Dómur um greiðsluskyldu vegna framkvæmda á lóð

23.10.2019

Í dag var kveðinn upp dómur í máli sem Þ ehf. höfðaði á hendur L ehf. til greiðslu 49.652.855 króna vegna útlagðs kostnaðar og eigin vinnu við verk sem fólst í undirbúningi fyrir verklegar framkvæmdir á lóð að Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík. Stóð vilji aðila til þess að standa saman að uppbyggingu og framkvæmdum á lóðinni í gegnum sameiginlegt eignarhald þeirra á L ehf. en systurfélag Þ ehf. keypti allt hlutafé í L ehf. með tveimur samningum 23. september 2015. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt hluthafasamkomulagi sem gert var samhliða kaupunum hefði verið áskilið að samþykki beggja stjórnarmanna í L ehf. þyrfti til svo að kostnaður yrði felldur á félagið. Af því sem fram hefði komið í málinu yrði ekki ráðið að Þ ehf. hefði aflað samþykkis L ehf. fyrir umræddum kostnaði og hefði Þ ehf. því stofnað til hans á eigin áhættu. Þá var ekki fallist á að krafa Þ ehf. gæti náð fram að ganga á öðrum grunni. Var L ehf. því sýknað af kröfu Þ ehf.


Dóminn í heild sinni má lesa hér.