Kæruleyfi veitt í máli ALC LLC gegn Isavia ohf.

19.06.2019

Í dag var ALC A321 7237 LLC veitt leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar í málinu nr. 321/2019: Isavia ohf. gegn ALC A321 7237 LLC til Hæstaréttar. Í úrskurðum héraðsdóms og Landsréttar var þeirri kröfu leyfisbeiðanda hafnað um að honum yrði sem eiganda nánar tilgreinds loftfars heimilað að fá það tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum gagnaðila og afhent sér. Í beiðni um kæruleyfi byggði leyfisbeiðandi á því að úrskurður Landsréttar væri bersýnilega rangur þar sem gagnaðili hefði ekki haft lögvarða hagsmuni að því að fá úrskurð héraðsdóms endurskoðaðan í heild enda hefði héraðsdómur hafnað kröfu leyfisbeiðanda um heimild til aðfarargerðar og hefði hvorugur aðilanna leitað endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Þá vísaði leyfisbeiðandi einnig til þess að það hefði almennt gildi fyrir flugrekendur og eigendur loftfara að fá úr því skorið hvort niðurstaða Landsréttar um skýringu 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 væri rétt. Var talið að úrlausn um framangreind atriði myndi hafa fordæmisgildi og umsókn um kæruleyfi því tekin til greina.

Ákvörðun Hæstaréttar í heild sinni má lesa hér.