Dómar um veðleyfi og nákomna í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
16.11.2017Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í tveimur málum þar sem annars vegar reyndi á túlkun hugtaksins „nákomnir“ í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar hvort samþykki fyrir veðsetningu eignarhluta í fasteign hefði verið veitt.
Í fyrrgreinda málinu háttaði svo til að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Saga Capital hf. hafði meirihluti eigna félagsins verið færður til eignarhaldsfélagsins Hildu hf., samhliða því sem skuldir félagsins við Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. [ESÍ] höfðu verið færðar til sama félags. Hæstiréttur féllst á að umræddar ráðstafanir hefðu falið í sér greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri og að skilyrðum 134. gr. laga nr. 21/1991 til riftunar væri fullnægt. Benti rétturinn sérstaklega á í því sambandi að þótt ekki hefðu verið eignatengsl á milli félaganna hefðu margvíslegar kvaðir verið lagðar á Saga Capital hf. við endurskipulagninguna og ESÍ í raun haft öll ráð félagsins í hendi sér. Yrði því að líta svo á að félögin hefðu verið nákomin í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem hvorki hefði verið sýnt fram á að ESÍ hefði haft hag af ráðstöfuninni, né að Saga Capital hf. hefði orðið fyrir tjóni, var hinn áfrýjaði dómur hins vegar staðfestur um sýknu ESÍ af kröfu Saga Capital hf. um endurgreiðslu.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.
Í síðargreinda málinu var deilt um hvort kona hefði með undirritun sinni á tryggingarbréf, sem eiginmaður hennar gaf út, veitt samþykki sitt fyrir veðsetningu á eignarhluta sínum í fasteign sem þau áttu saman að jöfnu. Í málinu lá fyrir að konan hafði samþykkt veðsetninguna sem maki skuldara og þinglýsts eiganda en ekki hafði verið gert ráð fyrir undirskrift hennar sem þinglýsts eiganda fasteignarinnar á tryggingarbréfinu. Héraðsdómur, sem staðfestur var í Hæstarétti, féllst á kröfu konunnar um ógildingu veðréttarins, meðal annars með vísan til þess að undirritun konunnar á bréfið bæri ekki með sér að hún hefði verið að samþykkja veðsetningu á sínum eignarhluta í fasteigninni heldur að hún hefði verið að samþykkja veðsetningu eignarhluta eiginmanns síns samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.