Dómur um þýðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

30.11.2017

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu M um að lögheimili sonar hans og K yrði skráð til bráðabirgða hjá honum var hafnað en kveðið var á um nánar tiltekinn umgengnisrétt hans og drengsins til bráðabirgða. Fyrir Hæstarétti krafðist M þess að hinn kærði úrskurður yrði ómerktur og var krafa hans meðal annars reist á því að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hefði verið ólögmæt. Virt hefðu verið að vettugi lögbundin réttindi drengsins þar sem honum hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig við meðferð málsins. Hæstiréttur vísaði til ákvæða í barnalögum nr. 76/2003 og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Samkvæmt þeim réttarheimildum væri lögskylt að leita eftir afstöðu barns og taka réttmætt tillit til hennar, þegar fyrir stjórnvöldum og dómstólum væru rekin mál sem vörðuðu hagsmuni barns, og væri það meginregla. Aðeins í undantekningartilvikum væri heimilt að víkja frá meginreglunni ef slíkt gæti haft skaðleg áhrif á hagsmuni barns eða væri þýðingarlaust  fyrir úrslit máls. Þar sem gögn málsins báru ekki með sér að svo væri, hafi héraðsdómara borið að leita eftir afstöðu sonar aðilanna áður en hann réði til lykta ágreiningi þeirra, en gerði ekki. Að þessu virtu var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.