Print

Mál nr. 557/2017

Ríkisútvarpið ohf. (Stefán A. Svensson lögmaður)
gegn
Adolf Inga Erlingssyni (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Opinbert hlutafélag
  • Uppsögn
  • Einelti
  • Lögskýring
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
Reifun

A krafði R ohf. um skaða- og miskabætur og reisti kröfur sínar annars vegar á því að hann hefði mátt sæta einelti af hálfu yfirmanns í starfi sínu hjá R ohf og hins vegar á því að uppsögn hans úr starfi hefði verið ólögmæt þar sem ekki hefði verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að hvorki tilhögun lýsinga íþróttakappleikjum né breytingar á starfstilhögun A gætu hafa falið í sér einelti í skilningi þágildandi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Hæstiréttur taldi jafnframt að sú málsástæða A að ekki hefði verið staðið við samkomulag um óbreytt launakjör A samhliða breytingu á starfi gæti ekki falið í sér ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi í merkingu a. liðar 3. gr. reglugerðar 1000/2004, enda hefðu málefnaleg sjónarmið getað búið að baki þeim skilningi þáverandi íþróttafréttastjóra R ohf. að henni hefði ekki verið heimilt að semja við A um greiðslu vaktaálags við nýjar starfsaðstæður. Þá gætu þeir ágallar sem voru á meðferð kvörtunar A um einelti ekki einir og sér hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðarinnar. Þess utan hefði A ekki sýnt fram á að ágallar á meðferð kvörtunar hans hefðu haft í för með sér fjártjón fyrir hann né yrðu þeir taldir svo alvarlegir eða þess eðlis að miskabótaábyrgð yrði felld á R ohf. vegna þeirra. Að því er varðaði uppsögn R ohf. á ráðningarsambandi á milli aðila vísaði Hæstiréttur til þess að um opinber hlutafélög, líkt og R ohf., giltu almennt ekki reglur opinbers starfsmannréttar þótt frá því kynnu að vera undantekningar. Með hliðsjón af því stæðu ekki rök til þess að skýra sérreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 rýmra en leiddi af efni hennar og lögskýringargögnum. Óumdeilt væri að A hefði verið sagt upp vegna aðhaldsaðgerða í rekstri R ohf. og hefði uppsögn hans verið liður í hópuppsögn af því tilefni. Hefði ekki verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hefðu verið málefnalegar eins og rekstri R ohf. hefði verið háttað. Hefði R ohf. því skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Að þessu virtu var R ohf. sýknað af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2017. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta til heimtu bóta úr hendi áfrýjanda. Reisir stefndi kröfur sínar annars vegar á því að hann hafi mátt sæta einelti af hálfu yfirmanns í starfi sínu hjá áfrýjanda. Hafi áfrýjandi hvorki sinnt skyldum sínum á grundvelli þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað né brugðist við umkvörtunum stefnda í þessu sambandi með fullnægjandi hætti. Hins vegar byggir stefndi á því að uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningi þeirra á milli hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

II

Kröfu sína um bætur úr hendi áfrýjanda byggir stefndi sem fyrr segir meðal annars á því að hann hafi sætt einelti í starfi. Hafi það átt sér stað með ferns konar hætti. Í fyrsta lagi hafi yfirmaður hans sem var þáverandi íþróttafréttastjóri „markvisst útilokað [stefnda] frá kappleikjalýsingum“ með nánar tilteknum hætti. Í öðru lagi hafi áfrýjandi fyrir tilstilli íþróttafréttastjórans „verið færður af starfsstöð sinni ... og þannig útilokaður frá starfsbræðrum sínum þrátt fyrir að tilheyra ennþá hópi íþróttafréttamanna.“ Í þriðja lagi hafi nefndur íþróttafréttastjóri ekki staðið við samkomulag sem hann hafi gert þess efnis að stefndi héldi óbreyttum kjörum og vaktaálagsgreiðslum samhliða breytingum sem gerðar voru á starfi hans. Þá byggir stefndi loks á því í fjórða lagi að íþróttafréttastjórinn hafi ásamt þáverandi mannauðsstjóra áfrýjanda „séð til þess að eineltiskvörtun [stefnda] hafi aldrei fengið lögmæta málsmeðferð.“

Samkvæmt a. lið 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, sem í gildi var þegar atburðir máls þessa áttu sér stað, var með einelti átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, það er athöfn eða hegðun, sem væri til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beindist að. Þetta næði þó ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaáreksturs sem kynni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiddi slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til fyrrgreindrar háttsemi. Í b. lið 3. gr. gildandi reglugerðar nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum segir á hinn bóginn að með einelti sé átt við síendurtekna hegðun sem almennt sé til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Þannig gat háttsemi í skilningi eldri reglugerðar talist einelti þótt hún væri ekki endurtekin, svo sem nú er lagt til grundvallar skilgreiningu eineltis. Við mat á því hvort átt hafi sér stað einelti gagnvart starfsmanni í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 er það þó jafnan atvikabundið í hverju einstöku máli hvort einelti verði metið heildstætt út frá fleiri atburðum eða endurtekinni hegðun sem falið getur í sér einelti í skilningi ákvæðisins ellegar um einn einstakan atburð sé að ræða.

Staðfest er með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms sú niðurstaða að hvorki tilhögun lýsinga á íþróttakappleikjum né breytingar á starfstilhögun stefnda geti hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki hafi af íþróttafréttastjóra hálfu verið staðið við samkomulag um óbreytt launakjör stefnda samhliða breytingu á starfi. Í því sambandi er til þess að líta að þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki sýnt fram á að breytingar á lýsingu á íþróttakappleikjum og starfstilhögun stefnda, sem áttu sér stað í aðdraganda þess að ætlað samkomulag um launakjör tókst með aðilum, geti falið í sér einelti í skilningi ákvæðis reglugerðarinnar. Að því gættu og án tillits til þess að áfrýjandi viðurkenndi síðar tilvist slíks samkomulags getur sá ágreiningur einn og sér ekki falið í sér ámælisverða og ótilhlýðilega háttsemi í merkingu a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, enda gátu málefnaleg sjónarmið búið að baki þeim skilningi íþróttafréttastjórans að henni væri ekki heimilt að semja við stefnda um greiðslu vaktaálags við nýjar starfsaðstæður.

Stendur þá eftir sú málsástæða stefnda að íþróttafréttastjórinn hafi ásamt þáverandi mannauðsstjóra áfrýjanda komið í veg fyrir að eineltiskvörtun stefnda 18. júní 2010 hlyti lögmæta meðferð. Upphaflega beindi stefndi kvörtun sinni til þáverandi fréttastjóra Óðins Jónssonar sem með tölvuskeyti 21. júní 2010 fól mannauðsstjóra málið til „skoðunar“. Sá mun í framhaldinu hafa átt fund með stefnda og íþróttafréttastjóranum, fyrst hvoru í sínu lagi en síðan saman. Fyrir dómi bar mannauðsstjórinn að það hafi orðið niðurstaða sín að um samskipta- og samstarfsörðugleika væri að ræða. Í framhaldi þessara samskipta var 15. september 2010 gert minnisblað sem bæði stefndi og íþróttafréttastjórinn undirrituðu þar sem tilgreind voru nánar atriði sem þau þyrftu bæði að bæta vegna samstarfs síns og samskipta. Fyrir liggur að á þessum tíma var ekki til staðar hjá  áfrýjanda áætlun í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 og málinu var ekki af hálfu mannauðsstjóra markaður sá farvegur sem ráðgerður var í 7. gr. hennar. Allt að einu verður það ekki talin ólögmæt nálgun af hennar hálfu að kanna fyrst af öllu með sjálfstæðum hætti hvort hugsanlega væri um skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur að ræða fremur en einelti, hvað sem leið efnislegri niðurstöðu hennar þar að lútandi. Þá fær hvorki stoð í gögnum málsins né framburði annarra sú staðhæfing stefnda að honum hafi verið hótað uppsögn skrifaði hann ekki undir minnisblaðið. Þeir ágallar sem voru á meðferð eineltiskvörtunar stefnda geta ekki einir og sér, og með hliðsjón af því að einelti á hendur honum telst að öðru leyti ósannað, hafa falið í sér einelti í skilningi a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004. Þess utan hefur stefndi hvorki sýnt fram á að umræddir ágallar á meðferð kvörtunar hans hafi haft í för með sér fjártjón fyrir hann né verða þeir taldir svo alvarlegir eða þess eðlis að vegna þeirra verði miskabótaábyrgð felld á áfrýjanda á grundvelli b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

III

Í annan stað gerir stefndi kröfu um bætur á þeim grundvelli að uppsögn áfrýjanda á ráðningarsamningi þeirra hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 12. gr. laga nr. 23/2013.

Með lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. var stefnda breytt í opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um slík félög gilda almennt ekki reglur opinbers starfsmannaréttar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frá því kunna þó að vera undantekningar á grundvelli lagaákvæða, samkomulags eða vegna annarra atvikabundinna aðstæðna. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 er sú regla lögfest að útvarpsstjóri skuli í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn og skilyrði áminningar og starfsloka. Í þeim reglum skal meðal annars kveðið á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanns. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að telji starfsmaður ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar eigi hann rétt á skriflegri skýringu. Óumdeilt er að við uppsögn stefnda 27. nóvember 2013 höfðu slíkar reglur ekki verið settar.

Stefndi reisir kröfu sína á því að með umræddu ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga 23/2013 sé þeim starfsmönnum áfrýjanda sem þar um ræðir ætluð sérstök vernd og þá þannig að áfrýjanda beri að rökstyðja sérstaklega uppsögn þeirra og hvaða málefnalegu sjónarmið hafi ráðið henni. Sé sú skylda almenn og eigi þar að lútandi jafnframt við undir þeim kringumstæðum þegar uppsögn er sögð hluti af aðhaldsaðgerðum í rekstri en óumdeilt sé að samhliða uppsögn stefnda hafi komið til hópuppsagnar af hálfu áfrýjanda. Af hálfu hans hafi ekki verið færður fram málefnalegur rökstuðningur fyrir því hvers vegna til þess kom að stefnda var sagt upp störfum. Að auki vísar stefndi til þess að „félagsstjórn“ áfrýjanda hafi borið að taka ákvörðun um hópuppsögn starfsmanna þar sem slík ákvörðun teljist „mikils háttar“ og geti ekki fallið undir daglegan rekstur. Af áfrýjanda hálfu er þessum sjónarmiðum stefnda hafnað og vísað til þess að regla 12. gr. hafi að geyma sérreglu hvers verndarandlag sé eingöngu að verja fréttamenn fyrir því að verða sagt upp störfum vegna skoðana sinna og tjáningar og með því vega að frelsi fjölmiðlamanna og mikilvægi þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Þá hafi ákvörðun um uppsögn stefnda og annarra starfsmanna áfrýjanda rúmast innan starfsheimilda útvarpsstjóra og annarra yfirmanna áfrýjanda.

Fallist er á með héraðsdómi að það hafi verið útvarpsstjóra að ákveða, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur, til hvaða aðgerða þurfti að grípa til þess að hagræða í rekstri áfrýjanda.

Að því er varðar skýringu á 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 var í hinum áfrýjaða dómi fallist á sjónarmið stefnda og þrengri skilningi áfrýjanda hafnað. Þar sagði að þegar tekin væri afstaða til ágreinings aðila þessa efnis væri ekki „óvarlegt“ að líta til þess hvernig dómstólar hafi skýrt reglur stjórnsýsluréttarins um að málefnalegar ástæður þyrftu að búa að baki uppsögn almennra ríkisstarfsmanna við hagræðingu. Taldi héraðsdómur að ekki væru komnar fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna stefndi var tekinn í hóp þeirra sem sagt var upp störfum í nóvember 2013 og leiddi það til þess að uppsögn hans hafi verið ólögmæt. Voru stefnda dæmdar skaða- og miskabætur af þeim sökum.

Við skýringu á 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 verður litið til lögskýringargagna en þar segir meðal annars: „Greinin, sem er nýmæli, kveður á um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Um viðkomandi starfsmenn gilda ákveðin sérsjónarmið vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar þeirra. Ástæðan er sú að talið er nauðsynlegt að veita þeim sem vinna við að veita „lýðræðislegt aðhald“ vernd umfram aðra starfsmenn.“

Fyrirmæli í framangreinda veru eiga sér beina samsvörun í ýmsum sérstökum réttindum blaða- og fréttamanna samkvæmt V. kafla laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Áréttað er það sem fram er komið að almennt gilda hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu, þar með talið um uppsögn, starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar. Þegar af þeirri ástæðu standa ekki rök til þess að skýra umrædda sérreglu rýmra en augljóslega leiðir af efni hennar og lögskýringargögnum og felst í því að vernda starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn gegn því að vera sagt upp vegna skoðana sinna og tjáningar. Fæli rýmri skýring jafnframt í sér ósamrýmanlega mismunun gagnvart öðrum starfsmönnum áfrýjanda sem ekki njóta verndar sérreglu 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Óumdeilt er að stefnda var sagt upp vegna aðhaldsaðgerða í rekstri áfrýjanda og uppsögn hans liður í hópuppsögn af því tilefni. Hefur ekki í málinu verið sýnt fram á annað en að þær forsendur hafi verið málefnalegar eins og rekstri áfrýjanda var háttað. Hefur áfrýjandi, að kröfu stefnda, því skýrt nægilega forsendur uppsagnarinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Er samkvæmt framansögðu ekki fallist á með stefnda að uppsögn hans úr starfi hafi verið ólögmæt og verður fjárkröfum hans af því tilefni hafnað.

Að öllu framangreindu virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda í málinu.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ríkisútvarpið ohf., er sýkn af kröfu stefnda, Adolfs Inga Erlingssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2017

I. Dómkröfur

Mál þetta er höfðað 16. febrúar 2016 og tekið til dóms 12. maí sl. Stefnandi er Adolf Ingi Erlingsson, Sporðagrunni 5 í Reykjavík en stefndi Ríkisútvarpið ohf., Efstaleiti 1 í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum kr. 10.324.768,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2013 og til 3. október 2014, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 4. október 2014 og til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndi greiði stefnanda bætur að álitum með vöxtum og dráttarvöxtum á sama hátt og greinir í aðalkröfu. 

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað stefnanda auk virðisaukaskatts, að mati dómsins eða eftir málskostnaðarreikningi framlögðum við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

II. Málavextir

Stefnandi hóf störf hjá stefnda vorið 1991 við dagskrárgerð í útvarpi og síðar um haustið 1992 á íþróttadeild stefnda þar sem hann starfaði sem íþróttafréttamaður allt þar til honum var sagt upp störfum þann 27. nóvember 2013.

Stefnandi telur að upphaf málsins megi rekja til þess að skipulagsbreytingar urðu hjá stefnda haustið 2008 sem m.a. fólu í sér að íþróttadeild RÚV ohf. var færð undir sameiginlega fréttastofu. Var varafréttastjóra, Margréti Marteinsdóttur, falið að stýra íþróttadeildinni og starfsmaður úr bókhaldi, Kristín Hálfdánardóttir, fengin henni til aðstoðar. Vorið 2009 var Kristín Hálfdánardóttir síðan ráðin í starf íþróttastjóra.

Í málatilbúnaði stefnanda og framburði hans fyrir dómi kemur fram að hann hafi í kjölfarið lýst yfir óánægju sinni með ráðninguna á grundvelli þess að Kristín væri reynslulaus af fréttamennsku og dagskrárgerð.

Hjörtur Júlíus Hjartarson, sem starfaði sem íþróttafréttamaður hjá stefnda frá hausti 2007 til janúar 2012, bar fyrir dómi, aðspurður um stjórnarhætti Kristínar að sér hefði virst að hún hefði ekki mikla þolinmæði gagnvart stefnanda Adolfi Inga. Hún hefði virkað „pirruð og þreytt“ á honum og það hefði endurspeglast í framkomu gagnvart honum. Þannig hefði hún sjaldan verið ánægð með hans störf, en vitnið kvaðst byggja það mat á eigin tilfinningu frekar en einhverjum einstökum dæmum sem það gæti tekið. Það væri tilfinning vitnisins að Kristínu hefði „ekki líkað neitt sérstaklega“ við stefnanda.

Í framburði Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar, íþróttafréttamanns hjá stefnda, kom fram að framkoma Kristínar og viðmót hennar í garð starfsmanna íþróttadeildar, hefðu verið misjöfn. Hann kvað óumdeilt að samstarfsörðugleikar og togstreita hefðu verið á milli stefnanda og Kristínar. Aðspurður kvað vitnið þessa örðugleika hafa lýst sér í því að þau hefðu ekki átt skap saman og að þau hefðu verið ósammála um starfshætti hvors annars. Hann gæti hins vegar ekki nefnt einstök dæmi og hann treysti sér ekki til að fullyrða að um einelti hefði verið að ræða í garð stefnanda.

Í framburði Kristínar fyrir dómi bar hún hins vegar að henni hefði ekki verið kunnugt um að stefnandi hefði verið gagnrýninn á ráðningu hennar, nema að því leyti að hún hefði vitað að hann hefði áhuga á starfinu sjálfur og hefði verið ósáttur við fyrirrennara hennar í starfi. Kristín bar fyrir dómi að hún hefði aldrei upplifað nein „sérstaklega slæm samskipti“ við stefnanda. Hún hefði þurft að gagnrýna hann fyrir vinnubrögð sín á köflum en það hafi verið hennar hlutverk sem yfirmanns og stefnandi hefði ekki verið sá eini sem hefði þurft að sæta slíkri gagnrýni. Kristín andmælti framburði stefnanda um að hún hefði reglulega „hellt sér yfir hann“ þótt vissulega hefðu þau átt orðaskipti.

Óðinn Jónsson kvaðst í framburði sínum fyrir dómi ekki hafa orðið þess var að Kristín hefði verið öðruvísi í garð stefnanda en annarra undirmanna. Kristín hafi verið sett í starf íþróttastjóra sem manneskja utan deildarinnar. Hún hafi ekki verið „ein af hópnum“ og það hefði þurft að snúa af ýmsa agnúa vegna þess, enda hafi sumir starfsmenn íþróttadeildar verið lengi í starfi. Það hafi leitt til „árekstra“ og „núnings“ og hann hafi orðið var við það.

Í gögnum málsins kemur fram að Kristín hafi sent stefnanda tölvupóst aðfararnótt 26. mars 2010 í framhaldi af samtali sem þau áttu föstudagskvöldið 19. mars 2010 en í þeim pósti sagði m.a:

 „Frá því að ég byrjaði á íþróttadeild hef ég orðið vör við töluverða óánægju með annars vegar samskipti þín við samstarfsmenn og svo frammistöðu á fréttavöktum. Eftir að þú byrjaðir að vera aftur á vöktum eftir þó nokkurt hlé vegna annarra verkefna blossuðu þessi vandamál upp aftur og aftur.

Þau vandamál sem aðallega um ræðir eru eftirfarandi:

Stirðleiki í samskiptum við vaktstjóra.

Mikil tilhneiging til að vera alltaf á síðustu stundu með fréttavinnslu.

Uppbygging fréttatíma ekki í samræmi við viðmið frá vaktstjóra íþrótta.

Íþróttavefur og textavarp vanrækt.

Neikvætt viðhorf til vinnunnar og fyrirtækisins.

Þegar um er að ræða deild sem er undir miklu álagi er mikilvægt að allir vinni saman sem eitt lið og því nauðsynlegt að breyting verði hér á.

Ég vonast til að sjá þessa breytingu eftir páska svo ekki þurfa að koma til uppsagnar á ráðningarsamningi þínum eins og ég benti þér á að hætta væri á í samtali okkar.“

Í kjölfar Evrópumótsins í handknattleik 2010 mun Kristín Hálfdánardóttir hafa tilkynnt stefnanda um breytingar á verkefnum hans. Ljóst er að með þessum breytingum var stefnandi að miklu leyti tekinn úr reglulegum verkefnum í sjónvarpi, svo sem dagskrárgerð, lýsingum á kappleikjum og fleiru en í staðinn falið að skrifa fréttir fyrir vefsíðu Ríkisútvarpsins auk vefútvarpsfrétta. Þann 21. júní 2010 fór stefnandi á fund Óðins Jónssonar fréttastjóra stefnda þar sem hann kvartaði undan einelti Kristínar í sinn garð. Í kjölfarið ritaði Óðinn Berglindi Bergþórsdóttur, mannauðsstjóra RÚV ohf., tölvuskeyti en í því sagði meðal annars:

 „Adolf Ingi sakar Kristínu Hörpu um einelti, hún setji sig til hliðar og niðurlægi með því að útiloka hann frá verkum sem hann hafi sinnt lengi. Benti hann sérstaklega á lýsingar á HM. Ég benti honum strax á að þetta væru alvarlegar ásakanir sem ég tæki alvarlega og ég vildi að skoðaðar væru faglega. Benti ég sérstaklega í því sambandi á að mannauðstjóri væri kominn til starfa hjá RÚV.

Mál þetta á sér nokkra forsögu (Adolf Ingi hefur fengið áminningu vegna samstarfsörðugleika) og legg ég því ríka áherslu á að með það verði farið á faglegan hátt. Enginn vafi leikur á því að íþróttastjórinn hefur fullt umboð til þess frá fréttastjóranum að ákveða hverjir sinna hvaða verkum á deildinni, hver lýsir hvaða leik o.s.frv. Auðvitað er til þess ætlast að þar ráði faglegt og sanngjarnt mat. Ég óska eftir því að þú takir þetta mál til skoðunar.“

Af gögnum málsins verður ráðið að mannauðsstjóri stefnda hafi í framhaldinu átt fundi með stefnanda og Kristínu, fyrst hvoru í sínu lagi en síðan saman. Í kjölfarið var gert minnisblað sem mannauðsstjóri stefnda og stefnandi undirrituðu, dags. 15. september 2010, þar sem kveðið var á um að bæði Kristín og stefnandi þyrftu „að leggja sitt af mörkum til að bæta samstarfið og samskiptin“. Þau atriði sem stefnandi var talin geta bætt, voru (i) „samstarfs- og samskiptaörðugleikar milli [hans] og samstarfsmanna“, (ii) „stundvísi í setti“ og (iii) „vinnubrögð við vinnslu og lýsingu íþróttafrétta“. Í framburði Berglindar Bergþórsdóttur, þáverandi mannauðsstjóra stefnda, kom fram að það hefði verið niðurstaða fundanna að um samskiptaörðugleika væri að ræða og að þau þyrftu bæði að leggja sitt af mörkum til að samstarfið gengi betur. Þá minntist Berglind þess ekki að áminningarbréf sem Kristín sendi stefnanda 26. mars 2010 hafi verið rætt á fundunum. Hvorki Berglind né Kristín minntust þess að stefnanda hefði verið hótað uppsögn ef hann skrifaði ekki undir minnisblaðið. Þá minntist Berglind þess ekki hvort rætt hefði verið við aðra starfsmenn en stefnanda og Kristínu um sannleiksgildi þeirra athugasemda sem þau höfðu gagnvart hvort öðru. Óðinn Jónsson bar á sama veg fyrir dómi og kvaðst ekki hafa gert sérstaka rannsókn á sannleiksgildi athugasemda Adolfs Inga og Kristínar í garð hvors annars.

Samkvæmt framburði Kristínar fyrir dómi mun hún einnig hafa skrifað undir annað minnisblaðið. Aðspurð kvað hún að að þeim atriðum sem fram komu í minnisblaðinu hefði ekki verið fylgt sérstaklega eftir. Í framburði Óðins Jónssonar kom hins vegar fram að hann hefði fylgt málinu eftir á fundum með mannauðstjóra og að hann vissi ekki betur en að mál hefðu eitthvað „róast“ eftir þetta.

Í framburði sínum fyrir dómi lýsti stefnandi því hins vegar að einelti í hans garð hefði ágerst eftir að hann undirritaði yfirlýsinguna frá 15. september 2010. Þannig hefði hann verið færður af starfsstöð sinni og frá öðrum starfsmönnum íþróttadeildar sem allir höfðu aðstöðu nálægt hver öðrum til almennra fréttamanna án skýringa. Í framburði Kristínar fyrir dómi skýrði hún þessa tilhögun þannig að talið hefði verið fara best á því að stefnandi væri með starfsstöð meðal annarra starfsmanna veffrétta, þar sem hann átti að vera sá starfsmaður íþróttadeildar sem hefði umsjón með þeim fréttamiðli. Íþróttafréttum á vefmiðli stefnda hefði verið ábótavant og að það hafi þótt tilraunarinnar virði að hafa íþróttafréttamann, sem skrifaði á vefinn, með starfsstöð á sama stað og veffréttastjórinn og aðrir fréttamenn sem skrifuðu á vefinn.

 Í framburði sínum fyrir dómi kvaðst Kristín hafa lýst því yfir þegar hún tók við starfi íþróttastjóra að hún myndi fela starfsmönnum verkefni á grundvelli hæfni. Í ljósi þess að stefnandi hefði átt í samskiptaörðugleikum við samstarfsmenn undir álagi í beinni útsendingu og ekki gætt stundvísi í útsendingu, auk þess sem aðrir starfsmenn hefðu gert auknar athugasemdir um tæknileg mistök í sjónvarpsfréttum sem stefnandi hefði séð um, hefði henni þótt nær að fela stefnanda önnur verkefni en lytu að sjónvarpsútsendingum. Stefnandi hefði hins vegar verið góður íslenskumaður, skrifað vandaðan texta og haft góða framsögu, og hún hefði talið að þeir hæfileikar myndu nýtast vel í útvarps- og veffréttum. Um þá ákvörðun að færa til starfsstöð hans sagði Kristín að eðlilegt hefði þótt að færa stefnanda nær starfsmönnum veffrétta og útvarps í ljósi þeirra breytinga sem orðið hefðu á starfi hans. Í framburði Láru Ómarsdóttur, ritstjóra veffrétta, kom fram að henni hefði ekki þótt óeðlilegt að stefnandi hefði starfsstöð á sama stað og aðrir sem sinntu veffréttum.

Í málatilbúnaði og framburði stefnanda kom fram að hann hefði ákveðið að halda áfram störfum sínum hjá stefnda þrátt fyrir að hann sætti sig ekki við breytingarnar. Stefnandi heldur því fram að í kjölfarið hafi Kristín Hálfdánardóttir íþróttastjóri samþykkt að hann myndi halda kjörum sínum, þ.e. einkum greiðslu vegna vaktaálags. Þær greiðslur hafi síðan fallið niður af óútskýrðum ástæðum.

Í framburði sínum fyrir dómi bar Kristín að hún hefði samþykkt að stefnandi myndi halda álagsgreiðslum sem hann hafði vegna verkefna í sjónvarpi út uppsagnartíma en hún hefði engar heimildir haft til að lofa honum neinu umfram það.

Samkvæmt vitnisburði Hallgríms Indriðasonar, fréttamanns hjá stefnda og formanns Félags fréttamanna, óskaði stefnandi eftir aðstoð félagsins til að innheimta umræddar greiðslur. Kvaðst Hallgrímur hafa borið málið undir Láru Ómarsdóttur, fréttamann, sem hafi verið vitni að samtali stefnanda og Kristínar, sem hafi staðfest skilning stefnanda á samtalinu. Hallgrímur hafi síðan haft samband við Kristínu og í kjölfarið átt fund með henni og Berglindi mannauðsstjóra þar sem þær hafi lýst þeim skilningi að álagsgreiðslur til stefnanda hafi aldrei átt að halda sér. Þau hafi síðan öll þrjú átt fund með stefnanda haustið 2013 þar sem þær hafi staðið fast á því að stefnandi hafi aldrei átt rétt á þessum greiðslum. Stefndi hafi síðan greitt stefnanda umræddar greiðslur eftir uppsögn hans í nóvember 2013. Greiðslur þessar munu ekki hafa fengist innheimtar fyrr en samhliða uppsögn þegar Lára Ómarsdóttir staðfesti frásögn stefnanda. Þessa atburðarás staðfesti Lára enn fremur í vitnisburði sínum fyrir dómi.  

Stefnandi telur að þar sem tilraunir hans til þess að taka á einelti Kristínar hafi verið til þess fallnar að ógna starfsöryggi hans enn frekar, hafi hann ekki átt annarra kosta völ fram að uppsögn en að bera harm sinn í hljóði. Vanlíðan stefnanda hafi fljótlega farið að bitna á fjölskyldulífi hans og hafi hann leitað sér fagaðstoðar af því tilefni.

Samkvæmt gögnum málsins mun Bjarni Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóri RÚV ohf. hafa boðað trúnaðarmenn starfsmanna til fundar föstudaginn 22. nóvember 2013 þar sem þeim voru kynntar aðhaldsaðgerðir sem grípa þyrfti til í því skyni að bæta rekstur félagsins. Var þar jafnframt tilkynnt að gripið yrði til uppsagna á grundvelli laga nr. 63/2000, um hópuppsagnir en í fundargerð sagði meðal annars svo:

 „Ástæður fyrirhugaðra uppsagna eru þær að nú stefnir í að það vanti um 500 m. kr. upp á að endar nái saman í rekstri RÚV.

Gangi uppsagnir eftir verður stöðugildum fækkað um 55 af heildarfjölda 267 stöðugilda og má gera ráð fyrir að uppsagnir nái til um 60 starfsmanna af 279 starfsmönnum RÚV. Um er að ræða dagskrárgerðarmenn, fréttamenn, tæknimenn og starfsfólk stoðdeilda. Vinna tímavinnufólks mun einnig dragast saman sem og vinna verktaka sem sumir hverjir eru með allar sínar tekjur af þjónustu við RÚV.

Stefnt er að því að tekin verði ákvörðun um uppsagnir í síðustu viku nóvembermánaðar og að farið verði í uppsagnir fyrir lok mánaðarins. Uppsagnarfrestur starfsmanna er frá 1 mánuði til 6 mánaða og mun því koma til starfsloka á tímabilinu 31. desember 2013 til 31. maí 2014.

Viðmiðanir sem stendur til að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp felast í því að dagskrárliðir styttast og falla út og þar af leiðir að starfsfólki fækkar. Breyting verður gerð á framleiðslu með það að markmiði að fækka starfsfólki. Vegna minni umsvifa dregur úr umfangi stoðdeilda sem leiðir til fækkunar á starfsfólki.

Tillögurnar voru mótaðar í samræmi við lykilstjórnendur. Ekki er um að ræða bráðabirgðaaðgerðir heldur er verið að minnka starfsemina til frambúðar. Ekki var farið í flatan niðurskurð, aðhaldsaðgerðirnar miðast við að standa, eins og kostur er, vörð um hlutverk og stefnu félagsins.

Ljóst er þó að með aðgerðunum þynnist dagskráin töluvert og þar með verða breytingarnar mjög sjáanlegar.

Ekki þykir ástæða til að bíða með aðgerðir þar til búið er að samþykkja fjárlög því miðað við yfirlýsingar stjórnvalda og það sem fram hefur komið í umræðum m.a. á Alþingi er ekkert sem bendir til þess að dregið verði úr aðhaldskröfu til RÚV heldur þvert á móti virðist stefna í að hagræðingarkrafa til RÚV verði aukin frá því sem er í fjárlagafrumvarpinu.

Reynt verður að milda aðgerðirnar eins og kostur er. Í nokkrum tilvikum er ekki ráðið í stöður sem losna, beðið er eftir starfslokum þar sem stutt er í þau og er reynt að milda starfslok elstu starfsmannanna með starfslokasamningum sem í einhverjum tilfellum brúa bilið þar til þeir komast á lífeyri. Þrátt fyrir þetta verður ekki hjá því komist að fækka um rúmlega 40 stöðugildi með beinum uppsögnum. Í þeim tilvikum er ekki gert ráð fyrir vinnuskyldu og viðveru á vinnustað meðan á uppsagnarfresti stendur.“

Stefnanda var síðan sagt upp störfum í hópuppsögn þann 27. nóvember 2013. Með bréfi útvarpsstjóra til Vinnumálastofnunar sem dagsett er sama dag er stofnuninni tilkynnt um að áformað sé að segja upp 39 starfsmönnum, gera starfslokasamning við 8 starfsmenn og ekki ráða fyrir 2 starfsmenn sem hætta, en samtals fækki um 49 starfsmenn. Í bréfinu segir að við val á starfsmönnum sem segja eigi upp komi helst þeir til álita sem tilheyra þeirri starfsemi sem er minnkuð eða lögð af eða tengist henni beint eða óbeint. Breyting verði gerð á framleiðslu með það að markmiði að fækka starfsfólki. Þá verði dregið úr umfangi stoðdeilda sem leiði til fækkunar á starfsfólki.

Um það hvernig staðið var að umræddum hópuppsögnum ber framburði vitna fyrir dómi ekki saman að öllu leyti. Þannig sagði Kristín Hálfdánardóttir í framburði sínum að hún gæti ekki upplýst með hvaða hætti lagt var mat á hverjum ætti að segja upp í hópuppsögninni þar sem hún hefði ekki komið að ákvörðuninni um að Adolf Ingi væri meðal þeirra sem sagt var upp með neinum hætti. Hún hefði verið kölluð inn á skrifstofu kvöldi áður en uppsagnir fóru fram þar sem Berglind Bergþórsdóttir þáverandi mannauðstjóri stefnda hefði tilkynnt henni um hverjum yrði sagt upp. Ekki hefði verið óskað eftir áliti eða mati hennar sem íþróttastjóra á því hverjum yrði sagt upp.

Aðspurð um þetta atriði fyrir dómi bar Berglind að framkvæmdastjórar stefnda hefðu haft „mikið um þetta að segja“. Aðspurð um hvort Kristín hafi komið að þessari ákvörðun sagði Berglind að hana minnti að „þetta hefði legið meira hjá fréttastjóra stefnda“, Óðni Jónssyni.

Óðinn Jónsson, þáverandi fréttastjóri stefnda, sagði hins vegar í framburði sínum að við val á því hverjum ætti að segja upp hefði í meginatriðum verið byggt á mati næstu yfirmanna viðkomandi starfsmanns sem í tilviki stefnanda Adolfs Inga hafi verið Kristín Hálfdánardóttur og Einar Örn Jónsson, varaíþróttastjóri stefnda. Tillögur um uppsagnir hafi hins vegar að lokum verið lagðar fyrir útvarpsstjóra sem bar hina endanlegu ábyrgð, sem hafi í ýmsum tilvikum breytt því hverjum yrði sagt upp.

Stefnanda var tilkynnt um uppsögn sína með bréfi útvarpsstjóra 27. nóvember 2013. Í bréfinu kom fram að ráðningarsamningi hans við RÚV frá 5. október 1992 væri sagt upp með samningsbundnum fyrirvara frá næstu mánaðamótum. Í bréfinu sagði að ástæður ákvörðunarinnar vörðuðu ekki það með hvaða hætti stefnandi hefði rækt starf sitt hjá stefnda heldur neyddist félagið til að fækka starfsmönnum sínum vegna tekjuskerðingar.

Með bréfi, dags. 6. desember 2013, óskaði stefnandi eftir skriflegum skýringum stefnda á uppsögn sinni. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Brottreksturinn grundvallaðist ekki á málefnalegum ástæðum. Með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið ohf. hér með krafið um skriflegar skýringar á brottrekstrinum.

Jafnframt krefst undirritaður þess að fá afrit af staðfestum starfsreglum fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og skilyrði áminningar og starfsloka, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.“

   Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 3. september 2014 var beiðni stefnanda um skriflegar skýringar á uppsögn hans ítrekuð. Lögmaður stefnda svaraði bréfinu með bréfi, dags. 17. desember 2014. Í því bréfi kom fram að uppsögnin hafi verið gerð í hagræðingarskyni samhliða því að fjölmörgum öðrum starfsmönnum var sagt, eins og fram hefði komið í uppsagnarbréfi, og mótmælt öðrum skýringum stefnanda á uppsögn hans.

III. Málsástæður og lagarök aðila

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi beri fébótaábyrgð á saknæmri háttsemi og aðgerðarleysi starfsmanna sinna vegna eineltis, ítrekaðra meingerða og ólögmætrar uppsagnar. Sú krafa er reist á meginreglum íslensks skaðabótaréttar einkum hinni ólögfestu reglu um húsbóndaábyrgð. Stefnandi byggir á því að málsástæður hans geti allar staðið sjálfstætt og hver um sig leiði til þess að taka beri kröfu stefnanda til greina, þá sérstaklega þegar þær koma fleiri eða allar saman.

Einelti sem stefnandi telur sig hafa sætt og brot stefnda í því sambandi.

Um skyldur vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis á vinnustað

Stefnandi byggir á því að öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi teljist til grundvallarréttinda, ekki síst þegar um er að ræða félag í opinberri eigu. Stefnandi vísar að þessu leyti til alþjóðlegra skuldbindinga ríkisins sem íslenska ríkið hafi mætt með lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ásamt reglugerðum og reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sem sett var á grundvelli þeirra laga. Stefnandi vísar til þess að markmið laga nr. 1000/2004 sé að koma í veg fyrir heilsutjón með því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi þannig að starfsmenn njóti velsældar og virðingar í starfi.

Stefnandi byggir á því að stefndi beri ábyrgð á brotum gegn ákvæðum fyrrgreindra laga og reglugerða, með saknæmri vanrækslu á innleiðingu áætlana og vítaverðu aðgerðaleysi í kjölfar tilkynningar stefnanda um einelti af hálfu forstöðumanns íþróttadeildar stefnda.

Um lögbundna skyldu til athafna vegna ásakana um einelti á vinnustað

Stefnandi vísar til þess að í 37. gr. laga nr. 46/1980 sé kveðið á um að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Í e-lið 38. gr. laganna segi að ráðherra setji nánari reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað hafði ráðherra sett reglur um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum með reglugerð nr. 1000/2004, með það að markmiði að stuðlað yrði að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum.

Stefnandi vísar til þess að í 4. gr. reglugerðarinnar sé að finna almennt ákvæði um skyldur atvinnurekanda, en þar segi m.a. að atvinnurekandi skuli gera starfsfólki ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi sé óheimil á vinnustað. Atvinnurekanda beri, samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði, skylda til að láta slíka háttsemi á vinnustað ekki viðgangast og skuli hann leitast við að koma í veg fyrir ótilhlýðilega háttsemi sem hann fær vitneskju um. Í 7. gr. sé svo vikið sérstaklega að viðbragðsskyldu atvinnurekanda þegar fram kemur ábending eða grunur um einelti á vinnustað. Segir þar að atvinnurekandi skuli bregðast við eins fljótt og kostur er og meta aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins og utanaðkomandi ráðgjafa, ef með þarf. Í niðurlagi ákvæðisins sé svo sérstaklega tekið fram að grípa verði til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtaki sig ekki á vinnustaðnum.

Stefnandi vísar til þess að í greinargerð Vinnumálastofnunar með reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað komi fram að í samskiptum milli stjórnenda og starfsmanns hafi starfsmaðurinn veikari stöðu og sé það á þeirra ábyrgð að kanna hvaða aðstæður í vinnuumhverfinu liggja að baki niðrandi framkomu og koma í veg fyrir slíkt.

Í máli því sem hér um ræðir hafi stefnandi tilgreint yfirmann sinn sem geranda í því einelti sem hann hafði þurft að þola. Kvörtun stefnanda að þessu leyti hafi hins vegar verið afgreidd með fundi hjá mannauðsstjóra stefnda, þar sem stefnanda var gert ljóst að gripið yrði til uppsagnar ef hann myndi ekki bæta ráð sitt. Eðli málsins samkvæmt gerði stefnandi ekki frekari tilraunir til að fá úrlausn mála sinna, enda ljóst hvaða afleiðingar það hefði í för með sér.

Stefnandi telur ljóst að ekki hafi verið aðhafst í samræmi við þær lögbundnu skyldur sem hvíla á stefnda í kjölfar ásakana um einelti af hálfu yfirmanns. Af óútskýrðum ástæðum hafi ekki þótt tilefni til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir þeim ásökunum með aðstoð utanaðkomandi ráðgjafa. Þá hafi aðstæður ekki verið metnar í samráði við vinnuverndarfulltrúa, þar sem ekkert vinnuverndarstarf hafi verið til staðar hjá stefnda. Það liggi því í hlutarins eðli að hvorki hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana né tryggt að eineltið myndi ekki endurtaka sig.

Um skyldur vinnuveitanda um skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustað

Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt XI. kafla laga nr. 46/1980 sé ljóst að atvinnurekandi beri ábyrgð á því að til sé skrifleg áætlun um heilsuvernd á vinnustað sbr. 65. og 66. gr. laganna. Fyrsti liður slíkrar áætlunar sé áhættumat, sem felur í sér athugun á vinnuaðstæðum til þess að kanna hvort eitthvað í vinnuumhverfinu, vinnuskipulaginu eða við framkvæmd vinnunnar geti hugsanlega leitt til andlegs eða líkamlegs tjóns, þar á meðal eineltis.

Stefnandi bendir á að á grundvelli framangreindra ákvæða hefur verið sett reglugerð nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Samkvæmt 27. og 28. gr. reglugerðarinnar skuli atvinnurekandi framkvæma skriflegt áhættumat og gera áætlun um forvarnir. Þá sé ljóst samkvæmt fyrirmælum 26. gr. sömu reglugerðar að áætlunin skuli vera aðgengileg öllum starfsmönnum fyrirtækisins. Þessi skylda atvinnurekanda sé ítrekuð í 5. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti, en tilgangur áætlana um heilsuvernd sé m.a. að tryggja að starfsmenn fái verkefni við hæfi, sbr. b-liður 2. mgr. 66. gr. laga nr. 46/1980.

Af ofangreindum ákvæðum laga og reglugerða verður að mati stefnanda ráðið að rík skylda hvíli á herðum atvinnurekanda til að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt á vinnustað. Þar sé kveðið á um forvarnir og áætlanagerð með það að markmiði að sporna gegn einelti á vinnustað, ásamt því að leggja almennar skyldur á stefnda til að láta slíka háttsemi ekki viðgangast og grípa til viðeigandi ráðstafana. Það hafi hins vegar ekki verið gert, stefndi hafi aldrei lokið gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og því engin viðbragðsáætlun vegna eineltis til staðar. Vísar stefnandi til þess að stefndi hafi með lítilli fyrirhöfn og án mikils tilkostnaðar getað komið til móts við þessi mikilvægu réttindi og komið í veg fyrir tjón stefnanda eða takmarkað umfang þess.

Stefnandi vísar til þess að framangreind vanræksla stefnda á innleiðingu vinnuverndar hafi verið staðfest af Vinnueftirliti ríkisins. Byggir stefnandi á því að athafnaleysi stefnda sé refsivert samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980 og stefndi sé jafnframt bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna tjóns, sem rekja megi til ólögmæts aðgerðarleysis hans. Þá telur stefnandi að athafnaleysið og afleiðingar þess fyrir stefnanda feli í sér ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem stefndi beri ábyrgð á.

Þá verði ekki framhjá því litið að vanræksla stefnda í þessum efnum leiði óhjákvæmilega til þess að stefndi verði að bera hallann af upplýsingaskorti og slakri sönnunarstöðu, enda hafi honum borið lagaleg skylda til að meta aðstæður í kjölfar tilkynningar stefnanda og afla sér sönnunar um staðreyndir máls í stað þess að ljúka málinu óupplýstu og þar með að gera stefnanda erfiðara um við að fá viðurkenningu á einelti og bót á ólögmætri og meiðandi háttsemi í hans garð.

Einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi starfsmanna stefnda    

Stefnandi kröfur sínar á því að starfsmaður stefnda, Kristín Hálfdánardóttir, forstöðumaður íþróttadeildar og yfirmaður stefnanda hafi í áraraðir, allt frá því hún tók við starfi íþróttastjóra og þar til stefnanda var sagt upp störfum þann 27. nóvember 2013, lagt stefnanda í einelti í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004.

Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að íþróttastjóri hafi markvisst útilokað stefnanda frá kappleikjalýsingum og íþróttafréttamenn með margfalt minni starfsreynslu þess í stað verið fengnir til að annast þau verkefni í hans stað. Rétt sé að geta þess að lýsingar frá alþjóðlegum stórmótum þyki eftirsóknarverðustu atburðir íþróttafréttamanna, auk þess sem þessi verkefni séu betur launuð en hefðbundnar vaktir. Hagsmunir starfsmanna af því að sækja slíka viðburði séu því ríkir. Mismunun íþróttastjóra í úthlutun verkefna hafi verið til þess fallin að niðurlægja stefnanda og ógna starfsöryggi hans en þar sem stefnandi fékk aldrei viðhlítandi skýringar verði ekki séð að ákvarðanataka íþróttastjóra hafi stjórnast af öðru en persónulegri óvild í garð stefnanda. 

Í öðru lagi vísar stefnandi til þess að í kjölfar þeirra breytinga sem gerðar voru á stöðu hans hjá stefnda, hafi íþróttastjóri samþykkt að stefnandi myndi halda kjörum sínum, þ.e. einkum greiðslu vaktaálags. Slíkar greiðslur hafi hins vegar fallið niður og ekki fengist innheimtar af hálfu stefnanda þar sem íþróttastjóri neitaði alfarið að viðurkenna tilvist samkomulagsins. Þurfti stefnandi að berjast fyrir rétti sínum og hafði loks árangur erfiði síns eftir að vitnisburðar samstarfsmanns var aflað, sem staðfesti það sem um var samið. Framferði íþróttastjóra hafi verið verulega niðurlægjandi, enda hafi hún gefið stjórnendum stefnda tilefni til að ætla að stefnandi hafi komið fram af óheiðarleika og logið til um samkomulagið.

Í þriðja lagi vísar stefnandi til þess að íþróttastjóri hafi í samráði við mannauðsstjóra stefnda, séð til þess að eineltiskvörtun stefnanda hafi aldrei fengið lögmæta málsmeðferð. Á fundi mannauðsstjóra hafi stefnanda verið tjáð að hann þyrfti að undirrita skjal þar sem hann lofaði bót, að öðrum kosti yrði honum sagt upp störfum. Telur stefnandi þessa háttsemi einstaklega ámælisverða, sérstaklega í ljósi þess að umræddur yfirmaður hafi verið gerandi í því einelti sem stefnandi gerði ráð fyrir að rætt yrði á fundinum.

Í fjórða lagi vísar stefnandi til þess að hann hafi verið færður af starfsstöð sinni fyrir tilstilli íþróttastjóra og þannig útilokaður frá samstarfsmönnum sínum þrátt fyrir að tilheyra ennþá hópi íþróttafréttamanna. Sú háttsemi íþróttastjóra hafi verið bæði til þess fallin að niðurlægja og særa stefnanda, sem fram að þessu hafði alltaf upplifað sig sem hluta af heildinni, þrátt fyrir óverðskuldaðar skammir og niðrandi athugasemdir sem hann hafði þurft að þola frá yfirmanni sínum. Stefnandi hafi af augljósum ástæðum illa getað sinnt störfum sínum sem einn af liðsmönnum íþróttadeildarinnar þegar hann hafði verið jaðarsettur í orðins fyllstu merkingu með þessum hætti, enda snúist starfið að miklu leyti um samstarf og samtal á milli starfsmanna sviðsins.

Þá vísar stefnandi til þess að, óháð því hvort eineltistilburðir íþróttastjóra falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt fyrrgreindri reglugerð sé ljóst að síendurtekin hegðun starfsmanns stefnda hafi verið til þess fallin að gera lítið úr störfum og ógna starfsöryggi hans og afkomu verulega. Niðrandi framkoma hafi varpað rýrð á starfsheiður og persónu stefnanda og fól í sér ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem stefndi ber ábyrgð á.

Ólögmæt uppsögn á ráðningarsamningi

Stefnandi reisir dómkröfur sínar einnig á því að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi hans, sem tilkynnt var um með bréfi dagsettu 27. nóvember 2013 hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið. Þá telur stefnandi að framkvæmd uppsagnarinnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög og samþykktir Ríkisútvarpsins. Telur stefnandi að allir þessir annmarkar leiði til þess að uppsögnin sé ólögmæt hver um sig, en sérstaklega þegar þeir séu metnir til samans.

Uppsögn stefnanda ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum

Í fyrsta lagi vísar stefnandi til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 sem kveði á um aukið starfsöryggi starfsmanna stefnda og segi að starfsreglur skuli kveða á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri. Starfsmaður eigi svo rétt á skriflegum skýringum telji hann ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar, sbr. 2. mgr. 12. gr.

Stefnandi bendir á að þrátt fyrir skýr fyrirmæli laganna hafi fréttareglur og vinnuleiðbeiningar fyrir starfsmenn Fréttastofu RÚV, dags. 8 mars 2011, engar slíkar reglur að geyma. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda sé öðrum reglum ekki til að dreifa.                Með bréfi til stefnda, dags. 6. desember 2013, krafðist stefnandi skriflegra skýringa á brottrekstrinum með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013. Með bréfi frá lögmanni stefnda dags. 11. maí 2015, bárust loks eftirfarandi skýringar:

 „[…]Ekki verður séð að sú beiðni styðjist við neinn lagagrundvöll en þess utan, og sem fram hefur komið í fyrri erindum, þá varð, eins og liggur í hlutarins eðli, er kom til fækkunar starfsfólks að taka mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV á umræddu sviði, enda þótt ástæður uppsagnarinnar væru ekki með hvaða hætti [stefnandi] hefur rækt starf sitt sérstaklega.“

Í framangreindri fullyrðingu felst að mati stefnanda ekki málefnaleg ástæða enda væri slíkt skilyrði innantómt og með öllu haldlaust ef uppfylla mætti ákvæði 12. gr. laga nr. 23/2013 með slíkum alhæfingum. Ljóst er að stefnandi hafði við uppsögn margfalda starfsreynslu samanborið við aðra íþróttafréttamenn og uppfyllti auk þess ýmis önnur hæfisviðmið. Hafi uppsögnin raunverulega tekið mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna störfum íþróttafréttamanna hefði stefnda verið í lófa lagið að rökstyðja mat sitt með hlutlægum hætti. Þar sem slíkar málefnalegar skýringar hafi ekki borist hlýtur stefnandi að telja að valið hafi hreinlega tekið mið af geðþóttamati íþróttastjóra stefnda á því „hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV“, án þess að það hafi verið útskýrt nánar. Í þessu samhengi skal athugað að þegar gripið var til uppsagna hafði stefnanda verið skipað í lægstu röð íþróttafréttamanna og ekki notið trausts yfirmanna sinna, hvorki mannauðsstjóra né íþróttastjóra, sem báðar virðast hafa komið að ákvarðanatökunni.

Ákvörðun um uppsögn framkvæmd með ólögmætum hætti

Í öðru lagi er á því byggt að ákvörðun þess efnis að gripið verði til hópuppsagna sé mikils háttar og geti ekki fallið undir daglegan rekstur. Stefnandi telur því óhjákvæmilegt að slíka ákvörðun hafi orðið að taka af félagsstjórn stefnda.

Samkvæmt 5.2.2. gr. samþykkta RÚV ohf., sé það hlutverk stjórnar félagsins að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur. Þá kemur fram í 5.3. gr. samþykktanna að útvarpsstjóri sé framkvæmdastjóri félagsins sem hafi með höndum daglegan rekstur þess. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög tekur hinn daglegi rekstur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Við mat á því hvað teljist til óvenjulegra eða mikils háttar ráðstafana beri að taka mið af tilgangi félagsins, umfangi og efnahagsstöðu og verður það mat ekki falið framkvæmdastjóra félagsins. Þá getur stjórn stefnda ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar og breytir þar engu þótt hluthafafundur kunni að hafa samþykkt slíkt framsal, sbr. ítrekuð dómafordæmi Hæstaréttar sem rakin verða í munnlegum málflutningi.

Í aðdraganda málsóknarinnar óskaði stefnandi eftir upplýsingum um málsmeðferð og aðdraganda uppsagna, þá sérstaklega endurriti úr fundargerð stjórnar. Við því var ekki orðið þrátt fyrir ítrekun, og hefur stefnandi því ástæðu til að ætla að stjórn stefnda hafi ekki tekið ákvörðun um hópuppsögnina.

Telur stefnandi að gera verði þá kröfu til stefnda, sem leiðandi fjölmiðils og opinbers hlutafélags, að honum hafi borið skylda að framfylgja þeim reglum sem hann sjálfur hafi samþykkt að vinna eftir og er ætlað að tryggja að vandað sé til verka. Telur stefnandi ljóst að útvarpsstjóra hafi ekki verið heimilt að standa að uppsögn stefnda án þess að samþykki meirihluta stjórnar hafi legið fyrir og því hafi uppsögn stefnanda verið framkvæmd með ólögmætum hætti. Þegar af þeirri ástæðu að um ólögmæta framkvæmd sé að ræða myndar ákvörðunin bótarétt til handa stefnanda þessa máls.

Um bótaskyldu og fjárhæð bóta

Stefnandi byggir á því að stefndi beri fébótaábyrgð á saknæmri háttsemi og aðgerðaleysi starfsmanna sinna á grundvelli meginreglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda. Telur stefnandi ljóst að orsakatengsl séu á milli tjónsins og hinnar bótaskyldu háttsemi sem er lýst hér að framan. Meginreglan sé sú að sá sem valdi tjóni eigi að greiða fullar bætur fyrir tjón sem leiði af athöfnum hans og athafnaleysi. Af ofangreindu sé ljóst að stefndi hafi hegðað sér með gáleysislegum hætti auk þess sem hann beri ábyrgð á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna. Þá sé ljóst með tilliti til ofangreinds að tjónið sé sennileg afleiðing af saknæmri háttsemi stefnda. Stefndi beri því ekki aðeins ábyrgð á því fjártjóni sem stefnandi beið vegna ólögmætrar uppsagnar, heldur einnig álitshnekki og heilsutjóni vegna viðvarandi eineltis og ítrekaðra meingerða með ólögmætu framferði og viðbragðsleysi starfsmanna sinna, skorti á lögbundnum viðbragðsáætlunum og annarri vanvirðingu.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína á hendur stefnda um skaðabætur á eftirfarandi hátt að skaðabætur vegna fjártjóns nemi 6.324.768 kr. en krafa hans um miskabætur 4.000.000 kr. Samtals nemi krafa stefnaanda því 10.324.768 kr.

Stefnandi skýrir skaðabótakröfu sína vegna fjártjóns þannig að hún svari til launa í 24 mánuði, miðað við föst mánaðarlaun. Samkvæmt kjarasamningi Félags fréttamanna og stefnda nemi föst mánaðarlaun eftir 3 ára samfellt starf 360.754 krónum á mánuði frá og með 1. febrúar 2014. Að teknu tilliti til greiðslu launatengdra gjalda nemi mánaðarlaun þá 263.532 krónum.

Við útreikninga kveðst stefnandi líta framhjá greiðslum vegna vaktaálags og yfirvinnu, sem gera megi ráð fyrir að hafi orðið nokkrar. Samtals nemi þessi kröfuliður því 6.324.768 krónum. Stefnandi telur bótakröfu sína hóflega. Við mat á fjártjóni stefnanda verði m.a. að líta til þess langa og farsæla starfsferils sem hann átti hjá stefnda. Stefnandi hafi verið 51 árs þegar honum var sagt upp störfum hjá stefnda þar sem hann hafði starfað við góðan orðstír í 22 ár og mátti að óbreyttu gera ráð fyrir að fá að gegna starfi sínu sem íþróttafréttamaður áfram, nema málefnaleg sjónarmið kæmu til með að réttlæta uppsögn sem kæmi svo til framkvæmda með lögmætum hætti. Ljóst er að atvinnumöguleikar stefnanda séu takmarkaðir hér á landi, sérstaklega þegar kemur að störfum þar sem sérþekking og starfsreynsla hans komi að notum. Stefnandi hafi frá uppsögn ekki haft erindi sem erfiði með starfsumsóknum til annarra miðla, enda hafi starf hans verið opinbert og eðlilegt að aðrir fjölmiðlar telji að einhverjar réttmætar ástæður hafi leitt til stöðulækkunar og uppsagnar.

Miskabætur telur stefnandi hæfilega metnar kr. 4.000.000,- með vísan til afleiðinga og dómvenju í sambærilegum málum. Stefnandi rökstyður kröfu um miskabætur úr hendi stefnda með því að hann hafi mátt þola fjölmörg brot og viðvarandi einelti á vinnustað. Við ákvörðun miskabóta verði til þess að líta að vinnan sé mjög stór þáttur í lífi einstaklinga. Stefnandi hafi í raun aldrei átt sér viðreisnar von eftir fund mannauðsstjóra og verði að líta til þess langa tíma sem hið ólögmæta ástand var látið viðgangast. Þá hafi stefnandi komið fyrir á sjónvarpsskjá landsmanna í rúma tvo áratugi og skyndilegt brotthvarf hans hafi ekki farið framhjá nokkrum sem fylgst hafi með íþróttum. Telur stefnandi sérstaklega íþyngjandi hvað miska varðar að verða fyrir jaðarsetningu og ólögmætum brottrekstri úr starfi sem er jafn opinbert og starf hans var þar sem engin leið sé fyrir hann að leyna því sem fram fór. Þannig hafi stefnandi mátt þola ítrekaðar spurningar frá vinum og vandamönnum svo sem ókunnugum um hvers vegna hans nyti ekki lengur við. Þær spurningar reyndust stefnanda mjög íþyngjandi sem upplifði að eineltið færi fram fyrir opnum tjöldum, án þess að hann gæti varið sig.

Stefnandi bendir enn fremur á að hann hafi sinnt mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir starfsstéttina og hafði flekklausan starfsferil, því hafi skapast miklar umræður meðal samstarfsmanna og fréttamanna annarra miðla um ástæður brotthvarfsins enda öllum fullkunnugt um ástríðu hans til íþróttafréttamennsku. Stefnandi hafi skyndilega verið farinn að kvíða fyrir því að mæta í vinnu sem áður veitti honum lífsfyllingu og átti hug hans allan.

Varakrafa stefnanda lýtur að því að fjártjón hans verði metið af dóminum að álitum út frá heildarmati á öllum atvikum og aðstæðum.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra meginreglna kröfuréttar og skaðabótaréttar, sbr. skaðabótalög nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerða settum á grundvelli þeirra ásamt tilskipunum ESB á sviði vinnuréttar, þá einkum tilskipunar nr. 89/391/EBE. Kröfur um vexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti úr hendi stefnda.

Málsástæður stefnda.

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. Stefndi byggir jafnframt sjálfstætt á því að stefnandi hafi glatað hvers konar kröfum sökum tómlætis, en það var ekki fyrr en löngu eftir starfslok sem stefnandi hafði uppi formlegar ávirðingar um meint einelti í sinn garð.

Einelti, o.fl.

Stefndi bendir á að málatilbúnaður stefnanda á hendur stefnda sé öðrum þræði reistur á því að stefnandi hafi verið lagður í einelti í störfum sínum hjá stefnda. Þá hafi framkoma stefnda, þ.e. starfsmanna hans, gagnvart stefnanda, óháð því hvort háttsemin teljist til eineltis í skilningi þeirra laga og reglna sem stefnandi vísar til, falið í sér ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefnandi til ýmissa fleiri atriða, þ.m.t. ætlaðra skyldna stefnda sem vinnuveitanda. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði í heild sinni, svo og um einstök atriði.

Stefndi mótmælir því meðal annars sem röngu, og jafnframt ósönnuðu, að háttsemi stefnda og/eða starfsmanna hans, falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Stefndi vísar til þess að samkvæmt greininni var með einelti átt við ámælisverða eða síendurtekna ótilhlýðilega háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun, sem væri til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beindist að. Þetta nái þó ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaáreksturs sem kynni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna, enda leiddi slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til fyrrgreindrar háttsemi. Stefndi telur að þegar af þessum ástæðum sé málatilbúnaður stefnanda haldlaus.

Að sama skapi telur stefndi ljóst, að hvað sem líður ætluðum skyldum hans að lögum (þ.m.t. samkvæmt reglugerðum) „til að gæta fyllsta öryggis á vinnustað“, „til athafna vegna ásakana um einelti á vinnustað“ og að gera „skriflega áætlun um öryggi og áhættumat á vinnustað“, þá geti meint athafnaleysi í þeim efnum, eitt og sér ekki megnað því að um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993 eða skaðabótaskylda háttsemi sé að ræða. Eins er því mótmælt að slíkt réttlæti að sönnunarbyrðinni verði snúið við í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars og skaðabótaréttar. Í þessu sambandi skal og ítrekað að leitast var við að bregðast við þeim athugasemdum sem stefnandi færði fram, og rétt að minna á að stefnandi sjálfur viðurkennir að hafa ekki sett fram frekari athugasemdir eftir þann tíma, og raunar ekki fyrr en talsvert eftir að honum var sagt upp störfum. Ítrekar stefndi jafnframt mótmæli sín við því að stefnandi hafi verið nauðbeygður til að skrifa undir minnisblað 15. september 2010.

Stefndi vísar hér jafnframt til þess að honum var ekki ljóst að stefnandi liti svo á að hann væri lagður í einelti, hafi sú verið raunin á annað borð, heldur var talið, eftir fundi í aðdraganda þess að minnisblaðið var gert, að um samskiptavanda milli starfsmanna væri að ræða.

Þá bendir stefndi á að í lögskýringargögnum með b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þurfi þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð, og í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins. Hvað sem líður háttsemi stefnda og/eða starfsmanna hans, þ.m.t. meintu athafnaleysi, telur stefndi hana ekki slíka að miskabótaábyrgð verði felld á stefnda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Virðist og raunar ekki á því byggt í stefnu að stefndi, eða starfsmenn hans, hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi, svo sem nauðsynlegt hlýtur að teljast.

Lög nr. 23/2013, o.fl.

Stefnandi kveðst einnig reisa dómkröfur sínar á því að uppsögn hans hafi brotið gegn lögum nr. 23/2013, sem og „að framkvæmd uppsagnarinnar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995 um hlutafélög og samþykktir Ríkisútvarpsins“. Kveðst stefnandi telja að „allir þessir annmarkar leiði til þess að uppsögnin sé ólögmæt hver um sig, en sérstaklega þegar þeir eru metnir til samans“. Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði í heild sinni sem og um einstök atriði.

Stefndi vísar í þessu sambandi til ákvæðis 12. gr. laga nr. 23/2013. Telur stefndi að með ákvæðinu sé leitast við að tryggja, sbr. bréf lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda frá 17. desember 2014, að starfsmönnum fréttastofu og dagskrárgerðarmönnum sé ekki sagt upp vegna ástæðna er ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Engar slíkar ástæður bjuggu að baki uppsögn stefnanda, sem var íþróttafréttamaður, svo sem fram kom í fyrrnefndu uppsagnarbréfi, heldur neyddist stefndi til að fækka starfsmönnum vegna tekjuskerðingar. Með öðrum orðum, þá hafi þurft að leggja niður stöður. Verði því ekki séð að uppsögn stefnanda gangi gegn verndarhagsmunum nefnds ákvæðis. Stefndi telur að þegar af þeim ástæðum stoði ekki fyrir stefnanda að vísa til umrædds ákvæðis í fyrirliggjandi samhengi.

Stefndi telur enn fremur rétt að taka fram að þó svo að ástæður uppsagnar stefnanda hafi ekki varðað „með hvaða hætti [stefnandi hafði] rækt starf sitt“, þá þurfti stefndi eðli málsins samkvæmt að velja og hafna, þ.m.t. að tryggja starfhæfa heild, og ósannað, en þau vandamál sem lutu að stefnanda og vísað er til í tölvupósti til hans 26. mars 2010 og í minnisblaði 15. september 2010 hafi enn verið til staðar. Því hafi sú ákvörðun að segja stefnanda upp störfum, frekar en öðrum, ekki verið ómálefnaleg. Stefndi kveður það einnig vera rangt að fyrrverandi forstöðumaður íþróttadeildar og mannauðsstjóri hafi tekið ákvörðun um uppsögn stefnanda.

Lög nr. 2/1995, um hlutafélög.

Stefndi vísar einnig til þess að stefnandi virðist í öðru lagi byggja á því að uppsögn hans hafi brotið gegn lögum nr. 2/1995 þar sem hún, þ.m.t. hópuppsögnin, hafi ekki verið ákvörðuð af stjórn félagsins.

Stefndi hafnar því að sú regla verði leidd af lögum nr. 2/1995, þ.m.t. í fyrirliggjandi samhengi, að stjórn félagsins hafi þurft að taka ákvörðun um uppsagnir starfsmanna, þ.m.t. stefnanda. Telur stefndi að slík ákvörðun rúmist þvert á móti innan starfsheimilda framkvæmdastjóra (útvarpsstjóra), og annarra yfirmanna. Í þessu samhengi sé jafnframt að því að gæta að þó svo að ákvörðunin sé ekki tekin af stjórn félagsins þá sé stjórnin eðli málsins samkvæmt ekki í tómarúmi gagnvart aðhaldsaðgerðum og ákvörðunum sem þessum og ekkert sem bendi til að svo hafi verið. Stefndi bendir enn fremur á í þessu samhengi, að jafnvel þótt talið væri, þvert gegn málatilbúnaði stefnda, að stjórn félagsins hafi borið að taka ákvörðun um uppsögn stefnanda, þá getur slíkt ekki skapað stefnanda kröfurétt, þ.m.t. skaðabótarétt, gagnvart stefnda, meðal annars með hliðsjón af verndarhagsmunum þeim sem búa að baki ákvæðum laga nr. 2/1995.

Með sömu rökum og að ofan, að breyttu breytanda, hafnar stefndi því að uppsögn stefnanda brjóti gegn samþykkum stefnda og, jafnvel þótt svo yrði talið, þá geti slíkt ekki skapað stefnanda kröfurétt, þ.m.t. skaðabótarétt, gagnvart stefnda, meðal annars með hliðsjón af verndarhagsmunum þeim sem búa að baki ákvæðum laga nr. 2/1995, þ.m.t. reglum um samþykktir félaga.

Fjárkröfur

Stefndi telur að skaðabótakrafa stefnanda sé tvíþætt. Annars vegar, sbr. aðalkröfu, sé krafist skaðabóta vegna meints fjártjóns, sem eru sagðar svara til launa stefnanda í 24 mánuði, miðað við föst mánaðarlaun. Hins vegar sé krafist miskabóta. Þá er til vara krafist bóta að álitum.

Varðandi kröfur stefnanda um skaðabætur vegna meints fjártjóns, þá mótmælir stefndi fjárhæð skaðabóta, verði á annað borð talið að stefnandi eigi skaðabótakröfur á hendur stefnda. Stefndi telur að með hliðsjón af dómaframkvæmd verði slíkar bætur aldrei verið ákvarðaðar öðruvísi en að álitum, sbr. varakröfu stefnanda, þar sem taka þurfi tillit til ýmissa þátta, svo sem að samningsbundinn uppsagnarfrestur stefnanda var 3 mánuðir og að hann fékk laun á uppsagnarfresti. Þá hafi stefnanda, að teknu tilliti til aldurs og menntunar, átt að vera í lófa lagið að finna sér nýtt starf, að því marki sem það hefði ekki þegar orðið raunin. Eins þyrfti eðli málsins samkvæmt að liggja fyrir hvort og þá hvaða tekjur stefnandi hefði haft eftir starfslok sín hjá stefnda, eða eftir atvikum bætur, svo sem atvinnuleysisbætur, og skorað á hann að leggja fram viðhlítandi upplýsingar og skýringar í því sambandi. Telur stefndi ljóst þegar horft er til þessara þátta að krafa stefnanda sé úr öllu hófi.

Með sama hætti verði að mótmæla fjárhæð miskabóta alveg sérstaklega, sé á annað borð fallist á að skilyrði séu til að dæma miskabætur. Þannig verði ekki ráðið með hliðsjón af dómaframkvæmd og dómvenju, að skaðabætur vegna ólögmætrar meingerðar í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993, séu nándar nærri þeirrar fjárhæðar sem stefnandi krefst, þ.m.t. að virtum öllum atvikum máls. Til hliðsjónar, bendir stefndi á ákvörðun miskabóta vegna eineltis í dómi Hæstaréttar 18. september 2014 í máli nr. 64/2014. Þá vill stefndi taka fram, án þess að gert sé lítið úr því áfalli sem uppsögn getur fylgt, að því fari fjarri að stefnanda hafi einum verið sagt upp störfum hjá stefnda, heldur var uppsögnin liður í hópuppsögn og ástæðan ekki tengd við rækslu starfa stefnanda, og sem áður segir.

Stefndi telur að stefnandi rökstyðji ekki sérstaklega kröfur sínar um vexti og dráttarvexti, og þær kröfur séu því vanreifaðar. Hvað sem öðru líður, mótmælir stefndi einnig vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda, og þá sér í lagi upphafstíma dráttarvaxta. Telur stefndi, að upphafstími dráttarvaxta eigi að miðast við dómsuppsögu, en að öðrum kosti mánuði frá þingfestingu málsins.

Um lagarök vísar stefndi meðal annars til almennra reglna vinnu- og skaðabótaréttar, laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, laga nr. 2/1995 um hlutafélög, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og almennra reglna skaðabóta- og vinnuréttar. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV. Niðurstaða

1. Afmörkun ágreinings

Stefnandi, Adolf Ingi Erlingsson, hefur í máli þessi krafist þess að stefndi RÚV ohf. greiði sér samtals 10.324.758 í skaða- og miskabætur. Krafa hans byggist annars vegar á því að stefndi RÚV ohf. hafi brugðist almennum skyldum vinnuveitanda sem leiddar verði af þágildandi lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, um að gæta fyllsta öryggis á vinnustað og útbúa sérstaka áætlun um áhættumat og öryggi á vinnustað, og jafnframt þeirri sérstöku skyldu að bregðast við sérstaklega vegna kvörtunar hans yfir einelti yfirmanns síns. Hins vegar byggist krafa stefnanda á því að uppsögn hans hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 23/2013.

Stefnandi hefur í þessu sambandi vísað þess að í 4. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, hafi verið lögð sú skylda á atvinnurekanda gera starfsfólki ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi væri óheimil á vinnustað. Atvinnurekanda hafi samkvæmt fyrrgreindu reglugerðarákvæði borið skylda til að láta slíka háttsemi á vinnustað ekki viðgangast og leitast við að koma í veg fyrir ótilhlýðilega háttsemi sem hann fær vitneskju um. Í 7. gr. reglugerðarinnar hafi síðan verið vikið sérstaklega að viðbragðsskyldu atvinnurekanda þegar fram hefði komið ábending eða grunur um einelti á vinnustað. Þar hafi sagt að atvinnurekandi skyldi bregðast við eins fljótt og kostur væri og meta aðstæður í samvinnu við vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins og utanaðkomandi ráðgjafa, ef með þyrfti. Í niðurlagi ákvæðisins hafi síðan verið sérstaklega tekið fram að grípa yrði til viðeigandi ráðstafana og fylgja því eftir að einelti endurtæki sig ekki á vinnustaðnum.

Þegar leyst er úr því hvort unnt sé að fallast á þann málatilbúnað stefnanda að eigi rétt til skaðabóta vegna vanrækslu og athafnaleysis stefnda RÚV ohf. á því að tryggja honum viðunandi starfsumhverfi í samræmi við kröfur laga nr. 46/1980 og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett hafa verið á grundvelli þeirra laga verður að hafa í huga þær kröfur sem gerðar eru til tjónþola samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins. Samkvæmt þeim reglum er það forsenda skaðabótaskyldu að tjónþoli sýni fram á að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað, auk sem hann verður að færa sönnur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna háttseminnar.

Í því sambandi verður enn fremur ekki horft fram hjá því að stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn í þessu máli um þau áhrif sem starfsumhverfi hans hjá stefnda hafði á heilsu hans og líðan á þessum tíma. Að sama skapi er ljóst að stefnandi rekur starfsmissi sinn hjá stefnda og fjártjón sitt í því sambandi til eineltis sem hann telur sig hafa sætt af hálfu starfsmanns stefnda, svo og því sem hann lýsir sem vanrækslu og athafnaleysi stefnda í því að koma í veg fyrir að einelti ætti sér stað á vinnustaðnum og taka með viðunandi hætti á kvörtun hans af því tilefni.

Ekki er því unnt að ráða annað af málatilbúnaði stefnanda en að bótakröfur hans vegna vanrækslu og athafnaleysis stefnda standi í nánum efnislegum tengslum við þann málatilbúnað að stefnandi hafi sætt einelti af hálfu þáverandi yfirmanns síns í starfi og að framangreind atriði hafi meðal annars leitt til starfsmissis hans. Þá byggir stefnandi á því að sú framkoma sem hann sætti af hálfu yfirmanns síns hafi verið til þess fallin að gera lítið úr störfum hans, varpa rýrð á starfsheiður hans og persónu, sem hafi falið í sér ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, óháð því hvort hún falli undir skilgreiningu eineltis samkvæmt þágildandi reglugerð nr. 1000/2004.

Þar sem bótakröfur stefnanda byggja samkvæmt framansögðu ýmist á því að hann hafi sætt „einelti“ í skilningi reglugerðar nr. 1000/2004 eða háttsemi sem fellur að öðru leyti undir 26. gr. skaðabótalaga er að mati dómsins nauðsynlegt að taka fyrst afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti atvik málsins falli undir ákvæði reglugerðarinnar eða, eftir atvikum, 26. gr. skaðabótalaga.

2. Hugtakið einelti

Samkvæmt e-lið 38. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. 1. mgr. 38. gr., setur ráðherra reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins um, hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, svo sem um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Á grundvelli m.a. þessarar heimildar setti ráðherra reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar var markmiðið með reglugerðinni það að innan vinnustaða yrði stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti á vinnustöðum.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004, var einelti skilgreint sem:

 „Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“

Í ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar er einnig tekið fram að með „einelti“ sé ekki átt við „skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur“ sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna „enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi“ sem lýst er í ákvæðinu.

Þegar litið er til gagna málsins og framburða vitna fyrir dómi verður ekki um villst að mati dómsins að samskiptaörðugleikar voru á milli stefnanda og næsta yfirmanns hans, Kristínar Hálfdánardóttur. Um það atriði má vísa til framburðar vitnanna Hjartar Júlíusar Hjartarsonar, Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar og Óðins Jónssonar.

Framburður vitnanna er hins vegar á nokkuð mismunandi veg um ástæður þessara samstarfsörðugleika og það hvort Adolf Ingi hafi sætt annarri meðferð af hálfu Kristínar en aðrir samstarfsmenn hans. Þannig sagði í vitnisburði Óðins Jónssonar að hann hefði ekki orðið þess var að Kristín hefði verið öðruvísi í garð Adolfs Inga en annarra undirmanna og að árekstrar hafi orðið á milli Kristínar og starfsfólks íþróttadeildar þar sem Kristín var sett í starf íþróttastjóra án þess að hafa starfað áður í íþróttadeild. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, samstarfsmaður stefnanda, lýsti atvikum þannig að stefnandi og Kristín hefðu „ekki átt skap saman“ en hann treysti sér ekki til að fullyrða að þar hefði verið um einelti að ræða. Vitnið Hjörtur Júlíus Hjartarson bar að Kristín hefði sjaldan verið ánægð með störf Adolfs og ekkert verið sérlega vel við hann, en það mat væri fremur byggt á tilfinningu hans en einstökum dæmum.

Stefnandi hefur í máli þessu haldið því fram að sú háttsemi Kristínar að fela öðrum en honum að annast lýsingar á íþróttakappleikjum og færa hann til af starfsstöð sinni hafi falið í sér einelti í skilgreiningu 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1000/2004, eða eftir atvikum ólögmæta meingerð í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem stefndi beri ábyrgð á.

Að mati dómsins verður ekki séð að þessi atvik geti sem slík talist til eineltis í skilgreiningu 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 eða ólögmætrar meingerðar í skilningi b-liðar 26. gr. laga nr. 50/1993. Í því sambandi er rétt að benda á að í ákvæði 3. gr. er sérstaklega tiltekið að einelti taki ekki til skoðanaágreinings eða hagsmunaárekstrar sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns. Auk þess verður almennt að ganga út frá því að stjórnendur hafi ákveðið svigrúm um hvernig þeir skipta verkefnum milli einstakra starfsmanna. Eðli málsins samkvæmt kunna ákvarðanir stjórnenda um verkaskiptingu að vekja misjöfn viðbrögð meðal starfsmanna.

Að mati dómsins þykir hins vegar nægilega sýnt fram á, m.a. með tilliti til vitnisburðar Hallgríms Indriðasonar og Láru Ómarsdóttur að Kristín Hálfdánardóttur, næsti yfirmaður stefnanda hjá RÚV ohf. hafi fellt niður vaktaálagsgreiðslur til hans í andstöðu við munnlegt samkomulag þeirra í milli um að hann skyldi halda þeim kjörum þrátt fyrir að hann tæki að sér önnur verkefni á vegum stefnda. Jafnframt liggur fyrir að í kjölfar þess að stefnandi bar fram kvörtun til Óðins Jónssonar, þáverandi fréttastjóra, yfir því sem hann lýsti sem einelti Kristínar, og sú kvörtun var send til meðferðar Berglindar Bergþórsdóttur, þáverandi mannauðsstjóra RÚV ohf., þá var stefnanda gert að undirrita minnisblað þar sem hann samþykkti að bæta úr tilteknum ávirðingum sem Kristín hafði borið á hann, þrátt fyrir að hvorki Óðinn né Berglind hefðu kannað frekar sannleiksgildi eða efnislegar forsendur þeirra ávirðinga sem Kristín bar á hann, svo og umkvartana hans um einelti, áður en þau afhentu honum minnisblað til undirritunar um atriði sem hann þyrfti að bæta. Að sama skapi verður ekki séð að þáverandi mannauðsstjóri og fréttastjóri RÚV ohf. hafi leitað upplýsinga frá öðrum um ástæður og orsakir samstarfsörðugleika Kristínar og Adolfs Inga.

Telja verður að sú framganga ofangreindra starfsmanna RÚV ohf. að standa ekki við gert samkomulag við um að Adolf Ingi héldi vaktaálagsgreiðslum og hirða ekki frekar um að kanna sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem yfirmaður hans bar á hann fyrir undirritun minnisblaðs hafi verið til þess fallin gera lítið úr honum. Þessi tilgreinda háttsemi fellur því undir skilgreiningu eineltis í skilningi þágildandi 3. gr. nr. 1000/2004. Í því sambandi verður að leggja áherslu á að samkvæmt skilgreiningu á einelti í 3. gr. eins og hún var orðuð þegar atvik málsins áttu sér stað, var ekki áskilið að háttsemi væri endurtekin.

Að mati dómsins verður ekki séð að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að tengsl hafi verið á milli ofangreindrar háttsemi starfsmanna stefndu og starfsmissis hans og að framkoman hafi þar með leitt til fjártjóns fyrir stefnanda með þeim hætti sem rakið er í stefnu. Hins vegar fellst dómurinn á það með stefnanda að sú háttsemi starfsmanna stefndu sem fyrr er lýst hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru eða persónu stefnanda þannig að það hafi valdið honum miska í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður þá að hafa í huga að stefnandi hafði starfað í rúmlega 22 ár hjá stefnanda.

Í samræmi við ákvæðið hefur stefnandi því rétt til bóta sem hann hefur ekki glatað sökum tómlætis. Verða bætur ákveðnar 500.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

3. Uppsögn stefnanda

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er Ríkisútvarpið sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. sömu laga gerir ráðherra samning við Ríkisútvarpið um fjölmiðlun í almannaþágu til fjögurra ára í senn. Í samningnum skal nánar kveðið á um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar samkvæmt 1. og 3. gr. laganna, en auk þess skal í samningnum kveðið á um fjármögnun fjölmiðlunar í almannaþágu á öllu samningstímabilinu. 

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 er kveðið á um að útvarpsstjóri sé framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Er útvarpsstjóri jafnframt forstöðumaður í skilningi 13. tölul. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laganna ber forstöðumaður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Í máli þessu er óumdeilt að þegar ákvarðanir voru teknar um hópuppsagnir af hálfu stefnda haustið 2013 lá fyrir að umtalsverð hagræðing þurfti að fara fram í starfsemi RÚV ohf. vegna fjárhagsstöðu félagsins. Í samræmi við hlutverk útvarpsstjóra og skyldur hans samkvæmt lögum nr. 23/2013 og lögum nr. 70/1996 er jafnframt ljóst að það var útvarpsstjóra að ákveða, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur, til hvaða aðgerða þurfti að grípa til þess að hagræða í rekstrinum.

Þegar tekin er afstaða til þess hvaða svigrúm útvarpsstjóri og aðrir stjórnendur stefnda höfðu í þessu sambandi verður þó að horfa til þess að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 bar útvarpsstjóra að setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins, í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins, og skilyrði áminningar og starfsloka. Í 1. mgr. 12. gr. segir að í reglunum skuli m.a. kveðið á um að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri starfsmanns. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að telji starfsmaður ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar eigi hann rétt á skriflegri skýringu. 

Í athugasemdum við ákvæði 12. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 23/2013 kemur fram að í greininni, sem sé nýmæli, sé kveðið á um réttindi og skyldur starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna. Um þetta atriði segir síðan:

„Um viðkomandi starfsmenn gilda ákveðin sérsjónarmið vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar þeirra. Ástæðan er sú að talið er nauðsynlegt að veita þeim sem vinna við að veita „lýðræðislegt aðhald“, vernd umfram aðra starfsmenn. Má vísa til þess að annars staðar á Norðurlöndunum njóta blaða- og fréttamenn aukinnar verndar í kjarasamningum sínum. Í Austurríki eru samsvarandi lagaákvæði til að vernda frétta- og dagskrárgerðarmenn ríkisfjölmiðilsins. Með greininni er komið til móts við framangreind sjónarmið og mælt fyrir um aukið starfsöryggi þessara starfsmanna Ríkisútvarpsins. Í 1. mgr. segir að útvarpsstjóri skuli í samráði við starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins setja starfsreglur fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins og skilyrði áminningar og starfsloka. Jafnframt er gerður sá áskilnaður samkvæmt ákvæðinu að málefnalegar ástæður þurfi ætíð að liggja að baki brottrekstri framangreindra starfsmanna.“

Í athugasemdum við ákvæðið er einnig rakið að við fyrri meðferð frumvarpsins á 140. löggjafarþingi hafi komið fram athugasemdir við ákvæðið, m.a. um hugtakanotkun milli texta ákvæðisins og athugasemda við greinina, auk þess sem það fyrirkomulag að útvarpsstjóri setti starfsreglur einhliða hefði verið gagnrýnt. Að tillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar var því lagt til að umræddar reglur yrðu settar í samráði við starfsmenn og samtök þeirra, með vísan í ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. 

Um rétt starfsmanns til skriflegra skýringa samkvæmt ákvæði 2. mgr. 12. gr. segir í athugasemdum við ákvæðið að „viðkomandi starfsmaður eigi rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögn ef hann telur ástæður brottrekstrar ekki málefnalegar.“ Þar kemur hins vegar fram að „slík skýring [sé] valkvæð fyrir viðkomandi starfsmann þar sem það [geti] verið mjög íþyngjandi fyrir hann að hafa neikvæða skýringu í farteskinu þegar hann sækir um starf síðar meir. Einnig [kunni] að vera að starfsmaður geri sér grein fyrir afglöpum sínum í starfi og þurfi því ekki á skýringu að halda.“

Í máli þessi er ekki ágreiningur um það að útvarpsstjóri setti engar reglur um rétt starfsmanna fréttastofu og dagskrárgerðarmanna stefnda með þeim hætti sem áskilið er í 1. mgr. 12. gr. Að mati dómsins breytir sú staðreynd engu um þá lagalegu skyldu stefnda færa fram málefnalegar ástæður fyrir uppsögn þessara starfsmanna og samsvarandi rétt starfsmannanna að því leyti. Enn fremur er ljóst að samkvæmt ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013 eiga starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn hjá RÚV ohf. rétt á því að fá skriflegan rökstuðningi við uppsögn í starfi, ef þeir óska á annað borð eftir slíkum rökstuðningi.

Í ákvæðinu er ekki sett fram hvert efni slíks rökstuðnings á að vera. Þegar litið er til þeirra fyrirmæla 1. mgr. 12. gr. að málefnalegar ástæður verði að liggja að baki uppsögn þeirra starfsmanna sem þar eru tilgreindir verður á hinn bóginn að telja ljóst að markmiðið með því að leggja þá skyldu á RÚV ohf. að veita rökstuðning er að starfsmenn geti staðreynt hvaða ástæður liggja að baki uppsögn þeirra og hvort þær hafi í reynd verið málefnalegar.

Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi óskaði skriflega eftir skriflegum skýringum á uppsögn sinni með bréfi, dags. 6. desember 2013, enda hefur stefndi ekki andmælt staðhæfingu stefnanda um að slíkt bréf hafi verið sent. Eins og áður er rakið var þessi beiðni ítrekuð með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 3. september 2014 en skýringar voru ekki veittar fyrr en með bréfi lögmanns stefnda, dags. 17. desember 2014. Þar sagði um ástæður uppsagnarinnar:

 „Varðandi uppsögn umbj. yðar þá liggur fyrir, og svo sem fram kom í uppsagnarbréfi til hans, að RÚV neyddist „til að fækka starfsmönnum sínum vegna tekjuskerðingar“. Var uppsögnin því gerð í hagræðingarskyni, samhliða því að fjölmörgum öðrum starfsmönnum var sagt upp, og öðrum skýringum umbj. yðar um ástæður uppsagnarinnar mótmælt. Verður hvorki ráðið að slík ástæða uppsagnar geti talist ómálefnaleg í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 23/2013, eigi ákvæðið á annað borð við um umbj. yðar, né að ákvæðið, rétt lögskýrt, feli í sér sambærilegar kröfur til niðurlagningu starfa og þegar opinberir starfsmenn eru annars vegar, svo sem helst er að skilja að umbj. yðar telji. Þvert á móti sé ákvæðinu ætlað að sporna við því að starfsmönnum fréttastofu og dagskrárgerðarmönnum sé sagt upp vegna ástæðna sem ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla, en engar slíkar ástæður bjuggu að baki uppsögn umbjóðanda yðar. Þá er því líka að gæta að þótt í uppsagnarbréfi RÚV komi fram að ástæður uppsagnarinnar séu ekki „með hvaða hætti [umbj. yðar] hefur rækt starf þitt“ þá fær það því ekki breytt, og svo sem liggur í eðli málsins, að er kom til fækkunar starfsfólks varð RÚV að taka mið af því hverjir væru best fallnir til að gegna áfram störfum fyrir RÚV á umræddu sviði.“

Að mati dómsins er ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að ákvæði 1. mgr. 12. gr. feli einungis í sér bann við að starfsmönnum fréttastofu RÚV ohf. og dagskrárgerðarmönnum sé sagt upp vegna ástæðna sem ganga gegn grunnskyldum þeirra sem fjölmiðlamanna, svo sem að standa vörð um tjáningarfrelsi, frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Ljóst er að ákvæði 1. mgr. 12. gr. leggur samkvæmt orðalagi sínu þá skyldu á stefnda að segja ekki upp þessum tilteknu starfsmönnum nema málefnalegar ástæður liggi að baki því. Þrátt fyrir að sjónarmið að baki ákvæðinu tengist augljóslega því hlutverki starfsmanna fréttastofu og starfsmanna að veita lýðræðislegt aðhald og þörf þeirra á sérstakri vernd gegn uppsögnum í því sambandi eru engar vísbendingar í ákvæðum laga nr. 23/2013 eða lögskýringargögnunum að sú vernd einskorðist við aðstæður þar sem þeim er beinlínis sagt upp vegna þessa hlutverks eða þeir þurfi með öðrum hætti að sýna fram á að svo sé.

Dómurinn getur heldur ekki fallist á að þegar stefndi segir starfsmanni fréttastofu, líkt og stefnandi óumdeilanlega var, upp störfum sé það nægilegt fyrir stefnda samkvæmt 12. gr. laga nr. 23/2013 að vísa um það almennt til hagræðingarsjónarmiða. Þegar tekin er afstaða til þess hvaða kröfur gerðar verða til stefnda í þeim efnum er ekki óvarlegt að líta til þess hvernig dómstólar hafa skýrt reglur stjórnsýsluréttarins um að málefnalegar ástæður þurfi að liggja að baki uppsögn almennra ríkisstarfsmanna við hagræðingu, sjá hér t.d. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 26. janúar 2017 í máli nr. 331/2016 og frá 16. febrúar 2017 í máli nr. 376/2016. Af þessum dómum leiðir m.a. að fara verður fram ákveðin greining á því hvernig staðið skuli að hagræðingu og hvaða mat og sjónarmið séu lögð til grundvallar við val á því hverjum er sagt upp. 

Þegar horft er til þeirra skyldna stefnda samkvæmt 12. gr. laga nr. 23/2013 um að leggja málefnalegar ástæður til grundvallar uppsögn og veita skriflegar skýringar á henni þegar þess er óskað verður að telja að það standi stefnda almennt nær að færa sönnur á að uppsögn hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar verða samkvæmt framangreindu. Ljóst er að í gögnum málsins sem urðu til hjá stefnda þegar ákvörðun um uppsögn stefnanda var tekin kemur ekkert fram um það hvers vegna stefnandi var tekinn í hóp þeirra sem sagt var upp í nóvember 2013. Framburðum núverandi og fyrrverandi starfsmanna stefnda fyrir dómi ber enn fremur ekki saman um hverjir hefðu komið að þeirri ákvörðun að velja þá starfsmenn sem sagt var upp í nóvember 2013 og með hvaða hætti sú ákvörðun var tekin.

Enn fremur liggur fyrir að stefnandi óskaði eftir slíkum skýringum á uppsögn sinni 6. desember 2013 og að lögmaður hans ítrekaði þessa beiðni 3. september 2014 en lögmaður stefnda svaraði beiðninni sem fyrr segir 17. desember 2014, eða rúmlega ári eftir stefnandi setti upphaflega fram beiðni um skýringar.

Í ljósi þess sem að framan er rakið verður að telja að stefndi RÚV ohf. hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki því að segja Adolfi Inga Erlingssyni upp störfum þann 27. nóvember 2013. Af þeim sökum er fallist á það með stefnanda að við uppsögn hans hafi ekki verið gætt ákvæðis 12. gr. laga nr. 23/2013. Samkvæmt því var uppsögnin ólögmæt og á stefnandi því rétt til skaðabóta úr hendi stefnda.

Skaðabótakrafa stefnanda vegna fjártjóns nemur alls 6.322.768 kr. og samsvarar hún föstum mánaðarlaunum hans í 24 mánuði frá 1. febrúar 2014. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að starfslok hans hjá RÚV ohf. voru 28. febrúar 2014 að liðnum uppsagnarfresti, sbr. uppsagnarbréf, dags. 27. nóvember 2013.

Við ákvörðun bóta vegna fjártjóns ber að líta til þess að stefnandi var 51 árs þegar honum var vikið úr starfi og hefur reynst örðugt um vik að finna sér starf sem hæfir menntun hans og reynslu. Af skattframtölum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu verður ráðið hins vegar að stefnandi hafi haft alls 1.160.262 kr. í tekjur á árinu 2014 sem ekki stöfuðu frá stefnda RÚV ohf. og alls 3.745.205 á árinu 2015, en stefnandi hefur ekki lagt fram upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2016. Eins og skaðabótakrafa stefnanda er sett fram verður að mati dómsins að horfa til fyrirliggjandi upplýsinga um tekjur stefnanda við ákvörðun bóta vegna fjártjóns sem þykja hæfilega ákvarðaðar að álitum 1.200.000 kr.

Enn fremur verður að telja að sú framganga stefnda segja stefnanda upp eftir 22 ára starf án þess að leggja fullnægjandi grundvöll að þeirri ákvörðun í samræmi við 12. gr. laga nr. 23/2013 hafi verið meiðandi í garð stefnanda og að hann eigi rétt á miskabótum af þeim sökum, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að mati dómsins þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 kr. vegna uppsagnar stefnanda.

Í ljósi þessarar niðurstöðu dómsins þykir ekki þörf að fjalla sérstaklega um málsástæður stefnanda í tengslum við lög nr. 2/1995, um hlutafélög.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli greiða stefnanda alls 1.200.000 kr. í bætur vegna fjártóns og alls 1.000.000 vegna miska, eða samanlagt 2.200.000 kr., með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. nóvember 2013, þeim degi sem stefnanda var sagt upp, en með dráttarvöxtum frá 4. október 2014, sbr. 9. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga, en þá var mánuður liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda um greiðslu bóta.

Í samræmi við þessi málsúrslit skal stefndi greiða málskostnað stefnanda, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.400.000 kr.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Við uppsögu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Stefndi, Ríkisútvarpið ohf., greiði stefnanda alls 2.200.000 kr., með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 27. nóvember 2013, en með dráttarvöxtum frá 4. október 2014, sbr. 9. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Stefndi greiði stefnanda 1.400.000 kr. í málskostnað.