Print

Mál nr. 687/2016

Saga Capital hf. (Ástráður Haraldsson hrl.)
gegn
Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.)
Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Endurgreiðsla
  • Nákomnir
Reifun

S hf. krafðist riftunar á greiðslu nánar tilgreindrar skuldar og endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar úr hendi E ehf. Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu S hf. hafði meirihluti eigna félagsins verið færður til eignarhaldsfélagsins H hf., samhliða því sem skuldir S hf. við E ehf. höfðu verið færðar til sama félags. Byggði S hf. á því að þær ráðstafanir hefðu í reynd falið í sér greiðslu skuldar sem væri riftanleg samkvæmt ákvæðum 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómur féllst ekki á málatilbúnað S hf. og sýknaði E ehf. af kröfum félagsins. Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að umræddar ráðstafanir hefðu falið í sér greiðslu skuldar S hf. við E hf. sem greidd hefði verið með óvenjulegum greiðslueyri, auk þess sem hún hefði verið greidd fyrr en eðlilegt var. Taldi rétturinn sömuleiðis, með vísan til þeirra kvaða sem höfðu verið lagðar á S hf. við endurskipulagninguna, að S hf. og E ehf. hefðu verið nákomin í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 og að E ehf. hefði ekki sýnt fram á að S hf. hefði verið gjaldfært þegar greitt var. Væri samkvæmt því fullnægt skilyrðum 2. mgr. 134. gr. laganna til þess að riftunarkrafa S hf. gæti náð fram að ganga. Hins vegar benti rétturinn á að málatilbúnaður S hf. hefði verið reistur á því í öndverðu að þær eignir sem framseldar höfðu verið til H hf., hefðu þá að mestu verið veðsettar til tryggingar skuldum S hf. við E ehf. Með því að um var að ræða framsal eigna til E ehf., sem hann hefði þegar notið veðréttar í, hefði E ehf. hvorki haft hag af ráðstöfuninni né hefði S hf. orðið fyrir tjóni, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Var hinn áfrýjaði dómur um sýknu E ehf. því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2016. Hann krefst þess að staðfest verði með dómi riftun greiðslu skuldar sinnar við stefnda 22. febrúar 2010 að fjárhæð 16.134.935.079 krónur og að stefnda verði gert að endurgreiða sér 14.294.255.079 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en að því frágengnu að endurgreiðslukröfu áfrýjanda verði hafnað eða hún lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.  

I

Í málinu deila aðilar um það hvort riftanlegur gerningur hafi átt sér stað með tilteknum ráðstöfunum sem gerðar voru í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu áfrýjanda síðari hluta árs 2009 og fyrri hluta árs 2010 en aðdraganda hennar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þeirri endurskipulagningu lyktaði með samkomulagi áfrýjanda og ríkissjóðs Íslands 11. september 2009 og breyttu samkomulagi sömu aðila 13. nóvember sama ár sem mun hafa verið samþykkt á hluthafafundi í áfrýjanda 18. næsta mánaðar. Endurskipulagningunni lauk 22. febrúar 2010 þegar tilteknum aðgerðum sem fólust í samkomulagi áfrýjanda og ríkissjóðs var endanlega hrint í framkvæmd. Með þeim var eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi meirihluti eigna áfrýjanda færður til eignarhaldsfélagsins Hildu hf., en stofnun þess var liður í endurskipulagningunni. Samhliða eignatilfærslunni voru skuldir áfrýjanda við stefnda, áður ríkissjóð Íslands og þar áður Seðlabanka Íslands, færðar til sama eignarhaldsfélags. Er málatilbúnaðar áfrýjanda, sem tekinn var til slita 16. maí 2012 á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, á því reistur að þessar ráðstafanir hafi í reynd falið í sér greiðslu skuldar sem sé riftanleg samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., auk þess sem á því er byggt af hans hálfu að um riftanlega ráðstöfun samkvæmt 141. gr. sömu laga sé að ræða.

II

Samkomulagið 11. september 2009 og samkomulagið 13. nóvember sama ár voru sem fyrr segir milli ríkissjóðs Íslands sem lánveitanda og áfrýjanda sem upphaflegs skuldara. Eru í hinum áfrýjaða dómi raktar ástæður þess að fyrra samkomulagið var endurskoðað og nýtt gert. Í inngangi þeirra beggja kom fram að ríkissjóður væri stærsti kröfuhafi áfrýjanda samkvæmt tveimur lánssamningum 16. mars 2009, samtals að höfuðstólsfjárhæð 19.668.664.668 krónur, annars vegar samkvæmt lánssamningi að fjárhæð 16.490.370.373 krónur og hins vegar að fjárhæð 3.178.294.295 krónur.  

Samkvæmt samkomulaginu 13. nóvember 2009 skyldi áfrýjandi stofna tvö ný félög, eignarhaldsfélag og móðurfélag. Um skiptingu eigna og skulda milli áfrýjanda og eignarhaldsfélagsins, sem fékk heitið Hilda hf., sagði að nánar tilgreindar eignir áfrýjanda að nafnverði samtals 17.881.509.638 krónur skyldu færast til eignarhaldsfélagsins. Þá sagði að áfrýjandi myndi „afhenda víkjandi lán til eignarhaldsfélagsins að fjárhæð kr. 1.500.000.000, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs ... með fyrsta gjalddaga þann 31. október 2010 og lokagjalddaga þann 31. október 2015“ og  að „lánveitandi mun vera með veð í öllum eignum eignarhaldsfélagsins eftir nánari útfærslu af hálfu aðila.“ Um skuldskeytingu sagði að ríkissjóður sem lánveitandi samþykkti fyrir sitt leyti að áfrýjandi „framselji skuld samkvæmt láni ríkissjóðs“ að fjárhæð 19.668.664.668 krónur til eignarhaldsfélagsins að uppfylltum nánari skilyrðum sem tilgreind voru.

Áfrýjandi og Hilda hf. sendu ríkissjóði Íslands 22. janúar 2010 tilkynningu um framsal. Í upphafi hennar var vísað til skuldar áfrýjanda við ríkissjóð samkvæmt lánssamningunum 16. mars 2009. Þá var getið samkomulags þar sem tiltekin verðbréf í eigu áfrýjanda yrðu framseld Hildu hf. gegn yfirtöku þess félags á skuldbindingum áfrýjanda við ríkissjóð og væri miðað við bókfært verðmæti eignanna og stöðu lánanna 30. október 2009. Næst var vísað til handveðsyfirlýsinga tengdum framangreindum lánssamningum þar sem áfrýjandi hefði sett ríkissjóði að handveði nánar tilgreindar eignir samtals að nafnverði 17.948.990.978 krónur. Loks sagði að með vísan til framangreinds samkomulags um framsal verðbréfa í eigu áfrýjanda til Hildu hf. „verða framangreindar eignir framseldar til Hildu hf. Uppgjörsdagur viðskiptanna er m.v. 30.10.2009. Framangreindar eignir eru veðsettar Seðlabanka Íslands f.h. ríkissjóðs. Mun framsal þetta ekki hafa áhrif á veðsetningu ríkissjóðs.“

Hilda hf. og stefndi gerðu 22. febrúar 2010 viðauka við lánssamningana 16. mars 2009 um skuldskeytingu og skilmálabreytingu. Í upphafi kom fram að hann byggði á samkomulaginu 13. nóvember 2009 en með framsali 11. febrúar 2010 hafi stefndi eignast kröfur ríkissjóðs á hendur áfrýjanda samkvæmt lánssamningunum. Í 2. grein, sem fjallaði um skuldskeytingu og yfirtöku Hildu hf. á skuldbindingum áfrýjanda, sagði að með undirskrift sinni á viðaukann tæki Hilda hf. yfir skuldbindingar áfrýjanda á grundvelli lánssamninganna með þeim skilmálabreytingum sem nánar væri getið. Þá sagði að með „undirritun sinni lofar nýr skuldari að greiða hinar yfirteknu skuldir skv. lánssamningunum að fullu með þeim skilmálum og kjörum sem fram koma í lánssamningunum og samningi þessum. Jafnframt tekst nýr skuldari á hendur allar skyldur og skuldbindingar sem hvíla á lántaka samkvæmt lánssamningunum að engu undanskildu og kemur að öllu leyti í stað hans.“ Um skuldbindingu áfrýjanda sagði í 7. grein að við skuldskeytingu samkvæmt 2. grein væri áfrýjandi leystur undan greiðsluskyldu samkvæmt lánssamningunum. Undir viðaukann ritaði áfrýjandi sem upphaflegur skuldari, Hilda hf. sem nýr skuldari, stefndi sem nýr kröfuhafi og Saga Eignarhaldsfélag hf. sem móðurfélag áfrýjanda.  

Eins og fyrr greinir voru í samkomulaginu 13. nóvember 2009 ákvæði um framsal nánar tilgreindra eigna áfrýjanda til Hildu hf. og yfirtöku þess félags á skuldum áfrýjanda við ríkissjóð að ákveðnum skilyrðum fullnægðum. Þau lutu að veðsetningu eigna, ráðstöfun arðgreiðslna og skuldbindingum um rekstur félagsins sem áfrýjandi og eignarhaldsfélagið þurftu að gangast undir. Skilyrðin höfðu margvíslegar takmarkanir í för með sér á skipulagi og rekstri áfrýjanda og tóku til launa og kaupauka starfsmanna, stórra áhættuskuldbindinga, útlánavaxta, svonefnds CAD-hlutfalls, heildarfyrirgreiðslu til venslaðra, innleiðingu reglna um stjórnunarhætti og takmarkana á heimild til að eiga hluti í móðurfélaginu og eignarhaldsfélaginu. Auk þessa voru skilyrði um að á öllum stjórnarfundum áfrýjanda skyldi sitja áheyrnarfulltrúi skipaður af Bankasýslu ríkisins sem hefði ekki tillögu- eða atkvæðisrétt á fundum en málfrelsi. Hann skyldi fá endurrit allra fundargerða og staðfesta efni þeirra. Þá var stjórn áfrýjanda skuldbundin til þess að leggja ekki fram tillögu fyrir stjórnar- eða hluthafafundi um atriði sem talin voru upp í átta liðum, þar á meðal um kaup og sölu eigna og um lántökur. Frá skilyrðunum mátti víkja að fengnu skriflegu samþykki áheyrnarfulltrúans en neitaði hann að samþykkja tillögur stjórnar áfrýjanda skyldi það rökstutt og aðeins gert á grundvelli hagsmuna ríkissjóðs sem kröfuhafa eignarhaldsfélagsins en ekki annarra hagsmuna sem hann kynni að hafa. Sambærileg skilyrði voru um stöðu áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum í móðurfélaginu og eignarhaldsfélaginu. Skilyrðin sem félögin þurftu að gangast undir lutu meðal annars að töku ákvarðana um kaup og sölu eigna, lántökum eignarhaldsfélagsins og öðrum gerningum sem væru skuldbindandi fyrir það. Áþekk ákvæði um stöðu áheyrnarfulltrúa voru í samkomulaginu 11. september 2009 að því þó gættu að þar var einungis gert ráð fyrir að áfrýjandi stofnaði eignarhaldsfélag en ekki móðurfélag.

III

Með ráðstöfunum þeim sem áður er lýst var meirihluti eigna áfrýjanda færður úr því félagi og komið fyrir í nýju félagi, Hildu hf., og þannig um hnútana búið að eignirnar gátu eftirleiðis ekki nýst til annars en greiðslu skuldar áfrýjanda við stefnda sem samhliða þessu var færð á herðar Hildu hf. Varð Hilda hf. þannig sem þriðji aðili greiðsluferli til lúkningar á þeirri skuld sem áfrýjandi var leystur undan. Er samkvæmt þessu staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að umræddar ráðstafanir, sem endanlega komu til framkvæmda 20. febrúar 2010, hafi í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 í reynd falið í sér greiðslu skuldar áfrýjanda við stefnda.

Við mat á því hvort skuldin hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri verður að líta til þess í hvaða formi greiðslan fór frá skuldara en ekki í hvaða mynd hún barst kröfueiganda. Greiðsla peningakrafna með verðbréfum eða andvirði þeirra getur almennt ekki talist venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. október 1996 í máli nr. 2/1996. Ekki er fram komið að um slíkan greiðsluhátt hafi verið samið fyrir fram eða hann tíðkast í skiptum lánveitanda og skuldara. Er því ósannað að þetta hafi mátt virðast venjulegur greiðslueyrir eftir atvikum. Að þessu gættu er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að um óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið að ræða. Að auki var umrædd skuld greidd fyrr en eðlilegt var en fyrsti gjalddagi höfuðstólsins var 27. desember 2011 og lokagjalddagi 27. desember 2015. Fær það ekki þeirri niðurstöðu breytt þótt ákvæði hafi verið í lánssamningunum 16. mars 2009 um heimild áfrýjanda til að greiða lánin upp í heild eða að hluta fyrir umsamda gjalddaga.

Af því sem hér var rakið leiðir að krafa stefnda um sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er haldlaus.

IV

Ákvæði 4. og 5. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 um hagsmunalega nákomna, eins og texti þeirra var þegar umrædd greiðsla fór fram, miðuðu samkvæmt orðum sínum við að maður eða annar honum nákominn þyrfti að eiga verulegan hlut í félagi til þess að teljast nákominn því. Sömu skilyrði um verulegan eignarhlut voru sett þegar metið var hvort félög eða stofnanir gætu verið nákomin. Í 6. tölulið 3. gr. laganna var og er mælt fyrir um að menn, félög og stofnanir séu nákomin hvort öðru ef um sambærileg tengsl er að ræða og lýst er í öðrum töluliðum greinarinnar. Á þeim tíma sem hér skiptir máli fólst í tilvísun 6. töluliðar 3. gr. til sambærilegra tengsla að einkum væri átt við eignatengsl. Ekki var þó útilokað að önnur tengsl, hvort sem þau væru til viðbótar eignatengslum eða ekki, gætu leitt til þess að maður og félag, tvö félög eða félag og stofnun teldust nákomin, sbr. til hliðsjónar áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/1996 og dóm réttarins 19. desember 2012 í máli nr. 320/2012.

Frestdagur við slitameðferð áfrýjanda var 24. ágúst 2011. Áður er fram komið að ekki voru eignatengsl milli áfrýjanda og stefnda þegar greiðslan var innt af hendi 20. febrúar 2010. Á hinn bóginn er til þess að líta að allt frá samkomulaginu 11. september 2009 um fjárhagslega endurskipulagningu áfrýjanda voru margvíslegar kvaðir lagðar á áfrýjanda, móðurfélag hans og Hildu hf. Með þeim naut ríkissjóður Íslands allt frá 11. september 2009 og síðar stefndi fyrir tilstilli áheyrnarfulltrúa áhrifa í stjórn áfrýjanda langt umfram það sem fólst í eignarráðum hluthafa í félaginu. Hafði stefndi þannig í reynd öll ráð félagsins í hendi sér, þar á meðal um skuldaskil, og gilti hið sama um áhrif hans fyrir tilstilli áheyrnarfulltrúa í móðurfélagi áfrýjanda og Hildu hf. Þegar til þessa er litið verður að telja að stefndi og áfrýjandi hafi verið nákomnir í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að áfrýjandi hafi verið gjaldfær þegar greitt var, sbr. 2. mgr. 134. gr. laganna. Er samkvæmt öllu þessu fullnægt skilyrðum þeirrar lagagreinar til þess að krafa áfrýjanda um riftun geti náð fram að ganga.

V

Fari riftun fram samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Málatilbúnaður áfrýjanda var í öndverðu á því reistur að eignir þær sem framseldar voru Hildu hf. við fjárhagslega endurskipulagningu áfrýjanda hafi þá þegar að mestu verið veðsettar til tryggingar skuldum áfrýjanda við ríkissjóð og síðar stefnda samkvæmt lánssamningunum 16. mars 2009. Á þeim grunni tók stefndi til varna og staðhæfingar áfrýjanda um að veðunum hafi verið aflétt við endurskipulagninguna komu fyrst fram við munnlegan flutning málsins í héraði. Er málsástæða áfrýjanda sem á þessu er reist því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, og fær að auki ekki samrýmst gögnum málsins eins og nánar er rakið í forsendum hins áfrýjaða dóms. Með því að um var að ræða framsal eigna til stefnda, sem hann naut þegar veðréttar í, hafði stefndi hvorki hag af ráðstöfuninni né varð áfrýjandi fyrir tjóni, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Er því ekki fullnægt skilyrðum til að fallast á endurgreiðslukröfu áfrýjanda og er henni því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir framangreindum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Saga Capital hf., greiði stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

            Dómur Héraðsdóms Norðurlands Eystra 13. júlí 2016.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. maí 2016, höfðaði Saga Capital hf., Hafnarstræti 91, Akureyri, þann 14. nóvember 2013 gegn Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.

                Stefnandi gerir í málinu eftirfarandi dómkröfur:

                1. Að staðfest verði með dómi riftun greiðslu skuldar Saga Capital við stefnda 22. febrúar 2010 að fjárhæð 16.134.935.079 krónur.

                2. Að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda 14.294.255.079 krónur, ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. apríl 2010 til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara þess að endurgreiðslukröfu stefnanda verði hafnað eða hún lækkuð verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Með úrskurði, uppkveðnum 7. janúar 2016, var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins frá dómi.

                Undirritaður héraðsdómari tók við málinu 15. september 2015, en hafði engin afskipti af rekstri þess fram til þess tíma. Málið var upphaflega dómtekið að aflokinni aðalmeðferð 10. mars sl., en þar sem ekki tókst að leggja dóm á málið innan lögbundins frests fór munnlegur málflutningur fram að nýju 20. maí sl.

I

Málsatvik

                Stefnandi var tekinn til slitameðferðar að kröfu Fjármálaeftirlitsins með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012. Var honum þá skipuð slitastjórn og mun frestdagur við slitameðferðina hafa verið 24. ágúst 2011.

                Helstu málsatvik eru þau að í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins átti  stefnandi í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands, til fjármögnunar kaupa á skuldabréfum útgefnum af Glitni hf. og Kaupþingi banka hf. Við setningu neyðarlaganna haustið 2008 nam heildarskuld stefnanda vegna þessara lána tæpum 20 milljörðum króna. Mun stefnandi þá hafa verið knúinn til að leggja fram frekari veð til tryggingar skuldinni, til viðbótar við áður veðsett skuldabréf Glitnis hf. og Kaupþings banka hf. Krafa Seðlabanka Íslands á hendur stefnanda mun hafa verið framseld ríkissjóði í lok árs 2008.

                Með tveimur lánssamningum, dags. 16. mars 2009, að heildarfjárhæð 19.668.664.668 krónur, var veðlánunum skuldbreytt í verðtryggð lán með 2% vöxtum, sem endurgreiðast skyldu með fimm jöfnum afborgunum á næstu sjö árum, en vextir skyldu greiðast árlega í lok árs. Í samningunum er kveðið á um að lántaka sé heimilt að geiða lánin upp fyrr, án sérstaks endurgjalds.

                Í ársreikningi stefnanda fyrir árið 2008 mun skuldin hafa verið núvirt miðað við 12% ávöxtunarkröfu, sem leiddi til umtalsverðrar myndunar eigin fjár í bókum stefnanda. Leiddi þetta til athugasemda af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Í ljós kom að tilskipun Evrópusambandsins, sem var grundvöllur þeirra athugasemda, hafði ekki verið réttilega innleidd í íslensk lög. Lá þó fyrir að úr því yrði bætt og að þar með myndi stefnandi ekki lengur uppfylla kröfur um eigið fé fjármálastofnana.

                Leiddi þetta til þess að viðræður hófust milli stefnanda og fjármálaráðuneytisins um uppgreiðslu á skuldinni eða umbreytingu á hluta hennar í víkjandi kröfu eða hlutafé. Lyktaði þeim viðræðum með samkomulagi, dags. 11. september 2009, um fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda. Fól það samkomulag í sér að stofnað yrði nýtt félag, Saga Eignarhaldsfélag hf., sem yrði móðurfélag stefnanda. Skyldi félagið taka yfir skuld stefnanda við ríkissjóð samkvæmt téðum lánssamningum frá 16. mars 2009 og fá sem endurgjald eignir sem stefnandi kveður hafa verið metnar að verðmæti 14,3 milljarðar króna, þar á meðal allar þær eignir sem veðsettar hafi verið til tryggingar skuldinni og að auki allt hlutafé í stefnanda.

                Stefnandi kveður Fjármálaeftirlitið hafa gert þá athugasemd við samkomulagið að litið yrði á Saga Eignarhaldsfélag hf. sem eignarhaldsfélag á fjármálasviði og að sömu eiginfjárkröfur yrðu gerðar til þess félags og stefnanda. Var samkomulagið því tekið til endurskoðunar og nýtt samkomulag undirritað 13. nóvember 2009. Mun það samkomulag hafa verið samþykkt á hluthafafundi stefnanda 18. desember 2009. Fól það samkomulag í sér að stefnandi stofnaði tvö ný félög í stað eins, móðurfélag og eignarhaldsfélag. Eignarhaldsfélgið, Hilda hf., yfirtæki skuld stefnanda við ríkissjóð og fengi sem endurgjald tilteknar eignir, sem lýst er í 4. gr. samkomulagsins. Lýsir stefnandi því svo að þar hafi verið um að ræða þær eignir sem veðsettar voru til tryggingar skuldinni, að verðmæti um 14,3 milljarðar króna, auk 10% hlutar í stefnanda að verðmæti um 280 milljónir og víkjandi skuldabréfs á stefnanda að höfuðstól um 1,6 milljarðar króna, eða samtals eignir að verðmæti  um 16,1 milljarður króna.

                Með samningi um skuldskeytingu og skilmálabreytingu, dags. 22. febrúar 2010, sem fól í sér viðauka við téða lánssamninga frá 16. mars 2009, var fjárhagslegri endurskipulagningu stefnanda á grundvelli samkomulagsins frá 13. nóvember 2009 endanlega hrundið í framkvæmd. Í samningnum kemur fram að íslenska ríkið hafi framselt kröfur sínar á hendur stefnanda til stefnda, Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf., hinn 11. febrúar 2010.

                Í lok júní 2011 mun stefndi hafa yfirtekið Hildu hf., á grundvelli samkomulags, dags. 8. apríl s.á., og samþykktar aðalfundar Hildu hf. Í kjölfarið mun Hildu hf. hafa verið breytt í einkahlutafélag. Hér eftirleiðis verður eftir atvikum vísað til þess félags með heiti þess, án tilgreiningar félagaforms.

                Stefnandi kveður eignir þær sem Hilda hafi fengið sem endurgjald við yfirtöku á skuld Saga Capital hafa skipst með eftirfarandi hætti:

                                Bankabréf, upphaflega að veði                            kr.                   6.559.395.000

                                Aðrar eignir                                                                kr.                   7.734.860.079

                                Víkjandi skuldabréf                                                 kr.                   1.560.000.000

                                Hlutabréf í Saga Capital                                         kr.                       280.680.000

                                Alls                                                                              kr.                16.134.935.079

                Stefnandi kveður endurgreiðslukröfu sína á hendur stefnda nema virði þeirra eigna sem farið hafi frá stefnanda til Hildu, annarra en víkjandi kröfu að nafnverði 1.560.000.000 króna og hlutabréfa í stefnanda. Ekki þyki rétt að krefjast endurgreiðslu á þeim þáttum, enda sé þegar til meðferðar krafa á hendur Hildu ehf. að því er varði víkjandi kröfuna [innsk. dómara: Þeim málaferlum lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 11. febrúar 2016 í máli nr. 382/2015]. Að því er varði hlutabréf í stefnanda þyki ekki rétt að gera kröfu um endurgreiðslu þar sem engir fjármunir hafi gengið út úr stefnanda vegna þeirrar afhendingar.

                Hin afhentu verðmæti sundurliðist nánar svo:

Bankabréf

Auðkenni                                                                     Nafnverð                                                                   Virði

GLBIRFloat 06/09                                         10.000.000.000                                                 4.000.000.000

GLB 09 0615                                                     5.000.000.000                                                 2.000.000.000

KAUP 01/15/10                                                      15.000.000                                                     559.395.000

Alls                                                                                                                                                  6.559.395.000

 

Aðrar eignir

Auðkenni                                                                     Nafnverð                                                                   Virði

Reiðufé                                                                       4.000.000                                                         4.000.000

Bundin innlán                                                       646.887.754                                                     658.009.349

HFF150434                                                           209.309.547                                                     272.462.301

EFAR 0901                                                            650.000.000                                                     698.900.150

RIKB 19 0226                                                      300.000.000                                                     334.107.534

RIKB 25 0612                                                         39.020.208                                                       40.204.177

ICEAIR                                                                    18.000.000                                                       43.200.000

FOBANK DC                                                                 800.000                                                 2.796.763.200

Askar Capital hf.                                                  106.404.855                                                 1.685.380.920

Íslensk Verðbréf hf.                                                13.982.954                                                     237.710.218

BYR stofnbréf                                                      120.187.653                                                         6.009.383

Norlandair ehf.                                                        22.916.667                                                     123.750.002

Útlán                                                                       739.000.000                                                     834.362.846

Alls                                                                                                                                                  7.734.860.079

 

Víkjandi skuldabréf og hlutafé í Saga Capital

Auðkenni                                                                     Nafnverð                                                                   Virði

Víkjandi skuldabréf                                         1.560.000.000                                                 1.560.000.000

Saga Capital.                                                                       10%                                                     280.680.000

Alls                                                                                                                                                  1.840.680.000

 

II

Málsástæður stefnanda

                Málsatvikum og málsástæðum stefnanda er lýst sameiginlega í stefnu, en hér verða helstu málsástæður stefnanda raktar.

                Stefnandi kveður að með gerningi þeim sem að framan hefur verið lýst hafi alls um 56% eigna stefnanda verið teknar út úr félaginu og komið fyrir í nýju félagi og þannig búið um hnútana að þessar eignir hafi eftir þetta ekki getað nýst til annars en að greiða skuld stefnanda við stefnda. Þannig hafi samkomulagið frá 13. nóvember 2009 falið í sér að safni fjárverðmæta úr eigu stefnanda hafi verið komið fyrir ásamt kröfu stefnda á hendur stefnanda í sérstöku félagi, Hildu hf. Félagið hafi frá öndverðu verið undir raunverulegri stjórn stefnda. Skilmálar þeir sem félagið hafi verið bundið með samningnum við stefnda (eða þann sem hann leiði rétt sinn frá) frá 13. nóvember 2009 hafi leitt til þess að í raun hafi Hilda hf. ekki verið annað en greiðsluferli, greiðslumiðill sem hannaður hafi verið til að færa verðmæti úr stefnanda yfir til ríkissjóðs Íslands eða stefnda sem síðar eignaðist kröfu ríkissjóðs.

                Stefndi hafi samkvæmt samningi stefnanda og ríkissjóðs frá 11. september 2009, og sem efnislega hafi svo verið staðfest 13. nóvember 2009, átt „áheyrnarfulltrúa“ í stjórn Hildu hf. og raunar einnig í stjórn stefnanda. „Áheyrnarfulltrúinn“ hafi haft neitunarvald um allar meiri háttar ráðstafanir félaganna. Þannig hafi stjórnir félaganna orðið að bera undir „áheyrnarfulltrúann“ fyrirfram allar tillögur sem leggja skyldi fyrir stjórnar- eða hluthafafundi. Framgangur tillögu hafi svo verið háður skriflegu samþykki „áheyrnarfulltrúans“ að uppfylltum nánar greindum skilyrðum sem í raun hafi svipt félögin öllu frelsi um starfsemi sína.

                Vafalaust sé að stefnandi og Hilda séu nákomnir aðilar í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hilda hafi verið stofnað af Saga Eignarhaldsfélagi sem aftur hafi verið stofnað af stefnanda. Hilda og móðurfélag stefnanda, Saga Eignarhaldsfélag, hafi verið í eigu sömu aðila og að auki hafi Hilda verið annar tveggja hluthafa stefnanda með 10% hlut. Hilda og stefnandi hafi lotið sömu fimm manna stjórn og „áheyrnarfulltrúi“ skipaður af stefnda hafi, eins og að framan greini, haft rétt til setu á stjórnarfundum beggja félaga. Framkvæmdastjóri Hildu hafi auk þess verið framkvæmdastjóri áhættustýringar stefnanda. Greiðsla sú sem stefnandi krefjist staðfestingar riftunar á í máli þessu hafi verið greidd Hildu hf. gegn yfirtöku á skuld stefnanda við ríkissjóð. Stefndi hafi svo yfirtekið Hildu í júní 2011. Vafalaust sé að í öndverðu hafi viðskipti þau, sem hér sé stefnt til að staðfesta riftun á, verið gerð milli nákominna aðila. Þá sé óhjákvæmilegt að benda á að stefndi eða sá aðili sem stefndi leiði rétt sinn frá hafi frá upphafi stjórnað öllum framgangi mála sem varðaði skuldauppgjör stefnanda gagnvart ríkissjóði eða Seðlabanka Íslands. Stefndi hafi verið skuldareigandinn er greiðslan var innt af hendi þann 22. febrúar 2010 og sami aðili hafi svo að lokum orðið eigandi félagsins sem tók við greiðslunni, Hildu hf.

                Sú aðstaða sem að framan sé lýst leiði til þess að aðilar máls þessa séu nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Þetta eigi við annars vegar í ljósi þeirrar aðstöðu sem uppi hafi verið þegar greiðslan hafi verið innt af hendi, að stefndi eða sá sem hann leiði rétt sinn frá hafi haft öll ráð stefnanda í hendi sér. Hins vegar vegna þess að félagið sem notað hafi verið til að koma í kring greiðslunni til stefnda, Hilda hf., sé óumdeilanlega nákominn aðili. Það sem öllu varði hér sé sá galli sem sé á greiðslunni þegar hún fari frá stefnanda en ekki það í hvaða formi hún sé þegar hún sé endanlega komin í hendur stefnda. Þá byggi stefnandi til stuðnings þessu á reglu 1. mgr. 146. gr. laga nr. 21/1991.

                Mál þetta sé höfðað á grundvelli 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem segi að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gildi þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. sömu laga skuli vera 30 mánuðir í stað sex mánaða.

                Nánar um málsástæður:

                Umboð slitastjórnar til málshöfðunar þessarar sé byggt á 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Stefnandi telji að almenn skilyrði til riftunar séu óumdeilanlega fyrir hendi. Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa stefnanda til að fá fullnustu krafna aukist nái riftun fram að ganga. Einnig sé ljóst að greiðsla skuldarinnar til stefnda hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og hafi því leitt til mismununar kröfuhafa.

                Kröfum í máli þessu sé beint að stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., á þeim grundvelli að stefndi hafi verið eigandi þeirrar kröfu sem greiðslu þeirri sem stefnandi krefjist staðfestingar riftunar á í máli þessu hafi verið ætlað að mæta. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að aðild Hildu hf. að málinu hafi aðeins verið sú að það félag hafi verið greiðslumiðill eða ferli sem sett hafi verið á stofn til að koma í kring greiðslu til stefnda. Stefndi hafi stjórnað öllum framgangi mála um skuldauppgjör stefnanda gagnvart ríkissjóði eða Seðlabanka Íslands. Stefndi hafi, eins og að framan sé rakið, verið skuldareigandinn þegar greiðslan var innt af hendi og yfirtekið svo að lokum félagið sem hafi verið milliliður um greiðsluna, Hildu hf. Hafi stefnda þannig notið góðs af hinni riftanlegu greiðslu og því sé eðlilegt að knýja á um endurheimtu hennar úr hendi stefnda.

                Kröfu sína um riftun byggi stefnandi á eftirfarandi:

                A. Að greiðsla skuldar stefnanda hafi verið innt af hendi með safni af hlutabréfum, stofnfjárbréfum, bundnum innlánum, skuldabréfum, lánssamningum og kröfum á banka í slitameðferð sem teljist óvenjulegur greiðslueyrir. Greiðslan hafi auk þess verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var og fjárhæð greiðslunnar hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega og sé því riftanleg með vísan til 1. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

                B. Stefnandi byggi kröfu sína um riftun einnig sjálfstætt á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé því riftanleg með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Nánar um A:

                Stefnandi telji að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi. Þessi skilyrði, sem séu hlutlæg, séu:

                1. Að um sé að ræða greiðslu skuldar. Um skilyrði þetta vísi stefnandi til gagna málsins og þá einkum til samnings aðila um „fjárhagslega endurskipulagningu Saga Capital Fjárfestingabanka hf.“ frá 13. nóvember 2009. Í samningnum komi glöggt fram í 4. gr. og 5. gr. að með samkomulaginu séu eignir stefnanda færðar út úr félaginu og komið fyrir í sérstöku félagi, ásamt kröfu stefnda á hendur stefnanda. Bersýnilegt sé því að greiðsla sú sem hér um ræðir hafi verið greiðsla skuldar sem stofnast hafði milli aðila áður en greiðslan var innt af hendi og hafi greiðslan gengið til uppgjörs á þeirri skuld.

                2. Að greiðslan hafi verið innt af hendi á síðustu tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, sbr. 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, þar sem ræði um greiðslu til nákominna. Vafalaust sé að aðilar máls þessa séu nákomnir aðilar í skilningi 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Nægi í því sambandi að vísa til þess, sem fram hafi komið hér að framan, að stefnandi hafi í raun verið undir stjórn stefnda er hin riftanlega greiðsla var innt af hendi. Greiðsla stefnanda hafi verið innt af hendi þegar staðfesting stefnda lá fyrir um að stefnandi væri laus undan skuldinni þann 22. febrúar 2010. Frestdagur við skiptin sé, eins og að framan greinir, 24. ágúst 2011. Skilyrði greinarinnar um tímamark sé því uppfyllt.

                3. Að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Fyrsti gjalddagi höfuðstóls skuldar stefnanda við stefnda hafi verið 27. desember 2011 og lokagjalddagi 27. desember 2015. Skuldin hafi því verið greidd tæpum tveimur árum fyrir fyrsta gjalddaga og tæpum fimm árum fyrir lokagjalddaga.

                4. Að greidd hafi verið fjárhæð sem skerti greiðslugetu þrotamannsins verulega. Í þessu sambandi vísist til þess, sem að framan sé rakið, að með greiðslunni hafi alls um 56% eigna stefnanda verið teknar út úr félaginu. Auk þess liggi fyrir að á þeim tíma þegar greiðslan var innt af hendi hafi félagið verið ógjaldfært.

                5. Að skuldin hafi verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri. Um þetta skilyrði vísi stefnandi til langvarandi dómvenju og óumdeildrar túlkunar 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt henni sé venjulegur greiðslueyrir almennt peningar. Greiðsla sú sem hér um ræðir hafi verið innt af hendi með afhendingu á safni af hlutabréfum, stofnfjárbréfum, bundnum innlánum, skuldabréfum, lánssamningum og kröfum á banka í slitameðferð. Slíkir greiðsluhættir séu hvorki venjulegir almennt séð, né verði séð að þeir hafi áður tíðkast eða verið venjulegir milli aðila.

                Nánar um B:

                Stefnandi byggir kröfu sína um riftun einnig sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991 og telji skilyrði greinarinnar fyrir hendi, en þau séu:

                1. Að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg sem slík, m.a. vegna grandsemi stefnda um ógjaldfærni stefnanda.

                2. Að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar greiðslan var innt af hendi.

                3. Að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda þegar greiðslan var innt af hendi og þau atvik sem gerðu það að verkum að greiðslan var ótilhlýðileg.

                Um ógjaldfærni stefnanda vísist til skýrslu Ernst og Young til slitastjórnar stefnanda frá 22. maí 2013, bls. 69–71, en þar komi fram það mat endurskoðenda að stefnandi hafi orðið ógjaldfær við fall viðskiptabankanna haustið 2008. Þá hafi strax orðið ljóst að eigið fé bankans væri uppurið og að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Að beiðni stefnanda hafi endurskoðendurnir unnið viðbótarskýrslu sem fjalli um þróun gjaldfærni stefnanda frá árslokum 2008 og fram á árið 2011.

                Í ljósi tengsla aðila, sem rakin séu hér að framan, sé ljóst að ekki leiki á tveimur tungum að stefnda hafi verið fullkunnugt um ógjaldfærni stefnanda og þau atvik sem gerðu það að verkum að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg.

                Krafa stefnanda um endurgreiðslu sé reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 134. gr. sömu laga, en á 3. mgr. 142. gr. að því leyti sem riftunarkrafan sé byggð á 141. gr. laganna. Kröfufjárhæðin, 14.294.255.079 krónur, svari til þess sem komið hafi stefnda að notum til lækkunar kröfu sinni gagnvart stefnanda. Fjárhæðin svari til verðmætis þeirra eigna sem greitt hafi verið með og sem aðilar hafi verið sammála um hvers virði væru. Tjón slitabúsins nemi verðmæti þeirra eigna sem notaðar hafi verið til greiðslu skuldarinnar. Þau verðmæti séu ekki til staðar í búinu í dag til greiðslu til kröfuhafa. Krafist sé dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi sem stefndi hafi notið greiðslunnar eða frá 1. apríl 2010.

                Nánar er um lagarök í stefnu vísað til ákvæða laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í heild sinni, en sérstaklega til ákvæða 103. gr. laga nr. 161/2002, m.a. um varnarþing, og til 134., 139., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjist við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Málsástæður stefnda

                Samkvæmt greinargerð stefnda er aðalkrafa hans um sýknu einkum studd við eftirfarandi málsástæður:

                Um aðildarskort

                Í fyrsta lagi sé byggt á því að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefnandi beini kröfum sínum að stefnda, Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf., með þeim röksemdum að hann hafi verið skuldareigandinn þegar hin meinta greiðsla var innt af hendi, hann hafi notið góðs af henni og þannig sé eðlilegt að knýja á um endurheimtu hennar úr hendi stefnda.

                Fullyrðingu í stefnu um að Hilda hafi í raun ekki verið annað en greiðslumiðill kveðst stefndi telja fráleita og augljóslega setta fram gegn betri vitund. Eins og stefnanda sé fullkunnugt um hafi tilgangur þeirra ráðstafana og aðgerða sem ráðist var í verið sá að gera stefnanda rekstrarhæfan og forða honum frá sömu örlögum og mætt höfðu gömlu viðskiptabönkunum þremur skömmu áður. Hefði markmið ríkissjóðs Íslands eða Seðlabanka Íslands einungis verið að „færa verðmæti úr Saga Capital“ hefði verið algerlega tilgangslaust að standa í margra mánaða fjárhaglegri endurskipulagningu. Þessir aðilar hefðu einfaldlega getað gengið að veðsettum eignum stefnanda og þær hefðu þá aldrei verið færðar til Hildu.

                Stefndi, sem sé sjálfstæður lögaðili, geti hins vegar ekki með vissu svarað fyrir ríkissjóð og/eða Seðlabankann og mótmæli því aðild sinni að þessu máli. Líkt og áður hafi verið rakið hafi þegar veðsettar eignir og skuldir verið færðar yfir til Hildu hf., en ekki til stefnda. Skipti engu í því samhengi að stefndi hafi verið kröfuhafi Hildu eftir fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda, en eins og að framan sé getið hafi stefndi ekkert til sakar unnið í máli þessu annað en að kaupa kröfu íslenska ríkisins á hendur Hildu. Þá beri að árétta að um skuldskeytingu hafi verið að ræða en ekki greiðslu á skuld, líkt og nánar verði komið inn á síðar. Stefndi hafi ekki fengið neitt greitt frá stefnanda og því séu engin rök fyrir því að beina kröfunni að honum.

                Með hliðsjón af framangreindu beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts hans að máli þessu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991.

                Nánar um skilyrði 134. gr.

                Stefndi mótmæli því að skilyrði riftunar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi í máli þessu.

                Engin greiðsla

                Í fyrsta lagi sé á það bent að ekki sé um að ræða greiðslu skuldar. Stefnandi vísi í stefnu til samnings aðila um fjárhagslega endurskipulagningu Saga Capital Fjárfestingabanka hf. frá 13. nóvember 2009, einkum 4. og 5. gr. samningsins, til stuðnings því að um greiðslu skuldar hafi verið að ræða, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi mótmæli þeirri túlkun stefnanda harðlega. Það sé grundvallarskilyrði riftunar samkvæmt 134. gr. laganna að viðkomandi kröfuhafi hafi fengið raunverulega greiðslu þannig að þau verðmæti sem skuldarinn láti af hendi gangi til lækkunar, eða fullrar greiðslu, á viðkomandi skuld. Hvergi í framangreindum samningi um fjárhagslega endurskipulagningu sé minnst á greiðslu skuldar. Þvert á móti komi skýrt fram í 3. gr. og fyrrgreindri 5. gr. samningsins að um kaup á tilteknum eignum af stefnanda sé að ræða og skyldi kaupverðið greitt með skuldskeytingu þar sem lánveitandinn (ríkissjóður Íslands) myndi samþykkja kaupandann, þ.e. Hildu hf., sem nýjan skuldara að skuldum stefnanda, að uppfylltum skilyrðum samningsins. Samkomulaginu hafi svo verið hrint endanlega í framkvæmd með samningi, dags. 22. febrúar 2010. Við undirritun þess hafi Hilda tekið endanlega við hinum keyptu eignum og yfirteknu skuldum og samtímis hafi stefnandi losnað undan greiðsluskyldu sinni.

                Því til stuðnings að engin greiðsla skuldar hafi átt sér stað vísar stefndi einnig til yfirlits um innborganir á lánasamninga og fleiri gagna um stöðu skulda Hildu hf., þar sem skýrt komi fram að skuldir Hildu við stefnda á grundvelli lánssamninganna séu enn að mestu óbreyttar í apríl 2011, eða um 18,1 milljarður króna. Á það skuli minnt að á þessum tíma hafi Hilda ennþá verið í eigu hluthafa stefnanda. Ótvírætt sé því að engin greiðsla hafi átt sér stað til stefnda líkt og haldið sé fram í stefnu og því bresti skilyrði til riftunar. Einu greiðslurnar sem komið hafi til lækkunar á skuldum Hildu séu vegna uppgreiðslu eða sölu á undirliggjandi veðum, sem stefndi hafi alltaf átt rétt á sem veðhafi, óháð yfirfærslu eignanna til Hildu.

                Atburðir utan riftunarfrests

                Í öðru lagi hafni stefndi því að skilyrði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu til staðar. Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. megi krefjast riftunar á greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Í fyrsta lagi teljist aðilar málsins ekki nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Vísar stefndi þar til þess að 3. gr. laganna hafi verið breytt með lögum nr. 95/2010. Sú lagabreyting hafi ekki tekið gildi fyrr en 15. júní 2010, sem sé eftir það tímamark sem stefnandi miði við að hin meinta greiðsla eigi að hafa átt sér stað, eða 22. febrúar 2010. Geti aðilar því ekki talist vera nákomnir í skilningi greinarinnar. Engin þau skilyrði sem talin séu upp í þágildandi 3. gr. laga nr. 21/1991 eigi við milli stefnanda og stefnda. Því sé með öllu hafnað að stefndi hafi með nokkru móti stýrt stefnda á þeim tíma sem fjárhagslega endurskipulagningin átti sér stað, en kröfuhafar geti ekki talist sjálfkrafa nákomnir skuldara eins og stefnandi gefi í skyn. Þá sé rétt að árétta það að stefnandi hafi sjálfur stýrt eignasafni því sem flutt var frá honum til Hildu við fjárhagslegu endurskipulagninguna.

                Atvik þessa máls séu því utan hins sex mánaða frests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og skilyrði riftunar séu þar af leiðandi ekki fyrir hendi.

                Stefnandi ekki ógjaldfær

                Jafnvel þótt aðilar yrðu taldir nákomnir í skilningi 3. gr. laganna, sé því með öllu hafnað að stefnandi hafi verið ógjaldfær vegna greiðslunnar. Riftun á gerningi sem átti sér stað í febrúar 2010 sé því óheimil. Á það sé bent, enn og aftur, að fjárhagslegri endurskipulagningu stefnanda hafi þá verið nýlokið, þar sem nær öllum skuldum hans hafi verið skuldskeytt til Hildu. Stefnandi hafi því verið vel greiðslufær á umræddu tímabili enda hafi hann nánast ekkert skuldað. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sanni hið gagnstæða, en stefndi mótmæli sönnunargildi skýrslna Ernst og Young ehf. Um sé að ræða skýrslur hlutdrægra sérfræðinga stefnanda sem uppfylli ekki kröfur IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og fjalli auk þess um eiginfjárkröfur samkvæmt lögum nr. 161/2002, en ekki greiðslugetu í skilningi laga nr. 21/1991. Þá bendi stefndi á að í nauðasamningsfrumvarpi stefnanda, ásamt greinargerð, komi skýrt fram að í september 2011 hafi eignastaða stefnanda verið jákvæð og þar sé fullyrt að hægt sé að greiða allar kröfur kröfuhafa. Þetta sé í samræmi við núverandi kröfuhafaskrá þar sem sjáist að nánast allir kröfuhafar fái greitt að fullu. Þá megi benda á málflutning stefnanda sjálfs við úrskurð um slitameðferð, en í úrskurðinum komi fram að stefnandi hafi haldið því fram að ekki væri nauðsyn á slitameðferðinni vegna hagsmuna kröfuhafa og að stefnandi væri gjaldfær. Stefnandi hafi því verið gjaldfær í febrúar 2010. Sé því með öllu hafnað að heimilt sé að rifta umræddum greiðslum á grundvelli 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.

                Ekki greitt fyrr en eðlilegt var

                Í þriðja lagi sé því hafnað að greiðsla til stefnda hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var. Stefndi ítrekar að ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða heldur skuldskeytingu þar sem nýr skuldari hafi tekið við skuldinni og hafi kröfuhafi engar greiðslur fengið upp í kröfu sína á grundvelli þessara aðgerða. Engin gögn hafi verið lögð fram um þetta og sé því þessi málsástæða stefnanda algjörlega ósönnuð. Þá vísi stefnandi til þess að fyrsti gjalddagi höfuðstóls skuldar stefnanda við stefnda hafi verið 27. desember 2011 og lokagjalddagi 27. desember 2015 og megi ætla að hann vísi þar til lánssamnings stefnanda og ríkissjóðs Íslands dags. 16. mars 2009, en hann láti undir höfuð leggjast að geta þess, sem jafnframt komi fram í þessum sama samningi, að lántaka sé heimilt að greiða upp lánið að hluta til eða að fullu án sérstaks endurgjalds. Lokagjalddagi skuldarinnar sé því ekki eins afdráttarlaus og stefnandi haldi fram.

                Greiðslugeta ekki skert

                Í fjórða lagi mótmæli stefndi því að greidd hafi verið fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega. Skuldskeyting sú sem hér um ræði hafi engin áhrif haft á greiðslugetu stefnanda. Vísi stefndi til fyrri umfjöllunar sinnar varðandi ógjaldfærni. Þar að auki hafi allar þær eignir sem stefnandi vísi til í stefnu verið veðsettar ríkissjóði, og síðar stefnda, og hafi allt það ferli verið samþykkt af FME, eins og áður hafi verið rakið. Stefnandi hafi því aldrei getað átt raunverulegt tilkall til þessara eigna frá árinu 2008. Þá sé vísun stefnanda til skýrslu Ernst og Young ehf. varðandi ógjaldfærni stefnanda sérstaklega mótmælt enda hafi skýrslan ekkert sönnunargildi í málinu. Stefndi bendi einnig á að yfirfærsla eignanna til Hildu hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif á fjárhag stefnanda. Óumdeilt sé, eins og nánar verði útskýrt hér á eftir, að skuldirnar sem yfirfærðar voru hafi verið umtalsvert hærri en eignirnar. Með endurskipulagningunni hafi stefnandi losnað við fleiri milljarða króna af skuldum umfram veðsettar eignir, en það tjón hafi lent á Hildu. Með þessari aðgerð hafi greiðslugeta stefnanda aukist gríðarlega. Allt tal um skerðingu á greiðslugetu séu því orðin tóm.

                Greiðslueyrir ekki óvenjulegur

                Í fimmta lagi mótmæli stefndi því að um óvenjulegan greiðslueyri sé að ræða. Ítrekar stefndi að ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða. Þegar af þeim sökum geti greiðslueyririnn ekki verið óvenjulegur. Auk þess sé bent á þá staðreynd að stefndi hafi ekki fengið til sín neitt af þeim greiðslum sem stefnandi telji óvenjulegar. Þær veðsettu eignir, sem stefnandi telji upp í stefnu, þ.e. safn hlutabréfa, stofnfjárbréfa, bundin innlán, skuldabréf og aðrar kröfur, hafi verið færðar yfir til Hildu, ekki til stefnda. Á þessum tíma hafi Hilda enn verið undir yfirráðum og stjórn stefnanda.

                Einu verðmætin sem stefndi hafi fengið til sín upp í lánið séu uppgreiðslur á ríkisskuldabréfum og fjármunir vegna sölu á skuldabréfi Glitnis og öðrum veðsettum eignum. Sem fyrr segi hafi þessar eignir verið veðsettar Seðlabanka Íslands sumarið 2008 og vorið 2009. Á því sé byggt að ávallt sé heimilt fyrir kröfuhafa að njóta ávinnings af veðsettum eignum. Með því sé ekki verið að ganga á rétt annarra kröfuhafa, enda hafi aðrir kröfuhafar stefnanda aldrei átt tilkall til þessara eigna. Greiðslur sem til féllu frá veðsettum eignum geti því aldrei talist óvenjulegar í skilningi laga nr. 21/1991.

                Í ljósi alls framangreinds sé ljóst að stefnukröfur uppfylli engin skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 og verði því að sýkna stefnda.

                Greiðsla venjuleg

                Verði þrátt fyrir framangreint talið að stefndi hafi móttekið greiðslu sem uppfylli einhver skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991, telji stefndi að sú greiðsla hafi verið venjuleg eftir atvikum og því sé hún ekki riftanleg. Hafa verði hér í huga að allar þær eignir sem færðust yfir til Hildu í kjölfar endurskipulagningarinnar, og séu að mati stefnanda andlag greiðslunnar, hafi þegar verið veðsettar til tryggingar á umræddri skuld. Óumdeilt sé að eignirnar hafi verið veðsettar Seðlabanka Íslands á seinni hluta ársins 2008. Þegar íslenska ríkið endurfjármagnaði skuldir stefnanda 2009 hafi sömu veð fylgt til tryggingar og hafi slíkt verið staðfest af stefnanda. Stefnandi sé því miklu betur settur nú en ef Seðlabanki Íslands hefði gengið að veðunum í árslok 2008, enda hefði mismunurinn á eignum og skuldum lent áfram á stefnanda. Þetta neikvæða eigið fé hafi hins vegar lent á Hildu, og hafi stefnandi þannig losnað við skuldir upp á marga milljarða.

                Að mati stefnda megi stefnandi ekki hagnast á því að íslenska ríkið, sem aðalkröfuhafi stefnanda árið 2009, hafi heimilað stefnanda að fara í fjárhagslega endurskipulagningu og þannig reynt að forða félaginu frá slitameðferð. Yfirfærsla eigna og skulda til Hildu hafi ekki gengið á rétt annarra kröfuhafa en stefnda sjálfs. Þeir fáu kröfuhafar sem lýst hafi kröfum í bú stefnanda hefðu aldrei átt þann kost að njóta góðs af þessum eignum og því hafi þessi aðgerð ekki skert jafnræði með kröfuhöfum eins og stefnandi haldi fram. Af þeim sökum megi riftun ekki ná fram að ganga.

                Að öllu framangreindu virtu verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. 

                Nánar um skilyrði 141. gr. 

                Stefndi kveðst mótmæla því að skilyrði riftunar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi í máli þessu. Stefndi vísi til fyrri umfjöllunar sinnar um riftun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 því til stuðnings. Þá bendi stefndi einnig á eftirfarandi:

                Rökstuðningur stefnanda fyrir þessari kröfu sé í mýflugumynd eins og bent hafi verið á til stuðnings frávísunarkröfu vegna vanreifunar. Stefnandi byggi kröfugerð sína á einhliða mati endurskoðenda frá Ernst & Young ehf., en stefndi ítreki að þær skýrslur hafi ekkert sönnunargildi í einkamálum. Stefndi hafni því alfarið að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg eða honum til hagsbóta.

                Þá ítrekar stefndi að ósannað sé að stefnandi hafi verið ógjaldfær á þeim tíma sem greiðslan átti sér stað, sbr. fyrri umfjöllun. Útreikningar á eigin fé, samkvæmt lögum nr. 161/2002, hafi ekkert með sönnun á ógjaldfærni samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 að gera. Stefndi bendi á að stefnandi hafi farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu eftir hrun viðskiptabankanna og hafi þeirri endurskipulagningu lokið með samkomulagi, dagsettu 13. nóvember 2009, en almennt hafi dómstólar sýnt ráðstöfunum sem séu hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu mikinn skilning þegar reynt hafi verið að rifta þeim.

                Hafi staða og gjaldfærni stefnanda verið með þeim hætti sem lýst sé í stefnu og skýrslum Ernst og Young ehf. skjóti það óneitanlega skökku við að Fjármálaeftirlitið skyldi samþykkja umrætt samkomulag og veita stefnanda áframhaldandi starfsleyfi. Stefndi telji raunar einsýnt að Fjármálaeftirlitið hefði ekki samþykkt endurskipulagninguna nema vegna þess að það hafi metið það svo að með henni væri rekstrarhæfi og gjaldfærni stefnanda tryggt til framtíðar. Það hafi enda komið á daginn og stefnandi eigi nægar eignir til að gera upp allar almennar kröfur. Það eigi ekki að koma á óvart enda hafi ástæða þess að stefnandi var tekinn til slitameðferðar ekki verið sú að hann væri orðinn ógjaldfær heldur sú að hann missti starfsleyfi sitt.

                Öll framangreind atriði geri það að verkum að stefndi vissi ekki, og mátti ekki vita, um ógjaldfærni stefnanda við viðskiptin. Af þeim sökum bresti lagaskilyrði til að rifta viðskiptunum á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.

                Þá sé á það bent að til þess að riftun nái fram að ganga á grundvelli 141. gr. laganna þurfi ráðstöfunin að vera stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hún hafi leitt til þess að eignir yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Eins og greint hafi verið frá séu engir aðrir kröfuhafar í slitameðferð stefnanda, sem ekki fái að fullu greitt. Greiðslan hafi því síður en svo mismunað kröfuhöfum enda fái allir greitt að fullu.

                Varakrafa stefnda er studd eftirfarandi rökum:

                Verði að einhverju leyti fallist á riftunarkröfur stefnanda krefst stefndi þess til vara að endurgreiðslukröfum stefnanda verði hafnað eða þær lækkaðar verulega. Vísar stefndi þar um til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem kveðið er á um að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun, samkvæmt 131.–138. gr., skuli greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins.

                Engin auðgun

                Í stefnu segi að fjárhæð endurgreiðslukröfu hans svari til þess sem komið hafi stefnda að notum til lækkunar á kröfu sinni gagnvart stefnanda og að fjárhæðin svari til verðmætis þeirra eigna sem greitt var með og sem aðilar hafi verið sammála um hvers virði voru. Stefndi telji fráleitt að umræddar eignir hafi komið honum að slíkum notum sem byggt sé á í stefnu. Bendir stefndi á að skuldin hafi aldrei lækkað og að stefndi hafi þurft að afskrifa skuldir Hildu að verulegu leyti.

                Þá verði að hafa hugfast að ráðstafanirnar hafi verið liður í fjárhagslegri endurskipulagningu stefnanda og hafi falið í sér að ríkissjóður beitti ekki ýtrasta rétti sínum heldur veitti eftirgjöf og mikið svigrúm. Á þessum tíma hafi verið mikil óvissa um verðmæti þeirra eigna stefnanda sem yfirteknar voru og það blasi við að það mat sem lagt var á virði þeirra. þ.e. 14,3 milljarðar, hafi verið allt að því óskhyggjukennt, sbr. m.a. þær afskriftir á eignunum sem fljótlega hafi þurft að ráðast í.

                Endurgreiðslureglur laga nr. 21/1991 miði að því að kröfuhafi endurgreiði þrotabúi ágóða sinn af tilteknum viðskiptum. Ekki hafi verið lögð fram nein gögn sem sýni að stefndi hafi auðgast í umræddum viðskiptum. Óheimilt sé að óska eftir endurgreiðslu vegna verðlausra krafna sem aldrei hafi fengist greitt upp í. Þá telji stefndi ljóst að ekki geti falist auðgun, eða tjón, í því að innheimta veðsettar eignir sem settar hafi verið til tryggingar löngu fyrir riftunarfrest. Allur rökstuðningur stefnanda fyrir endurgreiðslukröfu sinni falli því um sjálft sig í ljósi staðreynda málsins. 

                Dómkrafa ekki í tengslum við skuldir

                Þá byggi stefndi á því að stefnanda sé ekki heimilt að krefjast hærri endurgreiðslu en sem nemi fjárhæð lýstra krafna. Heildarfjárhæð lýstra krafna sé ekki nema brot af fjárhæð endurgreiðslukröfunnar. Einnig sé í þessu sambandi vísað til innbyrðis ósamræmis í mati stefnanda á verðmæti eignanna á milli kröfugerðarinnar og málsástæðna sem tengjast fjárhagsstöðu stefnanda, sbr. fyrri umfjöllun um vanreifun.

                Ekkert tjón stefnanda

                Að sama skapi sé tjón stefnanda algjörlega ósannað og vandséð að hagur slitabúsins muni vænkast verði fallist á riftun. Raunar telji stefndi að hagur stefnanda myndi í raun versna. Engin matsgerð eða önnur sönnunargögn hafi verið lögð fram um tjón stefnanda og hvernig gerningur sá sem um ræði hér hafi valdið stefnanda tjóni. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að ráðstafanirnar hafi strax bætt stöðu stefnda verulega eða um 3,8 milljarða og á heildina litið um 11 til 12 milljarða króna. Verði fallist á ýtrustu endurgreiðslukröfu stefnanda og þann málatilbúnað hans að hér hafi verið um að ræða greiðslu skuldar muni það leiða til þess að stefndi þurfi að greiða búinu tæpa 14,3 milljarða króna. Á móti komi að stefndi muni þá lýsa kröfu í búið fyrir þeirri fjárhæð sem skuldin stóð í á greiðsludegi eða að fjárhæð u.þ.b. 18,5 milljarðar króna. Verði sú krafa viðurkennd við slitameðferðina, ef ekki af slitastjórn þá af dómstólum, muni það leiða til þess að nettó fjárhagsstaða búsins muni versna sem nemi mismuninum og vera þar með til tjóns fyrir stefnanda.

                Með sömu rökum hafni stefndi öllum bótagreiðslum skv. 3. mgr. 142. gr. laganna.

                Að endingu sé dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt. Í fyrsta lagi hafi dagsetningin 1. apríl 2010 enga þýðingu í þessu máli, en stefnandi vísi til þess að það sé sá dagur sem stefndi hafi notið greiðslunnar. Því hafni stefndi, enda ekki um greiðslu að ræða. Krafan sé ekki rökstudd frekar og sé hún því algjörlega vanreifuð. Engin heimild sé fyrir því að krefjast dráttarvaxta frá þessu tímamarki. Dráttarvexti megi því fyrst dæma frá þingfestingardegi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Um lagarök kveðst stefndi að öðru leyti vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, ásamt síðari breytingum, og til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134. og 141. gr. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

                Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri stefnda, og Hersir Sigurgeirsson, fyrrverandi forstjóri stefnanda.       Eins og rakið hefur verið var bú stefnanda tekið til slita á árinu 2012 að kröfu Fjármálaeftirlitsins. Í máli þessu deila aðilar um það hvort riftanlegur gerningur hafi átt sér stað með tiltekinni ráðstöfun sem gerð var í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda. Sú endurskipulagning stóð yfir á síðari hluta ársins 2009, lyktaði með samkomulagi 11. september, og síðan breyttu samkomulagi 13. nóvember sama ár, og lauk endanlega í febrúar 2010, er aðgerðum sem fólust í samkomulagi stefnanda og ríkissjóðs hafði verið hrint í framkvæmd. Vísast hér til lýsingar málsatvika í kafla I hér að framan, en í stuttu máli fól hin umdeilda ráðstöfun í sér að stór hluti eigna stefnanda var færður til eignarhaldsfélags, Hildu hf., en stofnun þess félags var liður í samkomulagi stefnanda og ríkissjóðs um fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda. Jafnframt voru skuldir stefnanda við stefnda, áður ríkissjóð Íslands og þar áður Seðlabanka Íslands, færðar til sama eignarhaldsfélags. Byggir stefnandi á því að þessar ráðstafanir hafi í reynd falið í sér greiðslu skuldar, sem sé riftanleg skv. 134. gr. laga nr. 20/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en jafnframt er á því byggt að um riftanlega ráðstöfun í skilningi 141. gr. sömu laga sé að ræða. 

                Frávísunarkröfu stefnda var, eins og fyrr sagði, hafnað með úrskurði dómsins frá 7. janúar sl. Var þó í úrskurðinum bent á að engin gögn lægju þá enn fyrir um stöðu slitabúsins. Stefnandi lagði við upphaf aðalmeðferðar málsins fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um stöðu eigna og skulda stefnanda m.v. 1. mars 2016, þar sem fram kemur að er kröfulýsingarfresti lauk 1. ágúst 2012 hafi alls verið lýst 23 kröfum í búið, sem samtals námu tæpum 2,3 milljörðum króna. Síðar hafi lýst krafa að fjárhæð 430 milljónir króna verið afturkölluð en við hafi bæst krafa, að fjárhæð ríflega 1,1 milljarður króna, sem raknað hafi við vegna riftunar að gengnum dómi Hæstaréttar frá 11. febrúar sl. í máli nr. 382/2015. Samtals nemi lýstar kröfur í búið því 2.998.937.247 krónum, en eignir, að frádregnum ógreiddum skiptakostnaði, nemi 1.491.000.000 króna. Áætlað endurgreiðsluhlutfall krafna sé um 50%, en hafi verið um 11% fyrir dóm Hæstaréttar í máli nr. 382/2015. Sé það mat endurskoðandans að afar ólíklegt sé að eignir búsins nægi til að standa við skuldbindingar þess. Í ljósi þessa, og með vísan til forsendna úrskurðarins, verður ekki séð að efni standi til þess að vísa máli þessu frá dómi.

                Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti.

                Með málsókn þessari leitast stefnandi við að endurheimta verðmæti til slitabúsins sem hann telur hafa flust til stefnda, fyrir tilstuðlan milliliðs, Hildu hf., með gerningi sem sé riftanlegur samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Byggir stefnandi á því að stefndi, sem skuldareigandinn á þeim tíma sem hin ætlaða riftanlega ráðstöfun átti sér stað, sé sá sem notið hafi góðs af hinni ætluðu greiðslu og helgist aðild hans að málinu af því. Málsóknin miðar að því að rifta „greiðslunni“ sem slíkri en ekki einstökum löggerningum sem gerðir hafa verið til að koma henni í kring. Eins og málatilbúnaði stefnanda er háttað, sem er hefðbundinn málatilbúnaður í slíku riftunarmáli, verður ekki á það fallist að stefndi sé ekki réttur aðili að máli þessu og verður kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts því hafnað.

                Stefnandi styður kröfu sína um riftun einkum við hlutlæga riftunarreglu 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri lagagrein má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar má krefjast riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

                Ekki er um það deilt að stefnandi stóð í skuld við Seðlabanka Íslands vegna veðlánaviðskipta á árinu 2008. Þá liggur fyrir að ríkissjóður tók við sem kröfuhafi áður en skuldinni var skuldbreytt með tveimur lánssamningum í mars 2009 og hafði stefndi síðan tekið við af ríkissjóði sem kröfuhafi skömmu áður en ætluð greiðsla átti sér stað, 22. febrúar 2010. Þá er óumdeilt að frestdagur við slitameðferðina er 24. ágúst 2011. Veltur það hvort riftun á grundvelli hinnar hlutlægu riftunarreglu 134. gr. laga nr. 20/1991 sé tæk þannig á því hvort uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. greinarinnar um að aðilar teljist hafa verið „nákomnir“ í skilningi 3. gr. sömu laga.

                Í því efni verður að miða við texta 3. gr. eins og sú lagagrein hljóðaði fyrir þær breytingar sem á 4. og 5. tölulið hennar voru gerðar með lögum nr. 95/2010, að virtri dómaframkvæmd. Ekki er berum orðum vísað til tiltekins töluliðar 3. gr. í stefnu en ljóst er að stefnandi byggir á 6. tölulið þeirrar greinar þar sem kveðið er á um að menn, félög og stofnanir teljist nákomin séu þau í „sambærilegum tengslum“ og um ræðir í 1.–5. tölul. greinarinnar. Á þeim tíma sem hér um ræðir var einkum átt við eignatengsl, þótt ekki væri útilokað að annars konar tengsl gætu leitt til þess að tvö félög teldust nákomin, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands frá 19. desember 2013 í máli nr. 320/2012 og frá 3. október 1996 í máli nr. 2/1996.

                Í máli þessu hefur stefnandi ekki vísað til eignatengsla, heldur til þess að stefnandi hafi verið undir raunverulegri stjórn stefnda eða fyrirrennara hans á þeim tíma sem máli skiptir. Ekki er þó vísað til beinna stjórnunartengsla eins og þeirra sem nú er getið í 4. og 5. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991, heldur vísar stefnandi einkum til þess að í samkomulagi ríkissjóðs og stefnanda um fjárhagslega endurskipulagningu hins síðarnefnda hafi ýmsar kvaðir verið lagðar á stefnanda, sem og móðurfélagið og eignarhaldsfélagið sem stofnuð voru sem liður í samkomulaginu. Samkomulagið var fyrst undirritað 11. september 2009, en vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins var það undirritað í breyttri mynd 13. nóvember 2009 og mun síðara samkomulagið hafa verið samþykkt á hluthafafundi 18. desember sama ár. Vísar stefnandi þar einkum til ákvæða samkomulaganna um rík völd „áheyrnarfulltrúa“ sem sitja skyldi í stjórn allra þriggja félaganna.

                Líkt og stefnandi bendir réttilega á voru talsverðar kvaðir lagðar á öll þrjú félögin með samkomulaginu, hvort sem litið er til þess fyrra eða hins síðara, og mátti ekki leggja tillögu fyrir stjórnar- eða hluthafafund um tiltekin málefni nema með samþykki áheyrnarfulltrúans. Á það er hins vegar að líta, líkt og stefndi bendir á, að ákvörðun um að yfirfæra skuldir stefnanda við ríkissjóð og eignir hans til eignarhaldsfélags lá þegar fyrir við undirritun samkomulagsins 11. september 2009. Hélst sú ákvörðun efnislega óbreytt í öllum meginatriðum í síðara samkomulaginu sem undirritað var 13. nóvember s.á., þrátt fyrir breytta útfærslu hvað varðar stofnun tveggja nýrra félaga í stað eins.

                Þegar leitast er við að svara því hvort aðilar máls þessa hafi talist nákomnir verður því að líta til þess tímamarks þegar ákvörðun um hina umdeildu ráðstöfun var í raun tekin, sbr. framangreint, þótt sú ákvörðun hafi ekki verið komin endanlega til framkvæmdar fyrr en 22. febrúar 2010, með undirritun samkomulags um skuldskeytingu og skilmálabreytingu. Á þeim tíma sem máli skiptir verður ekki séð að tengsl stefnda, eða forvera hans, ríkissjóðs, við stefnanda hafi verið nánari en gengur og gerist í skiptum lánveitanda og skuldara.

                Samkvæmt framanrituðu telst ósannað að aðilar máls þessa hafi verið nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 á þeim tíma sem ákvörðun var tekin um þá ráðstöfun sem deilt er um í þessu máli. Þegar af þeirri ástæðu að tímamörk 2. mgr. 134. gr. sömu laga eiga ekki við verður að hafna kröfu stefnanda um riftun á grundvelli þeirrar lagagreinar.

                Stefnandi byggir jafnframt á því að um riftanlega ráðstöfun sé að ræða í skilningi 141. gr. laganna, sem felur í sér almenna og huglæga riftunarreglu. Samkvæmt þeirri lagagrein má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Ber stefnandi, a.m.k. í upphafi, sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði lagagreinarinnar teljist uppfyllt.

                Hér að framan, í kafla um málsatvik, er rakið hvernig fjárhagsstaða stefnanda veiktist gríðarlega eftir fall viðskiptabankanna í október 2008, þegar Seðlabanki Íslands kallaði eftir auknum veðum til tryggingar skulda stefnanda vegna viðskipta með skuldabréf í tveimur af stóru viðskiptabönkunum, svonefndra „ástarbréfaviðskipta“ eins og þau viðskipti hafa verið nefnd í opinberri umræðu.

                Með dómi Hæstaréttar frá 11. febrúar 2016 í máli nr. 382/2015, milli stefnanda og Hildu hf., var lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið ógjaldfær, er sú greiðsla skuldar stefnanda við stefndu sem þar var deilt um fór fram 6. desember 2010. Lágu í því máli til grundvallar sömu skýrslur endurskoðendafyrirtækisins Ernst & Young ehf. og stefnandi hefur lagt fram í máli þessu, frá 22. maí 2013 og 2. október s.á. Í ljósi þeirra vísbendinga sem skýrslur þessar voru taldar veita, þrátt fyrir að þeirra hefði verið aflað einhliða af hálfu stefnanda sem drægi úr sönnunargildi þeirra, svo og þess sem ráðið varð af öðrum gögnum um viðvarandi fjárhagserfiðleika stefnanda, var það niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði, sem staðfest var af Hæstarétti með vísan til forsendna, að stefnda Hilda hf. hefði ekki axlað sönnunarbyrði um að stefnandi hafi verið gjaldfær í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 er greiðslan fór fram.

                Í skýrslu Ernst & Young frá 2. október 2013 er tekið til skoðunar hvort þær breytingar sem gerðar voru á starfsemi stefnanda og endurskipulagning félagsins frá árslokum 2008 og fram á árið 2011 hafi haft þau áhrif að félagið yrði gjaldfært í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991. Þótt í skýrslunni sé lögð sérstök áhersla á að skoða stöðu félagsins á síðari hluta ársins 2010 er þar farið yfir stöðu þess allt frá árinu 2008. Kemur þar fram, m.a. í niðurstöðukafla, það mat endurskoðenda að stefnandi hafi orðið ógjaldfær við fall viðskiptabankanna í október 2008 og hafi enn verið ógjaldfær við lok þess árs, þrátt fyrir skuldbreytingu með lánssamningunum tveimur í mars 2009, sem miðuðust við 31. desember 2008. Þá kemur fram, á bls. 7 í skýrslunni, að staðan „lagaðist ekki á árinu 2009“ og því hafi aftur hafist viðræður milli stefnanda og ríkissjóðs („SÍ/ESÍ/RÍ“). Þeim viðræðum hafi síðan lyktað með stofnun Hildu hf. og þeirri ráðstöfun eigna og skulda til þess félags sem hér um ræðir, sem stefnandi byggir á að teljist ótilhlýðileg. Af niðurstöðukafla skýrslunnar verður ráðið að vafasamt teljist að mati skýrsluhöfunda að stefnandi hafi orðið gjaldfær við þær ráðstafanir sem gerðar voru við hina fjárhagslegu endurskipulagningu haustið 2009, þar sem stefnanda hafi eftir það verið „í raun stjórnað og haldið gangandi af aðalkröfuhafa hans“.

                Framangreindum skýrslum Ernst & Young ehf. verður ekki í máli þessu gefið minna vægi en í því máli sem til umfjöllunar var í dómi Hæstaréttar frá 11. febrúar sl., enda hefur stefndi ekki í þessu máli fremur en hinu lagt neitt fram sem hnekkir þeim vísbendingum um ógjaldfærni stefnanda sem skýrslur þessar veita. 

                Samkvæmt framanrituðu þykir stefndi verða að bera hallann af því að ósannað telst að stefnandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma sem hér skiptir máli. Er það tímabilið fram að því að að ákvörðun var tekin um ráðstöfun skulda og eigna stefnanda til Hildu hf. á grundvelli samkomulags við ríkissjóð um fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda 11. september 2009 sem einkum skiptir máli, enda er ráðstöfun sú sem hér er deilt um hluti af því samkomulagi og hélst ákvörðun um þá ráðstöfun efnislega óbreytt að meginstefnu til í samkomulaginu sem undirritað var 13. nóvember s.á. Þá þykir einsýnt að stefndi, eða forveri hans, ríkissjóður, hafi um sama leyti verið vel heima um stöðu stefnanda og teljist hafa verið grandsamur um ógjaldfærni stefnanda, sbr. niðurlagsákvæði 141. gr.

                Víkur þá að því hvort önnur skilyrði 141. gr. laganna teljist uppfyllt. Stefndi mótmælir því að uppfyllt teljist þau skilyrði 141. gr., að ráðstöfun eigna og skulda til Hildu hf. hafi verið honum sem „kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra“, hafi leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið „til reiðu til fullnustu kröfuhöfum“ eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hvað þá að uppfyllt sé skilyrði greinarinnar um ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar.

                Þegar uppfyllt eru efnisskilyrði ákvæða hlutlægra riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991, svo sem 134. gr., önnur en skilyrði um tímafresti, hefur í dómaframkvæmd verið litið svo á að löglíkur séu fyrir því að uppfyllt séu skilyrði 141. gr. um ótilhlýðileika ráðstöfunar. Verður því ekki hjá því komist að fjalla um það hvort efnisskilyrði 1. mgr. 134. gr. teljist uppfyllt í máli þessu, enda þótt hér að framan hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að riftun verði ekki reist á grundvelli þeirrar lagagreinar sem slíkrar, sökum þess að ákvæði 2. mgr. sömu greinar um rýmri tímafrest til riftunar milli nákominna aðila eigi ekki við.

                Í máli þessu er deilt um öll efnisskilyrði 1. mgr. 134 gr., einkum og sér í lagi það skilyrði að um „greiðslu“ skuldar hafi verið að ræða.

                Samkvæmt meginreglum kröfuréttar er greiðslustaður kröfu hjá kröfuhafa eða mögulega einhverjum sem talist getur fulltrúi hans. Þegar greitt er fyrir milligöngu þriðja aðila þarf að kanna hvort kröfuhafinn hafi öðlast slíkan rétt til greiðslunnar að hann njóti verndar gagnvart öðrum kröfuhöfum skuldarans.

                Hér byggir stefnandi á því að kröfuhafanum, stefnda, hafi verið greitt fyrir milligöngu þriðja aðila, Hildu hf. Samkvæmt stofnefnahagsreikningi Hildu hf. stóð félagið ekki í skuld við aðra en ríkissjóð við stofnun þess. Þá gat félagið, samkvæmt ákvæðum samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda, ekki tekið lán eða stofnað til skuldbindinga án samþykkis áheyrnarfulltrúans. Eru málavextir að þessu leyti ólíkir málavöxtum í dómi Hæstaréttar frá 26. apríl 2007 í máli nr. 542/2006 sem stefndi vísar til sem fordæmi fyrir því að einungis teljist um skuldskeytingu að ræða. Með vísan til framanritaðs hefur stefnandi að áliti dómsins fært fyrir því nokkuð sterk rök að hin umþrætta ráðstöfun eigna og skulda til Hildu hf. hafi í reynd falið í sér svo „lokað greiðsluferli“ að um greiðslu skuldar geti talist að ræða, þótt í skjölum málsins ræði einungis um skuldskeytingu.

                Þá verður fallist á það með stefnanda að líta verði til þess á hvaða formi umræddar eignir fóru frá honum til Hildu hf. og að eignir af því tagi sem hér um ræðir teljist almennt óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991. Þarf þá ekki að taka afstöðu til málsástæðna aðila varðandi það hvort greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var eða hvort greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu stefnanda verulega.

                Á hinn bóginn byggjast mótmæli stefnda við því að skilyrði séu til að rifta umþrættri ráðstöfun, hvort sem litið er til 134. gr. eða 141. gr., á því að allar, eða a.m.k. svo til allar, eignir sem færðust til Hildu hf. hafi þegar verið veðsettar til tryggingar greiðslu skuldar stefnanda við ríkissjóð samkvæmt lánssamingunum tveimur. Styðst sú staðhæfing við gögn sem stefndi hefur lagt fram um veðsetningar eigna stefnanda til tryggingar skuld hans við forvera stefnda.

                Stefnandi viðurkennir að sumar eignanna hafi verið veðsettar forverum stefnda og hefur ekki leitast við að hnekkja þeim gögnum sem stefndi hefur lagt fram um veðsetningar langflestra eignanna. Mótmæli stefnanda, sem fyrst komu fram við munnlegan málflutning, voru einungis á því byggð að öllum þessum veðum hafi verið aflétt við hina fjárhagslegu endurskipulagningu.

                Stefnandi hefur engin gögn fært fram til stuðnings því að öllum veðum hafi verið aflétt af umræddum eignum. Sýnist sú staðhæfing beinlínis í andstöðu við gögn málsins, t.d. ákvæða samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu, hvort heldur sem litið er til fyrra eða síðara samkomulagsins. Þá segir beinlínis í tilkynningu stefnanda til ríkissjóðs um framsal eigna til Hildu hf., dags. 22. janúar 2010, að framsalið muni „ekki hafa áhrif á veðsetningu ríkissjóðs“.

                Það sem meira er um vert er að ekki verður séð að máli skipti hvort eignirnar voru áfram veðsettar eftir að þær fluttust til Hildu hf., heldur er það tímabilið fram að ákvörðun um þá ráðstöfun sem máli skiptir við mat um það hvort um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða. Stefnandi hefur ekki hnekkt því, sem nægilega telst sannað, að eignirnar hafi verið meira eða minna allar veðsettar til tryggingar skuld stefnanda við ríkissjóð þegar sú ákvörðun var tekin, með undirritun samkomulags um fjárhagslega endurskipulagningu, að flytja umræddar eignir til eignarhaldsfélags sem stofnað yrði, samhliða því sem skuldirnar við ríkissjóð yrðu færðar þangað.

                Stefndi staðhæfir að aðrir kröfuhafar stefnanda hafi ekkert tilkall átt til þeirra eigna sem veðsettar voru til tryggingar skuldar stefnanda við stefnda eða forvera hans. Ekki sé því um það að ræða að jafnræði kröfuhafa hafi verið raskað. Kallaði sú staðhæfing, sem margítrekuð er í greinargerð stefnda, sem og gagnaframlagning stefnda um veðsetningarnar, á það að stefnandi, sem stóð það nær og ber auk þess sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu um að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg, upplýsti hvort einhver kröfuhafa stefnanda átti jafnan eða ríkari forgangsrétt til verðmætis umræddra eigna en stefndi á grundvelli veðréttarins. Efni yfirlýsingar endurskoðanda, sem stefnandi lagði fram við aðalmeðferð málsins um stöðu slitabúsins, er rakið hér að framan. Hvorki í yfirlýsingunni né í öðrum gögnum málsins er að finna upplýsingar um rétthæð krafna á hendur slitabúinu eða hvort einhver þeirra hafi verið tryggð með veðrétti í umræddum eignum.

                Samkvæmt framanrituðu verður lagt til grundvallar að meginhluti þeirra eigna stefnanda sem fluttar voru til Hildu hf. við fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda hafi verið veðsettar stefnda eða forverum hans. Í veðréttindum felst að veðhafi nýtur að jafnaði forgangs til þess, framar öðrum skuldheimtumönnum veðsala, að taka fullnustu til greiðslu kröfu sinnar af peningaverði hinnar veðsettu eignar. Með því að ekki liggur fyrir að aðrir kröfuhafar hafi átt jafn ríkan eða ríkari rétt til verðmætis hinna veðsettu eigna þykir ósýnt að umþrætt ráðstöfun hafi með ótilhlýðilegum hætti verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra eða leitt til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ekki hefur verið á því byggt sérstaklega að ráðstöfunin hafi leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, enda fól ráðstöfunin beinlínis í sér að stefnandi var leystur undan miklum skuldum.

                Samkvæmt öllu framanrituðu eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að verða við kröfu stefnanda um riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, fremur en 134. gr. sömu laga.

                Með því að dómkröfu stefnanda um riftun hefur verið hafnað á þeim lagagrundvelli sem hún er sett fram, kemur krafa hans um endurgreiðslu ekki til álita. Skal stefndi því vera alfarið sýkn af dómkröfum stefnanda í máli þessu.

                Samkvæmt úrslitum málsins, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en uppkvaðning dómsins dróst vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Stefndi, Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., er sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Saga Capital hf., í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað.