Ríkisútvarpið sýknað af kröfu um skaða- og miskabætur

07.06.2018

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er varðaði kröfu manns um greiðslu skaða- og miskabóta úr hendi Ríkisútvarpsins ohf. Voru kröfurnar reistar annars vegar á því að hann hefði mátt sæta einelti af hálfu yfirmanns í starfi sínu hjá Ríkisútvarpinu ohf. og hins vegar á því að uppsögn hans úr starfi hefði verið ólögmæt þar sem ekki hefði verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hæstiréttur taldi að hvorki hefði verið sýnt fram á að tiltekin háttsemi þess yfirmanns sem í hlut átti né að þeir ágallar sem voru á meðferð kvörtunar mannsins um einelti hefði falið í sér einelti í skilningi þágildandi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að ágallar á meðferð kvörtunarinnar hefðu haft í för með sér fjártjón fyrir manninn eða að þeir væru þess eðlis að miskabótaábyrgð yrði felld á Ríkisútvarpið ohf. vegna þeirra. Að því er varðaði uppsögn á ráðningarsambandi á milli aðila vísaði Hæstiréttur til þess að um opinber hlutafélög, líkt og Ríkisútvarpið ohf., giltu almennt ekki reglur opinbers starfsmannréttar þótt frá því kynnu að vera undantekningar. Með hliðsjón af því stæðu ekki rök til þess að skýra sérreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 rýmra en leiddi af efni hennar og lögskýringargögnum. Óumdeilt væri að uppsögnin hefði verið vegna aðhaldsaðgerða í rekstri Ríkisútvarpsins ohf. og liður í hópuppsögn af því tilefni. Hefði ekki verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hefðu verið málefnalegar eins og rekstri R ohf. hefði verið háttað. Hefði Ríkisútvarpið ohf. því skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Að þessu virtu var Ríkisútvarpið ohf. sýknað í málinu.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.