Dómur í vörumerkjamáli

27.11.2019

Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem K ehf. höfðaði á hendur E ehf. til staðfestingar á lögbanni sem sýslumaður lagði við því að sá síðarnefndi héldi áfram framleiðslu, markaðssetningu og sölu á ís undir vörumerkinu „TOPPÍS“ en K ehf. hafði fengið fyrrnefnt orðmerki skráð sem vörumerki á árinu 1995. Þar sem Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að fella lögbannið úr gildi stóð eftir ágreiningur aðila um viðurkenningarkröfu K ehf. um réttindin og kröfu E ehf. um ógildingu á skráningu vörumerkisins, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. Í dómi sínum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að vörumerkið uppfyllti ekki skilyrði 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki þar sem það skorti sérkenni og aðgreiningarhæfi. Hefði vörumerkið því í upphafi verið skráð andstætt ákvæðum laganna. Var einkum vísað til þess að í orðinu toppís fælist almenn lýsing á tegund vöru og að það skorti þann nauðsynlega eiginleika að geta skapað tiltekinni vöru það sérkenni í huga almennings að með því væri gefið til kynna frá hvaða aðila varan stafaði. Þá var ekki fallist á að vörumerkið hefði öðlast sérkenni við notkun þannig að einkaréttur hefði skapast í krafti notkunar í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 3. gr. laganna. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.


Dóminn í heild sinni má lesa hér.