Ágreiningur um skaðabótaskyldu vegna varnargarða

22.11.2018

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem tvö félög höfðuðu á hendur íslenska ríkinu og Skaftárhreppi til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna tjóns sem félögin töldu sig hafa orðið fyrir vegna tveggja varnargarða sem höfðu verið reistir, annars vegar við útfall Árkvísla úr Skaftá og hins vegar samhliða þjóðvegi 1 að ræsi við svonefndan Litla-Brest. Byggðu félögin á því að með varnargörðunum hefði náttúrulegt flæði Árkvísla fram Eldhraunið verið heft, með þeim afleiðingum að grunnvatnsstaða í hrauninu hefði lækkað og rennsli í lækjum í Landbroti, þar með talið í Grenlæk sem félögin töldu til veiðiréttinda yfir, minnkað. Það hefði svo aftur haft í för með sér samdrátt í veiði í læknum. Héraðsdómur taldi hins vegar ósannað að orsakatengsl væru þar á milli og sýknaði íslenska ríkið og Skaftárhrepp af kröfum félaganna. Var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar gengið var á vettvang í málinu 2. nóvember síðastliðinn. Dóm Hæstaréttar í heild sinni má lesa hér.