Dómur um frávísun frá Félagsdómi að hluta

24.10.2017

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem gagnkröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá Félagsdómi. Sóknaraðili, sem er flugfélag og skráð í Lettlandi, hafði höfðað mál gegn varnaraðila og krafist þess að ótímabundin vinnustöðvun flugfreyja, sem varnaraðili hafði boðað um borð í flugvélum sóknaraðila sem flogið væri frá og til Íslands, yrði dæmd ólögmæt. Hafði varnaraðili krafist þess að flugliðar á vélum sóknaraðila sem flygju frá og til Íslands skyldu njóta lágmarkskjara og réttinda samkvæmt kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands og jafnframt sent erindi um að sóknaraðili skyldi ganga til viðræðna um gerð kjarasamnings. Sóknaraðili hafði ekki talið sér það skylt þar sem félagið starfaði hvorki á íslenskum vinnumarkaði né sendi starfsmenn tímabundið til Íslands til vinnu. Varnaraðili hafði gert gagnkröfu til sjálfstæðs dóms um að viðurkennt yrði að honum væri heimilt að boða verkfall á hendur sóknaraðila til stuðnings kröfu um kjarasamning sem tæki til starfa flugfreyja með starfsstöð hér á landi og sem störfuðu um borð í flugvélum sóknaraðila sem flygju farþegum frá og til Íslands. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gagnkrafa varnaraðila félli ekki undir verkefni Félagsdóms sbr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og var henni því vísað frá Félagsdómi.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.