Print

Mál nr. 11/2019

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. og B (Einar Baldvin Axelsson lögmaður)
Lykilorð
 • Miskabætur
 • Umferðarlög
 • Stórkostlegt gáleysi
Reifun

A krafði V hf. og B um miskabætur vegna slyss sem hún varð fyrir þegar B ók bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming og hafnaði á vinstra framhorni bifreiðar sem A var farþegi í. Í málinu krafðist A miskabóta á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og deildu aðilar málsins um það hvort B hefði með háttsemi sinni sýnt af sér stórfellt gáleysi í skilningi ákvæðisins. Í dómi Hæstaréttar var talið ósannað að B hefði verið að nota farsíma eða teygja sig eftir honum þegar slysið varð. Einnig var talið ósannað að liðið hefði yfir hann við aksturinn. Á hinn bóginn var talið sannað með læknisfræðilegum gögnum og framburði B sjálfs að hann hefði verið illa fyrir kallaður við aksturinn. Hann meðal annars verið illa nærður í nokkra daga fyrir slysið og að líkindum illa sofinn. Auk þessa andlega og líkamlega ástands B hefði hann ekið umfram hámarkshraða sem væri bæði brot á almennum aðgæslureglum umferðarlaga nr. 50/1987 og sérstaklega á 1. mgr. 37. gr. þeirra og hefði farið yfir á rangan vegarhelming sem væri brot á 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. laganna, sbr. og 1. mgr. 4. gr. þeirra. Var því talið að B hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi umrætt sinn. Samkvæmt þessu ætti A rétt á miskabótum sem þóttu hæfilega ákveðnar 2.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 4.000.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. júlí 2014 til 29. janúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu á öllum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

1

Áfrýjandi var farþegi í framsæti fólksbifreiðarinnar [...], af gerðinni Audi A6, síðdegis mánudaginn 7. júlí 2014, er bifreiðinni var ekið austur Bústaðaveg í Reykjavík. Skömmu eftir að bifreiðinni hafði verið ekið af stað frá ljósum á mótum Bústaðavegar og Grensásvegar ofan Efstalands varð árekstur með henni og fólksbifreiðinni K[...] af gerðinni Dodge Stratus. Áreksturinn varð skammt vestan við verslunarmiðstöðina Grímsbæ. Nánari atvik að árekstrinum voru þau að bifreiðinni K[...]var ekið vestur Bústaðaveg af stefnda B. Á þessum stað eru tvær akreinar hvor í sína áttina. Hámarkshraði á veginum var 50 km á klukkustund. Skyndilega var bifreiðinni K[...] sveigt til vinstri og yfir á rangan vegarhelming, en þar lenti hún framan á bifreiðinni D[...] sem kom úr gagnstæðri átt. Ökumaður þeirrar bifreiðar sá hvað verða vildi er hin bifreiðin nálgaðist en gat ekki forðast árekstur þótt hann reyndi að sveigja bifreið sinni til hægri. Hann bar í skýrslu sem lögregla tók af honum á vettvangi og fyrir dómi að hann hefði ekki séð andlit stefnda B í aðdraganda árekstursins heldur einungis ofan á kollinn á honum þar sem hann hefði hallað sér fram. Áreksturinn var harður og skemmdust báðar bifreiðarnar mikið. Báðir ökumenn og áfrýjandi voru í öryggisbeltum er slysið varð. Bifreiðin K[...] var tryggð ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Áfrýjandi varð fyrir líkamstjóni við áreksturinn, sem hafði umtalsverðar varanlegar afleiðingar fyrir hana.

2

Stefndi B gaf skýrslu fyrir lögreglu á vettvangi. Hann kvaðst hafa verið að koma úr vinnu og verið á leið heim til sín. Hann hafi ekið Bústaðaveginn til vesturs og mundi ekki til þess að bifreið hefði verið fyrir framan sig. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst hann ekki vita á hvaða hraða hann ók er áreksturinn varð en taldi sig hafa ekið á umferðarhraða ,,einhvers staðar þarna á bilinu 30-50“ km á klukkustund. Spurður hvort hann hefði verið að nota eða teygja sig eftir farsíma sínum kvaðst hann ekki muna eftir því. Í skýrslu hans fyrir dómi kvaðst hann ekki muna eftir slysinu sjálfu, hann muni eftir hafa verið að aka bifreiðinni en svo rankað við sér þegar fólk var að banka í bílrúðuna hjá honum eftir áreksturinn en þá hafi loftpúði í bifreiðinni verið blásinn út. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að aka yfir á rangan vegarhelming, heldur taldi sig hafa lognast útaf eða það hafi liðið yfir sig og þess vegna hafi bifreiðin farið yfir á hina akreinina.

Stefndi B var fluttur á bráðadeild í kjölfar slyssins. Af gögnum málsins kemur fram að hann hafi átt við þunglyndi að stríða fyrir slysið. Hann hafi ekki nærst eðlilega síðustu dagana fyrir það, hann hafi snætt hálfa máltíð á sunnudeginum, en þar á undan hafi hann ekkert borðað frá föstudegi. Ekki voru greind merki um áverka á höfði hans. Hann var sagður ringlaður en þó áttaður á stað og stund. Hann kvað í skýrslu fyrir dómi að líklega hefði hann ekki eingöngu verið illa nærður heldur ef til vill einnig ekki sofið nóg í aðdraganda slyssins.

3

Að beiðni áfrýjanda var dómkvaddur maður til þess að meta meðal annars hver hefði verið líklegasti hraði bifreiðanna er þær rákust saman. Matsmaðurinn, Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði, taldi í matsgerð sinni 15. maí 2017 að líklegasti ökuhraði bifreiðarinnar K[...] hefði verið 67 km á klukkustund er árekstur varð, en að lágmarki 64 km og að hámarki 72 km. Líklegasti ökuhraði bifreiðarinnar D[...] hefði verið 35 km á klukkustund, en að lágmarki 31 km og að hámarki 38 km. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar sagði í skýrslu fyrir dómi að hann væri sammála niðurstöðu matsgerðarinnar um ökuhraða bifreiðar sinnar, en taldi þó að hann gæti trúað því að hann hefði ,,verið kominn á 40 km hraða.“

II

Í kjölfar árekstursins var áfrýjanda ekið með sjúkrabifreið á bráðamóttöku. Í álitsgerð læknis og lögfræðings 6. júlí 2016 sem aflað var sameiginlega af áfrýjanda, stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og Tryggingamiðstöðinni hf. voru metnar afleiðingar tveggja slysa er áfrýjandi hafði lent í. Annars vegar þess er hér hefur verið lýst og hins vegar vegna slyss 9. janúar 2015, en Tryggingamiðstöðin hf. mun hafa veitt vátryggingu vegna hagsmuna sem meta þurfti vegna þess slyss. Í álitsgerðinni kom fram að matsmenn teldu að batahvörf vegna fyrra slyssins hafi verið 7. desember 2014 eða fimm mánuðum eftir slysdag. Varanlegur miski vegna þess slyss var metinn 10 stig, en varanleg örorka 20%.

Áfrýjandi aflaði læknisvottorðs [...], sérfræðings í geðlækningum, 10. október 2016. Hann taldi að meðal afleiðinga fyrir áfrýjanda vegna umferðarslyssins 7. júlí 2014 væru veruleg einkenni um þunglyndi og kvíða og einnig alvarleg áfallastreituröskun. 

Áfrýjandi leitaði álits þriggja manna, lögfræðings, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og sérfræðings í geðlækningum, á tímabundnum og varanlegum afleiðingum umferðarslyssins 7. júlí 2014 fyrir hana. Í álitsgerð þeirra 15. maí 2017 voru batahvörf talin vera 9. janúar 2015 eða á sama degi og seinna umferðarslysið varð. Þeir töldu varanlegan miska vera 49 stig, þótt í niðurstöðum sé hann aðeins tilgreindur 33 stig, en varanleg örorka var talin 40%. Engar varanlegar afleiðingar voru á hinn bóginn taldar hafa orðið af slysinu sem áfrýjandi lenti í 9. janúar 2015.

Áfrýjandi óskaði dómkvaðningar tveggja manna 25. september 2017 á afleiðingum beggja umferðarslysanna. Niðurstaða matsmanna, lögfræðings og sérfræðings í taugalækningum, var sú að batahvörf vegna slyssins hefðu verið 8. janúar 2015, varanlegur miski 32 stig og varanleg örorka 45%. Vegna síðara slyssins töldu þessir matsmenn að varanlegur miski væri 5 stig og varanleg örorka 5%.

Að gengnum dómi Landsréttar, 1. febrúar 2019, skiluðu yfirmatsmenn, sem dómkvaddir höfðu verið að beiðni stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., yfirmatsgerð sinni 16. mars 2019. Yfirmatsmenn, lögfræðingur, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum og sérfræðingur í geðlækningum, mátu afleiðingar slyssins 7. júlí 2014 fyrir áfrýjanda þannig að varanlegur miski sem orsakaðist af slysinu væri 25 stig og varanleg örorka 45%.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var upplýst að uppgjör vegna slyssins 7. júlí 2014 hefði enn ekki farið fram.

III

1

Í málinu krefst áfrýjandi miskabóta á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og greininni var breytt með 13. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt þeirri grein er heimilt að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Samkvæmt þessu er það skilyrði fyrir því að fallast megi á kröfu áfrýjanda að stefndi B hafi valdið slysinu 7. júlí 2014 af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Af hálfu áfrýjanda er krafa hans ekki reist á því að slysinu hafi verið valdið af ásetningi og kemur því einungis til athugunar hvort því hafi verið valdið af stórfelldu gáleysi.

2

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar síðustu áratugi hefur við mat á því hvort huglægum skilyrðum gáleysis sé fullnægt verið stuðst við hlutlæga mælikvarða í æ ríkara mæli, þegar þess er kostur. Á það einnig við þegar til álita kemur að háttsemi geti talist stórfellt gáleysi, en milli almenns og stórfellds gáleysis er einungis stigsmunur. Felur þá stórfellt gáleysi í sér meira eða alvarlegra frávik frá þeirri háttsemi, sem viðhafa ber samkvæmt þeim mælikvörðum sem stuðst er við, en þeir eru oftast hlutrænir, í flestum tilvikum á síðari árum skráðar hátternisreglur. Í íslenskum rétti hefur það ekki verið talið skilyrði fyrir því að gáleysi sé metið stórfellt að það sé meðvitað, þótt sú huglæga afstaða geti haft sjálfstæða þýðingu við matið. Í framangreindu felst að stórfellt gáleysi er gáleysi á hærri stigi en hið almenna. Það felur í sér að annað hvort víkur háttsemi hlutrænt séð meira frá þeirri háttsemi sem tjónvaldi bar að viðhafa en þarf til að staðreyna almennt gáleysi, eða að hin huglæga afstaða tjónvalds til atvika er leiddu til slyss einkennist af miklu tillitsleysi.

3

Eins og fram er komið var bifreið stefnda B er slysið varð ekið umfram hámarkshraða, sem var 50 km á klukkustund. Ekki liggur þó annað fyrir en að hann hafi ekið á umferðarhraða og aðstæður til aksturs verið góðar, þurrt og bjart. Ósannað er að liðið hafi yfir hann við aksturinn. Einnig er ósannað að hann hafi verið að nota farsíma eða að teygja sig eftir farsíma í aðdraganda slyssins. Á hinn bóginn er sannað með læknisfræðilegum gögnum og framburði stefnda B sjálfs að hann hafi verið illa fyrir kallaður við aksturinn. Hann hafi verið illa nærður í nokkra daga fyrir slysið, átt við þunglyndi að stríða og að líkindum illa sofinn. Hann var á leið heim til sín eftir að hafa verið við vinnu frá klukkan átta um morguninn en slysið varð um klukkan 18. Auk þessa andlega og líkamlega ástands stefnda B, sem lýst hefur verið, ók hann umfram hámarkshraða sem bæði var brot á almennum aðgæslureglum umferðarlaga nr. 50/1987 og sérstaklega á 1. mgr. 37. gr. þeirra og fór yfir á rangan vegarhelming sem var brot á 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. laganna, sbr. og 1. mgr. 4. gr. þeirra.

Í matsgerð [...], prófessors, er lýst og færð inn á mynd ætluð akstursleið bifreiðanna K[...] og D[...] í aðdraganda árekstursins og staðsetning þeirra á árekstrarstað. Matsmaðurinn byggir álit sitt að þessu leyti meðal annars á árekstrarhorni og formbreytingum á bifreiðunum við áreksturinn. Á grundvelli þessara upplýsinga ætlar matsmaðurinn að bifreiðin K[...] hafi öll verið komin yfir á rangan vegarhelming er árekstur varð og að bifreiðinni D[...] hafi verið sveigt undan til hægri eins og kostur var. Niðurstaða matsgerðarinnar um hraða bifreiðarinnar K[...] hefur verið dregin í efa af hálfu stefndu, en ekki ályktanir í henni um staðsetningu bifreiða við áreksturinn.

Ekki er að fullu leitt í ljós hver orsök þess var að stefndi B ók bifreiðinni yfir á rangan vegarhelming á umferðarhraða, umfram hámarkshraða, á fjölförnum vegi þar sem verulegrar umferðar bifreiða úr gangstæðri átt var að vænta og lenti þar framan á bifreiðinni D[...]. Engin atvik leysa hann undan ábyrgð á þessari háttsemi sem telst stórfellt gáleysi samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. og dóm Hæstaréttar 30. september 2004 í máli nr. 50/2004.

IV

Samkvæmt framansögðu eru fyrir hendi skilyrði til þess að beita heimild a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta. Áfrýjandi hefur ekki stutt kröfu sína um miskabætur á framangreindum grundvelli þeim rökum að þjáningar hennar eða miski vegna slyssins yrðu vanbætt eftir reglum 3. og 4. gr. skaðabótalaga. Að framan eru raktar niðurstöður álitsgerða, læknisvottorðs og matsgerða um afleiðingar slyssins, einkum varanlegar, fyrir áfrýjanda. Niðurstöður þessara gagna eru mismunandi, einnig um mat á varanlegum miska, sem talinn er frá 10 stigum til 49 stiga.

Í skýringum í greinargerð með 14. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 37/1999, en greinin varð 13. gr. laganna, sagði að ef skilyrði til greiðslu miskabóta samkvæmt ákvæðinu væru fyrir hendi gæti tjónþoli hvort sem er átt rétt til bóta sjálfstætt samkvæmt ákvæðinu eða til viðbótar bótum samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga. Einnig kom fram að fjárhæð bótanna væri matskennd og réðist af sanngirni í hverju tilviki. Skuli meðal annars hafa í huga umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagslega getu hans.

Samkvæmt framansögðu er það ekki skilyrði þess að heimild a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verði beitt að sýnt sé fram á að þjáningar eða miski tjónþola yrði vanbættur ef einungis yrðu greiddar bætur á grundvelli 3. og 4. gr. laganna. Verður kröfu áfrýjanda því ekki hafnað af þeim sökum að ekki hafi verið gerð grein fyrir því í hverju ætlaður vanbættur miski hennar felist.

Með vísan til alls framangreinds verða stefndu dæmdir óskipt til þess að greiða áfrýjanda miskabætur, 2.000.000 krónur, með vöxtum eins og í dómsorði greinir, en ekki eru skilyrði til þess að dæma vexti eftir 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga eins og krafist er.

Stefndu greiði óskipt til ríkissjóðs málskostnað í héraði, en áfrýjanda málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Dómsorð:

Stefndu, B og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjanda, A,  2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. janúar 2017 til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt í ríkissjóð málskostnað fyrir héraðsdómi, 1.500.000 krónur, og til áfrýjanda vegna meðferðar málsins fyrir Landsrétti og Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal vera óraskað.

 

Dómur Landsréttar

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

 1. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar með áfrýjunarstefnu 11. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2018 í málinu nr. E-2719/2017.

 2. Áfrýjandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða henni óskipt 4.000.000 króna, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 7. júlí 2014 til 29. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.

 3. Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að stefnukröfur áfrýjanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Landsrétti.

Um aðild

 1. Áfrýjandi höfðaði mál þetta á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., B og C með stefnu, sem árituð var um birtingu af lögmanni stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fyrir hönd allra stefndu 8. september 2017. C hafði verið skráður eigandi bifreiðarinnar […]. Með hinum áfrýjaða dómi voru allir stefndu sýknaðir af kröfum áfrýjanda. Fyrir liggur að C andaðist 8. nóvember 2016, fyrir höfðun málsins í héraði. Með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður kröfum áfrýjanda á hendur C vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Kemur þá ekki til aðildar dánarbús hans að málinu fyrir Landsrétti.

Málsatvik og sönnunarfærsla

 1. Málsatvikum er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram á mál þetta rætur að rekja til umferðarslyss sem varð á […]vegi í Reykjavík 7. júlí 2014. Stefndi, B, ók bifreiðinni [...] vestur […]veg þegar bifreiðin fór skyndilega yfir á rangan vegarhelming og hafnaði á vinstra framhorni bifreiðarinnar [...] en áfrýjandi var farþegi í framsæti hennar. Af gögnum málsins verður ráðið að áreksturinn var harkalegur og að áfrýjandi hlaut talsverða áverka svo sem nánar er lýst í héraðsdómi.

 2. Í lögregluskýrslu er þess getið að hámarkshraði á […]vegi sé 50 km/klst. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns var ætlaður hraði bifreiðar stefnda, B, [...], 67 km/klst., en lágmarkshraði hennar 64 km/klst. Matsmaðurinn mat hraðann á grundvelli þeirra formbreytinga sem urðu á bifreiðunum tveimur við áreksturinn og gaf sér að hraði bifreiðarinnar [...] hefði verið 35 km/klst. án þess þó að skýra það nánar í matsgerðinni eða fyrir dómi. Vitnið D, sem ók bifreiðinni [...], bar að hraði þeirrar bifreiðar hefði verið örlítið meiri en matsgerð dómkvadds matsmanns sagði til um. Af vætti vitna verður ráðið að ökuhraði bifreiðar stefnda hafi verið í samræmi við umferðarhraða. Í lögregluskýrslu er haft eftir E, sem ók bifreið sinni á eftir bifreiðinni [...], að hvorki sú bifreið né bifreiðin [...] hafi verið á miklum hraða.

Niðurstaða

 1. Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur eingöngu að því hvort áfrýjandi eigi rétt á miskabótum úr hendi stefndu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi telur að stefndi, B, hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þegar hann ók bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming umrætt sinn og framan á bifreiðina [...] sem áfrýjandi var farþegi í. Af hálfu stefndu er á því byggt að ekki hafi verið sýnt fram á að í háttsemi stefnda, B, umrætt sinn geti falist stórfellt gáleysi. 

 2. Ágreiningslaust er að orsök árekstursins var sú að bifreiðin [...] sveigði yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir bifreiðina [...]. Þá virðist óumdeilt að stefndi, B, hafi sýnt af sér gáleysi við akstur bifreiðarinnar. Við mat á því hvort gáleysi telst stórfellt verður einkum að líta til þess hvort háttsemi tjónvalds víki í verulegum atriðum frá þeirri háttsemi eða aðgæslu sem honum bar að viðhafa samkvæmt skráðum hátternisreglum eða öðrum hlutlægum mælikvörðum. Huglæg afstaða tjónvalds skiptir þó einnig máli þótt ekki sé áskilið að gáleysið þurfi að vera meðvitað til að geta talist stórfellt. Við þetta mat verður að líta til allra atvika málsins. 

 3. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir að stefndi, B, ók yfir leyfðum hámarkshraða þegar áreksturinn varð. Þó verður að draga þá ályktun af forsendum matsgerðar dómkvadds matsmanns og framburði ökumanns bifreiðarinnar [...] að hraði bifreiðarinnar [...] hafi verið nokkru minni en niðurstaða matsmannsins gaf til kynna. Akstursskilyrði voru góð og skýrslur vitna bera með sér að ökuhraði bifreiðar stefnda, B, hafi verið í samræmi við umferðarhraða. Ökuhraði bifreiðar stefnda telst ekki slíkt frávik frá leyfðum hámarkshraða að hann verði þess vegna talinn hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi.

 4. Fallist er á með héraðsdómi að ósannað sé að stefndi, B, hafi verið að nota síma eða teygja sig eftir honum þegar slysið varð og þá er ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að það hafi verið meðvituð ákvörðun hans að aka bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á að háttsemi hans hafi með einhverjum hætti borið vott um skeytingarleysi um aðsteðjandi hættu eða það tjón sem háttsemi hans gat valdið.

 5. Stefndi, B, gaf viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti sem var í öllum aðalatriðum á sama veg og skýrsla hans fyrir héraðsdómi. Hann mundi lítið eftir slysinu og aðdraganda þess en taldi að hann hefði fengið aðsvif og því sveigt yfir á rangan vegarhelming. Sá framburður fær nokkra stoð í vætti vitna, svo sem rakið er í héraðsdómi, en engu verður þó slegið föstu að þessu leyti. Ástæða þess að bifreiðin [...] fór yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir bifreiðina [...] er því ekki í ljós leidd.

 6. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af öllum atvikum málsins en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ósannað sé að stefndi, B, hafi umrætt sinn sýnt af sér stórfellt gáleysi í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sýknu stefndu, Vátryggingafélags Íslands hf. og B, málskostnað og gjafsóknarkostnað. 

 7. Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Landsrétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að kröfum áfrýjanda, A, á hendur stefnda, C, er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

Sératkvæði

Jóhannes Sigurðssonar

 1. Ég er ósammála atkvæði meirihluta dómenda um að háttsemi stefnda B teljist ekki stórfellt gáleysi samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

 2. Í málinu liggur fyrir að stefndi, B, ók bifreiðinni [...] þvert á akstursstefnu bifreiðarinnar [...] þar sem áfrýjandi var farþegi. Sú háttsemi að aka bifreið í veg fyrir umferð sem kemur á móti, án sérstaks erindis, er hlutlægt séð fallin til þess að valda stórfelldri hættu og er hún vítaverð. Ósannað er af hvaða ástæðum stefndi, B, beygði bifreið sinni í veg fyrir umferðina sem á móti kom. Samkvæmt framburði ökumanns bifreiðarinnar [...] virtist honum sem ökumaður bifreiðarinnar [...] hafi lotið höfði áður en áreksturinn átti sér stað. Stefndi, B, hefur sjálfur borið fyrir Landsrétti að hann muni ekki eftir slysinu og raunar ekki eftir því að hafa ekið bifreiðinni heim þennan dag. Vörn stefndu um að stefndi, B, hafi fengið aðsvif byggir á tilgátu hans sem er ósönnuð enda gat hann ekki borið um atvik málsins að þessu leyti. Þá er einnig ósönnuð tilgáta áfrýjanda um að stefndi, B, hafi verið að beygja sig eftir farsíma er hann beygði bílnum á rangan vegarhelming.

 3. Þótt ekki liggi fyrir að stefndi, B, hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að aka bifreiðinni í veg fyrir umferð sem á móti kom verður samkvæmt því sem að framan er rakið að meta aksturslag hans er slysið varð til stórfellds gáleysis, sbr. hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í máli nr. 50/2004 frá 30. september 2004 og máli nr. 522/2007 frá 5. júní 2008.

 4. Þar sem meirihluti dómenda hefur komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi stefnda, B, uppfylli ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga um stórfellt gáleysi eru ekki efni til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé, miðað við atvik málsins og stöðu aðila, að beita heimild ákvæðisins til greiðslu miskabóta.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 22. maí 2018

                Mál þetta, sem var dómtekið 24. apríl sl., var höfðað 8. september 2017.

                Stefnandi er A, […] í Reykjavík.

                Stefndu eru Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík, C, […], […] í […] og B, […], […] í […].

                Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 4.000.000 króna með 4,5% ársvöxtum frá 7. júlí 2014 til 29. janúar 2017, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnanda en til vara þess að stefnukrafa verði stórlega lækkuð. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

                                                                                                I

                Stefnandi krefst í máli þessu miskabóta á grundvelli a-liðar 26. gr. skaðabótalaga. Málið á rætur að rekja til umferðarslyss sem varð á […]vegi 7. júlí 2014. Samkvæmt lögregluskýrslu voru atvik þau að bifreiðinni [...], sem stefndi B ók, var ekið vestur eftir […]vegi er hún fór allt í einu yfir á rangan vegarhelming og hafnaði á vinstra framhorni á bifreiðinni [...], en stefnandi var farþegi í framsæti hennar. Bifreiðin [...] var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.

                Samkvæmt framburði vitna, sem greint er frá í lögregluskýrslu, voru akstursskilyrði góð og bifreiðinni [...] var ekki ekið á miklum hraða en skyndilega var henni ekið yfir á öfugan vegarhelming. Ökumaðurinn, stefndi B, gat ekki gefið neinar skýringar á því af hverju bifreiðin beygði fyrirvaralaust yfir á rangan vegarhelming, en hann virtist lítið muna eftir atvikinu.

                Áreksturinn var harkalegur og stefnandi hlaut talsverða áverka. Stefnandi leitaði m.a. til F geðlæknis. Í vottorði hans frá 10. október 2016 kemur fram að stefnandi sé haldin áfallastreituröskun og þunglyndi vegna afleiðinga umferðarslyssins. Stefnandi, stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. og Tryggingamiðstöðin hf. óskuðu sameiginlega eftir mati á afleiðingum slyssins. Í matsgerð G læknis og H lögmanns, frá 6. júlí 2016, var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri 10 stig og varanleg örorka 20%.

                Stefnandi var ósátt við matið og aflaði einhliða mats I læknis, J lögfræðings og K geðlæknis, dags. 15. maí 2017. Niðurstaða þeirra var sú að varanlegur miski stefnanda vegna líkamstjóns og geðræns tjóns væri 33 stig og varanleg örorka 40%. Þá liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, L lögmanns og M taugalæknis, dags. 11. janúar 2018, þar sem varanlegur miski stefnanda er metinn 32 stig og varanleg örorka 45%.

                Með bréfi 29. desember 2016 krafði stefnandi stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. um 2.000.000 króna úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar [...] með vísan til a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Með bréfi 9. janúar 2017 hafnaði stefndi kröfu stefnanda með vísan til þess að skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga væru ekki uppfyllt.

                Með bréfi 15. febrúar 2017 vísaði stefnandi ágreiningi aðila til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum og krafðist þess að viðurkennd yrði bótaábyrgð stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna líkamstjóns sem hún hlaut í umferðarslysinu 7. júlí 2014. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 28. mars 2017 var því hafnað að stefnandi ætti rétt á miskabótum samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar [...], þar sem ekki var talið að ökumaðurinn hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi.

                Með matsbeiðni 12. nóvember 2016 óskaði stefnandi, ásamt ökumanni bifreiðarinnar [...], eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara spurningum varðandi umferðarslysið, m.a. er varðaði hraða bifreiðanna. N, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, var dómkvaddur matsmaður. Í matsgerð hans frá 15. maí 2017 kemur m.a. fram að hraði bifreiðarinnar [...] við slysið sé ætlaður 67 km/klst., en hann hafi að lágmarki verið 64 km/klst.

                Með bréfi 31. maí 2017 krafði stefnandi stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. um greiðslu að fjárhæð 3.000.000 króna á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Með bréfi 12. júní 2017 krafði stefnandi stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. jafnframt um bætur á grundvelli matsgerðar I, J og K, auk framangreindra bóta. Með tölvuskeyti 20. júní 2017 hafnaði stefndi greiðslu bóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og vísaði m.a. til þess að ekki hefði verið sýnt fram á stórkostlegt gáleysi stefnda B þegar hann ók bifreiðinni [...] í umrætt sinn. Því var hafnað að matsgerð Nr um ökuhraða breytti einhverju þar um.

                                                                                                II

                Stefnandi reisir kröfu sína á því að stefndi B, ökumaður bifreiðarinnar [...], hafi valdið henni líkamstjóni með stórkostlegu gáleysi í skilningi a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Byggt sé á því að eigandi bifreiðarinnar, stefndi C, sé greiðsluskyldur á grundvelli 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Auk þess sé ábyrgðartrygging fyrir því líkamstjóni stefnanda sem hafi orðið af akstri bifreiðarinnar, samkvæmt 1. mgr. 91. gr. sömu laga, hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., sem sé greiðsluskylt samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna. Dómkrafa á hendur ökumanni byggist á 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Þá skuli höfða mál á hendur þeim sem bótaskyldir eru einnig á hendur því vátryggingafélagi sem hafi ábyrgðartryggt það ökutæki sem olli tjóninu.

                Stefnandi byggi á því að akstur ökumanns bifreiðarinnar [...], sem hafi valdið árekstrinum, hafi verið verulegt frávik frá því sem eðlilegt geti talist. Akstursmátinn hafi ekki verið eðlilegur eða hefðbundinn miðað við það sem aðrir í umferðinni megi búast við og treysta að sé viðhaft. Ekki geti talist eðlilegt að aka skyndilega í veg fyrir aðra bifreið þar sem ökumaður og farþegar eigi sér einskis ills von, aki á eðlilegum hraða og komi engum vörnum við. Stefndi hafi sýnt algjört og vítavert tillitsleysi gagnvart umferðinni og öðrum vegfarendum. Þeir sem séu í umferðinni megi almennt treysta því að verða ekki fyrir slíkum ákeyrslum og að aðrir ökumenn fari að helstu umferðarreglum. Ekkert annað hafi valdið slysinu en það að skyndilega hafi verið ekið í veg fyrir bifreiðina sem stefnandi hafi verið í.

                Stefndi B hafi brotið gróflega gagnvart þeirri grundvallarreglu sem felist í 4. gr. umferðarlaga, auk 14. og 19. gr. laganna, þar sem hann hafi ekki ekið bifreiðinni eins langt til hægri og unnt var eða gætt þess að nægilegt hliðarbil væri á milli bifreiðar hans og bifreiðarinnar sem stefnandi var í.

                Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndi hafi ekið bifreið sinni á 17 kílómetrum á klukkustund yfir leyfðum ökuhraða þegar slysið varð, en hámarkshraði þar hafi verið 50 km/klst. Framlögð matsgerð dómkvadds matsmanns sýni fram á þennan hraða, en matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt. Stefndi hafi því brotið gróflega gegn 36. og 37. gr. umferðarlaga og framið refsivert brot samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga. Í ljósi þessara grófu brota stefnda á umferðarlögum og þess að ekkert annað hafi valdið tjóninu sé ljóst að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

                Þá sé ljóst að stefndi hafi brotið gegn 1. mgr. 47. gr. umferðarlaga þar sem hann hafi verið að tala í farsíma sinn og ekki verið með augun á veginum þegar slysið varð. Þetta styðjist við þá staðreynd að farsími stefnda hafi fundist á gólfi bifreiðarinnar ökumannsmegin eftir slysið. Þá hafi ökumaður bifreiðarinnar sem stefnandi var í séð stefnda lúta höfði þannig að ekki hafi sést í andlit hans er áreksturinn varð.

                Fjárhæð kröfu stefnanda miðist við að um hafi verið að ræða algert skeytingarleysi stefnda B sem hafi valdið henni stórfelldu líkamstjóni og geðrænu áfalli sem hún stríði enn við. Hún krefjist nú viðbótarmiskabóta við þær stöðluðu bætur sem hún eigi rétt á samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga. Stefnanda hafi verið metinn 33 stiga miski vegna áverka sem hún hafi hlotið í slysinu auk þess sem hún hafi misst nær helming starfsgetu sinnar. Stefnandi fái fjártjón sitt í raun aldrei fullbætt. Högg þau sem hún hafi fengið í árekstrinum hafi verið svo veruleg að hún hafi í raun mátt þakka fyrir að halda lífi.

                                                                                                III

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi B hafi valdið slysinu með háttsemi sem geti talist stórfellt gáleysi, en það sé skilyrði réttar til greiðslu bóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt því ákvæði megi gera þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni að greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Stefndu telja að stefndi B hafi ekki sýnt af sér stórfellt gáleysi í umrætt sinn.

                Stórfellt gáleysi sé hástig gáleysis. Til þess að háttsemi verði talin fela í sér stórfellt gáleysi verði hún því að fela í sér verulegt og ámælisvert frávik frá því sem ætlast megi til af gegnum og skynsömum manni í sömu aðstöðu. Háttsemi stefnda B hafi ekki falið í sér verulegt og ámælisvert frávik. Hann hafi ekki tekið ákvörðun um að fara yfir á rangan vegarhelming. Ástæðu þess að bifreiðin hafi farið yfir á rangan vegarhelming megi í mesta lagi rekja til andartaks athugunarleysis af hálfu stefnda, en eins og vitni og aðilar lýsi atvikinu hafi þetta gerst mjög snöggt. Jafnframt sé mögulegt að hann hafi fengið aðsvif. Stefndi muni ekkert eftir slysinu en ljóst sé að hann ætlaði aldrei að fara yfir á öfugan vegarhelming. Hraði bifreiðarinnar hafi ekki ráðið neinu um það að hún fór yfir á öfugan vegarhelming. Jafnvel þótt sá hraði sem metinn hafi verið í matsgerð N yrði lagður til grundvallar leiði það ekki til þess að stefndi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi. Ekki sé um svo mikið frávik að ræða frá þeim ökuhraða sem almennt gerist. Í því sambandi sé bent á að vitni að slysinu hafi sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið mikill hraði á bifreið stefnda. Þá sé […]vegur beinn og breiður vegur og algengt að ökuhraði sé mun meiri en leyfður hraði. Þannig hafi vitnið E ekið á eftir stefnda og hafi því væntanlega verið á sama hraða. Það kunni að teljast gáleysisleg hegðun að aka á meiri hraða en leyfður sé en slíkt geti ekki talist vera stórkostlegt gáleysi.

                Stefndu byggi þannig á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða eða í mesta lagi einfalt gáleysi þegar bifreið stefnda fór yfir á rangan vegarhelming. Jafnvel þótt talið yrði að stefndi hafi í umrætt sinn ekið á þeim hraða sem komi fram í matsgerðinni feli það ekki í sér slíkt frávik frá þeirri háttsemi sem ökumenn yfirleitt viðhafi hvað varði hraða að það yrði talið vera stórkostlegt gáleysi af hálfu stefnda.

                Ekki sé eðlismunur heldur stigsmunur á einföldu og stórfelldu gáleysi sem, felist einna helst í auknu skeytingarleysi um þá hættu sem að steðji og það tjón sem háttsemi geti valdið. Þannig sé stundum sagt að sá sem valdi tjóni með stórfelldu gáleysi hafi hagað sér með ákveðnum hætti án þess að skeyta um það hve mikil hætta væri á tjóni eða hve miklu tjóni háttsemin gæti valdið. Háttsemi stefnda í umrætt sinn falli á engan hátt að þessari skilgreiningu enda hafi hann ekki ætlað að fara yfir á rangan vegarhelming.

                Að öllu framangreindu athuguðu telji stefndu ljóst að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi B hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi. Í öllu falli séu fullyrðingar um slíkt ósannaðar, en sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt hvíli á stefnanda enda beri tjónþolar að íslenskum rétti sönnunarbyrði fyrir öllum skilyrðum ábyrgðar þriðja manns.

                Þá byggi stefndu á því að 26. gr. skaðabótalaga sé heimildarákvæði. Þannig nægi ekki að sýna fram á að tjóni hafi verið valdið af stórkostlegu gáleysi til að tjónvaldi beri að greiða miskabætur samkvæmt ákvæðinu. Við mat á því hvort beita beri ákvæðinu verði að horfa á atvik máls, og þá sérstaklega hversu gróf háttsemi tjónvalds hafi verið. Ekkert liggi fyrir um að háttsemi stefnda hafi verið gróf, hann hafi ekki ætlað að fara yfir á öfugan vegarhelming. Þá verði að horfa til þess að það breyti engu fyrir tjón stefnanda hvort talið verði að háttsemi stefnda verði talin hafa verið stórkostlega gálaus eða einungis gálaus. Tjónið sé hið sama. Stefndu telji að horfa beri á þessi atriði við mat á því hvort beita skuli ákvæðinu og hvort tjónþoli eigi rétt á miskabótum samkvæmt því. Stefnandi hafi ekki rökstutt það á neinn hátt í hverju þetta aukna tjón hennar sé fólgið þannig að leiði til þess að hún eigi jafnframt öðrum bótum að fá greiddar bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Það ákvæði sé undantekning frá meginreglunni og beri því að skýra þröngt. Megintilgangurinn með ákvæðinu sé varnaðaráhrif, þannig að ef tjónvaldur sýnir af sér mjög grófa háttsemi megi hann eiga von á því að þurfa að greiða hærri skaðabætur en ella. Ekkert annað liggi fyrir en að stefnandi muni fá tjón sitt að fullu bætt samkvæmt skaðabótalögum.

                Því sé mótmælt að stefndi hafi brotið gróflega gegn grundvallarreglu sem felist í 4. grein umferðarlaga og 14. gr. og 19. gr. laganna. Hann hafi óvart farið yfir á rangan vegarhelming en slíkt geti aldrei falið í sér gróft brot gegn þessum lagaákvæðum, heldur væri það eingöngu ef stefndi hefði tekið ákvörðun um að fara yfir á öfugan vegarhelming.

                Stefndu mótmæli því einnig að stefndi hafi ekið yfir leyfðum ökuhraða eða brotið gróflega gegn 36. og 37. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 100. gr., og framið refsivert brot samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga. Stefnandi rökstyðji það ekki hvernig stefndi hafi brotið gegn þessum ákvæðum. Ekkert liggi fyrir um að stefndi hafi framið refsivert brot, en samkvæmt framburði vitna hafi hann ekið rólega. Sá hraði sem metinn hafi verið af dómkvöddum matsmanni geti aldrei falið í sér gróft brot gegn áðurnefndum ákvæðum umferðarlaga.

                Þá mótmæli stefndu því að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 47. gr. umferðarlaga. Það sé algerlega ósannað að stefndi B hafi verið að tala í farsíma í umrætt sinn. Það að farsími hans hafi fundist á gólfi bifreiðarinnar geti varla komið á óvart enda geymi fólk oft farsíma á milli sæta í bifreiðinni eða í farþegasæti. Það sé ekkert skrýtið að farsími fari á flug þegar árekstur verði og finnist á gólfi bifreiðar. Þá sé það að stefndi hafi lotið höfði engin sönnun þess, og bendi ekki til þess, að hann hafi verið að tala í farsíma.

                Varakrafa stefndu um lækkun byggist á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa. Fjárhæð kröfunnar sé ekki í samræmi við fordæmi Hæstaréttar um eðlilega fjárhæð slíkra bóta í tilvikum sem þessum. Við mat á fjárhæð bóta skuli líta til sakar tjónvalds, fjárhagsstöðu hans og atvika að öðru leyti. Þá beri að líta til þeirra bóta sem þegar hafi verið greiddar til stefnanda eða muni verða greiddar vegna atviksins. Þessi sjónarmið leiði til þess að bætur geti ekki verið ákvarðaðar jafn háar og gerð sé krafa um. Við matið beri að hafa hliðsjón af þeirri meginreglu íslensks skaðabótaréttar að einungis séu greiddar bætur vegna raunverulegs sannaðs fjártjóns. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón séu undantekning frá þeirri meginreglu og beri því að túlka hana þröngt og beita henni af hófsemi.

                Í stefnu komi fram að fjárhæð bótakröfu byggist á því að um algert skeytingarleysi af hálfu stefnda B hafi verið að ræða. Háttsemi stefnda í umrætt sinn hafi fremur verið óhappatilvik en einfalt gáleysi. Ekkert í málinu styðji það að um algert skeytingarleysi af hálfu stefnda hafi verið að ræða. Ljóst sé að verði fallist á að stefnandi eigi rétt á bótum úr hendi stefnda samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga skuli lækka stefnufjárhæð verulega.

                Kröfur um bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga beri ekki vexti samkvæmt 16. gr. laganna enda beri að ákveða fjárhæð bóta fyrir slíkt tjón á grundvelli verðlags eins og það sé á hverjum tíma eftir tjónsatvikið. Því séu ekki lagaskilyrði til að dæma stefndu til greiðslu almennra vaxta af skaðabótakröfu frá tjónsdegi líkt og gerð sé krafa um. Dráttarvaxtakröfu sé einnig mótmælt. Stefndu telji að í fyrsta lagi eigi að miða dráttarvexti við þingfestingardag, en með stefnu hafi í fyrsta skipti verið gerð krafa um greiðslu á 4.000.000 króna. Kröfur stefnanda um greiðslu bóta samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga hafi alltaf miðast við lægri fjárhæð fram að þeim tíma.

                                                                                                IV

                Í máli þessu er eingöngu deilt um hvort stefnandi eigi rétt á miskabótum úr hendi stefndu á grundvelli a-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ekki er ágreiningur um að stefnandi á rétt á bótum að öðru leyti. Samkvæmt framangreindu ákvæði er heimilt að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

                Stefnandi lenti í slysi 7. júlí 2014 er bifreið sem stefndi B ók var ekið í veg fyrir bifreið sem hún var farþegi í. Samkvæmt lögregluskýrslu voru vitni að því að stefndi, sem ók bifreið sinni vestur […]veg, ók henni skyndilega yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir aðra bifreið. Slysið varð síðdegis á björtum sumardegi þegar aðstæður allar voru með besta móti.

                Stefnandi lýsti því fyrir dóminum að hún hefði ekið með vini sínum eftir […]vegi þegar hann hefði skyndilega kallað upp fyrir sig. Hún hefði líklega dottið út og ekki séð hvað hefði gerst. Þá lýsti hún afleiðingum slyssins fyrir sig, andlega og líkamlega. Stefndi B greindi frá því að hann hefði verið á leið heim úr vinnu. Hann vissi ekki hvað hefði gerst en hann hefði allt í einu rankað við sér með loftpúða í andlitinu. Hann kvaðst helst telja að liðið hefði yfir hann. Hann væri ekki yfirliðsgjarn, en á þessum tíma hefði hann átt erfitt, hann hefði m.a. átt í erfiðleikum með að borða og sofa og hefði lést mikið. Hann neitaði því að hann hefði verið að tala í farsíma og kvaðst telja að hann hefði ekið á umferðarhraða. Þá mundi hann ekki til þess að hafa beygt sig eftir neinu.

                Vitnið D, ökumaður bifreiðarinnar [...] sem stefnandi var farþegi í, lýsti því að hann hefði nýlega tekið af stað á ljósum þegar bifreiðarnar hefðu skollið saman. Hann taldi að hann hefði ekki verið á miklum hraða en hann hefði þó líklega verið kominn á örlítið meiri hraða en matsgerð dómkvadds matsmanns segði til um. Hann kvaðst hafa séð að hann væri að mæta bifreið, en ekki séð framan í hinn ökumanninn, heldur séð ofan á hvirfil hans. Honum hefði helst dottið í hug að ökumaðurinn hefði verið að beygja sig í gólfið eftir einhverju sem hefði dottið og þá sveigt í hina áttina.

                Vitnið E greindi frá því að hafa ekið næst á eftir bifreiðinni [...]. Það hefði verið talsverð umferð og aksturinn hefði verið fremur rólegur. Hann hefði ekið á eftir bifreiðinni nokkra stund og verið sjálfur á svipuðum hraða. Skyndilega hefði bifreiðinni [...] verið ekið snöggt til vinstri inn í næstu bifreið. Hann hefði stöðvað bifreið sína til að huga að ökumönnum og farþegum og hefði komið að bifreiðinni [...] um það leyti sem stefndi B hefði komið út úr henni. Honum hefði virst sem eitthvað væri að hjá honum og hefði helst dottið í hug að hann hefði fengið einhvers konar áfall.

                Í matsgerð N, prófessors í vélaverkfræði, er komist að þeirri niðurstöðu að bifreiðin [...] hafi mjög líklega verið á hraðanum 67 km/klst við áreksturinn miðað við að bifreiðin [...] hafi verið á 35 km/klst. Hraði [...] hafi verið að lágmarki 64 km/klst en að hámarki 72 km/klst.

                Til þess að gáleysi teljist stórfellt þarf það að vera á mjög háu stigi. Óumdeilt er að eina orsök árekstursins var að bifreiðin [...] sveigði yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir bifreiðina [...]. Hámarkshraði þar sem áreksturinn varð var 50 km/klst. Leggja verður til grundvallar, í ljósi framangreindrar matsgerðar sem ekki hefur verið hnekkt, að stefndi B hafi umrætt sinn ekið of hratt. Vitni á vettvangi lýstu því þó að hann hefði ekki ekið hratt og hefði verið á umferðarhraða. Þetta var staðfest af vitni fyrir dóminum sem kvaðst hafa ekið nokkra stund á eftir stefnda en taldi hraðann geta hafa verið 50–60 km/klst. Verður ekki talið að ökuhraði stefnda hafi verið slíkt frávik frá því sem tíðkast að hann verði talinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi.

                Ástæða þess að stefndi ók bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming er óljós en þó er ljóst að ekki var um meðvitaða ákvörðun að ræða. Samkvæmt framburði vitna var akstur hans eðlilegur þar til hann sveigði bifreiðinni skyndilega í veg fyrir aðra bifreið. Stefndi telur sjálfur hugsanlegt að hann hafi fengið aðsvif. Framburður vitna styður að svo geti verið, en ökumaður bifreiðarinnar [...] kvaðst hafa séð hvirfil hans, eins og hann hefði lotið höfði, og vitni sem sá stefnda eftir atvikið lýsti því að hafa fundist eins og hann hefði orðið fyrir einhvers konar áfalli. Ósannað er að stefndi hafi verið að nota síma þótt hann hafi legið á gólfi við bifreiðastjórasætið eftir slysið. Ekkert annað hefur komið fram sem varpað getur ljósi á atvikið.

                Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að stefndi B hafi umrætt sinn sýnt af sér stórfellt gáleysi í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Verða stefndu því sýknaðir af kröfu stefnanda.

                Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytisins 27. desember 2016. Allur gjafsóknarkostnaður hennar, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                                D Ó M S O R Ð:

                Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf., C og B, eru sýknir af kröfum stefnanda, A.

                Málskostnaður fellur niður.

   Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.