Print

Mál nr. 633/2017

Primera Air Nordic SIA (Ólafur Eiríksson hrl.)
gegn
Alþýðusambandi Íslands f. h. Flugfreyjufélags Íslands (Magnús M. Norðdahl hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Félagsdómur
  • Kröfugerð
  • Dómstóll
  • Valdmörk
  • Frávísun frá Félagsdómi að hluta
Reifun

Kærður var úrskurður Félagsdóms þar sem hafnað var kröfu P um að gagnkröfu A á hendur sér yrði vísað frá dómstólnum. P hafði höfðað mál gegn A og krafðist þess að boðuð ótímabundin vinnustöðvun flugfreyja um borð í flugvélum P sem flogið væri frá og til Íslands yrði dæmd ólögmæt. A gerði gagnkröfu til sjálfstæðs dóms um að viðurkennt yrði að honum væri heimilt að boða verkfall á hendur P til stuðnings kröfu um kjarasamning sem tæki til starfa flugfreyja með starfsstöð hér á landi og sem störfuðu um borð í flugvélum P sem flygju farþegum frá og til Íslands. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gagnkrafa A félli ekki undir verkefni Félagsdóms sbr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Var gagnkröfu A því vísað frá Félagsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 27. september 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að gagnkröfu varnaraðila yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. tölulið 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Sóknaraðili krefst þess að gagnkröfu varnaraðila verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar.

 Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði er sóknaraðili flugfélag sem skráð er í Lettlandi og starfar á grundvelli þarlends flugrekstrarleyfis. Munu flugvélar sóknaraðila, sem allar eru skráðar þar í landi, vera leigðar meðal annars hingað til lands með áhöfn. Viðsemjendur sóknaraðila hér á landi munu að mestu leyti vera tengd félög sem tilheyra íslensku móðurfélagi hans. Varnaraðili hefur fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands krafist þess að flugliðar á vélum sóknaraðila er fljúga frá og til Íslands skuli njóta lágmarkskjara og réttinda samkvæmt kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands og jafnframt sent erindi um að sóknaraðili gangi til viðræðna um gerð kjarasamnings.  Sóknaraðili hefur ekki talið sér það skylt þar sem hann hvorki starfi á íslenskum vinnumarkaði né sendi starfsmenn tímabundið til Íslands til vinnu.

Varnaraðili vísaði deilu þessari til ríkissáttasemjara 23. janúar 2017 sem lét uppi það álit 13. febrúar sama ár að í ljósi vafa um valdheimildir sínar myndi hann ekki að óbreyttu og að svo stöddu láta málið til sín taka. Flugfreyjufélag Íslands tilkynnti sóknaraðila um boðun ótímabundinnar vinnustöðvunar flugfreyja um borð í flugvélum sóknaraðila sem fljúga frá og til Íslands, sem hefjast átti 15. september 2017 í kjölfar samþykktar allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna 6. apríl sama ár. Sóknaraðili hefur andmælt lögmæti þessarar vinnustöðvunar og er í hinum kærða úrskurði lýst bréfaskiptum aðila sem og árangurslausum fundi þeirra hjá ríkissáttasemjara 15. ágúst 2017, en varnaraðili mun einhliða hafa frestað boðaðri vinnustöðvun.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 8. september 2017 og krafðist að vinnustöðvun þessi yrði dæmd ólögmæt. Varnaraðili lagði fram greinargerð í málinu 14. sama mánaðar með kröfu um sýknu, jafnframt því sem hann gerði gagnkröfu til sjálfstæðs dóms um að viðurkennt verði að honum sé heimilt að boða verkfall á hendur sóknaraðila til stuðnings kröfu um kjarasamning sem taki til starfa flugfreyja og flugþjóna með starfsstöð hér á landi og sem starfa um borð í flugvélum sóknaraðila sem fljúga farþegum frá og til Íslands. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um að gagnkröfu varnaraðila yrði vísað frá dómi.

II

Í málinu leitast varnaraðili við að neyta heimildar í 53. gr. laga nr. 80/1938 til að koma fram gagnkröfu til sjálfstæðs dóms án þess að höfða um hana gagnsök. Ekki eru þar sett sérstök skilyrði fyrir þeirri heimild og verður því að virtri 69. gr. sömu laga að líta svo á að einkum gildi um hana ákvæði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hér er svo ástatt að bæði má rekja rætur dómkröfu sóknaraðila og gagnkröfu varnaraðila til sömu aðstöðu og er að því leyti fullnægt almennum skilyrðum síðastnefnds lagaákvæðis til að leita sjálfstæðs dóms um gagnkröfuna. Að því verður á hinn bóginn einnig að gæta að Félagsdómur er sérdómstóll og er valdsvið hans að því er mál þetta varðar afmarkað með 44. gr. laga nr. 80/1938. Verður í því ljósi að ganga út frá að heimildin í 53. gr. þeirra laga til að hafa uppi gagnkröfu til sjálfstæðs dóms sé jafnframt háð því skilyrði að mál um hana eina gæti átt undir Félagsdóm.

Eftir 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum um brot gegn þeim lögum og tjón vegna ólögmætra vinnustöðvana, en samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. sömu lagagreinar fellur einnig undir valdsvið Félagsdóms að dæma í málum um brot gegn kjarasamningi, skilning á slíkum samningi eða gildi hans. Gagnkrafa varnaraðila fellur að efni til undir hvorugt þessara ákvæða. Hún er heldur ekki þess efnis, sem um ræðir í 3. tölulið 1. mgr. eða 2. mgr. 44. gr. laganna. Samkvæmt þessu getur úrlausn um gagnkröfuna ekki átt undir Félagsdóm og verður af þeim sökum að vísa henni frá þeim dómi.

Ákvörðun um málskostnað fyrir Félagsdómi vegna þessa þáttar málsins verður að bíða efnisdóms, en rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Gagnkröfu varnaraðila, Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, í máli sóknaraðila, Primera Air Nordic SIA, á hendur honum er vísað frá Félagsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

 

 

Úrskurður Félagsdóms miðvikudaginn 27. september 2017

         Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnanda vegna gagnkröfu stefnda 21. september sl.

         Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Guðni Á. Haraldsson, Ásmundur Helgason, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.

         Stefnandi er Primera Air Nordic SIA, Gunara Astras iela 1c, Riga, Lettlandi.

         Stefndi er Alþýðusamband Íslands, Guðrúnartúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, Hlíðasmára 15, Kópavogi.

         Dómkröfur stefnanda

         Að ótímabundin vinnustöðvun sem Flugfreyjufélag Íslands boðaði með bréfi, dagsettu 9. maí 2017, vegna flugfreyja um borð í flugvélum Primera Air Nordic SIA sem fljúga farþegum frá og til Íslands og koma á til framkvæmda kl. 06:00 föstudaginn 15. september 2017, verði dæmd ólögmæt.

         Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi komi til aðalmeðferðar málsins. Gerð er krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur hér á landi.

         Að því er varðar gagnkröfu stefnda, krefst stefnandi þess aðallega að henni verði vísað frá dómi en til vara að stefnandi verði sýknaður af henni. Þess er einnig krafist, bæði í aðal- og varakröfu, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi. Stefnandi krefst þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að hann er ekki virðisaukakattskyldur aðili hér á landi.

         Dómkröfur stefnda

         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

         Stefndi gerir þá gagnkröfu til sjálfstæðs dóms að viðurkennt verði með dómi, að stefnda sé heimilt boða verkfall á hendur stefnanda til stuðnings kröfu um kjarasamning sem taki til starfa flugfreyja og flugþjóna með starfsstöð hér á landi og sem starfa um borð í flugvélum stefnanda sem fljúga farþegum frá og til Íslands.

         Að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, hver svo sem úrslit máls verða. Til vara er þess krafist að málskostnaður falli niður verði krafa stefnanda tekin til greina og sýknað af gagnkröfu stefnda. 

         Málið var flutt um kröfu stefnanda um að gagnkröfu stefnda verði vísað frá dómi og að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins. Stefndi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað í þessum þætti málsins. Einungis eru til úrlausnar í úrskurði þessum kröfur aðila sem lúta að ágreiningi þeirra um það, hvort vísa beri gagnkröfu stefnda frá Félagsdómi.

         Málavextir

         Stefnandi er flugfélag sem er skráð í Lettlandi og starfar á grundvelli þarlends flugrekstrarleyfis (e. Air Operators Certificate) og eru allar flugvélar stefnanda skráðar þar í landi. Stefnandi leigir flugvélar til ýmissa verkefna í ýmsum löndum, meðal annars til íslenskra ferðaskrifstofa. Í stefnu er því lýst að samningar þeirra um leiguflug séu gerðir við móðurfélag stefnanda, Primera Air ehf., kt. 630903-2890, Skógarhlíð 18 í Reykjavík sem geri í kjölfarið samninga um flugið við stefnanda sem flugrekanda. Flugvélar stefnanda munu vera leigðar hingað til lands með áhöfn. Í greinargerð stefnda kemur fram að viðskiptaaðilar stefnanda hér á landi séu að mestu leyti tengd félög í eigu sömu aðila og tilheyri íslenska móðurfélaginu Primera Travel Group hf.

         Í framlögðu bréfi Hrafns Þorgeirssonar, forstjóra stefnanda, til Flugfreyjufélags Íslands, dagsettu 22. maí 2017, er því lýst að enginn af þeim flugliðum, sem starfi hjá félaginu, sé starfsmaður þess. Allir flugliðar komi til starfa á grundvelli samninga sem stefnandi sé með við félagið Flight Crew Solutions Ltd. sem staðsett sé á Guernsey. Ekkert beint samningssamband sé milli flugliðanna og stefnanda, heldur séu þeir í samningssambandi við fyrrgreint félag á Guernsey en það félag sé síðan í samningssambandi við stefnanda. Því er lýst í stefnu að stefnandi sé með húsnæði í Keflavík fyrir flugáhafnir í flugvélum félagsins þann tíma sem leiguflug fyrir íslenska aðila varir.  

         Með bréfi sínu til Hrafns Þorgeirssonar, forstjóra stefnanda, dagsettu 2. júní 2016 óskaði Flugfreyjufélag Íslands eftir fundi með forsvarsmönnum stefnanda til að ræða gerð kjarasamnings fyrir flugliða Primera Air sem starfa um borð í vélum félagsins til og frá Íslandi. Í bréfinu er gerð grein fyrir því að stéttarfélagið krefjist þess að flugliðarnir njóti lágmarkskjara og réttinda samkvæmt kjarasamningum Flugfreyjufélags Íslands.

         Með bréfi til stefnanda, dagsettu 23. desember 2016, krafðist Alþýðusamband Íslands þess, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, að stefnandi gengi til formlegra samningaviðræðna um gerð kjarasamnings vegna starfa núverandi og væntanlegra flugliða um borð í flugvélum félagsins sem flygju áætlunar- og leiguflug frá og til Íslands. Þar kemur fram að hafi fundur ekki verið ákveðinn eða erindinu svarað fyrir 9. janúar 2017, verði málið sent ríkissáttasemjara, eins og krafist sé í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

         Í stefnu segir að stefnandi hafi ekki talið ástæðu til að svara bréfinu, enda hafi hann hvorki talið sig starfa á íslenskum vinnumarkaði né senda starfsmenn tímabundið til Íslands til að vinna.

         Með bréfi, dagsettu 23. janúar 2017, vísaði stefndi kjaradeilu sinni og stefnanda til ríkissáttasemjara og óskaði eftir því að hann hefði milligöngu um lausn hennar með vísan til ákvæða 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938. Ríkissáttasemjari svaraði erindi stefnda 13. febrúar sama ár á þann hátt að hann teldi svo mikinn vafa uppi um það, hvort honum væri rétt að koma að málinu í ljósi þess hvert umfang valdheimilda embættisins væri og möguleikar þess til að beita þeim valdheimildum að hann myndi ekki að svo stöddu og að óbreyttu láta málið til sín taka.

         Stefndi, Flugfreyjufélag Íslands, tilkynnti stefnanda um boðun ótímabundinnar vinnustöðvunar flugfreyja um borð í flugvélum stefnanda sem fljúga farþegum frá og til Íslands, sem hefjast átti kl. 06.00 föstudaginn 15. september 2017, með bréfi, dagsettu 9. maí sl. Jafnframt var upplýst að fundur sjórnar- og trúnaðarráðs Flugfreyjufélags Íslands hefði á fundi 6. apríl 2017 samþykkt að allsherjaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram meðal félagsmanna um framangreinda vinnustöðvun. Atkvæðisrétt ættu 1189 félagsmenn og 429 þeirra, 36,1%, hafi greitt atkvæði og allir samþykkt hana.

         Stefnandi mótmælti boðun vinnustöðvunarinnar með bréfi 22. maí 2017 með vísan til þess að boðunin væri ólögmæt og í raun marklaus og var þess krafist að hún yrði dregin til baka.

         Í svarbréfi stefnda, dagsettu 2. júní 2017, kom fram sú afstaða stefnda, að allt ferlið væri unnið innan ramma íslenskra laga og heyrði undir íslensk lög og vinnumarkaðsreglur. Því var ítrekuð áskorun á stefnanda um að ganga nú þegar til viðræðna við stefnda.   

         Hinn 15. júní 2017 boðaði ríkissáttasemjari aðila málsins á sinn fund 15. ágúst sama ár sem síðar var frestað til 29. sama mánaðar. Fundurinn var haldinn á boðuðum tíma, án þess að niðurstaða fengist í deilu aðila.

         Með bréfi, dagsettu 25. ágúst 2017, gerði stefnandi ríkissáttasemjara grein fyrir því af hverju stefnandi teldi málið ekki eiga undir valdsvið embættisins og að umrædd boðun vinnustöðvunar væri bæði ólögmæt og marklaus.

         Í málinu liggur frammi bréf Vinnumálastofnunar til Alþýðusambands Íslands, dagsett 23. ágúst 2017, sem ber með sér að vera svar stofnunarinnar við fyrirspurn frá sambandinu um gildissvið laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, að því er varðaði veitingu þjónustu í flugrekstri og flugþjónustu. Þar segir meðal annars: „Það er því mat Vinnumálastofnunar að flugrekstur og flugþjónusta geti fallið undir gildissvið laga nr. 45/2007 sé um að ræða tilvik sem fellur undir a-, b- eða c-lið 1. mgr. 1. gr. laganna og þeir starfsmenn sem sendir eru til landsins eru í ráðningarsambandi við þjónustufyrirtækið.“

         Í tölvuskeyti lögmanns stefnanda til starfsmanns Vinnumálastofnunar frá 1. september 2017 var óskað upplýsinga um það, hvort framangreint bréf stofnunarinnar til Alþýðusambands Íslands lyti að þeim málum, sem stofnunin hefi skoðað og tengdist stefnanda, og breytti fyrri afstöðu stofnunarinnar til hans. Í svari starfsmanns Vinnumálastofnunar til lögmanns stefnanda frá 5. september 2017 segir að niðurstaða stofnunarinnar í máli stefnanda um það efni, hvort þjónustuveiting félagsins geti fallið undir lög nr. 45/2007, sé enn óbreytt. Síðan segir að mál stefnanda sé til skoðunar hjá stofnuninni en að formlegt erindi vegna málsins hafi ekki verið sent á félagið.

         Með tölvuskeyti lögmanns stefnda til Vinnumálastofnunar 13. september 2017 var óskað upplýsinga um það, hvort fyrir lægi úrskurður eða önnur ákvörðun þess efnis að lög nr. 45/2007 ættu ekki við um starfsemi stefnanda á Íslandi, svo sem stefnandi hefði fullyrt í stefnu sinni fyrir Félagsdómi í þessu máli. Í svari Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag, kom fram að stofnunin hefði haft starfsemi stefnanda til skoðunar frá því í febrúar 2015 og að með bréfi til stefnanda 27. apríl sama ár hefði verið upplýst að það væri mat stofnunarinnar að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í málinu, að svo stöddu. Í því hafi hvorki falist úrskurður Vinnumálastofnunar né stjórnvaldsákvörðun um að starfsemi félagsins á Íslandi félli ekki undir gildissvið laga nr. 45/2007.

         Fyrir liggur að stefndi hefur einhliða frestað boðaðri vinnustöðvun til 2. október 2017 kl. 06.00.

         Málsástæður og lagarök stefnanda

         Í framlögðum athugasemdum sínum við gagnsök byggir stefnandi kröfu sína um að gagnkröfu stefnda verði vísað frá Félagsdómi á því að gagnkrafan falli ekki undir valdsvið Félagsdóms, auk þess sem hún sé ekki lögvarin. Gagnkrafan snúist ekki um kæru um brot á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, enda sé þar hvergi mælt fyrir um skyldu aðila til gerðar kjarasamnings, hvað þá aðila sem hvorki sé stéttarfélag, félag atvinnurekanda eða vinnuveitandi starfsmanna sem myndu falla undir kjarasamninginn. Til staðar séu að minnsta kosti þrír kjarasamningar, sem nái yfir störf félagsmanna í Flugfreyjufélagi Íslands, og því sé ljóst að fyrir liggi upplýsingar á markaði um lágmarkskjör.

         Þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt 15. gr. laga nr. 80/1938 þurfi gagnkrafan að uppfylla tiltekin skilyrði fyrir því að heimilt sé að boða verkfall, meðal annars um að tiltekinn fjöldi félagsmanna taki þá ákvörðun, að undangenginni löglega boðaðri atkvæðagreiðslu, í tillögu um vinnustöðvun þurfi að koma skýrt fram til hverra henni sé ætlað að taka og hvenær hún komi til framkvæmda. Yrði gagnkrafa stefnda tekin til greina, tæki Félagsdómur, með ólögmætum hætti, fram fyrir hendur löggjafans að því er varðaði þær form- og efniskröfur, sem séu skilyrði boðunar verkfalls, og gerði þær að engu.

         Stefnandi telur jafnframt að málatilbúnaður stefnda vegna gagnkröfu sé vanreifaður og uppfylli hvorki skilyrði 2. mgr. 25. gr. né 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Eingöngu sé í greinargerð stefnda vísað til ótvíræðs réttar samkvæmt stjórnarskrá, almennum lögum og alþjóðasamningum, án þess að vísað sé til tiltekinna lagagreina eða samninga því til stuðnings. Þegar ekki séu til staðar kjarasamningar, sem nái beint til málsaðila, skuli líta til lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningum sem ljóst sé að liggi fyrir að því er varðar flugliða. Stefnandi bendir á að gagnkrafan feli jafnframt í sér ranga fullyrðingu um að gagnstefndi hafi starfsstöð hér á landi sem verði ekki tekin óbreytt upp í dómsorði.  

         Stefnandi bendir á að það leiði af 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 að kröfugerð þurfi að vera nægilega skýr og afdráttarlaus svo hún verði tekin óbreytt upp í dómsorði, auk þess sem stefndi þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af því að koma fram með viðurkenningarkröfu. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna verði dómstólar hvorki krafðist álits um lögfræðileg efni né svari þeir lögspurningum, svo sem stefndi fari í raun fram á með gagnkröfu sinni. Heimild til að boða verkfall sé lögbundin, að uppfylltum lagaskilyrðum, og því feli gagnkrafa stefnda um viðurkenningu á heimild til að boða verkfall í sér lögspurningu. Þá verði verkfall eingöngu boðað þegar um vinnudeilu sé að ræða. Stefnandi eigi ekki í slíkri deilu við stefnda, enda séu flugliðar um borð í flugvélum stefnanda ekki í ráðningarsambandi við stefnanda og því séu engir lögvarðir hagsmunir að baki kröfu stefnda.

         Stefnandi byggir jafnframt á því að stéttarfélag teljist ekki hafa lögvarða hagsmuni af verkfallsboðun nema til að vinna að framgangi krafna félagsmanna sinna. Því hafi stefndi enga lögvarða hagsmuni af gagnkröfu sinni þar sem engir flugliðar um borð í flugvélum stefnanda séu félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands. Þá sé stefnandi ekki í ráðningarsambandi við flugliða um borð í flugvélum sínum og geti því ekki talist verkfallsþoli, auk þess sem hann hafi ekki umboð til að gera kjarasamning vegna flugliða. Stefndi hafi heldur ekki umboð til að gera slíkan kjarasamning við stefnanda því enginn þessara flugliða séu í Flugfreyjufélagi Íslands. Þetta leiði jafnframt til ómöguleika að því er varðar verkfallsaðgerðir, enda geti Flugfreyjufélag Íslands ekki boðað verkfall hjá aðila, sem hafi enga félagsmenn þess í vinnu, auk þess sem enginn félagsmaður geti tekið ákvörðun um boðaða vinnustöðvun í því tilviki. Gagnkrafa stefnda sé sett fram, án þess að flugliðar um borð í flugvélum stefnanda hafi verið spurðir álits á verkfallsaðgerðunum eða hafi haft eitthvað um þær að segja. Að auki liggi ekkert fyrir í málinu um kjör umræddra flugliða og þá hafi þeir ekki verið inntir álits á þeim.

         Loks færir stefnandi fyrir frávísunarkröfu sinni þau rök að með gagnkröfu stefnda sé reynt að gera tilraun til þess að skerða samkeppni í flugi á Íslandi. Fyrir liggi að þeir, sem hafi greitt atkvæði um boðað vinnustöðvun, séu félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands sem starfi hjá samkeppnisaðilum stefnanda. Yrði fallist á gagnkröfu stefnda gæti stefnandi, sem sé samkeppnisaðili þeirra flugrekenda sem félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands starfi hjá, ekki komist hjá verkfalli þar sem hann sé ekki í ráðningarsambandi við flugliða um borð í flugvélum hans og sé ekki launagreiðandi þeirra. Kjarasamningur við stefnda yrði því markleysa þar sem enginn af flugliðum um borð í vélum stefnanda myndi starfa samkvæmt honum. Kröfur stefnda feli því í sér tilraun til þess að þvinga félag, sem starfar undir lögum annars ríkis, til þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi sínu þótt það sé í fullu samræmi við lög í heimaríki, til þess að ráða flugliða til starfa, án þess að vitað sé hvort flugliðar um borð í flugvélum stefnanda hafi nokkurn áhuga á ráðningarsambandi við stefnanda. Slíkt sé ótækt og því beri að hafna.

         Til stuðnings varakröfu sinni um sýknu af gagnkröfu stefnda vísar stefnandi í athugasemdum sínum til alls framangreinds og jafnframt til þeirra málsástæðna sem hann færir fram fyrir kröfugerð sinni í stefnu.

                                                                  Málsástæður og lagarök stefnda

                                                                  Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um að gagnkröfu stefnda verði vísað frá dómi. Hann bendir á að stefnandi færi fram sömu rök og málsástæður fyrir frávísunarkröfu sinni og efniskröfu í málinu. Þau lúti öll að aðild sem sé efnisþáttur málsins en varði ekki ágreining um form.

                                                                  Stefndi byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið, hvort hann fari með þær heimildir sem lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, mæla fyrir um. Hér verði að líta til þess að lögin fjalli ekki eingöngu um endurnýjun eldri kjarasamninga, enda hafi oft reynt á það álitaefni áður hvort fyrirtækjum sé skylt að lögum að ganga til kjarasamninga við stéttarfélög.

                                                                  Ljóst sé að meginágreiningur aðila í þessu máli komi ekki fram í kröfugerð stefnanda í stefnu en mikilvægt sé að fengin verði niðurstaða Félagsdóms um hann. Þá sé ljóst að gagnkrafa stefnda og stefnukröfur stefnanda séu af sömu rót runnar. Einnig vísar stefndi til þess að úrlausn um gagnkröfu hans heyri undir valdsvið Félagsdóms samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/1938, sbr. einkum meginreglu laganna í 14. gr. þar sem tekið sé fram að heimilt sé að gera verkföll og verkbönn til verndar rétti viðkomandi samkvæmt lögunum.

                                                                  Stefndi hafnar því að gagnkrafa hans sé vanreifuð, enda sé í greinargerð gerð nákvæm grein fyrir því hvers krafist sé og jafnframt vísað til þeirra lagaákvæða sem hún byggist á.

      Stefndi setur gagnkröfu sína fram með vísan til 53.gr. laga nr. 80/1938 og byggir á því að stefndi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá sjálfstæðan viðurkenningardóm um rétt sinn til þess að fylgja eftir kröfu um kjarasamning með boðun verkfalls. Það eigi við jafnvel þótt Félagsdómur telji einhverja þá annmarka hafa verið á verkfallsboðun hans og formskilyrðum fyrir boðun verkfalls sem fjallað sé um málatilbúnaði stefnanda.

Stefndi byggir á því að um starfsemi og starfsmenn stefnanda með starfsstöð hér landi gildi íslensk lög og réttarreglur og stefndi eigi að lögum rétt til þess að krefjast kjarasamnings um þau störf flugliða sem undir íslensk lög og réttarreglur falli í þeim tilgangi að tryggja þeim lágmarkskjör, til þess að verjast félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði og til að verja hagsmuni félagsmanna sinna, núverandi og væntanlegra og hagsmuni íslenskrar verkalýðshreyfingar og íslensks vinnumarkaðar. Hvorki íslensk lög né fjölþjóðlegir og alþjóðlegir samningar, sem Ísland sé bundið af, takmarki þennan rétt stefnda.

Stefndi vísar til þess að hann sé stéttarfélag flugfreyja- og þjóna hér á landi í skilningi laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og sé félagssvæði þess landið allt. Tilgangur stéttarfélagsins sé meðal annars að  sameina allar starfandi flugliða, sem starfa á félagssvæðinu, vernda réttindi og hagsmuni félagsmanna og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra. Réttur stefnda til þess að krefjast kjarasamnings sé varinn af 1.mgr. 74.gr. og 2.mgr. 75.gr. stjórnarskrár Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 11.gr. laga nr. 62/1994, um Mannréttindasáttmála Evrópu, sem jafnframt verndi rétt stéttarfélaga til þess að boða verkföll til þess að fylgja eftir kröfum sínum, 22.gr. laga nr. 10/1979, um alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi,  8.gr. laga nr. 10/1979 um alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar  nr. 87, um félagafrelsi og verndun þess, og nr. 98, um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega. Þar sem stefnandi veiti flugliðum sínum ekki þau kjör sem þeir eigi að njóta og greiði þeim umtalsvert lægri laun en lágmarkskjör í starfsgreininni hér á landi og lágmarksákvæði gildandi kjarasamninga við önnur flugfélög með starfsstöð starfsmanna sinna hér á landi kveði á um, eigi stefndi ekki aðra kosti en að krefjast þess að stefnandi geri kjarasamning við stefnda um þau störf flugliða sem krafa hans lýtur að. Þannig nýti félagið lögvarinn rétt sinn til þess að tryggja hagsmuni félagsmanna sinna, bæði núverandi og væntanlegra, rétt sinn til þess að verjast félagslegum undirboðum og til að verja þær undirstöður íslensks vinnumarkaðar og vinnuréttar sem byggjast á því að lágmarkslaun og starfskjör ráðist af kjarasamningum, eins og skýrt komi meðal annars fram í 1. gr. og 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980 og sem lög nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, byggi einnig á.

         Stefndi byggir á því að flugrekstur og flugþjónusta erlendra fyrirtækja falli undir gildissvið laga nr. 45/2007. Umsvif stefnanda í íslensku efnahagslífi séu mikil en félagið stundi flug með stórum flugvélaflota, auk þess sem þjónusta sé veitt íslenskum fyrirtækjum hér á landi. Það eitt, óháð því hvort starfsemin að formi til falli undir gildissvið laga nr. 45/2007, dugi til þess að starfsemi stefnanda falli undir íslensk lög. Stefndi telur gögn málsins og reglur Evrópuréttar staðfesta að hin raunverulega starfsstöð eða heimahöfn umræddra flugliða sé í vinnuréttarlegum skilningi á Íslandi. Flugliðarnir séu að fullu þátttakendur á íslenskum vinnumarkaði.

         Óháð því hvort lög nr. 45/2007 gildi um starfsemi stefnanda eða ekki, byggir stefndi á því að tengsl áhafna þeirra flugvéla stefnanda, sem hafi bækistöð hér á landi og starfi frá Íslandi, séu það sterk og mikil við íslenskan vinnumarkað og efnahagslíf að stefndi sé í fullum rétti að krefjast þess að stefnandi ljúki kjarasamningi um lágmarkskjör flugliða sem hafi starfsstöð á Íslandi um lengri og skemmri tíma og inni af hendi störf um borð í flugvélum hans. Krafa stefnda um að stefnandi gangi til viðræðna um gerð kjarasamnings og réttur stefnda til þess að fylgja slíkri kröfu eftir með boðun verkfalls, leggi ekki þær hindranir í veg stefnanda að fyrirtækið teljist ekki geta nýtt sér frelsisákvæði EES-samningsins samkvæmt lögum nr. 2/1993.

         Niðurstaða

         Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um að ótímabundin vinnustöðvun flugfreyja um borð í flugvélum stefnanda, sem fljúga til og frá Íslandi, verði dæmd ólögmæt. Til stuðnings þessari kröfu teflir stefnandi fram ýmsum málsástæðum, þar á meðal því að stefnandi sé erlent félag, sem ekki sé með starfsemi á Íslandi. Því sé stefnda ekki unnt að beita þvingunaraðgerðum samkvæmt íslenskum lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, í því skyni að fá stefnanda til að gera kjarasamning við stefnda. Þá dregur stefnandi í efa að stefndi hafi samningsumboð til þess að semja fyrir hönd flugfreyja um borð í flugvélum stefnanda, en engin gögn liggi fyrir um að nokkur félagsmanna stefnda starfi þar. Verði talið að lög nr. 80/1938 eigi við er einnig á því byggt að boðun vinnustöðvunarinnar stangist á við efni 14. gr. laganna, eins og nánar er rakið í stefnu. Að lokum er á því byggt að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvunina hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. og 2. mgr. 15. gr. laganna, auk þess sem formskilyrði 2. málsliðar 3. mgr. 15. gr. laganna hafi ekki verið fyrir hendi.

         Stefndi krefst sýknu, en hefur að auki, með heimild í 53. gr. laga nr. 80/1938, gert gagnkröfu án þess að höfða gagnsök, eins og rakið hefur verið. Stefnandi hefur krafist þess að gagnkröfunni verði vísað frá dómi og er það ágreiningsefni hér til úrlausnar.

         Með gagnkröfunni leitar stefndi eftir viðurkenningu dómsins á því að honum sé heimilt að boða til verkfalls til stuðnings kröfu sinni um að gerður verði kjarasamningur er taki til starfa flugfreyja og -þjóna með starfsstöð hér á landi og sem starfi um borð í flugvélum stefnanda sem fljúgi til og frá Íslandi. Stefndi rökstyður nauðsyn þess að fá sérstakan dóm um þessa kröfu með skírskotun til þess að verði fallist á kröfu stefnanda á þeim grundvelli að fyrirliggjandi verkfallsboðun fullnægi ekki formskilyrðum laga nr. 80/1938 leysi það ekki úr þeim ágreiningi sem uppi er um efnislegan rétt stefnda til þess að gera verkfall í því augnamiði sem gagnkrafan tilgreinir og sem taki til umræddra starfa.

         Gagnkrafan er í eðli sínu varakrafa af hálfu stefnda sem tryggir, í ljósi þess sem að framan er rakið, að dómurinn taki afstöðu til þess ágreinings sem uppi er í málinu um heimild hans samkvæmt íslenskum lögum til þess að gera verkfall, sem beint er að stefnanda í framangreindum tilgangi. Krafan er sett fram af hálfu stefnda með stoð í 53. gr. laga nr. 80/1938 í máli sem stefnandi hefur höfðað með rökum er lúta meðal annars að því að lög nr. 80/1938 veiti stefnda enga heimild til þess að beita vinnustöðvun gagnvart stefnanda. Að þessu leyti er málið sprottið af ágreiningi um ætlað brot á lögum nr. 80/1938 í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 44. gr. laganna. Það fellur undir verkahring Félagsdóms að skera úr framangreindum ágreiningi hvort sem það er gert með því að taka afstöðu til málsástæðu stefnanda fyrir kröfugerð sinni eða gagnkröfu stefnda.

         Eins og rakið hefur verið leitar stefndi með gagnkröfu sinni úrlausnar dómsins um fyrirliggjandi ágreining um heimild hans til þess að gera verkfall á hendur stefnanda í því skyni að gerður verði kjarasamningur um störf flugfreyja og -þjóna um borð í flugvélum hans sem er flogið til og frá Íslandi. Af lestri greinargerðar stefnda er ljóst að með þessari kröfugerð leitar hann ekki dóms um annað en almennan rétt sinn til þess að fylgja eftir kröfugerð sinni í þessu efni án þess að skorið sé úr um hvort fyrirhuguð boðun verkfalls fullnægi skilyrðum 15. gr. laga nr. 80/1938. Að þessu gættu verður ekki á það fallist að gagnkrafa stefnda sé ódómtæk sökum þess að með henni sé Félagdómur að taka fram fyrir hendur löggjafans.

         Að mati Félagsdóms er gerð nægjanleg grein fyrir því í greinargerð stefnda með hvaða rökum hann telur að fallast eigi á gagnkröfu sína. Þar eru m.a. færð lagarök fyrir því hvers vegna stefndi telur að hann hafi lögvarinn rétt til þess að „krefjast kjarasamnings“ af stefnanda við þær aðstæður sem fyrir hendi séu. Ekki er því efni til þess að taka undir með stefnanda að málatilbúnaður stefnda í því efni sé vanreifaður þannig að stefnandi eigi torvelt með að gera sér grein fyrir röksemdum stefnda að þessu leyti og bregðast við með þeim hætti sem hann telur ástæðu til.

         Stefnandi reisir frávísunarkröfu sína enn fremur á því að stefnda skorti lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm um heimild sína til þess að boða til verkfalls. Stefnandi skírskotar í þessu efni einnig til 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem kveðið er á um að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Samkvæmt 69. gr. laga nr. 80/1938 skal hafa hliðsjón af fyrirmælum laga nr. 91/1991 um þessi atriði.

         Af þessu tilefni verður að árétta að í málinu er ágreiningur um heimild stefnda til þess að boða til vinnustöðvunar hjá stefnanda í því skyni að ná fram kjarasamningi um störf um borð í flugvélum stefnanda. Gagnkrafan miðar að því að fá viðurkenningu á tilteknum réttindum stefnda í því efni. Dómurinn fær því ekki séð að með gagnkröfunni, eins og hún er orðuð, sé einungis leitað staðfestingar á réttindum sem leiða má af lögum og enginn ágreiningur er um.

         Gagnkrafan er viðurkenningarkrafa sem er gerð með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, sem áður er getið. Í ákvæðinu kemur fram að hafi sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Með reglunni er því veitt heimild til þess að leita dóms um að tiltekin réttindi séu til staðar, að því tilskildu að viðkomandi eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfunnar, þó að síðar kunni að reyna á önnur atriði í réttarsambandi aðila sem ágreiningur standi um. Það er einkenni viðurkenningardóma að þeir kveða hvorki á um skyldu aðila né breyta réttarstöðu þeirra.

         Stefndi er stéttarfélag flugfreyja og -þjóna, og er sem slíkur lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Stefnda er veitt heimild samkvæmt 14. gr. sömu laga til þess að gera verkfall í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum nr. 80/1938.

         Eins og rakið hefur verið hefur stefndi farið fram á að gerður verði kjarasamningur um störf flugfreyja og -þjóna sem starfa um borð í flugvélum stefnanda sem fljúga til og frá Íslandi. Stefnandi hefur ekki léð máls á því og hefur í því efni dregið í efa að starfsemi stefnanda og störf flugliða í flugvélum hans heyri undir íslenska lögsögu. Til að fylgja eftir kröfu sinni um kjarasamning boðaði stefndi til vinnustöðvunar flugfreyja og -þjóna í flugvélum stefnanda, eins og vikið hefur verið að. Stefnandi telur boðun þeirrar vinnustöðvunar ólögmæta og hefur höfðað mál því til staðfestingar. Gagnkrafa stefnda miðar að því að fá viðurkenningardóm um heimild stefnda til slíkrar vinnustöðvunar.

         Gagnkrafan lýtur samkvæmt framansögðu að úrlausn fyrirliggjandi réttarágreinings aðila um tiltekin réttindi stefnda sem stéttarfélags við þær aðstæður sem uppi eru. Á það verður að fallast að dómsniðurstaða um þá kröfu hafi raunhæft gildi fyrir aðila málsins. Stefndi hefur kosið að svara afstöðu stefnanda til kröfu stefnda um gerð kjarasamnings með verkfallsboðun sem aðilar deila um hvort að sé lögmæt. Mögulegur ágreiningur, sem rísa kann um umfang og áhrif vinnustöðvunar sem stefndi boðar hjá stefnanda, og um heimildir stefnda til að fylgja henni eftir með verkfallsvörslu, hefur ekki þýðingu við mat á því hvort hagsmunir stefnda af úrlausn viðurkenningarkröfunnar séu lögvarðir. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið verður ekki á það fallist að stefnda skorti lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um gagnkröfuna. Með sömu röksemdum er því hafnað að úrlausn hennar feli í sér lögspurningu í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

         Dómurinn tekur fram að efnislegur ágreiningur ríkir um ýmis atriði, sem stefnandi teflir fram, og telur vera til marks um að stefnda skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn kröfu sinnar. Koma þau til álita við efnisúrlausn málsins en valda ekki frávísun á gagnkröfu stefnda. Á það meðal annars við um málsástæður stefnanda um að hvorugur aðila hafi umboð til að gera kjarasamning sín á milli um téð störf og að aðilar geti í raun ekki átt í vinnudeilu, sbr. 14. gr. laga nr. 80/1938. Sama gildir um þá málsástæðu stefnanda að stefndi byggi á rangri forsendu um að stefnandi hafi starfsstöð hér á landi og að flugliðar um borð í flugvélum stefnanda hafi ekki verið spurðir álits um aðgerðir stefnda. Þá hafa sjónarmið stefnanda um röskun á samkeppnisstöðu flugfélaga hér á landi enga þýðingu við mat á því hvort gagnkrafa stefnda fullnægi skilyrðum réttarfarslaga til að koma til efnislegrar umfjöllunar dómsins.

         Samkvæmt framansögðu ber að hafna þeirri kröfu stefnanda að vísa skuli gagnkröfu stefnda frá dómi. Ákvörðun málskostnaðar í tilefni af þessum þætti málsins bíður lokaniðurstöðu málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Hafnað er kröfu stefnanda, Primera Air Nordic SIA, þess efnis að vísa gagnkröfu stefnda, Alþýðusambands Íslands fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, frá dómi.

         Ákvörðun um málskostnað bíður lokaniðurstöðu málsins.