Dómur um mat á stórkostlegu gáleysi

26.06.2019

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í skaðabótamáli er reis af umferðarslysi, sem varð á árinu 2014.  Tjónþoli hlaut af líkamstjón, sem hafði bæði tímabundnar og varanlegar afleiðingar. Í málinu krafðist tjónþoli miskabóta á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til viðbótar þeim bótum, sem hún fengi á grundvelli 2. til 5. gr. sömu laga. Skilyrði þess að réttur til miskabóta stofnist á þessum grundvelli er að líkamstjóni hafi verið valdið af stórkostlegu gáleysi, sem er hærra stig gáleysis, en það sem nefnt er almennt gáleysi. Aðalágreiningsefni málsins snerist því um það hvort umferðarslysinu hefði verið valdið af stórkostlegu gáleysi. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að svo hefði verið og er í forsendum dómsins að finna leiðbeiningar um það hvernig mat á því hvort gáleysi teljist stórkostleg skuli fara fram og hvaða þættir hafi einkum þýðingu við matið. Þá var um það deilt hvort miskabætur samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, eins og greininni var breytt með lögum frá árinu 1999, væru háðar því að sýnt væri fram á að miski væri að einhverju leyti vanbættur eftir 3. og 4. gr. laganna. Með vísan til skýringa í lögskýringargögnum er fylgdu breytingalögunum var því hafnað að unnt væri að gera það að skilyrði. Miskabætur, eins og krafist var í málinu, geta því verið hrein viðbót við þær miskabætur sem tjónþoli á rétt á samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga.

 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.