Mál nr. 2019-195

ALC A321 7237 LLC (Eva B. Helgadóttir hrl.) gegn Isavia ohf. (Hlynur Halldórsson hrl.)
Lykilorð
  • Kæruleyfi.
  • Aðfarargerð.
  • Innsetningargerð.
  • Loftfar.
  • Lögvarðir hagsmunir.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 29. maí 2019 leitar ALC A321 7237 LLC leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 24. sama mánaðar í málinu nr. 321/2019: Isavia ohf. gegn ALC A321 7237 LLC, á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Isavia ohf. leggst gegn beiðninni.

Leyfisbeiðandi krafðist þess fyrir héraðsdómi að sér yrði sem eiganda nánar tilgreinds loftfars heimilað að fá það tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum gagnaðila og afhent sér. Gagnaðili tók til varna gegn þeirri kröfu. Í úrskurði héraðsdóms var kröfu leyfisbeiðanda hafnað með vísan til þess að leigutaki loftfarsins hafi staðið í skuld við gagnaðila vegna gjalda sem tengdust þessu tiltekna loftfari og væri gagnaðila rétt svo lengi sem þau gjöld stæðu ógreidd að neyta heimildar samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir til að aftra för þess frá Keflavíkurflugvelli. Í úrskurðinum var málskostnaður á hinn bóginn felldur niður. Gagnaðili kærði úrskurðinn til Landsréttar og krafðist þess að hann yrði staðfestur um annað en málskostnað. Leyfisbeiðandi krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá Landsrétti en til vara að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur. Í úrskurði Landsréttar var tekið fram að þótt héraðsdómur hafi hafnað kröfu leyfisbeiðanda um heimild til aðfarargerðar hafi dómurinn fallist að stærstum hluta á málatilbúnað hans. Þessum forsendum í úrskurði héraðsdóms væri gagnaðili ósammála þótt hann krefðist þess að niðurstaða úrskurðarins yrði staðfest um annað en málskostnað. Þótti gagnaðila heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til að fá hann endurskoðaðan á þennan hátt og var aðalkröfu leyfisbeiðanda því hafnað. Komst Landsréttur síðan að þeirri niðurstöðu að réttur gagnaðila til að aftra för loftfars vegna ógreiddra gjalda samkvæmt 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 væri ekki bundinn við gjöld, sem tengdust því tiltekna loftfari, heldur væri sá réttur fyrir hendi vegna skulda umráðamanns loftfars án tillits til þess hvort stofnað hafi verið til þeirra með notkun annars loftfars. Var niðurstaða úrskurðar héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um heimild til aðfarargerðar því staðfest og var honum gert að greiða gagnaðila málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem gagnaðili hafi ekki haft lögvarða hagsmuni að því að fá úrskurð héraðsdóms endurskoðaðan í heild, þar á meðal forsendur hans um atriði sem dómkröfur aðilanna beindust ekki að, enda hafi héraðsdómur hafnað kröfu leyfisbeiðanda um heimild til aðfarargerðar og hafi hvorugur aðilanna leitað endurskoðunar á þeirri niðurstöðu. Þá vísar leyfisbeiðandi einnig til þess að það hafi almennt gildi fyrir flugrekendur og eigendur loftfara að fá úr því skorið hvort niðurstaða Landsréttar um skýringu 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 sé rétt.

Líta verður svo á að úrlausn um framangreind atriði sem leyfisbeiðandi byggir á myndi hafa fordæmisgildi. Er umsókn um kæruleyfi því tekin til greina.