóvember 2016 til að starfa sem fulltrúi sinn við byggingarstjórn í fjarveru skráðs byggingarstjóra. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að stefndi óskaði 7. september 2017 eftir fokheldisúttekt frá byggingarfulltrúa á níu húsum við Unnargrund.

Með bréfi 13. október 2017 fór áfrýjandi þess á leit við SS Hús ehf. að félagið legði fram frekari tryggingar fyrir efndum samkvæmt verksamningi um byggingu húsanna vegna þess að nokkrum sinnum hefði verið gert árangurslaust fjárnám hjá verktakanum auk þess sem dráttur hefði orðið á framkvæmdum. Jafnframt var tekið fram að iðnaðarmenn hefðu horfið frá verkinu og traust birgja til verktakans virtist þorrið. Taldi áfrýjandi ljóst að sú trygging sem væri fyrir hendi myndi ekki duga til að komist yrði hjá tjóni vegna fyrirsjáanlegra vanefnda verktakans. Þessu erindi svaraði verktakinn með bréfi 27. október 2017 þar sem tilkynnt var að honum væri ókleift að leggja fram frekari tryggingar og að standa við verksamninginn um byggingu húsanna við Unnargrund. Áfrýjandi rifti síðan samningnum með bréfi 13. nóvember sama ár.

Með tölvubréfi stefnda 16. nóvember 2016 voru sendir sjö reikningar til áfrýjanda fyrir byggingarstjórn vegna húsanna við Unnargrund. Reikningar þessir voru allir gefnir út 15. sama mánaðar og námu samtals 14.488.750 krónum sem svarar til dómkröfu stefnda. Þessu erindi svaraði áfrýjandi með tölvubréfi síðar sama dag. Þar tók hann fram að reikningarnir yrðu ekki greiddir „að óbreyttu“. Fyrir því voru færðar þær ástæður að verkið væri rétt hálfnað og stefndi hefði vanrækt hlutverk sitt sem byggingarstjóri með ýmsu móti. Einnig var vísað til þess að aldrei hefði verið gengið frá samningi við stefnda um byggingarstjórn, en ástæðan fyrir því væri meðal annars sú að útboðs- og samningsskilmála um byggingu húsanna mætti skilja á þann veg að kostnaður vegna byggingarstjóra væri hluti af tilboði verktaka. Aftur á móti tók áfrýjandi fram að hann væri reiðubúinn að semja við stefnda um lyktir málsins á þeim nótum að greitt yrði fyrir það sem gert hefði verið. Loks óskaði áfrýjandi eftir að fá afrit af reikningum vegna útlagðs kostnaðar og nánari upplýsingar um þær úttektir sem stefndi hefði sinnt vegna verksins. Áfrýjandi sendi stefnda aftur tölvubréf 23. nóvember 2017 með ósk um frekari gögn og var því svarað með tölvubréfi degi síðar þar sem stefndi fór þess á leit að áfrýjandi kæmi með tillögu um málalyktir áður en lengra yrði haldið. Lögmaður áfrýjanda ritaði síðan stefnda bréf 27. sama mánaðar þar sem greiðsluskyldu var hafnað.

Bú SS Húsa ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 10. janúar 2018. Við skiptin lýsti Hans Ragnar Þorsteinsson kröfu vegna vangreiddra launa fyrir tímabilið frá 1. október til 30. nóvember 2017, auk orlofs og desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 2.561.993 krónur. Var krafan meðal annars reist á því að honum hafði verið sagt upp störfum hjá félaginu með bréfi 31. október 2017 með mánaðar uppsagnarfresti.

III

Svo sem áður greinir er krafa stefnda reist á sjö reikningum útgefnum 15. nóvember 2017 á hendur áfrýjanda og skiptast þeir í þrjá liði. Í fyrsta lagi ná þeir til kostnaðar stefnda af því að taka starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra, en iðgjald hennar vegna allra húsanna nam 4.374.932 krónum. Að teknu tilliti til álags nam þessi liður samtals 5.031.150 krónum. Í öðru lagi er á reikningunum tilgreindur liður vegna byggingarstjórnar, ábyrgðar og uppáskriftar að fjárhæð 200.000 krónur á hvert hús. Hann nemur því samtals 5.000.000 króna. Loks er í þriðja lagi liður vegna úttekta að fjárhæð 25.000 krónur fyrir hverja og er miðað við að þær hafi verið samtals 66 að tölu. Þessi liður nemur því 1.650.000 krónum. Alls nema því reikningarnir 11.681.150 krónum og að viðbættum virðisaukaskatti að fjárhæð 2.807.600 krónur nema þeir samtals 14.488.750 krónum.

Í gögnum málsins er ódagsett yfirlit áfrýjanda yfir úttektir vegna framkvæmda að Unnargrund. Samkvæmt því var gert ráð fyrir úttektum vegna sökkla, lagna í grunni, botnplatna, veggjasteypu, stoðveggja, lagna utan húss, hita- og neysluvatnslagna, þakvirkis, einangrunar og rakavarnar, gólfhitalagna, vinkla fyrir klæðningu og við fokheldi. Á yfirlitinu kemur fram að Hans Ragnar Þorsteinsson hafi mætt við 80 af þeim 250 úttektum sem var lokið.

IV

1

Áfrýjandi heldur því fram að með hinum áfrýjaða dómi hafi ekki verið tekin afstaða til þeirrar málsástæðu hans að fjárkrafa stefnda á hendur sér hafi fallið niður fyrir tómlæti. Annmarki af því tagi hefði þau áhrif að dómurinn yrði ómerktur án kröfu og málinu vísað aftur til meðferðar fyrir Landsrétti. Skiptir því ekki máli þótt áfrýjandi geri ekki þá kröfu, eins og lá beint við, fyrst hann hreyfir þessari málsástæðu.

Í greinargerð áfrýjanda í héraði og fyrir Landsrétti var vísað til þess að stefndi hefði fyrst gert sér reikninga 15. nóvember 2017, þegar tæpir 16 mánuðir voru liðnir frá því verkið hófst 25. júlí 2016, þótt hann hefði lagt út fyrir umtalsverðum kostnaði vegna trygginga. Á þeim tíma hefði verktakinn, SS Hús ehf., glímt við erfiða fjárhagsstöðu og Hans Ragnari Þorsteinssyni verið sagt upp störfum hjá honum nokkru áður eða 31. október 2017. Í kjölfarið hefði stefndi, sem væri félag í eigu Hans Ragnars, gripið til þess ráðs að beina kröfum sínum að áfrýjanda. Taldi áfrýjandi að ráða mætti af þessu að ekkert samningssamband hefði stofnast á milli aðila. Samkvæmt þessu taldi áfrýjandi að þetta tómlæti hefði áhrif við mat á því hvort sannað væri að komist hefði á samningur milli aðila um þjónustu stefnda í þágu áfrýjanda. Aftur á móti fólst ekki í þessu sú málsástæða að stefndi hefði fyrir tómlæti glatað kröfu sinni ef hún hefði á annað borð stofnast. Þar sem þessari málsástæðu var hvorki teflt fram í héraði né fyrir Landsrétti kom hún ekki til úrlausnar í hinum áfrýjaða dómi. Af sömu ástæðu kemur þessi nýja málsástæða ekki til úrlausnar hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

2

Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda á þeim grunni að skriflegur samningur hafi ekki verið gerður milli aðila um byggingarstjórn stefnda. Til stuðnings þessu vísar áfrýjandi til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en þar segir að byggingarstjóri starfi í umboði eiganda við mannvirkjagerð samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við hann. Það sama kemur fram í 2. mgr. 4.7.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Heldur áfrýjandi því fram að samningur um byggingarstjórn komist ekki á nema fylgt sé þeirri formkröfu að gera hann skriflega. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnda á hendur sér um greiðslu fyrir byggingarstjórnina.

Í samningarétti gildir sú meginregla að löggerningar eru ekki formbundnir. Af því leiðir að samningur getur komist á hvort sem hann er munnlegur eða skriflegur. Þessi regla er ólögfest en þó er gert ráð fyrir henni í 3. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Frá reglunni um að löggerningar séu óformbundnir gilda undantekningar eftir lögum, samningi, venju eða eðli máls. Þegar samningur er formbundinn verður að meta í hverju tilviki hvaða réttaráhrif það hefur að hann er ekki í því formi sem áskilið er. Þegar um er að ræða lögfesta undantekningu frá umræddri meginreglu verður að virða réttaráhrifin í ljósi efnis reglunnar, tilgangs hennar og forsögu og eftir atvikum með hliðsjón af því sem kemur fram í lögskýringargögnum. Þannig er ekki fyrir hendi almenn líkindaregla í íslenskum rétti um réttaráhrifin, en því má þó slá föstu að það heyri til undantekninga að samningur verði talinn með öllu ógildur ef ekki er gætt að formkröfum. Verður þá venjulega að gera þá kröfu að lagaregla orði formkröfu beinlínis sem gildisskilyrði, sbr. 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, 7. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og 7. gr. laga nr. 120/2013 um skiptileigusamninga fyrir afnot af húsnæði í orlofi eða frístundum o.fl. Þó er ekki útilokað að tiltekið form verði talið fela í sér gildisskilyrði þótt það leiði ekki beint af orðalagi reglunnar, svo sem ef rík sjónarmið um neytendavernd leiða til þeirrar niðurstöðu, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

Svo sem áður greinir segir í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 að byggingarstjóri starfi í umboði eiganda við mannvirkjagerð samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við hann. Í 3. mgr. 51. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sagði aftur á móti að um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda færi eftir samningi þeirra á milli án þess að gerðar væru formkröfur um þann samning. Að þessari breytingu er ekki vikið í lögskýringargögnum með lögum nr. 160/2010. Með hliðsjón af því að ekki kemur fram í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 að gildi samnings milli eiganda við mannvirkjagerð og byggingarstjóra sé komið undir því að hann sé skriflegur verður ekki fallist á með áfrýjanda að samningur geti ekki hafa komist á þótt ekki væri gætt að því að gera hann skriflega. Er þá jafnframt haft í huga að rík réttlætisrök mæla gegn því að eigandi geti komist hjá því að greiða þóknun fyrir veitta þjónustu af þeirri ástæðu einni. Af þessum sökum verður ekki fallist á þessa málsástæðu áfrýjanda.

3

 Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína einnig á því að verktakinn, SS Hús ehf., hafi borið ábyrgð á og tekið að sér að greiða stefnda endurgjald fyrir þjónustu stefnda við byggingarstjórnina. Svo sem áður er komið fram var gert ráð fyrir því í útboðs- og samningsskilmálum, sem leggja átti til grundvallar við framkvæmdirnar, að verktaki ætti að tilnefna byggingarstjóra. Aftur á móti kemur ekkert fram í verksamningi stefnda við SS Hús ehf. 19. september 2016 eða útboðsgögnum að kostnaður við byggingarstjórn hafi verið innifalinn í verklaunum. Það fyrirkomulag að verktaki greiddi fyrir byggingarstjórn hefði verið illsamrýmanlegt því hlutverki byggingarstjóra eftir 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 að vera faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfa í umboði hans. Er þess þá að gæta að þetta felur meðal annars í sér að byggingarstjóra ber að gæta hagsmuna eiganda gagnvart verktaka við mannvirkjagerð. Verður síður talið að þetta lögbundna eftirlit geti þjónað tilgangi sínum ef verktaki velur ekki aðeins byggingarstjóra heldur greiðir honum einnig fyrir þjónustu sína. Í öllu falli hefði þurft að semja þannig beinlíns, ef þetta átti að koma til álita, og þegar af þeirri ástæðu verður þessari málsástæðu áfrýjanda hafnað.

Með umboðum eiganda til byggingarstjóra 26. júlí 2016 óskaði áfrýjandi eftir að stefndi yrði byggingarstjóri vegna húsanna sem reist voru að Unnargrund. Verður því að leggja til grundvallar að hann hafi ráðið stefnda til verksins þannig að til samnings hafi stofnast milli þeirra. Gat engu breytt í því tilliti þótt til hafi staðið að þessum umboðum yrði framvísað til byggingarfulltrúa til að byggingarleyfi yrði veitt, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010, enda naut áfrýjandi þjónustunnar af hendi stefnda og hefur ekki leitt í ljós að á henni hafi verið neinir þeir annmarkar að hún hafi ekki komið honum að notum. Þá verður ekki fallist á með stefnda að það bendi til að ekki hafi stofnast samningur milli aðila þótt einhver dráttur hafi orðið á því að stefndi gerði áfrýjanda reikninga fyrir þjónustu sína. Samkvæmt þessu bar áfrýjanda að greiða stefnda endurgjald fyrir veitta þjónustu og verður í samræmi við meginreglu kröfuréttar að miða við uppsett verð, enda hefur áfrýjandi ekki leitt í ljós að það sé ósanngjarnt. Þetta hefur verið nefnt reglan um hið réttláta verð (pretium justium), en hún kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Í samræmi við þetta verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að taka kröfu stefnda til greina, auk dráttarvaxta, þó með þeirri leiðréttingu að virðisaukaskattur vegna eins liðar í reikningum hans er ofreiknaður um 4.125 krónur.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verða staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ, greiði stefnda, Verktaka nr. 16 ehf., 14.484.625 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. desember 2017 til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað eru staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Landsréttar 31. maí 2019.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Hervör Þorvaldsdóttir, Kristbjörg Stephensen og Sigurður Tómas Magnússon.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 1. nóvember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2018 í málinu nr. E-160/2018.

2. Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 14.488.750 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. desember 2017 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.

4. Vitnið Sigurþór Sigurðsson, fyrrum fyrirsvarsmaður SS húsa ehf. og Björn Ingi Sveinsson, fyrirsvarsmaður eftirlitsaðila stefnda, gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti.

Niðurstaða

5. Málavextir eru raktir í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram og er ágreiningslaust undirritaði stefndi 26. júlí 2016 sjö samhljóða umboð eiganda fasteignanna Unnargrund 1-9, 11-17, 19-23, 25-33, 4-8, 10-14 og 16-18 til áfrýjanda um að hann tæki að sér að vera byggingarstjóri. Sama dag var byggingarfulltrúa Garðabæjar tilkynnt að Hans Ragnar Þorsteinsson húsasmíðameistari hefði verið ráðinn byggingarstjóri og tæki að sér að vera framkvæmdastjóri við ofangreindar byggingar, ráða iðnmeistara eða samþykkja ráðningu þeirra og bera ábyrgð á að framkvæmdir yrðu í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sbr. 27. og 28. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

6. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að stefndi samþykkti áfrýjanda sem byggingarstjóra og með því tók áfrýjandi á sig skyldur sem því fylgdu. Þrátt fyrir ákvæði fyrrgreindrar 27. gr. laga nr. 160/2010, þar sem kveðið er á um að byggingarstjóri sé faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfi í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda, gerðu aðilar ekki með sér slíkan samning. Vinna áfrýjanda var sannanlega unnin í þágu stefnda og ekki liggur annað fyrir en að sú vinna hafi gagnast honum. Ekki er unnt að líta svo á að stefndi hafi mátt ætla að þjónusta áfrýjanda yrði látin í té endurgjaldslaust eða að hún væri innifalin í útboðs- og samningsskilmálum milli stefnda og verktakans SS húsa ehf., en þar er hvergi vikið að þessari þjónustu eða greiðslu fyrir hana. Samkvæmt því og með vísan til þeirrar meginreglu sem fram kemur í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup verður fallist á fjárkröfu áfrýjanda eins og hún er fram sett.

7. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ, greiði áfrýjanda, Verktaka nr. 16 ehf., 14.488.750 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. desember 2017 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

 

Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2018

 

Mál þetta sem var dómtekið 12. september 2018, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu birtri 13. febrúar 2018.

Stefnandi er Verktaki nr. 16 ehf., kt. 630713-0990, Básenda 10, Reykjavík. Stefndi er Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ, kt. 570308-0760, Strikinu 8, Garðabæ.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 14.488.750 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 15. desember 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins.

I

Málsatvik

Stefndi fékk leyfi til byggingar 25 raðhúsa, svonefndra keðjuhúsa, við Unnargrund í Garðabæ. Auglýst var útboð á byggingarframkvæmdum og varð verktakafyrirtækið SS Hús ehf. lægstbjóðandi. Ákveðið var á fundi félagsmanna stefnda þann 15. júní 2016 að ganga til samninga við SS Hús ehf.

Í útboðs- og samningsskilmálum, sem eru frá maí 2016, er tiltekið í gr. 0.8.8 að verktaki skuli tilnefna byggingarstjóra. Af hálfu SS Húsa ehf. var tilnefndur Hans Ragnar Þorsteinsson húsasmíðameistari.

Stefndi ritaði undir eyðublöð til byggingarfulltrúa Garðabæjar, „Umboð eigenda til byggingarstjóra“, dags. 26. júlí 2016. Þar kemur fram að stefndi óski eftir því að stefnandi, Verktaki nr. 16 ehf., verði byggingarstjóri, en það er félag í eigu Hans Ragnars Þorsteinssonar. Sama dag undirritar Hans Ragnar f.h. stefnanda eyðublað byggingarfulltrúa Garðabæjar, „Uppáskrift byggingarstjóra sem fyrirtæki“. Með umboði, dags. 22. nóvember 2016, veitti stefnandi öðrum aðila, Kristni Arnarsyni, umboð til þess að starfa sem fulltrúi stefnanda sem byggingarstjóri, í fjarveru Hans Ragnars.

Verksamningur um framkvæmdir húsanna var undirritaður þann 21. september 2016, á milli stefnda og SS Húsa ehf. Í 2. gr. þess samnings kemur meðal annars fram að verkið skuli unnið í samræmi við útboðsgögn eins og þau séu tilgreind í grein 0.3.1 í útboðs- og samningsskilmálum.

Þann 15. nóvember 2017 sendi stefnandi stefnda umþrætta reikninga málsins þar sem hann krefur stefnda um greiðslu fyrir byggingarstjórn vegna byggingar húsanna. Í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnda, Björns Inga Sveinssonar, dags. 16. nóvember 2017, kemur meðal annars fram: „Sæll Hans Ragnar. Þessir reikningar verða ekki greiddir að óbreyttu ... Hins vegar er ég alveg tilbúinn til að semja við þig um lyktir þessa máls á þeim nótum að þú fáir greitt fyrir það sem þú hefur gert.“ 

Með tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 23. nóvember 2017, er óskað eftir afritum ýmissa gagna, svo sem af samningi Hans Ragnars við stefnda, úttektarskýrslum, tryggingarskilmálum stefnanda auk skráninga í gæðahandbók verkefnisins. Í tölvupósti, dags. 24. nóvember 2017, spyr lögmaður stefnanda fyrirsvarsmann stefnda hvort ekki sé hægt að einfalda málið með því ap stefndi komi með tillögu að því hvað hann telji eðlilegt að greiða fyrir byggingarstjórn. Með bréfi frá lögmanni stefnda, dags. 27. nóvember 2017, kemur fram að stefndi hafni alfarið greiðsluskyldu. Hefði stefndi enga milligöngu haft um að útvega byggingarstjóra og engan samning gert við stefnanda um það og verði stefnandi að beina kröfum sínum að SS Húsum ehf. Það félag var tekið til gjaldþrotaskipta 10. janúar 2018.

Í málinu liggja meðal annars fyrir umstefndir sjö reikningar sem stefnukrafa málsins byggist á, verksamningur um Unnargrund, dags. 21. september 2016, útboðs- og samningsskilmálar frá maí 2016, sjö umboð eigenda til byggingarstjóra, dags. 26. júlí 2016, úttektir og yfirlit úttekta byggingarstjóra, beiðnir um fokheldisvottorð, vátryggingarskírteini byggingarstjóra, auk nefndra tölvupósta og bréfaskrifta.

Við aðalmeðferð málsins gaf Hans Ragnar Þorsteinsson aðilaskýrslu.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi, með ósk sinni um að stefnandi yrði byggingarstjóri, skuldbundið sig til að greiða honum fyrir þá byggingarstjórn. Hafi stefnandi sent stefnda reikninga, dagsetta 15. nóvember 2017, sem stefndi hafi ekki greitt. Þá hafi stefndi jafnframt lofað að greiða umstefnda reikninga, samanber tölvupóst Björns Inga Sveinssonar verkefnisstjóra stefnda, dags. 16. nóvember 2017, til Hans Ragnars Þorsteinssonar, með orðalaginu: „Þessir reikningar verða ekki greiddir að óbreyttu.” Þrátt fyrir að stefndi hafi talið að breyta ætti reikningunum hafi hann ekki komið með neina tillögu þar að lútandi.

Stefnandi segir ástæðu þessarar málshöfðunar þá að hann hafi ekki fengið fyrrgreinda reikninga greidda en þeir væru að hluta til útlagður kostnaður vegna starfa sem stefndi hafi óskað eftir að stefnandi sæi um.

Stefnandi bendir á að með þeim samningum, sem felist í umboðum stefnda til stefnanda sem byggingarstjóra, hafi stefndi óskað eftir því að stefnandi gerðist byggingarstjóri. Stefndi, eigandi húsanna, hafi skrifað undir umboð þar sem fram komi að stefnandi sé byggingarstjóri vegna húsanna að Unnargrund í samræmi við ósk stefnda. Undir umboðin skrifi Björn Ingi Sveinsson, verkefnisstjóri stefnda, en undir uppáskrift byggingarstjóra skrifi Hans Ragnar Þorsteinsson f.h. stefnanda. Af framangreindu sé ljóst að um greiðsluskyldu sé að ræða. Stefndi hafi óskað eftir að stefnandi sæi um byggingarstjórn og stefnda megi vera það ljóst að stefnandi hafi ekki annast byggingarstjórn í sjálfboðavinnu. Mál þetta sé þess vegna meðal annars byggt á því að undirskrift stefnda undir framangreind umboð hafi falið í sér greiðsluskyldu stefnda vegna byggingarstjórnar stefnanda.

Stefnandi bendir á að í 2. mgr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 segi að byggingarstjóri starfi í umboði eiganda samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi. Stefndi sem eigandi hafi ekki talið þörf á að gera frekari skriflega samninga við stefnanda sem byggingarstjóra en fram komi í umboðunum. Hvort stefndi hafi talið að með þessu kæmist hann hjá greiðslu til stefnanda sé ekki ljóst en í þessu máli hafi aðilar ekki samið um verð fyrir byggingarstjórn. Við slíkar aðstæður beri að greiða eftir þeirri grunnreglu sem komi fram í 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem feli það í sér að greiða skuli það verð sem sé uppsett, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Sönnunarbyrði fyrir því að verð sé ósanngjarnt hvíli á þeim sem slíku haldi fram. Það einkennilega sé þó að þrátt fyrir að stefndi hafi ekki talið þörf á að gera annan skriflegan samning við stefnanda en undirrituð umboð til hans þá hafi Björn Ingi Sveinsson beðið um afrit af samningi Hans Ragnars Þorsteinssonar við Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ þar sem komi fram upplýsingar um hlutverk hans og starfssvið, auk kjara. Þetta verði að teljast einkennileg beiðni þar sem Björn Ingi Sveinsson starfi sem verkefnisstjóri fyrir stefnda, og hafi að öllum líkindum það hlutverk að gera slíka samninga fyrir hönd stefnda.

Stefnandi mótmælir staðhæfingu stefnda um að stefnandi hafi aldrei verið á framkvæmdarstað, enda sýni framlagðar úttektir fram á annað með skýrum hætti, og einnig framlögð dómskjöl þar sem óskað sé eftir fokheldisúttektum. Auk framangreindra úttekta hafi stefnandi komið í eftirlitsferðir þegar hann hafi talið þörf á því. Rangt sé að stefnandi hafi ekki séð húsin og kannast stefnandi ekki við að byggingarfulltrúi hafi haft orð á þessu. Jafnvel þótt svo væri þá skipti það engu máli þar sem framangreindar úttektir sýni annað. Ef stefndi telji að framangreint réttlæti að reikningarnir séu ósanngjarnir þá hafi það sjónarmið verið hrakið.

Um ábyrgð og verksvið byggingarstjóra bendir stefnandi á 29. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sem og byggingarreglugerð nr. 112/2012, grein 4.7.7. Þar komi fram að ábyrgð og verksvið byggingarstjóra sé töluvert. Ef tjón yrði í öllum húsum þeim sem þetta mál fjalli um gæti eigin áhætta, sjálfsábyrgð byggingarstjóra, þ.e. stefnanda, orðið frá 3.458.000 krónum til 9.779.000 króna. Fjárhagsleg ábyrgð geti því verið töluverð hjá byggingarstjóra, sem beri að reikna inn í þóknun hans.

Stefnandi bendir á að skv. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 160/2010 geti fyrirtæki og stofnanir í eigin nafni borið ábyrgð sem byggingastjórar við mannvirkjagerð, enda starfi þar maður við byggingarstjórn sem hafi starfsleyfi til að annast umsjón slíkra framkvæmda. Í athugasemdum með framangreindri grein í því frumvarpi sem hafi orðið að nefndum lögum segi að tilgangur með greininni sé að takmarka persónulega ábyrgð einstaklings sem starfi hjá byggingarfyrirtæki. Ábyrgð einstaklings sé talin vera fyrir hendi en takmörkuð að einhverju leyti. Auk þess sé það svo að persónulega skipti það Hans Ragnar Þorsteinsson máli hvort tjón verði vegna þess að hann er sá starfsmaður sem eigi að annast byggingarstjórn fyrir hönd stefnanda, og ef tjón verði þar sem hann starfi sem byggingarstjóri sé hætta á að iðgjöld vegna byggingarstjóratrygginga verði hærri en ella, auk þess sem erfitt gæti reynst fyrir hann að fá slíka tryggingu sem myndi skerða aflahæfi hans. Ábyrgð hans sé þess vegna töluverð. Allt tal um ábyrgðarleysi byggingarstjóra sé þess vegna rangt.

Stefnandi kveður kröfufjárhæðina vera samtölu reikninga hans vegna byggingarstjóra fyrir stefnda, sbr. neðangreinda töflu, þar sem einnig komi fram greidd iðgjöld sem stefnandi hafi greitt vegna þeirra húsa sem stefndi sé að byggja.

Hús                                                                               Fjárhæð                                 Iðgjald

Unnargrund 1-3-5-7-9, dskj. nr. 17                         3.045.725                              874.985

Unnargrund 11-13-15-17-19, dskj. nr. 18             2.455.180                              699.984

Unnargrund 19-21-23, dskj. nr. 19                         1.554.635                              524.994

Unnargrund 25-27-29-31-33, dskj. nr. 20             2.642.725                              874.985

Unnargrund 4-6-8, dskj. nr. 21                                1.864.635                              524.994

Unnargrund 10-12-14, dskj. nr. 22                         1.837.760                              524.994

Unnargrund 16-18, dskj. nr. 23                               1.088.090                              349.996

Samtals                                                                        14.488.750                           4.374.932

Auk framangreinds þurfi stefnandi að greiða virðisaukaskatt, 2.737.475 krónur, vegna umrædds verkefnis. Stefnandi hafi þess vegna orðið fyrir miklum útgjöldum vegna þess að hann gerðist byggingarstjóri fyrir stefnda. Stefnandi leggi einungis 15% ofan á tryggingaiðgjöld sem verði að telja mjög lága fjárhæð miðað við áhættuna að fá ekki kostnað vegna þeirra greiddan. Kostnaður vegna úttekta komi fram á reikningum og sé hver úttekt reiknuð á 25.000 krónur auk virðisaukaskatts sem verði að telja mjög sanngjarnt, þar sem ekki sé óvarlegt að áætla að í slíka úttekt fari ein og hálf til tvær klukkustundir, auk kostnaðar við akstur. Eftir standi þá á reikningum stefnanda liður sem nefnist byggingarstjórn, ábyrgð og uppáskrift. Samtals hljóði reikningar stefnanda upp á 5.200.000 krónur vegna þess liðar auk virðisaukaskatts. Um sé að ræða 25 raðhús sem geri 208.000 krónur á hvert hús.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi stefnugerð, dómkröfur og gerð stefnu. Um varnarþing og þinghá er vísað til 8. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 og 1. mgr. 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um aðild máls er vísað til 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála. Um fyrirsvar er vísað til 4. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála. Um dómkröfu, lið eitt, er vísað til meginreglu kröfuréttar, samanber 45. gr. laga nr. 5/2000 um lausafjárkaup um að verkkaupa beri að greiða sanngjarnt verð, og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að því er varði dráttarvaxtakröfu. Um málskostnaðarkröfu er vísað fyrst og fremst til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um ábyrgð og störf byggingarstjóra er vísað til laga um mannvirki nr. 160/2010, fyrst og fremst 29. gr. þeirra laga. Í samræmi við f-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála sé hér um að ræða tilvísun til þeirra helstu lagaákvæða sem stefnandi telji eiga við en að sjálfsögðu dæmi dómendur eftir lögum, samanber 61. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og hafnar alfarið greiðsluskyldu í málinu. Að mati stefnda sé málatilbúnaður stefnanda algerlega tilhæfulaus og í mörgum atriðum beinlínis villandi.

Stefndi kveður ekkert samningssamband vera milli aðila þessa máls. Við útboð stefnda í maí 2016 hafi verið gert ráð fyrir því að bjóðendur tilnefndu byggingarstjóra, sbr. gr. 0.8.8 í útboðs- og samningsskilmálum. Byggingarstjórn hafi því frá upphafi verið ætlað að vera á hendi bjóðenda og á þeirra ábyrgð. Bjóðendur hafi því haft færi á að reikna kostnað vegna byggingarstjórnar inn í heildartilboð sitt í útboðinu. Hans Ragnar Þorsteinsson hafi sem starfsmaður SS Húsa ehf. verið tilnefndur af fyrirtækinu til að sinna byggingarstjórn við verkið, og stefnandi, sem væri fyrirtæki á hans vegum, skráður byggingarstjóri. Af þeim sökum hafi stefndi engan ráðningar- eða verksamning gert við stefnanda eða Hans Ragnar, hvorki munnlegan né skriflegan, enda hafi stefnandi engan slíkan samning lagt fram í málinu. Stefnanda beri því með réttu að beina kröfum sínum vegna þóknunar fyrir byggingarstjórn að SS Húsum ehf. sem hafi verið verktaki við framkvæmdirnar og vinnuveitandi Hans Ragnars Þorsteinssonar þegar hann sinnti byggingarstjórn verksins. Þess megi og geta að forsvarsmaður og eigandi stefnanda, Hans Ragnar, hafi nú þegar gætt hagsmuna sinna að þessu leyti með því að lýsa kröfu í þrotabú SS Húsa ehf. vegna vangoldinna launa. Stefndi sé því ekki réttur aðili að þessu máli, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar hafi stefndi hugboð um að málshöfðun þessi helgist af því að stefnandi telji með öllu útilokað að kröfur hans eða forsvarsmanns félagsins fáist nokkurn tíma greiddar úr búi SS Húsa ehf. Af þeim sökum sé reynt með öllu móti að fá þessa fjármuni annars staðar frá, svo sem með málsókn þessari.

Stefndi bendir á að engir reikningar hafi borist frá stefnanda eða fyrirsvarsmanni hans frá því að framkvæmdir hófust við Unnargrund þar til 15. nóvember 2017, þrátt fyrir að stefnandi hafi t.a.m. orðið fyrir miklum iðgjaldakostnaði samkvæmt framlögðum gögnum. Eins og fyrr segi hafi vinnuveitandi Hans Ragnars, SS Hús ehf., þá verið kominn í alvarleg greiðsluvandræði og Hans Ragnari þá verið sagt upp störfum nokkru fyrr. Í kjölfar alls þessa hafi Hans Ragnar, f.h. stefnanda, fyrst talið tilefni til að krefja stefnda um greiðslur en þá voru um 16 mánuðir liðnir frá því að verkið hófst. Endurspegli þetta bersýnilega að ekkert samningssamband hafi verið milli aðila þessa máls. Á stefnanda hvíli að sýna fram á að samningssamband sé til staðar milli aðila og hafi stefnandi með engu móti axlað þá sönnunarbyrði. Þá hafi stefndi skýrlega hafnað greiðsluskyldu á fyrri stigum málsins og hafni stefndi alfarið þeim málatilbúnaði stefnanda að stefndi hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína í málinu.

Stefndi bendir á að Hans Ragnar sé fyrirsvarsmaður stefnanda og enginn nýgræðingur á sviði byggingarstjórnar. Hann hafi sinnt fjölda verkefna á þessu sviði með áralanga reynslu og þekkingu af byggingarstjórn og regluverki því tengd. Því standi það honum næst að afla sér eða fyrirtæki sínu skriflegs ráðningar- eða verksamnings við eigendur þar sem hann sinni byggingarstjórn, telji hann að á eigendum hvíli greiðsluskylda fyrir störfin. Samningsgerð af þessu tagi sé grundvallarforsenda í viðskiptum á þessu sviði og komi skýrlega fram í gr. 4.7.1. byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarstjóri starfi í umboði eiganda samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi. Sú staðreynd að Hans Ragnar hafi aldrei gengið eftir því að stefndi gerði við hann eða stefnanda ráðningar- eða verksamning um byggingarstjórn styðji eindregið að hann hafi ávallt gengið út frá því að SS Hús ehf. hafi verið vinnuveitandi hans og bæri kostnað af störfum hans. SS Hús ehf. hafi enda greitt honum föst mánaðarlaun auk óreglulegra og óútskýrðar viðbótargreiðslna þann tíma er SS Hús ehf. fór með verkið þar til félagið fór í þrot. Þá liggi auk þess fyrir ýmsar greiðslur frá SS Húsum ehf. til stefnanda á verktíma.

Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að samningur hafi komist á milli aðila með undirritun á skjöl, „Umboð eiganda til byggingarstjóra“, og send hafi verið til byggingarfulltrúans í Garðabæ 26. júlí 2016. Í skjölunum felist að mati stefnda aðeins að eigandi staðfesti við opinber yfirvöld að hann hafi vitneskju um að tiltekinn aðili fari með byggingarstjórn verkframkvæmda á hans vegum. Síðar hafi skjali þessu  verið breytt af yfirvöldum og beri nú heitið „Beiðni um skráningu á byggingarstjóra“. Umboðið sé í samræmi við lög nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012 um að byggingarstjóri skuli starfa við verkframkvæmdir og gæta þar hagsmuna eiganda. Sé sú staðfesting skilyrði þess að byggingarleyfi verði gefið út. Ekki felist í skjalinu ráðningar- eða verksamningur milli eiganda og byggingarstjóra. Það sé alfarið undir aðilum komið hvernig þeir hagi sínum málum varðandi kaup og kjör fyrir byggingarstjórn og starfslýsingu byggingarstjóra. Enginn samningur hafi verið gerður milli aðila málsins heldur liggi þvert á móti fyrir að ráðningarsamband hafi verið milli Hans Ragnars Þorsteinssonar og SS Húsa ehf. Stefnandi sé félag sem haldi utan um byggingarstjórn Hans Ragnars og hlífi honum við því tjóni sem gæti leitt af starfsemi hans. Sé það eina aðkoma stefnanda að málinu.

Um þá málsástæðu stefnanda að 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup skapi honum rétt í málinu til uppsetts verðs samkvæmt reikningum hans frá 15. nóvember 2017 vísar stefndi til þess að ákvæðið komi aðeins til álita þegar fyrir liggi að samningur hafi verið gerður milli aðila. Sem fyrr segi hafi enginn slíkur samningur verið gerður og því séu reikningar stefnanda ekki aðeins rangir eða ósanngjarnir, heldur með öllu tilhæfulausir.

Stefndi bendir á að fyrir liggi að byggingarstjórn verksins hafi verið framvísað til Kristins Arnarsonar, verkefnastjóra SS húsa ehf., með umboði sem ritað sé á bréfsefni SS Húsa ehf. Enginn skriflegur ráðningar- eða verksamningur hafi verið gerður milli stefnda og hins nýja byggingarstjóra, enda hafi sá aðili einnig verið starfsmaður og launþegi SS Húsa ehf. Nefndur Kristinn hafi sinnt byggingarstjórn verksins að verulegu leyti á verktímanum og sýni gögn málsins ljóslega að Kristinn hafi komið að meirihluta úttekta á svæðinu. Hans Ragnar hafi hins vegar aðeins komið að um 30% úttekta. Sem fyrr segi hafi stefndi ekki haft vitneskju um þetta umboð, hafi ekki komið að gerð þess og hafi ekki verið spurður álits á því að byggingarstjórn verksins yrði framvísað með þessum hætti. Aðkoma stefnda að þessari framvísun byggingarstjórnar hafi enda verið óþörf því að það hafi alfarið verið undir SS Húsum ehf. komið að sinna byggingarstjórn. Þetta fyrirkomulag sýni vel að það hafi verið starfsmenn SS húsa ehf. sem önnuðust byggingarstjórn verksins. Með vísan til alls framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Um lagarök er vísað til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísast til laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, með síðari breytingum. Þá er vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstöður

Ágreiningur málsins snýr að því hvort ráðningar- eða verksamningur um byggingarstjórn hafi komist á milli aðila. Stefnandi byggir á því að með undirritun stefnda á umboð til stefnanda hafi komist á skriflegur samningur, og að í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnda, dags. 16. nóvember 2017, hafi falist viðurkenning á greiðsluskyldu. Stefndi hafnar því að nokkur samningur hafi verið gerður milli aðila þessa máls, og sé nefndur tölvupóstur ekki viðurkenning á greiðsluskyldu.

Staðreynt er að þann 26. júlí 2016 undirritaði stefndi sjö samhljóða „Umboð eiganda til byggingarstjóra“. Í útboðs- og samningsskilmálum um verkið segir í grein 0.8.8 að verktaki skuli tilnefna byggingarstjóra í samræmi við grein 4.7 í byggingarreglugerð. SS Hús ehf. tilnefndi Hans Ragnar Þorsteinsson húsasmíðameistara sem byggingarstjóra. Upplýst er að Hans Ragnar var launamaður hjá SS Húsum ehf. og var á launaskrá þess félags við byggingu húsanna.

Í 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að byggingarstjóri sé faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð, og starfi í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Efnislega kemur það sama fram í kafla 4.7 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt sömu ákvæðum verður byggingarleyfi ekki gefið út nema að fyrir liggi umboð frá eiganda til byggingarstjóra. Stefnda bar af því tilefni að veita stefnanda „Umboð eiganda til byggingarstjóra“. Umboðin eru rituð á staðlað eyðublað byggingarfulltrúa Garðabæjar, og ritar fyrirsvarsmaður stefnda einn undir þau. Ekki koma aðrar upplýsingar fram á umboðunum en að stefndi óski eftir því að stefnandi verði byggingarstjóri. Um efni umboðanna verður því ekki annað ráðið en að um sé að ræða staðfestingu á því að stefndi hafi samþykkt stefnanda sem byggingarstjóra. Ekki liggja fyrir skriflegir ráðningar- eða verksamningar á milli stefnanda og stefnda, eins og áskilið er í nefndum ákvæðum laga nr. 160/2010 og reglugerðar nr. 112/2012.

Fram er komið að stefnandi veitti öðrum aðila, starfsmanni SS Húsa ehf., umboð þann 22. nóvember 2016, sem skrifað er á bréfsefni SS Húsa ehf., til að starfa sem byggingarstjóri við umrædd keðjuhús. Var það gert einhliða af hálfu stefnanda, án nokkurrar aðkomu eða samþykkis stefnda. Þá kom fram í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir dómi að hann hafi engin fagleg samskipti átt við stefnda á þeim tíma sem hann gegndi byggingarstjórastarfinu. Mátti af skýrslu hans ráða að öll samskipti hans um þau málefni hafi verið við yfirmenn hans hjá SS Húsum ehf.

Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að „Umboð eiganda til byggingarstjóra“ verði með engum hætti túlkuð sem skriflegir ráðningar- eða verksamningar um byggingarstjórn á milli stefnanda og stefnda.

Byggt er á því af hálfu stefnanda að með eftirfarandi orðum, sem fram koma í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnda til fyrirsvarsmanns stefnanda 16. nóvember 2017, hafi falist viðurkenning á greiðsluskyldu umþrættra reikninga: „Þessir reikningar verða ekki greiddir að óbreyttu”, og „Hins vegar er ég alveg tilbúinn til að semja við þig um lyktir þessa máls á þeim nótum að þú fáir greitt fyrir það sem þú hefur gert.“

Um skuldbindingargildi framangreinds ber að mati dómsins að horfa til efnis tölvupóstsins í heild, og þeirra forsendna sem þar koma fram. Í upphafi tölvupóstsins kemur fram að reikningar verða ekki greiddir að óbreyttu. Stefndi rekur síðan að aldrei hafi verið gengið frá samningi milli aðila málsins, og sé ástæða þess sú að skilja megi af samningsgögnum að kostnaður byggingarstjóra sé hluti af tilboði verktaka. Fyrirsvarsmanni stefnanda, sem hefur mikla reynslu af byggingarstjórn, gat ekki dulist að fyrirsvarsmanni stefnda var samkvæmt þessu ekki ljóst á þeirri stundu hvort á honum hvíldi greiðsluskylda eða ekki. Með vísan til meginreglna samningaréttar verður ekki á það fallist að með loforði stefnda um að semja á einhverjum nótum hafi eins og atvikum var háttað falist viðurkenning á greiðsluskyldu reikninga málsins að fjárhæð 14.488.750 krónur.

Eins og að framan er rakið er ósannað að samningur sé til staðar um að stefnandi hafi verið í ráðningar- eða verksambandi við stefnda. Koma því ekki til álita ákvæði 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup á þann hátt að stefnandi geti krafist rétts eða sanngjarns verðs úr hendi stefnda fyrir vinnu stefnanda sem byggingarstjóri.

Með vísan til alls framangreinds verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.436.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bogi Hjálmtýsson kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ, er sýkn af kröfu stefnanda, Verktaka nr. 16 ehf.

Stefnandi greiði stefnda 1.436.850 krónur í málskostnað.