Print

Mál nr. 632/2017

Veiðifélag Grenlækjar og Geilar ehf. (Ragnar Aðalsteinsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður) og Skaftárhreppi (Anton B. Markússon lögmaður)
Lykilorð
  • Skaðabótamál
  • Umhverfistjón
  • Orsakatengsl
  • Matsgerð
Reifun

VG og G ehf. höfðuðu mál á hendur Í og S og kröfðust viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna tjóns sem félögin töldu sig hafa orðið fyrir vegna tveggja varnargarða sem höfðu verið reistir, annars vegar við útfall Árkvísla úr Skaftá og hins vegar samhliða þjóðvegi 1 að ræsi við svonefndan Litla-Brest. Byggðu VG og G ehf. á því að með varnargörðunum hefði náttúrulegt flæði Árkvísla fram Eldhraunið verið heft, með þeim afleiðingum að grunnvatnsstaða í hrauninu hefði lækkað og rennsli í lækjum í Landbroti, þar með talið í Grenlæk sem VG og G ehf. töldu til veiðiréttinda yfir, minnkað. Það hefði svo aftur haft í för með sér áhrif á lífríki lækjarins og samdrátt í veiði. Í dómi sínum rakti héraðsdómur efni ýmissa skýrslna, greinargerða og álitsgerða sem aðilar höfðu lagt fram til stuðnings kröfum sínum. Lagði dómurinn til grundvallar að sönnunarbyrðin fyrir því að orsakasamband væri á milli varnargarðanna og ætlaðs tjóns vegna samdráttar á veiði í Grenlæk, hvíldi á VG og G ehf. Til þess að fallast mætti á að slíkt orsakasamband væri fyrir hendi taldi dómurinn að í fyrsta lagi þyrfti að sanna að rennsli í Árkvíslar væri minna heldur en ef varnargarðurinn hefði ekki verið reistur. Í öðru lagi þyrfti að liggja fyrir að dregið hefði úr rennsli grunnvatns til efstu linda Grenlækjar sökum þess að minna vatn rynni í kvíslarnar. Í þriðja lagi þyrfti að sýna fram á að minna vatnsrennsli til upptaka lækjarins hefði haft skaðleg áhrif á seiðauppvöxt og í fjórða lagi þyrftu VG og G ehf. svo að sanna að þessi skaðlegu áhrif hefðu dregið úr veiði í Grenlæk og valdið þeim tjóni. Var það mat héraðsdóms, sem skipaður var sérfróður meðdómsmönnum, að vafi væri um ástæður vaxandi vatnsþurrðar í Grenlæk á síðustu árum. Mætti ætla að rennsli lækjarins réðist af mismunandi náttúrulegum þáttum sem ekki væri unnt að reikna með að væru í innbyrðis jafnvægi við þær óstöðugu aðstæður sem ríktu á svæðinu. Taldi dómurinn ósannað að þeir varnargarðar sem VG og G ehf. vísuðu til hefðu haft neikvæð áhrif á þessa þætti þannig að það kæmi niður á rennsli Grenlækjar á þann hátt sem félögin byggðu á. Voru Í og S því sýknuð af kröfum þeirra. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur niðurstöður matsgerðar dómkvaddra manna sem VG og G ehf. höfðu aflað að gengnum héraðsdómi og taldi hana ekki renna stoðum undir að orsakasamband væri á milli umræddra mannvirkja og þess tjóns sem væri grundvöllur viðurkenningarkröfu VG og G ehf. Að því gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson, Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 10. júlí 2017. Ekki varð af þingfestingu þess 6. september það ár og áfrýjuðu þeir öðru sinni 3. október 2017. Þeir krefjast þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda íslenska ríkisins gagnvart sér vegna lokunar ,,Árkvíslar (Brests) í Eldhrauni“ með stíflugarði og vegna stöðvunar vatnsrennslis með stíflugarði ofan við þjóðveg 1, austan Árkvísla, sem hvoru tveggja hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Jafnframt krefjast áfrýjendur viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda Skaftárhrepps gagnvart sér vegna lokunar ,,Árkvísla (Brests) í Eldhrauni“ með stíflugarði sem hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi beggja stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.  

Stefndu krefjast báðir staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjendur verði dæmdir til að greiða þeim, hvorum um sig, málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómendur gengu á vettvang 2. nóvember 2018.

I

Í málinu krefjast áfrýjendur viðurkenningar á skaðabótaskyldu íslenska ríkisins annars vegar og Skaftárhrepps hins vegar, vegna þeirra athafna sem tilgreindar eru í kröfugerðinni. Áfrýjendur telja að þessar athafnir hafi leitt til vatnsþurrðar í Grenlæk og röskunar á lífríki lækjarins sem leitt hafi til minni fiskgengdar og þar með valdið þeim fjárhagslegu tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á. Áfrýjendur telja að skilyrðum skaðabótaábyrgðar sé fullnægt því framkvæmdir þær sem um ræði hafi verið bæði saknæmar og ólögmætar. Auk þess að reisa kröfur um viðurkenningu á skaðabótaskyldu á sakarreglunni vísa áfrýjendur einnig til 136. gr. vatnalaga nr. 15/1923, eins og efni greinarinnar var fyrir gildistöku laga nr. 132/2011 um breytingu á vatnalögum, sbr. nú 141. gr. þeirra laga. Leit héraðsdómur svo á að málsástæðum um þetta hafi nægilega verið teflt fram í málatilbúnaði áfrýjenda þar fyrir dómi þannig að líta mætti svo á að kröfur þeirra styddust einnig við þessa hlutlægu skaðabótareglu. Áfrýjendur telja ljóst að orsakatengsl séu milli hinnar skaðabótaskyldu háttsemi stefndu og tjóns sem þeir hafi orðið fyrir. Tjónið hafi verið staðreynt með álitsgerð 5. september 2013, sem unnin hafi verið af Vífli Oddssyni verkfræðingi og Stefáni Óla Steingrímssyni fiskavistfræðingi en gerð er grein fyrir niðurstöðum álitsgerðarinnar í hinum áfrýjaða dómi.

Kröfur áfrýjenda lúta nánar tiltekið í fyrsta lagi að því að mannvirki við útfall Árkvísla úr Skaftá hafi takmarkað rennsli í kvíslunum og það hafi leitt til minna vatns í Grenlæk er síðan hafi leitt til áfalla fyrir sjóbirtingsstofninn í ánni. Mannvirkið er varnargarður, en hann er einnig í gögnum málsins kallaður stíflugarður eða leirstífla, og var upphaflega reistur líklega í október 1992, fyrst með einu röri sem mun hafa verið tveir metrar í þvermál og staðsett ofarlega í garðinum þar sem vatn rann út í Árkvíslar. Árið eftir mun rörið hafa verið lækkað í garðinum til að auka rennsli um það og öðru röri var síðan bætt við 1997. Þá mun einnig hafa verið grafið að rörunum til að auka útrennsli um þau. Þessar ráðstafanir voru gerðar að kröfu landeigenda í Landbroti sem töldu varnargarðinn hefta náttúrlegt flæði Árkvísla út á hraunið með þeim afleiðingum að grunnvatnsstaða í Eldhrauni lækkaði og rennsli í lækjum í Landbroti, þar með talið í Grenlæk minnkaði. Í gögnum málsins kemur fram að saga áþekkra mannvirkja á svæðinu sé löng. Á árinu 1962 var ýtt upp varnargarði suðvestan við útfall Árkvísla úr Skaftá, og var tilgangur hans að hemja kvíslarnar þannig að þær féllu ekki í heild eða að hluta í Eldvatn. Er enn varnargarður á þessum stað, sem hefur verið lengdur og endurbættur, en hann er ekki meðal mannvirkja, sem hafa þýðingu við úrlausn um kröfur áfrýjenda. Við útfallið úr Skaftá munu bændur um 1980 hafa grafið frá farvegi árinnar til þess að auka vatn í Árkvíslum.  

Í öðru lagi lúta kröfur áfrýjenda að varnargarði, sem reistur hafi verið norðan við og samhliða þjóðvegi 1 frá brúnni yfir Brest í austur og að stað þar sem ræsi er undir þjóðveginn en sá staður er nefndur Litli-Brestur. Brestur (Stóri-Brestur) mun hafa verið djúp hrauntröð, sums staðar þriggja til fjögurra metra breið, er lá frá stað nokkru ofan þjóðvegar og náði langleiðina suður til Botna. Hrauntröðin fylltist fyrir löngu af sandi og jökulleir vegna árframburðar, en þar ofan á renna Árkvíslar til suðurs og undir áðurnefnda brú á þjóðveginum. Þessi varnargarður hafi haft sömu áhrif og fyrrnefndi varnargarðurinn, það er hindrað náttúrlegt flæði vatns út á Eldhraunið sem aftur hafi leitt til minna vatns í Grenlæk og átt þátt í þeim áföllum sem áður greinir.

Mikill vatnsskortur varð í Grenlæk vorið 1998 og var talið að til þess mætti rekja seiðadauða sem varð í læknum. Var varnargarðurinn við útfall Árkvísla rofinn 15. og 16. júní þetta ár. Hann var reistur á ný í nóvember 2000 með þremur rörum, sem hvert um sig var tveir metrar í þvermál og var eitt þeirra með lokunarbúnaði. Var því röri lokað á sumrin eins og rakið er í héraðsdómi, en mun hafa staðið opið allt árið frá og með árinu 2013.

Áfrýjendur telja að þegar virt séu saman áhrif beggja varnargarðanna á vatnsrennsli í Grenlæk sé sannað að tjónið á lífríki í læknum og samdráttur í fiskveiði þar sé afleiðing af gerð þessara mannvirkja. Mál sitt reisa þeir eins og fyrr greinir á því að stefndi íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð á framkvæmdunum, sem unnar hafi verið af Vegagerð ríkisins, án þess að tilskilinna leyfa hafi verið aflað, en stefndi Skaftárhreppur, hafi verið framkvæmdaraðili við gerð varnargarðsins við útfall Árkvísla í nóvember 2000 og stýrt lokunum á því röri sem hafði slíkan búnað.

Í hinum áfrýjaða dómi er lagt til grundvallar að sönnunarbyrðin fyrir því að orsakasamband sé milli varnargarðsins við útfall Árkvísla úr Skaftá og tjóns vegna samdráttar í veiði í Grenlæk hvíli á áfrýjendum. Til þess að fallast mætti á að slíkt orsakasamband væri fyrir hendi telur dómurinn með réttu að fjórum skilyrðum þyrfti að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þyrfti að sanna að rennsli í Árkvíslar væri minna en verið hefði ef varnargarðurinn hefði ekki verið reistur og í hann sett rör til að stýra útflæði vatns úr Skaftá, heldur hefði náttúran fengið að fara sínu fram án afskipta mannsins. Í öðru lagi þyrfti að liggja fyrir að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til efstu linda Grenlækjar sökum þess að minna vatn renni nú í Árkvíslar, en í því sambandi verði að hafa í huga hver sé uppruni vatnsins í upptökum Grenlækjar og hvernig grunnvatn streymi til lindanna sem renni undan norðausturhluta Eldhrauns. Í þriðja lagi yrði að sýna fram á að minna vatnsrennsli til upptaka Grenlækjar hafi haft skaðleg áhrif á uppvöxt seiða í honum. Í fjórða lagi yrðu áfrýjendur að sanna að þessi skaðlegu áhrif hafi dregið úr veiði í læknum og valdið þeim tjóni. Allt hið sama á við um áhrif varnargarðsins norðan og meðfram þjóðvegi 1.

Í héraðsdómi er rakið efni ýmissa skýrslna og greinargerða, auk framangreindrar álitsgerðar, sem áfrýjendur og stefndi íslenska ríkið hafa lagt fram til stuðnings kröfum sínum. Jafnframt er tekið fram að áfrýjendur hafi ekki brugðist við málatilbúnaði stefndu í héraði með því að afla matsgerðar dómkvaddra manna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og þeir hafi átt kost á til þess að færa sönnur á þau orsakatengsl sem þyrftu að vera fyrir hendi svo að til skaðabótaábyrgðar gæti komið. Dómurinn, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi vafa leika á því hverjar væru ástæður vaxandi vatnsþurrðar í Grenlæk síðustu árin samhliða því að meðalmánaðarrennsli bæði í Grenlæk og Tungulæk hafi vaxið eins og fram hafi komið í tilgreindri skýrslu Veðurstofu Íslands. Eins og málið lá fyrir dóminum taldi hann ósannað að hefði varnargarðurinn, með þeim búnaði sem á honum hefur verið, ekki risið við útfall Árkvísla úr Skaftá væru lífsskilyrði seiða í Grenlæk betri. Mögulega væri staðan önnur og þá hugsanlega verri. Dómurinn dró þá ályktun að rennsli í Grenlæk réðist af mismunandi náttúrulegum þáttum sem ekki væri unnt að reikna með að væru í innbyrðis jafnvægi við þær óstöðugu aðstæður sem ríktu á svæðinu. Ekki hafi verið færðar sönnur á að þau mannvirki sem dómkröfur áfrýjenda vísuðu til hefðu haft neikvæð áhrif á þessa þætti þannig að það kæmi niður á rennsli Grenlækjar á þann veg sem áfrýjendur reisi málatilbúnað sinn á. Af þessari ástæðu taldi dómurinn að sýkna bæri stefndu af kröfum þeirra.

II

Að gengnum héraðsdómi beiddust áfrýjendur 31. ágúst 2017 dómkvaðningar tveggja manna til þess að svara tólf spurningum, sem tíundaðar voru í matsbeiðni. Dómkvaddir voru 8. desember sama ár matsmennirnir Ragnhildur Gunnarsdóttir umhverfisverkfræðingur og Skúli Skúlason prófessor. Var lagt fyrir matsmenn að framkvæma hið umbeðna mat eins og það var tilgreint í matsbeiðni, en í því fólst að veita svör við eftirgreindum spurningum: 1. Hvort matsmenn teldu að rennsli vatns í Grenlæk hafi minnkað á undanförnum árum, það er frá því að rennslismælingar hófust árið 1993. Jafnframt var óskað svara við því hvort unnt væri að segja til um hvort rennslið hefði minnkað fyrir það tímamark, það er eftir 1983, og ef svo væri, hvenær og hve mikið, á að giska, hafi það minnkað að meðaltali frá 1983 til 1993. 2. Ef matsmenn teldu að vatnsrennslið í Grenlæk hafi minnkað á tímabilinu frá 1993, og eftir atvikum frá 1983, þá var spurt hvort vatnsrennslið hafi verið breytilegt eftir tímabilum, til dæmis eftir árið 2000 þegar rörum mun hafa verið fjölgað í þrjú við útfall Árkvísla úr Skaftá. 3. Kæmust matsmenn að þeirri niðurstöðu að rennsli vatns í Grenlæk hafi farið minnkandi frá 1992 og eftir atvikum einnig frá 1983, en þó hugsanlega breytilega eftir tímabilum, þá var spurt hvort þeir teldu að rennslisminnkun í Grenlæk yrði rakin til aðgerða stefndu eða aðila á þeirra vegum í grennd við Grenlæk að öllu leyti eða að hluta. 4. Kæmust matsmenn að þeirri niðurstöðu að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk yrði aðeins að hluta rakið til aðgerða opinberra aðila í grennd við lækinn, þá væri óskað mats þeirra á því að hve miklum hluta rennslisminnkunin yrði rakin til aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum og að hve miklu leyti til annarra orsakaþátta. 5. Teldu matsmenn að rennsli hafi minnkað í Grenlæk væri spurt hvort vatnsminnkunin yrði að einhverju leyti, og þá að hve miklu leyti, rakin, annars vegar til ,,lokunar Árkvísla (Brests) í Eldhrauni“ að minnsta kosti að hluta með stíflugarði, sem áfrýjendur telja að hafi heft náttúrlegt flæði vatns fram Eldhraunið og hins vegar til stöðvunar vatnsrennslis með varnargarði ofan við þjóðveg 1 austan Árkvísla, sem áfrýjendur telji að hafi heft náttúrlegt flæði vatns fram Eldhraunið og dregið úr rennsli ,,í grunnvatn í hrauninu“. 6. Hvort matsmenn teldu að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til Grenlækjar ekki síst til efstu linda hans vegna þess að minna vatn rynni í Árkvíslar. 7. Hvort matsmenn teldu að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til Grenlækjar vegna varnargarðsins austan Brests norðan þjóðvegar 1. 8. Ef matsmenn teldu að minnkun vatnsrennslis í Grenlæk hafi haft neikvæð áhrif á lífríkið í læknum, væri óskað svara við því í hverju hin neikvæðu áhrif væru fólgin. 9. Hvort matsmenn teldu að urriða- og bleikjustofninn í Grenlæk hafi minnkað af völdum minnkandi vatnsrennslis í lækinn á undanförnum árum, það er frá árinu 1993 eða eftir atvikum frá 1983. 10. Ef matsmenn teldu að vatnsrennsli í Grenlæk hafi minnkað af völdum aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum, sem lýst var í matsspurningu 5, og fiskistofnar og þar með veiði í Grenlæk hafi minnkað þá væri spurt hversu mikil minnkun vatnsrennslis í Grenlæk hafi verið og hvort minnkun þess yrði að öllu leyti rakin til aðgerða opinberra aðila, sbr. matsspurningu 5, eða hvort hún yrði að hluta rakin til greindra aðgerða og þá að hve miklu leyti. 11. Teldu matsmenn að minnkandi vatnsrennsli til Grenlækjar, ekki síst til efstu linda hans, hafi minnkað af völdum aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum þá væri spurt hvort rennslisminnkunin hafi haft skaðleg áhrif á uppvöxt seiða í læknum og ef svo væri þá var spurt í hverju hin skaðlegu áhrif væru fólgin. 12. Teldu matsmenn að minnkandi vatnsrennsli í Grenlæk af völdum opinberra aðila hafi haft áhrif á lífríki lækjarins og leitt til minnkandi veiði urriða og bleikju, þá væri óskað eftir að þeir legðu mat á hvort áfrýjendur hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna minnkandi veiði í læknum.

Í matsgerð 9. mars 2018 gerðu matsmenn í fyrri hluta með almennum hætti grein fyrir ágreiningsefnum málsins eins og þeir töldu að álykta mætti um þau af matsspurningum. Þeir röktu síðan meginatriði málsins um stýringu á rennsli Árkvísla, um garð norðan og meðfram þjóðvegi 1, austan við Brest og loks um stýringu á rennsli Skaftár við Skálarál, sem þó er ekki hluti þess sem kröfur áfrýjenda eru reistar á. Í matsgerðinni var einnig fjallað um rennslismælingar og hvernig háttað væri grunnvatnsstreymi í Eldhrauni. Þá var gerð grein fyrir rannsóknum á uppruna og efnafræði vatns í Landbroti, þýðingu veðurfars og Skaftárhlaupa á vatnsrennsli, meðal annars Grenlækjar og setburð í Skaftá og þýðingu hans fyrir streymi vatns gegnum hraunið og niður í grunnvatnsgeyma. Loks var í fyrri hluta matsgerðarinnar fjallað um lífríki Grenlækjar, fiska í læknum, rennsli í honum og áhrif þess á afkomu seiða og stærð árganga og veiði, svo og um fjárhagslegt tjón, en í því sambandi röktu matsmenn helstu niðurstöður álitsgerðar þeirra Vífils Oddssonar og Stefáns Óla Steingrímssonar frá árinu 2013.

Í öðrum hluta matsgerðarinnar veittu matsmenn svör við þeim spurningum sem áður hafa verið raktar úr matsbeiðni og voru meginatriði í svörum þeirra við tilgreindum spurningum eftirfarandi: 1. Í upphafi svars við þessari spurningu gerðu matsmenn grein fyrir því hvernig rennslismælingum hefði verið háttað í Grenlæk frá 1993. Þá hafi verið  settur þar upp rennslismælir, en hann hafi verið tekinn úr rekstri 1994. Matsmenn tóku fram að þar hafi ekki verið mælt rennsli á árunum 1983 til 1993. Á hinn bóginn hafi rennsli verið mælt í Tungulæk á síðastnefndu árabili. Matsmenn tóku fram að þeir hafi haft aðgang að upplýsingum um mælt rennsli í Grenlæk og Tungulæk og að unnt væri, með fyrirvara þó, að leiða líkum að ætluðu rennsli í Grenlæk, á þeim tíma sem þar hefði ekki verið mælt, með ályktunum af upplýsingum um rennsli í Tungulæk á sama tímabili. Rennsli hafi verið mælt í Grenlæk frá 1995 með tilteknum mæli. Niðurstaða matsmanna var sú að mánaðarmeðalrennsli vatns í Grenlæk, mælt við framangreindan rennslismæli, hafi ekki farið minnkandi á undanförnum árum, það er á því tímabili sem niðurstöður rennslismælinga liggi fyrir frá 1995 til 2015. Þvert á móti hafi rennslið virst fara vaxandi. Ekki væri unnt að meta með vissu hvort rennsli hafi minnkað á árunum 1983 til 1995. Því verði heldur ekki áætlað hversu mikið rennsli hafi minnkað að meðaltali á tímabilinu 1983 til 1993. Í því sambandi kom fram í matsgerðinni að rennsli hafi aukist í Tungulæk á þessu árabili. Matsmenn bentu á að hafa yrði í huga að þótt mánaðarmeðalrennsli vatns í Grenlæk, mælt við áðurnefndan rennslismæli, hafi ekki farið minnkandi á undanförnum árum, væru þurrðir vaxandi vandamál í Grenlæk og Tungulæk. Þurrkur hafi orðið í Grenlæk 1998 og 2016 og nokkur ár frá aldamótum hafi vatnsrennsli lækjarins á fyrri hluta árs verið með minna móti. 2. Til svars við þessari spurningu vísuðu matsmenn til svars við spurningu 1 og tóku fram að niðurstöður rennslismælinga, miðað við framangreindan mæli, frá 1995 til 2015 sýndu ekki minnkun á mánaðarmeðalrennsli Grenlækjar. Við skoðun á mánaðarmeðalrennsli í Tungulæk á tímabilinu 1983 til 1995 kæmi í ljós að meðalrennsli þar hafi aukist á tímabilinu. Mætti leiða líkum að því að sú hafi einnig verið raunin um Grenlæk. Matsmenn tóku einnig fram að þótt þeir styddust eingöngu við stakar rennslismælingar teldu þeir að þær bentu til að rörin í varnargarðinum við útfall Árkvísla úr Skaftá hefðu ekki haft takmarkandi áhrif á rennsli Grenlækjar. Á hinn bóginn töldu þeir að aursöfnun innan við útfallið hefði haft takmarkandi áhrif á rennsli um rörin. Matsmenn áréttuðu að árstíðabundnar sveiflur væru í rennsli Grenlækjar og það væri jafnan minnst að vori. Á árunum 1998 og 2016 hafi rennsli til efstu linda lækjarins verið það lítið að alger þurrkur hafi orðið í þeim. 3. Um svar við þessari spurningu vísuðu matsmenn enn til svars við þeirri fyrstu og áréttuðu að rennslismælingar 1995 til 2015 sýndu ekki minnkun á mánaðarmeðalrennsli Grenlækjar. Matsmenn tóku einnig fram að saga mannvirkja í Eldhrauni væri að minnsta kosti rúmlega aldargömul og að stýring á rennsli vatns um Árkvíslar væri aðeins einn liður af mörgum sem haft hefði áhrif á náttúrulegt rennsli vatns í Eldhrauni. Matsmenn vísuðu í þessu sambandi til skýrslu Veðurstofu Íslands frá 2015 þar sem fram hafi komið að skortur á úrkomu væri talinn megin skýring þurrka í lækjum í Landbroti og Meðallandi. Þá hafi einnig komið þar fram að úrkoma og snjósöfnun síðla vetrar hafi mikið að segja um grunnvatnsstöðu að vori. Vorið 1998 hafi þurrkar í lækjum á svæðinu verið almennt vandamál þar sem úrkoma hafi verið með því minnsta sem mælst hafi. Lítill snjór hafi safnast í hraunið um veturinn og verið hlýtt fram að áramótum og úrkoma fallið sem rigning. Rennsli Grenlækjar hafi verið langt yfir meðalrennsli í upphafi árs. Síðla vetrar hafi verið þurrkatíð og rennsli í Skaftá verið lítið og því hafi áin flætt lítið út á hraunið. Ekki hafi bætt úr skák að snjóbráð hafi ekki verið til að dreifa og því hafi rennsli Grenlækjar farið hratt minnkandi og mælst minna en gerst hafi frá upphafi mælinga. Matsmenn tilgreindu að þrennt hefði gerst sem gæti hafa orðið til þess að rennslið í Grenlæk hafi farið að aukast þegar vika var liðin af júlí. Í fyrsta lagi hafi komið til vatnaveitingar við Skálarál og Stapaál 23. maí 1998, í öðru lagi stíflurof við útfall Árkvísla úr Skaftá 15. og 16. júní og í þriðja lagi að rennsli í Skaftá við Skaftárdal hafi farið að aukast í lok júní þetta ár. Matsmenn töldu ekki mögulegt að greina faglega milli orsakasamhengis framangreindra mögulegra áhrifavalda og aukins rennslis í Grenlæk í þetta sinn. Árið 2016 hafi einnig orðið mikill þurrkur í Grenlæk og mánuðina mars, apríl og maí hafi  samanlögð úrkoma við Kirkjubæjarklaustur mælst um fjórðungur þess sem vanalegt væri í þessum mánuðum. Miklir þurrkar hafi því ríkt í Skaftárhreppi. Niðurstöðu sína í svari við þessari spurningu sögðu matsmenn vera að saga mannvirkja á svæðinu væri löng og flókin og ekki væri auðvelt að greina hver heildaráhrif þeirra á lindarennsli í Landbroti hafi verið. Rannsóknir og mælingar á grunnvatnshæð og streymi grunnvatns hafi sýnt að vatnaveitingar út á hraunið við Árkvíslar hafi takmörkuð áhrif á rennsli Grenlækjar og Tungulækjar en vatnaveitingar við Skálarál hafi töluverð áhrif á rennsli lækjanna. Rennsli um Árkvíslar fyrir stækkun bænda á útfalli þeirra úr Skaftá árið 1980 væri óþekkt og stakar mælingar í Árkvíslum 1982 til 2013 sýndu ekki fram á að stíflugarður með rörum hafi haft heftandi áhrif á rennsli Grenlækjar. Þau ár sem þurrkar hafi orðið í Grenlæk 1998 og 2016 hafi verið farið út í vatnaveitingar í kjölfar tímabils þar sem úrkoma hafi verið með minnsta móti og þurrkar höfðu verið almennt vandamál í Landbroti og Meðallandi. Framkvæmdir hafi verið bæði við Árkvíslar og Skálarál 1998 og að minnsta kosti við Árkvíslar 2016. Úrkoma hafi einnig tekið að aukast á sama tíma og umræddar framkvæmdir hafi átt sér stað, bæði 1998 og 2016. Matsmenn töldu því ekki gerlegt að greina á milli orsakasamhengis mögulegra áhrifaþátta og vatnsrennslis Grenlækjar. Þar af leiddi að ekki væri unnt að sýna fram á með vísindalegum hætti að umrædd mannvirki, stíflugarður með rörum við útfall Árkvísla úr Skaftá og garður norðan og meðfram þjóðvegi 1, austan Brests, hafi haft neikvæð áhrif á vatnsrennsli Grenlækjar. 4. Í svari við þessari spurningu vísuðu matsmenn til þess sem fram hafi komið í svörum þeirra við fyrstu og þriðju spurningu. 5. Enn vísuðu matsmenn til svara sinna við fyrstu og þriðju spurningu í matsbeiðni. Þeir tóku jafnframt fram að þeim virtist ekki unnt að sýna fram á að garður norðan við og meðfram þjóðvegi 1, austan Brests, hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið og dregið úr rennsli í grunnvatn í hrauninu, sérstaklega þar sem vatn næði alla jafna ekki að garðinum nema síðsumars. Rennsli í grunnvatn ætti sér ennþá stað en það gerðist austar í hrauninu en áður sökum þéttingar hraunsins. Aukið írennsli austan við Brest og nær Skálarál ætti samkvæmt niðurstöðum rannsókna á grunnvatnsstreymi að hafa jákvæð áhrif á vatnabúskap Grenlækjar. 6. Niðurstaða í svari matsmanna við þessari spurningu var að ekki væri unnt að sýna fram á með faglegum hætti að rennsli um Árkvíslar væri minna í dag en það hefði verið án afskipta mannsins. Ef rennsli um Árkvíslar hefði verið meira mætti leiða líkur að því að þétting hraunsins sunnan við þjóðveg 1 hefði verið útbreiddari í dag með minni möguleikum vatns, til dæmis úrkomu, á að komast ofan í hraunið. Minna rennsli um Árkvíslar og aukið rennsli um eystri grein Skaftár ætti samkvæmt rannsóknum á grunnvatnsstreymi að geta haft jákvæð áhrif á grunnvatnsstreymi í átt að Grenlæk. Matsmönnum þætti af þessum ástæðum ekki gerlegt að sýna fram á með vísindalegum hætti að minna vatn rynni í Árkvíslar og þar með þætti þeim ekki heldur gerlegt að sýna fram á að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til Grenlækjar, ekki síst efstu linda hans vegna þess að minna vatn rynni í Árkvíslar. 7. Til svars við þessari spurningu vísuðu matsmenn einkum til svars við spurningu 5 í matsbeiðni. Vatn lægi ekki að garðinum nema þegar mikið væri í Skaftá síðsumars í jökulleysingum. Þétting hraunsins gerði það að verkum að vatn úr Árkvíslum leitaði austar en það gerði áður. Ekki væri unnt að sýna fram á að garðurinn ofan þjóðvegar sem um ræðir hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið og dregið úr rennsli í grunnvatn í hrauninu, einkum þar sem vatn næði alla jafna ekki að garðinum nema síðsumars, svo sem áður greindi. 8. Matsmenn svöruðu þessari spurningu svo að aukin tíðni lítils rennslis síðustu 20 ár og þurrkur að vori í allt að tvo mánuði á efsta þriðjungi Grenlækjar 1998 og 2016 hafi greinilega haft neikvæð áhrif á lífríki lækjarins. Áhrif á blaðgrænu væru greinileg og smádýralíf, svo sem lirfur mikilvægra vatnaskordýra á steinum, hafi drepist þegar árbotn hafi þornað. Þessar breytingar hafi örugglega haft áhrif á afkomu sjóbirtingsseiða allt að þriggja árganga, bæði vöxt þeirra og lifun þau ár sem um ræðir. Neikvæð afkoma sjóbirtingsseiða skili sér ljóslega í færri fiskum í eldri árgöngum og einstaklingum sem nái kynþroska. Áhrif á bleikju hafi verið einhver en minni, einkum vegna þess að uppeldissvæði bleikjuseiða væru neðar í ánni þar sem rennslið hafi verið meira og árbotninn hafi ekki þornað upp. Áhrif á hornsíli, ála og fugla sem byggi afkomu sína á Grenlæk hafi vaflaust verið einhver, en þau hafi ekki verið rannsökuð sérstaklega. 9. Matsmenn svöruðu þessari spurningu játandi að því er varðaði sjóbirtingsstofninn sem væri í Grenlæk. Með samanburði við sjóbirtingsveiði í öðrum ám mætti sjá með nokkru öryggi að fækkun sjóbirtings í Grenlæk orsakaðist að talsverðu leyti af staðbundnum þáttum frekar en almennum umhverfisþáttum. Á hinn bóginn töldu matsmenn að fækkun bleikju mætti fremur rekja til almennra umhverfisþátta og einnig að hún héldist í hendur við almenna fækkun bleikju í vatnakerfum á þessu svæði, sem endurspeglaði að öllum líkindum breytingar sem væru að eiga sér stað í útbreiðslu íslenskrar bleikju. 10. Til svars við þessari spurningu vísuðu matsmenn til svars þeirra við spurningu 1. 11. Í svari sínu við þessari spurningu áréttuðu matsmenn að rennslismælingar í Grenlæk við tiltekinn rennslismæli bentu ekki til minnkandi mánaðarmeðalrennslis í læknum, en þurrkar og takmarkað rennsli í efstu lindum væru þó vaxandi vandamál og hefðu greinilega haft skaðleg áhrif á vöxt og afkomu sjóbirtingsseiða. Þau skaðlegu áhrif kæmu síðan fram í fækkun í árgöngum veiddra sjóbirtinga. Loks tóku matsmenn fram að ekki væri gerlegt með faglegum hætti að greina að möguleg áhrif aðgerða opinberra aðila eða aðila á þeirra vegum frá öðrum aðgerðum eða breytingum eða óstöðugleika í náttúrunni til að skera úr um hvað ylli tímabundinni, en nokkuð tíðri, rennslisminnkun til efstu linda Grenlækjar. 12. Um svar matsmanna við þessari spurningu vísast til þess sem greinir í svari þeirra við spurningu 11.

Í lokaorðum matsgerðarinnar kom fram að meginniðurstaða matsmanna væri sú, að ekki væri með vísindalegum hætti unnt að sýna fram á að þau mannvirki, sem deilur stæðu um, hafi haft þau áhrif á rennsli Grenlækjar að þurrkar væru vaxandi vandamál. Aftur á móti töldu matsmenn að það væri ljóst að takmarkað rennsli að vori í Grenlæk, sem og langvarandi þurrkar hefðu haft slæm áhrif á lífríki í læknum og þá sérstaklega á afkomu sjóbirtings. Ennfremur töldu matsmenn ljóst að hver sem áhrif mannvirkja á vatnafar á Skaftársvæðinu kunni að vera hafi önnur framvinda náttúrunnar mikið að segja varðandi rennsli vatnsfalla á svæðinu. Vatnasvið Skaftár væri gríðarlega stórt og því hafi úrkoma mikil áhrif. Þótt vatnsmagn í hverju Skaftárhlaupi væri mikið bæri að hafa í huga að þau væru stutt og ennfremur hafi mælingar sýnt að þau hefðu takmörkuð áhrif á grunnvatnsstöðu að vori, þótt neikvæð áhrif þeirra á þéttingu hraunsins væru töluverð.

Samkvæmt öllu framansögðu rennir matsgerð dómkvaddra manna ekki stoðum undir að orsakasamband sé milli þeirra mannvirkja sem áfrýjendur vísa til í kröfugerð sinni og þess tjóns sem er grundvöllur viðurkenningarkröfunnar. Áfrýjendum hefur því ekki tekist sönnun um að mannvirkin séu ein af orsökum þess að þeir hafi orðið fyrir tjóni.

Að gættum framangreindum athugasemdum vegna matsgerðar dómkvaddra manna, en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að hver málsaðila beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2017

I

         Mál þetta, sem var dómtekið 15. febrúar sl., er höfðað af Veiðifélagi Grenlækjar í Landbroti, Þykkvabæ 1 í Skaftárhreppi, og Geilum ehf., Seglbúðum í Skaftárhreppi, gegn Skaftárhreppi, Klausturvegi 19 í Skaftárhreppi, og íslenska ríkinu.

         Í málinu gera stefnendur þá kröfu gagnvart stefnda, íslenska ríkinu, að viðurkennd verði bótaskylda þess vegna lokunar Árkvíslar (Brests) með stíflugarði og vegna stöðvunar vatnsrennslis með stíflugarði ofan við þjóðveg 1 austan Árkvísla, sem hvor tveggja hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Þá gera stefnendur þá dómkröfu gagnvart stefnda Skaftárhreppi að viðurkennd verði bótaskylda sveitarfélagsins vegna lokunar Árkvíslar (Brests) í Landbroti með stíflugarði sem hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Stefnendur krefjast enn fremur málskostnaðar að skaðlausu.

         Stefndi, íslenska ríkið, krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdóms 14. október 2015. Að því frágengnu krefst stefndi, íslenska ríkið, sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að mati dómsins.              

         Stefndi, Skaftárhreppur, krafðist þess einnig aðallega að dómkröfu stefnenda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda yrði vísað frá dómi. Með framangreindum úrskurði héraðsdóms 14. október 2015 var þeirri kröfu hafnað. Að því frágengnu gerir stefndi Skaftárhreppur kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar.

         Dómarar, þáverandi lögmaður stefnenda, ríkislögmaður og aðilar gengu á vettvang 13. september 2016. Var þá fyrirhugað að aðalmeðferð yrði fram haldið degi síðar að því tilskildu að áður væri unnt að lýsa yfir lokum skriflegrar gagnaöflunar. Dómsformanni var tjáð í vettvangsferðinni að stefnendum hefði ekki tekist að afla allra þeirra gagna sem þeir vildu leggja fram. Í samráði við alla aðila var þá ákveðið að fresta aðalmeðferð um sinn og var málið tekið fyrir 29. nóvember og 7. desember 2016 til að ljúka framlagningu gagna. Í síðara þinghaldinu var ákveðið að aðalmeðferð yrði fram haldið 12. desember 2016. Því þinghaldi var frestað að beiðni lögmanns stefnda, íslenska ríkisins, með samkomulagi allra aðila til 6. janúar 2017. Fyrirsvarsmaður stefnanda og 12 vitni gáfu þá skýrslur og var aðalmeðferð síðan frestað til 20. janúar 2017. Að ósk núverandi lögmanns stefnanda var því þinghaldi frestað til 15. febrúar 2017. Við þá framhaldsaðalmeðferð gáfu fjórir einstaklingar vitnaskýrslu og var málið þá dómtekið að loknum málflutningi.

II

         Skaftá á upptök í tveimur kötlum í Skaftárjökli þar sem jarðhiti er undir jökulís. Lænur renna einnig úr Síðujökli og sameinast jökulvatninu úr Skaftárjökli. Úr norðanverðum Langasjó rennur enn fremur lindarvatn til austurs um Útfallið í Skaftá. Áin kvíslast síðan um aura suðaustan Fögrufjalla en rennur síðan í tiltölulega skýrum farvegi suður fyrir Sveinstind, um heiðarlönd og niður í Skaftárdal. Á þessari leið sameinast vatn úr lind- og dragám víða jökulvatninu í Skaftá.

         Í Skaftárdal hefur Skaftá fundið sér farveg í hrauninu sem rann í Skaftáreldum 1783. Fram kemur í gögnum málsins að þegar hraunið rann niður dalinn hafi það fyllt forn gljúfur árinnar. Hraunið dreifði sér því næst sunnan við dalinn og suður fyrir Skálarheiði og er þar nefnt Eldhraun. Þar liggur hraunið ofan á eldra hraunlagi, Landbrotshrauni, sem af mörgum jarðfræðingum er talið hafa runnið á 10. öld. Undir Landbrotshrauni er enn þá eldra hraunlag, svonefnt Botnahraun. Þessi hraun liggja ofan á aurkeilu sem framburður Skaftár hafði náð að mynda allt frá ísaldarlokum og lá frá Skaftárgljúfri til sjávar.

         Sunnan við bæinn Skaftárdal, rétt austan við Sjónarhól, skiptist Skaftá og rennur áin annars vegar meðfram vesturjaðri hraunsins og hins vegar norðan við það. Vestari áin ber heitið Eldvatn, oft nefnd Ása-Eldvatn, sem sameinast Tungufljóti nokkru sunnar og heitir þá Kúðafljót. Um það bil 60% af vatni Skaftár í Skaftárdal rennur í Ása-Eldvatn, en um 40% af því rennur til austurs, suður fyrir Árhól vestan við Skálarheiði. Þessi kvísl heldur nafninu Skaftá. Rennur hún áfram í austurátt milli Eldhrauns og heiðarinnar, norðan við Skálarstapa og sunnan við bæinn Skál, og þaðan áfram sunnan Síðuheiða uns hún sveigir til suðausturs fyrir austan Kirkjubæjarklaustur og rennur í átt til sjávar austan við Landbrot.

         Líkt og almennt gildir um jökulár er rennsli Skaftár breytilegt. Meira vatn er í ánni á sumrin þegar bráð úr jöklinum er með mesta móti. Þegar kólnar dregur hins vegar úr vatnsrennsli í Skaftá, auk þess sem aurframburður árinnar er þá einnig til muna minni.

         Upp úr miðri síðust öld fór að bera meira á hlaupum í Skaftá. Þegar jökulbráð í Skaftákötlum hefur náð tilteknu magni kemur vatnið skyndilega undan jökli og rennur í átt til sjávar eftir farvegi Skaftár. Skaftá flæðir þá víða úr farvegi sínum og ber með sér mikið magn jarðvegsefna. Þegar dregur úr hlaupinu situr eftir verulegt magn af jökulaur þar sem hlaupvatnið rann. Í gögnum málsins kemur fram að Skaftárhlaup verði með um eins og hálfs árs millibili. Fyrsta hlaupið sem vakti athygli kom árið 1955, en líklega hafa áður orðið hlaup sem voru minni og komu ekki fram jafn skyndilega og þau gera nú. Sú skýring hefur komið fram á þessu að fram yfir miðja 20. öld hafi vestari upptakakvísl Skaftár runnið í Langsjó, sem dró úr aurburði og jafnaði rennsli Skaftár í byggð. Þegar jökull hafi hopað frá norðurenda Fögrufjalla hafi áin öll farið að renna austan fjallanna þar sem farvegur Skaftár er nú.  

         Sunnan við staðinn þar sem Skaftá skiptir sér hefur áin á nokkrum stöðum runnið úr farvegi sínum og niður á Eldhraun. Meðal þessara kvísla eru Árkvíslar sem renna úr Skaftá suðaustan við Árhól á móts við bæjarstæði sem á sumum kortum segir að sé bærinn Á, en er víða í gögnum málsins kallað Gamla Á. Kvíslar þessar renna í sex til sjö kílómetra til suðausturs inn á Skaftáreldahraun. Reistur hefur verið varnargarður með sömu stefnu sem varnar því að meginkvíslin renni í Eldvatn vestan við hraunið. Þessi varnargarður, sem mun hafa verið reistur 1963, beinir mesta hluta vatnsins undir brú á þjóðvegi 1 þar sem heitir Brestur. Það vatn virðist síðan hverfa ofan í Eldhraun fyrir norðan Fljótsbotn, sem er rúmlega fjóra kílómetra sunnan við Brest. Hluti af vatninu fer lengra austur og rennur um svonefndan Litla-Brest eða síast niður í grunnvatn á svæði norðan þjóðvegarins. Nokkru austan við brúnna á Bresti eru rör undir þjóðveginum þar sem hluti af vatninu í Árkvíslum rennur og hverfur síðan í hraunið sunnan þjóðvegarins.

         Í skýrslu sem Fanney Gísladóttir landfræðingur tók saman fyrir áætlanasvið Landgræðslu Íslands í nóvember 1997 kemur fram að Árkvíslar renni yfir u.þ.b. 3.000 hektara svæði í norðanverðu Eldhrauni. Á þessu svæði, sem víða í gögnum málsins er kallað Blaðka, hefur áin hlaðið undir sig aurframburði sem hækkar stöðugt og skilur eftir sig sand sem fyllir upp í hraunið. Í skýrslunni er áætlað að á 12 ára tímabili frá 1980 til 1992 hafi þetta sandsvæði stækkað um 265 hektara, einkum sunnan við þjóðveginn. Á þessu svæði hafi úfið og mosavaxið hraun því breyst í tiltölulega slétt sandsvæði sem aftur skapi hættu á sandfoki og uppblæstri. Af eldri gögnum, einkum skýrslum Sigurjóns Rist, forstöðumanns vatnamælinga raforkumálastjóra, og Jóns Jónssonar, jarðfræðings hjá sama embætti, frá sjötta áratug 20. aldar, sem síðar verður vikið að, má ráða að þessi þróun hafi líklega hafist á fyrri hluta 20. aldar, líklega eftir Kötlugosið 1918.

         Af nýrri gögnum má ráða að Árkvíslar haldi áfram að hlaða undir sig aur og sandi. Í skýrslu Landgræðslu ríkisins frá 2012 var 4.378 hektara svæði í norðanverðu Eldhrauni, sem tekur m.a. til áhrifasvæðis Árkvísla, kortlagt með tilliti til gróðurs og jarðvegsrofs. Þar kemur fram að á 1.077 hekturum eða 24,5% svæðisins hafi þá verið mjög mikið jarðvegsrof en mikið jarðvegsrof á 1.567 hekturum eða 35,8% svæðisins. Mestur sandur var þá við Árkvíslar og út á Blöðku, en einnig á svæði nokkru austar á aurum suðvestan við bæinn Skál á áhrifasvæði Skálaráls sem liggur úr Skaftá og er beint með varnargörðum út í hraunið. Við vettvangsferð haustið 2016 mátti glöggt sjá hvernig stór svæði, einkum norðan þjóðvegar 1 í Eldhrauni, eru orðin sandorpin.

         Víkur nú sögunni að austurhluta Eldhrauns. Grenlækur er lindá sem rennur, ásamt Tungulæk og nokkrum fleiri vatnsföllum, undan Eldhrauni á því svæði. Efstu drög bæði Grenlækjar og Tungulækjar eru á svipuðum slóðum austan við svonefndar Dyngjur skammt sunnan þjóðvegar 1 og nokkrum kílómetrum frá farvegi Skaftár. Grenlækur rennur til austurs um Landbrotshraun, undir brú á þjóðveginum niður í Meðalland, fram hjá bænum Seglbúðum uns hann rennur út í Skaftá austan við Landbrot. Tungulækur rennur nokkru norðar, en sunnan við Grenlæk rennur Jónskvísl og enn sunnar Steinsmýrarfljót. Sunnan Eldhrauns spretta svo fram önnur vatnsföll, þ. á m. Eldvatn í Meðallandi. Það vatnsfall fær m.a. vatn úr Fljótsbotni sem áður hefur verið vikið að.

         Víða í gögnum málsins kemur fram að Grenlækur hafi um langt árabil verið talinn ein besta sjóbirtingsá landsins. Í matsgerð Vífils Oddssonar og Stefáns Óla Steingrímssonar frá september 2013, sem stefnendur hafa lagt fram í máli þessu, kemur fram að meðalársveiði urriða á tímabilinu 1988 til 2011 hafi verið 1.563 fiskar. Meðalársveiði bleikju á sama tímabili var 181 fiskur. Í matsgerðinni kemur fram að dregið hafi úr veiði í Grenlæk frá árunum 1992 til 1997 þegar hún var mest á þessu tímabili. Frá árinu 2006 hafi veiðin verið takmörkuð, eins og það er orðað í matsgerðinni, en meðalársveiði urriða á tímabilinu 2006 til 2011 voru 824 fiskar. Sama hafi gerst hvað snerti veiði á bleikju í Grenlæk. Þá kemur þar fram að urriðaveiði hafi dregist saman á sama tíma og hún hafi almennt aukist í nálægum ám. Jafnframt hafi bleikjuveiði í Grenlæk dregist meira saman en í nálægum ám.

         Á sjötta áratug síðustu aldar töldu kunnugir sig sjá að dregið hefði úr rennsli í Tungulæk sem truflaði rafmagnsframleiðslu 42 kw rafstöðvar sem reist hafði verið við vatnsfallið á árunum 1946 til 1948. Af þessu tilefni var samþykkt tillaga til þingsályktunar á Alþingi 1956 þess efnis að rannsakað yrði hvað gera mætti til að tryggja rafstöðinni nægilegt vatn. Auk þess skyldu athugaðar „þær breytingar, sem orðið hafa á öðrum vötnum, er koma undan Eldhrauni, við það, að hraunið fyllist smám saman upp“. Tveir sérfræðingar voru fengnir til þess að skila skýrslum um málið, þeir Sigurjón Rist, forstöðumaður vatnamælinga raforkumálastjóra, og Jón Jónsson, jarðfræðingur hjá sama embætti.

         Í skýrslu Sigurjóns Rist, sem er dagsett 7. júní 1956, er þess getið að bændur á þessu svæði hafi kennt fyrirhleðslu vegagerðarmanna við Skaftá um vatnsþurrð í Tungulæk sem og í Grenlæk auk þess sem sandur sem Skaftá bæri með sér gerði hraunið stöðugt vatnsþéttara. Með ákveðnum fyrirvörum tók Sigurjón undir þetta mat, en kenndi jafnframt óvenju miklum þurrkum á árunum 1951 til 1955 um. Benti hann á að til bráðabirgða mætti veita Skerhálslæk, sem félli bæði í Tungulæk og Grenlæk, í Tungulæk. Hann tók þó jafnframt fram að ekki yrði bætt úr grunnvatnslækkun í Nýja-Eldhrauni „nema með því að auka rennsli Skaftár inn í hraunið“, en lauslegar athuganir bentu til þess að hægt væri að ná „nokkru vatni úr Skaftá inn í hraunið gegnt Skál“ þar sem nokkrir álar rynnu inn í hraunið.

         Í skýrslu Jóns Jónssonar var dregið í efa að fyrirhleðsla Vegagerðarinnar með fram þjóðveginum um Eldhraunið, sem gerð var árið 1951, hafi átt nokkurn þátt í vatnsskorti í Tungulæk. Benti hann á að fyrirhleðsla þessi væri um 12 km vestan við upptök lækjarins auk þess sem hún veitti vatninu austur í hraunið og hefði því „fremur átt að bæta en skaða“. Taldi hann enn fremur óráðlegt að fá vatn „austur í Læki“ af þeim slóðum þar sem vatn úr Árkvíslum hverfur ofan í Eldhraun. Lagði hann fremur til að auka vatn í Skálarál sem rynni austur fyrir Skál. Leiddi hann líkum að því að með því að beina vatni þaðan í átt að Dyngjum færi vatnið „austur í Læki“ og sennilega mest í Tungulæk.

         Í stefnu er því haldið fram að í kjölfar niðurstöðu Sigurjóns og Jóns hafi vatn verið „tekið úr Grenlæk og því veitt í Tungulæk“ og að álnum við Skál hafi verið veitt austur á hraunið. Gögn liggi þó ekki fyrir um þessar framkvæmdir, en á loftmyndum frá árunum 1978, 1980, 1986, 1991 og 1992 megi sjá veitugarð við Skálarál sem ekki sjáist á eldri loftmyndum frá 1957 og 1960. Umræddur garður sést einnig á nýlegum ljósmyndum auk þess sem hann sást úr fjarlægð í vettvangsferð.

         Eins og áður segir renna Árkvíslar úr Skaftá skammt fyrir austan Árhól. Á loftljósmynd frá árinu 1946 má sjá útfall Árkvísla úr Skaftá á sama stað og þau eru nú, auk þess sem það er sýnt á þessum sama stað á framlögðu AMS-korti sem á að sýna vatnafar í Eldhrauni 1945. Samkvæmt því kvíslast Árkvíslar síðan í mörgum álum í suðaustur inn í hraunið. Á eldri kortum, sem í grunninn eru frá 1904, renna Árkvíslar aftur á móti úr efsta hluta Ása-Eldvatns í austsuðaustur, síðan í suður en skiptist svo þannig að hluti vatnsfallsins rennur í austur og kvíslast síðan inn í hraunið í mörgum kvíslum, en vestari kvíslin rennur í Kúðafljót.

         Í greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, er því haldið fram að bændur í Landbroti hafi aukið rennsli úr Skaftá í Árkvíslar um 1960, en að engin gögn hafi fundist um þær framkvæmdir. Þar er því einnig haldið fram að sumarið 1980 hafi aftur verið aukið við rennsli í Árkvíslum með því að grafa út úr farveginum. Um það er m.a. vísað til ódagsetts yfirlits Jóns Helgasonar í Seglbúðum „um vatnsrennsli og framburð í Skaftáreldahrauni“. Þá er þar haft eftir Snorra Þorkelssyni, sem hafi unnið á jarðýtu við útfallið árið 1984, að hann hafi séð að skarðið við útfallið hefði verið stækkað með vinnuvélum nokkrum árum fyrr. Myndir sem eiga að sýna ummerki um þessar framkvæmdir er einnig að finna í gögnum málsins. Í skýrslu Veðurstofu Íslands frá 2015, sem samin er af Snorra Zóphóníassyni jarðfræðingi og ber yfirskriftina „Vatnafar í Eldhrauni. Náttúrulegar breytingar og áhrif veitumannvirkja“, er einnig getið um þessar framkvæmdir og m.a. vitnað þeim til stuðnings til viðtals sem skýrsluhöfundur átti við Ólaf Sveinsson, bónda í Botnum, árið 1996.

         Af fyrrgreindu yfirliti Jóns Helgasonar og öðrum gögnum málsins verður ráðið að bændur í Landbroti hafi á þessum tíma, þ.e. um 1980, talið að framkvæmdir Vegagerðarinnar, sem miðuðu að því að vernda þjóðveg 1 um Eldhraunið fyrir ágangi Árkvísla, hafi leitt til þess að sandur hafi hlaðist upp á Blöðku norðan þjóðvegar og að vatnið leitað aftur til baka í Skaftá. Hafi þeir þá leitast við að beina vatninu aftur suður í hraunið auk þess sem reynt hafi verið að auka eitthvað rennsli „suður í Blöðkuna“.

         Fram kemur í greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, að vegna aukins álags vatns á þjóðveginn upp úr 1980 sökum vatnsveitinga bænda í Blöðkunni, hafi Vegagerðin gripið til þess ráðs að reisa lágan varnargarð frá Bresti, þar sem Árkvíslar renna undir brúnna, austur að Litla-Bresti á árunum 1984 eða 1985. Síðar hafi þessi varnargarður verið lengdur í austur samhliða því að einu röri hafi verið bætt við í ræsið „fyrir Litla-Brest“ í þjóðveginum vegna tilmæla stefnanda, Veiðifélags Grenlækjar. Fullyrt er í greinargerðinni að sumrin 1991 og 1992 hafi gríðarmikið vatnsrennsli í Bresti við hringveginn kallað stöðugt á aðgerðir Vegagerðarinnar til að verja hann.

         Í fyrrgreindri skýrslu Veðurstofu Íslands frá 2015 er þess getið að árið 1991 hafi verið reistir garðar nokkru vestan við núverandi útfall Árkvísla, sunnan við Árhól, til að hindra yfirfall Árkvísla út á Eldhraunið. Áður hafi þetta vatn mikið runnið vestur í Eldvatnið.

         Í málinu liggja fyrir gögn um bréfaskipti Landgræðslu ríkisins og hreppsnefndar stefnda Skaftárhrepps árið 1991 um nauðsyn verndaraðgerða til að hefta sandfok í Eldhrauni. Þá hafa verið lögð fram gögn um fundahöld vorið 1991, þar sem fulltrúar Landgræðslu ríkisins, Vegagerðarinnar og sveitarstjórnar sem og bændur á svæðinu, hafi átt viðræður um vatnságang í Eldhrauni. Þar var talið að helst mætti „hafa stjórn á vatnsrennsli fyrir neðan Gömlu-Á“. Að tillögu landgræðslustjóra, Sveins Runólfssonar, var samþykkt að „fá menn til að fara á staðinn og taka ákvarðanir“. Þar voru tilnefndir Hávarður Ólafsson í Fljótakróki, Oddsteinn Sæmundsson í Múla og Kjartan Ólafsson í Botnum. Í greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, er staðhæft að þessir fulltrúar hafi farið á staðinn 16. apríl 1991 og að í þeirri ferð hafi verið samþykkt að þrengja útfallið í Árkvíslar til að draga úr vatnsrennslinu í kvíslina og í Brest. Minnisblað Gylfa Júlíussonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar í Vík, dags. 10. janúar 1992, vegna ferðar að Skaftá 17. desember 1991, gefur til kynna að þar hafi verið reistir „garðar“ í kjölfar ferðarinnar í apríl 1991. Þar eru lagðar til ákveðnar úrbætur, þar á meðal að „ganga frá 1,5 m ræsi í skarðið í garðinum“ sem mætti loka á veturna.

         Framangreind gögn benda til þess að útfallið í Árkvíslar hafi verið þrengt árið 1991 að tilhlutan Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins í samráði við nokkra heimamenn. Aðilar ganga hins vegar út frá því að varnargarður hafi fyrst verið reistur á þessum stað í október 1992. Sá garður mun hafa verið með einu röri, sem var tveir metrar í þvermál, ofarlega í garðinum þar sem vatn rann í Árkvíslar. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er staðhæft að Vegagerð ríkisins hafi lækkað rörið í garðinum að kröfu landeigenda í Landbroti vorið 1993. Þá kemur fram af hálfu stefnenda og stefnda, íslenska ríkisins, að öðru röri hafi verið bætt við þennan garð árið 1997. Útrennslið í Árkvíslar mun þá einnig hafa verið grafið niður til að auka rennslið að rörunum. Með því virðist hafa verið reynt að koma til móts við athugasemdir bænda í Landbroti og stefnanda, Veiðifélags Grenlækjar, sem töldu varnargarðinn hefta flæði Árkvísla út á hraunið með þeim afleiðingum að grunnvatnsstaða í Eldhrauni lækkaði og rennsli í lækjum í Landbroti minnkaði.

         Árið 1993 hófst, að beiðni Vegagerðar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Skaftárhrepps, rannsókn Orkustofnunar á tengslum vatns sem rennur úr Skaftá út í Eldhraunið og rennsli lækja í Landbroti. Að þessari rannsókn unnu jarðfræðingarnir Freysteinn Sigurðsson og Snorri Zóphóníasson og Kristinn Einarsson vatnafræðingur. Rannsóknir þessar fóru fram á árunum 1993 til 1996 og birtust ýmsar skýrslur um niðurstöður þeirra á árunum 1994 til 1997. Tilgangur rannsóknanna var að öðlast þekkingu og skilning á „þeim vatnafræðilegu ferlum sem að verki eru í Skaftá og í Eldhrauni, og veita ráð á þeim grunni um, hvað hægt sé að gera til úrbóta án þess að einn skaðist umfram annan, sé það á annað borð mögulegt“, eins og segir í greinargerð um helstu niðurstöður þeirra frá 1997. Síðar í greinargerðinni er sérstaklega vikið að áhrifum framkvæmdanna við Árkvíslar á rennsli Tungulækjar. Þar kemur fram að m.a. hafi ætlunin verið að varpa ljósi á hvort Tungulækur hefði „hlotið minna vatn eftir lokun Brests miðað við Skaftá við Skaftárdal og Skaftá við Kirkjubæjarklaustur“. Um það atriði segir í greinargerðinni orðrétt:

Eins og áður segir má skýra flest frávik frá meðalrennsli á árunum eftir 1992, í Skaftá við Skaftárdal og Tungulæk við Efstalækjarbrú, með veðurfari eða Skaftárhlaupum. Annað gildir um rennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur. Það er nokkuð langt fyrir ofan meðallag á nær öllu tímabilinu. Þetta verður að skýra þannig, að því vatni, sem rann um Brest, var veitt austur. Meðalrennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur hækkar úr 35 til 38 m³/s í 50 m³/s eftir lokun Brests. Tungulækur heldur hins vegar sínu, því líklegt er að aukinn leki til hans úr austurgrein Skaftár vegi upp á móti tapinu, þegar rennslið var takmarkað um Brest.

 

         Í þessari greinargerð, sem og í ítarlegri skýrslu Freysteins Sigurðssonar frá 1997, sem ber heitið „Lindir í Landbroti og Meðallandi. Uppruni lindavatnsins“, var einnig gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna um uppruna grunnvatnsins í Eldhrauni og þar með lindavatnsins sem rennur undan hrauninu. Þar er uppruni þess rakinn til þriggja meginþátta. Í fyrsta lagi er þar talið að rekja megi grunnvatnið til ketilvatns frá kötlum Vatnajökuls sem Skaftárhlaup kæmu úr. Þetta vatn renni líklega niður á láglendið í fornum gljúfrum Skaftár. Taldi Freysteinn að ekki væri annað vitað en að þessi þáttur væri nokkuð stöðugur. Undir Fljótsbotni næmi þetta vatn, blandað úrkomu á hraunin neðan Skaftárdals, líklega um 20 til 21 m³/s. Í öðru lagi mætti rekja grunnvatnið til úrkomu neðan Fljótsbotns og Skálarstapa, sem líklega næmi um 11 m³/s að ársmeðaltali. Sveiflur væru nokkrar milli ára en þó meiri milli árstíða. Í þriðja lagi rakti Freysteinn grunnvatnið til leka úr Skaftá, bæði úr eða við farveg árinnar, sem og á „áflæðisvæðum í vatnavöxtum“. Taldi hann að undanfarin ár hefði hlutur leka úr Skaftá og áflæðis á hraunin numið 9 til 10 m³/s. Þá kvað hann lekann að hluta vera stöðugan en að öðru leyti aukast yfir sumarmánuðina, einkum um Brest. Þetta sumarvatn væri oft um eða yfir helmingur vatns í Grenlæk og Tungulæk að sumarlagi. Brygðist Tungulækur hratt við þessu áflæði, einkum því sem flæddi á hraunin neðan við Skál. Viðbrögð í Grenlæk væru hins vegar hægari „og sennilega frekar frá áflæði ofar frá Skaftá“. Áhrifa áflæðis Skaftár voru útskýrð með eftirfarandi hætti í greinargerðinni: „Írennsli veldur hækkun grunnvatnsborðs, en hún hleypir þrýstibylgju niður grunnvatnsstrauminn, sem veldur hækkun grunnvatnsborðs á leið sinni og auknu rennsli, einkum í yfirfallslindum.“

         Í greinargerðinni er gerð grein fyrir þeirri þróun sem höfundar sáu fyrir sér við „náttúrulegar aðstæður“. Þar segir að Skaftá myndi, ótrufluð af „manna völdum“, smám saman kvíslast um hraunin, „þétta undir sig, flæmast víða með sandburði í vatnavöxtum og falla loks í jökulkvíslum fram af þeim“. Þetta myndi valda stórspjöllum á Eldhrauni, eyðingu á góðri, sandfoki og umferðarhömlum „auk þess sem drægi úr lekum niður í hraunið og lindarennsli, vegna þéttingar þess“. Á móti þessu gæti unnið að Skaftá og Eldvatn í Skaftártungu græfu sig niður og hættu að flæða á hraunin, en þá tæki fyrir þann leka og jafnvel einnig stöðugan leka frá Skaftá. Við það myndi lindarennsli minnka almennt, en þó mest í yfirfallslindum, sem við núverandi aðstæður auki sumarrennsli m.a. til Tungulækjar og Grenlækjar: „Allt ber þar að einum, lekum brunni, að lindalækir þessir eru dæmdir til að þverra með tímanum, ef ekkert verður að gert.“

         Í greinargerð þessari, sem og í fyrrgreindri skýrslu Freysteins frá 1997, er gerð gein fyrir ýmsum aðgerðum sem rætt hefði verið um að grípa mætti til í því skyni að halda uppi sumarrennsli í lindalækjunum og varna sandburði út á hraunin. Bent er á að með aukinni áveitu jökulvatns úr Skaftá til að halda uppi sumarrennsli í lækjunum fylgdi aukinn sandburður og þétting áflæðisvæða sem aftur leiddi til minna lindarennslis. Hins vegar myndi lokun fyrir flæði jökulvatns út á hraunin draga úr grunnvatnsstreymi og valda aukinni þurrð í lindavötnum, einkum í yfirfallslindunum. Taldi Freysteinn vænlegast að veita sem mestu bergvatni út á hraunin og byggja upp sem hæsta grunnvatnsstöðu í þeim, en það væri helst tiltækt í apríl til júní og á haustin. Þá þyrfti að velja áveitustaði af kostgæfni og var talið hentugast að veita vatni í hraunin móts við Skál til að auka lindarennsli í Grenlæk og Tungulæk. Bent var á að þetta kallaði á varanleg mannvirki til íveitna með lokubúnaði sennilega á fleiri en einum stað.

         Sérstök samráðsnefnd stjórnvalda og sveitarstjórnar var skipuð árið 1994 um rennsli Skaftár og tengsl þess við lindarennsli undan Eldhrauni. Hlaut þessi nefnd heitið Skaftárnefnd. Ýmsir fundir voru haldnir um málið á næstu árum og bréfaskipti um það voru all tíð.

         Fram kemur í gögnum málsins að framan af árinu 1998 hafi verið mikið þurrkatímabil á suður- og suðvesturlandi. Lækir og ár á þessu svæði hafi því almennt verið vatnslitlir. Þessir þurrkar munu hafa komið hart niður á rennsli í Grenlæk. Af gögnum málsins má ráða að Veiðimálastofnun hafi álitið að vatnsskorturinn hefði valdið seiðadauða í Grenlæk.

         Haldinn var samráðsfundur sveitarstjórnar, Skaftárhrepps, Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins 10. júní 1998 um málið. Vilji stefnda Skaftárhrepps stóð þá til þess að varnargarðurinn við útfallið í Árkvíslar yrði rofinn. Vegagerðin mun hafa látið fjarlægja varnargarðinn 15. og 16. júní 1998. Í bréfi Vegagerðarinnar til Náttúruverndar ríkisins 16. júní 1998 kemur fram að ætlunin væri að leita sem allra fyrst leiða til þess „að fyrirbyggja óheftan framburð jökulaurs um Brest út á Eldhraun“. Hins vegar væri gert ráð fyrir að engin stýring yrði á rennslinu um útfall Árkvísla sumarið 1998.

         Með bréfi þáverandi lögmanns fyrirsvarsmanns stefnenda, Erlendar Björnssonar í Seglbúðum, 30. júlí 1998, og tveggja annarra landeigenda í Landbroti, var ábyrgð lýst á hendur Vegagerð ríkisins vegna alls þess tjóns sem hlotist hefði af byggingu varnargarðsins við útfall Árkvísla. Var þess krafist að gripið yrði til þeirra ráðstafana sem myndu duga til þess að koma „aðgengi vatns í sama horf og það var fyrir umrædda mannvirkjagerð á árinu 1992“, en þær aðgerðir sem lagt hefði verið út í vorið 1998 hefðu ekki dugað. Jafnframt var því lýst yfir að skaðabótakröfu yrði komið á framfæri þegar tjón umbjóðenda lögmannsins hefði verið staðreynt.

         Framangreindu bréfi lögmannsins var svarað með bréfi lögmanns Vegagerðarinnar 18. september 1998. Þar var því hafnað að mannvirkjagerð Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins hefði leitt til vatnsþurrðar í Landbroti. Var m.a. á það bent að þurrkar þá um vorið hefðu valdið því að lítið hafi verið í ám og vötnum almennt. Var öllum kröfum lögmannsins hafnað.

         Ný samráðsnefnd stjórnvalda og stefnda Skaftárhrepps var skipuð í júlí 1998. Átti hún að fjalla um „vandamál sem upp hafa komið í Skaftárhreppi á síðustu árum og tengjast annars vegar ágangi árinnar og hins vegar vatnsþurrð í lækjum í Landbroti og Meðallandi“. Að hennar ráðum lagði umhverfisráðherra fram tillögu til ríkisstjórnarinnar 10. maí 1999 um að vatnsrennsli úr Skaftá út á hraunin yrði stýrt við upptök Árkvísla með þremur rörum í stíflugarði og að einu röri yrði lokað meðan sumarvatn væri í ánni. Með þessu fyrirkomulagi átti að stefna að því að stjórna rennslinu þannig að í flóðum, þegar framburður væri mikill í Skaftá, félli ekki meira vatn í Árkvíslar en það sem rörin flyttu. Jafnframt var lagt til að stækka ræsi undir þjóðvegi 1 og rýmka farveg í átt að því. Þannig átti að reyna að tryggja sem jafnast rennsli í Árkvíslum/Bresti allt árið og stuðla þannig að hærri grunnvatnsstöðu í miðju Eldhrauni. Lagt var til að ríkisstjórnin samþykkti að veita 5,8 milljónum króna til verksins. Tekið var fram að sveitarstjórn stefnda Skaftárhrepps yrði umsjónaraðili verksins og bæri ábyrgð á stýringu vatns um rörin. Tillagan um fjárveitingu til verksins var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar 11. maí 1999.

         Með bréfi umhverfisráðuneytisins til stefnda Skaftárhrepps 8. júní 1999 var þess farið á leit við sveitarstjórn hreppsins að hún tæki að sér umsjón með framkvæmdinni, „þ.e. að tryggja lögformlega þætti framkvæmdarinnar skv. vatnalögum nr. 15/1923, skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og náttúruverndarlögum nr. 44/1999“. Jafnframt fór ráðuneytið fram á að sveitarstjórnin tæki ákvörðun um hvenær skyldi opna og loka röri í stíflugarðinum við útfall Árkvísla. Gögn málsins bera með sér að stefndi Skaftárhreppur hafi fallist á að taka verkefnið að sér. Sveitarstjórn kveðst hafa gert það til að greiða fyrir framgangi málsins. Hins vegar hafi hún sett skýra fyrirvara vegna fjármögnunar og ábyrgðar. Hafi samþykki hreppsins verið háð því skilyrði að kostnaður „vegna umsjónar/vöktunar“ yrði greiddur úr ríkissjóði og að skaðleysi stefnda vegna hugsanlegs tjóns sem af framkvæmdinni hlytist yrði tryggt. Um þessi atriði vísar stefndi Skaftárhreppur einkum til bréfs oddvita hreppsins til Skipulagsstofnunar 25. ágúst 2000.

         Með bréfi umhverfisráðuneytisins 5. júlí 1999 var leitað úrlausnar forsætisráðuneytisins á því til hvaða ráðherra stefndi Skaftárhreppur ætti að leita eftir leyfi til framkvæmdanna samkvæmt 133. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Niðurstaða forsætisráðuneytisins varð sú 23. febrúar 2000 að erindi heyrði í senn undir landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

         Stefnandi, Veiðifélag Grenlækjar, ritaði Vegagerðinni bréf 15. mars 2000 þar sem vísað var til bréfs lögmanns þriggja landeigenda í Landbroti 30. júlí 1998. Er þar fullyrt að félagsmenn veiðifélagsins hafi orðið fyrir tjóni vegna þurrðar í Grenlæk og að hætta sé á því að hrun verði í fiskgengd næstu árin vegna seiðadauða 1998. Af þessu tilefni tók veiðifélagið undir þau sjónarmið sem komið höfðu fram í bréfi lögmannsins og var allur réttur til skaðabóta áskilinn félagsmönnum veiðifélagsins. Bréfið ber með sér að því hafi fylgt álitsgerð Jónasar Elíassonar prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands um orsakir vatnsþurrðarinnar.

         Meðal gagna málsins er greinargerð Jónasar Elíassonar sem ber yfirskriftina „Vatnsþurrðir í Grenlæk“ frá janúar 1999. Líklega er greinargerðin það skjal sem fylgdi framangreindu bréfi. Þar er athyglinni m.a. beint að því að rennsli í Skaftá hjá Kirkjubæjarklaustri hafi hækkað um 12 til 15 m³/sek að meðaltali þann tíma sem „stíflað var fyrir árkvíslina, umfram það sem við mátti búast sé tekið mið af rennsli við Skaftárdal“, þ.e. frá 1992 til 1998. Þá segir þar að skoðun hafi einnig leitt í ljós að eftir að stíflan var rofin hafi verið miklu meira rennsli en sem nemi „flutningsgetu röranna sem voru í gegnum stífluna“. Þá sýni rennslismælingar í kvíslinni að allt að 25 m³/sek renni þar og að flóð komi ugglaust með miklu meira vatn. Síðan segir orðrétt: „Varðandi raunverulega minnkun innrennslis á hraunið er því ekki við neitt að styðjast nema þessa 12 – 15 m³/sek að meðaltali og ógerlegt að fá þá tölu betri nema hugsanlega með því að fara í frumgögn Vatnamælinga.“

         Um rennsli í Grenlæk og Tungulæk er á það bent í greinargerðinni að lækirnir eigi upptök í lindum sem komi undan Eldhrauni þar sem það hvíli ofan á Landbrotshrauninu. Rennslið í þeim stjórnist alfarið af grunnvatnshæðinni í Eldhrauni vestan og norðan við þessar lindir. Lækki grunnvatnsborðið í Eldhrauni niður í Landbrotshraunið þorni þessar lindir. Neðar í farvegi lækjanna í Landbrotshrauni komi þó vatn fram að nýju. Í skýrslunni segir orðrétt um það hvað stjórni rennslinu undan Eldhrauni: „Helsti stjórnþáttur þessa rennslis er grunnvatnshæð í austurhluta Eldhrauns, á niðurrennslissvæði árkvíslar um Brest og þar austur af. Þegar vatnshæð í hrauninu fer niður fyrir 35 – 50 m.y.s. (samkvæmt korti í 1:50.000) detta upptakalindir Tungulækjar og Grenlækjar út ein á fætur annarri, þær efstu fyrst, og minnkar rennsli lækjanna þá mjög ört. Slíkar þurrðir eru meira og minna á hverju vori (sjá mynd 3). Vatnshæðarmælirinn í Tungulæk mælir þennan þátt eingöngu og mælingar þaðan sýna að þessi þáttur getur horfið í þurrðum. Þá þorna farvegir Grenlækjar og Tungulækjar, niður að efstu lindum í Landbrotshrauni sem ekki þorna, um 4 kílómetra leið.“

         Í skýrslunni er síðan gerð grein fyrir ætluðum vatnsbúskap grunnvatnsgeymisins í Eldhrauni og Landbrotshrauni sem og fylgni milli rennslis Skaftár í Skaftárdal, Skaftár við Kirkjubæjarklaustur, Tungulækjar og Árkvísla sem og úrkomu á Kirkjubæjarklaustri. Þar er dregin sú ályktun að meðalrennsli Tungulækjar hafi haldist eftir 1991 vegna þess að „úrkoma hefur haldist og Skaftá hefur haldist, en úrkoma á sinn þátt í því líka“. Því næst er vikið að grunnvatnslíkani af geyminum í skýrslunni, þar sem ýmist er miðað við að úrkoma sé 500 eða 1.000 mm/ári sem og að rennsli Árkvísla (Brests) sé ekki til staðar, það nemi 12 m³/sek eða 24 m³/sek. Bendir höfundur á að eftirtektarverð sé sú niðurstaða sem fáist með 12 m³/sek rennsli í Bresti, en þá aukist rennslið frá 0,8 m³/sek í 2,5 m³/sek við það að úrkoma aukist úr 500 í 1.000 mm/ári. Síðan segir eftirfarandi: „En ef rigning er eðlileg má ekki taka Brest, þá fer rennslið niður í 0. Með öðrum orðum, lítil rigning heldur uppi rennsli ef Brestur er með, en meðalúrkoma án Brests gerir það ekki. Orsökin er að austasti hluti Eldhrauns tæmist meðan rennslið í Landbrotshrauni heldur áfram. Þetta sýnir að rennsli um Brest getur haldið Eldhraunsþættinum í Tungulæk og Grenlæk uppi meðan úrkoman getur það ekki ein.“

         Fram kemur í gögnum málsins að 10. apríl 2000 hafi stefndi Skaftárhreppur óskað eftir leyfi landbúnar- og umhverfisráðuneytisins fyrir framkvæmdum við Árkvíslar. Landbúnaðar- og umhverfisráðuneytið auglýstu í Lögbirtingablaði 10. maí 2000 fyrirhugaða framkvæmd og óskuðu eftir athugasemdum. Um lagagrundvöll var vísað til c-liðar 1. málsgreinar 144. gr. vatnalaga, sbr. a-lið 1. mgr. 133. gr. sömu laga. Þar var fyrirhugaðri framkvæmd lýst þannig að rennsli úr Skaftá út á Eldhraun yrði stýrt með því að koma fyrir þremur rörum, sem hvert væri tveir metrar í þvermál, í jarðstíflu við útfallið. Verði dregið úr rennsli sumarvatns og rennsli Skaftárhlaupa út á hraunið, jafnframt því sem vetrarrennsli verði aukið.

         Athugasemdir bárust frá Landgræðslu ríkisins 20. júní 2000, þar sem varað var við að veita svona miklu vatni á Eldhraunið. Fyrirsvarsmaður stefnenda, Erlendur Björnsson í Seglbúðum, ritaði einnig báðum ráðuneytunum og Skipulagsstofnun bréf 22. júní 2000 þar sem gerð var krafa um að fyrirhuguð framkvæmd færi í umhverfismat. Enn fremur voru þar gerðar athugasemdir við tillöguna. Fleiri athugasemdir bárust en ekki er efni til að rekja þær nánar. Um framkomnar athugasemdir var fjallað í bréfi formanns Skaftárnefndar til umhverfisráðuneytisins 18. júlí 2000.

         Skipulagsstofnun mun hafa leitað upplýsinga um það með bréfi til stefnda Skaftárhrepps 30. júní 2000 hver teldist framkvæmdaraðili umræddra framkvæmda með tilliti til laga um mat á umhverfisáhrifum. Hreppurinn svaraði með bréfi 21. júlí 2000 þar sem hann útskýrir aðkomu sína að málinu á þann veg að umhverfisráðuneytið hafi farið fram á það að sveitarstjórnin tæki að sér umsjón með framkvæmdinni til að tryggja lögformlega þætti samkvæmt vatnalögum, skipulags- og byggingarlögum og náttúruverndarlögum. Taldi sveitarstjórn sig vera einskonar verktaka í skilgreindum þætti málsins og því ekki formlegan framkvæmdaraðila. Þá var vakin athygli á því að framkvæmdin væri tilraunaverkefni til allt að fjögurra ára sem nýta ætti til að skapa forsendur til ákvörðunartöku um það hvort slíkri stýringu yrði beitt til frambúðar við Árkvíslar og víðar í Eldhrauni. Ef til þess kæmi væri eðlilegt að sú framkvæmd færi í umhverfismat.

         Skipulagstofnun leitaði því næst til umhverfisráðuneytisins með bréfi 28. júlí 2000 þar sem óskað var upplýsinga um hver teldist framkvæmdaraðili fyrirhugaðs tilraunaverkefnis til allt að fjögurra ára. Í svarbréfi ráðuneytisins 10. ágúst 2000 er því slegið föstu að stefndi Skaftárhreppur verði framkvæmdaraðili verksins en að Vegagerðin myndi annast framkvæmd þess á staðnum. Þar var enn fremur upplýst að það væri mat landbúnaðar- og umhverfisráðuneytisins að Skipulagsstofnun ætti að komast að niðurstöðu um það hvort framkvæmdin væri matsskyld í skilningi laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.

         Skipulagsstofnun ritaði fyrirsvarsmanni stefnenda, Erlendi Björnssyni, bréf 11. september 2000 þar sem honum var tilkynnt að það væri mat stofnunarinnar að ekki skyldi fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar fjögurra ára tilraunaframkvæmdar við Árkvíslar, sbr. auglýsingu í Lögbirtingablaði 17. maí 2000. Í rökstuðningi stofnunarinnar kemur m.a. fram að miðað við ríkjandi ástand leiddi eðli framkvæmdarinnar ekki til umtalsverðra umhverfisáhrifa. Þá var vísað til þess að framkvæmdin hefði það að markmiði að kanna möguleika á því að draga úr neikvæðum áhrifum á landslagsgerð og gróðurlendi í Eldhrauni. Framkvæmdin væri tímabundin og þó að öll áhrif hennar væru ekki afturkræf væri það mat stofnunarinnar að hún myndi ekki valda umtalsverðum umhverfisáhrifum umfram það sem ætti sér stað í dag. Þá vísaði stofnunin til þess að þeir aðilar sem stæðu að framkvæmdinni, Skaftárhreppur, Náttúruvernd ríkisins, Landgræðsla ríkisins og veiðimálastjóri teldu að „aðgerðir sem eiga að stuðla að framtíðarlausn eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum“.

         Í málinu liggja fyrir tillögur Skaftárnefndar um rannsóknir sem skyldu fara fram á áhrifum þess að stýra flæði vatns um Árkvíslar. Veiðimálastofnun lagði einnig fram tillögur að vöktunarrannsóknum á lindarvatni í Landbroti í desember 2000.

         Umhverfis- og landbúnaðarráðuneytin veittu leyfi fyrir umræddri framkvæmd 13. nóvember 2000. Þar kemur fram að framkvæmdin sé „tilraun til stjórnunar rennslis vatns um Árkvíslar í Skaftárhreppi til fjögurra ára“. Væri markmiðið að skapa „með viðeigandi rannsóknum forsendur ákvörðunartöku um það hvort stýringum á rennsli vatns úr Skaftá út á Eldhraun verði beitt til frambúðar við Árkvíslar og víðar í Eldhrauni“. Var leyfið bundið því skilyrði að leyfishafi, stefndi Skaftárhreppur, vaktaði svæðið og hefði um það samráð við Náttúruvernd ríkisins, Landgræðsluna og Veiðimálastofnun. Um lagagrundvöll leyfisins var vísað til 133. gr. vatnalaga, sbr. 144. gr. sömu laga.

         Framkvæmdirnar hófust 14. nóvember 2000 og þeim lauk 21. sama mánaðar, en þá var vatni hleypt á mannvirkin. Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu verkið. Á fundi í umhverfisráðuneytinu 24. sama mánaðar var farið yfir verkefnið. Þar kemur m.a. fram að Vegagerðin hafi mælt vatnsrennsli í Árkvíslum áður en garðurinn var reistur og myndi bera þá mælingu saman við rennslismælingu eftir að garðurinn hefði verið tekinn í notkun. Þá myndi Vegagerðin sjá um að opna og loka fyrir rörið eftir ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Væri stefnt að því að opna fyrir rörið í október þegar Skaftá væri laus við mesta aurburðinn, en að því yrði lokað í júní þegar aurinn ykist í ánni. Jafnframt var þar farið yfir rannsóknartillögur Skaftárnefndar.

         Með bréfi sveitarstjórnar stefnda Skaftárhrepps 15. júní 2001 var Vegagerðinni tilkynnt að tekin hefði verið ákvörðun um að loka rörinu með lokubúnaðinum frá 20. júní en opna það að nýju 20. október ár hvert á tilraunatímabilinu 2001 til 2004. Starfsmenn Vegagerðarinnar sáu um að framfylgja þeirri ákvörðun, en stopul gögn liggja fyrir um þær aðgerðir. Í málinu liggur þó fyrir tölvuskeyti þar sem staðfest er að rörið hafi verið opið til 21. júní 2001 þegar því var lokað og að það hafi verið opnað að nýju 6. nóvember 2001. Annað skjal gefur einnig til kynna að lokað hafi verið fyrir rörið 19. júní 2002 og opnað að nýju 24. október sama ár. Ekki liggur þó annað fyrir en að upphaflegri ákvörðun um opnun og lokun hafi verið framfylgt. Takmarkaðar rannsóknir virðast aftur á móti hafa farið fram á áhrifum þessara aðgerða á tilraunatímabilinu.

         Stefndi Skaftárhreppur ritaði Skipulagsstofnun bréf 14. september 2004, en fyrrgreindu tilraunatímabili var þá að ljúka. Þar kom fram sú afstaða sveitarstjórnar að mikilvægt væri „að málsaðilar komi sér saman um skilgreinda „núll“ stöðu við útfall Árkvísla“. Var talið eðlilegt að tengja þá stöðu við tilraunina og þeim möguleika velt upp að sú staða gæti verið „ástandið fyrir aðgerðina, þ.e. Árkvíslar renni óheftar um skarð í varnargarðinum“. Einnig var talið mögulegt að miða við ástandið við lok tilraunatímabilsins, þ.e. að eitt rör af þremur væri lokað. Þriðji möguleikinn væri að miða við ástandið á tilraunatímabilinu, „þ.e. að framkvæma stýringu með sama hætti og undanfarin 4 ár“. Í lok bréfsins var talið að frumkvæði málsins væri á hendi ráðuneytanna sem veittu leyfi til framkvæmdanna. Yrði engin ákvörðun tekin fyrir 20. október 2004 myndi sveitarstjórnin tilkynna Vegagerðinni að tilraunatímabilinu væri lokið og að sveitarstjórnin bæri ekki ábyrgð á ákvörðunum um stýringu búnaðarins. Færi svo myndu tvö rör standa opin og eitt vera lokað.

         Skipulagsstofnun ritaði stefnda Skaftárhreppi 1. október 2004 þar sem athygli var vakin á því að þar sem tilraunatímabili vegna framkvæmda við Árkvíslar lyki 13. nóvember 2004 myndi frekari stjórnun vatnsveitinga vera tilkynningarskyld framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

         Í bréfi umhverfisráðuneytisins 8. desember 2004 til Skaftárhrepps var vísað til fundar sem haldinn var í Umhverfisstofnun með fulltrúum Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar, Landgræðslu ríkisins, landbúnaðarráðuneytisins, umhverfisráðuneytisins og Skaftárhrepps. Þar mun fulltrúi Skipulagsstofnunar hafa „staðfest“ að svonefnd núllstaða teldist fela í sér að tvö rör stæðu opin, en það þriðja væri lokað. Allar breytingar á þessu væru að áliti stofnunarinnar tilkynningaskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í bréfi ráðuneytisins kom þó fram að ekki ríkti sátt meðal „helstu hagsmunaaðila um núverandi fyrirkomulag“. Afrit af bréfi þessu var sent til þeirra stofnana og ráðuneyta sem áttu fulltrúa á fundinum 8. desember 2004.

         Með bréfi þriggja heimamanna til Skipulagsstofnunar 17. mars 2005, þeirra Þórarins Bjarnasonar í Þykkvabæ I, Hávarðs Ólafssonar í Fljótakróki og Valmundar Guðmundssonar í Eystra-Hrauni, var upplýst að með þeirri stjórnun sem verið hefði á vatnsrennsli um Árkvíslar hefði vatnsstaða og rennsli Grenlækjar og Eldvatns í Meðallandi aldrei farið niður fyrir þau mörk að lífríki lækjanna hefði verið stefnt í hættu. Hins vegar væri rennsli í þessum vatnsföllum nú orðið mjög lítið og stefndi í að uppsprettur þornuðu og veigamestu uppeldisstöðvar sjóbirtings í lækjunum þornuðu upp. Því var farið fram á að þriðja rörið yrði opnað sem allra fyrst. Nokkur bréfaskipti urðu um erindið og virðist Skipulagsstofnun hafa fallist á að sú framkvæmd, að hafa opnanlega rörið opið til 20. júní 2005, væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Á fundi sveitarstjórnar stefnda Skaftárhrepps 23. mars 2005 var samþykkt bókun þess efnis að hreppurinn væri reiðubúinn til þess að „hafa eftirlit með og tryggja að lokustýringar á mannvirkjum við útfall Árkvísla á komandi vori verði í samræmi við fyrirmæli Skipulagsstofnunar“. Hins vegar teldi hreppurinn sig ekki vera formlegur framkvæmdaraðili.

         Í apríl 2006 barst Skipulagsstofnun aftur erindi frá Þórarni Bjarnasyni í Þykkvabæ þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða opnun á rörinu til 20. júní sama ár. Umsögn stefnda Skaftárhrepps var á sömu lund og árið áður. Með bréfi 30. maí 2006 féllst Skipulagsstofnun á að sú ráðstöfun, að hafa rörið opið til 20. júní, væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ekki liggur annað fyrir en að þessi áform hafi orðið að veruleika.

         Ekki liggja fyrir gögn um að rörið með lokubúnaðinum hafi verið opnað vorið 2007 eða 2008. Í stefnu kemur þó fram að á árinu 2007 eða 2008 hafi Þórarinn Kristjánsson, keypt jörðina Skál og að hann hafi „veitt vatni á hraunið frá þeim tíma“ allt til ársins 2012.

         Með bréfi stefnda Skaftárhrepps 25. mars 2009 til Skipulagsstofnunar var tilkynnt um fyrirhugaða rennslisstýringu í Árkvíslum allt til ársins 2012. Fól framkvæmdin í sér að tvö rör væru alltaf opin og þriðja rörið yrði opið frá 20. október til 20. júní ár hvert fram til ársins 2012. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar 24. apríl 2009 að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.

         Í greinargerð stefnda Skaftárhrepps kemur fram að umræddu röri hafi verið lokað 23. júní 2010 og það opnað að nýju 25. október sama ár. Því mun hafa verið lokað aftur 20. júní 2011 en opnað 27. október sama ár. Því var lokað að nýju 19. júní 2012 og opnað 23. október 2012. Rörið mun síðan hafa staðið opið næstu árin.

         Fram kemur í greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, að 10. maí 2011 hafi verið skipuð þriðja samráðsnefndin um málefni vatnsveitinga í Eldhrauni og að nefnd þessi hafi haldið fjölda funda.

         Sumarið 2013 vann Vegagerðin við varnargarð sem liggur með fram þjóðvegi 1 um Eldhraunið að norðanverðu. Kveða stefnendur að varnargarðurinn hafi þá verið lengdur í áttina að bænum Skál. Fyrirsvarsmaður stefnenda, Erlendur Björnsson, ritaði Vegagerðinni af þessu tilefni bréf 8. ágúst 2013 þar sem hann kvað umræddan garð hafa skert náttúrulegt rennsli fram Eldhraunið og að mikil uppsöfnun aurs hafi orðið ofan garðsins. Þá hafi lokun á skarði í garðinum aukið enn við þá uppsöfnun. Vatn hafi leitað lengra austur og jafnvel í norður í átt að Skaftá. Lýsti Erlendur því í bréfinu að Vegagerðin hafi lengt þennan garð þegar vatn hafi farið að renna að þjóðveginum sumarið 2013, en það hafi heft enn frekar náttúrulegt rennsli fram hraunið. Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er þessari lýsingu atvika mótmælt. Í greinargerð ríkisins er því haldið fram að skarð hafi komið í varnargarðinn sem legið hafi að Litla-Bresti og að Vegagerðin hafi fyllt í skarðið til að verja hringveginn.

         Með bréfi Orkustofnunar, sem fer nú með leyfisveitingar samkvæmt vatnalögum, sbr. lög nr. 132/2011, til Skaftárhrepps 29. september 2014 var leitað upplýsinga um það á grundvelli hvaða leyfis rennslisstýring við Árkvíslar færi fram. Með bréfi stefnda Skaftárhrepps 20. október 2014 var erindinu svarað. Orkustofnun gaf út álit á vatnsveitingum úr Skaftá út á Eldhraun 20. nóvember 2014. Þar kemur fram að tilefni álitsins sé erindi Landgræðslu ríkisins frá árinu 2012 þar sem spurt hafi verið um viðhorf Orkustofnunar til „núverandi áveituframkvæmda“ út á Eldhraun. Í álitinu er vakin athygli á því að ekki liggi fyrir leyfi ráðherra á grundvelli vatnalaga fyrir framkvæmdum við bæinn Skál. Þá hafi aðeins verið gefið út tímabundið leyfi fyrir vatnsveitingum við Árkvíslar árið 2000. Hafi vilji stefnda Skaftárhrepps staðið til þess að halda „umræddum vatnaveitingum áfram“ hafi sveitarfélaginu borið að óska eftir leyfi til þess, en það hafi ekki verið gert. Síðan segir orðrétt: „Því beri Skaftárhreppi að koma í veg fyrir frekari vatnaveitingar út á Eldhraun við Árkvíslar og við Skál.“ Áréttaði Orkustofnun það álit sitt að engin leyfi væru í gildi á grundvelli 7. gr. vatnalaga sem veittu heimild til þess að breyta vatnsbotni, vatnsmagni eða vatnsflæði á vatnasviði Skaftár. Dró stofnunin þá ályktun af þessu að „Landgræðslu ríkisins sé heimilt að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem Landgræðslan telur nauðsynlegar til að koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi Skaftár, í samræmi við 4. gr. laga um varnir gegn landbroti nr. 91/2002“. Tæki það m.a. til þess „að stöðva veitingu vatns út á Eldhraun við Árkvíslar, Skálarál og Stapaál, með fyrirvara um andmælarétt aðila máls“.

         Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi brustu varnargarðar sunnan við Árhól í stóru Skaftárhlaupi haustið 2015. Vatn mun þá hafa flætt að mestu vestur í Ása-Eldvatn, en einnig að nokkru leyti um Árkvíslar í Brest. Eftir hlaupið munu rörin við Árkvíslar hafa staðið að miklu leyti á þurru um skeið. Í minnisblaði Magnúsar Jóhannssonar um vettvangsferð 25. maí 2016 kemur þó fram að þá hafi öll rörin verið opin við útfallið í Árkvíslar og að vel hafi flætt um þau til Brests.

         Í gögnum málsins kemur einnig fram að Orkustofnun hafi ítrekað farið fram á það við Skaftárhrepp að tveimur af þremur rörum við Árkvíslar yrði lokað. Í bréfi stofnunarinnar 27. apríl 2016 voru þau rök færð fyrir þessu að með því væri ástandinu komið í það horf sem það var fyrir tilraunatímabilið 2000 til 2004. Að öðrum kosti yrði verkið unnið af Orkustofnun á kostnað stefnda Skaftárhrepps. Með bréfi 17. maí 2016 mótmælti stefndi Skaftárhreppur því að hann bæri ábyrgð á umræddum mannvirkjum og vísaði um það til stefnda, íslenska ríkisins. Skorti því lagaheimild til þess að beina kröfunni að hreppnum.

         Vorið 2016 þornuðu lindir í upptökum Grenlækjar og grunnvatnsborð lækkaði í Eldhrauni. Á sama tíma komu upp vandkvæði við að afla neysluvatns í Meðallandi og Landbroti. Af þessum sökum sótti Hörður Davíðsson í Efri-Vík sem og landeigendur jarðarinnar Botna og eigendur Lindarfisks ehf. um leyfi Orkustofnunar til að veita vatni úr Skaftá í Árkvíslar í júlí 2016.

         Með ákvörðun Orkustofnunar 14. júlí 2016 var Herði veitt heimild til þess að rjúfa skarð í varnargarð við útfall Árkvísla en þó þannig að vatnsrennsli um skarðið yrði ekki meira en 10 m³/s. Átti að færa stíflumannvirkið í upprunalegt horf í síðasta lagi 15. ágúst 2016. Þá var landeigendum jarðarinnar Botna og eigendum Lindarfisks ehf. veitt heimild til þess að hafa þrjú rör opin við útfallið frá dagsetningu leyfisins til 11. ágúst, en tvö rör frá þeim degi til 15. október 2016. Þrjú rör yrðu síðan opin frá 16. október 2016 til 1. júní 2017, en tvö rör frá þeim tíma til leyfisloka 15. október 2017. Áveitu þessari átti að loka strax og aurburður yxi vegna síðsumarvaxta í Skaftá og við hlaup í ánni.

         Orkustofnun framlengdi skammtímaleyfi þessi til 15. september 2016, með bréfi 15. ágúst 2016, og aftur með bréfi 26. október 2016, þannig að leyfishafa væri heimilt að veita vatni um skarðið í varnargarðinum. Leyfi þetta gildir til 15. júní 2017.

         Þáverandi lögmaður stefnenda óskaði eftir því með matsbeiðni 20. október 2012 að Stefán Óli Steingrímsson fiskavistfræðingur og Vífill Oddsson verkfræðingur legðu mat á það „hvort framkvæmdir á vegum opinberra aðila hafi valdið tjóni á lífríki Grenlækjar“. Þá var farið fram á að þeir gerðu grein fyrir tjónsorsökum og fjölluðu um það hvort tjón væri að fullu komið fram og hvert umfang þess væri fyrir veiðirétthafa á svæðinu.

         Í málinu liggur fyrir matsgerð þeirra Stefáns og Vífils um ofangreint álitaefni frá september 2013. Þar segir orðrétt eftirfarandi í samantekt á niðurstöðum:

Grenlækur er lindá sem rennur undan Eldhrauni, og er rennslið að hluta háð því hversu mikið vatn berst á Eldhraunið úr Skaftá. Rennsli í Grenlæk er líka háð grunnvatni sem kemur lengra að, sem og regnvatni og snjóbráð.

      Grenlækur er á jarð- og vatnafræðilega flóknu svæði, og hefur því verið og er enn, háð bæði lang- og skammtíma breytingum af náttúrulegum toga, s.s. eldvirkni (Skaftáreldar, Kötlugos) og Skaftárhlaupum.

      Hægt er að fullyrða með nokkurri vissu að mannlegar athafnir, og þá sérstaklega bygging varnargarða á vegum opinberra aðila, hafi dregið úr náttúrulegu áflæði Skaftár á Eldhraunið, og þar af leiðandi á rennsli í Grenlæk, a.m.k. á ákveðnum tímapunktum (t.d. 1998). Þetta var gert með það að markmiði að vernda þjóðveginn, uppgræðslusvæði, og náttúrulegan gróður á Eldhrauninu.

      Að sama skapi er ljóst að auknar áveitur á hraunið, t.d. í kjölfar vatnsþurrðar, hafa skilað (og geta skilað í framtíðinni) auknu rennsli í Grenlæk og nærliggjandi lækjum (t.d. Tungulæk). Áflæði Skaftár á Eldhraunið, bæði náttúrulegt og stýrt (áveitur), á sér aðallega stað við Árkvíslar (Brest), Stapaál, og Skál; auk þess sem vatni er veitt í gegnum þjóðveginn milli Brests og Skálar.

      Ljóst er að vatnsflæði í Grenlæk hefur verið mjög takmarkað á ákveðnum tímabilum. Bæði náttúrulegir ferlar og mannlegar athafnir hafa áhrif á vatnsrennslið. Erfitt er að meta nákvæmlega hluta hvors þessa þáttar í mótun rennslissveiflna í Grenlæk.

      Vatnsrennsli í Grenlæk er augljóslega undirstaða þess lífríkis sem þar þrífst. Þetta kemur m.a. fram í því að greinilegt samband er á milli vatnsrennslis á fyrri hluta hvers árs og þéttleika ársgamalla urriðaseiða að hausti. Þetta á sérstaklega við um efri hluta Grenlækjar, sem er háður lindum sem líklegri eru til þess að þorna upp en þær sem bætast við neðar í ánni. Þessi efri hluti Grenlækjar er sérstaklega mikilvægur fyrir hrygningu, og viðkomu urriðaseiða.

      Bæði urriða- og bleikjuveiði hafa dregist saman í Grenlæk á síðustu árum. Að þessu leyti eru breytingar í urriðastofninum í Grenlæk ekki í takti við aðrar nálægar ár þar sem veiði hefur aukist. Það er því líklegt að um staðbundna orsakavalda sé að ræða (t.d. vatnsrennsli), en ekki um almennar aðstæður (t.d. í hafinu) sem hefðu haft víðtækari áhrif.

      Í kjölfar minnkandi veiði á undanförnum árum, hefur verðmæti veiðiréttarhafa við Grenlæk dregist umtalsvert saman.

         Í svörum við matsspurningum segir síðan eftirfarandi:

Árlegar leigutekjur telja matsmenn að hafi verið á bilinu 20-23 milljónir/ári miðað við ástand upp úr aldamótum, en miðað við núverandi ástand telja matsmenn að leigutekjur verði á bilinu 6-8 milljónir/ári næstu árin. Er þá miðað við verðlag í júní 2013.

      Ekki liggja fyrir næg gögn fyrir til að hægt sé að fullyrða hversu mikið af þessari minnkun í veiði sé vegna breytinga af mannavöldum og hversu mikið vegna náttúrlegra aðstæðna en matsmenn telja þó að hnignun í veiði megi að verulegu leyti rekja til mannlegra aðgerða.

         Eftir að matsgerð þessi lá fyrir var farið fram á það í bréfi til umhverfisráðuneytisins 3. október 2013 að bótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, yrði viðurkennd og að viðræður yrðu teknar upp um uppgjör bóta. Enn fremur var farið fram á að stefndi, íslenska ríkið, gripi til aðgerða í samvinnu við heimamenn til þess að lágmarka það tjón sem þegar hefði orðið.

         Með bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins 6. desember 2013 var bótaskyldu íslenska ríkisins hafnað. Lýsti ráðuneytið yfir vilja til þess að vinna að samræmingu ólíkra sjónarmiða á áhrifasvæði Skaftár, en heppilegast væri að fela Skaftárnefnd það hlutverk. Bauð ráðuneytið fulltrúum stefnenda á fund til að fara yfir stöðu málsins. Fram kemur í stefnu að sá fundur hafi farið fram 18. desember 2013 en að hann hafi ekki skilað neinni niðurstöðu.

         Stefnendur leituðu einnig eftir afstöðu Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins til bótaskyldu með vísan til niðurstöðu álitsgerðarinnar. Í svari Vegagerðarinnar 12. nóvember 2013 var talið að ekki væri í ljós leitt að íslenska ríkið væri bótaskylt. Í svari Landgræðslu ríkisins 18. október 2013 kemur fram að hún teldi að aðrir aðilar þyrftu að svara fyrir ætlaðar framkvæmdir.

III

1. Málsástæður og lagarök stefnenda

         Af hálfu stefnenda er á því byggt að aðgerðir opinberra aðila sem krafa þeirra vísar til hafi leitt af sér vatnsþurrð og röskun á lífríki Grenlækjar og þar með valdið stefnendum og öllum veiðiréttarhöfum við Grenlæk fjárhagslegu tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á. Um sé að ræða saknæmar og ólögmætar framkvæmdir sem felist í byggingu stíflugarða sem hefti náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Jafnframt er á því byggt að tjón stefnenda sé sennileg afleiðing af umræddum framkvæmdum. Þá sé skýrt orsakasamhengi milli tjóns stefnenda og aðgerða stefndu við vatnsstýringu á svæðinu.

         Á því er byggt af hálfu stefnenda að í framkvæmdum stefndu hafi falist bótaskyldar skerðingar á eignarréttindum sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Vísað sé til þess að tjón stefnenda og raunar allra veiðiréttarhafa við Grenlæk hafi verið staðreynt með matsgerð Vífils Oddssonar verkfræðings og Stefáns Óla Steingrímssonar fiskavistfræðings frá 5. september 2013.

         Stefnendur byggja á því að stefndu hafi borið lagaskylda til þess að fjarlægja stíflugarð (veitugarð) við Árkvíslar að loknu tilraunatímabili árið 2004. Sú skylda leiði m.a. af 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um að öll vötn skuli renna sem að fornu hafi runnið. Í því sambandi er vísað til a-liðar 2. mgr. 7. gr. vatnalaga þar sem segi að óheimilt sé að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni, hvort sem það er að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð.

         Stefnendur vísa til þess að í máli þessu liggi fyrir heimild Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdum á tilraunatímabilinu sem hafi byggst á þeirri forsendu að ekki væri um varanlega framkvæmd að ræða. Nú telji stefndu hins vegar að þær framkvæmdir sem ráðist hafi veri í á tilraunatímabilinu hafi verið varanlegar. Sú afstaða leiði til varnalegs tjóns stefnenda og allra veiðiréttarhafa á svæðinu. Jafnframt vísa stefnendur til þess að brotið hafi verið gegn skilyrði framkvæmdaleyfis um vöktun svæðisins og áskilnaði um samráð við þar til bæra aðila.

         Til viðbótar við framangreint er á því byggt að gerð, viðhald og lenging stíflugarðs norðan þjóðvegar 1 frá Bresti austur að afleggjaranum að Skál sé í heild sinni ólögmæt framkvæmd sem hafi leitt til tjóns fyrir stefnendur sem og alla veiðiréttarhafa í Grenlæk. Hafi þessi garður verið síðast lengdur sumarið 2013. Kveða stefnendur þetta stíflumannvirki hafa heft náttúrulegt rennsli vatns fram Eldhraunið. Er á því byggt að þessar framkvæmdir Vegagerðarinnar séu á ábyrgð stefnda, íslenska ríkisins.

         Stefnendur gera nánari grein fyrir málsástæðum sínum í stefnu. Þeir telja að tvær aðgerðir stjórnvalda hafi valdið stefnendum og öllum veiðiréttarhöfum í Grenlæk mestu tjóni. Annars vegar bygging stíflugarðs (veitugarðs) á vegum Vegagerðarinnar, að því er virðist án sérstakrar heimildar, með tveimur vatnsrennslisrörum á árunum 1992 til 1998, og hins vegar takmörkun vatnsrennslis með veitugarði en þremur vatnsrennslisrörum sem tilraunaverkefni á árunum 2000 til 2004. Um áhrif þessara mannvirkja vísa stefnendur til niðurstöðu í matsgerð Vífils Oddssonar og Stefáns Óla Steingrímssonar þess efnis að mannlegar athafnir, og þá sérstaklega bygging varnargarða á vegum opinberra aðila, hafi dregið úr náttúrulegu áflæði Skaftár á Eldhraunið og þar af leiðandi í Grenlæk.

         Þrátt fyrir að aðgerðir stjórnvalda að þessu leyti hafi verið í áföngum telja stefnendur að um viðvarandi aðgerðir hafi verið að ræða a.m.k. frá árinu 1992 til dagsins í dag. Um þetta atriði vísa stefnendur til tiltekinnar umfjöllunar í matsgerðinni þar sem á það er bent að eftir að aðgerðir opinberra aðila hófust hafi komið upp nokkur dæmi um tímabundinn vatnsskort í Grenlæk. Alvarlegasta tilvikið hafi komið upp árið 1998 þegar stór hluti árinnar hafi farið á þurrt í langan tíma. Frá aldamótum séu nokkur dæmi um mjög takmarkað rennsli á fyrri hluta árs í Grenlæk. Þar er sérstaklega vísað til áranna 2005, 2007, 2008, 2010 og 2011. Öll þessi ár hafi meðal mánaðarrennsli við vatnsmælinn neðan við Stórafoss farið niður fyrir 0,8 m³/sek fyrir að minnsta kosti einn mánuð á fyrri hluta árs. Við slík skilyrði sé vatnsrennsli enn þá minna í efri hluta Grenlækjar og stór svæði árinnar þorni og/eða verði léleg uppeldissvæði.

         Af hálfu stefnenda er í stefnu vísað til þess sem segir í matsgerðinni að flokka megi þær framkvæmdir sem líklega hafi haft áhrif á vatnafar í Grenlæk í tvennt. Annars vegar aðgerðir Vegagerðarinnar, Landgræðslunnar og Skaftárhrepps er lúta að lagningu vega og verndun gróðurs í Eldhrauni. Þessar aðgerðir hafi miðað að því að draga úr ágangi Skaftár og Skaftárhlaupa á mannvirki og svæði sem séu talin í hættu hverju sinni. Hins vegar áveitur úr Skaftá á Eldhraunið er miði að því að tryggja lágmarksrennsli í þeim ám sem renni undan hrauninu. Þessar áveitur hafi iðulega verið gerðar að frumkvæði bænda og landeigenda og verið skipulagðar og framkvæmdar í samvinnu við aðra aðila eins og Vegagerðina og Skaftárhrepp (t.d. áveita fyrir Brest), eða á vegum einstakra landeigenda (t.d. áveita við Skál). Fram komi í matsgerðinni að landeigendur hafi staðið að þessum áveitum til að vega upp á móti aðgerðum sem hafi takmarkað náttúrulegt rennsli Skaftár á Eldhraunið.

         Stefnendur ítreka að umhverfisráðuneytið hafi falið Skaftárhreppi árið 2000 að standa fyrir tilraunaframkvæmdum vegna þess ástands sem hafi skapast í vatnsbúskap Grenlækjar. Stefnendur byggja á því að fjarlægja hafi átt varnargarðinn að loknu tilraunatímabilinu árið 2004 og stöðva þannig þær eignarskerðingar sem tilvist hans hafi leitt af sér.

         Stefnendur benda á að í bréfi Skipulagsstofnunar 11. september 2000 hafi komið fram að ef tilraunin, sem hafi átt að standa í fjögur ár, skilaði ekki tilætluðu markmiði væri „hvenær sem er unnt að fjarlægja áformuð mannvirki“. Af þessu virðist mega ráða að ef stýring á vatnsrennsli við útfall Árkvísla myndi ekki leiða til jákvæðrar niðurstöðu þyrfti að fjarlægja mannvirkin. Ekkert eftirlit hafi verið haft með takmörkun vatnsrennslisins og ekki hafi verið sýnt fram á að tilraunin hafi borið tilætlaðan árangur.

         Þegar framangreint tilraunverkefni hafi farið af stað segja stefnendur að Landgræðslan og Vegagerðin hafi lagt mikla áherslu á að draga úr veituvatni á Eldhraunið en veiðiréttarhafar hafi viljað auka það. Í aðdraganda tilraunatímabilsins hafi Skipulagsstofnun hafnað kröfu Erlends Björnssonar fyrir hönd veiðifélagsins um að framkvæmdir við Árkvíslar færu í umhverfismat. Skipulagsstofnun hafi hafnað þeirri beiðni og byggt á því að framkvæmdin væri ekki varanleg heldur einungis hugsuð sem tímabundið tilraunaverkefni. Frá því að tilraunatímabilinu lauk hafi veiðiréttarhafar árangurslaust barist fyrir því að farið yrði í aðgerðir til að bæta vatnsbúskap í Grenlæk.

         Stefnendur benda á að ýmsar skýrslur fiskafræðinga hjá Veiðimálastofnun á undanförnum árum beri nokkuð skýrlega með sér að veiðiréttarhafar við Grenlæk hafi orðið fyrir tjóni vegna aðgerða stjórnvalda annars vegar á árunum 1992 til 1998 og hins vegar á árunum 2000 til 2004. Þar sem vatnsrennsli í Grenlæk sé enn þá takmarkað sé tjónið viðvarandi. Félagsmenn í Veiðifélagi Grenlækjar og leigutaka veiðiréttar í Grenlæk hafi reynt að ná eyrum stjórnvalda frá árinu 2005. Hafi þær tilraunir borið lítinn árangur.

         Stefnendur vísa til þess að niðurstaða matsgerðar, sem stefnendur hafi aflað áður en mál þetta var höfðað, sé afgerandi um að veiðiréttarhafar við Grenlæk hafi orðið fyrir milljónatjóni sem rekja megi til vatnsþurrðar í ánni sökum aðgerða opinberra aðila. Hafi matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að árlegar leigutekjur hafi verið á bilinu 20 til 23 milljónir króna á ári miðað við ástandið upp úr síðastliðnum aldamótum. Miðað við núverandi ástand væru þær á bilinu sex til átta milljónir miðað við verðlag í júní 2013. Þá hafi matsmenn talið að hnignun í veiði mætti að verulegu leyti rekja til mannlegra aðgerða.

         Með hliðsjón af niðurstöðu matsgerðarinnar og eldri skýrslna Veiðimálastofnunar telja stefnendur að hafið sé yfir vafa að framkvæmdir opinberra aðila hafi leitt til tjóns á lífríki Grenlækjar og jafnframt valdið stefnendum og öllum veiðiréttarhöfum á svæðinu fjárhagslegu tjóni. Hafi umhverfisráðuneytið, Landgræðslan, Vegagerðin og stefndi Skaftárhreppur fyrst og fremst komið að umræddum framkvæmdum og tekið um þær ákvarðanir. Telja stefnendur ljóst að þeir hagsmunir sem umræddir aðilar hafi talið sig vera að vernda hafi verið á kostnað stefnenda og allra veiðiréttarhafa við Grenlæk. Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar beri þessir aðila því fébótaábyrgð á tjóni stefnenda og veiðiréttarhafa á svæðinu.

         Í ljósi alls framangreinds sé þess krafist að viðurkennd verði bótaskylda stefndu vegna þeirra aðgerða sem leitt hafi til veiðitjóns í Grenlæk.

         Um lagarök vísa stefnendur til meginreglna skaðabótaréttar um orsakasamhengi, sennilega afleiðingu, saknæmi og ólögmæti. Þá vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar, sbr. einnig 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé vísað til meginreglna eignaréttar. Stefnendur vísa enn fremur til núgildandi lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006 og ákvæða vatnalaga nr. 15/1923. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991 og um heimild til samaðildar til sóknar og varnar er vísað til 19. gr. einkamálalaga. Þá sé krafa um málskostnað studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

2. Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins

         Stefndi, íslenska ríkið, reisir sýknukröfu sína á því að ætlað tjón stefnenda sé með öllu ósannað sem og orsakasamband það sem málatilbúnaður stefnenda byggi á. Stefndi telur rangt og ósannað að minna vatnsrennsli og vatnsmagn í Grenlæk sé af völdum áveitugarða sem reistir voru og stóðu frá 1992 til 1998 eða frá árinu 2000. Þá hafnar hann því að garður meðfram þjóðvegi hafi einhver áhrif haft á vatnsrennsli í Grenlæk, en umræddur garður sé í reynd hluti af hringveginum og viðhaldi hans; fyllilega lögmæt framkvæmd frá gamalli tíð. Sú fullyrðing að lækirnir í Landbroti hafi farið að renna eins og áður 1998 þegar garðarnir hafi verið fjarlægðir stenst ekki að mati stefnda.

         Stefndi bendir á að stefnendur hafi byggt kröfur sínar á álitsgerð Stefáns Óla Steingrímssonar fiskavistfræðings og Vífils Oddssonar verkfræðings. Stefndi byggir á því að álitsgerðin hafi ekki sönnunargildi í málinu. Þeir Stefán Óli og Vífill hafi ekki verið dómkvaddir eftir ákvæðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og hafi stefnda eða stofnunum þeim sem málatilbúnaður stefnenda skírskoti til, ekki verið gefið færi á að koma að athugasemdum eða gögnum. Hvergi komi fram að þeir, sem að álitinu stóðu, séu sérfróðir um vatnamælingar og þá þætti sem sérstaklega reyni á við úrlausnarefnið. Þá sé álitsgerð þeirra ekki byggð á vísindalegum mælingum og háð ýmsum fyrirvörum um hvort fullyrða megi um orsakatengsl varðandi vatnsþurrð eða veiði. Í niðurstöðukafla skýrslunnar sé engan veginn greint á milli orsaka með vísindalegum hætti, þ.e. hvaða samspil sé milli orsaka af náttúrulegum toga og framkvæmda manna. Ekki sé heldur greint hvaða orsakavaldar séu vegna þeirra athafna sem opinberir aðilar hafi staðið fyrir. Svonefnt „náttúrulegt“ flæði sé ekki skilgreint og heldur ekki í samhengi við þær vatnsveitingar sem heimamenn og bændur hafi staðið fyrir.

         Stefndi mótmælir staðhæfingum í stefnu, svo sem þeirri að lækir hafi runnið eins og áður eftir að garðurinn við Árkvíslar hafi verið fjarlægður árið 1998. Þá er hafnað þeirri fullyrðingu að Vegagerðin hafi stækkað garðinn. Jafnframt er ítrekað að aðrir garðar eða vatnaveitur séu ekki á ábyrgð stefnda, svo sem veiting vatns við Skálarál.

         Stefndi hefur aflað álits Veðurstofu Íslands sem sýni fram á hið gagnstæða, en stofnunin sinni rannsóknum á sviði vatnamælinga og öðrum þáttum sem á reyni, sbr. 3. gr. laga nr. 70/2008, um Veðurstofu Íslands. Meginniðurstaða í greinargerð Veðurstofu Íslands og svör við þeim spurningum sem svarað var á grundvelli hennar, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 8. maí 2015, sé að stífla í útfalli úr Skaftá í Árkvíslar með rörum hafi ekki haft áhrif á rennsli í Grenlæk. Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands hafi rennslið í Árkvíslum aukist við Gömlu Á þegar stíflan var endurbyggð árið 2000 með þremur rörum frá því sem var þegar engin stífla var til staðar. Samanburður á rennsli þegar engin stífla var og þegar stíflan var gerð með þremur rörum sýni að mannvirkið takmarki ekki rennslið við allt venjulegt rennsli í Skaftá. Þó komi fram að líklegt sé að mannvirkið takmarki útrennsli í hárennsli og Skaftárhlaupum en þá fari vatn hvort eð er um allt hraunið.

         Veðurstofa Íslands hafi einnig verið beðin um mat á álitsgerð þeirri sem stefnendur hafi lagt fram. Henni sé í reynd hafnað enda sé mjög lítið fjallað þar um náttúrulegan breytileika í vatnsrennsli lindarvatns í Eldhrauni. Meginniðurstaða Vífils og Stefáns Óla standist ekki. Þá verði að hafa í huga að svo mikið vatn sem fari í gegnum garðinn með rörum hafi aldrei verið náttúrulegt.

         Stefndi vísar til svara Veðurstofu Íslands og skýrslu hennar um samanburð á vatnsrennsli, en þegar dregið sé úr rennsli í útfall Árkvísla úr Skaftá renni meira í Skaftá út á hraunið austar, í Stapaál og Skálarál. Skili vatnið sér þá styttri leið í Grenlæk. Þetta sýnir að mati stefnda meðal annars að málatilbúnaður stefnenda og álitsgerð sem þeir byggi á standist engan veginn. Auk þess hafi rennslið um Brest aukist, eins og Veðurstofa Íslands bendi á með vísan til mælinga og þess hvernig grunnvatn streymi um hraunið. Grunnvatnskort (mynd 3 í svari Veðurstofu) sýni að vatnið leiti suður en ekki austur að Grenlæk.

         Stefndi vísar enn fremur til þess að rennsli Grenlækjar hafi alla jafna aukist eftir að stíflan með þremur rörum var sett upp, en skýring þess sé fremur sú að rennsli Skaftár hafi almennt aukist.

         Hvernig sem á málið sé litið telur stefndi því ljóst að mannvirki þau sem dómkröfur og málatilbúnaður stefnenda byggi á dragi ekki úr vatnsrennsli í Grenlæk. Veitan með rörum hafi óbein áhrif með því að auka rennsli og sé viðbót við náttúrulegt rennsli á hraunið. Af skýrslu Veðurstofu Íslands megi ráða að veitugarður með tveimur rörum og manngerðum aðrennslisskurði gefi meira vatn á hraunið en náttúrulegar aðstæður; garður með þremur rörum enn meira.

         Í svari Veðurstofu Íslands hafi einnig verið lagt mat á áhrif garðs með fram hringveginum. Aurfylling Árkvísla (Brests) þeki hraunið norðan hringvegarins á rúmlega tveggja kílómetra kafla en gamburmosabreiðurnar séu óskertar þar sunnan við nema þar sem vatn í Stóra-Bresti og Litla-Bresti hafi eytt gróðurlendum. Þétt aurlag liggi að veginum en vatnið renni í hrauninu undir veginum og suður fyrir hann. Fram komi í skýrslunni að vatn renni undir brúna á Stóra-Bresti og um ræsi til móts við Litla-Brest, sem hafi verið galopin sprunga í hrauninu, en sé nú full af framburði. Vatnið úr Árkvíslum sæki nú meira út á Blöðkuna en áður í átt að Litla-Bresti og fari því niður í hraunið austar en áður.

         Þar segi einnig að vatn liggi ekki að þessum garði með hringveginum austanverðum nema þegar mikið sé í Skaftá eða þegar lítið af Árkvíslarveitunni fari undir brúna við Stóra-Brest. Einungis síðsumars á jökulleysingatíma nái vatnið að þeim stað þar sem garðurinn hafi verið lagfærður árið 2013. Niðurstreymi vatns á þeim tíma árs breyti engu um rennsli Grenlækjar síðvetrar. Hraunið sé víða orðið þétt og vatn sé þvingað með veitum frá því að falla til vesturs. Litli-Brestur sé að fyllast af sandi og því leiti vatnið sem fari um ræsið einnig austur með veginum sunnan hans.

         Stefndi mótmælir því að garður með fram hringveginum á stuttum kafla hafi leitt til tjóns fyrir stefnendur eða lagfæring á honum frá 2013. Það sé fullkomlega óraunhæft að kalla hann „stíflumannvirki“ eins og gert sé í stefnu. Engin sönnun sé færð fram af hálfu stefnenda um áhrif þessa garðs.

         Stefndi kveður því meginniðurstöðu Veðurstofunnar vera að veitugarðurinn í Árkvíslum, sem rör voru í, hafi ekki áhrif á rennsli í Grenlæk. Sama eigi við um garðinn með fram hringveginum.

         Stefndi bendir einnig á að þegar jökulvatn hafi runnið lengi í sömu áveitufarvegum, eins og í Bresti og í Skálarál, verði botninn svo þéttur að mjög lítið vatn renni niður í grunnvatnið. Þegar lítið vatn sé í Skaftá, og lítið vatn renni af þeim sökum í Árkvíslar og Brest, sé nánast sama vatnsmagn í Árkvíslum við Skaftá og í Bresti sem renni undir brúna á hringveginum. Nánast ekkert vatn sígi þá niður á þeirri leið. Einnig verði að hafa í huga að núverandi áveita í Árkvíslar veiti meira vatni en hið náttúrulega vatnsrennsli fyrir 1980 og það sem þar rann fyrir 20 árum.

         Stefndi kveður engar vísindalegar rannsóknir hafa nokkru sinni sannað með óyggjandi hætti að aukið vatnsrennsli úr Skaftá í Árkvíslar og Brest hafi nokkur áhrif á vatnsmagn Grenlækjar í Landbroti. Þó hafi margar stofnanir sinnt rannsóknum á vatnafari í Eldhrauni; Landsvirkjun, Vatnamælingar, Orkustofnun, Vegagerðin, Landgræðsla ríkisins, Veðurstofa Íslands,  Suðurorka, meðstefndi o.fl. Stefndi kveður vatnamælingar Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands hafa leitt að því líkum að aukið vatnsrennsli út í Brest hækki vatnsborðið í grunnvatnsgeyminum í Eldhrauni og í rigningartíð og í Skaftárhlaupum flæði úr geyminum í lækina í Landbroti og Meðallandi. Vatnsveitingar í Skálarál hafi hins vegar bein tengsl við Tungulæk og Grenlæk. Rannsóknir Freysteins Sigurðssonar og samstarfsmanna hjá Vatnamælingum Orkustofnunar í lok síðustu aldar hafi leitt í ljós að miklu meira vatn komi undan Eldhrauninu í lækjum í Landbroti og Eldvatni í Meðallandi heldur en úrkoman og vatn sem runnið hafi út á Eldhraunið geti skýrt. Taldi Freysteinn að gríðarlegt vatnsmagn kæmi undan jökli og rynni neðanjarðar í gömlu Skaftárgljúfrunum og niður í Eldhraunið – kæmi síðan fram í lækjum undan Eldhrauni. Allar þessar rannsóknir auk samantektar og svara Veðurstofunnar sýni að garðar þeir með rörum og garðar með fram hringveginum hafa alls ekki þau áhrif sem stefnendur byggi á.

         Stefndi byggir einnig á því að engri saknæmri eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, stofnana eða starfsmanna á þess vegum. Í engu hafi verið um að ræða takmörkun á eignarréttindum samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar eða bótaskyldu af slíkum sökum.

         Stefndi kveðst skilja stefnu málsins miðað við dómkröfur á þann veg að málið lúti annars vegar að stíflugarði á útfalli Árkvísla sem hafi staðið frá 1992 til 1998, fyrst með einu röri en síðan tveimur og hins vegar veitugarði sem reistur var á árinu 2000 með þremur rörum á sama stað. Dómkröfur lúti síðan að garði frá gamalli tíð sem liggi á kafla með fram hringveginum, en að þessu sé ekki vikið nánar í stefnu og virðist hún byggja á misskilningi og ruglingi við annan garð.

         Stefndi gerir þá athugasemd af þessu tilefni að landeigendur hafi sjálfir hafið aðgerðir til að opna fyrir útfall í Árkvíslar úr Skaftá neðan Gömlu Ár um 1960 og aftur um 1980. Ekki sé því unnt að leggja til grundvallar að um náttúrulegt útfall sé að ræða heldur hafi því verið viðhaldið af mannavöldum. Þessu rennsli hafi síðan verið haldið við því að öðrum kosti myndi það lokast vegna framburðar Skaftár. Rennslið í Árkvíslum sé því síbreytilegt eftir aðstæðum, einkum vegna vatnsmagns í Skaftá hjá eyðibýlinu Á. Meginregla 7. gr. vatnalaga um að vötn skuli renna sem að fornu hafi runnið hafi því enga þýðingu í málinu og sá grunnur sem stefnendur leggi að máli sínu um náttúrlegt flæði sé að sama skapi óraunhæfur.

         Verði hins vegar litið til 7. gr. vatnalaga telur stefndi að í fyrsta lagi verði að líta til þess að farvegi var aldrei breytt frá því sem var þegar garðarnir voru reistir heldur hafi vatni verið veitt áfram í gegnum rör sem minnkuðu ekki rennslið eða breyttu stefnu vatnsins. Í öðru lagi verði að horfa til þess að leyfi hafi verið gefið fyrir framkvæmdum árið 2000. Einnig verði að líta svo á að leyfi hafi verið gefið fyrir hinum fyrri garði við Árkvíslar enda hafi Vegagerðin haft að sönnu heimildir til að vernda þjóðveginn.

         Stefndi telur ekki unnt að segja til um með vissu hvert rennslið væri nú án aðgerða eða hvort það væri minna eða meira en það er samkvæmt rennslisstjórnun sem komið hafi verið á upp úr 1992 og síðar árið 2000. Niðurstaða rennslismælinga Veðurstofunnar sýni hins vegar að þessar aðgerðir hafi eingöngu mögulega haft takmarkandi áhrif á rennsli um útfallið í Árkvíslar á árabilinu 1992 til 1997 en allt bendi til þess að rennsli hafi annars verið meira en það hafi verið af náttúrulegum orsökum áður en vatnsveitingar hófust og tilraunir til að stjórna rennslinu. Á þessu tímabili sé þó ljóst að rennsli í Grenlæk hafi verið með ágætum, sem og veiði þar. Á hinn bóginn verði að miða við að útfallið myndi lokast eða þrengjast af framburði ef ekki kæmu til aðgerðir við að halda því opnu. Engin haldbær sönnun hafi verið færð fyrir því að samhengi sé milli rennslis um Árkvíslar og vatnsmagns í Grenlæk eða Tungulæk. Þar ráði mun flóknara samspil. Samkvæmt rannsóknum Veðurstofu Íslands séu meiri líkur á því að ekkert samhengi sé þarna á milli. Meiri líkur séu á því að rennsli Skaftár hafi þar áhrif, einkum þá rennsli við Skálarál, en stefnandi virðist rugla þessu saman í málatilbúnaði sínum.

         Stefndi tekur fram að árið 1998 hafi þurrkur og vatnleysi verið í ám víða um Suður- og Vesturland. Það sé nærtækari skýring á vatnsleysi í Grenlæk og Tungulæk en rennslisstjórnun við útfall Árkvísla, ef á annað borð hefur verið um vatnsleysi að ræða. Niðurstöður vatnamælinga Veðurstofunnar sýni fram á þetta. Sérstaklega sé þetta líklegt í ljósi þess að vatnsleysi í lækjunum var þekkt löngu áður en til rennslisstjórnunar í Árkvíslar kom.

         Stefndi mótmælir því að umræddir garðar, sem reistir hafi verið af hálfu opinberra aðila, hafi verið gerðir á grundvelli saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi. Kveður hann að við umrædda stjórn á rennsli hafi ávallt verið haft samráð við hagsmunaaðila og mið tekið af þeim ólíku en oft óljósu hagsmunum sem í húfi voru. Landeigendur, sumir innan vébanda stefnenda hafi verið viðloðandi aðgerðirnar árið 1992 enda hafi þær ekki falið í sér lokun fyrir rennsli í Árkvíslar heldur rennslisstýringu. Vegagerðin hafi haft hagsmuni af því að stýra rennslinu til að komast hjá tjóni á hringveginum. Landgræðsla ríkisins hafi viljað stuðla að gróðurvernd og koma í veg fyrir uppfok á svæðinu, þótt sú stofnun hafi á engan hátt staðið að framkvæmdum. Hagsmunir séu margvíslegir, t.d. annarra landeigenda (Múla, Botna, Ár, Ása-jarðanna og Skálar), hagsmunir þeir sem skilgreindir séu í landgræðslulögum (verndun gróðurs og jarðvegs) og þeir sem snúi að því að verja hringveginn fyrir ágangi vatns og tryggja öryggi umferðar, sem oft sé verulega ógnað af völdum sandfoks, bæði slysahætta og tjónshætta á bifreiðum. Þá séu til staðar hagsmunir náttúruverndar sem gætt sé af Umhverfisstofnun (áður Náttúruvernd ríkisins) og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Hagsmunir sveitarstjórnar Skaftárhrepps vegna íbúa sveitarfélagsins ráði einnig, svo sem varðandi loftgæði og lífsgæði, sem mjög séu skert vegna sand- og uppfoks. Varðandi gróður og jarðveg verði að hafa hugfast að auknar vatnsveitingar jökulvatns úr Skaftá út á Eldhraun auki enn á mestu gróðureyðingu í byggð á landinu í dag. Sá gríðarlegi vandi hafi enn verið aukinn með miklum vatnsveitingum stefnanda á Bresti í Blöðku (einnig í Skálarál). Ekki sé einhlítt að sjónarmið stefnenda hafi átt að vera ráðandi enda mestur vafi á því hvaða áhrif stjórnun rennslis um Árkvíslar hefði á þeirra hagsmuni.

         Stefndi kveður Vegagerðina hafa í gegnum tíðina ráðist í aðgerðir til að koma til móts við kröfur landeigenda, t.d. með því að setja tvö ræsi í gegnum hringveginn við Litla-Brest sem og að tryggja á hverjum tíma rennsli um Árkvíslar um sífellt fleiri rör. Samhliða þessu hafi verið aukið við rennsli úr Skaftá inn að rörunum í varnargarðinum neðan við Gömlu Á. Vegagerðin hafi einnig byggt og haldið við varnargörðum með fram Árkvíslum og Bresti að vestanverðu til að koma í veg fyrir rennsli þeirra yfir í Eldvatn. Leggur stefndi áherslu á að vatnsveitingar um Árkvíslar séu af mannavöldum í upphafi, án atbeina opinberra aðila. Vegagerðin hafi ekki gert annað en að halda þeim við í samráði við heimamenn.

         Stefndi tekur fram að eitt rör hafi verið haft við útfall Árkvísla frá árinu 1992. Síðar hafi það verið lækkað í farvegi og enn síðar hafi öðru röri verið bætti við en í dag séu þau þrjú. Rörin hafi legið lágt sem þýði aukið rennsli. Það sé hins vegar niðurstaða athugunar Veðurstofunnar að mismunandi fjöldi röra hafi ekki haft nokkur áhrif á rennsli í Grenlæk og Tungulæk. Á hinn bóginn hafi hvergi verið sýnt fram á annað en að nóg vatn hafi verið í Grenlæk á árunum 1992-1998. Almenn vatnsþurrð og þurrkar á árinu 1998 séu af allt öðrum og náttúrulegum orsökum.

         Stefndi byggir á því að stjórnun rennslis um Árkvíslar sem hafi verið komið á árið 2000 byggi á heimild umhverfis- og landbúnaðarráðherra, sbr. ákvörðun forsætisráðherra, sem fyrr segi. Hafi hún verið og sé í samræmi við ákvæði vatnalaga og ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum auk annarra laga.

         Þá er einnig byggt á því af hálfu stefnda að Vegagerðinni hafi verið skylt að lögum að verja vegamannvirki með varnargörðum með fram vegum og að bægja frá vatni sem leiti á veg til að tryggja samgöngur og örugga vegi og til að halda þeim við. Í þessu tilviki sé um hringveginn – þjóðveg 1 – að ræða sem sé megintenging vegasamgangna milli landshluta. Mikilvægt sé að tryggja öryggi hans og að koma í veg fyrir að hann rofni, meðal annars vegna ágangs vatns. Vísar stefndi í þessu sambandi til þess meginhlutverks sem Vegagerðinni hafi verið falið sem veghaldara um langt skeið. Styðjist það meðal annars við 1. mgr. 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 og 1. mgr. 6. gr. laga um Vegagerðina, nr. 120/2012. Varnargarðar með fram hringveginum teljist til þeirra mannvirkja sem nauðsynleg séu til að vegur sé varanlegur og unnt sé að viðhalda og hafa sem fyllst not af vegi, sbr. 1. gr. laga 6/1977, laga nr. 45/1994 og 8. tl. 1. mgr. 3. gr. gildandi vegalaga nr. 80/2007.

         Þá byggir stefndi einnig á því að óheimilt sé að aðhafast nokkuð það sem stuðlað geti að því að vatn renni á eða yfir veg. Ákvæði þessa efnis hafi verið í vegalögum, sbr. 58. gr. og 76. gr. vegalaga nr. 6/1977 og 54. gr. vegalaga nr. 45/1994, og sé í núgildandi 2. mgr. 49. gr. vegalaga nr. 80/2007. Sem veghaldara hafi Vegagerðinni verið heimilt að grípa til aðgerða til að varna því að vatni sé veitt á þjóðveg.

         Stefndi vill halda því til haga að Landgræðsla ríkisins hafi hvorki komið beint að gerð né viðhaldi varnar- eða veitugarða við Skaftá eða annars staðar á Eldhrauni þannig að áhrif kunni að hafa á lindavatn í Landbroti, öfugt við það sem haldið sé fram í stefnu. Stofnunin hafi hins vegar verið til ráðgjafar, komið að fundum, unnið skýrslur um ástandið og hvatt aðila til að draga úr vatnsveitingum á Eldhraun – enda valdi hluti vatnsveitinganna mikilli og mjög alvarlegri gróðureyðingu á svæðinu. Landgræðsla ríkisins hafi komið að málinu á þennan hátt í ljósi lögbundins hlutverks síns. Vísar stefndi til þess að stofnunin byggi viðhorf sín á lögmætum grundvelli samkvæmt lögum um landgræðslu nr. 17/1965 með því að stuðla að verndun gróðurs og jarðvegs í Eldhrauni. Lögmætt sé að kappkosta við að koma í veg fyrir uppblástur og sandfok. Það samræmist 1. gr. laganna og þeim tilgangi að koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs og að græða upp eydd og vangróin lönd. Stefndi vísar enn fremur til 2. gr. laganna en starfsemi stofnunarinnar felist meðal annars í sandgræðslu, sem er hefting jarð- og sandfoks og græðsla gróðurlausra og gróðurlítilla landsvæða. Þá eigi hún að vinna að gróðurvernd sem stuðli að eflingu gróðurs til að auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu. Einnig segi í 1. og 2. ml. 5. gr. laganna að Landgræðslan skuli kosta kapps um að stöðva jarðvegseyðingu, hvort sem er af völdum uppblásturs, sandfoks eða vatnsrofs. Stofnunin annist einnig græðslu eyddra og vangróinna landa. Loks komi fram í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna að Landgræðsla ríkisins skuli hafa gát á meðferð á gróðri landsins og vinna gegn því, að hann eyðist fyrir ofnotkun eða aðra óskynsamlega meðferð. Þá skuli stofnunin fylgjast með því að landspjöll séu eigi unnin að óþörfu og segja fyrir um hvernig þau skuli bæta.

         Stefndi kveður Landgræðslu ríkisins hafa í ljósi ofangreindra ákvæða laga um landgræðslu unnið að því að verja gróður í Eldhrauni og þannig leitast við að draga úr áfoki og sandfoki sem á stundum sé gríðarlegt. Óhóflegar áveitur jökulvatns út á Eldhraunið færi með sér mikinn sand og jökulleir og komi í veg fyrir að færast megi nær þessu takmarki.

         Stefndi getur þess einnig að Landgræðsla ríkisins fari með stjórn mála er varði varnir gegn landbroti, samanber samnefnd lög nr. 91/2002. Rennslisstýring í Eldhrauni þjóni og markmiðum þeirra laga þó að framkvæmdirnar séu ekki og hafi aldrei verið unnar á grundvelli þeirra. Þannig komi fram í 1. gr. laganna að tilgangur þeirra sé að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með fyrirhleðslum gegn ágangi vatna. Þá segi í 1. mgr. 4. gr. að Landgræðsla ríkisins meti hvar þörf sé á fyrirhleðslum til að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot sem ógni eða valdi tjóni á landi eða mannvirkjum.

         Í ljósi ofangreinds telur stefndi að um lögmætar ráðstafanir sé að ræða í öllu tilliti og að þær hafi verið gerðar í skjóli leyfis, á lögmætum grundvelli og einnig í samráði við veiðiréttarhafa. Stefndi byggir einnig á því að meðstefndi hafi borið ábyrgð á framkvæmdum og því sé ekki til að dreifa háttsemi af hálfu stofnana stefnda, en meðstefndi hafi verið sá sem óskaði eftir leyfi til framkvæmdanna og hafi hlotið það með leyfisbréfi tveggja ráðuneyta, sbr. úrskurð forsætisráðherra. Telur stefndi að stefnendur rugli saman því leyfi og stjórnsýslu Skipulagsstofnunar í stefnu.

         Stefndi ítrekar að málatilbúnaður stefnenda sé óljós. Ekki virðist byggt á því að leyfi ráðherra til meðstefnda á árinu 2000 hafi verið ólögmætt, en stefnendur telja það hafa verið andstætt 7. gr. vatnalaga að rjúfa ekki varnargarðinn á árinu 2004. Stefndi vísar til fyrri umfjöllunar um ákvæði vatnalaga og þeirrar staðreyndar að veiting Skaftár um Árkvíslar neðan við Gömlu Á sé af mannavöldum öðrum en stofnunum eða starfsmönnum stefnda. Stefndi ítrekar að ekki komi ótvírætt fram í leyfinu að það hafi verið bundið til fjögurra ára. Verði talið að taka hafi átt niður varnargarðinn árið 2004 hafi meðstefndi átt að gera það, enda hafi hann verið leyfishafi. Engri sök eða ólögmætri háttsemi sé til að dreifa af hálfu stefnda eða stofnana á hans vegum. Fyrir liggi að enginn munur hafi verið á rennsli í Grenlæk með eða án garðsins og ljóst að garðurinn með rörunum jók rennsli í Bresti auk þess sem mokað var úr útfallinu til að tryggja rennsli að rörunum.

         Stefndi byggir á því að ætlaður bótaréttur stefnenda sé löngu fallinn niður fyrir fyrningu. Augljóst sé að garður með fram þjóðvegi, sem í raun verði að líta á sem hluta af veglagningu, sé frá gamalli tíð, löngu eldri en ákvæði laga um fyrningu marki bótakröfum líftíma. Þá telur stefndi að bótakröfur sem stafi af mannvirkjum frá 1992-1998 eða frá árinu 2000 séu löngu fallnar niður fyrir fyrningu, sbr. ákvæði laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nú ákvæði laga nr. nr. 150/2007, um fyrningu, einkum 28. gr., og efnisákvæði þeirra að öðru leyti. Hvergi sé unnt að ráða af gögnum að upphafstími fyrningar geti hafa byrjað í nóvember 2004. Þá sé einnig á því byggt að ef á bótaskyldu yrði fallist séu liðnir frestir samkvæmt 57. gr. vegalaga nr. 6/1977 og 49. gr. laga nr. 45/1994, sem og ákvæði síðari vegalaga.

         Stefndi mótmælir því að kröfur stefnenda eigi stoð í 72. gr. stjórnarskrár. Ekki verði séð hvaða stjórnarskrárbundnu réttindi séu á hendi stefnanda, Veiðifélags Grenlækjar í Landbroti. Stefnandi Geilar ehf. hafi á engan hátt reifað kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu með skírskotun í veiði þar fyrr eða nú. Ekki sé til að dreifa rökstuðningi fyrir bótakröfu þess stefnanda í stefnu. Sem fyrr segi hafi hvorugur stefnenda sýnt fram á ætlað tjón eða gert það líklegt að þeir hafi orðið fyrir tjóni. Ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamhengi eða skilyrði um sennilega afleiðingu. Allar framkvæmdir sem bótakrafa stefnenda sé reist á hafa verið í samræmi við lög og almannahagsmuni, einkum samkvæmt vegalögum. Um sé að ræða athafnir sem varði almannahagsmuni, teljist hafa almenna þýðingu og sem menn og lögaðilar verði að þola bótalaust.

         Stefndi kveður hvorugan stefnenda hafa sýnt fram á minnkaða veiði eða tjón, hvað þá röskun á lífríki. Í stefnu sé tekið upp úr bréfi Veiðimálastofnunar frá 3. júní 1998 en það sé ekki lagt fram. Þær fáu upplýsingar sem liggi fyrir um veiði í málinu sýni þó að hún sé mest þegar garðarnir hafi staðið og farið vaxandi eftir að garður var gerður með einu röri. Hafi hún verið mest þar á eftir. Varðandi stefnanda Geilar ehf. séu ekki upplýsingar sem byggjandi sé á um veiði fyrr eða nú en heildartölur sýni sem fyrr segi meiri veiði. Ekki séu upplýsingar um veiði samkvæmt veiðiskýrslum eða hlutdeild í Grenlæk sem sýni minni veiði sem afleiðingu af þeim mannvirkjum sem dómkröfur lúti að nema síður sé. Málið sé í reynd ekkert reifað m.t.t. aðstæðna eða veiði af hálfu stefnanda, Geila ehf., og tæplega á það minnst í stefnu. Mótmælir stefndi því eindregið að röskun hafi orðið á eignarréttindum stefnenda.

         Stefndi byggir á því og ítrekar að rennsli úr Skaftá hafi verið aukið út í Árkvíslar áður en varnargarðar hafi tekið við og hafi sú vatnsveiting verið af mannavöldum, en ekki af hálfu opinberra aðila eða á ábyrgð stefnda. Ákvæði 7. gr. vatnalaga hafi því ekki þýðingu af augljósum ástæðum. Telur stefndi sig hafa sýnt fram á að varnargarðar með rörum hafi ýmist enga þýðingu haft fyrir rennsli út á hraunið eða að mælingar sýni meira rennsli. Málatilbúnaður stefnenda byggi á röngum staðhæfingum þar sem gengið sé út frá því að lokað hafi verið fyrir rennsli og auk þess byggt á þeirri röngu forsendu að án garðanna sé um að ræða náttúrulegt rennsli.

         Stefndi ítrekar einnig að varnargarðurinn gamli með fram hringveginum nái alls ekki út að afleggjaranum að Skál eins og stefnendur fullyrði. Þá hafi lagfæring á garðinum árið 2013 engin áhrif á rennslið austur á Eldhraunið. Einungis hafi verið um að ræða óverulega aðgerð til að vernda hringveginn þegar mjög mikið vatn hafi verið í Blöðkunni. Almennt sé vatnið óverulegt austan Litla-Brests og breyti garðurinn engu fyrir vatnsrennsli í Grenlæk. Stefndi ítrekar einnig að Skálaráll sé að stórum hluta manngerður og sé vatni þar veitt frá honum til suðaausturs, en sú vatnsveiting sé ekki gerð af starfsmönnum eða stofnunum stefnda. Ástæða sé þó til þess að nefna að sú veiting vatns hefur valdið gríðarlegri gróðureyðingu á Eldhrauni austanverðu og skemmdum á hringveginum í Skaftárhlaupi.

         Stefndi heldur því fram að stefnendur hafi á engan hátt gert líklegt að þau mannvirki sem vísað sé til í dómkröfum – eftir því sem best má skilja þær – hafi haft áhrif á vatnsrennsli í Grenlæk. Þá sé einnig ósannað að þessi mannvirki hafi haft áhrif á veiði í Grenlæk. Ályktanir í áliti Vífils og Stefáns Óla standist ekki vísindalegar mælingar og ályktanir.  Að mati stefnda virðist leiðsögn stefnenda ráða niðurstöðunni. Mótmælir stefndi álitsgerð þeirra, en þeir hafi ekki verið dómkvaddir og meðferð mats þeirra ekki borin undir stefnda. Sama eigi við um viðhorf Veiðimálastofnunar, sem taki mið af ályktunum sem ekki standist. Ítrekar stefndi þá skýrslu sem Veðurstofa Íslands hefur ritað og svör við spurningum auk þess sem vatnsþurrð sé þekkt löngu fyrir gerð þessara mannvirkja. Þá telur stefndi að stefnendur horfi alfarið fram hjá almennri vatnsþurrð og þurrki sem hafi orðið árið 1998, en rennsli um veituna hafi þó verið til staðar það ár.

         Til stuðnings kröfum um málskostnað er af hálfu stefnda vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

3. Málsástæður og lagarök stefnda Skaftárhrepps

         Stefndi Skaftárhreppur byggir sýknukröfu sína á því að stefnendur beini dómkröfum ranglega að sér. Stefndi geti ekki talist aðili máls í skilningi réttarfarslöggjafar. Fyrir hendi sé aðildarskortur sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

         Þessu til stuðnings vísar stefndi til þess að á fundi sínum 11. maí 1999 hafi ríkisstjórn Íslands samþykkt að veita 5,8 milljónum króna til framkvæmda við Árkvíslar/Brest í Eldhrauni. Í bréfi umhverfisráðuneytisins til stefnda 8. júní sama ár hafi ráðuneytið farið þess á leit við sveitarstjórn stefnda að hún tæki að sér umsjón með framkvæmdinni, þ.e. að tryggja lögformlega þætti hennar. Jafnframt hafi ráðuneytið óskað eftir því við sveitarstjórnina að hún sæi um að taka ákvarðanir um það hvenær opna skyldi og loka röri í stífugarðinum.

         Stefndi bendir jafnframt á að með úrskurði forsætisráðuneytisins 23. febrúar 2000 hafi það orðið niðurstaða ráðuneytisins að framkvæmdir við Árkvíslar heyrðu undir tvö ráðuneyti, landbúnaðar- og umhverfisráðuneyti. Þessi ráðuneyti hafi því næst auglýst framkvæmdina í Lögbirtingablaði 10. maí 2000. Í auglýsingunni hafi framkvæmdinni verið lýst auk þess sem tekið var fram að fyrirhugað væri að Vegagerðin sæi um framkvæmd verksins. Þá segi orðrétt í auglýsingunni: „Sveitarstjórn Skaftárhrepps er umsjónaraðili verksins og tekur ákvarðanir um stýringu vatns um rörin.“

         Í greinargerð stefnda eru bréfaskipti hreppsins við Skipulagsstofnun því næst rakin sumarið 2000 og þess getið að stefndi hafi þar látið þau orð falla að hann teldi sig einskonar „verktaka“ í ákveðnum þáttum málsins og væri því ekki formlegur framkvæmdaraðili í þeim skilningi sem fólst í spurningu Skipulagsstofnunar til hreppsins. Hafi nefnd sem falið hafi verið að fjalla um vatnsvanda í Eldhrauni verið sömu skoðunar.

         Stefndi tekur fram að með bréfi 10. ágúst 2000 til Skipulagsstofnunar hafi umhverfisráðuneytið lýst því yfir að stefndi teldist framkvæmdaaðili verksins.

         Stefndi bendir á að 25. sama mánaðar hafi hreppurinn í bréfi til Skipulagsstofnunar gert ítarlegri grein fyrir aðkomu sinni að framkvæmdinni. Er því lýst að saga vatnsveitinga á þessu svæði nái marga áratugi aftur í tímann þar sem Vegagerðin, Landgræðsla ríkisins og landeigendur í Landbroti hafi komið að málum. Þá komi þar fram að síðastliðin tvö ár hafi þessi mál verið undir forystu umhverfisráðuneytisins, sem ásamt Náttúruvernd ríkisins hafi staðið m.a. fyrir vatnsveitingum við Skálarál sumarið 1998. Í niðurlagi bréfsins segi síðan orðrétt: „Í tilefni af umræðu um mögulega skaðabótaskyldu m.a. vegna hugsanlegs vatnsskorts áréttar Skaftárhreppur að fyrirhuguð tilraun getur ekki með neinum hætti dregið úr ábyrgð þeirra, sem staðið hafa að vatnsveitingum á fyrri tímum. Jafnframt setur sveitarstjórn þau skilyrði að Umhverfisráðuneytið standi fjárhagslega að baki tilrauninni bæði hvað varðar framkvæmdina sjálfa sem og skaðleysi hreppsins vegna hugsanlegra bótakrafna frá hagsmunaaðilum, enda fylgi sveitarstjórn fyrirliggjandi fyrirmælum um framkvæmd tilraunarinnar.“

         Stefndi kveðst hafa sent umhverfisráðherra afrit af bréfinu ásamt svohljóðandi texta: „Meðfylgjandi sendist yður bréf vort til Skipulagsstofnunar dagsett 25.08.2000. Athygli yðar er vakin á kröfu vorri til skaðleysis, komi til eftirmála af hálfu einhverra aðila síðar vegna þáttar hreppsins í þessu verkefni. Með væntanlegu „tilraunaleyfi“ ráðuneytisins lítum vér svo á að krafa vor að þessu leyti sé samþykkt, enda fylgi sveitarstjórn fyrirliggjandi fyrirmælum um framkvæmd tilraunarinnar.“

         Stefndi vísar enn fremur til þess að í bréfi til fyrirsvarsmanns stefnenda, dags. 11. september 2000, sem hafi innihaldið ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Árkvíslar. Þar hafi m.a. verið upplýst um skilyrði hreppsins um fjármögnun meðstefnda, íslenska ríkisins, og „skaðleysi hreppsins vegna hugsanlegra bótakrafna frá hagsmunaaðilum“. Væri hlutverk hreppsins að „tryggja lögformlega þætti framkvæmdarinnar skv. vatnalögum, skipulags- og byggingarlögum og náttúrverndarlögum og taka ákvarðanir um hvenær opna skuli og loka röri í stíflugarðinum við Árkvísla í samræmi við fyrirliggjandi tillögur um vatnsstýringu“.

         Af hálfu stefnda er á því byggt að framkvæmdin sem um ræði hafi að öllu leyti verið á ábyrgð ríkisins. Til marks um það nægi að nefna að á fundi sínum 30. júní 1998 hafi ríkisstjórnin samþykkt að stofnuð yrði nefnd til þess að fjalla um vatnsbúskap lækja í Landbroti, m.a. Tungulækjar og Grenlækjar, og aðgerðir til þess að sporna við þeim vatnsskorti sem þar hefði gætt og breytinga á rennsli Skaftár til þess að auka vatnsmagn lækjanna í Landbroti. Að sama skapi hafi ríkisstjórnin ákveðið á fundi sínum 11. júní 1999 að veita 5,8 milljónum króna til framkvæmdanna. Þá hafi forsætisráðuneytið úrskurðað að framkvæmdirnar heyrðu undir tvö ráðuneyti, landbúnaðar- og umhverfisráðuneyti. Í leyfi sem stefnda hafi verið veitt vegna framkvæmdanna segi að það sé bundið því skilyrði að leyfishafi vakti svæðið og hafi um það samráð við Náttúrvernd ríkisins, Landgræðsluna og Veiðimálastofnun. Um stöðu stefnda sem framkvæmdaaðila sé ekki fjallað frekar í leyfinu. Þar sem ekki hafi fengist fjármagn frá ríkisvaldinu hafi stefnda reynst ókleift að sinni þeirri vöktunarskyldu sem á honum hafi hvílt samkvæmt leyfinu.

         Nánar kveðst stefndi byggja á því að eina aðkoma hreppsins að framkvæmdinni hafi verið að starfsmenn hans hafi séð um að þriðja rörið í fyrirhleðslu við Árkvíslar yrði opnað og því lokað á tilteknum tímum ársins. Um frekari afskipti stefnda hafi ekki verið að ræða af framkvæmdinni. Staða hans sem framkvæmdaraðili hafi því fyrst og fremst verið táknræn. Í því sambandi leggur stefndi áherslu á að samkvæmt þeirri stöðu hafi hreppurinn hvorki haft sjálfstæðan ákvörðunarrétt um afmarkaða þætti framkvæmdarinnar né vald til þess að kveða á um réttindi eða skyldur hagsmunaaðila. Það hafi verið í höndum Skipulagsstofnunar. Með öðrum orðum, forræði sem og ákvörðunarvald vegna framkvæmdarinnar hafi verið í höndum ríkisins. Af því leiði að stefnendur geti einungis beint dómkröfum að stefnda, íslenska ríkinu, í málinu. Stefndi geti ekki átt aðild að málinu varnarmegin. Um aðildarskort sé að ræða sem leiði til þess að sýkna beri stefnda af öllum dómkröfum stefnenda.

         Til viðbótar byggir stefndi á því að ósannað sé að hann hafi valdið stefnendum tjóni í skilningi sakarreglunnar. Þar sem skilyrði reglunnar séu ekki uppfyllt í málinu beri að sýkna hann af öllum dómkröfum stefnenda.

         Stefndi kveður skaðabótakröfu stefnenda á hendur stefnda grundvallast á almennum reglum um skaðabætur innan samninga, þ.e. almennu sakareglunni. Til þess að bótaskylda stofnist á grundvelli reglunnar þurfi öll skilyrði hennar að vera uppfyllt. Þannig þurfi tjónþoli að sýna fram á að hegðun hafi verið saknæm, auk þess sem hann þurfi að færa sönnur á orsakasamhengi milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsins. Þá þurfi tjónþoli einnig að sanna tjónið og sýna fram á umfang og eðli þess.

         Stefndi kveður stefnendur lýsa bótagrundvellinum í stefnu svo að aðgerðir sem opinberir aðilar hafi staðið fyrir hafi leitt til vatnsþurrðar og röskunar á lífríki í Grenlæk sem aftur hafi leitt til fjárhagslegs tjóns þeirra. Um hafi verið að ræða saknæmar og ólögmætar framkvæmdir sem hafi falist í byggingu stíflugarða sem hafi heft náttúrulegt flæði vatns fram Eldhraunið. Máli sínu til stuðnings vísi stefnendur til matsgerðar Vífils Oddssonar og Stefáns Óla Steingrímssonar.

         Stefndi kveður málatilbúnað stefnenda á hendur stefnda vera um margt óskýran í stefnu. Þannig hljóði dómkrafa á hendur honum svo, að viðurkennd verði bótaskylda sveitarfélagsins vegna lokunar Árkvísla (Brests) í Eldhrauni með stíflugarði sem hefti náttúrlegt flæði vatns fram Eldhraunið. Rökstuðningur fyrir bótaskyldu sé hins vegar sá að stefndi hafi tekið að sér að vera framkvæmdaraðili að tilraunaaðgerðum við stýringu vatnsrennslis við Árkvíslar frá 2000 til 2004 og hafi honum, ef málatilbúnaður stefnenda verður skilinn með réttum hætti, borið lagaskylda til þess að fjarlægja stíflugarð að loknu tilraunartímabilinu.

         Í tilefni af þessum málatilbúnaði stefnenda telur stefndi rétt að árétta að í kjölfar vatnsþurrðar í Grenlæk vorið 1998 hafi hreppurinn fengið því framgengt að fyrirhleðslur, sem byggðar voru árið 1992 við útfall Árkvíslar, yrðu rofnar. Framkvæmdin, sem hafi falist í því að tvö rör voru fjarlægð úr varnargarðinum, hafi verið unnin af Vegagerðinni 15. og 16. júní 1998 í samráði við Landgræðslu ríkisins og stefnda.

         Stefndi vill einnig taka fram í þessu sambandi að 14. nóvember 2000 hafi tilraunaaðgerð formlega hafist við stýringu vatnrennslis Árkvísla. Hafi tilraunin falist í því að Vegagerðin hafi komið fyrir þremur rörum, þar af einu með lokubúnaði, í varnargarð sem fyrir var. Vatni hafi síðan verið hleypt á mannvirkin 21. sama mánaðar. Stefndi leggur áherslu á að sveitarstjórn stefnda hafi verið einhuga um að umrædd tilraun yrði framkvæmd. Til þess að greiða fyrir framgangi málsins hafi stefndi fallist á að vera formlegur framkvæmdaraðili. Upplýst sé í málinu að meðan tilraunin stóð næstu fjögur ár hafi einu röri verið lokað 20. júní ár hvert og opnað aftur 20. október ár hvert. Í bréfi stefnda til Skipulagsstofnunar, dags. 14. september 2004, komi m.a. fram að upphaflegt fyrirkomulag stýringarinnar hafi gengið eftir í einu og öllu. Stýribúnaður hafi virkað mjög vel og sýni að rekstrarkostnaður vatnsstýringar þurfi ekki að vera mikill sé vandað vel til stýrimannvirkja. Þá segi í bréfinu að sveitarstjórn stefnda hafi á tímabilinu ekki borist nein athugasemd um málið, hvorki óformlega né formlega, og því megi segja að friður hafi ríkt um málið. Í niðurlagi bréfsins taki sveitarstjórn stefnda fram að hreppurinn líti svo á að frumkvæði málsins sé á hendi ráðuneytanna tveggja sem hafi veitt leyfið. Jafnframt að yrði engin ákvörðun tekin fyrir 20. október 2004 myndi sveitarstjórn tilkynna Vegagerðinni að tilraunatímabilinu væri lokið og að sveitarstjórn bæri ekki ábyrgð á ákvörðunum um stýringu búnaðarins. Myndi staðan við útfall Árkvísla þá vera á þann veg að tvö rör stæðu opin en eitt lokað.

         Af hálfu stefnda er á því byggt að þrátt fyrir að hann hafi tekið að sér að vera framkvæmdaraðili með vatnsstýringunni árin 2000-2004 sé ekkert komið fram í málinu um að hann hafi sem slíkur valdið stefnendum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Engin gögn í málinu styðji það. Einu umfjöllunina um afleiðingar framkvæmdarinnar og áhrif hennar á vatnsrennsli Grenlækjar í málatilbúnaði stefnenda sé að finna neðarlega á bls. 9 í matsgerð þeirra Vífils og Stefáns Óla. Þar segi orðrétt: „Eftir vatnsþurrðina var varnargarðurinn fjarlægður, en byggður aftur árið 2000 með þremur 2 m rörum, þar sem kanna átti áhrif þess að hafa 3 rör opin að vetrarlagi, en 2 að sumarlagi þegar Skaftárhlaup eru líklegri (Mynd 5.2). Takmarkaðar rannsóknir virðast þó hafa farið fram á þessu tímabili, og er áveitum við Árkvíslar hátttað á svipaðan hátt í dag, án þess að raunverulega sé vitað sé hvort þær nægi til að viðhalda vatnsrennsli í Grenlæk og nálægum ám til lengri tíma; tíðir þurrkar á efri hluta Grenlækjar undanfarin ár benda til þess að það sé ekki raunin þar.“

         Lengra nái rökstuðningur stefnenda ekki. Stefndi kveður rökstuðning þennan vera í senn ósannfærandi og haldlausan.

         Á því er einnig byggt að ósannað sé að veiting vetrarvatns úr Skaftá út á Eldhraun með tímabundinni rennslisstýringu um svokallað „þriðja rörið“ tímabilið 2000-2004 hafi leitt til tjóns fyrir stefnendur. Að sama skapi hafi stefnendur ekki sýnt fram á orsakasamhengi milli hins meinta tjóns og stýringarinnar.

         Raunar telur stefndi að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að framkvæmd vegna rennslisstýringar, sem hafi lokið 13. nóvember 2004, hafi skilað tilætluðum árangri, þ.e. tryggt lágmarksrennsli í Grenlæk. Í því sambandi vísar stefndi m.a. til bréfs stefnda til Skipulagsstofnunar, dags. 14. september 2004, þar sem fram komi að sveitarstjórn hafi á tímabilinu ekki borist nein athugasemd um málið. Þá vísar stefndi þessu til stuðnings til bréfs Þórarins Bjarnasonar, Þykkvabæ I, o.fl., dags. 17. mars 2005, sem ber yfirskriftina „Tilkynning vegna vatnsstjórnunar við Árkvíslar í Skaftárhreppi“. Í bréfinu komi fram að á tilraunatímanum hafi vatnsstaða og rennsli Grenlækjar og Eldvatns aldrei farið „niður fyrir þau mörk að lífríki lækjanna væri stefnt í hættu“. Einnig komi þar fram að neysluvatn og vatn til raforkuframleiðslu heimarafstöðva hafi verið nægjanlegt á þessum tíma. Loks beri að nefna bréf Magnúsar Jóhannssonar fiskifræðings til Skipulagsstofnunar, dags. 18. mars 2005, en hann kveðst hafa ritað bréfið að beiðni Erlendar Björnssonar fyrirsvarsmanns stefnenda. Þar segir að á tilraunatímanum, þegar öll þrjú rörin voru opin að vetrarlagi og tvö að sumarlagi hafi vatn í upptakalindum Grenlækjar aldrei þrotið.

         Af öllu framansögðu telur stefndi ekki óvarlegt að slá því föstu að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir tjóni, þaðan af síður að stefndi hafi valdið þeim tjóni. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnenda.

         Stefndi mótmælir enn fremur staðhæfingu stefnenda um að stefnda hafi borið lagaskylda til að fjarlægja stíflugarð að loknu tilraunatímabili árið 2004. Leyfi fyrir framkvæmdum við Árkvíslar hafi verið á forræði tveggja ráðuneyta, annars vegar umhverfisráðuneytis og hins vegar landbúnaðarráðuneytis. Eiginleg útfærsla framkvæmdarinnar, þ.e. frágangur röra í stíflugarð, hafi síðan verið í höndum Vegagerðarinnar. Þeir einir sem hafi haft ákvörðunarvald um framkvæmdina og veitt fé til hennar, þ.e. komu tilraunarástandinu á, séu til þess bærir að aflétta því ástandi, eftir atvikum með því að fjarlægja einstök rör eða ryðja burt stíflugarðinum. Slíkt vald hafi stefndi ekki að lögum. Kröfu stefnenda um athafnarskyldu stefnda skorti því lagagrundvöll.

         Um lagarök vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar, einkum almennu sakareglunnar. Um aðildarskort vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Um málskostnað vísar hann til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.

 

IV

         Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tiltekin mannvirki sem reist hafa verið á vatnasviði Skaftár, hafi haft þau áhrif á grunnvatnsborð í og undir Eldhrauni að dregið hafi úr vatnsrennsli í Grenlæk, sem rennur undan hrauninu, þannig að veiði sjóbirtings í vatnsfallinu hafi minnkað. Dómkröfur stefnenda beinast í fyrsta lagi að mannvirki sem er við útfall Árkvísla úr Skaftá, sem lýst er í kafla II. Í öðru lagi lúta þær að varnargarði sem liggur samhliða þjóðvegi 1 að norðanverðu frá brúnni yfir Brest og austur fyrir ræsi undir þjóðveginn þar sem heitir Litli-Brestur. Stefnendur gera aftur á móti engar athugasemdir við önnur mannvirki á þessum slóðum sem áhrif hafa á rennsli vatna á vatnasviði Skaftár, þ. á m. varnargarða sunnan Árhóls, varnargarð sem Vegagerðin reisti 1963 vestan við Árkvíslar og garð við Skálarál sem beinir vatni þaðan inn á Eldhraunið.

         Stefnendur krefjast viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnenda vegna þess veiðitjóns sem þeir telja að hafi hlotist af framangreindum tveimur mannvirkjum. Í samræmi við almennar reglur bera þeir sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðum skaðabótaábyrgðar stefndu séu fyrir hendi. Þannig verða stefnendur að sýna fram á sök stefndu eða að efnisleg skilyrði hlutlægrar bótareglu séu fyrir hendi, sem og að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni og að orsakatengsl séu milli annars vegar tjóns stefnenda og hins vegar þeirra athafna eða athafnaleysis stefndu sem stefnandi reisir bótaábyrgð stefndu á. Fær dómurinn ekki séð að efni sé til þess að víkja að einhverju leyti frá kröfum um að stefnendur færi sönnur á að skilyrðum bótaskyldu stefndu sé fullnægt.

         Í stefnu er ekki vísað með afdráttarlausum hætti til bótareglna í vatnalögum nr. 15/1923, sbr. einkum 136. gr. laganna, eins og það ákvæði hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 132/2011, sbr. nú 141. gr. vatnalaga, en tjónsatvik eiga einkum að hafa orðið fyrir gildistöku síðargreindu laganna. Þar er þó vísað til 7. gr. vatnalaga og almennt til ákvæða laganna. Allt til 30. september 2011, er framangreind lagabreyting tók gildi, var í 1. mgr. 136. gr. vatnalaga kveðið á um að sá sem framkvæmi eða láti framkvæma verk án leyfis eða samþykkis samkvæmt lögunum skuli ábyrgjast allt tjón sem hlýst af verkinu, enda þótt ekki sé um að kenna göllum eða misfellum á verkinu eða gáleysi hans eða manna hans. Af hálfu stefnenda er þó ljóslega á því byggt að umræddar framkvæmdir við varnargarð við þjóðveginn hafi farið fram án tilskilinna leyfa og að það leiði til bótaskyldu. Enn fremur er á því byggt að ekki hafi legið fyrir leyfi fyrir varnargarðinum við útfallið í Árkvíslar frá 1992 til 1998 og á tímabilinu frá 2004 til dagsins í dag. Málatilbúnaður stefnanda í stefnu skírskotar því til efnislegra skilyrða 136. gr. vatnalaga og verður að meta síðar til komna vísun stefnenda til ákvæðisins sem lagarök sem heimilt er að tefla fram á seinni stigum málsins.

         Í vatnalögum nr. 15/1923 eru almenn ákvæði um vatnsréttindi og rennsli vatna. Í 7. gr. laganna er kveðið á um þá almennu meginreglu að vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er óheimilt, nema að sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess, að breyta vatnsbotni, straumstefnu eða vatnsmagni, hvort sem það er gert að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, sem og að hækka eða lækka vatnsborð. Í 8. gr. laganna er jafnframt veitt heimild til þess að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag ef hann hefur breyst án þess að það hafi gerst af mannavöldum. Í 3. mgr. þessa ákvæðis kemur fram að hafi sama ástand haldist í 20 ár eða lengur skuli um það fara svo sem það hefði að fornu fari verið svo. Af samhengi 7. og 8. gr. laganna verður ráðið að þessi regla 3. mgr. 8. gr. laganna eigi einungis við þegar vatnsfall hefur breytt farvegi sínum án þess að rekja megi það til aðgerða mannsins.

         Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, hefur komið fram að varnargarðurinn með fram þjóðvegi 1, sem stefnendur telja að hefti rennsli Árkvísla í Eldhraunið, hafi verið reistur á níunda áratug síðustu aldar vegna ágangs Árkvísla við Brest. Tilgangur varnargarðsins hafi verið að verja veginn skemmdum í vatnavöxtum. Við skoðun á vettvangi kom í ljós að umræddur varnargarður er sandorpinn og fremur lágur ruðningur meðfram veginum sem liggur u.þ.b. 50 metrum frá miðlínu hans.

         Í málatilbúnaði stefnenda í stefnu er áhrifum varnargarðsins á grunnvatnsborð í Eldhrauni ekki lýst á annan veg en með því að vitna í bréf fyrirsvarsmanns stefnenda, Erlends Björnssonar, þar sem því er haldið fram að garðurinn hafi skert „náttúrulegt rennsli fram Eldhraunið“ og að mikill aur hafi safnast fyrir ofan við garðinn. Í Skaftárhlaupum hafi skarði í garðinum verið lokað sem hafi aukið enn frekar uppsöfnun framburðar ofan garðsins. Þar er því haldið fram að vatnið sem fari „fram hraunið“ leiti „austar og jafnvel norður í átt að Skaftá aftur“.

         Af gögnum málsins og við skoðun á vettvangi má ráða að mestum hluta vatnsins í Árkvíslum er beint með varnargarði, sem reistur var árið 1963 vestan við vatnsfallið, undir brú á þjóðvegi 1 við Brest. Þessi meginkvísl Árkvísla rennur í nokkuð ákveðnum farvegi og virðist hverfa ofan í hraunið norðan Fljótsbotns, eins og lýst er í kafla II. Hluti vatnsins í Árkvíslum virðist renna í nokkrum kvíslum í austurátt út á Blöðku norðan varnargarðsins og kemur hann í veg fyrir að hluti þessa vatns leggist að vegfyllingu þjóðvegarins, a.m.k. í vatnavöxtum. Ef varnargarðsins nyti ekki við er ljóst að vegurinn myndi hindra rennsli vatnsins suður í hraunið með svipuðum hætti og varnargarðurinn. Eins og getið er um í skýrslu Veðurstofu Íslands 2015, sem vikið er að í kafla II, virðist meira vatn renna út á Blöðkuna en áður sökum aursöfnunar á þessu svæði, en minna renna undir brúna. Þá sé Litli-Brestur nú orðinn sandorpinn og því leiti þetta vatn í auknum mæli austar þegar mikið er í Skaftá síðsumars. Þetta vatn fari hins vegar allt niður í hraunið að lokum. Ætla verður að það eigi við hvort sem vatnið sígur í jörð norðan þjóðvegarins eða rennur um ræsi undir þjóðveginum um Litla-Brest.

         Ekki hafa verið færðar sönnur á þá staðhæfingu að vegna aursöfnunar við varnargarðinn renni vatn úr Árkvíslum til baka norður í Skaftá. Þá liggja ekki fyrir vísindalegar rannsóknir á vatnafari svæðisins eða mat sérfróðra matsmanna sem dómkvaddir hafa verið til verksins sem styðja þá ályktun að varnargarðurinn með fram þjóðveginum dragi úr írennsli í grunnvatn í hraununum. Þegar jafnframt er litið til þess sem að framan er rakið um aðstæður á þessu svæði er ekki efni til þess að fallast á þennan málatilbúnað stefnenda. Verður dómur um þetta atriði ekki reistur á getgátum aðila í þá veru og ber því að hafna kröfum stefnenda sem að þessu lúta.

         Í kafla II er vikið að því að upptök Árkvísla við útfallið úr Skaftá hafi verið á þeim stað þar sem það er nú að minnsta kosti frá miðri 20. öld. Þar er einnig vikið að einstökum framkvæmdum sem þar hafa átt sér stað frá ofanverðri 20. öld og fram til dagsins í dag. Eftir þessar framkvæmdir er ljóst að útfall þetta er ekki lengur það sem kalla má náttúrulegt. Eins og lýst er í skýrslu Veðurstofu Íslands frá 2015, og ráða má af meðfylgjandi loftmyndum og öðrum gögnum málsins, eru aðstæður þar núna þannig að grafinn hefur verið nokkurra tuga metra langur aðveituskurður nánast hornrétt úr aðalfarvegi Skaftár að veitumannvirki, sem af hálfu stefnanda er nefnt stíflugarður. Þrjú rör eru nú í garði þessum og rennur vatn úr aðveituskurðinum ávallt um tvö þeirra og um það þriðja þegar það er opið.

         Heimildir geta þess að framkvæmdir, sem miðuðu að því að auka rennsli í Árkvíslar, hafi farið fram á þessum stað í kringum 1980. Þær vísbendingar gefa þó ekki tilefni til ályktana um sakarefni þessa máls, en engan veginn er hægt að segja til um umfang þeirra eða áhrif á vatnafar á þessum slóðum. Aðilar eru hins vegar sammála um að veitumannvirkið eða stíflugarðurinn, sem vikið var að hér að framan, hafi risið í október 1992, þó að einhver gögn gefi til kynna að ári áður hafi útfallið verið þrengt. Eins og þegar hefur verið lýst var garðurinn í fyrstu með einu röri, sem var tveir metrar í þvermál. Ágreiningslaust er að þetta rör var lækkað í garðinum vorið 1993 og að öðru röri hafi verið bætt við hann árið 1997.

         Ávallt hefur því runnið vatn í Árkvíslar úr Skaftá eftir að garðurinn var reistur nema þegar  framburður Skaftár og náttúrulegar breytingar á rennsli árinnar kunna að hafa hindrað það. Miðað við framlögð gögn verður að ætla að þessu mannvirki hafi upphaflega verið ætlað að draga úr rennsli í Árkvíslar þannig að vatnságangur í Eldhrauni minnkaði og koma þannig í veg fyrir gróðureyðingu á þessum slóðum. Ekki liggja fyrir upplýsingar í gögnum málsins um að þurrð hafi orðið í Grenlæk eða öðrum lækjum sem renna undan hraununum meðan aðeins eitt rör var í garðinum. Ekki er getið um að slíkt ástand hafi skapast fyrr en vorið 1998, en þá rann vatn um tvö rör í Árkvíslar.

         Framkvæmdir þessar, sem fóru fram á tímabilinu 1991 til 1997, féllu undir a- og b-lið 2. mgr. 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923, eins og það ákvæði hljóðaði á þeim tíma sem þær áttu sér stað. Eins og áður segir var þar kveðið á um að bannað væri, nema með sérstakri heimild eða lagaleyfi, að breyta m.a. straumstefnu eða vatnsmagni, hækka eða lækka vatnsborð sem og að gera mannvirki í vatni eða yfir því. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að framkvæmdirnar hafi farið fram á grundvelli þágildandi laga nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, en samkvæmt 2. gr. laganna skyldu matsnefndir, skipaðar fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Vegagerðar ríkisins, semja álitsgerð um nauðsynlegar varnarframkvæmdir á grundvelli laganna. Ekki verður heldur séð að leitað hafi verið leyfis fyrir þessum framkvæmdum samkvæmt þágildandi 133. gr. vatnalaga, en þar var kveðið á um að leita þyrfti leyfis ráðherra ef gera átti mannvirki eða vinna önnur verk sem myndu valda breytingu á vatnsborði, straumstefnu eða straummagni, nema sýnt væri að ekki hlytist af hætta, tjón eða óhagræði samkvæmt 131. gr. vatnalaga.

         Eins og rakið er í kafla II var garðurinn við útfallið í Árkvíslar fjarlægður í júní 1998 eftir að þurrkur á fyrri hluta ársins hafði komið hart niður á rennsli í Grenlæk og í öðrum lækjum sem runnu undan Eldhrauni. Vatn mun því hafa runnið óhindrað um aðrennslisskurðinn úr Skaftá í Árkvíslar og um Brest í rúmlega tvö ár. Nýr garður var reistur að því er virðist á sama stað og eldri garðurinn í nóvember 2000 að fengnu leyfi umhverfis- og landbúnaðarráðherra samkvæmt umsókn stefnda Skaftárhrepps á grundvelli a-liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 144. gr. vatnalaga. Eins og lýst er í kafla II var með því veitt leyfi til að reisa „jarðstíflu við útfallið“ með þremur rörum sem hvert var tveir metrar í þvermál. Í leyfinu kemur fram að umrædd framkvæmd væri tilraun til stjórnunar rennslis vatns um Árkvíslar til fjögurra ára. Í samræmi við það var eitt af þessum rörum með lokubúnaði og sá stefndi Skaftárhreppur um að rörið væri lokað yfir sumarmánuðina á tilraunatímabilinu 2000 til 2004, eins og nánar er lýst í kafla II. Þar er einnig gerð grein fyrir aðdraganda leyfisveitingarinnar sem og framkvæmdunum í nóvember 2000.

         Hvorki í leyfinu né öðrum gögnum málsins er lutu að umræddri framkvæmd var vikið að því hvernig færi um jarðstífluna þegar tilraunatímabilinu lyki. Aftur á móti liggur fyrir að Skipulagsstofnun rökstuddi niðurstöðu sína, um að umfang og eðli framkvæmdanna væri ekki með þeim hætti að líkur væru á því að þær hefðu umtalsverð umhverfisáhrif, m.a. með tilliti til þess að þær væru tímabundnar. Í kafla II er vikið að samskiptum ýmissa stjórnvalda árið 2004 þar sem leitast var við að skilgreina svokallaða „núllstöðu“ við útfallið í Árkvíslar að loknu tilraunatímabilinu. Þar var því m.a. velt upp hvort fjarlægja bæri stíflumannvirkið. Þó að ekki væri tekin um það skrifleg ákvörðun er ljóst af bréfi umhverfisráðuneytisins 8. desember 2004, sbr. enn fremur bréf Skipulagsstofnunar til stefnda Skaftárhrepps 1. október 2004, að ákveðið hafi verið að tvö rör stæðu opin en að þriðja rörið væri lokað. Allar breytingar frá þeirri tilhögun áttu að vera tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem segja átti til um hvort framkvæmdin kallaði á mat á umhverfisáhrifum. Síðan þá og allt til ársins 2012 hefur Skipulagsstofnun verið tilkynnt um það þegar opnað hefur verið fyrir þriðja rörið tímabundið án þess að stofnunin hafi talið að meta þyrfti umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Í kafla II er atvikum eftir 2012 lýst í nokkrum orðum, þ. á m. aðkomu Orkustofnunar að málinu.

         Miðað við framlögð gögn virðist ákvörðun um að jarðstíflan skyldi standa áfram og tvö rör af þremur vera að jafnaði opin nema annað yrði ákveðið, hafa verið tekin af Skipulagsstofnun en með samþykki bæði umhverfis- og landbúnaðarráðuneytisins. Eins og áður segir veittu ráðherrar þessara ráðuneyta upphaflega leyfi til framkvæmdanna á grundvelli vatnalaga og báru allt til 2011 stjórnskipunarlega ábyrgð á leyfisveitingum samkvæmt þeim lögum. Í þessu ljósi telur dómurinn að í reynd hafi, á grundvelli leyfisins árið 2000, komist á varanlegt ástand um tilhögun vatnsveitinga um útfallið í Árkvíslar, þó að upphaflega hafi verið við það miðað að um tímabundna tilraun væri að ræða. Verður því ekki séð að stefndu hafi verið skylt að lögum að fjarlægja jarðstífluna í nóvember 2004 á þeim grunni að leyfið frá 2000 væri útrunnið, eins og stefnendur virðast leggja til grundvallar.

         Stefnendur líta svo á að stíflugarðurinn frá 1992 til 1998 við útfallið í Árkvíslar og jarðstíflan sem þar hefur verið frá árinu 2000 séu í reynd sama framkvæmdin. Hafi þetta mannvirki dregið svo mjög úr rennsli vatns í Árkvíslar að áhrif hafi á grunnvatnsborð í Eldhrauni með þeim afleiðingum að þurrð verði reglulega í efstu lindum Grenlækjar. Það komi síðan niður á uppeldisskilyrðum bleikju- og urriðaseiða í ánni.

         Eins og áður segir hvílir sönnunarbyrðin á stefnendum um að orsakasamband sé milli jarðstíflunnar við útfallið í Árkvíslar og veiðitjóns í Grenlæk. Svo unnt sé að fallast á að orsakasamband sé til staðar þarf í fyrsta lagi að færa sönnur á að rennsli í Árkvíslar sé minna en verið hefði ef mannvirki þessi hefðu ekki risið og náttúran hefði fengið að fara sínu fram án afskipta mannsins. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir að dregið hafi úr rennsli grunnvatns til efstu linda Grenlækjar sökum þess að minna vatn renni nú í Árkvíslar. Í því efni verður að huga að uppruna vatnsins í upptökum Grenlækjar og hvernig grunnvatn streymi til lindanna sem renna undan norðausturhluta Eldhrauns. Í þriðja lagi verður að sýna fram á að minna vatnsrennsli til upptaka Grenlækjar hafi haft skaðleg áhrif á uppvöxt seiða í Grenlæk. Í fjórða lagi verða stefnendur að sanna að þessi skaðlegu áhrif hafi dregið úr veiði í Grenlæk og valdið stefnendum tjóni.

         Áður en hugað verður að því hvort stefnendur hafi fært viðhlítandi sönnur á þessi atriði er rétt að benda á að umhverfið á þessum slóðum breytist stöðugt ár frá ári án tillits til athafna mannsins. Þar skiptir framburður Skaftár afar miklu, en eins og áður segir hlaða jökulár undir sig aur þar sem halli landsins minnkar. Eins og vikið er að í kafla II á þessi þróun sér m.a. stað á vatnasviði Árkvísla á Blöðkunni og sunnan við hana þar sem sandur hleðst upp í hrauninu. Eftir því sem stærra svæði hefur orðið sandorpið og hraunið hefur náð að þéttast virðist vatnsfallið hafa náð að renna lengra suður í hraunið. Hlaupvatn Skaftár ber með sér margfalt meira af jarðefnum en hefðbundin sumarbráð. Fái hlaupvatn og sumarvatn að flæða óhindrað um þetta svæði hraðar það uppbyggingu aurkeilunnar í hrauninu sem hindrar óhjákvæmilega leka niður í grunnvatnið. Miðað við þessar forsendur kemur Skaftá að lokum til með að flæmast um aura í átt til sjávar þar sem áður var gróið hraun með þeim afleiðingum að lindavatnið hverfur með öllu.

         Annar eiginleiki straumvatns kann að vega upp á móti þessari þróun. Eins og áður segir rennur Skaftá í tveimur meginkvíslum vestan og norðan við Eldhraun þar sem straumþungi er á köflum þó nokkur. Það á m.a. við á þeim slóðum þar sem Árkvíslar renna úr Skaftá og þar fyrir austan, eins og glögglega mátti sjá í vettvangsferð. Ekki er útilokað að Skaftá grafi sig niður í farveginum og þétti jafnframt bakka sína og önnur áflæðisvæði með aurframburði. Þessi eiginleiki jökulvatnsins vinnur gegn því að vatnið flæði út á hraunið. Við það ætti lindarrennsli í Grenlæk og öðrum svokölluðum yfirfallslindum sem renna undan Eldhrauni að minnka að því marki sem þær eru háðar leka úr Skaftá.

         Í tengslum við umfjöllun um ætluð áhrif stíflugarðsins og veitumannvirkjanna í Árkvíslum á rennsli í efstu lindum Grenlækjar verður einnig að huga að uppruna lindavatnsins sem þar rennur. Rannsóknir Freysteins Sigurðssonar frá 10. áratug síðustu aldar, sem gerð er grein fyrir í skýrslunni, „Lindir í Landbroti og Meðallandi. Uppruni lindavatnsins“, gefa til kynna að úrkoma á hraunin (um 300 km²) skili líklega um 12 m³/s af öllu lindavatni sem undan því rennur, eða um 30% af því. Um helming alls lindavatnsins, eða 20 til 21 m³/s, rekur Freysteinn til ketilvatns sem berst neðanjarðar eftir gömlum farvegi Skaftár. Minnsta hluta lindavatnsins, eða um 9 til 10 m³/s, er hins vegar hægt að rekja til lekavatns úr Skaftá, Skaftárhlaupa og íveitu í hraunin, eða um 20 til 25% af öllu lindavatninu. Hann tekur fram að þegar „íveitur í hraunin voru mestar“ á árunum 1980 til 1992 geti „meðaltalsvatnsmegin þessa þáttar hafa numið um eða yfir 15 til 20 m³/s sum árin“, en allt væri það þó háð mikilli óvissu þar sem mælingar skorti frá þeim tíma.

         Í skýrslu sinni um uppruna lindavatnsins gerir Freysteinn síðan grein fyrir niðurstöðum upprunaþáttagreiningar á einstökum lindum. Um efstu drög Grenlækjar segir hann að þáttur úrkomu sé mjög lítill, nema í vetrarblotum og vorleysingum. Rúmlega helming lindavatnsins þar megi hins vegar rekja til vatns úr Skaftá en tæplega helming vatnsins í efstu lindum Grenlækjar rekur hann til ketilvatns. Kvað hann sumar- og hlaupvatn vera e.t.v. um 2/3 Skaftárvatnsins í þessum lindum að sumarlagi, en að vetrarvatn úr Skaftá væri þá innan við ¼, en ykist í helming að vetrarlagi. Hann taldi þó að hæð grunnvatnsborðs almennt í hraununum hefði mest áhrif á lindarennslið. Virtist honum sem vatnsmegin í efri hluta Grenlækjar því fyrst og fremst vera yfirfallsvatn úr grunnvatnsbolnum sjálfum. Kvað hann aðrennslissvið helstu upptaka Grenlækjar líklega vera með Skaftá neðan við Skálarstapa, en að það vatn blandaðist ketilvatnsblöndu.

         Af framangreindri umfjöllun má draga þá ályktun að ýmsir ólíkir þættir hafi áhrif á rennsli í efstu lindum Grenlækjar. Sá þáttur sem skipti þó einkum máli er hæð grunnvatnsgeymisins í hraununum. Ætla má að rekja megi mestan hluta vatnsrennslis þar til yfirfallsvatns úr grunnvatnsgeyminum. Því verður að telja að rennsli Grenlækjar sé viðkvæmt fyrir lækkun almennrar grunnvatnsstöðu í hraununum. Þegar grunnvatnsborð lækkar niður fyrir tiltekna hæð yfir sjávarmáli leiða náttúrulegar aðstæður því til þess að þurrð verður í efsta hluta Grenlækjar. Það getur t.d. gerst þegar veður er þurrt og kalt síðla vetrar og fram á vor, eins og dæmi eru um. Neðar í Grenlæk bætist grunnvatn, sem rennur í veitum undan Landbrotshrauni, hins vegar við lindavatnið undan Eldhrauni, eins og bent er á í skýrslu Jónasar Elíassonar frá 1999 sem vikið er að í kafla II.

         Til stuðnings því að framkvæmdir við Árkvíslar hafi valdið tjóni á lífríki Grenlækjar hafa stefnendur lagt fram nokkrar af þeim skýrslum sem vitnað hefur verið til um rannsóknir framangreindra vísindamanna á 10. áratug 20. aldar. Þessar rannsóknir lýsa, eins og fram hefur komið, aðstæðum á vatnasviði Skaftár og áhrifum jökulvatns á lindirnar sem renna undan Eldhrauni. Þar er hins vegar ekki lagt beint mat á áhrif einstakra framkvæmda á lindarrennslið undan hraununum. Í greinargerð Orkustofnunar frá mars 1997, sem stefnendur lögðu fram, er þess þó getið að með því að bera saman gögn um vatnsrennsli Skaftár í Skaftárdal, Skaftár við Kirkjubæjarklaustur og í Tungulæk, skeri rennsli við Kirkjubæjarklaustur sig úr. Þar segir að á öllu tímabilinu frá 1992, þegar stíflumannvirkin voru fyrst reist við Árkvíslar, sé rennsli við Kirkjubæjarklaustur „nokkuð langt fyrir ofan meðallag“ og að það verði að skýra með því að því vatni sem áður rann um Brest hafi verið „veitt austur“. Síðar í greinargerðinni segir enn fremur að greina megi breytingar vegna lokunar veitunnar í Árkvíslar á þann veg að meðalársrennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur hafi aukist úr 35 til 38 m³/sek í 50 m³/sek síðustu fjögur árin. Í skýrslu Jónasar Elíassonar frá 1999 er lagt út af sömu upplýsingum og virðist hann telja að rennslisaukningin svari til þess sem bæst hefði við grunnvatnið í hraununum ef ekki hefði verið stíflað. 

         Þessi samanburður tekur eðli málsins samkvæmt aðeins til aðstæðna á tímabili þegar rennsli var aðeins um eitt rör í gegnum stíflugarðinn við útfallið í Árkvíslar. Þær segja því ekkert um aðstæður eftir að rörunum var fjölgað í maí 1997, hvað þá eftir að rennslisstýring var tekin upp árið 2000. Að auki byggja þær ekki á samanburði rennslismælinga í Árkvíslum sjálfum. Þannig er ekki skoðað hvort rennsli um rör í stíflugarði hafi skilað minna vatni í Árkvíslar en verið hefði við náttúrulegar aðstæður án inngripa mannsins. Ekki er þar heldur vikið að öðrum mögulegum skýringum á sveiflum í rennsli lindavatnsins. Þá ber að árétta að ekkert liggur fyrir um að þurrð hafi komið fram í lindunum þegar rennsli í Árkvíslar var einungis um eitt rör. Þessar rannsóknir færa að mati dómsins ekki sönnur á þau orsakatengsl sem stefnendur byggja á að séu til staðar.

         Við höfðun málsins lögðu stefnendur enn fremur fram matsgerð Vífils Oddssonar verkfræðings og Stefáns Óla Steingrímssonar fiskavistfræðings til stuðnings því að tjón á lífríki Grenlækjar hefði hlotist af stíflugarðinum í Árkvíslum. Þessarar matsgerðar var aflað einhliða af hálfu stefnenda án þess að stefndu ættu þess kost að gæta hagsmuna sinna og benda á upplýsingar sem þýðingu gætu haft fyrir niðurstöðu hennar.

         Þá fær dómurinn ekki annað séð en að matsmennirnir taki í raun ekki afstöðu til þeirra atriða sem þýðingu hafa við úrlausn á því hvort orsakatengslin séu til staðar. Þar er að vísu komist að þeirri almennu niðurstöðu að áveitan um Árkvíslar og Brest komi að gagni við að halda uppi rennsli í Grenlæk og að rétt sé að hafa öll þrjú rörin opin nema þegar von sé á hlaupum. Þá segir þar að takmarkaðar rannsóknir hafi farið fram á tilraunatímabilinu 2000 til 2004. Sé áveitum við Árkvíslar hagað með svipuðum hætti í dag „án þess að raunverulega sé vitað hvort þær nægi til að viðhalda vatnsrennsli í Grenlæk og nálægum ám til lengri tíma“. Síðan er sú ályktun dregin af tíðum þurrkum í efri hluta Grenlækjar undanfarin ár að áveitan nái ekki að viðhalda vatnsrennslinu í Grenlæk. Í niðurstöðukafla segir síðan að „mannlegar athafnir, og þá sérstaklega bygging varnargarða á vegum opinberra aðila“ hafi dregið úr „náttúrulegu áflæði Skaftár á Eldhraunið“ og þar af leiðandi í Grenlæk „a.m.k. á ákveðnum tímapunktum (t.d. 1998)“. Ekki er þó útskýrt í matsgerðinni við hvaða framkvæmdir er átt eða rökstutt nánar hvernig þær hafi breytt áflæði Skaftár í samanburði við það ef ekkert hefði verið gert. Þar er heldur ekkert fjallað um mögulegar, náttúrulegar ástæður fyrir skertu rennsli sem þeir álíta að hafi orðið í Grenlæk. Sérstaklega var efni til þess að fjalla um það atriði með tilliti til náttúrulegra breytinga á vatnsmiðlun í hraununum vegna þéttingar Eldhrauns á áflæðisvæðum Skaftár.

         Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið verður að komast að þeirri niðurstöðu að umrædd matsgerð hafi lítið sem ekkert sönnunargildi um þau orsakatengsl sem hér eru til umfjöllunar.

         Stefndi, íslenska ríkið, mótmælir málatilbúnaði stefnenda um að stífla við útfallið í Árkvíslar með rörum hafi haft áhrif á rennsli í Grenlæk. Þessu til stuðnings er vísað til álits Veðurstofu Íslands sem stefndi telur að sýni fram á hið gagnstæða. Álit þetta er skýrsla sem er samin af Snorra Zóphóníassyni jarðfræðingi árið 2015 í tilefni af málshöfðun stefnenda og áður hefur verið vikið að. Stefndi telur að þessi skýrsla hafi sönnunargildi í málinu með vísan til 3. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991. Í 1. og 2. mgr. þeirrar greinar er fjallað almennt um skoðunar- og matsgerðir og leitast við að afmarka hlutverk þeirra sem annast gerð þeirra gagnvart skyldum dómara við að leggja mat á atriði sem aðeins krefjast almennrar þekkingar og lagaþekkingar. Síðan segir í 3. mgr. að sé „opinber starfsmaður skipaður í eitt skipti fyrir öll til að meta tiltekin atriði“ geti aðili snúið sér beint til hans ef honum er skylt að framkvæma matið eða hann er fús til þess án dómkvaðningar, enda sé það í verkahring hans.

         Samkvæmt 3. gr. laga nr. 78/2008 er það meðal hlutverka Veðurstofu Íslands að annast almennar kerfisbundnar vatnamælingar, þ.m.t. mælingar á rennsli, vatnshæð, vatnshita, aurburði og öðrum eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum vatns, sem og að vinna að rannsóknum sem hafa það að markmiði m.a. að auka þekkingu á vatnafari. Er stofnuninni ætlað að láta í té upplýsingar um niðurstöðu slíkra rannsókna í þágu atvinnulífs, öryggismála, sjálfbærrar nýtingar auðlinda og annarra þarfa landsmanna. Í þessu ljósi og með hliðsjón af 3. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 ber að ljá framangreindri skýrslu nokkurt vægi við sönnunarmat á áhrifum stíflugarðsins á vatnafar í Eldhrauni.

         Skýrsla Veðurstofunnar tekur ekki afdráttarlausa afstöðu til þess hvaða áhrif jarðstíflan hefur haft að þessu leyti. Þar er hins vegar áréttað að ástæður rennslisbreytinga á þessu svæði séu margslungnar og snúist um fleira en útfallið í Árkvíslar. Þar er einnig bent á að um leið og umhverfið breytist á þessum slóðum breytast forsendur fyrir aðrennsli grunnvatns til lækja sem renna undan Eldhrauni. Í ljósi þess að breytingarnar séu það miklar sé ekki hægt að gera ráð fyrir að lindár, sem háðar séu leka úr Skaftá gegnum hraunið, haldist í sömu hlutföllum vegna áflæðis yfir tíu ára tímabil, hvað þá í fimmtíu ár. Samanburður við eitthvað sem væri ef ekkert hefði verið gert sem hindraði náttúruna í að fara sínu fram væri ekki mögulegur. Í skýrslunni er síðan fjallað um ýmis atriði sem skýrsluhöfundur telur að hafa beri í huga í tengslum við mál þetta.

         Meðal annars er bent á það í skýrslunni að taka verði tillit til þess hversu hratt renni úr grunnvatnsgeyminum í hraununum. Þannig er talið að hlaup, sem t.d. verði í ágúst, breyti engu um grunnvatnsstöðu næsta vor. Kveður skýrsluhöfundur að veðurfar síðla vetrar skipti þá meira máli en hlaupvatnið um þurrð í efstu lindum t.d. Tungulækjar og Grenlækjar að vori.

         Skýrsluhöfundur víkur einnig að túlkun ýmissa aðila á rennslisaukningu í Skaftá við Kirkjubæjarklaustur, sem hafi komið fram þegar rennsli í Árkvíslar hafi verið takmarkað árið 1992. Tekur hann fram að talið hafi verið að þessi aukning samsvaraði skerðingu á flæði í grunnvatnsgeyminn. Telur skýrsluhöfundur að með öflun frekari rennslisgagna og nánari skilnings á staðháttum hafi komið í ljós að þessi skýring feli í sér mikla einföldun. Skoða þurfi hlutina í stærra samhengi sökum þess að miklar breytingar hafi orðið á vatnasviðinu. Skýrsluhöfundur tekur þó fram að þetta sé þó ekki alrangt. Hins vegar verði aukið rennsli við Kirkjubæjarklaustur ekki alfarið rakið til þessa mannvirkis. Þar er athygli vakin á því að meðalrennsli við Skaftárdal hafi einnig aukist að sama skapi sem og rennsli jökuláa um land allt. Þá er á það bent að á árunum 2003 til 2005, þegar rennsli í Árkvíslum hafi verið síritað, hafi að jafnaði runnið 12 til 15 m³/sek út um rörin þrjú alla mánuði. Á sama tíma hafi meðalársrennsli við Kirkjubæjarklaustur þó haldist svipað áfram. Einnig er vísað til þess að hluti af þessu vatni sem runnið hafi út í Árkvíslar hefði ella farið í Stapaál og Skálarál, en þar renni vatn út á hraunin á svæði sem sé mikilvægara fyrir rennsli í efstu lindum Grenlækjar.

         Í skýrslunni er vikið að nýlegum upplýsingum um reiknaða grunnvatnshæð og grunnvatnsstreymi í Landbroti og Meðallandi. Af þeim dregur skýrsluhöfundur þá ályktun að aðal niðurrennsli Brests sunnan við þjóðveg 1 valdi svæðisbundinni hækkun grunnvatns og streymi þaðan niður í Eldvatn í Meðallandi. Segir þar að þessi hluti vatnsins geti numið allt að 80% af útfalli Árkvíslar, en það leiti þá ekki niður í lækina í Landbroti. Eitthvað af vatninu sem renni norðan við bungu á hæðarlínum sem liggi til norðausturs leiti þó í austur og í átt til Grenlækjar.

         Í skýrslunni er sérstaklega vikið að mælingum á rennsli í Árkvíslum áður en og eftir að garðurinn var rofinn 15. og 16. júní 1998. Kemur þar fram að 12. júní 1998 hafi runnið 7,45 m³/sek í gegnum rörin tvö sem þar voru. Tveimur dögum eftir að garðurinn var rofinn hafi rennslið verið svipað eða 7,6 m³/sek. Kveður skýrsluhöfundur að garðurinn hafi því ekki hindrað rennsli á þeim tíma eða við „álíka, minna og jafnvel töluvert meira rennsli“. Síðan segir að rennsli í Grenlæk hafi ekki farið að aukast fyrr en vika var liðin af júlí á sama tíma og rennsli jókst í Skaftá í Skaftárdal.

         Samkvæmt framangreindri skýrslu skiptir rennsli Árkvísla ekki sköpum fyrir rennsli í Grenlæk þegar stór hlaup verða. Bent er á að mikil aurþétting í hrauninu valdi því að hlaupvatnið nái fram að upptökum lækjanna. Tekið er fram að vatnshæð í Tungulæk hafi verið mæld frá júlí 1972 til að fylgjast með stöðu grunnvatns. Bendir skýrsluhöfundur á að þar hafi hámarksrennsli ára hækkað á síðari árum vegna beinna áhrifa af hlaupunum. Enn fremur hafi meðalársrennsli hækkað vegna áveitna og aukins rennslis í Skaftá. Þurrð verði samt „vegna þess hve miðlunin er skammæ bregðist úrkoman“. Samband Grenlækjar við veðurfar og Skaftá sé svo sterkt að áhrif Árkvísla verði ekki „auðveldlega greind þar frá“. Í skýrslunni er síðan birt línurit yfir mánaðarmeðalrennsli Grenlækjar á þeim tíma sem þar hefur verið síritað frá 1995 til 2013. Kveður skýrsluhöfundur ekki unnt að sjá mun á rennsli Grenlækjar á þeim tíma sem engin stífla var í Árkvíslum og stífla var þar með einu röri eða tveimur. Hins vegar sé rennsli Grenlækjar að jafnaði meira eftir að þremur rörum hafi verið komið fyrir í garðinum. Skýrir skýrsluhöfundur það með almennt auknu rennsli Skaftár.

         Stefnendur brugðust ekki við málatilbúnaði stefndu með því að fara fram á dómkvaðningu matsmanna til að afla matsgerðar samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eins og þeir áttu kost á, í því skyni að færa sönnur á staðhæfingar sínar um orsakatengsl milli stíflugarðsins og þurrðar í efstu lindum Grenlækjar. Þess í stað öfluðu þeir gagna um vatnsrennsli í Skaftá í Skaftárdal, í Ása-Eldvatni og við Kirkjubæjarklaustur frá upphafi mælinga. Stefnendur lögðu því næst fram skjal sem ber yfirskriftina „Stutt greining á rennslisgögnum“. Ekki kemur fram í skjalinu hverjir höfundar þess eru, en upplýst var fyrir dómi að verkfræðingurinn Leifur Bjarki Erlendsson og Steinn Orri Erlendsson verkfræðinemi hefðu tekið skjalið saman. Þeir eru synir fyrirsvarsmanns stefnenda, Erlendar Björnssonar.

         Í greinargerð þessari er á það bent að rennsli við Klaustur hafi aukist jafnt og þétt frá 1981 öndvert við rennsli í Skaftárdal og í Ása-Eldvatni sem sé fremur jafnt. Með útreikningum er bent á að mikil fylgni sé milli rennslis við Skaftárdal og í Ása-Eldvatni, en rennsli þar sé að meðaltali 58,2% af rennsli í Skaftárdal. Af þeim sökum sé ekki hægt að halda því fram að ástæða aukins rennslis við Klaustur sé minna rennsli í Ása-Eldvatni. Þá er gerð grein fyrir því hvernig hlutfall rennslis Skaftár við Klaustur af mældu rennsli við Skaftárdal hafi þróast. Bendi línuleg greining til þess að það hlutfall hafi aukist úr um 36% í um 54% á tímabilinu frá 1972 til 2016. Við nánari greiningu eftir tímabilum kemur fram að til ársins 1981 hafi hlutfallið verið stöðugt í kringum 35%. Eftir það virðast verða nokkrar sveiflur í hlutfallinu samkvæmt línuriti sem þar er birt. Það verður mest nálægt 60% um 1995, en eftir það fer hlutfallið lækkandi uns það er ríflega 40% í kringum 2003. Hlutfall þetta virðist samkvæmt greinargerðinni hafa farið hægt vaxandi síðan þá. Allar þessar sveiflur eru síðan raktar til ýmissa framkvæmda, einkum við Árkvíslar.

         Dómurinn telur að þessi greinargerð, önnur gögn sem henni tengjast og skýrsla höfundar hennar fyrir dómi, ásamt öðrum framlögðum gögnum sem áður hefur verið vikið að, færi ekki sönnur á að mannvirki þau sem dómkröfur stefnanda lúta að hafi valdið tjóni á lífríki í Grenlæk. Sönnunargildi greinargerðarinnar er því sama marki brennd og matsgerð Vífils Oddssonar og Stefáns Óla Steingrímssonar að höfundar hennar voru ekki dómkvaddir til þess að framkvæma þetta mat á grundvelli laga um meðferð einkamála, auk þess sem þeir hefðu aldrei getað talist óvilhallir vegna tengsla við fyrirsvarsmann stefnenda. Stefndu áttu auk þess ekki kost á því að gæta hagsmuna sinna við vinnslu gagnanna.

         Efnislega varpar greinargerð þessi heldur ekki ljósi á þau atriði sem taka verður afstöðu til við úrlausn á ætluðu orsakasamhengi. Hvorki þar né í öðrum gögnum málsins er gerð grein fyrir því hvað ætla megi um rennsli um Árkvíslar án afskipta mannsins í samanburði við það rennsli sem varð með þeim rörum sem til staðar hafa verið frá 1992. Þar er heldur ekki, fremur en í öðrum gögnum sem stefnendur hafa lagt fram, að finna greiningu á grunnvatnsstreymi frá niðurrennslissvæðum Árkvísla sem varpar ljósi á hversu ætla má að stór hluti af því vatni renni í átt til upptaka Grenlækjar.

         Dómurinn telur að í máli þessu sé uppi vafi um ástæður vaxandi þurrðar í Grenlæk á síðustu árum samhliða því að meðalrennsli bæði í Grenlæk og Tungulæk hefur vaxið, eins og bent hefur verið á í fyrrgreindri skýrslu Veðurstofu Íslands. Sú skýring sem fram hefur komið er ekki ólíkleg, að vegna aukinnar þéttingar hraunsins sökum aurburðar af náttúrulegum ástæðum hafi rýmd grunnvatnsgeymisins minnkað og að það komi niður á grunnvatnsmiðlun í hraununum. Með sama hætti má ef til vill skýra aukið rennsli Skaftár við Kirkjubæjarklaustur með þéttingu árfarvegarins sem dregur úr leka í grunnvatnið. Sé raunin þessi verða yfirfallslindir á borð við efstu drög Grenlækjar enn þá viðkvæmari en áður fyrir þurrkum yfir lengri tíma. Við því hefur verið brugðist með ákalli um auknar áveitur sem vegna aurburðar geta valdið tjóni ef sumar- og hlaupvatni er veitt á hraunin. Eins og mál þetta liggur fyrir er hins vegar ósannað að hefðu veitumannvirkin ekki risið við útfallið í Árkvíslar væru lífsskilyrði seiða í Grenlæk betri. Mögulega væri staðan önnur og þá hugsanlega verri.

         Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið má ætla að rennsli í Grenlæk ráðist af mismunandi, náttúrulegum þáttum sem ekki er unnt að reikna með að séu í innbyrðis jafnvægi við þær óstöðugu aðstæður sem ríkja á þessu svæði. Ekki hafa verið færðar sönnur á að mannvirki sem dómkröfur stefnenda vísa til hafi haft neikvæð áhrif á þessa þætti þannig að það komi niður á rennsli Grenlækjar á þann veg sem stefnendur byggja á. Af þessari ástæðu verður að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda.

         Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa.

         Dregist hefur fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 að kveða upp dóm í máli þessu. Dómendur og aðilar töldu ekki efni til þess að endurflytja málið.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm í málinu ásamt meðdómsmönnunum Gísla Má Gíslasyni, prófessors í vatnalíffræði, og Sigurði Magnúsi Garðarssyni, prófessors í verkfræði.

D Ó M S O R Ð:

         Stefndu, íslenska ríkið og Skaftárhreppur, eru sýknaðir af kröfum stefnenda, Veiðifélags Grenlækjar og Geila ehf.

         Málskostnaður milli aðila fellur niður.