Print

Mál nr. 17/2019

ÞG verktakar ehf. (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
Landhlíð ehf. (Garðar G. Gíslason lögmaður)
Lykilorð
  • Einkahlutafélag
  • Hluthafasamkomulag
  • Túlkun samnings
  • Tómlæti
Reifun

Þ ehf. höfðaði mál á hendur L ehf. og krafðist greiðslu að fjárhæð 49.652.855 krónur fyrir eigin vinnu og útlagðan kostnað við verk sem fólst í undirbúningi fyrir verklegar framkvæmdir á lóð að Hlíðarenda 1-7 sem L ehf. hafði lóðar- og byggingarrétt yfir. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt hluthafasamkomulagi sem gert var samhliða kaupum A ehf., systurfélags Þ ehf., á öllu hlutafé í L ehf. hefði verið áskilið að samþykki beggja stjórnarmanna í L ehf. þyrfti til svo kostnaður yrði felldur á félagið. Af því sem fram hefði komið í málinu yrði ekki ráðið að Þ ehf. hefði aflað samþykkis L ehf. fyrir umræddum kostnaði. Talið var að ekki skipti máli þótt L ehf. hefði verið ljóst að Þ ehf. stofnaði til kostnaðar vegna framkvæmdanna og ekki var fallist á að á þeim grunni hefði komist á munnlegur samningur um þá verkþætti sem ráðist var í. Þá var hvorki fallist á að L ehf. hefði með tómlæti sínu samþykkt tiltekinn reikning né að krafa Þ ehf. gæti náð fram að ganga á öðrum grunni. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sýknu L ehf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2019. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 49.652.855 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 31. janúar 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð, niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað staðfest og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I

            Í málinu krefst áfrýjandi greiðslu fyrir eigin vinnu og útlagðan kostnað við verk sem fólst í undirbúningi fyrir verklegar framkvæmdir á lóð sem stefndi hafði lóðar- og byggingarrétt yfir. Stefndi andmælir kröfum áfrýjanda og telur að engar slíkar kröfur hafi stofnast á hendur sér. Mál þetta höfðaði áfrýjandi 16. janúar 2017. Stefndi var sýknaður af kröfum áfrýjanda í héraði og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar.

II

1

 Tildrög málsins verða rakin til þess að á svokölluðum Hlíðarendareit í Reykjavík, þar sem Knattspyrnufélagið Valur hefur um langa hríð verið með starfsemi sína, var skipulögð byggð með íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Innan þessa svæðis er lóðin Hlíðarendi 1 til 7, en stærð hennar er 6.677 fermetrar. Á henni mun hafa verið skipulögð byggð fyrir byggingar á þremur til fimm hæðum á tveggja hæða bílakjallara með 135 íbúðum og atvinnuhúsnæði.

Með samningi 21. ágúst 2015 tók Linnet ehf. að sér hlutverk byggingarstjóra við að reisa byggingarnar með tilteknum starfsmanni áfrýjanda sem umsjónarmanni. Það félag var systurfélag áfrýjanda og Arcusar ehf., sem síðar kemur við sögu, en öll þessi félög munu hafa verið í eigu og undir stjórn Þorvaldar Gissurarsonar húsasmíðameistara. Í samningi þessum var áfrýjandi tilgreindur sem verktaki við framkvæmdirnar.

Með samningi 21. september 2015 seldi Hlíðarfótur ehf. leigulóðar- og byggingarréttindi að Hlíðarenda 1 til 7 til stefnda. Á þeim tíma var þinglýstur eigandi þeirra réttinda Valsmenn hf. en gert var ráð fyrir að það félag myndi afsala þeim beint til stefnda. Kaupverðið lóðarinnar var 1.100.000.000 krónur sem greiða átti með 880.000.000 krónum við undirritun samningsins með bankaláni sem kaupandi hafði tekið, en seljandi veitti lán fyrir eftirstöðvunum að fjárhæð 220.000.000 krónur. Sama dag var undirritaður lánssamningur fyrir þeim hluta kaupverðsins, en lánið átti kaupandi að greiða seljanda í einu lagi 1. september 2016. Þessi skuld var gerð upp með því að seljandi skráði sig fyrir nýju hlutafé í kaupanda.

Með tveimur samningum 23. september 2015 keypti Arcus ehf. allt hlutafé í stefnda af Hlíðarfæti ehf. Annar samningurinn var um 22.050.000 hluti eða 10% af hlutafé í félaginu og nam söluverðið 22.050.000 krónum sem greiða átti við undirritun samningsins. Hinn samningurinn tók til 198.450.000 hluta eða 90% af hlutafénu, en þá hluti átti að afhenda og greiða fyrir að sjö mánuðum liðnum frá því samningurinn var gerður.

Í báðum samningunum um kaupin á hlutunum í stefnda sagði að fyrirhugað væri að félagið yrði samstarfsvettvangur kaupanda og seljanda um uppbyggingu og framkvæmdir að Hlíðarenda 1 til 7 samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Einnig kom fram í samningunum að eina eign stefnda væru leigulóðar- og byggingarréttindi á því landi. Þá var tekið fram að seljandi hefði framselt til stefnda réttindi að allri hönnunar- og skipulagsvinnu sem þegar hefði farið fram á vegum seljanda. Í samningnum um kaup á 10% hlut í stefnda var einnig tiltekið að byggingarnefndarteikningar frá ALARK arkitektum ehf. lægju fyrir og var það fyrirtæki sagt hafa byrjað vinnu við verkteikningar. Þar kom einnig fram að kaupandi og seljandi myndu leitast við með sameiginlegu eignarhaldi sínu á stefnda að semja við sömu arkitekta um frekari hönnun.

Í samningnum um kaup á 90% hlut í stefnda sagði að efndatími væri ákveðinn að liðnum sjö mánuðum frá því samningurinn var gerður vegna þess ágreinings sem risið hefði um framkvæmdir á Hlíðarendareitnum vegna nálægðar hans við Reykjavíkurflugvöll og helgunarsvæði norðaustur suðvestur flugbrautar vallarins. Þar sem ekki væri útilokað að Reykjavíkurborg eða ríkið gætu tafið eða hindrað framkvæmdir á svæðinu hefði kaupandi rétt til eftir nánari ákvæðum í samningnum að að falla bótalaust frá kaupunum allt fram að efndatíma 23. apríl 2016. Þó var tekið fram að þessi heimild kaupanda kæmi ekki í veg fyrir að samstarf um uppbyggingu og framkvæmdir að Hlíðarenda 1 til 7 gætu hafist. Í því sambandi sagði að kaupandi hefði þegar keypt 10% hlut í stefnda og stæði vilji seljanda og kaupanda til þess, í gegnum sameiginlegt eignarhald sitt á stefnda, að starfa saman að uppbyggingu og framkvæmdum að minnsta kosti þar til fyrir lægi hvort kaupandi myndi nýta sér rétt sinn til að falla frá kaupunum.

Samhliða þessum kaupsamningum um hlutina í stefnda gerðu Arcus ehf. og Hlíðarfótur ehf. með sér samning sama dag eða 23. september 2015 um kaup- og sölurétt á 10% hlutnum sem fyrrnefnda félagið hafði keypt og fengið afhentan. Þessi réttur var bundinn því skilyrði að kaupin á 90% af hlutunum í stefnda hefðu ekki gengið eftir og Arcus ehf. nýtt sér einhliða rétt sinn til að falla frá þeim. Tekið var fram að fyrir Hlíðarfót ehf. fæli sölurétturinn í sér skuldbindingu til að kaupa hlutinn og fyrir Arcus ehf. að selja hann á innlausnartímabili til 31. maí 2016 gegn greiðslu innlausnarverðs sem nam 22.050.000 krónum.

Til að leggja frekari grunn að samstarfinu gerðu Arcus ehf., Hlíðarfótur ehf. og stefndi með sér hluthafasamkomulag 23. september 2015. Þar var tekið fram, eins og í fyrrgreindum kaupsamningum um hlutina í stefnda, að tilgangurinn væri að félagið yrði samstarfsvettvangur um uppbyggingu og framkvæmdir á lóðinni Hlíðarendi 1 til 7. Um stjórnskipulag stefnda sagði að stjórn félagsins skyldi skipuð tveimur mönnum og væru aðilar sammála um að Hlíðarfótur ehf. skyldi skipa annan þeirra en Arcus ehf. hinn og yrði sá síðarnefndi formaður stjórnar. Tekið var fram að allar ákvarðanir sem tengdust rekstri og starfsemi félagsins skyldu teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum þess og ef ekki næðist samstaða á milli þeirra við afgreiðslu mála skyldi hvorum um sig heimilt að krefjast þess að málinu yrði vísað til ákvörðunar hluthafafundar. Þá sagði að aðilar væru sammála um að þær framkvæmdir sem stefndi kynni að ráðast í skyldu í upphafi vera fjármagnaðar með lánveitingu frá Arcusi ehf. Í því skyni skyldi það félag veita stefnda ádráttarlán allt að 250.000.000 krónur sem heimilt væri að draga á eftir þörfum frá undirritun samkomulagsins til 31. mars 2016. Ádráttarlánið átti að vera á gjalddaga 1. júní sama ár og fyrir því átti gefa út tryggingarbréf að fjárhæð 285.000.000 krónur með 2. veðrétti í lóðinni Hlíðarendi 1 til 7. Samkomulaginu var markaður gildistími þar til allt hlutafé félagsins yrði komið á hendi eins hluthafa eða aðilar yrðu ásáttir um að fella það úr gildi. Þegar samkomulag þetta var gert var eini stjórnarmaður stefnda Brynjar Harðarson, en hann mun jafnframt hafa verið í fyrirsvari fyrir Hlíðarfót ehf.

2

Takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu og aðstöðusköpun á lóðinni Hlíðarendi 1 til 7 var gefið út af byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar 23. september 2015. Í leyfinu kom fram að Linnet ehf. væri byggingarstjóri og Þorvaldur Gissurarson húsasmíðameistari.

Meðal málsgagna er óundirritaður verksamningur, sem dagsettur er 1. október 2015, milli áfrýjanda og stefnda. Þar segir að áfrýjandi taki að sér sem stýriverktaki allar verklegar framkvæmdir fyrir stefnda við nýbyggingar á lóð stefnda að Hlíðarenda 1 til 7. Nánar tiltekið er þessu lýst þannig að verkið taki til allra verkþátta, en í því felist að semja um og hafa umsjón með gerð allra hönnunargagna og í kjölfarið afla byggingar- og framkvæmdarleyfa. Jafnframt muni áfrýjandi taka saman útboðs- og tilboðsgögn og semja við og sjá um innkaup, ráðningu undirverktaka, samskipti við birgja og allt það sem þarf til að ljúka verkinu. Nánari ákvæði eru síðan um verkið en áætlaður heildarkostnaður við það er talinn 4.350.000.000 krónur. Þá kemur fram að áfrýjandi muni bæta 14,5% álagi á allan raunkostnað vegna vinnu á verkstað og vinnu hönnuða sem falli til vegna verksins. Með aðilum er ágreiningslaust að þessi samningur hafi ekki tekið gildi og sé óskuldbindandi milli aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 15. júní 2017 í máli nr. 347/2017, þar sem hafnað var kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.

Til þess kom ekki að stefndi fengi ádráttarlán frá Arcusi ehf. eins og miðað var við í fyrrgreindu hluthafasamkomulagi 23. september 2015. Í tölvupósti Brynjars Harðarsonar, stjórnarmanns stefnda, 6. október 2015, sem meðal annars var sendur Þorvaldi Gissurarsyni, kom fram að samkomulag væri um að „ÞG“ ætlaði að fjármagna verkliði upp að botnplötu án lánsfjármögnunar.

Með verksamningi undirrituðum 13. og 14. október 2015 tóku ALARK arkitektar ehf. að sér gagnvart áfrýjanda að breyta byggingarnefndarteikningum sem verktaki hafði unnið vegna Hlíðarenda 1 til 7 þannig að neðri kjallari byggingarinnar yrði minnkaður verulega. Var tekið fram að verktaki myndi semja um og láta vinna aðrar breytingar sem af þessu leiddu og yfirfara heildarhönnun verksins og breyta því á þann veg sem aðilar yrðu ásáttir um. Verkinu var síðan nánar lýst en fyrir það átti að greiða í samræmi við tilboð verktaka 38.121.112 krónur auk virðisaukaskatts. Af því átti að greiða 25% við gerð samningsins, en eftirstöðvarnar átti að inna af hendi með sex jöfnum afborgunum á næstu sex mánuðum ef sú skipting endurspeglaði framvindu hönnunarinnar. Að öðrum kosti var gert ráð fyrir að endursamið yrði um greiðsluna. Þá var tekið fram í samningnum að verkið væri háð óvissu vegna nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Af þeim sökum væri áfrýjanda heimilt að segja samningnum upp án fyrirvara og efna hann í samræmi við framvindu við uppsögn ef upp kæmu atvik til ársloka 2015 sem yllu því að áfrýjandi hætti við eða stöðvaði verkið. ALARK arkitektar ehf. gerðu áfrýjanda fjóra reikninga en þeir voru eftirfarandi: Reikningur 16. október 2015 að fjárhæð 11.817.545 krónur vegna 25% þóknunar sem greiða átti við gerð verksamnings; reikningur 31. sama mánaðar að fjárhæð 5.908.772 krónur vegna greiðslu eftir samningi; reikningur 30. nóvember sama ár að fjárhæð 2.954.387 krónur, sem sögð var helmingur annarrar greiðslu af sex eftir samningi; og loks reikningur 29. febrúar 2016 að fjárhæð 703.304 krónur vegna vinnu tveggja starfsmanna fyrirtækisins í þeim mánuði. Samtals nam fjárhæð þessara reikninga 21.384.008 krónum.

Áfrýjandi gerði verksamning 27. október 2015 við Mannvit ehf. um burðarþols- og lagnahönnun vegna þeirra bygginga sem reisa átti á lóðinni að Hlíðarenda 1 til 7. Fyrir verkið átti áfrýjandi að greiða 56.970.000 krónur auk virðisaukaskatts, en reikninga átti að gefa út í lok mánaðar í samræmi við framvindu verksins. Í þessum samningi var samhljóða ákvæði og í fyrrgreindum samningi við ALARK arkitekta ehf. um heimild áfrýjanda, vegna óvissu um framkvæmdir sem stafaði af nálægðinni við Reykjavíkurflugvöll, til að segja samningnum upp án fyrirvara og efna hann í samræmi við framvindu við uppsögn ef upp kæmu atvik til ársloka 2015 sem yllu því að áfrýjandi hætti við eða stöðvaði verkið. Mannvit ehf. gerði áfrýjanda þrjá reikninga samtals að fjárhæð 10.833.024 krónur, en þeir sundurliðuðust þannig: Reikningur 31. október 2015 að fjárhæð 4.980.382 krónur; reikningur 30. nóvember sama ár að fjárhæð 5.726.938 krónur og reikningur 29. febrúar 2016 að fjárhæð 125.704 krónur. Fyrri tveir reikningarnir voru vegna framvindu verksins en sá þriðji vegna vinnu tveggja starfsmanna fyrirtækisins í febrúar 2016.

Meðal málsgagna eru fundargerðir frá verkfundum á tímabilinu frá 7. október til 4. nóvember 2015 vegna hönnunar og undirbúnings fyrir framkvæmdirnar að Hlíðarenda 1 til 7. Samkvæmt þeim sóttu fundina Þorvaldur Gissurarson vegna áfrýjanda og starfsmenn ALARK arkitekta ehf., Mannvits ehf. og annarra undirverktaka sem komu að verkinu á vegum áfrýjanda. Aftur á móti mætti enginn á fundina af hálfu stefnda.

Hinn 22. október 2015 fór áfrýjandi þess á leit við Samgöngustofu að fá heimild til að reisa byggingarkrana á svæðinu við Hlíðarenda í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll. Með bréfi Samgöngustofu 3. nóvember sama ár var þeirri beiðni hafnað þar sem uppsetning á slíkum krana færi í bága við reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli þar sem hann skagaði upp í aðflugsflöt fyrir norðaustur suðvestur flugbraut vallarins.

3

Brynjar Harðarson, stjórnarmaður stefnda, ritaði Þorvaldi Gissurarsyni tölvupóst 6. nóvember 2015 í tilefni af þeim ágreiningi sem risið hafði milli ríkis og borgar um norðaustur suðvestur flugbrautina, en lokun hennar skipti miklu fyrir framkvæmdir á Hlíðarendasvæðinu. Taldi fyrirsvarsmaðurinn einboðið að flugbrautinni yrði lokað og því valdi það honum miklum vonbrigðum „að þú skulir taka ákvörðun um að stöðva alla vinnu og framkvæmdir við verkefnið á þessum tímapunkti.“ Þessu erindi svaraði Þorvaldur með tölvupósti sama dag, en þar vísaði hann til þess að ítrekað hefði verið rætt að „áhætta vegna flugvallarmálsins ætti ekki og myndi ekki vera á herðum ÞG.“ Einnig sagði að fyrrgreint bréf Samgöngustofu 3. nóvember 2015 um synjun á leyfi til að reisa krana gæfi ekki tilefni til að ætla að lokun flugbrautarinnar væri á dagskrá. Tilgangslaust væri með öllu að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir við hönnun og að ljúka jarðvinnu ef líkur væru á að verkið stöðvaðist. Það hlyti að vera öllum til hagsbóta að afstýra eða takmarka tjón á meðan þessi óvissa væri fyrir hendi.

Með tölvupósti 13. nóvember 2015 sendi Brynjar Harðarson Reykjavíkurborg minnisblað 11. sama mánaðar frá áfrýjanda um áhrif þess að framkvæmdir við Hlíðarenda 1 til 7 yrðu stöðvaðar. Í því sagði meðal annars að áfallinn kostnaður stefnda væri annars vegar kaup á byggingarrétti, sem næmi um það bil 1.100.000.000 króna, og hins vegar framkvæmdakostnaður sem væri um 60.000.000 krónur. Tekið var fram að á liðnum vikum og mánuðum hefði verið unnið hörðum höndum að undirbúningi og að hrinda af stað framkvæmdum, en verið væri að leggja lokahönd á hönnun mannvirkja, burðarþols og lagna. Fyrsta skóflustungan hefði verið tekin tveimur vikum áður og hafist hefði verið handa við jarðvinnu. Í niðurlagi minnisblaðsins sagði að ákvörðun um framhald verksins þyrfti að taka án tafar enda hefði áfrýjandi þegar hafið undirbúning að stöðvun verksins.

Brynjar Harðarson sendi tölvupóst til starfsmanns áfrýjanda 4. desember 2015 sem hafði að geyma viðbrögð hans við minnisblaði er borist hafði deginum áður. Í því minnisblaði kom fram að frekari framkvæmdir „Arcusar/ÞG verks“ að Hlíðarenda 1 til 7 væru bundnar því að skaðleysi væri tryggt vegna frekari framkvæmda og þess kostnaðar sem þegar hefði fallið til. Um þetta tók Brynjar fram að hann væri að „vinna í skaðleysi fyrir framtíðarkostnaði en ekki þegar áföllnum“.

Aftur sendi Brynjar tölvupóst til áfrýjanda 13. desember 2015 með upplýsingum um viðræður við Reykjavíkurborg um fyrirgreiðslu með því að lána fyrir kostnaði við jarðvegsframkvæmdir að Hlíðarenda 1 til 7. Því erindi svaraði starfsmaður áfrýjanda með tölvupósti sama dag þar sem fyrirgreiðslu borgarinnar var fagnað. Aftur á móti var bent á að þrátt fyrir heimild í samningum aðila til að falla frá kaupum væri ekkert tekið á því hvernig bregðast ætti við þegar framkvæmdir tefðust og kostnaður færi að hlaðast upp. Þessu svaraði Brynjar með tölvupósti samdægurs þar sem fram kom að hann teldi samninga aðila fullnægjandi. Frestun á framkvæmdum væri „ykkar ákvörðun“ en unnið hefði verið dag og nótt að því að verkinu yrði haldið áfram. Því næst tók Brynjar svo til orða: „Ég vinn málið áfram af þeirri fullvissu að við munum byggja á Hlíðarenda á sama tíma og ég hef haft skilning á ykkar áhyggjum. Það eru síðan alltaf einhver mörk fyrir því hversu áhættufælinn maður er. Ég get ekki að því gert að mér finnst þið ganga nokkuð langt í kröfum um skaðleysi umfram það sem samið hefur verið um til viðbótar þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.“

Hinn 15. desember 2015 ritaði Þorvaldur Gissurarson bréf fyrir hönd Arcusar ehf. til Brynjars Harðarsonar vegna Hlíðafótar ehf. í tilefni af fyrirsjáanlegum töfum á verkframkvæmdum á lóðinni Hlíðarenda 1 til 7. Taldi Þorvaldur í ljósi þess sem komið hefði fram af hálfu ríkisins að ekki væri að vænta að norðaustur suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar yrði lokað með viðeigandi breytingum á skipulagsreglum fyrir flugvöllinn. Þetta setti fyrirhugaðar framkvæmdir og uppbyggingu á lóðinni í verulegt uppnám. Af þessum sökum væru fyrir hendi atvik í skilningi samnings 23. september 2015 um kaup á 90% hlut í stefnda sem gerðu Arcusi ehf. kleift að falla frá kaupunum bótalaust. Ákvörðun þar að lútandi hefði þó enn ekki verið tekin en frekari framkvæmdir væru háðar ákveðnum skilyrðum og meðal þeirra var að byggingaraðila yrði tryggt skaðleysi vegna áframhaldandi framkvæmda og kostnaðar sem þegar hefði fallið til. Jafnframt sagði í niðurlagi bréfsins að hvorki yrði tekið þátt í frekari framkvæmdum né greiddur kostnaður vegna þeirra fyrr en gengið hefði verið frá skriflegu samkomulagi um þau atriði sem rakin væru í bréfinu. Þessu bréfi svaraði Brynjar með tölvupósti sama dag til Þorvaldar. Þar sagði að það sem fram kæmi í bréfinu væri í ósamræmi við það sem rætt hefði verið þeirra á milli og óskaði Brynjar eftir því að Þorvaldur staðfesti að ákveðið hefði verið að „þú“ myndir ljúka teikningarvinnu með ALARK arkitektum ehf. þannig að byggingarnefndarteikningar kláruðust sem fyrst. Þessu svaraði Þorvaldur með tölvupósti 16. desember 2015 þar sem fram kom að byggingarnefndarteikningar yrðu kláraðar og lagðar inn þegar jarðvinna yrði hafin og jafnframt yrði metið hvort haldið yrði áfram með burðarþols- og lagnahönnun áður en jarðvinnu lyki.

4

Hinn 15. desember 2015 var haldinn hluthafafundir í stefnda þar sem Þorvaldur Gissurarson var kosinn formaður stjórnar og Brynjar Harðarson meðstjórnandi. Jafnframt var samþykkt að hefja gröft á lóðinni en það verk yrði unnið af GT hreinsun ehf. Jafnframt var fært til bókar að Reykjavíkurborg myndi fjármagna þær framkvæmdir. Í kjölfar þessa fundar mun ekki hafa verið send tilkynning um breytingu á stjórn félagsins til hlutafélagaskrár.

Með ódagsettum samningi, sem mun hafa verið gerður seinni hluta árs 2015, tók GT hreinsun ehf. að sér fyrir stefnda gröft fyrir sökklum og fyllingar undir sökkla á lóðinni og að koma jarðefninu á brott. Fyrir verkið átti að greiða eftir mælingu á magni miðað við tilgreind einingarverð. Verkinu var áfangaskipt en því átti að ljúka á sex mánuðum. Af hálfu stefnda undirrituðu samninginn Þorvaldur Gissurarson og Brynjar Harðarson, sem skipuðu stjórn félagsins, eins og áður greinir.

Hinn 31. desember 2015 gaf áfrýjandi út reikning á hendur stefnda að fjárhæð 48.377.462 krónur fyrir vinnu á verkstað, efni og aðra þjónustu. Stefndi kannast ekki við að sér hafi borist þessi reikningur fyrr en með tölvupósti 18. apríl 2016.

Með bréfi Arcusar ehf. 18. apríl 2016 til Hlíðafótar ehf. voru gerðar athugasemdir við efndir á samningi 23. september 2015 um kaup fyrrnefnda félagins á 10% hlut í stefnda og við hluthafasamkomulag sama dag milli hluthafa í félaginu. Var fundið að því að enn hefði ekki verið afhent uppfærð hlutaskrá félagsins og að skráning á stjórn félagsins í hlutafélagaskrá væri ekki í samræmi við ákvörðun hluthafafundar 15. desember 2015. Loks var gerð athugasemd við að lóðin Hlíðarendi 1 til 7 væri ekki þinglýst eign félagsins, svo sem gert væri ráð fyrir í kaupsamningnum, auk þess sem ekki hefði verið gerður lánssamningur vegna ádráttarláns til félagsins allt að fjárhæð 250.000.000 krónur og gefið út tryggingarbréf fyrir því til Arcusar ehf. í samræmi við hluthafasamkomulagið. Var þess farið á leit að úr þessu yrði bætt þegar í stað. Skömmu eftir að þetta erindi var sent var Hlíðarfæti ehf. tilkynnt með bréfi 22. apríl 2016 að Arcus ehf. hefði fallið frá kaupum á 90% hlut í stefnda í samræmi við heimild í kaupsamningi 23. september 2015 um þann hlut. Í kjölfarið nýtti Hlíðarfótur ehf. sér heimild sína eftir samningi sama dag til að leysa til sín 10% hlut Arcusar ehf. í félaginu og sendi tilkynningu þess efnis 31. maí 2016.

Áfrýjandi og Arcus ehf. röktu ítarlega í bréfi 27. júní 2016 hvernig félögin töldu sig hafa mátt þola ýmsar vanefndir af hálfu Hlíðarfótar ehf. og tengdra félaga við kaupin á hlutafé í stefnda. Til að ljúka málum í eitt skipti fyrir öll væri þó áfrýjandi reiðubúinn að sætta sig við greiðslu á fyrrgreindum reikningi 31. desember 2015 að fjárhæð 48.377.462 krónur auk dráttarvaxta ef hann yrði greiddur eigi síðar en 30. júní 2016. Að öðrum kosti yrði málið sótt fyrir dómstólum. Með bréfi 26. júlí sama ár var öllum kröfum áfrýjanda hafnað. Áfrýjandi ítrekaði síðan kröfu sína með bréfi 7. september 2016, en því erindi var svarað á sama veg og áður með bréfi Hlíðafótar ehf. 29. sama mánaðar.

III

Svo sem áður greinir gerir áfrýjandi kröfu á hendur stefnda um greiðslu þóknunar fyrir eigin vinnu og útlagðan kostnað vegna hönnunar og undirbúnings fyrir framkvæmdir á lóð stefnda að Hlíðarenda 1 til 7.

Að því er varðar útlagðan kostnað tekur krafa áfrýjanda til fyrrgreindra reikninga ALARK arkitekta ehf. á tímabilinu frá 16. október 2015 til 29. febrúar 2016 samtals að fjárhæð 21.384.008 krónur. Jafnframt tekur krafan til fyrrgreindra reikninga Mannvits ehf. á tímabilinu frá 31. október 2015 til 29. febrúar 2016 samtals að fjárhæð 10.833.024 krónur. Til viðbótar stofnaði áfrýjandi til kostnaðar hjá EFLU verkfræðistofu samkvæmt reikningum á tímabilinu frá 31. október 2015 til 31. mars 2016 samtals að fjárhæð 529.347 krónur, ATR Verki hf. samkvæmt reikningum 18. nóvember 2015 og 12. febrúar 2016 samtals að fjárhæð 317.440 krónur, Grettisafli ehf. samkvæmt reikningum í október 2015 og janúar 2016 samtals að fjárhæð 70.060 krónur, Sjónhag ehf. samkvæmt reikningi 29. febrúar 2016 að fjárhæð 15.810 krónur og Málflutningsstofu Reykjavíkur samkvæmt reikningi 30. nóvember 2015 að fjárhæð 46.314 krónur. Alls nam þessi útlagði kostnaður 33.196.003 krónum.  

Jafnframt gerir áfrýjandi kröfu um 14,5% álag á allan raunkostnað vegna vinnu hönnuða við verkið, en sá kostnaður nemi 4.643.681 krónu vegna ársins 2015 og 156.854 krónum vegna ársins 2016. Þessi kröfuliður nemur því 4.800.535 krónum.

Loks krefst áfrýjandi þóknunar að fjárhæð 7.890.120 krónur vegna vinnu nánar tilgreindra starfsmanna sinna og miðar þá við 353,5 vinnustundir. Jafnframt gerir hann kröfu um greiðslu að fjárhæð 3.766.197 krónur vegna skrifstofu- og fjármögnunarkostnaðar, sem hafi meðal annars fallið til vegna útlagðs kostnaðar við að taka byggingarstjóratryggingu, ábyrgðartryggingu verktaka, umsýslukostnaðar á skrifstofu og vegna aðkeyptrar sérfræði- og lögfræðiráðgjafar við fjármögnun verksins. Þessir kröfuliðir nema því 11.656.317 krónum.

Samkvæmt framansögðu er samtala kröfuliða 49.652.855 krónur og svarar það til dómkröfu áfrýjanda.

IV

Þegar Arcus ehf., systurfélag áfrýjanda, festi kaup á öllu hlutafé í stefnda með samningum 23. september 2015 hafði leigulóðar- og byggingarréttindum að Hlíðarenda 1 til 7 verið ráðstafað til félagsins með samningi 21. sama mánaðar og munu þessi réttindi hafa verið eina eign félagsins. Með sölunni á stefnda var því réttindunum ráðstafað til systurfélagsins í formi eignaraðildarinnar, en til stóð að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir á lóðinni færu fram á vegum stefnda. Jafnframt var gert ráð fyrir að áfrýjandi hefði umsjón með verklegum framkvæmdum á lóðinni.

Í aðdraganda þessara viðskipta hafði risið ágreiningur milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um hvort norðaustur suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar yrði lokað og skipulagsreglur fyrir flugvöllinn endurskoðaðar í samræmi við það. Þetta hafði veruleg áhrif á framkvæmdir á fyrrgreindri lóð stefnda og reyndar á öllum Hlíðarendareitnum. Úr þessari deilu var leyst með dómi Hæstaréttar 9. júní 2016 í máli nr. 268/2016, en með honum var fallist á að ríkinu væri skylt að viðlögðum dagsektum að loka umræddri flugbraut. Þegar dómurinn gekk voru hins vegar um garð gengin þau atvik sem reynir á í þessu máli.

Arcus ehf. festi eins og fyrr segir kaup á hlutum í stefnda með tveimur samningum við Hlíðarfót ehf. 23. september 2015, en annar þeirra tók til 10% hlutfjárins en hinn til 90% þess. Vegna óvissu um uppbyggingu á svæðinu, sem stafaði af ágreiningi um starfsemi Reykjavíkurflugvallar, var ákveðið að samningurinn um stærri hlutinn í stefnda yrði ekki efndur fyrr en að liðnum sjö mánuðum frá gerð hans. Á því tímabili hafði Arcus ehf. heimild til að falla frá kaupunum bótalaust ef fyrirsjáanlegt eða sennilegt yrði að framkvæmdir og uppbygging myndi tefjast vegna ágreiningsins um flugvöllinn. Ef fallið yrði frá þeim kaupum var jafnframt fyrir hendi kaup- og söluréttur eftir samningi 23. september 2015 á smærri hlutnum í stefnda sem hafði verið efndur. Eins og rakið hefur verið féllu kaupin á hlutunum í stefnda að öllu leyti niður á þessum grunni, annars vegar með því að Arcus ehf. féll frá kaupunum á stærri hlutunum 22. apríl 2016 og hins vegar með því að Hlíðarfótur ehf. leysti til sín smærri hlutinn 31. maí sama ár.

Samhliða kaupum á öllu hlutafé í stefnda var gert hluthafasamkomulag 23. september 2015 sem átti að gilda þar til allt hlutafé í stefnda væri komið á hendi eins hluthafa. Samkvæmt því samkomulagi áttu stjórnarmenn í félaginu að vera tveir þannig að Hlíðarfótur ehf. tilnefndi annan en Arcus ehf. hinn og yrði sá síðarnefndi formaður stjórnar. Jafnframt kom fram í samkomulaginu að allar ákvarðanir, sem tengdust rekstri og starfsemi stefnda, ættu að vera teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum félagsins. Þá sagði að hvor stjórnarmaður gæti vísað máli til ákvörðunar hluthafafundar ef ekki næðist samstaða milli stjórnarmannanna um afgreiðslu þess. Þessi fyrirmæli verður að virða í því ljósi að vegna ágreiningsins um flugvöllinn var fyrir hendi óvissa á sjö mánaðar tímabili frá 23. september 2015 til 23. apríl 2016 um hvort félagið, Arcus ehf. eða Hlíðarfótur ehf., myndi til frambúðar eiga hlutina í stefnda. Að því gættu var eðlilegt að áskilið væri í samkomulaginu að samþykki beggja stjórnarmanna í stefnda, sem tilnefndir voru af hálfu félaganna, þyrfti til svo kostnaður yrði felldur á stefnda, enda gat slík ákvörðun haft áhrif fyrir það félag sem eignarhluturinn í stefnda endaði hjá eftir samningunum um kaupin á hlutunum í félaginu.

Eins og áður greinir er áfrýjandi systurfélag Arcusar ehf., en bæði félögin munu hafa verið í eigu og undir stjórn Þorvaldar Gissurarsonar. Að því gættu og að virtum málsatvikum verður að leggja til grundvallar að ákvörðun um að fella kostnað á stefnda yrði að fara eftir umræddu hluthafasamkomulagi, hvort sem til kostnaðarins yrði stofnað af hálfu Arcusar ehf. eða áfrýjanda. Skiptir því ekki máli í þessu tilliti þótt áfrýjandi hafi ekki átt beina aðild að hluthafasamkomulaginu.

Með hlíðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að áfrýjandi hafi getað í eigin nafni stofnað til kostnaðar í trausti þess að geta fellt hann á stefnda án þess að afla samþykkis félagsins eftir því sem aðilar höfðu ákveðið í lögskiptum sínum. Þannig bar áfrýjanda að afla samþykkis Brynjars Harðarsonar fyrir þessum kostnaði á meðan hann sat einn í stjórn stefnda til 15. desember 2015 og frá þeim tíma þurfti samþykki beggja stjórnarmanna sem kosnir voru í stjórn stefnda þann dag fyrir hönd þeirra félaga sem fóru með hluti í stefnda. Í þessu tilliti getur engu breytt þótt nokkur dráttur hafi orðið á því að tveir menn yrðu kjörnir í stjórn félagsins í samræmi við hluthafasamkomulagið 23. september 2015, enda gat það ekki haft þau áhrif að ekki þyrfti að viðhafa það samráð sem samkomulagið gerði ráð fyrir. Verður hér að hafa til hliðsjónar þá túlkunarreglu samningaréttar sem nefnd hefur verið gildisreglan og felur í sér að skýra beri samningsákvæði svo að það hafi í för með sér raunveruleg réttaráhrif sem eru framkvæmanleg og í samræmi við tilgang samnings.

Af því sem komið hefur fram í málinu verður ekki ráðið að áfrýjandi hafi aflað samþykkis stefnda fyrir þeim kostnaði sem hann stofnaði til í eigin nafni vegna undirbúnings fyrir uppbyggingu á lóð stefnda. Hér gegndi því öðru máli en átti við um verksamning, sem stefndi gerði síðla árs 2015 um gröft á lóðinni við GT hreinsun ehf., en sú framkvæmd var samþykkt á fyrrgreindum hluthafafundi stefnda 15. desember 2015 og um verkið var gerður samningur sem undirritaður var af báðum stjórnarmönnum stefnda. Ekki skiptir heldur máli þótt stefnda hafi verið ljóst að áfrýjandi stofnaði til kostnaðar vegna framkvæmdanna og verður því ekki fallist á að á þeim grunni hafi komist á munnlegur samningur um þá verkþætti sem ráðist var í. Verður því lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi stofnað til kostnaðarins á eigin áhættu ef hann aflaði ekki samþykkis stefnda á þann veg sem gert var ráð fyrir í hluthafasamkomulaginu. Þá gat engu breytt um nauðsyn þess að afla samþykkis stefnda fyrir kostnaði þótt Brynjar Harðarson tæki svo til orða í tölvupósti 6. október 2015 að samkomulag væru um að „ÞG“ ætlaði að fjármagna verkliði upp að botnplötu án lánsfjármögnunar, enda var frá öndverðu gert ráð fyrir því í hluthafasamkomulaginu 23. september 2015 að Arcus ehf., systurfélag áfrýjanda, myndi fjármagna framkvæmdir á lóð stefnda.

Áfrýjandi heldur því fram að stefndi hafi ekki andmælt reikningi 31. desember 2015 í tæka tíð og því hafi hann með tómlæti sínu samþykkt reikninginn. Tekur áfrýjandi fram í því sambandi að í greinargerð stefnda í héraði hafi því ekki verið andmælt að reikningurinn hafi borist rakleitt í kjölfarið. Meðan óljóst var hvort kaup Arcusar ehf., systurfélags áfrýjanda, á öllum hlutum í stefnda næðu fram að ganga voru ekki efni til að andmæla þessum reikningi. Eftir að kaupin féllu niður 22. apríl og 31. maí 2016 var kröfunni tímalega andmælt með bréfi stefnda 26. júlí 2016 þar sem því var hafnað að ljúka málinu með greiðslu reikningsins, eins og lagt var til í bréfi áfrýjanda og Arcusar ehf. 27. júní sama ár.

Loks verður fallist á það með stefnda að áfrýjandi hafi ekki leitt í ljós hvort og þá að hvaða marki sá kostnaður sem hann krefur stefnda um hafi verið nauðsynlegur eða hafi komið að notum eftir að kaup Arcusar ehf. á stefnda féllu niður þannig að krafan verði sótt á hendur stefnda á þeim grunni.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og gildir það einnig um niðurstöðu hans um málskostnað.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, ÞG verktakar ehf., greiði stefnda, Landhlíð ehf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1  Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 27. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2018 í málinu nr. E-142/2017.

2  Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að stefnda verði gert að greiða honum 49.652.855 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 48.377.461 krónu frá 31. janúar 2016 til 19. janúar 2017 og af 49.652.855 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

3  Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjandi greiði honum málskostnað fyrir Landsrétti. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega og að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraðsdómi og fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4  Að undangengnum viðræðum fyrirsvarsmanna áfrýjanda og Hlíðarfótar ehf. gerði Arcus ehf., sem er systurfélag áfrýjanda, samning 23. september 2015 við Hlíðarfót ehf. um kaup Arcusar ehf. á 10% eignarhluta í stefnda, Landhlíð ehf., en síðastnefnda félagið er dótturfélag Hlíðarfótar ehf. Kaupverð 10% hlutarins var 22.050.000 krónur. Einu eignir stefnda á þessum tíma voru lóðin Hlíðarendi 1-7 í Reykjavík, sem einnig er tilgreind sem reitur D í gögnum málsins, og réttindi að allri hönnunar- og skipulagsvinnu sem þegar hafði farið fram á lóðinni. Í grein 1.6 í samningnum kemur fram að samþykktar byggingarnefndarteikningar frá Alark arkitektum ehf. liggi fyrir vegna lóðarinnar og að aðilar muni leitast við að semja við það fyrirtæki um áframhaldandi hönnun verksins. Lóðina hafði stefndi skömmu áður keypt af Hlíðarfæti ehf. fyrir 1.100.000.000 króna. Hlutafé stefnda var á þessum tíma 220.500.000 krónur og skuldir 880.000.000 króna.

5  Samhliða framangreindum samningi gerðu Arcus ehf. og Hlíðarfótur ehf. með sér samning um að fyrrnefnda félagið ætti rétt á að kaupa þau 90% af hlutafé stefnda sem eftir stóðu. Kaupverðið var ákveðið 198.450.000 krónur og skyldu hlutirnir afhendast sjö mánuðum eftir undirritun samningsins. Síðastnefndi kaupsamningurinn gerði ráð fyrir því að Arcus ehf. gæti fallið frá kaupunum bótalaust ef fyrirsjáanlegt yrði eða sennilegt að mati kaupanda að framkvæmdir og uppbygging á lóðinni að Hlíðarenda 1-7 myndi tefjast vegna ágreinings ríkis og borgar um lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Þá átti Arcus ehf. rétt á að selja Hlíðarfæti ehf. 10% hlutinn í stefnda. Fyrir liggur að kaupandi nýtti sér rétt til að falla frá seinni kaupunum með bréfi 22. apríl 2016.

6   Til viðbótar framangreindum samningum gerðu Arcus ehf., Hlíðarfótur ehf. og stefndi með sér hluthafasamning 23. september 2015 þar sem nánar var mælt fyrir um þær reglur sem áttu að gilda um samskipti aðila vegna hlutafjáreignar þeirra í stefnda og stjórnun þess félags. Samkvæmt grein 5.1 í samningnum skyldi stjórn félagsins skipuð tveimur mönnum, einum tilnefndum af Hlíðarfæti ehf. og öðrum tilnefndum af Arcusi ehf., og skyldi sá síðarnefndi verða formaður stjórnar. Þá kemur fram í grein 5.5 að „[a]llar ákvarðanir sem tengjast rekstri og starfsemi félagsins skulu teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum félagsins“. Þá gerði ákvæðið ráð fyrir því að ef ekki næðist samstaða á milli stjórnarmanna væri heimilt að vísa ágreiningsefninu til ákvörðunar hluthafafundar.

7   Ekki var gengið frá skipan stjórnar stefnda í samræmi við framangreint ákvæði fyrr en   15. desember 2015. Fram til þess tíma var Brynjar Harðarson eini stjórnarmaður stefnda en hann var jafnframt í stjórn Hlíðarfótar ehf. Framangreindan dag var Þorvaldur Gissurarson, fyrirsvarsmaður áfrýjanda, skipaður í stjórn stefnda ásamt Brynjari Harðarsyni og skyldu báðir hafa prókúruumboð fyrir félagið. Af gögnum málsins verður ráðið að ekki hafi verið haldnir stjórnarfundir í félaginu frá því að samningar voru undirritaðir í septembermánuði 2015 og þar til fallið var frá kaupunum í aprílmánuði 2016.

8  Á hluthafafundinum 15. desember 2015 var einnig samþykkt að ganga til samninga við GT hreinsun ehf. um jarðvegsskipti á lóðinni og að Reykjavíkurborg skyldi greiða kostnaðinn af þeirri framkvæmd. Í málinu liggur fyrir samningur stefnda við GT hreinsun ehf. sem Þorvaldur og Brynjar skrifuðu undir fyrir hönd stefnda á árinu 2015. Samkvæmt 1. gr. samningsins fólst verkið í uppúrtekt á D-reit við Hlíðarenda, akstur og losun jarðefnis í landfyllingu, útvegun og akstur fyllingarefnis ásamt jöfnun og þjöppun púða undir sökkla. Skyldi fyrsta hluta verksins lokið 15. febrúar 2016 en öðrum áfanga 15. mars sama ár. Lokaáfangi verksins skyldi unninn innan sex mánaða frá undirritun samningsins.

Niðurstaða

9   Fjárkrafa áfrýjanda byggist á því að hann hafi lagt út fyrir kostnaði og að starfsmenn hans hafi unnið vinnu við verkframkvæmd fyrir stefnda við atvinnu- og íbúðarhúsnæði á lóðinni Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík frá haustmánuðum 2015 og fram á árið 2016 eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi.

10 Ráða má af reikningum og samningum sem kröfur áfrýjanda eru meðal annars  reistar   á að þær séu til komnar vegna vinnu arkitekta, verkfræðinga og verktaka vegna ýmissa verkefna sem tengjast framkvæmdum að Hlíðarenda 1-7. Vega þar þyngst reikningar frá Alark arkitektum ehf., samtals að fjárhæð 21.384.008 krónur, og Mannviti ehf., samtals að fjárhæð 10.833.024 krónur. Þá eru kröfur áfrýjanda að hluta til byggðar á eigin vinnu starfsmanna áfrýjanda, skrifstofu- og fjármögnunarkostnaði og álagi á hönnunar- og verkfræðikostnað, samtals að fjárhæð 16.456.852 krónur. Heildarkrafa áfrýjanda í málinu er 49.652.855 krónur en reikningar þessara þriggja aðila nema samtals 48.673.884 krónum eða um 98% af kröfunni.

11 Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir dómi telur hann að allur kostnaðurinn sem krafist er greiðslu á hafi verið nauðsynlegur til þess að unnt væri að hefja upphafsaðgerðir verkframkvæmda þar með talið jarðvegsskipti á lóðinni. Þessu hefur stefndi mótmælt og telur hann með öllu ósannað að þörf hafi verið á að leggja út í þennan kostnað til að halda verkinu áfram. Jafnframt telur stefndi að mikið af þessum kostnaði megi rekja til breytinga sem áfrýjandi óskaði eftir að gerðar yrðu á teikningunum vegna breytinga á bílakjallara hússins.

12 Reikningar frá Alark arkitektum ehf. eru grundvallaðir á samningi sem áfrýjandi gerði við félagið 13. október 2015. Í 2. og 3. mgr. 1. gr. samningsins kemur fram að aðalhönnuður skuli vinna alla arkitektavinnu verksins og um sé að ræða allar teikningar sem nauðsynlegar eru til að fullvinna verkið. Samkvæmt þessu er ljóst að samningurinn við Alark arkitekta ehf. tók til allrar vinnu arkitekta í tengslum við byggingu hússins. Heildar samningsfjárhæðin fyrir verkið er 38.121.112 krónur. Þar af skyldu 25% reikningsfærast við upphaf samningsins og 75% af fjárhæðinni greiðast í sex jöfnum hlutum sem myndu endurspegla framvindu verksins. Kröfur Alark arkitekta ehf. sem liggja til grundvallar kröfum áfrýjanda í málinu samanstanda að stærstum hluta af 25% upphafsgreiðslunni, fyrstu greiðslu eftirstöðva og helmingi af annarri greiðslu eftirstöðva. Í málinu er ekki að finna gögn um nákvæma sundurliðun á því sem unnið var og hverjir af þeim verkþáttum voru nauðsynlegir svo að unnt væri að hefja jarðvegsskipti á lóðinni.

13 Reikningar frá Mannviti ehf. byggja á samningi sem áfrýjandi gerði við það félag 27. október 2015. Samkvæmt 1. gr. samningsins tók Mannvit ehf. að sér að hanna burðarþol og lagnir fyrir húsið sem fyrirhugað var að byggja á lóðinni. Fyrir heildarverkið skyldi áfrýjandi greiða 56.970.000 krónur og skyldi hönnuðurinn gera reikninga eftir framvindu verksins. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um sundurliðun á þeirri vinnu sem lá að baki reikningum Mannvits ehf. og hverjir af þeim verkþáttum voru nauðsynlegir til að hefja jarðvegsskipti á lóðinni.

14 Í héraðsdómsstefnu er eigin kostnaður áfrýjanda vegna málsins útlistaður. Þar kemur fram að áfrýjandi reiknaði sér 14,5% álag ofan á allan hönnunarkostnað sem hann greiddi og er á því byggt að um það hafi verið samið milli málsaðila. Ekki er að finna nein gögn í málinu sem styðja þessa fullyrðingu áfrýjanda og er henni að auki mótmælt af stefnda. Áfrýjandi lýsir öðrum þætti kröfunnar sem eigin vinnu starfsmanna hans og að sú vinna hafi numið 353,5 klukkustundum. Nánar tiltekið er þar um að ræða vinnu mælingarmanns, sérfræðiráðgjöf vegna jarðvegsskipta, eftirlit byggingarstjóra með jarðvinnuframkvæmdum, verkefnastjórn og setu á reglulegum samráðsfundum. Er krafan rökstudd með því að hún hafi verið nauðsynleg til að tryggja eðlilega framgöngu verksins í samræmi við óskir stefnda. Þriðji þátturinn í eigin kostnaði áfrýjanda er skrifstofu- og fjármögnunarkostnaður og er hann nánar tilgreindur sem kostnaður vegna byggingarstjóratryggingar, ábyrgðartryggingar verktaka, umsýslukostnaðar á skrifstofu og aðkeyptrar sérfræði- og lögfræðiráðgjafar vegna fjármögnunar verksins.  

15 Stefndi hefur mótmælt öllum framangreindum reikningum á þeim grundvelli að þeir hafi ekki verið samþykktir af stefnda í samræmi við ákvæði hluthafasamningsins auk þess sem ekki hafi verið nauðsynlegt að leggja út í þennan kostnað til að framkvæma jarðvegsskiptin. Stefndi byggir einnig á því að talsverður hluti af þessum kostnaði helgist af breytingum á teikningum sem áfrýjandi ákvað sjálfur að gera.

16 Í minnisblaði með tölvupósti sem Örn Tryggvi Johnsen, starfsmaður áfrýjanda, sendi Brynjari Harðarsyni 3. desember 2015 eru settar fram ýmsar forsendur fyrir því að áfrýjandi og Arcus ehf. haldi áfram framkvæmdum á D-reit meðan ágreiningur ríkis og borgar vegna lokunar flugbrautarinnar væri óleystur. Í minnisblaðinu kemur fram krafa um að „Brynjar leggi fram með hvaða hætti Arcusi skuli tryggt skaðleysi vegna áfallins kostnaðar sem og vegna áframhaldandi vinnu.“ Í svarpósti Brynjars Harðarsonar segir „Ok ég er að vinna í skaðleysi fyrir framtíðarkostnaði en ekki þegar áföllnum“.

17 Í bréfi Arcusar ehf. 15. desember 2015 til Hlíðarfótar ehf. eru settar fram þrjár forsendur fyrir áframhaldandi framkvæmdum við verkið. Þar á meðal kemur fram „(c) að byggingaraðila verði tryggt skaðleysi vegna áframhaldandi framkvæmda; og Arcusi ehf. og eftir atvikum byggingaraðila verði tryggt skaðleysi vegna þess kostnaðar sem þegar hefur verið settur í verkefnið“. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að Arcus ehf. muni ekki taka þátt í frekari framkvæmdum né greiða frekari kostnað vegna verkframkvæmdanna fyrr en gengið hefur verið frá skriflegu samkomulagi um þau atriði sem nefnd eru í bréfinu og áðurnefndu minnisblaði 3. desember 2015.

18 Framangreint bréf er dagsett sama dag og hluthafafundur í stefnda var haldinn til þess að skipa stjórn félagsins og taka ákvörðun um jarðvegsskipti á lóðinni. Á hluthafafundinum var ekki tekin afstaða til kröfu áfrýjanda um áfallinn kostnað vegna undirbúningsframkvæmda þótt fullt tilefni hefði verið til ef aðilar hefðu samið um að stefndi ætti að bera þann kostnað. Þá liggur heldur ekki fyrir samþykki stjórnarmanna félagsins eða hluthafa fyrir því að stefndi skuli bera þennan kostnað áfrýjanda. Einnig liggur fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. 347/2017 sem staðfestir að drög að verksamningi á milli aðila málsins hafi ekki verið undirrituð og sé því ekki skuldbindandi.

19 Áður er rakið að samningur Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. um kaup á hlutafé í stefnda gerði ráð fyrir sérstökum reglum um það hvernig skuldbinda mætti stefnda. Fallist er á það með stefnda að efni þeirra sé ekki óeðlilegt í ljósi þeirrar óvissu um það hvort heimilt yrði að byggja á lóðinni vegna ágreinings ríkis og borgar um lokun flugbrautar svo og heimildar Arcusar ehf. til þess að falla frá samningum um kaupin. Aðilum mátti því vera ljóst að áhættan af þeim kostnaði sem hvor aðili þess samnings stofnaði til beint eða óbeint, í gegnum systur- eða móðurfélög, væri á ábyrgð þess aðila sem til hans stofnaði þar til stjórn stefnda og eftir atvikum hluthafafundur samþykkti kostnaðinn sem nauðsynlegan og eðlilegan hluta af framkvæmdum. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og framburðum starfsmanna málsaðila fyrir héraðsdómi en að áfrýjandi hafi stofnað til þessa kostnaðar á eigin vegum eða fyrir hönd Arcusar ehf. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki lagt fram gögn sem sanna að sá kostnaður sem krafa hans byggist á hafi verið nauðsynlegur til þess að jarðvegsskiptin gætu farið fram. Ber áfrýjandi hallann af þessum sönnunarskorti og kemur því ekki til skoðunar hvort einhver hluti kostnaðarins geti fallið undir samþykkt hluthafafundarins um framkvæmd jarðvegsskiptanna.

20 Samkvæmt því sem að framan er rakið verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af fjárkröfu áfrýjanda staðfest.

21 Rétt þykir að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi fyrir rekstur málsins í héraði og fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Landhlíðar ehf., af fjárkröfu áfrýjanda ÞG verktaka ehf.  

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Sératkvæði

Vilhjálms H. Vilhjálmssonar

1  Ég er ósammála héraðsdómi og meirihluta dómenda um forsendur og niðurstöðu. Í forsendunum er fjallað um og að einhverju leyti byggt á kaupsamningum 23. september 2015 milli Arcusar ehf., félags tengdu áfrýjanda, og Hlíðarfótar ehf., félags tengdu stefnda, um fyrirhuguð kaup Arcusar ehf. á öllu hlutafé í stefnda. Einnig er í héraðsdómi getið um og byggt á kaup- og söluréttarsamningi á milli þessara félaga og hluthafasamkomulagi „Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. og Landhlíðar ehf.“ dagsettu sama dag. Vandséð er hvaða þýðingu samningarnir hafa fyrir sakarefni og úrlausn þessa máls. Þeir eru milli annarra lögaðila, þeir virðast ekki hafa verið efndir og eru nú fallnir úr gildi án þess að reynt hafi á efni þeirra.

2  Niðurstaða í málinu um hvort samningur hafi komist á milli aðila ræðst því af túlkun á fyrirliggjandi gögnum um samskipti þeirra varðandi hið umdeilda verk og framgang þess. Ekki af öðrum samningum annarra lögaðila, þó að eigendatengsl séu við aðila þessa máls.

3  Áfrýjandi byggir málssókn sína á því að síðsumars árið 2015 hafi komist á samningur milli aðila um að áfrýjandi annaðist undirbúningsframkvæmdir á lóðinni að Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík. Hafi áfrýjandi sem verktaki átt að annast allar undirbúningsaðgerðir og vinnu við væntanlegar byggingaframkvæmdir á lóðinni, meðal annars að semja við þá hönnuði, arkitektastofuna Alark ehf. og verkfræðistofurnar Eflu hf. og Mannvit hf., sem þegar höfðu komið að framkvæmdunum. Samið var við fyrirtækin um frekari vinnu við hönnun verksins. Jafnframt var frá því gengið milli aðila að áfrýjandi legði út allan kostnað við verkið enda stefndi þá félaus og án bankaviðskipta eins og sjá má í gögnum málsins og forsvarsmaður þess greindi frá fyrir dómi.

4  Stefndi telur engan samning hafa komist á milli aðila um framangreindar framkvæmdir og beri félaginu því ekki skylda til að greiða fyrir þær.

5  Þegar meta á hvort samningur um fyrrnefndar framkvæmdir hafi komist á milli aðila þarf því að fara fram heildstætt mat á fyrirliggjandi sönnunargögnum, einkum tölvubréfum um samskipti forsvarsmanna aðila, þeirra Brynjars Harðarsonar fyrir hönd stefnda og Þorvalds Gissurarsonar fyrir hönd áfrýjanda, allt frá því að áfrýjandi kom að verkinu í ágústmánuði 2015 þar til vinnu hans lauk í marsmánuði 2016.

6  Samkvæmt fyrirliggjandi tölvubréfssamskiptum aðila hófust samskipti þeirra eigi síðar en 18. ágúst 2015, með tölvubréfi frá forsvarsmanni stefnda, Brynjari Harðarsyni, til forsvarsmanns áfrýjanda sem ber yfirskriftina „Hlíðarendi-samningur ÞG og Valsmanna“. Lýsir sendandi yfir ánægju með og samþykkir breytingar á teikningum sem hönnuður hafi unnið eftir hugmyndum og að beiðni Þorvalds Gissurarsonar. Í lokin segir Brynjar Harðarson „ekkert annað en raunverulegar verkframkvæmdir á Hlíðarendareit loka þessu máli“. Af þessum samskiptum má ráða að ekki síðar en 18. ágúst 2015 er stefnda ljós aðkoma áfrýjanda sem verktaka að undirbúningsframkvæmdum vegna byggingar á lóðinni, gerir ekki athugasemdir vegna breytinga á teikningum og hvetur áfrýjanda til að halda verkframkvæmdum áfram.

7 Hinn 21. sama mánaðar tekur svo dótturfélag áfrýjanda, Linnet ehf., að sér „hlutverk byggingastjóra“ við fyrrnefndar framkvæmdir. Byggingastjórinn er starfsmaður áfrýjanda, Benedikt Egilsson. Samkvæmt samningnum er áfrýjandi greinilega aðili að honum og er nefndur „verktaki“. Samningurinn ber fyrirsögnina “Samningur milli eiganda mannvirkis og byggingastjóra“. Hann er undirritaður af Brynjari Harðarsyni „f.h. Valsmanna ehf.“ og er óundirritaður en efndur af áfrýjanda. Með þessum samningi er sýnt að Brynjar Harðarson og stefndi gjörþekktu aðkomu áfrýjanda að framkvæmdunum á lóðinni.

8 Hinn 23. september 2015 veitir svo Reykjavíkurborg Valsmönnum hf. byggingarleyfi fyrir „jarðvinnu og aðstöðusköpun á lóðinni nr. 1-7 við Hlíðarenda“. Þorvaldur Gissurarson, framkvæmdastjóri áfrýjanda, er tilgreindur í leyfinu sem húsasmíðameistari að verkinu. Aðra iðnmeistara að verkinu sem nafngreindir eru í leyfinu útvegaði áfrýjandi einnig eins fram kom við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi. Verður að gera ráð fyrir að forsvarsmanni stefnda hafi eftir þetta verið kunnugt um þetta leyfi til áframhaldandi verkframkvæmda áfrýjanda fyrir stefnda á lóðinni að Hlíðarenda 1-7, sem staðsett er skammt frá aðsetri stefnda á Hlíðarendasvæðinu.

9 Á grundvelli fyrrnefnds byggingarleyfis hélt áfrýjandi áfram framkvæmdum á lóðinni og gerði viðbótarsamninga, sem liggja fyrir í málinu, um áframhaldandi hönnun verksins við fyrrnefndar arkitekta- og verkfræðistofur. Áfrýjandi lagði einnig út fyrir kostnaði við verkið, svo sem venja er við framkvæmd slíkra verksamninga, og fram er komið í málinu að báðir aðilar gerðu ráð fyrir.

10 Þá kemur eftirfarandi fram í tölvubréfi Brynjars Harðarsonar til nokkurra samstarfsmanna sinna, afrit til Þorvalds Gissurarsonar, 6. október 2015: „Samkvæmt okkar samkomulagi ætlar ÞG að fjármagna verkið upp að botnplötu án lánsfjármögnunar.“ Þarna er vitnað beint til samkomulags aðila um framkvæmd verksins og þar með sýnt fram á að stefndi gerði samkomulag við áfrýjanda um þessa framkvæmd.

11 Stefndi lagði mikla áherslu á að undirbúningsvinnan gengi fljótt fyrir sig svo að byggingaframkvæmdir gætu hafist sem fyrst og rak á eftir áfrýjanda, m.a. með tölvubréfum 6. nóvember 2015 og 13. desember sama ár.

12 Málaferli Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins vegna breytingar á skipulagi flugvallarsvæðisins stóðu yfir um þetta leyti og til að knýja á um lyktir þeirra óskaði stefndi eftir minnisblaði frá áfrýjanda um stöðu verksins og áfallinn framkvæmdakostnað á lóðinni. Það upplýsti áfrýjandi í minnisblaði í desember 2015 sem stefndi kom á framfæri við  Reykjavíkurborg. Í minnisblaðinu segir að framkvæmdakostnaður við verkið nemi nú þegar um það bil 60 milljónum króna. Þetta er enn ein staðfesting þess að fyrir hafi legið verksamningur á milli aðila og að stefndi hafi gert sér ljóst, ekki seinna en í desember 2015, hver áfallinn kostnaður áfrýjanda við framkvæmdina var þá.

13 Áfrýjandi vann svo áfram fyrir stefnda að ýmsum verkum tengdum lóðarframkvæmdunum í janúar og febrúar 2016, greiddi meðal annars reikning fyrir stefnda frá Reykjavíkurborg í lok febrúar 2016 vegna afgreiðslugjalds nýrra kjallarateikninga, eftir að stefnda hafði neitað að greiða hann, samanber tölvubréf stefnda, dagsett 24. febrúar 2016, til starfsmanns áfrýjanda. Þetta staðfestir að þá var verksamningur aðila í gildi. Ella hefði stefndi ekki óskað eftir því að áfrýjandi greiddi reikninginn. Samstarfi aðila lauk svo í apríl 2016. Ekki kemur fram í málinu að stefndi hafi gert neinar athugasemdir við vinnu og þjónustu áfrýjanda á verktímanum og heldur ekki áfallinn kostnað við verkið. Verður að líta á þá háttsemi sem enn eina staðfestingu þess að stefndi og áfrýjandi voru bundnir samningi um verkið.

14 Með því sem rakið hefur verið hér að framan er hafið yfir allan vafa að samningur komst á milli málsaðila um framkvæmdir á Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík og á áfrýjandi rétt á endurgjaldi frá stefnda fyrir. Útgefnum reikningi áfrýjanda var fyrst mótmælt með bréfi 26. júlí 2016. Upplýst er með þeim samskiptum aðila sem áður hafa verið rakin að stefndi vissi af framkvæmdunum að Hlíðarenda 1-7 og ber því að greiða einstaka verkliði sem taldir eru upp í stefnu, svo sem hönnunarkostnað arkitekta, kostnað vegna byggingarstjóra og vegna verkfræðiteikninga. Þessar framkvæmdir áfrýjanda fylgdu með í sölu allrar fasteignarinnar Hlíðarendi 1-7 og hafa vafalaust aukið verðmæti hennar. Þessi vinna nýttist kaupanda áreiðanlega enda er tekið tillit til framkvæmdanna við söluna. Þetta sést glöggt í kaupsamningi Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna ehf. við N.H. eignir ehf. dagsettum 12. júlí 2016, sem er meðal dómskjala, einkum greinum 3.2 og 4.2. Þar er tekið fram að öll hönnunar og skipulagsvinna sem fram komi í fyrirliggjandi samþykktum byggingarteikningum fylgi með hinu selda. Sérstaklega eru svo nefndar arkitektateikningar, unnar af Alark arkitektum, og brunafræðilegar teikningar unnar af Eflu ehf., en þetta eru sömu aðilar aðilar og unnu fyrir áfrýjanda. Í kaupsamningnum er einnig tekið fram að allur kostnaður vegna þessarar hönnunar sé að fullu greiddur og sé samningssamband seljanda við ofangreinda aðila kaupanda með öllu óviðkomandi. Þetta ákvæði bendir til þess að seljendum lóðarinnar Hlíðarendi 1-7 hafi verið kunnugt um framkvæmdir áfrýjanda á lóðinni og ef til vill einnig að áfrýjandi hafði greitt reikninga vegna vinnu hönnuða  enda sami maður fyrirsvarsmaður stefnda og seljendanna tveggja. Allt að einu liggur fyrir að verkframkvæmdirnar voru seldar og endurgjald kom fyrir þær án þess að áfrýjandi hafi fengið greitt fyrir verkið.

15 Samkvæmt þessu er fallist á þá málsástæðu áfrýjanda að hann eigi fjárkröfu á hendur stefnda um endurgjald fyrir unnið verk.

16 Sundurliðun á kröfu áfrýjanda í 20 liðum kemur fram í stefnu. Með henni voru lögð fram ljósrit reikninga sem stefnda greiddi öðrum framkvæmdaaðilum að verkinu og helstu kostnaðarliðir eru reifaðir í stefnu og útlistaðir þar nánar.

17 Stefndi mótmælti því ekki með skýrum hætti að hið umdeilda verk væri unnið og stefnda var ljóst að áfrýjandi greiddi kostnað vegna þess. Á hinn bóginn er því haldið fram að áfrýjandi hafi gert þetta án samráðs við stefnda um hvaða verk skyldi vinna og hvaða kostnað skyldi greiða. Sú mótbára er í ósamræmi við jákvæð ummæli um verk áfrýjanda og breytingarnar á teikningunum sem fram koma í tölvubréfum stefnda. Ekki hefur stefndi lagt fram nein gögn til stuðnings þessum andmælum sínum svo sem að sanna tiltekin mótmæli sín við einhverjum framkvæmdanna, sem stefnda var kunnugt um, eða að afla matsgerðar um kostnað við verkið í heild eða hluta þess.

18 Vegna þessa og með hliðsjón af þeirri meginreglu kröfuréttar að munnlegir samningar séu jafngildir skriflegum svo og með hliðsjón af 45. grein laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup ber að fallast á kröfu áfrýjanda um verklaun. Ekki verður þó fallist á, gegn mótmælum stefnda, að stefnda beri að greiða áfrýjanda 14,5% álag á hönnunarkostnað vegna samningsgerðar og umsjónar.

19 Samkvæmt þessu telur undirritaður að stefnda beri að greiða áfrýjanda 44.852.232 krónur auk dráttarvaxta.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 1. júní 2018

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af ÞG verktökum ehf., Lágmúla 7 í Reykjavík, með stefnu birtri 16. janúar 2017, á hendur Landhlíð ehf., Hlíðarenda í Reykjavík.

I.

        Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 49.652.855 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 48.377.461 krónu frá 31. janúar 2016 til 19. janúar 2017 og af 49.652.855 krónum frá 19. janúar 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Í upphafi krafðist stefndi þess að málinu yrði vísað frá dómi og að stefnandi yrði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Þá áskildi stefndi sér rétt til að skila síðar greinargerð um efnisvarnir yrði málinu ekki vísað frá dómi.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2017 var málinu vísað frá dómi. Stefnandi skaut málinu til Hæstaréttar, sem með dómi nr. 347/2017 felldi hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

II.

Málsatvik

Forsaga málsins tengist uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á lóðinni Hlíðarenda 1–7 í Reykjavík. Stefndi var eigandi leigulóðar- og byggingarréttinda lóðarinnar á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað. Ágreiningur málsins hverfist um fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda, en um kröfu sína vísar stefnandi til útlagðs kostnaðar fyrir vinnu við verkframkvæmdir á lóðinni frá haustmánuðum 2015 til vormánaða 2016.

Þann 23. september 2015 gerðu félögin Hlíðarfótur ehf., dótturfélag Valsmanna hf., og Arcus ehf. tvo samninga um kaup Arcusar ehf. á öllu hlutafé í stefnda, annars vegar 10% eignarhlut í stefnda og hins vegar 90% eignarhlut. Á þessum tíma var stefndi eigandi leigulóðar- og byggingarréttinda að Hlíðarenda 1–7, svokölluðum D-reit. Jafnframt var stefndi eigandi allrar hönnunar- og skipulagsvinnu, sem unnin hafði verið fyrir reitinn. Afhendingardagur samkvæmt kaupsamningi um 10% hlut í stefnda var við undirritun og samkvæmt kaupsamningi um 90% hlut í stefnda átti hann að vera sjö mánuðum eftir undirritun samningsins. Að uppfylltum tilteknum skilyrðum hafði Arcus ehf. allt fram að afhendingardegi rétt til að falla bótalaust frá kaupunum. Í gr. 8.1 í kaupsamningi um 90% hlut í stefnda segir að þar sem ekki sé útilokað að koma muni til aðgerða og/eða aðgerðaleysis Reykjavíkurborgar og/eða íslenska ríkisins, sem kunna að leiða til tafa á útgáfu byggingarleyfis og/eða hamla eða tefja framkvæmdir og uppbyggingu að Hlíðarenda 1–7, Reykjavík, með öðrum hætti, séu aðilar sammála um að kaupandi skuli fram að afhendingardegi hafa rétt til þess að falla bótalaust frá kaupum þeim sem lýst er í samningi í samræmi við það sem fram komi í greinum 8.2 og 8.3 í samningi.

Ástæða þessa fyrirkomulags var sú að ágreiningur var á milli íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar um lokun flugbrautarinnar NA/SV, 06/24. Því var óvissa um það hvers konar byggingar yrðu leyfðar á Hlíðarendareit vegna nálægðar svæðisins við helgunarsvæði flugbrautarinnar. Af þeim sökum mun Arcus ehf. ekki hafa viljað kaupa leigulóðar- og byggingarréttinn að fullu meðan niðurstaða í þessu ágreiningsmáli lá ekki fyrir. Hins vegar var ákveðið að hefja undirbúningsframkvæmdir svo uppbygging gæti hafist á svæðinu.

Samhliða kaupsamningum var einnig gerður samningur um kaup- og sölurétt milli félaganna. Á meðal gagna málsins er hluthafasamkomulag um stefnda, dags. 23. september 2015. Aðilar að hluthafasamkomulaginu eru stefndi sjálfur og félögin Arcus ehf. og Hlíðarfótur ehf. Tilgangur þessa hluthafasamkomulags mun hafa verið að ramma inn samstarf samningsaðila um uppbyggingu á lóðinni Hlíðarenda 1–7 í Reykjavík og var stefnda þannig ætlað að vera samstarfsvettvangur Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. Hluthafasamkomulag þetta var gert áður en stefnandi kom að framkvæmdum á svæðinu, en félagið Arcus ehf. er systurfélag stefnanda.

Í hluthafasamkomulaginu kemur fram að í stjórn félagsins séu tveir stjórnarmenn, Hlíðarfótur ehf. skipi annan og Arcus ehf. hinn. Stjórnarmenn voru síðan kjörnir þeir Brynjar Harðarson og Þorvaldur Gissurarson. Sá síðarnefndi mun ekki hafa tekið sæti í stjórninni. Í grein 5.5 segir að allar ákvarðanir, sem tengist rekstri og starfsemi félagsins, skuli teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum. Komi til þess að ekki náist samstaða á milli stjórnarmanna félagsins við afgreiðslu einstakra mála skuli hvorum stjórnarmanni um sig heimilt að krefjast þess að málinu verði vísað til hluthafafundar.

Um verktöku sína á lóðinni, sem hafði vinnuheitið D-reitur, vísar stefnandi í stefnu til samkomulags, sem er á meðal gagna málsins og er dagsett 1. október 2015. Samkomulagið er óundirritað en með fyrirsögninni „Verksamningur milli Landhlíðar ehf. og ÞG Verktaka, Hlíðarendi D reitur“. Í framangreindum dómi Hæstaréttar nr. 347/2017 segir að með stefnu í málinu hafi stefnandi lagt fram óundirritaðan verksamning, sem hann kvað aðila þó ekki hafa samþykkt. Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að við flutning um frávísunarkröfu í málinu hafi Landhlíð ehf. lýst því yfir að verksamningurinn væri ekki í gildi og óskuldbindandi milli aðila. Vefengdu því báðir aðilar það að verksamningurinn væri skuldbindandi fyrir þá. Væri því ekki fyrir að fara í málinu gildum gerðarsamningi þar sem aðilar afsöluðu sér meðferð almennra dómstóla um þann ágreining.

Eftir að gengið var frá framangreindum samningum í september 2015 hóf Reykjavíkurborg gatnagerðarvinnu á Hlíðarendareit. Forsvarsmenn Hlíðarfótar og Valsmanna fengu það í gegn hjá Reykjavíkurborg að graftarleyfi yrði gefið út fyrir D-reit þannig að heimilt væri að hefja þar jarðvegsskipti og nýta tímann til undirbúningsframkvæmda meðan leyst væri úr ágreiningi ríkis og borgar. Upphaflega greiddi Reykjavíkurborg þessar framkvæmdir og Valsmenn ehf. munu síðan hafa endurgreitt borginni þennan kostnað og lögðu hvorki Arcus ehf. né stefnandi fé til framkvæmdanna.

Tafir urðu á verkframkvæmdum á D-reitnum síðla árs 2015 þar sem takmarkanir voru á heimild til að setja upp byggingarkrana og öðrum framkvæmdum vegna nálægðar lóðarinnar við Reykjavíkurflugvöll. Stefnandi hafði sótt um heimild þann 22. október 2015 til að reisa byggingarkrana á lóðinni en þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun Samgöngustofu þann 3. nóvember sama ár. Arcus ehf. gerði Hlíðarfæti ehf. grein fyrir töfum með bréfi 15. desember 2015 og tilkynnti að stefnandi gæti ekki haldið áfram framkvæmdum miðað við óbreytt ástand og setti sem skilyrði fyrir áframhaldandi framkvæmdum að stefnanda yrði tryggt skaðleysi vegna kostnaðar sem hann hefði lagt í verkið. Á það var ekki fallist af hálfu Hlíðarfóts Hlíðarfótar ehf.

Kaup Arcusar ehf. á stefnda gengu til baka 23. apríl 2016. Vegna framangreindra atvika nýtti Arcus ehf., með stoð í hluthafasamkomulaginu 23. september 2015, heimild sína til að falla frá kaupunum. Eftir það var Hlíðarfótur ehf. eini eigandi stefnda.

Stefnandi gerði í framhaldinu stefnda reikning að fjárhæð 48.377.461 króna, samsvarandi fjárhæð dómkröfu stefnanda í málinu, fyrir kostnaði sem hann hefði orðið fyrir vegna verkframkvæmdanna. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu í bréfi til stefnanda þann 26. júlí 2016.

III.

Málstæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggi á því í stefnu að komist hafi á samningur á milli hans, sem verktaka, og stefnda, sem verkkaupa. Stefndi hafi vanrækt þá frumskyldu að greiða stefnanda fyrir verkið, bæði fyrir eigin vinnu stefnanda og útlagðan kostnað vegna vinnu hönnuða, þó að verkið hefði verið unnið með vitund og vilja stefnda og í þágu hagsmuna hans. Stefnandi bendi á að alltaf hafi legið fyrir að stefndi ætti að bera kostnað vegna upphafsaðgerða framkvæmdanna, sbr. gr. 6.1 og 6.3 í hluthafasamkomulaginu. Jafnframt hafi stefndi og stefnandi komist að samkomulagi um að stefnandi skyldi fjármagna framkvæmdirnar upp að botnplötu fyrir hönd stefnda.

        Krafa stefnanda, vegna vinnu hans við undirbúning framkvæmda við Hlíðarenda 1–7 og útlagðs kostnaðar vegna hönnunarvinnu, verkfræðiþjónustu og vinnu verktaka, sundurliðist með eftirfarandi hætti en frekar sé fjallað um málsástæður stefnanda með tilliti til einstakra kröfuliða:

1.       25% hönnunarþóknun til Alark arkitekta ehf., dags. 19.10.15.

11.817.545

2.       Greiðsla til Alark arkitekta ehf. vegna hönnunarkostnaðar dags. 4.11.2015

5.908.772

3.       Þóknun samkvæmt tilboði til Eflu, dags. 10.11.2015

359.600

4.       Greiðsla til Grettisafls ehf. dags. 10.11.2015

52.080

5.       Greiðsla til Mannvits fyrir verkfræðiþjónustu, dags. 16.11.2015

4.980.382

6.       Greiðsla til ATR Verks ehf. vegna verktakavinnu, dags. 20.11.2015

277.760

7.       Greiðsla til Mannvits fyrir verkfræðiþjónustu dags. 3.12.2015

5.726.938

8.       Greiðsla til Alark arkitekta ehf. vegna hönnunarkostnaðar, dags. 4.12.2015

2.954.387

9.       Greiðsla vegna lögfræðiþjónustu dags. 7.12.2015

46.314

10.    Greiðsla til Grettisafls ehf. dags. 3.2.2016

17.980

11.    Greiðsla til ATR Verks ehf. dags. 16.2.2016

39.680

12.    Greiðsla til Sjónhags ehf. vegna mælingarvinnu, dags. 2.3.2016

15.810

13.    Greiðsla til Alarks arkitekta ehf. vegna hönnunarkostnaðar, dags. 3.3.2016

703.304

14.    Greiðsla til Mannvits fyrir verkfræðiþjónustu, dags. 8.3.2016

125.704

15.    Greiðsla til Eflu fyrir verkfræðiþjónustu, dags. 17.3.2016

138.582

16.    Greiðsla til Eflu fyrir verkfræðiþjónustu, dags. 18.4.2016

31.165

17.    Álag vegna hönnunar- og verkfræðikostnaðar fyrir árið 2015

4.643.681

18.    Álag vegna hönnunar- og verkfræðikostnaðar fyrir árið 2016

156.854

19.    Kostnaður vegna vinnu stefnanda.

7.890.120

20.    Skrifstofukostnaður/fjármögnunarkostnaður.

3.766.197

                                                                                      Samtals með vsk.

49.652.855

    Stuttu eftir að gengið hafði verið frá samningsgerðinni þann 23. september 2015 hafi stefnandi hafið viðræður við Alark arkitekta ehf. í því skyni að halda áfram með áðurnefnda hönnunarvinnu, líkt og hafi verið mælt fyrir um í samningunum frá 23. september 2015, sbr. gr. 1.6 í samningnum um kaup Arcusar ehf. á 22.050.000 eignarhlutum í Landhlíð ehf. Samhliða því að haldið hafi verið áfram með hönnunarvinnu Alark arkitekta ehf. hafi Mannvit hf. og Efla ehf. verið fengin til að sinna verkfræðiþjónustu og hönnunarvinnu vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

        Þann 13. október 2015 hafi verið undirritaður samningur milli stefnanda, sem verkkaupa, og Alark arkitekta ehf., sem aðalhönnuðar, um arkitektahönnun á D-reit Hlíðarendalóðarinnar. Með samningnum hafi Alark tekið að sér að vinna alla arkitektahönnun verksins þannig að stefnandi gæti byggt íbúðir með tilheyrandi bílageymslum og sameignum á lóðinni Hlíðarenda 1–7, í Reykjavík.

        Í 2. gr. samningsins, sem bar yfirskriftina „Samningsfjárhæð og greiðslur“, hafi verið mælt fyrir um þóknun Alark arkitekta ehf. vegna verksins. Í meginatriðum hafi annars vegar verið um að ræða þóknun, sem hafi verið greidd við upphaf verksins, og var 25% af heildarfjárhæðinni, og hins vegar framvindugreiðslur. Stefnandi hafi innt af hendi upphafsþóknunina þann 19. október 2015 og hluta umsaminna framvindugreiðslna. Fjárhæðin, sem stefnandi hafi greitt Alark arkitektum ehf. á haustmánuðum 2015, hafi numið samtals 20.680.704 krónum, eins og framlagðir reikningar Alark arkitekta ehf. beri með sér.

         Arcus ehf. og Hlíðarfótur ehf., hluthafar og stjórnendur stefnda, hafi komi sér saman um að halda áfram samstarfinu við Alark arkitekta ehf. Stefnandi hafi ekki haft frumkvæðið að því að semja við Alark heldur hafi það verið forsendur stjórnenda stefnda að gengið yrði til samninga við þá tilteknu arkitektastofu. Stefnanda hafi hins vegar verið falið að hafa umsjón með samstarfinu við Alark arkitekta ehf. í þágu stefnda og greiða félaginu fyrir hönnunarvinnu sína, sem stefnandi hafi gert.

        Stefnandi hafi einnig gengið til samninga við Mannvit ehf. vegna verksins. Samkvæmt samningi, sem bar yfirskriftina „Samningur um verkfræðihönnun“ og var undirritaður 27. október 2015, hafi Mannvit ehf. m.a. tekið að sér fullnaðarhönnun burðarþols og lagna vegna fyrirhugaðra framkvæmda við lóðina Hlíðarenda 1–7 í Reykjavík. Í 2. gr. samningsins hafi verið mælt fyrir um samningsfjárhæðir og greiðslur. Þar hafi verið tekið fram að stefnandi myndi greiða Mannviti ehf. fasta þóknun, samtals u.þ.b. 57 milljónir króna, og skyldi greiða fyrir verkið með framvindugreiðslum. Stefnandi hafi  greitt Mannviti ehf. samtals 10.707.320 krónur á haustmánuðum 2015 fyrir hönnun burðarþols og lagnahönnun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni Hlíðarenda 1–7 í Reykjavík, líkt og framlagðir reikningar Mannvits ehf. beri með sér . 

        Stefnandi hafi einnig komist að samkomulagi við Eflu ehf. um að taka að sér brunahönnun verksins. Stefnandi hafi greitt Eflu ehf. samtals 359.600 krónur vegna brunahönnunar verksins á haustmánuðum 2015, líkt og framlagðir reikningar Eflu beri með sér.

        Ásamt því að semja við Alark arkitekta ehf., Mannvit ehf. og Eflu ehf. hafi stefnandi greitt Grettisafli ehf., ATR Verki ehf. og Málflutningsstofu Reykjavík ehf. samtals 376.154 krónur vegna verka í þágu framkvæmdanna að lóðinni Hlíðarenda 1–7, líkt og framlagðir reikningar þessara aðila beri með sér.

         Eftir undirritun samninga við Mannvit ehf. og Alark arkitekta ehf. og samkomulag við Eflu ehf. um brunahönnun verksins hafi fyrirsvarsmenn stefnanda og fulltrúar Alark arkitekta haldið reglulega hönnunarfundi, ásamt aðilum frá Mannviti hf. og Eflu ehf. Líkt og fundargerðir þessara funda beri með sér hafi verið komið gott skrið á verkið og búið að taka afstöðu til ýmissa atriði varðandi framhald þess og tilhögun fyrirhugaðra framkvæmda.

        Að framangreindu virtu telji stefnandi liggja skýrt fyrir að stofnað hafi verið til þess hönnunar- og verkfræðikostnaðar sem hér hafi verið rakinn á haustmánuðum 2015, samtals að fjárhæð 32.123.958 krónur, með vitund og vilja stefnda. Ennfremur telji stefnandi að stofnað hafi verið til kostnaðarins á grundvelli þeirrar forsendu að hann myndi endanlega lenda á herðum stefnda, sem verkkaupa og eiganda lóðar- og byggingarréttinda lóðarinnar Hlíðarenda 1–7, Reykjavík, þar sem umrædd vinna hafi farið fram í þágu framkvæmda á lóðinni. Stefnandi krefjist þess því að stefnda verði gert skylt að greiða honum þennan kostnað með dómi.

        Stefnanda þyki rétt að benda á að áður raktar röksemdir, sem settar voru fram hér að framan, um greiðsluskyldu stefnda eigi einnig við, eftir því sem við á, um þá umfjöllun, sem fylgi hér á eftir.

         Útlagður kostnaðar stefnanda vegna vinnu Alark arkitekta ehf., Mannvits hf. og Eflu ehf. á vormánuðum 2016 eigi rætur sínar að rekja til samninga sem fjallað hafi verið um hér að framan og hafi verið undirritaðir við þessa aðila af hálfu stefnanda á haustmánuðum 2015. Stefnandi hafi greitt Alark arkitektum ehf., Mannviti ehf. og Eflu ehf. samtals 998.755 krónur á vormánuðum 2016 í þágu fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni Hlíðarenda 1–7, Reykjavík.

        Stefnandi hafi einnig samið við og greitt Grettisafli ehf., ATR Verki ehf. og Sjónhag ehf. samtals 73.470 krónur á vormánuðum 2016 í þágu fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni Hlíðarenda 1–7, Reykjavík.

        Stefnandi og stefndi hafi komið sér saman um að stefnandi myndi reikna 14,5% álag ofan á allan raunkostnað vegna vinnu hönnuða, sem félli til vegna verksins, sbr. 2. mgr. 4. gr. verksamningsins á milli stefnanda og stefnda. Stefnandi hafi greitt hönnuðum samtals 25.826.922 krónur á haustmánuðum 2015, án virðisaukaskatts, og því hafi umsamið álag verið samtals 3.744.904 krónur og með virðisaukaskatti hafi álagið verið samtals 4.643.681 króna.

          Á vormánuðum 2016 hafi stefnandi greitt hönnuðum samtals 872.378 krónur, án virðisaukaskatts, og því hafi umsamið álag verið samtals 126.495 krónur vegna þeirra greiðslna. Með virðisaukaskatti hafi umsamið álag vegna útlagðs kostnaðar stefnanda á vormánuðum 2016 verið samtals 156.854 krónur.

        Krafist sé greiðslu vegna 353,5 vinnustunda tæknimanna stefnanda; Stefán Más, Birgis Karlssonar, Héðins Hákonarsonar og Arnar Tryggva Johnsen, samtals að fjárhæð 7.890.120 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.

        Stefán Már sé mælingamaður sem hafi unnið við mælingar á D-reit Hlíðarendalóðarinnar. Hann hafi séð um sniðmælingar á öllum reitnum ásamt því að gera yfirborðslíkan. Einnig hafi hann séð um mælingar og útreikninga á uppúrtekt verktaka og framvindu verksins og um útreikninga á magni. Birgir Karlsson hafi innt af hendi sérfræðiráðgjöf vegna grunnunar, jarðvegsskipta, hönnunarbreytinga og samningagerðar við jarðvinnuverktaka. Héðinn Hákonarson hafi verið byggingarstjóri verksins frá 1. október 2015 og hafi sem slíkur haft eftirlit með jarðvinnuframkvæmdum, setið verkfundi, farið yfir magnútreikninga, séð um samskipti við byggingaryfirvöld o.fl. Örn Tryggvi Johnsen hafi séð um verkefnastjórn, setið samráðs- og verkfundi, séð um samningagerð og verklýsingu vegna jarðvinnu og haft samskipti við undirverktaka og byggingaryfirvöld ásamt öðru. Einnig hafi hann setið vikulega samráðsfundi frá 1. september 2015 til 31. desember 2015, samtals 21 fund, en hver fundur hafi að jafnaði tekið 2,5 tíma með akstri og undirbúningi. Einnig hafi hann setið reglubundna samráðsfundi og vikulega verkfundi frá janúar 2016 til mars 2016, samtals 14 fundi.

    Með tilliti til samningssambands stefnanda, sem verktaka, og stefnda, sem verkkaupa, og þeirrar miklu vinnu sem innt hafi verið af hendi af hálfu stefnanda til að tryggja eðlilegan framgang verksins í samræmi við óskir stefnda sé eðlilegt að stefnandi krefjist, ásamt endurgreiðslu útlagðs kostnaðar, greiðslu fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi vegna verksins.

        Skrifstofu- og fjármagnskostnaður stefnanda, samtals að fjárhæð 3.766.197 kr., sé m.a. komin til vegna útlagðs kostnaðar af byggingarstjóratryggingu, ábyrgðatryggingu verktaka, umsýslu á skrifstofu, sem og vegna aðkeyptrar sérfræði- og lögfræðiráðgjafar vegna fjármögnunar verksins.

         Þess sé krafist að stefndi greiði skuld sína við stefnanda vegna framangreindra verkframkvæmda við lóðina Hlíðarenda 1–7. Stefndi hafi vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda með því að greiða honum ekki fyrir útlagðan kostnað og eigin vinnu, sem hafi farið fram í þágu og með vilja stefnda.

        Stefnandi hafi gefið út reikning fyrir verkinu þann 31. desember 2015 og fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda þá numið 48.377.461 krónu. Ekki sé krafist dráttarvaxta frá því að kostnaður féll til hjá stefnanda, sem þó hefði verið eðlilegt að gera, heldur einungis frá útgáfu reikningsins, sem sé lægri fjárhæð en ella. Krafa um greiðslu reikningsins hafi síðan verið ítrekuð þann 18. apríl 2016, en þá hafi reikningurinn sendur til til stefnda í tölvupósti. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé þess krafist að krafa stefnanda, að fjárhæð 48.377.461 króna, beri dráttarvexti frá 31. janúar 2016 til 19. janúar 2017. Með vísan til 4. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 sé þess krafist að krafa stefnanda, að fjárhæð 49.652.855 krónur, beri dráttarvexti frá 19. janúar 2017.

        Kröfur stefnanda byggi m.a. á meginreglum samningaréttar um að gerða samninga skuli halda og meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan  fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrirsvar eigi stoð í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing stefnanda sé vísað til 1. mgr. 33. gr. sömu laga.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda

           Stefndi byggi á því að framangreindir samningar hafi átt að ramma inn samstarf samningsaðila um uppbyggingu og framkvæmdir á D-reit. Stefndi hafi átt að vera samstarfsvettvangur Hlíðarfótar ehf. og Arcusar ehf. um uppbyggingu á reitnum, sbr. það sem komi t.d. fram í gr. 1.2 í kaupsamningnum frá 23. september 2015. Með þessu hafi átt að vera tryggt að allar ákvarðanir varðandi skipulag og undirbúningsframkvæmdir á reitnum yrðu teknar á vettvangi stefnda með aðkomu Hlíðarfótar ehf. á meðan Arcus ehf. væri ekki búið að kaupa stefnda að fullu. Arcus hafi enda verið með óverulegan eignarhlut, 10%, fram til þess tíma og víðtæka heimild til að ganga út úr samningum við Hlíðarfót um eignarhlutina í stefnda, sem Arcus ehf. hafi raunar nýtt síðar. Í gr. 1.4 í kaupsamningi um 90% eignarhlut í stefnda frá 23. september 2015 komi þannig eftirfarandi fram til samræmis við þetta: „Hyggjast aðilar starfa saman í gegnum sameiginlegt eignarhald sitt á Landhlíð að uppbyggingu og framkvæmdum lóðarinnar að Hlíðarenda 1–7, Reykjavík, a.m.k þar til það liggur fyrir hvort kaupandi muni nýta sér rétt sinn til að falla frá kaupum á eignarhlutum samkvæmt samningi þessum.“

         Í stjórn stefnda hafi átt að vera annars vegar Brynjar Harðarson, skipaður af Hlíðarfæti, og hins vegar Þorvaldur H. Gissurarson, skipaður af Arcusi ehf., en hann sé fyrirsvarsmaður bæði Arcusar ehf. og stefnanda. Til þess hafi þó aldrei komið að Þorvaldur Gissurarson tæki sæti í stjórn stefnda. Það hafi hins vegar legið fyrir að allar ákvarðanir, sem tengdust rekstri og starfsemi stefnda, skyldu vera teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum félagsins, sbr. gr. 5.5 í hluthafasamkomulagi Arcusar ehf., Hlíðarfótar ehf. og stefnda. Þá hafi komið fram í gr. 3.2.8 í hluthafasamkomulaginu að samþykki allra (beggja) hluthafa stefnda þyrfti til að taka ákvarðanir um málefni, sem tengdust rekstri stefnda og ekki hefði náðst samstaða um í stjórn og vísað hefði verið til hluthafafundar. Með þessu hafi átt að tryggja sameiginlega ákvarðanatöku beggja hluthafa í stefnda.

        Í kjölfar þess að gengið hafi verið frá framangreindum samningum í september 2015 hafi gatnagerðarvinna verið sett af stað á Hlíðarendareit af hálfu Reykjavíkurborgar fyrir tilstuðlan forsvarsmanna Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna hf. Forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna hf. hafi fengið það í gegn hjá Reykjavíkurborg að graftarleyfi yrði gefið út fyrir D-reit þannig að hægt væri að hefja þar jarðvegsskipti og nýta tímann til undirbúningsframkvæmda meðan leyst væri úr ágreiningi ríkis og borgar. Þetta hafi fengist í gegn þó að gatnagerðargjöld yrðu ekki strax greidd, eins og venjan sé, en það hafi leitt til verulegs vaxtasparnaðar fyrir aðila. Framkvæmdir þessar hafi upphaflega verið greiddar af Reykjavíkurborg og Valsmenn hf. síðan endurgreitt borginni en hvorki stefnandi né Arcus hafi lagt út neina fjármuni vegna þessara framkvæmda.

            Á þeim vikum sem hafi farið í hönd eftir fyrrgreinda samninga á milli aðila hafi hin fyrirhugaða samvinna við Arcus ehf. og Þorvald um undirbúningsvinnu fyrir D-reit ekki gengið sem skyldi. Lánveiting Arcusar til stefnda hafi ekki gengið eftir þar sem Þorvaldur hafi ekki viljað gangast fyrir henni. Strax hafi verið óskað eftir við Þorvald að Arcus ehf. legði einhverja fjármuni inn á bankareikning stefnda til að greiða ýmsan upphafskostnað fyrir stefnda og því hafi hann einnig hafnað. Þorvaldur hafi síðan hafið að vinna einhliða að ýmiss konar breytingum á þegar fyrirliggjandi hönnun bygginga fyrir D-reit í gegnum annað félag sitt, stefnanda, án samráðs við stjórnarmann stefnda, Brynjar, eða aðra forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. eða Valsmanna hf. Þannig hafi Þorvaldur staðið fyrir því að gerðar hafi verið viðamiklar breytingar á teikningum sem búið hafi verið að gera fyrir reitinn, en stærsti þáttur þeirra breytinga hafi verið að Þorvaldur hafi látið minnka áður teiknaðan bílakjallara á reitnum um 2/3 hluta og fylla hann með dýru jarðefni (bögglaefni), sem stefndi og móðurfélag stefnda hafi síðar verið krafin um greiðslu á af hálfu Reykjavíkurborgar. Framangreindar breytingar hafi aldrei verið samþykktar á stjórnarfundum stefnda eða gerðar í samráði við stefnda eða Hlíðarfót. Það hefði verið nauðsynlegt ef ætlunin hefði verið að binda stefnda við framangreindar ákvarðanir Þorvaldar og stefnanda, óháð efndum Arcusar ehf. á kaupsamningum við Hlíðarfót ehf., en Arcus hafði á þessum tíma möguleika á að ganga út úr kaupsamningum um stefnda, sem og félagið gerði síðar. Stefnanda og Þorvaldi hafi mátt vera ljóst að Brynjari, sem stjórnarmanni stefnda, og öðrum forsvarsmönnum Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna hf. hugnuðust ekki þær breytingar sem Þorvaldur og stefnandi stóðu fyrir og hefðu aldrei samþykkt þær meðan ekki var ljóst hvort Arcus ehf. myndi kaupa hlutafé í stefnda að fullu eða ekki.

         Stefnandi hafi hinn 22. október 2015 lagt inn umsókn til Samgöngustofu um að fá að reisa byggingarkrana á byggingarsvæði við D-reit. Þeirri umsókn hafi verið hafnað hinn 3. nóvember 2015, enda hafi á þeim tíma ekki verið búið að loka flugbraut NA/SV og deilur ríkis og borgar í hámæli. Stefnanda hafi því mátt vera ljóst að slíkri beiðni yrði synjað á þeim tíma. Þá hafi einnig legið fyrir að byggingarkranar yrðu ekki reistir á svæðinu á þessum tíma þar sem jarðvegsframkvæmdir hafi enn verið í gangi þar.

        Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu að stefnandi og stefndi hafi komið sér saman um að fyrirkomulag framkvæmda á D-reit skyldi vera í formi stýriverktöku og að samningur, sem þó hafi ekki verið undirritaður, sbr. dskj nr. 8, hafi verið gerður þar að lútandi. Þetta sé einfaldlega rangt. Aldrei hafi verið samið um slík atriði milli stefnanda og stefnda, hvorki munnlega né skriflega, en lögmaður stefnanda hafi þegar viðurkennt í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda að framangreindur samningur á dskj. nr. 8 hafi aldrei verið gerður á milli aðila. Það skjal hafi því enga þýðingu í málinu.

        Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi að fullu upplýst um framgang og tilhögun framkvæmda á D-reit á samráðs- og verkfundum, sem haldnir hafi verið vegna Hlíðarendareits og stefnandi vísi til í stefnu. Á þeim fundum hafi aldrei verið fjallað um undirbúningsvinnu fyrir D-reitinn, heldur hafi þeir fundir snúið að framkvæmdum á Hlíðarendareit í heild, t.a.m. gatnagerðarframkvæmdum þar. Til þessa sé vísað í grein 8.1 í kaupsamningi um 10% hlut í stefnda, sbr. dskj. nr. 4, þar sem sagði: „Kaupandi mun meðal annars taka sæti í stýrihóp Hlíðarendareits og vinna þar að þeim verkefnum sem þar er stýrt. Stýrihópurinn vinnur sameiginlega að hagsmunamálum Hlíðarendareits.“ Þá sé því mótmælt, sem fram komi í stefnu, að stefnandi og stefndi hafi komið sér saman um að stefnandi myndi semja um og hafa umsjón með gerð allra hönnunargagna, sbr. áðurgreindan óundirritaðan verksamning á dskj. nr. 8. Aldrei hafi verið samið um slíkt milli stefnanda og stefnda. Stefnandi hafi tekið einhliða ákvörðun um að semja við verkfræðistofur og fleiri aðila um aðkomu að verkinu og að gera ýmiss konar breytingar á áðurgerðum teikningum fyrir reitinn.

        Því sé sérstaklega mótmælt, sem fram komi í stefnu, að stefndi hafi verið að fullu meðvitaður um að stefnandi væri að leggja út í þann kostnað sem tilgreindur sé í stefnu vegna undirbúningsvinnu fyrirhugaðra verkframkvæmda á D-reit. Sá kostnaður hafi ekki orðið ljós fyrr en Þorvaldur hafi farið að þrýsta á að stefndi ábyrgðist kostnaðinn þegar hann hafi farið að fá bakþanka um flugvallarmálið og viljað geta tryggt sig úr verkefninu, sbr. bréf Arcusar ehf. til Hlíðarfótar ehf. frá 15. desember 2015. Brynjar Harðarson, sem stjórnarmaður í stefnda, og aðrir forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. hafi aldrei verið upplýstir um þær viðamiklu breytingar sem stefnandi lét gera á áðurgerðum teikningum og hönnun fyrir reitinn, og engan veginn verið meðvitaðir um hið mikla umfang þeirrar vinnu og þær kostnaðarhækkanir sem þær breytingar hefðu í för með sér. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að stefnandi hafi samið við umrædda hönnuði og verkfræðistofur og stofnað til meirihluta umkrafins kostnaðar á aðeins nokkurra vikna tímabili. Eftir að Brynjar hafi fengið fregnir af því að Þorvaldur hefði sett af stað vinnu hjá Alark arkitektum ehf. hafi ítrekað verið gengið á eftir því við Þorvald að hann viðhefði formlegri samskipti við Brynjar sem stjórnarmann stefnda vegna vinnu á reitnum, en án árangurs. Þar sem ekki hafi gengið að fá Þorvald til að hafa samráð um vinnuna hafi verið óhjákvæmilegt að líta svo á að hann, í gegnum stefnanda eða Arcus, bæri ábyrgð á þeirri vinnu sem hann hefði ráðist í og færi í hana á eigin kostnað, enda hefði stefndi ekki getað verið bundinn af ákvörðunum hans þar að lútandi ef Arcus gengi á endanum út úr kaupsamningum um hlutafé í stefnda.

        Þegar liðið hafi fram á vorið 2016 og frestur fyrir Arcus ehf. til að falla frá kaupum á stefnda verið að renna út hafi forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. lýst yfir vilja til að lengja frestinn þar til endanleg niðurstaða fengist í ágreiningsmáli ríkis og borgar. Það hafi verið gert að málaleitan Arcusar ehf. Reykjavíkurborg hafi þá verið búin að stefna ríkinu vegna lokunar flugbrautarinnar og héraðsdómur fallið borginni í vil, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. mars 2016. Þegar til hafi átt að taka hafi forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. og Arcusar ehf. hins vegar ekkekki náð saman um lengingu á fresti og Þorvaldur og Arcus ehf.  skyndilega ákveðið að hætta við kaupin á stefnda og gengið út úr áðurgerðum kaupsamningum. Þorvaldur hafi, f.h. Arcusar ehf., tilkynnt um það með bréfi hinn 22. apríl 2016.

        Eftir að Arcus hafi gengið út úr samningunum hafi orðið ljóst að þær breytingar, sem Þorvaldur hafði gert á fyrirkomulagi jarðvegsskipta á D-reit hefðu skapað umtalsverðan kostnaðarauka á þeim verklið. Þorvaldur hafi gert ráð fyrir stórfelldri minnkun á bílakjallara fyrirhugaðrar byggingar, eins og áður segir, sem hafi haft í för með sér miklar auknar jarðvegsfyllingar. Nú þegar sé ljóst að nýr framkvæmdaaðili muni byggja á reitnum í grundvallaratriðum eftir þeim upphaflegu teikningum sem fylgdu með í kaupum Arcusar, og þurfi hann því að fjarlægja alla þessa viðbótarrúmmetra af svokölluðu bögglaefni. Þannig hafi jarðvegspúði D-reits orðið um 45 milljónum krónum dýrari en ef upphaflegum teikningum hefði verið fylgt, sbr. dskj. nr. 31. Því sé ljóst að þær ráðstafanir sem stefnandi hafi staðið fyrir á reitnum hafi ekki verið til hagsbóta fyrir eða í þágu stefnda, heldur þvert á móti hafi þær skapað stefnda og móðurfélögum stefnda kostnað. Þá hafi þær teikningar og hönnunargögn sem stefnandi lét vinna aldrei nýst af hálfu stefnda eða annarra, sem síðar keyptu lóðar- og byggingarréttindin af stefnda.

         Eftir að Arcus ehf. og Þorvaldur hafi gengið út úr kaupsamningum um stefnda hafi Þorvaldur krafist þess f.h. Arcusar og stefnanda að stefndi greiddi stefnanda vegna vinnu og útlagðs kostnaðar, sem stefnandi hafði staðið fyrir. Hafi Þorvaldur, f.h. Arcusar ehf. og stefnanda, nokkur kröfubréf í því skyni, eins og rakið sé í stefnu, en þar hafi í ýmsum atriðum verið farið með rangt mál af þeirra hálfu. Þá sé ekki rétt, sem fram komi í stefnu, að kröfubréfi stefnanda og Arcusar frá 7. september 2016 hafi ekki verið svarað. Bréfinu hafi verið svarað af hálfu Hlíðarfótar ehf. hinn 29. september 2016. Stefndi hafi hafnaði greiðsluskyldu og kröfum stefnanda og í kjölfarið hafi stefnandi höfðað þetta mál.

        Stefndi byggi sýknukröfu sína af kröfum stefnanda á því að enginn verksamningur hafi komist á milli stefnanda sem verktaka og stefnda sem verkkaupa, hvorki skriflegur né munnlegur, um þá vinnu og þann kostnað sem stefnandi hafi stofnað til vegna D-reits Hlíðarendareits og stefnandi krefji stefnda nú um greiðslu á. Þá byggi stefndi á því að umkrafin vinna og kostnaður hafi aldrei verið samþykkt á stjórnarfundum eða á öðrum vettvangi stefnda þannig að bindandi væri fyrir stefnda.

        Stefnandi geri þá kröfu að stefndi greiði honum samtals 20.680.704 kr. vegna útlagðs kostnaðar til Alark arkitekta ehf. á haustmánuðum 2015. Stefndi hafni því að honum beri að greiða þennan kostnað. Stefndi byggi á því að hvorki hafi samningar milli hans og stefnanda verið gerðir né að samþykki stefnda hafi legið fyrir vegna umkrafinnar vinnu arkitektastofunnar, sem ráðist var í fyrir tilstuðlan stefnanda og Þorvaldar, og hafi falist í breytingum á áðurgerðum teikningum fyrir D-reit.

        Líkt og fram komi í tilvísuðum kaupsamningi í stefnu, sbr. gr. 1.6, hafi legið fyrir samþykktar byggingarnefndarteikningar Alark arkitekta ehf. þegar kaupsamningurinn var gerður og arkitektastofan þegar hafið vinnu við verkteikningar. Þá komi fram í greininni að Hlíðarfótur ehf. og Arcus ehf. hafi ætlað sér í gegnum sameiginlegt eignarhald á stefnda að leitast við að semja við Alark arkitekta ehf. um áframhaldandi hönnun verksins. Ekkert hafi hins vegar rætt um að breyta ætti fyrirliggjandi teikningum og minnka bílakjallara, sem stefnandi hafi hins vegar staðið fyrir að væri gert. Af framlögðum dómskjölum varðandi vinnu Alark arkitekta ehf., sbr. dskj. nr. 17, 21 og 23, megi glögglega sjá að vinna arkitektastofunnar á haustmánuðum 2015 hafi snúist um viðamiklar breytingar á áðurgerðum teikningum að beiðni stefnanda og Þorvaldar. Af fundargerðum á dskj. nr. 23 megi einnig sjá að stjórnarmaður stefnda, Brynjar Harðarson, eða aðrir fulltrúar Hlíðarfótar ehf. eða Valsmanna hf. hafi ekki setið neina af þeim fundum sem haldnir voru með arkitektastofunni og öðrum aðilum. Megi því vera ljóst að hvorki Brynjar, sem stjórnarmaður í stefnda, eða aðrir forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna hf., hafi verið upplýstir eða meðvitaðir um þær breytingar sem stefnandi hafi staðið fyrir að væru gerðar, hvað þá að þeir hafi samþykkt slíkar breytingar. Óhjákvæmilegt sé að telja að Þorvaldur og stefnandi hafi talið þessa vinnu alfarið á sína ábyrgð og ekki koma stjórnarmanni stefnda við, þar sem eignarhald Hlíðarfótar ehf. í verkefninu ætti aðeins að vera tímabundið og stefndi yrði innan skamms alfarið í eigu Arcusar ehf.

        Stefndi byggi á því að stefnandi hafi á eigin ábyrgð látið gera breytingar á þegar gerðum teikningum fyrir D-reit með því að leita ekki samþykkis stefnda eða Hlíðarfótar ehf. fyrir slíkri vinnu. Stefnandi, sem reyndur verktaki, hafi mátt vita að ræða þyrfti slíkar breytingar og samþykkja sérstaklega áður en farið yrði í þær. Stefnandi verði því að bera þann kostnað sem af þeirri vinnu hlaust. Systurfélag stefnanda, Arcus ehf., hafi ákveðið að ganga út úr kaupsamningum um stefnda, sem gerðir höfðu verið við Hlíðarfót ehf. Ljóst megi vera að stefnandi og Þorvaldur hafi ekki einhliða getað ráðist í umræddar breytingar með tilheyrandi kostnaði og gengið svo út frá því að stefndi myndi greiða fyrir þær breytingar ef og þá eftir að systurfélag stefnanda og Þorvaldur hættu við kaupin á stefnda. Sú vinna sem stefnandi hafi staðið fyrir hafi hvorki nýst stefnda að neinu leyti né síðari kaupendum lóðar- og byggingarréttindanna á D-reit Hlíðarendareits. Breytingarnar hafi í grundvallaratriðum verið andstæðar hugmyndum forsvarsmanna stefnda og Hlíðarfótar ehf. um verkefnið, enda hafi þær teikningar sem fylgdu með í kaupunum til Arcusar endurspeglað hugmyndir og skoðanir þeirra á því hvernig þeir teldu verkefnið hagkvæmast og hagfelldast í uppbyggingu og markaðssetningu.

        Samkvæmt öllu framangreindu beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um greiðslu vegna útlagðs kostnaðar til Alark arkitekta ehf. á haustmánuðum 2015, samtals að fjárhæð 20.680.704 kr.

        Stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði honum samtals 11.443.074 kr. vegna útlagðs kostnaðar til Mannvits ehf., Eflu ehf., Grettisafls ehf., ATR Verks ehf. og Málflutningsstofu Reykjavíkur ehf. á haustmánuðum 2015. Stefndi hafni því að honum beri að greiða þennan kostnað. Stefndi byggi á því að hvorki hafi verið gerðir samningar milli hans og stefnanda um þessa vinnu né að samþykki stefnda fyrir vinnu þessara aðila hafi legið fyrir þegar stefnandi stofnaði til þessa kostnaðar.

        Áður en Arcus og Þorvaldur að verkinu við D-reit hafi Valsmenn samið við VEB ehf. um verkfræðiþætti verksins. Þorvaldur hafi hins vegar kostið að nýta þá stofu ekki fyrir verkið og samið í staðinn, í gegnum stefnanda, við Mannvit ehf. og Eflu ehf. Stefnandi hafi tekið einhliða ákvörðun um að leita til þessara aðila og stofna til samninga við þá um hönnunar- og verkfræðiþjónustu, án vitneskju Brynjars, stjórnarmanns stefnda, og annarra forsvarsmanna Hlíðarfótar. Slíkt samráðsleysi sé auðvitað mjög óeðlilegt þar sem þegar hafi verið búið að finna aðila fyrir verkfræðiþætti verksins. Af reikningum, samningum og samskiptum við Mannvit ehf. og Eflu ehf. megi sjá, sbr. einkum dskj. nr. 19, 22 og 25, að verk þessara aðila hafi einkum verið unnið út frá breyttum teikningum Alark arkitekta ehf. Hið sama eigi við um vinnu ATR Verks ehf. og Grettisafls ehf., sbr. dskj. nr. 20. Vinna allra þessara aðila hafi aldrei nýst stefnda eða síðari kaupendum að lóðar- og byggingarréttindum við D-reit eins og áður segi. Hvað varði lögfræðiþjónustu, sem stefnandi hafi sótt sér, þá verði hann að bera slíkan kostnað sjálfur, enda alfarið hans ákvörðun að leita slíkrar þjónustu. Stefnandi hafi borið áhættuna af því að stofna til framangreindrar vinnu án samþykkis stefnda og verði að bera þann kostnað sem af þeirri vinnu hlaust. Beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda að því er varðar útlagðan kostnað til framangreindra aðila, samtals að fjárhæð 11.443.074 kr.

        Stefndi mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda að það liggi skýrt fyrir í framlögðum gögnum að stefnandi hafi stofnað til framangreinds hönnunar- og verkfræðikostnaðar, að fjárhæð 32.123.778 kr., með vitund og vilja stefnda. Stefnandi hafi ekki lagt fram neina samninga eða önnur gögn sem sýni fram á að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða þennan kostnað, enda hafi stefndi aldrei skuldbundið sig til þess. Með þeim breytingum, sem stefnandi hafi gert á fyrirliggjandi teikningum hafi ekki einvörðungu hugmyndafræði verkefnisins og hönnun verið kollvarpað, heldur einnig verkfræðilegum forsendum þess, þar sem gerðar hafi verið grundvallarbreytingar á burðarvirki bílakjallara byggingarinnar og öllu fyrirkomulagi hans. Á engum tíma hafi þessar umfangsmiklu breytingar verið ræddar eða kynntar stjórnarmanni stefnda eða öðrum forsvarsmönnum Hlíðarfótar ehf. og Valsmanna hf. Staðreyndin sé sú, að Þorvaldur hafi hagað sér líkt og Arcus ehf. hefði þegar eignast stefnda þegar stefnandi stofnaði til framangreinds kostnaðar og taldi sig ekki þurfa að bera neinar ákvarðanir undir Brynjar, stjórnarmann stefnda, eða aðra forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. Þorvaldi hafi hins vegar mátt vera ljóst að það þyrfti hann að sjálfsögðu að gera teldi hann ríkja einhvers konar samábyrgð um þessar breytingar. Umrædd vinna hafi ekki farið fram í þágu stefnda en breyttar teikningar og önnur vinna í þá veru hafa aldrei verið nýtt af stefnda. Sú vinna, sem stefnandi hafi staðið fyrir, hafi hins vegar haft í för með sér kostnað fyrir stefnda og móðurfélög stefnda, sbr. það sem áður sé rakið.

Stefnandi krefji stefnda um greiðslu vegna útlagðs kostnaðar til framangreindra aðila á vormánuðum 2016, samtals að fjárhæð1.072.225 kr. Stefnandi vísi til sömu röksemda og raktar sé hér að framan, sem varði útlagðan kostnað á haustmánuðum 2015. Stefndi hafni því að honum beri að greiða stefnanda framangreinda fjárhæð. Stefndi vísi til og byggi á sömu málsástæðum og röksemdum og hér að framan um það að stefnda sé ekki skylt að greiða stefnanda vegna útlagðs kostnaðar stefnanda á vormánuðum 2016 en stefndi hafi aldrei samþykkt að stefnandi legði út í þennan kostnað. Til viðbótar við fyrri röksemdir sé einnig bent á að Arcus ehf., systurfélag stefnanda, hafi sent Hlíðarfæti bréf hinn 15. desember 2015 þar sem hafi komið fram að félagið, og þar með stefnandi, myndi ekki taka þátt í frekari framkvæmdum né leggja út fyrir frekari kostnaði fyrr en Hlíðarfótur ehf. hefði undirgengist tiltekin skilyrði, sem sett hafi verið í bréfinu. Hlíðarfótur hafi ekki gengist undir þau skilyrði. Þrátt fyrir fyrri staðhæfingu í framangreindu bréfi um að svo yrði ekki gert hafi stefnandi haldið áfram að vinna með og stofna til samninga við framangreinda aðila á vormánuðum 2016. Stefndi hafi ekkert komið að þeirri vinnu og aldrei samþykkti þá vinnu. Verði stefnandi því að bera framangreindan kostnað sjálfur. Beri því að sýkna stefnda af greiðslukröfu stefnanda að fjárhæð 1.072.225 kr.

        Stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði honum 14,5% álag að fjárhæð 4.643.681 króna vegna greiðslu til hönnuða á haustmánuðum 2015 og að fjárhæð 156.854 kr. vegna greiðslu til hönnuða á vormánuðum 2016. Um þetta vísi stefnandi til 2. mgr. 4. gr. óundirritaðs verksamnings á dskj. nr. 8. Stefndi mótmæli því að hann og stefnandi hafi komið sér saman um að stefnandi myndi reikna 14,5% álag ofan á allan raunkostnað vegna vinnu hönnuða, sem félli til vegna fyrirhugaðs verks, líkt og haldið sé fram í stefnu. Stefndi byggi á því að samningur um framangreint álag hafi aldrei verið gerður milli aðila, hvorki skriflegur né munnlegur. Eins og áður greini, og komið hafi fram í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, þá hafi framangreindur óundirritaður samningur á dskj. nr. 8 aldrei verið gerður milli stefnanda og stefnda. Þá hafi stefnandi raunar einnig viðurkennt að skjal þetta hafi aldrei farið á milli aðila. Þessi kröfuliður stefnanda sé því algerlega úr lausu lofti gripinn. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann og stefndi hafi samið um framangreint álag. Beri því að sýkna stefnda af framangreindri kröfu stefnanda.

      Stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði stefnanda 7.890.120 kr. fyrir vinnu tæknimanna vegna fyrirhugaðs verks á D-reit. Stefndi hafni því að honum beri að greiða framangreinda fjárhæð vegna vinnu starfsmanna stefnanda. Í fyrsta lagi byggi stefndi á því að ekkert samkomulag hafi verið gert um framangreinda vinnu starfsmanna stefnanda. Í öðru lagi þá hafi engar vinnuskýrslur verið lagðar fram um vinnu umræddra starfsmanna. Í þriðja lagi þá hafi hvorki tímaskýrslur né tilgreindur tímafjöldi, sem sagður er hafa farið í verkið, nokkurn tíma verið samþykkt af hálfu stefnda, en það sé t.d. engan veginn mögulegt fyrir stefnda að átta sig á hvort hinn ætlaði tímafjöldi megi teljast eðlilegur í ljósi þeirrar vinnu sem stefnandi haldi fram að hafi verið unnin. Í fjórða lagi þá hafi stefnandi og Þorvaldur staðið fyrir breytingum á áðurgerðum teikningum fyrir reitinn, sem stefndi samþykkti aldrei. Sú mælingarvinna eða önnur vinna sem starfsmenn stefnanda hafi staðið fyrir hafi því ekki nýst stefnda, eða a.m.k. sé engan veginn hægt að sjá það af lýsingu stefnanda í stefnu hvort og þá hvaða vinna tæknimanna hafi varðað þær teikningar sem þegar hafi legið fyrir. Til viðbótar við framangreint þurfi einnig að hafa í huga að sú leið sem stefnandi hafi ákveðið að fara við vinnu á reitnum hafi ekki verið sú hagkvæmasta. Stefnandi hafi sem dæmi kosið að nota mun meira magn af yfirborðsfyllingu (grús) á reitinn en gert hafi verið á öðrum reitum á Hlíðarendareit. Á öðrum reitum hafi verið notað mun meira magn af svokölluðu undirfyllingarefni, sem sé mun ódýrara og hafi jafnvel fengist frítt frá öðrum verktökum, sem hafi þurft að losa sig við slíkt efni. Sú leið sem stefnandi hafi valið við vinnu á reitnum hafi því valdið stefnda og móðurfélögum auknum kostnaði.

        Stefndi mótmælir því sérstaklega að honum beri að greiða stefnanda fyrir setu Arnar Tryggva Johnsen á vikulegum samráðs- og verkfundum um Hlíðarendareit, annars vegar frá september til desember 2015 og hins vegar frá janúar til mars 2016. Á þessum fundum hafi gatnagerðarframkvæmdir og aðrar sameiginlegar framkvæmdir á Hlíðarendareit verið ræddar en ekki atriði í tengslum við framkvæmdir á einstökum reitum að öðru leyti en því sem hafi snúið að sameiginlegum málefnum, svo sem aðkomu að svæðum og lagnamálum. Þá hafi Brynjar, stjórnarmaður stefnda, einnig setið þessa fundi og enn fleiri fundi en Örn, án þess að fá nokkuð greitt fyrir þá vinnu, en ekki hafi verð gert ráð fyrir að greitt yrði fyrir hana sérstaklega. Samkvæmt öllu framangreindu beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar vegna ætlaðrar vinnu starfsmanna stefnanda samkvæmt þessum kröfulið.

         Stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði svokallaðan skrifstofu- og fjármögnunarkostnað stefnanda, sem stefnandi segi útlagðan kostnað vegna byggingarstjóratryggingar, ábyrgðartrygginga verktaka, umsýslukostnaðar á skrifstofu og aðkeyptrar sérfræði- og lögfræðiráðgjafar, samtals að fjárhæð 3.766.19 kr. Stefndi hafni þessum kröfulið alfarið. Stefndi byggi á því að hvorki samningar né samkomulag hafi komist á milli aðila um að stefnda bæri að greiða ætlaðan framangreindan kostnað. Þá hafi stefnandi ekki sannað að hann hafi lagt út fyrir framangreindum kostnaði, en hvorki reikningar né önnur gögn liggi fyrir um þennan ætlaða kostnað stefnanda. Þar að auki sé kostnaður þessi í engu sundurliðaður og því ómögulegt að sjá hver skipting hans sé milli mismunandi liða. Stefndi viti heldur ekki til þess að neinar tryggingar hafi verið lagðar fram af hálfu stefnanda eða annarra aðila vegna vinnu stefnanda. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að lagt hafi verið út fyrir framangreindum kostnaði né að stefnda beri að greiða hann. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda að því er varði þennan kröfulið.

    Stefndi byggi á því að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að komist hafi á skriflegur né munnlegur samningur milli hans og stefnda um hina umkröfðu vinnu og kostnað. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á hvað hafi falist í meintum munnlegum samningi aðila, sem hann hafi haldið fram að hefði komist á milli aðila um vinnu á D-reit. Raunar sé algerlega óljóst hvað stefnandi vilji meina að aðilar hafi samið um. Stefnandi beri hins vegar sönnunarbyrðina um framangreint. Staðreyndin sé sú að stefnandi eða nánar tiltekið fyrirsvarsmaður stefnanda, hafi tekið einhliða ákvarðanir um ýmsa vinnu fyrir D-reit án þess að bera ákvarðanir sínar undir stefnda eða Hlíðarfót, sem helsta eiganda stefnda. Engir stjórnarfundir hafi verið haldnir á vegum stefnda þar sem teknar hafi verið ákvarðanir um hina umkröfðu vinnu, sem hefði hins vegar verið nauðsynlegt að gera þar sem um mikils háttar ákvarðanir hafi verið að ræða. Þetta hafi stefnanda, sem margreyndum verktaka og sérfróðum á sviði verksamningsgerðar, átt að vera ljóst. Háttsemi stefnanda hafi heldur ekki verið í neinu samræmi við fyrirætlanir Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. um samráð vegna þeirrar vinnu sem fara hafi átt í fyrir reitinn. Brynjar, stjórnarmaður stefnda, og aðrir forsvarsmenn Hlíðarfótar og Valsmanna hafi engan veginn verið meðvitaðir um umfang þeirrar vinnu sem stefnandi hafi ráðist í, og sá kostnaður sem stefnandi hafi stofnaði til hafi engan veginn verið fyrirsjáanlegur. Með vísan til þessa og alls framangreinds sé sýknukrafa stefnda áréttuð.

        Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um dráttarvexti eins og hún er sett fram í stefnu. Stefndi hafni því að honum beri að greiða dráttarvexti af 48.377.461 krónu frá 31. janúar 2016 til 19. janúar 2017. Verði fallist á kröfur stefnanda byggi stefndi aðallega á því að honum beri eingöngu að greiða dráttarvexti af fjárhæðinni frá þeim degi þegar dómsmál var höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Til vara byggi stefndi á því, ef fallist verður á dómkröfur stefnanda, að honum beri eingöngu að greiða dráttarvexti af 48.377.461 krónu frá 18. maí 2016, þegar liðinn var mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslu með því að senda reikning hinn 18. apríl 2016 í tölvupósti, til 19. janúar 2017, en að öðru leyti frá þeim degi til greiðsludags.

        Um lagarök vísi stefndi m.a. til meginreglu samningaréttar um stofnun samninga, meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, IX. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og reglna félagaréttar um heimildir til skuldbindinga félags. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna.

V.

Niðurstaða

        Stefnandi byggir í stefnu kröfur sínar á því að komist hafi á verksamningur milli hans sem verktaka og stefnda sem verkkaupa og lagði hann samninginn fram óundirritaðan með stefnu. Stefndi byggir á því að enginn verksamningur hafi komist á milli aðila, hvorki skriflegur né munnlegur. Verksamningsdrögin eru óundirrituð en með fyrirsögninni „Verksamningur milli Landhlíðar ehf. og ÞG Verktaka, Hlíðarendi D reitur“. Í framangreindum dómi Hæstaréttar nr. 347/2017 segir að með stefnu í málinu hafi stefnandi lagt fram óundirritaðan verksamning, sem hann kvað aðila þó ekki hafa samþykkt. Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að við flutning um frávísunarkröfu í málinu hafi Landhlíð ehf. lýst því yfir að verksamningurinn væri ekki í gildi og óskuldbindandi milli aðila. Vefengdu því báðir aðilar að verksamningurinn væri skuldbindandi fyrir þá. Væri því ekki fyrir að fara í málinu gildum gerðarsamningi þar sem aðilar afsöluðu sér meðferð almennra dómstóla um þann ágreining. Hæstiréttur hafnaði frávísun af þessum sökum. Í máli þessu verður því að leggja til grundvallar atvikalýsingu og niðurstöðu í dómi Hæstaréttar um að framangreind verksamningsdrög séu ekki skuldbindandi fyrir aðila, sbr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

        Í hluthafasamkomulagi aðila um stefnda, dags. 23. september 2015, segir í grein 5.5 að allar ákvarðanir, sem tengist rekstri og starfsemi félagsins, skuli teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum. Komi til þess að ekki náist samstaða á milli stjórnarmanna félagsins við afgreiðslu einstakra mála skuli hvorum stjórnarmanni um sig heimilt að krefjast þess að málinu verði vísað til hluthafafundar. Eins og rakið hefur verið var tilgangur þessa hluthafasamkomulags að ramma inn samstarf samningsaðila um uppbyggingu á lóðinni Hlíðarenda 1–7 í Reykjavík og var stefnda þannig ætlað að vera samstarfsvettvangur Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf.

        Eins og rakið hefur verið fór vinna við gatnagerð á Hlíðarendareit í gang í framhaldi af samningum í september 2015 eftir að fengist hafði graftarleyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir D-reit án þess að gatnagerðargjöld yrðu greidd strax. Þessar framkvæmdir voru upphaflega greiddar af Reykjavíkurborg. Valsmenn ehf. endurgreiddu síðan borginni þennan kostnað en stefnandi og Arcus ehf. lögðu ekki fram fé til þessara framkvæmda.

        Varðandi breytingar á framkvæmdum á D-reit þá byggir stefndi á því að ákvarðanir um þær hafi verið teknar einhliða af hálfu Þorvaldar Gissurarsonar án samráðs við Brynjar, stjórnarmann í stefnda, eða aðra forsvarsmenn Hlíðarfótar ehf. eða Valsmanna hf. Þá hafi ákvarðanir um þessar breytingar og samningar þær varðandi aldrei verið teknar á stjórnarfundum í stefnda. Óumdeilt er í málinu að ákvarðanir um framangreint voru ekki teknar formlega á stjórnarfundum í stefnda, eins og þó var mælt fyrir um í hluthafasamkomulaginu.

         Varðandi kröfu um útlagðan kostnað vegna vinnu Alark arkitekta ehf., samtals að fjárhæð 20.680.704 kr., þá byggir stefndi á því að fyrirsvarsmaður stefnda hafi vitað að Þorvaldur hefði verið í viðræðum við Alark arkitekta ehf. þar sem félagið hefði unnið þær samþykktu byggingarnefndarteikningar sem lágu fyrir við kaupsamninginn og leitast hafi átt við að fá félagið til áframhaldandi hönnunar verksins. Hann hafi síðan ekki séð þá samninga sem stefnandi hafi gert við Alark arkitekta, dagsetta 13. október og 27. október 2015, sem liggja fyrir í málinu, fyrr en dómsmál þetta fór af stað. Aldrei hafi hins vegar verið rætt um að breyta ætti fyrirliggjandi teikningum og minnka bílakjallara, sem stefnandi hafi einhliða á nokkurs samráðs staðið fyrir að gert yrði.

         Þorvaldur Gissurarson gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Hann kvað umræddar breytingar hafa komið fram hjá sér við upphaf verks og kvaðst hafa litið svo á að heimilt væri að fara í þessar breytingar. Brynjar Harðarson hafi verið á annarri skoðun en hann en ekki gert sérstakan ágreining. Í þessu sambandi vísaði Þorvaldur til tölvuskeytis þann 18. ágúst 2015 frá Brynjari til sín og Valsmanna hf., en þar segir að búið sé að fara í gegnum teikningar og Alark-menn hafi lagt fram góðar tillögur eftir hans hugmyndum og breytingar á bílakjöllurum muni ekki hafa áhrif á stöðuna og vilja þeirra til að taka aftur við verkefninu fari svo að ríkið hlutist til um framgöngu málsins. Hann kvaðst ekki hafa  skilið þetta öðru vísi en svo að Brynjar hefði verið sáttur við þessar breytingar.

        Brynjar Harðarson gaf skýrslu við aðalmeðferð og kvað aðspurður um framangreint tölvuskeyti að Þorvaldur hefði á sínum tíma verið að spyrja af hverju bílakjallarinn væri með þeim hætti, sem sýndur var á byggingarnefndarteikningum. Hann hafi rætt tæknilegar breytingar, m.a. vegna halla í landinu, en ekkert hafi verið rætt um þær umfangsmiklu breytingar sem síðar komu til. Hann kvað hið sama eiga við varðandi tölvuskeyti frá Þorvaldi 13. ágúst 2015. Það skeyti hafi varðað útveggi. Brynjar kvað Þorvald ekkert samráð hafa haft við sig og kvaðst ítrekað hafa sent boð á Þorvald um að vera í tíðara sambandi við sig. Varðandi samráðsfundi þá kvað hann breytingar á bílakjallara aldrei hafa verið á dagskrá þar, enda þar eingöngu ræddar rætt um vegagerð, veitur og grunnvatnslagnir. Stefndi hafnar því að honum hafi mátt vera ljóst hvaða framkvæmdir voru í gangi á svæðinu. Varðandi tölvusamskipti, sbr. dskj. nr. 24, þar sem rætt er um ÞG fjármagni framkvæmdir eigi hann við Þorvald Gissurarson en ekki ÞG verk ehf.

         Brynjar kvaðst ekki hafa áttað sig á hversu viðamiklar breytingar Þorvaldur hefði gert á bílakjallaranum fyrr en í lokin. Þessar breytingar hafi haft mikinn kostnaðarauka í för með sér fyrir stefnda, bílakjallarinn hafi verið færður í fyrra horf og uppfylling fjarlægð með miklum tilkostnaði fyrir stefnda. Framkvæmdir stefnanda hafi ekki nýst nýjum kaupanda, heldur hafi hann byggt að mestu á upphaflegum byggingarnefndarteikningum sem legið hefðu fyrir áður en gengið var til samninga á sínum tíma.        

        Örn Tryggvi Johnsen, rekstarstjóri ÞG verktaka ehf., gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð. Hann kvaðst hafa setið í samráðshóp vegna verksins. Brynjar teldi að Brynjar hafi vitað um breytingar á bílakjallara og talið að verið væri gera vitleysu. Vitnið kvaðst ekki vita hvort Brynjar hefði viljað láta stöðva breytingarnar. Vitnið kvað hafa verið gert ráð fyrir því að þeir yfirtækju félagið og stefnandi því ráðið ferðinni og verið með byggingarstjórann í verkinu.

         Dómurinn telur að vegna þessa sérstaka ákvæðis í gr. 8.1 í kaupsamningnum frá 23. september 2015, um 90% hlut í stefnda, þar sem segir að aðilar séu sammála um að kaupandi skuli fram að afhendingardegi hafa rétt til þess að falla bótalaust frá kaupum þeim sem lýst er í samningnum í samræmi við það sem fram komi í greinum 8.2 og 8.3, verði að gera þá kröfu til Þorvaldar Gissurarsonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, að hann sýni fram á að fullt samráð hafi verið haft við Brynjar Harðarson, stjórnarmann í Landhlíð ehf. og fyrirsvarsmann Valsmanna hf., varðandi framkvæmdir og samninga og ákvarðanir teknar sameiginlega og í samræmi við óumdeilt hluthafasamkomulag Honum mátti, sem þrautreyndum aðila á þessu sviði, mátt vera ljóst að ef stefnandi nýtti sér ákvæði í gr. 8.1 í kaupsamningi, þá kynna hann að sitja uppi með kostnað af framkvæmdum og samningum sem hann hefði ráðist í einhliða án þess að fyrir lægi formlegt samþykki stefnda eða fyrirsvarsmanna Hlíðarfótar ehf. Það liggur fyrir að ákvarðanir um framkvæmdir og samninga, sem stefnandi gerði, voru ekki teknar á stjórnarfundum í samræmi við hluthafasamkomulag milli Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. og stefnda Landhlíðar ehf. Þar segir í grein 5.5, eins og að framan er rakið, að allar ákvarðanir, sem tengjast rekstri og starfsemi félagsins, skuli teknar samhljóða af báðum stjórnarmönnum.   Stefnanda hefur ekki með öðrum hætti tekist að færa sönnur á að að aðilar hafi komið sér saman um að fyrirkomulag framkvæmda skyldi vera í formi stýriverktöku og að stefnandi myndi semja um og hafa umsjón með gerð allra hönnunargagna. Stefnandi virðist hafa gert þá samninga og lagt í þann kostnað sem hann krefur stefnda um greiðslu á á grundvelli þess að svo hafi verið. Þá verður ekki séð að framkvæmdum hafi verið hagað í samræmi við það samráð, sem stefnt var að í upphafi. Það má ráða af því hve Þorvaldur, fyrirsvarsmaður stefnanda, hafði lítið samband og samráð við Brynjar Harðarson, hinn stjórnarmanninn í stefnda og fyrirsvarsmann Hlíðarfótar ehf., að hann hafi litið svo á að hann réði ferðinni þar sem hann yrði síðar skv. kaupsamningum eini eigandi stefnda. Þetta á sér jafnframt stoð í framburði vitnisins Arnar Tryggva Johnsen, rekstrarstjóra ÞG verktaka ehf., í vitnaskýrslu við aðalmeðferð. Vitnið kvað hafa verið gert ráð fyrir því að þeir yfirtækju félagið og stefnandi hefði því ráðið ferðinni og verið með byggingarstjórann í verkinu. Í skýrslu Brynjars kom fram að stefnandi hefði litið svo á að ekkert samráð þyrfti að hafa þar sem Þorvaldur hafi litið svo á að hann ætti Landhlíð ehf. 100% og flestir talið að svo myndi verða.

         Í málinu liggja fyrir fundargerðir funda hjá Alark arkitektum ehf. vegna arkitekta- og verkhönnunar. Fram kemur að þar hafi setið fundi, auk starfsmanna Alark arkitekta ehf., Þorvaldur Gissurarson frá stefnanda, fulltrúar Mannvits ehf. og Eflu ehf. Brynjar Harðarson var ekki á þessum fundum og enginn frá Hlíðarfæti ehf. eða Valsmönnum hf. Telja verður að stefnandi hafi því á eigin ábyrgð látið gera breytingar á þegar gerðum teikningum fyrir D-reit án þess að leita samþykkis stefnda eða Hlíðarfótar ehf. fyrir þessari vinnu. Hið sama á við um samninga stefnanda við Mannvit ehf., Eflu ehf., Grettisafl ehf., ATR verk ehf. og Málflutningsstofu Reykjavíkur ehf., sbr. kröfuliði 1–9 í stefnu. Stefnandi hefur hvorki sýnt fram á að gerðir hafi verið samningar milli hans og stefnda um þessa vinnu né að samþykki stefnda fyrir vinnu þessara aðila hafi legið fyrir þegar stefnandi stofnaði til þessa kostnaðar. Það kom fram hjá stefnda að áður en Arcus ehf. og Þorvaldur hafi komið að verkinu við D-reit hafi Valsmenn hf. verið búnir að semja við VEB ehf. um verkfræðiþætti verksins. Breytingar hvað þetta varðaði hafi Þorvaldur ákveðið einhliða og án samráðs og vitneskju Brynjars, stjórnarmanns stefnda. Þá kemur fram í gögnum málsins að verk þessara aðila hafi einkum verið unnið út frá breyttum teikningum Alark arkitekta ehf. Því ber að sýkna stefnda að þessum kröfum stefnanda.

        Í kröfuliðum 10–16 krefst stefnandi greiðslu útlagðs kostnaðar vegna vinnu Alark arkitekta ehf., Mannvits ehf., Eflu ehf., Grettisafls ehf., ATR verks ehf. og Sjónhags ehf.  Stefndi hafnar greiðslu þessa kostnaðar og vísar til sömu raka og varðandi útlagðan kostnað á haustmánuðum. Stefndi hafi aldrei samþykkt að stefnandi legði út í þennan kostnað. Þá komi fram í bréfi Arcusar ehf., systurfélags stefnanda, frá 15. desember 2015 að vísað hafi verið til þess að fyrir lægju bréf og af efni þeirra hafi verið ljóst að ekki gæti orðið af fyrirhuguðum framkvæmdum og uppbyggingu lóðarinnar að Hlíðarenda 1–7 með þeim hætti og innan þeirra tímamarka sem stefnt hafi verið að. Þar kom fram að félagið myndi hvorki taka þátt í frekari framkvæmdum né leggja út fyrir frekari kostnaði fyrr en Hlíðarfótur ehf. hefði undirgengist tiltekin skilyrði sem sett voru í bréfinu. Hlíðarfótur gekkst ekki undir þau skilyrði. Stefnandi hélt áfram með og stofnaði til samninga við þá aðila sem tilteknir eru í kröfuliðum 10–16 þrátt fyrir þetta. Stefnanda hefur hefur ekki tekist sönnun á því að stefndi hafi samþykkt vinnu þessara aðila. Stefnandi verður því sjálfur að bera þennan kostnað og því ber að sýkna stefnda af þessum kröfum stefnanda.

        Stefnandi byggir kröfu um álag vegna hönnunar- og verkfræðikostnaðar, sbr. kröfuliði 17 og 18, 14,5% álag á raunkostnað vegna vinnu hönnuða, á verksamningi aðila, dskj. 8, bls. 4. Þessi samningsdrög hafa ekkert gildi með vísan til þess sem áður er rakið og hefur stefnanda ekki með öðrum hætti tekist að færa sönnur á að þetta hafi verið umsamið milli aðila gegn mótmælum stefnda.

        Þá er kröfulið 19 mótmælt af hálfu stefnda. Útlagður kostnaður sé ósundurliðaður og án allra fylgiskjala. Sama eigi við um kröfulið 20, kröfu vegna skrifstofu- og fjármögnunarkostnaðar. Stefnandi hefur ekki fært sönnur á að stefndi hafi samþykkt þennan kostnað og ekki liggja fyrir í málinu reikningar þeir, sem greiddir eiga að hafa verið. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfur stefnanda skv. þessum liðum.

        Stefnandi byggir kröfur sínar í stefnu á óundirrituðum verksamningi milli sín og stefnda. Eins og fram kemur í niðurstöðum Hæstaréttar í dómi nr. 347/2017 vefengdu báðir aðilar að verksamningurinn væri skuldbindandi fyrir þá. Þá verður að telja óumdeilt í málinu að ákvarðanir um framkvæmdir, samninga og greiðslur kostnaðar af hálfu stefnanda hafi ekki verið teknar á stjórnarfundum stefnda.. Þá verður ekki talið að stefnandi hafi fært sönnur á eða skýrt hvað hafi falist í ætluðum munnlegum samningi aðila um D-reit eða að stefndi eða Hlíðarfótur ehf. hafi samþykkt framkvæmdir og samninga sem krafið er greiðslu á í stefnu. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum sínum en honum hefur ekki tekist sú sönnun. Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

        Að fenginni þessari niðurstöðu ber, með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

        Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

         Stefndi, Landhlíð ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, ÞG verktaka ehf.

         Stefnandi greiði stefnda 6.000.000 króna í málskostnað.